04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3512 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

Fundahald í neðri deild

Forseti (Jón Kristjánsson):

Varðandi orð hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég taka fram að það mun hafa verið misskilningur okkar á milli ef hann hefur álitið að ég gæti ákveðið hvenær þinghald byrjaði án þess að ræða um það við aðra forseta þingsins. Ég vissi reyndar ekki þegar við héldum þennan umrædda fund að það yrði fundur í Sþ. á undan þessum fundi og ræddi að sjálfsögðu við forseta Sþ. um þennan tíma, en það hlaut ekki hljómgrunn að breyta fundartímanum. Ég hef ekki rætt þessi mál við ríkisstjórnina sérstaklega, enda var það útilokað og fékk ekki hljómgrunn heldur að byrja fund á þriðjudegi vegna þeirra mála sem hér liggja fyrir. Ég vonast til þess að ekki komi að sök þessi breytti tími, enda var um það spurt sérstaklega á þessum fundi af mér hvort þessi tímasetning væri gerð að skilyrði fyrir þeim samningum sem gerðir voru fyrir áramótin og svo var ekki talið vera. Það var skýrt tekið fram að þetta væri ekki skilyrði, en mér var falið að leita eftir þessu og athuga möguleikana á þessu. En ég gaf ekki neitt loforð í þessu efni og spurði sérstaklega eftir því hvort þetta mundi verða gert að skilyrði fyrir þeim samningum sem gerðir voru þá. Þetta eru þær skýringar sem ég hef á þessu.

Hér á skerminum sé ég að það eru mættir 37 þm. í deildinni af 43 þannig að hv. þm. hafa mætt mjög vel til þessa fundar.