07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

Afgreiðsla þingmannafrumvarpa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tek fram að það var engin ástæða fyrir hv. 3. þm. Reykv. að bregðast við þessari gagnrýni minni á þennan hátt. Ég gat þess sérstaklega í máli mínu áðan að tvö þingmál hefðu náð fram að ganga, annað var það mál sem hún ræddi um áðan og hitt var frv. Kvennalistans um framlengingu á banni við ofbeldiskvikmyndum ef ég man rétt. Ég var ekki að tala eingöngu mínu eigin máli heldur allra þeirra þm. sem hafa lagt fram mál í báðum deildum og hafa ekki fengið minnstu umfjöllun um þau mál. Ég vil að sjálfsögðu þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á því máli sem hún minntist á. En það er aðeins lítið brot af þeim málum sem fyrir liggja, sem eins og ég minntist á áðan eru 30 frv. og 49 þáltill. Það er ómótmælanlegt að fæst af þessum málum hafa hlotið umfjöllun.

Eftir því sem mér hefur skilist er t.d. hv. Ed. nú verklaus og engir fundir þar. Maður gæti þá kannski ætlast til þess að tími þeirrar hv. deildar færi til nefndarstarfa á meðan ekki eru þingfundir. En eitthvað virðist vera bogið við verkstjórn í heild því að sá tími virðist að engu nýttur. Það er óneitanlegt að hér er ekkert gert nema ræða um mál ríkisstjórnarinnar sem hingað til hefur ekki einu sinni getað verið einhuga um sín mál og tími okkar fer allur í það. Það var það sem ég var að gagnrýna en síður en svo störf hv. 3. þm. Reykv. sem formanns heilbr.- og trn. því það væri mjög ósanngjarnt og það vil ég taka fram.