30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

197. mál, vörugjald

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þessa athugasemd um þingsköp stutta.

Ég vil í fyrsta lagi taka fram að ég hefði getað greitt atkvæði með afbrigðum áðan ef borin hefðu verið upp sérstaklega afbrigði fyrir 1. og 2. dagskrármálinu, þ.e. 1. málinu sér, því að við það hef ég og hafði ekkert að athuga, en það var dálítið erfitt fyrir mig að samþykkja að taka tollalög á dagskrá með afbrigðum þar sem ég var með væntanlegt nál. minni hl. í höndunum, enn þá að skrifa það, hafandi ekki vitað fyrr en á nefndarfundi sem hófst rúmlega níu að málið væri afgreitt eða ætti að afgreiða það og hafandi setið á þeim fundi til kl. 11 og mætti þá á fundi hér í hv. Nd. Vinnutími minn til að ganga frá þessu nál. var því stuttur.

Það er allt rétt sem hv. nefndarformaður segir um að við fengum ágætismenn til viðræðu í nefndinni, suma kvadda þangað að ósk stjórnarandstöðu og aðra að ósk stjórnarsinna. Þeir mættu að vísu sumir án þess að vita hvað ætti að tala um, en hvað um það. En tíminn sem nefndin hafði til að skoða málið sjálf að fjarstöddum gestum eða utanaðkomandi aðilum, ætli hann hafi ekki verið svona tvær mínútur. Ætli það hafi ekki verið svona tvær mínútur sem hv. fjh.- og viðskn. átti að hafa til að ræða frv. um söluskatt eftir að gestir voru farnir af fundi nefndarinnar. Á þeim tveimur mínútum gerðist það að formaður nefndarinnar hafði orðið og lagði til að það yrði tekið út úr nefndinni. Þannig var þetta, herra forseti. Á þessu vil ég vekja athygli. Ef mönnum þykja það sómasamleg vinnubrögð, þá það. En mér þykja það ekki. Ég vil að það komi fram hér undir athugasemdum um þingsköp vegna þess að þingsköp eru þetta og snertir starfsemi þingsins, vinnubrögð hér. Ég tel t.d. að það hefði verið strax mun skárri svipur á því fyrir hv. nefndarformann, hv. 1. þm. Norðurl. v., ef hann hefði boðað þó ekki væri nema stuttan fund í nefndinni aftur í hádeginu eða um miðjan dag í dag til að afgreiða þá málið þar.

Varðandi það að það sé ágreiningur um málið og þess vegna séu þessi vinnubrögð eðlileg, þá er það fjarstæða að heyra nefndarformann hér á Alþingi tala með þessum hætti um hlutina. Hvað er hv. nefndarformaður að segja? Er hann að segja að í hverju einasta máli sem ágreiningur sé um, ef minni hl. eða einhverjir þm. eða nefndarmenn eru ósáttir við niðurstöðu málsins, eigi þeir að segja sig frá vinnu í nefndinni? Er verið að segja að nefndir eigi einungis að starfa saman að þeim þingmálum sem fullt samkomulag er um? Um hvað eiga þær þá að ræða? Til hvers er þá nefndarstarf?

Ég held að hv. 1. þm. Norðurl. v. eigi að hugsa sinn gang aðeins. Getur það verið að svona þingreyndur maður, fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs og mektarmaður á þingræðissviði Norðurlanda, gott ef ekki í heiminum, hafi ekki dýpri skilning á vinnubrögðum og hlutverki þingsins og þingnefnda en þetta, að hann haldi að þá sé leyfilegt að beita svona vinnubrögðum ef einhver ágreiningur sé um málin?

Ég hef ævinlega, herra forseti, unnið í þingnefndum af einurð og heilindum og lagt mitt til málanna burt séð frá því hvort líklegt var eða ekki líklegt að nefndin yrði endanlega sammála um málið þegar það væri afgreitt. Ég hef að sjálfsögðu látið mínar skoðanir koma fram, komið með mínar ábendingar, stungið upp á breytingum þó að fyrir lægi að um einhver önnur atriði málsins væri ágreiningur og yrði ágreiningur. Ég tel að menn eigi ekki að segja sig frá störfum í þingnefndum, minni hl. t.d., þó að litlar líkur séu á því að endanlega náist algjör samstaða um málið. Til hvers er þá verið að hafa nefndir? Ég spyr.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að þessum ummælum hv. nefndarformanns sé mótmælt. Ég geri hér við það formlegar athugasemdir að formaður í þingnefnd fjalli um málið með þessum hætti. Það bætir síst úr skák að mínu mati með þau vinnubrögð sem þarna voru ástunduð þó að það hafi legið fyrir að ágreiningur væri um málið. Þá breytir það engu um.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra undir umræðum um þingsköp, en að sjálfsögðu gæti farið svo að maður neyddist til þess í umræðum um þau dagskrármál sem hér koma að taka þetta upp einnig.