14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

217. mál, innflutningur á fatnaði með fölsuðum upprunaskírteinum

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherrunum ágæt svör. En ef slíkar kannanir eru stundaðar hjá tollstjóraeftirlitinu með tilkomu tölva verð ég samt að segja að tölvur eru ekki lausnin á öllum sköpuðum hlutum og hlýt að inna eftir því með hvaða hætti þetta eftirlit fari fram. Hvernig finna menn í rauninni út hvort um fölsuð upprunaskírteini er að ræða eða ekki?

Við 3. liðnum fæ ég jákvætt svar, þ.e. liðnum: Hafi slík könnun ekki farið fram, hyggjast ráðherrarnir þá beita sér fyrir að svo verði? Á hvern hátt hyggjast þeir gera það? Er það með tölvugöldrunum eða á að fara út á víðtækara svið? Á t.d. að kanna þetta erlendis frá við framleiðendurna, við verslanirnar sjálfar? Hversu víðtæk verður könnunin og hvernig á að standa að henni?