30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3447 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

196. mál, söluskattur

Forseti (Jón Kristjánsson):

Þessi aðvörunarorð eru óþörf vegna þess að þess hefur hingað til ávallt verið gætt, ef hv. ræðumenn hafa beðið um ráðherra eða formenn nefnda til umræðunnar, að hafa við þá samband og kveðja þá hingað ef þeir hafa ekki verið viðstaddir sem hefur ekki verið mikið um á þessum löngu dögum. Þeir hafa yfirleitt verið nærstaddir nema þá af einhverjum eðlilegum ástæðum. Ég vil geta þess í sambandi við þetta þinghald allt saman að þegar fundir standa dögum saman geta legið til þess fullkomlega skiljanlegar ástæður a.m.k., þó að menn hafi einhver önnur sjónarmið uppi, að menn þurfi að ganga aðeins frá þó að fundur standi yfir. Ég vil biðja hv. þm. að skilja það. En hins vegar hef ég ætíð gert ráðstafanir til að láta menn vita og menn hafa ávallt brugðist við því vel að koma hingað til umræðunnar.