30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

197. mál, vörugjald

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið til umræðu frv. um vörugjald. Ég tók þátt í þessari umræðu fyrr í dag, nálægt um fjögurleytið eða svo, áður en að tekin var upp umræða um söluskatt og ég lagði fram ákveðnar fsp. til þriggja nafngreindra hv. þm., þar af tveggja hæstv. ráðherra. Nú virðist sem enginn sé á mælendaskrá í máli þessu, en enginn af þessum aðilum hefur séð ástæðu til að svara mínum fsp. Ég beini því til virðulegs forseta hvort hann telur þetta eðlilegt þó ég viti að virðulegur forseti getur ekki neytt menn til að koma upp í ræðustól. En ég leyfi mér að benda á þetta. Mér finnst það vera harla kynlegt í máli sem þessu, þegar beint er efnislegum spurningum til þeirra ráðherra sem málið snertir og framsögumanns viðkomandi þingnefndar, að þeir skuli ætla að þruma það af sér að svara hér efnislegum fsp. þm. Ég tel að þetta sé óviðunandi verklag og vinnubrögð og hlýt að gagnrýna það mjög. Ég ætla ekki að biðja um orðið frekar í þessari umræðu fyrr en ég hef heyrt viðbrögð við fsp. mínum frá viðkomandi aðilum og sé enga ástæðu til þess í rauninni að ég fari að taka tíma í þingdeildinni, sem hefur mikið að gera, til slíkra ræðuhalda nema tilefni gefist til eftir að viðkomandi hv. aðilar hafa svarað. Ég ætla ekki að fara að rifja upp efnislega um hvað spurt var. Ég treysti því að menn hafi það í minni, bæði hv. 1. þm. Norðurl. v., hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. sem er með sérfund í hliðarherbergi að ég hygg en ætti frekar að vera í þingsal til þess að hlýða á mál manna. Fari svo hins vegar að viðkomandi þm. og hæstv. ráðherrar sjái ekki ástæðu til að taka hér efnislegan þátt í þessari umræðu hlýt ég að taka til máls sérstaklega um þetta mál og fleiri sem snerta þessi tekjuöflunarmál. Ég vil að það liggi hér fyrir og vona að þetta hafi náð eyrum viðkomandi hv. þm. Það var m.a. 11. gr. og það sem í henni stendur, þær heimildir sem þar eru á blaði svo ég nefni eitt efnisatriðið sem spurt var um.