04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nokkuð athyglisvert að sumir þm. úr stjórnarflokkunum virðast ekki treysta orðum iðnrh. eins og sá sem hér stendur. Ég verð að segja það í sambandi við síðustu ræðu að ég varð fyrir vonbrigðum með það að draga mætti þá ályktun af hans orðum að það væri engan veginn tryggt að þessi lína verði búin á árinu 1992, ef ég hef skilið mál hans rétt. (Gripið fram í.) Nei, en nú er það viðurkennt af framkvæmdastjóra RARIKs að dreifikerfið á Norðausturlandinu sé það langveikasta. Það langveikasta. Ég hef oft rætt við hann um þetta mál nú í vetur. Hann hefur skilning á því og fullan vilja á að bregðast við þessu nú þegar og ég vil ekki draga hans orð í efa.

Þegar bilunin varð þarna fyrst þá hrundi ein af þremur vararafstöðvum, er ónýt. Önnur bilaði. Að sögn Ingólfs Árnasonar eru þessar vararafstöðvar á Þórshöfn bara drasl, svo ég noti hans orð. Þannig að þessar tíðu bilanir hljóta að leiða til þess að þm. Norðurl. e. geri kröfu til þess að það verði brugðið við og bætt úr því að til staðar séu vararafstöðvar. Það var að vísu flutt stöð sem var til á Dalvík þangað austur nú í sl. mánuði, en hún leysir ekki þann vanda, hún nægir alls ekki ef bilanir verða.

Ég sé að í grg. er m.a. sagt að hugmyndin um virkjun Sandár hafi lengi verið til umræðu, eða allt frá árinu 1949.

Í skýrslu Sigtryggs á Svalbarði um þetta málefni, sem ég veit að iðnrh. hefur fengið fyrir nokkru, segir:

„Á árinu 1946 voru Norður-Þingeyingar að velta því fyrir sér í alvöru hvernig raforku skuli aflað fyrir héraðið í heild. Á sýslunefndarfundi, sem haldinn var 10. júlí það ár, er gerð eftirfarandi samþykkt:

„Aðalfundur sýslunefndar Norður-Þingeyjarsýslu beinir þeirri ósk til Rafmagnsveitna ríkisins að látin verði fara fram rækileg athugun á fallvötnum í Þistilfirði á þessu sumri með það fyrir augum að komið verði upp rafvirkjun fyrir Þórshafnar- og Raufarhafnarkauptún og nálægar sveitir.“"

Það kemur fram í skýrslunni að þetta er endurtekið á sýslufundi 1947, 1948, 1950 og þannig mætti telja áfram, þannig að það er ekki því að kenna að sýslunefnd eða forráðamenn Norður-Þingeyjarsýslu hafi verið sofandi yfir þessu máli. Og eins og kom fram hjá hæstv. iðnrh. var gerð áætlun um þetta um 1950 þar sem talað var um að virkja Sandá. Þessi virkjun átti að kosta 3 millj. og átti að vera 2900 hestafla orkuver eins og segir í tillögunni. Þannig hefur þetta gengið alla tíð.

Þegar hv. þm. Albert Guðmundsson var iðnrh., þá komu þeir Norður-Þingeyingar og töluðu við hann um þetta mál. Hann tók máli þeirra vel, en það var stutt sem hann sat í því embætti eftir þessa för þannig að ekki var þetta mál af hans hendi leyst, því miður. En hann hafði á því fullan skilning og vilja. Ég vil að þetta komi fram hér við þessa umræðu.

Í sambandi við það sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan vil ég spyrja hann að því hvort það hafi ekki verið rétt tekið eftir af mér að það yrði þá þegar í byrjun janúar farið að athuga þessa skýrslu því að mér skildist hann draga það í efa að þessi skýrsla yrði tilbúin eða ákvörðunartaka fyrr en seint á þessu ári. En það mundi þýða að ef að Sandárvirkjun yrði sá kostur sem yrði tekinn þá mundi glatast þetta sumar til þess að rannsaka það mál til fullnustu. Ef þetta er réttur skilningur hjá mér, þá harma ég þetta. Og vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að þó það væri ekki ákveðin fjárveiting til þessara athugana á lánsfjáráætlun þá treysti ég því að hann mundi finna einhverjar leiðir til þess að leysa það mál, ef niðurstaðan yrði sú að Sandárvirkjun yrði fyrir valinu, til þess að leysa þessi vandræði.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það fyrir mér hvort ég hef misskilið hans mál því það er hörmulegt ef viðbrögðin verða þau að þessari skýrslu verður ekki flýtt þannig að hægt verði að nota sumarið en það hefur sýnt sig að línan er búin að bila í sex eða sjö skipti síðan um áramót.

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. síðasta ræðumanns, þá kannast ég vel við þær viðræður sem hann vitnar til. Það er ljóst að það eru ekki fjármunir á fjárlögum til þess að halda áfram þeirri athugun sem hafin er. Ég taldi mig hafa sagt við þá sem við mig töluðu að við mundum reyna að leita lausna á því að greiða þann hluta af kostnaði sem þegar hefur verð útlagður af sýslunefnd. (Gripið fram í.) Já, það var í haust. Það er rétt. Viðræðurnar fóru fram í haust og síðan töluðum við saman líka eftir áramótin. En ég kannast ekki við, og verð þá leiðréttur, að hafa sagt meira en það að reynt verði að finna lausn á því hvernig hægt sé að koma til móts við heimamenn sem hafa lagt út í talsverðan kostnað — reyndar án þess að hafa samráð við stjórnvöld. Mín hugmynd var sú að hugsanlega gætu Rafmagnsveitur ríkisins leyst til sín þá vinnu sem þarna hefur verið unnin og þá eignast hana. Hún getur síðan auðvitað orðið grundvöllur áframhaldandi starfs.

Því miður get ég ekki gefið yfirlýsingu um það hér og nú hvort hægt sé að finna fjármuni til þess að halda áfram þeirri áætlun og nýta þannig sumarið. Ég satt að segja efast um að svo geti orðið nema til komi nýtt fjármagn sem ákveðið yrði annaðhvort af Alþingi eða þá með sérstakri fjárveitingu til þessara máta. Aðalatriðið er hins vegar það að það verður tekið á þessu máli þannig að nægilega góð lausn finnist sem allra fyrst á þessum málum.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir það leitt ef misskilningur hefur verið okkar á milli í þessu máli. Þegar við ræddum um þetta eftir áramótin þá lagði ég áherslu á að sett yrði inn á lánsfjárlög fjármagn til þessara hluta. Og í síðasta skiptið sem ég talaði um þetta við ráðherrann þá talaði hann um að það væri ekki málið. Ég skildi hann þannig að hann mundi finna úrræði til þess að fá fjármagn ef á þyrfti að halda þegar skýrslan lægi fyrir og að þá þegar væri byrj að á þessari skýrslugerð. Ég ætla að láta þetta nægja en ég mun ræða þetta betur við ráðherrann og rifja þetta upp. Mér þykir það leitt ef ég hef misskilið þetta mál því að þessi skilaboð bar ég í Norður-Þingeyingana sem höfðu samband við mig þá strax, að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur út af því þó þetta færi ekki inn á lánsfjárlög vegna þess að það mundi finnast leið ef niðurstaðan yrði að halda áfram með Sandárvirkjun.

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið hér í Sþ. og lýsi sérstakri ánægju með undirtektir hæstv. iðnrh. Það var ánægjulegt að heyra það að flestir hv. þm. eru þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að fjallað sé um þetta mál hérna í þinginu og raunar umhugsunarefni ef ákveðnir þm. geta haft þá skoðun að umfjöllun hér í hv. Alþingi geti skemmt fyrir varðandi framgang málsins. En raunar held ég að svo hafi nú verið með hv. 6. þm. Norðurl. e. að hann hafi kannski verið kominn á aðra skoðun undir lok umræðunnar, honum hafi fundist það gagnlegt að við hefðum rætt þetta mál hér í hv. þingi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Mér láðist að geta þess í minni framsögu að ég mælist til þess að málinu verði vísað til hv. atvmn. að lokinni umræðu.

ATKVÆÐAGREIÐSLA.

Till. vísað til síðari umr. með 34 shlj. atkv. og til atvmn. með 35 shlj. atkv.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða þá stöðu sem uppi er í efnahagsog kjaramálum og leggja fyrir hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar spurningar í því sambandi.

Ég vil leyfa mér í upphafi að þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu þar sem ég tel það mjög brýnt að þessi mál séu rædd hér á Alþingi, mjög brýnt að hæstv. ríkisstjórn greini frá áformum sínum, ef einhver eru, um aðgerðir og lýsi afstöðu sinni til þeirrar stöðu sem kjaramál og samningar aðila vinnumarkaðarins eru nú í. Ég vil leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsrh., spurningar sem í raun og veru brenna á allra vörum þessa dagana.

Svör hæstv. ríkisstjórnar hafa verið næsta fátækleg fram að þessu hvað varðar stefnuna í efnahagsmálum. Menn hafa jafnvel haft á orði að ástæða væri til að auglýsa eftir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í Ríkisútvarpinu eða í tapað/fundið dálkum dagblaðanna.

Vegna óvissu í efnahagsmálum og algers stefnuleysis eða a.m.k. aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar hefur verkalýðshreyfingin undanfarið sett stefnuna á skammtímaaðgerðir til að rétta við fallandi kaupmátt launafólks. Nú hefur hins vegar óbilgirni vinnuveitenda siglt þeim tilraunum í strand og allt eins líklegt er að fram undan sé tími nýrrar kröfugerðar og átaka, þar sem tekist verður á um kjörin til lengri tíma litið. Ég tel að þessi niðurstaða sé mikið áfall fyrir hæstv. ríkisstjórn vegna þess að þetta dregur enn frekar en áður athyglina að stefnu- og aðgerðarleysi hennar í efnahagsmálunum. Hafi það verið erfitt fyrir aðila vinnumarkaðarins að gera kjarasamninga við þá óvissu sem ríkjandi er til skamms tíma, þá er það auðvitað enn erfiðara að innsigla og ganga frá kjarasamningum til lengri tíma litið við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held einnig að ríkisstjórninni hefði ekki veitt af þeim tíma sem unnist hefði með skammtímalausn, skammtímaniðurstöðu í samningum til að hugsa sig um, til að reyna að finna sína efnahagsstefnu.

Það er greinilegt að hæstv. ríkisstjórn á það sameiginlegt með dínósárusunum fornu, risaeðlunum, að hún er lengi að hugsa. Fornfræðingar, sem kanna lifnaðarhætti þessara fornu skepna, hafa stundum velt því fyrir sér hvort þar sé að finna eina af ástæðum þess að risaeðlurnar hurfu úr lífríki jarðarinnar fyrir um 70 milljón árum síðan, við lok miðlífsaldar, að þær hafi verið svo lengi að hugsa að þær hafi ekki verið samkeppnisfærar við aðrar lífverur sem þá voru uppi. Á sama tíma var og uppi önnur forneðla sem hét týrannósárus og var ráneðla. Sú kenning hefur verð sett fram að ef týrannósárus, ráneðlan, beit í halann á dínósárus, risaeðlunni, þá hafi skilaboðin um það að verið væri að éta halann ekki komist fram í heilann fyrr en hálftíma síðar. M.a. þetta hafi gert það að verkum að dínósárus varð algjörlega ósamkeppnisfær, eins og það heitir á nútímamáli markaðshyggjumanna.

Ég hygg að þessi líking, þó hún eigi kannski hóflega vel við, veki mann samt til umhugsunar um það að þeir sem eru allt of lengi að hugsa verða að lokum ósamkeppnisfærir og hverfa í burtu. Verða undir í samkeppninni. Ég held að hæstv. ríkisstjórn hafi þegar haft næstum því allan umþóttunartíma sinn. Og nú spyrja menn um aðgerðirnar vegna þess að tíminn er skammur. Vegna þess að Róm brennur, eins og hæstv. utanrrh. hefur orðað það.

Þessi staða sem nú er uppi kallar enn frekar á það að hæstv. ríkisstjórn geri grein fyrir stefnu sinni í efnahagsmálum, afstöðu sinni til kjaramála og skýri hvers er að vænta á næstunni af hennar hálfu í þessum efnum. Í því sambandi vil ég ræða nokkur efnisatriði sérstaklega og spyrja hæstv. forsrh. lið fyrir lið um væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnar á þeim sviðum.

Í fyrsta lagi um stöðu atvinnuveganna. Einkum útflutningsgreinanna. Það er upplýst að botnfiskveiðar í heild séu nú reknar með 3–5% tapi, þar af frystingin með a.m.k. 7–9% tapi og fer vaxandi. Þetta byggir á könnun frá því í nóvember eftir fiskverðsákvörðun sem þá var tekin. Síðan er það augljóst mál að staðan hefur versnað hvað þetta varðar. Staða útflutningsiðnaðarins, einkum ullariðnaðarins er mjög alvarleg eins og kom fram í fyrirspurnatíma hér á Alþingi fyrr í dag. Þar er við mikla erfiðleika að etja. Sama má segja um samkeppnisiðnaðinn. Á hans hlut hallar núna stórlega. Störfum fækkar í iðnaði svo tugum eða hundruðum nemur á hverjum mánuði og markaðshlutdeild innlendra samkeppnisgreina minnkar. Þegar hugsað er til þessa ástands er það í raun og veru með ólíkindum að fyrir fáeinum vikum keyrði hæstv. ríkisstjórn hér í gegnum Alþingi auknar álögur á þessar atvinnugreinar, á sjávarútveginn og á útflutningsiðnaðinn, í formi þess að dregið var úr endurgreiðslum á uppsöfnuðum söluskatti og lagður var launaskattur á þessar greinar. Því spyr ég varðandi rekstrarstöðu atvinnuveganna: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í sambandi við rekstrarskilyrði í fyrsta lagi sjávarútvegsins og í öðru lagi iðnaðarins? Eða á að horfa á störfum fækka um tugi og hundruð í hverjum mánuði í þeirri grein án þess að hafast nokkuð að?

Í öðru lagi vil ég spyrja um vextina. Og það er nátengt því sem rætt var hér á undan. Vaxtakostnaður fjölmargra fyrirtækja í landinu er nú sambærileg stærð, eða meiri, og launagreiðslur fjölmargra venjulegra fyrirtækja sem hafa þannig lagaða starfsemi að hún krefst mikils vinnuafls. Engu að síður er þessi kostnaðarliður í bókhaldi fjölmargra þeirra fyrir árið 1987 sambærileg, eða hærri, tala og allar launagreiðslur.

Hæstv. ríkisstjórn og vinnuveitendur eru fáorð, næsta fáorð um þær hækkanir sem orðið hafa á fjármagnskostnaði. Það er ekki rekið upp sambærilegt ramakvein yfir þeim geysilegu álögum sem þannig leggjast á atvinnulífið og gert er ef launin eiga að hækka um eina einustu krónu. Þá er allt í voða. En þó að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna, eins og í sjávarútvegi og iðnaði sem búa við taprekstur, vaði núna upp úr öllu valdi er ekki kvartað yfir því, a.m.k. ekki með sama hætti og grátið er yfir því ef mönnum dettur sú ósvinna í hug að leiðrétta, þó ekki nema í litlu væri, kjör þeirra sem lægst hafa launin. Og við skulum huga að því að taprekstur, eins og sá sem nú liggur fyrir í fiskvinnslunni og iðnaðinum, verður auðvitað þeim mun alvarlegri með hverjum deginum sem líður sem vextirnir eru hærri, sem fjármagnskostnaður fyrirtækjanna er meiri. Vaxtamunurinn í þessu landi er svo óheyrilegur, er með þeim fádæmum, að það er auðvitað algjört undirstöðuatriði, ef ríkisstjórnin ætlar að taka á efnahagsmálunum, að gripið verði inn í vaxtamálin.

Hér kom út skýrsla í desembermánuði, áfangaskýrsla frá Seðlabanka Íslands samkvæmt nýjum lögum um bankann þar sem gert er ráð fyrir því að hann geri ríkisstjórn og Alþingi og öðrum aðilum tvisvar á ári grein fyrir þróun peninga- og vaxtamála og gjaldeyrismála. Seðlabankinn, trúr þessum lögum, gerði þetta með ársskýrslu sinni sl. vor og aftur með sérstakri skýrslu nú í desember. Það væri ástæða til, herra forseti, að hæstv. viðskrh. beitti sér fyrir því að þessi skýrsla yrði sérstakt dagskrárefni hér á Alþingi og kæmi til umræðu en ég vil leyfa mér í þessu sambandi vegna umræðna um vextina og spurninga þar að lútandi að vitna örlítið í þessa skýrslu frá Seðlabankanum. Hún dregur í raun upp mjög dökka mynd af stöðunni í peningamálum og vaxtamálum. Þar segir, með leyfi forseta, í 3. kafla á bls. 2:

„Raunvextir á lánamarkaði hafa farið hækkandi og hafa sennilega aldrei verið jafnháir. Raunvextir óverðtryggðra lána virðast þó ekki hafa verið mjög háir fyrri hluta ársins," — sem hlýtur þá að eiga að skilja svo að þeir hafi verið mjög háir seinni hluta ársins. „Ástæðan er sú að innlánsstofnanir hafa sennilega vanmetið verðbólguhraðann á því tímabili. Jafnframt hafa grunnvextir verðtryggðra útlána farið hækkandi og eru nú að meðaltali um 9,5% en voru 5,9-6,2% í upphafi árs. Ákvörðun vaxta inn- og útlána hefur að mestu verið í höndum innlánsstofnana og hefur Seðlabankinn ekki haft frumkvæði að vaxtabreytingum heldur fylgt fast eftir með breytingum eigin vaxta.“ Þetta hefur í raun snúið alveg öfugt. Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi annarra í staðinn fyrir að reyna að hafa áhrif á það sjálfur. „Vonast hefur verið til að hærri vextir myndu draga úr útlánaeftirspurn en sú virðist enn ekki hafa orðið raunin.“ Og enn eru auðvitað spekingarnir hissa á því að þessir óskaplegu vextir skuli ekki leiða til minnkaðrar ásóknar í lánsfé.

En þurfa menn frekar vitnanna við? Er það ekki fullreynt að þessir hlutir ganga ekki þannig fyrir sig, a.m.k. ekki hér í hinu íslenska hagkerfi?

Síðan kemur í þessari skýrslu Seðlabankans nokkuð lúmskt skot á hæstv. ríkisstjórn og reyndar þá fyrrverandi einnig því að það segir í þessum kafla á bls. 3, með leyfi forseta: „Annars er hætt við að tímabundið offramboð peninga leiti út í eftirspurn. Á þetta ekki síður við ár kosninga en önnur. En ætla má að kosningar og stjórnarmyndunarviðræður hafi tafið mjög markvissar ákvarðanir í þessum efnum á yfirstandandi ári.“

Þessi skýrsla er vel að merkja útkomin í desember, þ.e. á sl. ári. Hér er auðvitað undir rós sagt á mjög penan hátt eins og þeir kunna í Seðlabankanum að ekki hafi verið gerð nein heiðarleg tilraun til að stjórna þessum málum allt sl. ár og það er rétt. Það er að vísu fært til málsbóta að það hafi verið kosningar á árinu en eftir stendur mat Seðlabankans á því að í raun og veru hafi ekki verið gerð nein heiðarleg tilraun til að hafa áhrif í þessum efnum.

Síðan vil ég aðeins vitna í töflur sem birtast í þessari skýrslu um vaxtamuninn og það hvernig vextirnir hafa verið að hækka á sl. ári. Þar kemur til að mynda fram að meðalávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa og víxla var í októbermánuði 1986 16,3% en í nóvember 1987 38,9%. Og verðtryggð löng lán fóru úr 5% upp í 5,9% á sama tíma.

Hver er svo staðan? Hver er raunávöxtun mismunandi flokka útlána og innlána í nóvemberlok á síðasta ári? Hún er sú að raunávöxtun almennra tékkareikninga, miðað við 26,6% verðbólgu á þessum tímamörkum, 21. nóv. 1987, er mínus 15,4%, neikvæð um 15,4%. Sérstakir tékkareikningar eru með neikvæða raunávöxtun upp á 5,2%, almennar sparisjóðsbækur með neikvæða raunávöxtun upp á 4,6%, þriggja mánaða óverðtryggðir reikningar enn með neikvæða raunávöxtun upp á 2,8% og það eru tveir minni háttar innlánaflokkar sem bera litla eða lága jákvæða ávöxtun.

En útlánin? Hvernig standa svo vextirnir á útlánunum? Hver er sem sagt vaxtamunurinn? Hann er sá að útlánavextir á almennum víxlum skila 11% raunávöxtun í nóvember 1987, útlánavextir á hlaupareikningum 14,1%, almenn skuldabréf með tveimur gjalddögum 9,1%, verðtryggð skuldabréf 9,5% og á 60 daga viðskiptavíxlum er jákvæð raunávöxtun upp á 14,6%. Þannig að ef maður tekur þessa almennu flokka, annars vegar innlána og hins vegar útlána, er innlánamegin um að ræða neikvæða ávöxtun á bilinu 2–16% en útlánamegin jákvæða á bilinu 9–15%. Þetta er myndin sem við okkur blasir í vaxtamálunum. Og er því nema von að spurt sé: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta þetta ganga svona lengi til? Hyggst hún grípa til aðgerða? Verður Seðlabankanum skipað að nýta sér heimildarákvæði 9. gr. laga um Seðlabankann og grípa inn í vaxtaákvarðanir eins og ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa nægar lagaheimildir til?

Ég hygg að þetta sé e.t.v. eitt stærsta einstaka atriðið í allri efnahagsmálaumræðunni. Verður beðið áfram, svona séð til, hvort þessi guðlegu lögmál ná að lokum jafnvægi, jafnvel þó að það jafnvægi náist yfir höfuðsvörðum síðasta fyrirtækisins á Íslandi, verði grundvallað á rústum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að halda tilrauninni svo lengi áfram, ef með þarf, til að fá við því svör hvort markaðshyggjan skili þeim árangri sem menn einu sinni ætluðu henni í þessum efnum, eða hvað?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstvirta ráðherra um gengismálin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar eins og fleiri að það sé ekki heppilegt að vera með miklar yfirlýsingar fyrir fram um þau efni, næg sé óvissan og nægar séu áhyggjur manna fyrir þó að ráðamenn séu ekki með stórar yfirlýsingar um þau mál. Og hvers vegna er ég þá að spyrja um það hér? Ég leyfi mér það að gefnu því fordæmi að hæstv. ráðherrar eru blaðrandi um þau mál út og suður, í fjölmiðlum, á fundum, og víðast hvar annars staðar þar sem þeir hafa tækifæri til, ekki færri en þrír hæstv. ráðherrar hafa undanfarnar vikur fjallað með næstum að segja furðulegum hætti um stöðu gengismálanna á fundum eða í fjölmiðlum. Ég nefni hæstv. utanrrh., ég nefni hæstv. fjmrh. og ég nefni hæstv. iðnrh. Allir þessir ráðherrar hafa verið með yfirlýsingar af því tagi að það hlýtur að vera leyfilegt að spyrja hæstv. ríkisstjórn um hvað sé á döfinni varðandi gengismálin. Eru væntanlegar sérstakar hliðarráðstafanir til þess að tryggja óbreytt gengi því að öllum má vera ljóst að án þeirra gengur það ekki upp? Eru þá á dagskrá hjá ríkisstjórninni ráðstafanir í þeim efnum til að styðja við bakið á útflutningsatvinnuvegunum o.s.frv. til þess að forða þá gengisfellingu? Eða á bara að sjá til? Á bara að sjá til með þetta eins og með vextina?

Í fjórða lagi vil ég spyrja um kjaramálin. Hvað hefur ríkisstjórnin hæstv. fram að færa í þeim efnum? Nú hefur verið rætt um í tengslum við gerð kjarasamninga og þegar gerðra kjarasamninga, eins og á Vestfjörðum, ráðstafanir eins og hækkun persónufrádráttar og sérstakan frádrátt fyrir fiskvinnslufólk. Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn fram að færa, fram að bjóða, í þeim efnum? Er hæstv. forsrh. sammála atvinnurekendum sem höfnuðu sáttatilboði Verkamannasambands Íslands? Er hann sammála, hæstv. forsrh., um það að 9% eða jafnvel aðeins 7% grunnkaupshækkanir til þeirra sem lægst hafa launin, ásamt með starfsaldurshækkunum og nokkrum öðrum ákvæðum, séu óaðgengileg krafa í dag þegar það liggur fyrir að lægstu launin þurfa að hækka um 13–14% til að halda kaupmættinum og verði beðið út þennan mánuð þarf eflaust að hækka þau um ein 2% í viðbót þannig að nauðsynleg grunnkaupshækkun gæti um næstu áramót, ef ekki hafa náðst samningar, þurft að verða 15, 16, 17% til þess eins að halda kaupmætti lágmarkslaunanna? Er þá krafa um 9% eða jafnvel aðeins 7% ósvinna? Vill hæstv. forsrh. svara því?

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh. hverju það sæti að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi í raun og veru engan áhuga haft á þeim samningatilraunum sem staðið hafa yfir undanfarna daga. Mér er tjáð af samningamönnum Verkamannasambands Íslands að þeir hafi ekki orðið varir við ríkisstjórn í landinu frekar en að hún væri ekki til þessa dagana. Veit þá e.t.v. hæstv. ríkisstjórnin ekki af því að kaupmátturinn hríðfellur og að óbilgirni vinnuveitenda er að öllum líkindum að leiða til stórfelldra kjaraátaka í landinu? Hvert er mat hæstv. ríkisstjórnar á forsendum kjarasamninga, á kaupmáttarhrapinu? Hefur ríkisstjórnin e.t.v. engar áhyggjur af því þó að kjarasamningar dragist á langinn viku eftir viku og mánuð eftir mánuð við þær aðstæður að kaupmáttur lágmarkslaunanna hrapar og að búið er að leggja á matarskatt sem hækkar matarútgjöld þessara heimila um fleiri þúsund krónur á mánuði? Það er von að spurt sé. Er kannski hæstv. ríkisstjórn bara hæstánægð með það að það náist engir kjarasamningar? Vill hún e.t.v. að það ástand vari sem lengst því að auðvitað er kaupmátturinn að hrapa þar með?

Í fimmta lagi væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ríkisstjórn nokkur orð um stöðu ríkissjóðs, m.a. vegna þeirra umræðna sem uppi hafa verið um að auka á ný endurgreiðslur uppsafnaðs söluskatts frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Hvernig á þá að brúa bilið? Hvers er að vænta frá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum?

Það væri einnig, í sjötta lagi, fróðlegt að fá að heyra eitthvað um viðskiptahallann frá hæstv. ríkisstjórn. Nú liggur það fyrir, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun sem ég hef undir höndum, dagsettum 22. jan. 1988, að líklega verður viðskiptahallinn enn meiri en síðast var talið, mat manna á viðskiptahallanum hefur verið að hækka með reglulegu millibili sl. vikur. Fyrst úr 1–2 milljörðum í 2–4, í 4,5, í 4,5–6, og nú í 6,5, og nú 22. jan. 1988 segir Þjóðhagsstofnun: Líklega verður viðskiptahallinn enn þá meiri, enn meiri en 6,5 milljarðar. Hvers vegna? Vegna þess að vöruskipta- og þjónustujöfnuðurinn samanveginn, þegar það hefur verið gert upp, kemur til með að auka þetta enn.

Hvernig eru þá horfurnar fyrir árið 1988? Er þá ekki líklegt að talan 10 milljarðar, sem Þjóðhagsstofnun nefndi um áramótin, sé einnig að hækka?

Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn gera af þessu tilefni sérstaklega? Þegar þessi hlutföll standa þannig að raungildi vöruútflutnings jókst um tæp 2% á sl. ári, hvað var þá með innflutninginn? Hvernig fór með hann? Raungildi vöruinnflutnings jókst um 20,5%, meira en tífalt. Þannig standa þessi hlutföll í dag. Finnst mönnum þá ekki ástæða til að spyrja: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera eitthvað í þessu efni eða á að láta þetta afskiptalaust eins og fleira? Á bara að sjá til?

Það er einnig ástæða til að ræða og nefna í þessu samhengi stöðu landsbyggðarinnar sérstaklega vegna þess að þar vega þær greinar, framleiðslu- og útflutningsgreinar, miklu þyngra og eru í raun undirstaða alls atvinnulífs og það er einmitt afkoma þeirra sem hér er sérstaklega verið að ræða um. Versnandi staða í sjávarútveginum og afleit staða kaupfélaganna setja nú mark sitt á ástandið út um landið. Það hygg ég að hv. þm., þeir sem á annað borð hafa haft sig úr höfuðstaðnum út til sinna kjördæma, hafi orðið áþreifanlega varir við hafi þeir rætt við sína umbjóðendur. Og þær fréttir sem berast þessa dagana af afkomu sveitarfélaganna á landsbyggðinni segja í raun sömu sögu. Þar eru miklir erfiðleikar við að ná endum saman í gerð fjárhagsáætlana. Þegar þetta ástand blasir við mönnum ofan í fólksflóttann á síðasta ári sem var meiri en um áratuga skeið er von að spurt sé: Er hæstv. ríkisstjórn að skoða stöðu landsbyggðarinnar, atvinnulífsins þar, sérstaklega eða á að sjá til með það eins og fleira?

Það mætti nefna húsnæðismál og það mætti nefna ýmislegt fleira, herra forseti, en tímans vegna hygg ég að ég láti þessar spurningar nægja. Ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa lýst ástandi hinna íslensku efnahagsmála með þeirri líkingu að Róm sé að brenna. Undir það get ég vissulega tekið. En það sem vekur furðu manna er auðvitað það að einskis lífsmarks verður vart hjá hæstv. ríkisstjórn. Það heyrist ekki einu sinni hljóðfæraleikur, hvað þá meira, á meðan Róm er að brenna. Það er eins og hún sé ekki til, ríkisstjórnin. Hún reynir ekki einu sinni að sarga á fiðlu eða sög á meðan. Hún er bara ekki til. Það heyrist hvergi í henni né sést til hennar.

Þessi umræða hér, herra forseti, er m.a. vakin til þess að gefa talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar færi á því að segja hvort og þá hvað stendur til að gera, ef eitthvað. Ætlar hæstv. ríkisstjórn að reyna að slökkva eldana, þó ekki væri nema að taka upp tólið og reyna að hringja á slökkvilið sem hún yrði að fá einhvers staðar annars staðar frá, eða ættar hún bara að horfa á þá, einhvers staðar álengdar?

Það stendur auðvitað næst þeim sem kveikja í að reyna að slökkva. Ef ríkisstjórnin hefur hins vegar enga tilburði uppi til þess og vikur og mánuðir líða geta menn auðvitað ekki setið aðgerðarlausir hjá og horft upp á það ástand. Alþingi Íslendinga hefur ekki leyfi til þess að láta hlutina danka þannig vikum saman við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þess vegna er rétt og skylt að þessi mál séu nú tekin hér fyrir og rædd. Og ég hygg að það sé meira en kominn tími á það hjá hæstv. ríkisstjórn, eins og sagt er í dag, að hún fari að svara einhverju til og kveða upp úr um það hvort hún ætlar að reyna að gera eitthvað eða ekki. Spurningin snýst í raun og veru um það.

Í nýjustu samantekt Þjóðhagsstofnunar sem ég vitnaði áður til eru hlutirnir dregnir saman á öftustu síðu með skýrum og hnitmiðuðum hætti og það segir í raun og veru allt sem segja þarf. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þetta fréttaplagg frá 22. jan. aftur. Þar segir:

„Þær horfur um ytri skilyrði þjóðarbúsins sem raktar hafa verið hér að framan fela í sér stöðnun eða jafnvel lítils háttar samdrátt í þjóðartekjum á þessu ári eftir öran hagvöxt sl. þrjú ár. Þessar horfur setja þjóðarútgjöldum þröngar skorður ef takast á að halda verðbólgu og viðskiptahalla í skefjum á næstunni. Efnahagsvandinn sem við er að etja stafar þó ekki af óhagstæðum ytri skilyrðum“.

Ég endurtek, herra forseti: Efnahagsvandinn sem við er að etja stafar þó ekki af óhagstæðum ytri skilyrðum, segir Þjóðhagsstofnun, og það er auðvitað rétt. Vandinn liggur í öðru en því að það séu ekki sköpuð nóg verðmæti í íslenska þjóðarbúinu og að skilyrðin séu ekki hagstæð. Það eru þau einmitt. Við sitjum á toppnum á mestu uppsveiflu íslensks efnahagslífs, en samt brennur Róm.

Vandinn á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til þess að þessum verðmætum er vitlaust ráðstafað og það ríkir stjórnleysi í íslenskum efnahagsmálum. Þess vegna er tími til kominn og þó fyrr hefði verið að hæstv. ríkisstjórn greini Alþingi, aðilum vinnumarkaðarins og íslensku þjóðinni frá því hvað hún hyggst gera í málinu.

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er athyglisvert þegar umræður eru hafnar hér á hinu háa Alþingi um stöðu í efnahags- og kjaramálum í tilefni af þeirri stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum á almennum vinnumarkaði að ekki er af hálfu hæstv. málshefjanda minnst á það sem gerst hefur í kjaramálum að undanförnu. Það er ekki minnst á það einu orði að ráðstöfunartekjur hafa aukist að meðaltali um 18% á sl. ári á meðan þjóðartekjur aukast um 8%, að ráðstöfunartekjur aukast þannig meira en tvöfalt umfram aukningu þjóðartekna. Að öllu jöfnu þykir það góður árangur þegar kaupmáttur eykst nokkurn veginn í samræmi við aukningu þjóðartekna eða jafnvel lítið eitt meir. En hér hefur þetta átt sér stað, að kaupmáttur hefur aukist meira en tvöfalt umfram það sem þjóðartekjurnar hafa aukist annað árið í röð. Við höfum búið við tvö undanfarin ár mestu kaupmáttaraukningu sem við þekkjum (Gripið fram í.) og búum því við bestu lífskjör sem þessi þjóð þekkir.

Auðvitað er það svo að í þjóðfélagi frjálsra kjarasamninga og í frjálsu þjóðfélagi segja slík meðaltöl ekki allt um launaþróunina í landinu. Sumir hópar fá meira og aðrir minna. Þess vegna hafa menn upp á síðkastið rætt um að eðlilegt væri að kjarasamningar yrðu gerðir út frá því meginsjónarmiði að styrkja stöðu þeirra sem lakast eru settir. En almennt hefur því ekki verið andmælt að þegar við mætum nú nokkrum mótvindi eftir vaxtarskeið undangenginna tveggja ára og horfur eru á að þjóðartekjur minnki á næsta ári sé eðlilegt að kaupmáttur minnki að sama skapi að meðaltali. En það breytir auðvitað ekki því að eðlilegt er að menn freisti þess að takast á við það verkefni í kjarasamningum að bæta stöðu þeirra sem lakast eru settir. En menn mega ekki gleyma því að tvö undangengin ár eru einhver hagstæðustu ár sem launafólk hefur búið við að þessu leyti. Þau hafa skilað mestri kaupmáttaraukningu sem um getur.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa nú verið lausir frá því um áramót. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e., málshefjanda í þessum umræðum, að það er áhyggjuefni þegar kjarasamningar dragast svo á langinn sem raun hefur orðið á. Það er skylda þeirra sem fara með samningamál, bæði fyrir hönd vinnuveitenda og launþega, að kappkosta að slík óvissa ríki ekki sem lausir kjarasamningar óneitanlega hafa í för með sér og að sitja þess vegna sem fastast við samningaborð og freista þess að ljúka samningum sem næst því sem þeir eldri renna út. Því miður hefur orðið misbrestur á þessu að þessu sinni og svo virðist sem nokkuð langur vegur hafi verið á milli sjónarmiða samningsaðila.

Fyrir skömmu voru gerðir kjarasamningar vestur á fjörðum. Þeir lutu fyrst og fremst að launum fiskvinnslufólks. Það hefur verið óumdeilt. Bæði hefur maður heyrt forustumenn atvinnurekenda og ekki síður forustumenn launafólks taka það fram að eðlilegt væri að rétta sérstaklega hlut fiskvinnslufólks og annarra launþegahópa sem eru í lægstu þrepum tekjustigans.

Ég hygg að þeir sem stóðu að samningunum vestur á fjörðum hafi haft það meginmarkmið í huga að gera kjarasamninga sem ekki þyrftu að valda miklum þrýstingi á gengi íslensku krónunnar, samninga sem gætu stuðlað að því að verðbólga lækkaði og samninga sem í raun yrðu til varnar þeim sem hafa lægri tekjur. Mitt mat á þessum samningum er að þeir séu gerðir fyrir þennan hóp og það séu ekki efnahagsleg rök til þess að þeir mælist upp allan launastigann, jafnt til þeirra sem hæst laun hafa og hinna sem lægst laun hafa. Ef við ætlum að ná þeim efnahagslegu markmiðum að koma hér á jafnvægi, koma í veg fyrir að verðbólga æði upp á við á nýjan leik eru ekki efnahagsleg rök til þess. En ég vona að við getum staðið við það og risið undir því að unnt sé að bæta á þann veg kjör þeirra sem lakast eru settir sem þar hefur verið samið um. En það gerist ekki ef hinir, sem hærri launin hafa, ætla að taka það sama til sín og það gerist ekki ef stjórnvöld ætla að stuðla að slíkri niðurstöðu. Þá fáum við verðbólgu með hefðbundinni kjaraskerðingu, kjaraskerðingu sem kemur verst við þá sem lakast eru settir. Þetta eru grundvallaratriði sem ég hygg að ekki séu mjög umdeild.

Ríkisstjórnin tók ekki beinan þátt í samningunum sem fóru fram vestur á fjörðum. Það fóru fram óformlegar viðræður við fulltrúa beggja aðila. Þeir komu undir lok síðasta árs að eigin frumkvæði á fund ríkisstjórnarinnar sameiginlega fulltrúar launafólks og atvinnurekenda til að ræða stöðu sjávarútvegsins, fiskvinnslunnar og afkomu launafólks í fiskvinnslu. Nú eftir áramótin áttu ráðherrar óformlegar viðræður við fulltrúa beggja samningsaðila og fylgdust mjög nákvæmlega með samningunum. En ríkisstjórnin tengdist ekki niðurstöðu þeirra með neinum formlegum hætti. Sama má segja um þær viðræður sem fram hafa farið síðustu daga á milli Verkamannasambandsins og vinnuveitenda. Ríkisstjórnin hefur ekki með formlegum hætti blandað sér í þær umræður, en ég hef átt óformlegar viðræður við forustumenn beggja samningsaðila, bæði launþega og vinnuveitenda, og ég veit að það hafa aðrir ráðherrar gert, svo sem hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh., þannig að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti fylgst mjög gaumgæfilega með þessum viðræðum. En það er hlutverk, réttur og skylda og ábyrgð beggja samningsaðila að gera kjarasamninga og standa þannig að verki að sem stystur tími fari í þá óvissu sem jafnan er í þjóðfélaginu meðan kjarasamningaviðræður standa yfir og samningar eru lausir. Það er þess vegna áhyggjuefni að uppstytta skuli hafa komið í þessar viðræður.

Við verðum að ætlast til þess og kalla til þeirrar ábyrgðar, bæði af hálfu forustumanna atvinnurekenda og launafólks, að þeir komi að nýju að samningsborðinu og freisti þess að finna lausn á þeim vanda sem kjarasamningar eru hverju sinni og ekki síst við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ábyrgð þeirra er auðvitað mikil í þessu efni. Það er óvissa í þjóðarbúskapnum, í þjóðlífinu öllu á meðan kjarasamningar eru lausir. Þeir ráða óneitanlega mjög miklu um framvindu efnahagsmála. Það eru ekki uppi áform um að taka þann rétt og þær skyldur af samningsaðilum. Ég vona að ekki megi skilja orð hv. 4. þm. Norðurl. e. á þann veg. Það skiptir þess vegna miklu máli að viðræður samningsaðila haldi áfram. Ég hef vegna þess að upp úr viðræðum slitnaði óskað eftir því að fulltrúar vinnuveitenda og launþega komi á minn fund á morgun og geri ríkisstjórninni grein fyrir stöðu samningaviðræðna og mati þeirra á því hverjar horfur eru á að samningar geti tekist á næstunni.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á hvort hyggilegra er fyrir aðila að semja til langs tíma eða skamms tíma. Það er efnislegt innihald samninga sem skiptir mestu máli fyrir launafólkið, atvinnufyrirtækin og þjóðarbúið í heild. Samningsaðilar verða að finna sjálfir þá leið sem skynsamlegust er í þessu efni. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir margsinnis fyrir sitt leyti að hún væri tilbúin til þess að taka þátt í slíkum viðræðum ef aðilar eru um það sammála, telja það líklegt til að greiða fyrir lausn mála. En forsendurnar eru auðvitað þær að samningsaðilarnir komi sér sjálfir að samningsborðinu.

Við höfum sérstakt embætti ríkissáttasemjara sem á að stuðla að því að sættir geti tekist með aðilum. Ríkisstjórnin ætlar ekki að taka það hlutverk að sér. Forsendan fyrir því að ríkisstjórn geti tengst niðurstöðu samninga er sú að aðilar komi sjálfir að samningaborðinu og finni flöt sín á milli til lausnar á þessum vanda. I annan stað er það algert skilyrði fyrir því af hálfu ríkisstjórnar að hún geti tekið þátt í lausn slíkra samninga að þeir séu þáttur í alhliða aðgerðum sem miða að því að draga úr verðbólgu, koma verðbólgunni verulega niður á þessu ári.

Við vitum að það er ákaflega lítill vandi fyrir atvinnurekendur og launamenn að semja um kauphækkanir í trausti þess að gengi krónunnar verði fellt og verðbólga æði af stað á nýjan leik. Það er einfaldasti hlutur í heimi og við höfum oft séð það gerast. Því miður hef ég sjálfur tekið þátt í gerð slíkra kjarasamninga og ég veit að margir hér inni hafa reynslu af því. En við höfum verið að vinna okkur út úr því fari, Íslendingar, og þessi ríkisstjórn ætlar ekki að taka þátt í því að við sökkvum á nýjan leik ofan í það far. Það sem þessi ríkisstjórn hefur ákveðið í efnahagsmálum miðar að því að ná niður verðbólgu og koma hér á jafnvægi í efnahagsmálum. Þetta er þess vegna forsenda fyrir þátttöku ríkisstjórnarinnar í hugsanlegum kjarasamningum.

Ég þykist vita það af yfirlýsingum forustumanna bæði launþega og vinnuveitenda að þeir eru í raun og veru tilbúnir að leita leiða að þessum markmiðum. Ég hef ekki orðið var við verulegan ágreining um þessi meginmarkmið. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að það er vandi sem þessum mönnum er á höndum að finna eðlilega leið við þessar aðstæður til þess að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir, gera kjarasamninga sem í heild leiða ekki til aukinnar verðbólgu, m.ö.o. að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir en gera kjarasamninga í þágu hinna sem ekki mæla kaupmáttaraukningu. Þetta er ekki einfalt verk og báðum samningsaðilum mikill vandi á höndum. Kannski er það m.a. þess vegna sem það hefur dregist á langinn að viðræðurnar skiluðu einhverjum árangri þeirra í milli.

Meðan samningsaðilar sjálfir eru ekki komnir nær hvor öðrum en raun ber vitni er með öllu óraunhæft að vera með yfirlýsingar um það í hverju hugsanleg þátttaka ríkisvalds í lokaniðurstöðum samninga getur verið. Viljinn liggur hins vegar fyrir og forsendurnar liggja fyrir. Það vita samningsaðilar af óformlegum viðræðum. Ég vona að viðræðurnar á morgun geti leitt frekar í ljós hvaða horfur eru í þessu efni og hvaða líkur eru á að samningar geti tekist á næstunni.

Þessi ríkisstjórn gerði það að höfuðmarkmiði að ná niður verðbólgu og allar ákvarðanir hennar í efnahagsmálum hafa miðað að því markmiði. Það er útúrsnúningur í meira lagi, sem hv. málshefjandi hafði hér í frammi og maður hefur heyrt svo sem á talsmönnum stjórnarandstöðunnar stundum að undanförnu í málefnafátækt stjórnarandstöðunnar, að efnahagsstefna stjórnarinnar liggi ekki skýr fyrir. Þessi stjórn tók ákvarðanir þegar í upphafi, á fyrstu dögunum sem hún starfaði, á nýjan leik í byrjun októbermánaðar og grundvallaratriði liggja þess vegna afar skýr og ljós fyrir. Meginatriðin í þessari efnahagsstefnu eru stöðugleikastefna í gengismálum, aðgerðir til þess að koma á jafnvægi á fjármagnsmarkaði og aðgerðir til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum strax á þessu ári. Þessu hefur verið fylgt eftir, ákvarðanir út frá þessum meginmarkmiðum hafa verið teknar og þær hafa náð fram að ganga og þær eru byrjaðar að skila árangri. Það er kannski þess vegna sem talsmenn stjórnarandstöðunnar tala með slíkum ólíkindum sem raun ber vitni að undanförnu.

Það voru teknar ákvarðanir í þessum efnum. Við væntum þess, þegar stjórnin tók við, vegna þess hverjar horfur voru þá um halla í viðskiptum við útlönd, að það væri verjandi að fara þá leið til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum að taka þau skref í áföngum á þremur árum og út frá því var unnið við upphaf fjárlagagerðar. Í septembermánuði lá hins vegar fyrir að horfur í þeim efnum voru miklu alvarlegri en áður var talið. Við töldum við þær aðstæður að það væri nauðsynlegt að fylgja af þeim sökum fram miklu fastari og ákveðnari aðhaldsaðgerðum en áður voru taldar nauðsynlegar. Þess vegna var fjárlagafrv. tekið upp á lokastigi í lok september og byrjun október og það var ákveðið að ná jöfnuði á þessu ári og fjárlög voru þannig afgreidd héðan frá hinu háa Alþingi. Það er býsna mikið verk og ekki einfalt, sem hv. þm. vita, að taka slíka ákvörðun og ná henni fram, jafnframt þeim miklu skipulagsbreytingum í skattamálum, umfangsmestu skipulagsbreytingum í skattamálum sem gerðar hafa verið, og ná þeim fram líka á skemmri tíma en svo umfangsmiklar ráðstafanir hafa áður náð fram að ganga á hinu háa Alþingi.

Það voru í byrjun októbermánaðar teknar ákvarðanir í peningamálum til að örva innlendan sparnað með ýmsu móti. Flestar þeirra ákvarðana eru þegar komnar til framkvæmda og þegar farnar að skila árangri. Aðrar eru á lokaundirbúningsstigi.

Vextir hækkuðu af þessum sökum, en það hefur haft þýðingu til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaðnum. Við skulum gera okkur grein fyrir því. Það verður ekki unnið hér gegn verðbólgu og ofþenslu nema það komi einhvers staðar við og ég veit að hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar gera sér mætavel grein fyrir því.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að tími væri kominn til að ríkisstjórnin hringdi í slökkviliðið því hún gæti ekki slökkt eldana sjálf. Ég skildi hv. þm. svo að hann væri að bjóða fram stefnu stjórnarandstöðunnar til lausnar á efnahagsvandanum. Hugum nú aðeins að því. Hver er sú stefna? Og hvert mundi það leiða ef farið hefði verið að ráðum stjórnarandstöðunnar í þessum málum?

Ríkisstjórnin stóð í stórræðum fyrir jól að koma fram umfangsmestu skipulagsbreytingum í tekjuöflunarmálum ríkisins sem gerðar hafa verið og náði þeim málum fram á skemmri tíma en áður hefur þekkst þrátt fyrir svolítið múður í stjórnarandstöðunni. Við fórum fram á að stjórnarandstaðan sýndi skilning á því að þessi mál þyrftu að ná fram að ganga fyrir jólaleyfi. Sá skilningur var ekki sýndur, en við áttum ítrekað fundi með talsmönnum stjórnarandstöðunnar um þau efni og á fundi 20. des. sagði stjórnarandstaðan: Hér eru okkar skilyrði fyrir því að þinghaldi ljúki fyrir jól. Skilyrðin voru þessi:

1. Að ríkissjóður verði rekinn með halla næstu þrjú ár þrátt fyrir þær upplýsingar sem fyrir lágu um vaxandi viðskiptahalla.

2. Að fallið verði frá allri viðbótartekjuöflun ríkissjóðs. Eðlileg afleiðing af fyrstu kröfu.

3. Að ríkisstjórnin lýsi því yfir að hún muni ekki grípa til efnahagsaðgerða í hugsanlegu jótaleyfi þm. Það var hv. 4. þm. Norðurl. e. sem bar málið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég þóttist svo sem skynja að það væri ekki mikil sannfæring í þessum málflutningi af hans hálfu. Ég þóttist svo sem skynja að hann sjálfur og hans flokkur hefðu orðið að sameinast um þau sjónarmið sem lýstu mestri óábyrgð og fyrirfinnast innan stjórnarandstöðunnar og hafði þess vegna svolitla samúð með hv. þm. og verð að taka það hér fram að það var mín tilfinning að sannfæring lægi ekki að baki. En þetta voru kröfurnar, þetta var stefnan sem lýst var. Hvernig væri ástatt í þjóðfélaginu í dag ef við hefðum orðið við þessum kröfum og tekið ákvarðanir í samræmi við þetta, ákveðið að reka ríkissjóð þrátt fyrir upplýsingar um vaxandi viðskiptahalla með margra milljarða halla á þessu ári? Við tókum slíkar ákvarðanir í tengslum við þjóðarsáttina 1986 af því að þá var jöfnuður í viðskiptum við útlönd. En það er fullkomlega ábyrgðarlaust að gera slíkt við þessar aðstæður. Þetta var það eina sem stjórnarandstaðan bar fram sem lausn af sinni hálfu, sem stefnu af sinni hálfu.

Ef hún hefði fengið að ráða og það hámark ábyrgðarleysisins sem finnst innan stjórnarandstöðunnar hefði fengið að ráða og ég er ekki að væna hv. 4. þm. Norðurl. e. að vera í raun og veru talsmann fyrir, þá stefndi hér í ringulreiðarverðbólgu, óðaverðbólgu og kjaraskerðingu. Þetta eru þeir kostir sem fólkið í landinu hefur að velja um: þetta tilboð, sem lagt var fram af hálfu stjórnarandstöðunnar 20. des. sl., og þá stefnu sem fylgt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. (SJS: Ég var að biðja þig að útskýra eigin stefnu, ekki okkar.) Það getur vel verið að það taki á þegar verið er að koma niður verðbólgu og það finnist fyrir því. En sú stefna sem stjórnarandstaðan hefur boðað, það slökkvilið sem stjórnarandstaðan hefur verið að bjóða fram slekkur ekki elda. Það er olía á eld. (SJS: Viltu ekki reyna að svara fyrir stjórnina?) Það er olía á eld. Ég finn að hv. 4. þm. Norðurl. e. er illa sætt undir þessum upplýsingum. Stjórnarandstaðan gaf út fréttatilkynningu eftir þennan fund, en hafði ekki kjark til að taka fram í henni það sem hún sagði á fundinum sjálfum um að tillagan væri um þriggja ára hallarekstur og að falla frá viðbótarskattheimtu eða tekjuöflun ríkisins á þessu ári, hafði ekki kjark til þess að segja það í fréttatilkynningunni sem sagt var á fundinum. Á að treysta slíkum mönnum til þess að vera slökkvilið þegar við erum að kljást við alvarlega verðbólgu?

Hugum þá að stöðu og horfum í efnahagsmálum. Það er ljóst að eftir mikinn hagvöxt undanfarin ár eru líkur á því að á þessu ári verði stöðnun, ekki aukning þjóðartekna, jafnvel nokkur samdráttur. Þar á ofan bætist sá vandi sem leiðir af lækkun bandaríkjadals og hefur valdið rýrnun viðskiptakjara, dregið úr kaupmætti útflutningstekna. Vandinn sem við er að etja er auðvitað fólginn í því að innflutningur dregst ekki saman í hátt við minnkandi útflutningsframleiðslu og við þurfum að taka ákvarðanir um aðhald í samræmi við þetta. Hagur atvinnufyrirtækjanna er erfiður við þessar aðstæður.

Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að miðað við rekstrarskilyrði í janúar sé botnfiskvinnslan rekin með halla á bilinu 3,7–5% eftir því við hvaða ávöxtunarkröfur stofnfjár er miðað. En hagur frystingar og söltunar er misjafn eins og oft vill verða í fiskvinnslu. Þess vegna er það mat stofnunarinnar að frystingin sé rekin með 7 til rúmlega 8% halla á meðan söltunin skili hagnaði sem svarar 1,5–2,6%. Þessar tölur eru auðvitað háðar miklu mati og geta m.a. breyst eftir því hvert fiskverðið er og við hvaða verði einstakir framleiðendur eru að kaupa sinn fisk og vafalaust eru einhverjir sem geta sýnt meiri hagnað en þetta, en aðrir sem geta sýnt tap.

Það hafa þegar verið teknar ákvarðanir í tengslum við viðræður sem ríkisstjórnin hefur átt við forustumenn fiskvinnslunnar sem miða að því að bæta rekstrarstöðu hennar. Þar er í fyrsta lagi um það að ræða að greiða út uppsafnaðan söluskatt sem ákveðið var að frysta á miðju si. ari þegar hagur sjávarútvegsins var betri og nauðsynlegt var að slá á þenslu með öllum tiltækum ráðum. Þá hafa verið teknar ákvarðanir um skuldbreytingar á opinberum gjöldum og til umræðu hafa verið frekari endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti en fjárlög gera ráð fyrir. Niðurstaða er ekki fengin af þeim umræðum, m.a. vegna þess að það er ekki vandalaust að mæta slíku tekjutapi fyrir ríkissjóð og það er ætlan ríkisstjórnarinnar að halda jöfnuði í ríkisfjármálum þó að leitað sé leiða til að slaka á í þessu efni vegna rekstrarvanda útflutningsframleiðslunnar. Það fer auðvitað eftir því hvernig slíkum ákvörðunum verður endanlega háttað og hversu víðtækar þær verða hvaða töluleg áhrif þær hafa á afkomu vinnslunnar.

Hagur útgerðar hefur verið miklu betri en vinnslunnar og er það enn og er talið að botnfiskveiðar standi nú í járnum miðað við skilyrði í janúar 1988. En auðvitað eru þessar tölur meðaltalstölur eins og aðrar og aðstæður einstakra skipa og mismunandi tegunda skipa, milli báta og togara, ólíkar að þessu leyti. En hluti af vanda fiskvinnslunnar stafar auðvitað af því að uppsveiflan í sjávarútveginum hefur að stærstum hluta orðið eftir í útgerðinni en ekki skilað sér með sama hætti til vinnslunnar og það kemur niður á fyrirtækjunum og launafólkinu í fiskvinnslunni. En uppsveiflan hefur orðið og orðið eftir í útgerðinni og auðvitað hljótum við að fagna því að rekstur hennar hefur gengið betur en oft endranær.

Það hafa verið blikur á lofti í verðlagsmálum. Markmiðið með heildarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að draga úr verðhækkunum. Vísitalan hækkaði um rúmlega 3,7% í byrjun þessa mánaðar, að langstærstum hluta til vegna þeirra breytinga sem

gerðar voru á söluskattslögunum, fækkun undanþága í söluskatti og þeirri tekjuöflun sem nauðsynleg var til að treysta stöðu ríkissjóðs. Áhrifin af lækkun tolla og einföldun tolla- og vörugjaldskerfisins voru ekki við upptöku vísitölunnar komin fram. Það er nú reiknað með að vísitalan í byrjun þessa mánaðar hækki um 1–1,5%, þ.e. að frá 3,7% hækkun í byrjun janúar komi hækkun upp á 1–1,5% og þó eru ekki komin fram öll áhrifin af lækkun tolla við þá verðupptöku.

Það hefur líka komið fram að byggingarvísitalan í janúar lækkaði um 1/2% á milli mánaða í kjölfar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin greip til. M.ö.o. sýna þessar tölur að það eru allar líkur á því og allir möguleikar á því að verðbólga geti gengið hér nokkuð örugglega niður á þessu ári ef við missum ekki út úr höndunum þann árangur sem þegar hefur náðst og slökum ekki á í þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið. Það er grundvallaratriði. En þessar tölur sýna að árangurinn er að byrja að skila sér og það eru allar líkur á því að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að þeir aðilar sem nú standa í kjarasamningum muni komast að niðurstöðum sem raski þessum markmiðum. Ég þykist vita að vilji þeirra stendur til þess að ná verðbólgu niður því það er höfuðatriði, meginatriði fyrir launafólkið og atvinnufyrirtækin í landinu.

Einn þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar voru aðgerðir í peningamálum sem miðuðu að því að örva innlendan sparnað. Það hefur farið fram veruleg umræða um vexti. Stefnan sem ríkisstjórnin hefur fylgt byggist á þeirri löggjöf sem samþykkt var á fyrra kjörtímabili og óumdeilt hefur skilað verulegum árangri í þá veru að halda uppi innlendum sparnaði. Ég get hins vegar tekið undir að vextir hér á landi eru of háir og við þolum það ekki til lengdar, hvorki atvinnufyrirtækin né heimilin, að vextir séu jafnháir og þeir eru. En þeir eru óneitanlega þáttur í því að tryggja hér jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og forsenda fyrir því að þeir lækki er að við náum tökum á verðbólgunni og eftir þeim grundvallaratriðum verður farið og hvergi hvikað né slegið af í þeim aðhaldskröfum og þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið.

Í skýrslu Seðlabankans frá því í desember kemur fram að meðalvextir óverðtryggðra skuldabréfalána banka og sparisjóða voru um 4,7% á árinu 1987 borið saman við 4,3% árið 1986 og meðalvextir verðtryggðra skuldabréfa banka og sparisjóða voru 7,7% árið 1987 og 5,2% árið 1986. Vextir hafa verið háir hér eins og hjá öðrum iðnríkjum og í skýrslu Seðlabankans kemur fram að meðaltal raunvaxta hér á landi á árinu 1987 virðist vera mjög svipað og annars staðar í iðnvæddum ríkjum. Auðvitað hefur sú óvissa sem nú ríkir um lausn kjaramála áhrif í þessu efni í þá veru að halda uppi vöxtum. En þegar niðurstaða hefur fengist á þeim vettvangi og þeirri óvissu hefur verið eytt og ljóst liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að hvika frá sínum markmiðum mun verðbólga smám saman ganga niður og vextir lækka.

Hver hefur árangurinn verið? Menn segja gjarnan: Þessi vaxtastefna hefur ekki skilað neinum árangri til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaðnum. Því hefur verið haldið fram að útlán hafi aukist meira en innlán. Við skulum skoða þetta aðeins. Hvað hefði gerst með innlánin ef þessari vaxtastefnu hefði ekki verið fylgt fram? Hvernig hefði þá farið í þeim efnum?

Við verðum líka að hafa í huga að þó að útlánin hafi aukist á tímabili meir en innlánin varð innlánsaukningin umfram aukningu lánskjaravísitölu og það er alveg ótvíræður vottur um að þessi stefna í peningamálum hefur skilað árangri að því markmiði að ná hér jafnvægi og örva innlendan sparnað. Þannig jukust bundin innlán og almennt sparifé um 34% meðan lánskjaravísitalan hækkaði um 21% á tímabilinu frá því í nóvember 1986 fram til nóvember 1987. Það er um 10–11% raunaukning. Á síðustu vikum benda tölur um innlán og útlán banka til þess að nú hafi þróunin enn snúist við og innlánin vaxi nú hraðar en útlánin. Fyrstu þrjár vikur janúarmánaðar jukust þannig innlán banka um 2,9% meðan útlánin drógust saman um 1,6%. Við verðum auðvitað að spara ef við ætlum að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við verðum að halda uppi innlendum sparnaði ef við ætlum ekki að sökkva í erlent skuldafen á nýjan leik. Auðvitað hafa háir vextir einhver verðlagsáhrif. Það kom fram hér mjög skilmerkilega í ræðu hv. 1. þm. Vestf. í gær að vegna samkeppnisstöðu fyrirtækja fer því víðs fjarri að þessir háu vextir komi allir fram í verðlagi. En einhver áhrif hefur það. Því skulum við gera okkur fulla grein fyrir. Hitt er hins vegar mikilvægara að þetta jafnvægi raskist ekki því að við höfum of mörg dæmi um það. Falli sparnaðurinn innan lands sökkvum við í erlend skuldafen með eðlilegum verðbólguafleiðingum. Við ætlum okkur ekki að gera það og verðum þess vegna að ganga í gegnum þetta þangað til verðbólgan er komin niður. Nú sjáum við merki þess að hún er á niðurleið ef menn hvika ekki frá aðhaldsstefnunni. Þetta má segja að séu höfuðatriðin.

Það er jafnan rætt í þessu samhengi um gengisstefnuna. Ég tók það fram að stöðugleiki í gengismálum væri höfuðforsenda fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefði fylgt, forsenda fyrir árangri í baráttu við verðbólgu og í þeirri viðleitni að verja kaupmátt launa. Ég tek hins vegar heils hugar undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að þessi mál verða menn að ræða af mikilli varfærni og allar ótímabærar yfirlýsingar þar um eru varhugaverðar.

Raungengi krónunnar hefur hækkað. En menn eru almennt orðnir sammála um að það þjóni ekki tilgangi að fella gengi krónunnar upp á gamla mátann einfaldlega í samræmi við kostnaðarhækkanir innan lands, draga þannig úr öllu aðhaldi og kalla yfir okkur nýjar kostnaðarhækkanir, skilja atvinnuvegina eftir í sömu sporum og uppskera aðeins verðbólgu. Stærstur hluti af kostnaði útflutningsframleiðslunnar, fiskvinnslunnar, ekki síst frystingarinnar, er svo nátengdur þáttum sem ráðast af gengi. Fiskverðið, sem er yfir helmingur af kostnaðinum, ætli það mundi ekki breytast ef gengi yrði breytt svo einhverju muni? Þar með hækkaði helmingurinn af kostnaðinum um leið. Fjármagnskostnaðurinn, eins og hér hefur komið fram, er sjálfsagt kominn yfir 20%, allur tengdur gengi. Launin eru að breytast. Umtalsverð gengisfelling mundi þess vegna ekki skila sjávarútveginum neinu. Hann stæði í sömu sporum eftir sem áður. Það eina sem við hefðum fengið upp úr krafsinu væri aukin verðbólga. Þess vegna verða menn að fara gætilega í þessu efni. Þess vegna er það hyggileg stefna sem hér hefur verið fylgt og þessi ríkisstjórn hefur ekki látið hrekja sig frá þó að uppi hafi verið ýmsar raddir og háværar kröfur þar að lútandi vegna þess að það er forsenda fyrir því að við náum okkar markmiðum.

Þessi þrjú grundvallaratriði standa þess vegna óhögguð: sem mestur stöðugleiki í gengismálum, jafnvægisstefna í peningamálum sem heldur uppi innlendum sparnaði og jöfnuður í rekstri ríkissjóðs. Og það er alveg sama hvað menn hamast og heimta tilslakanir á þessum grundvallaratriðum efnahagsstefnunnar. Þær verða ekki gerðar vegna þess að við ætlum okkur að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Það er vandasamt að gera kjarasamninga við þessar aðstæður, en ég hef trú á að sá skilningur sé fyrir hendi af hálfu þeirra sem mesta ábyrgð bera í þeim efnum að menn leiði þau mál til lykta á grundvelli þessara markmiða. Þar á bak við eru sameiginlegir hagsmunir, ekki síst lágtekjufólksins í þessu þjóðfélagi. Mesta ógæfan sem fyrir kæmi vegna lágtekjufólksins væri sú að verðbólgan færi upp á við á nýjan leik. Það kann að vera erfitt og reyna á að fylgja fram aðhaldsstefnu og menn kunna þegar heitast brennur eldurinn að vilja gefa eftir, en við verðum að ná þessum markmiðum og fylgja þess vegna fram þeirri grundvallarstefnu sem hefur verið mörkuð og ná þeim markmiðum. Það hefur mikið verið gert á skömmum tíma. Verðbólgan fór upp á síðasta ári of mikið og við höfum ekki séð verðbólgutölur eins og við sáum í byrjun janúar sambærilegar síðan í janúar 1985 og það er sannarlega áhyggjuefni. (ÓÞÞ: Í janúar á þessu ári.) Í janúar á þessu ári voru verðbólgutölurnar sambærilegar við það sem var í janúar 1985 og slíkar tölur höfum við ekki séð síðan. Þetta veldur okkur áhyggjum. Þetta hlýtur að hvetja okkur til þess að standa fast og einarðlega á þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið, sett hefur verið í framkvæmd og fylgt verður. Og við sjáum merki þess að þessi stefna er að skila árangri ef menn gefa ekki eftir.

Ég ítreka það að ég vænti þess að sú óvissa sem nú er fyrir hendi í kjaramálum vari ekki lengi. Ég mun eiga viðræður á morgun við fulltrúa aðila til þess að meta frá þeirra hendi hverjar horfur eru í þessum efnum. Við munum halda áfram því starfi sem hefur verið á döfinni undanfarnar vikur. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir í ýmsum efnum varðandi rekstrarskilyrði fiskvinnslunnar, sem ég hef þegar greint hér frá. Þar eru ýmis atriði enn óleyst og ég vænti að við munum komast að niðurstöðu þar um í svipaðan mund og við finnum sameiginlega, Íslendingar, lausn á þeim vanda sem er að gera upp kjarasamninga, ákvarða tekjuskiptingu við þessar vandasömu aðstæður, að þjóðartekjur eru heldur að minnka. Kaupmáttur hefur vaxið. Við þurfum að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir án þess að það æði upp allan launastigann og leiði til nýrrar verðbólgu. Ég trúi því að um þessi meginmarkmið sé býsna mikill samhugur meðal íslensku þjóðarinnar.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér fannst nú leiðinlegt að ungur maður eins og hæstv. forsrh. skuli alltaf halda sömu ræðuna, sérstaklega þegar fer að nálgast kjarasamninga. (Forsrh.: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.) Hann talar í rauninni alveg eins og þegar hann sat vestur í Vinnuveitendasambandi. Þá var kenningin: Launin mega ekki hækka. Þá fer allt úr böndunum, verðbólgan æðir yfir allt.

Laun hafa ekki hækkað hjá okkur núna síðan í október. Það hafa engin rauð strik verið. Það hefur engin hreyfing svo að segja verið á samningamálum. Samt hefur verðbólgan ætt upp svo að honum óaði við í janúar 1988. Það er nefnilega alls ekki einhlítt þó að fólk fái ekki launin sín hækkuð. Verðbólgan hefur oft hækkað fyrir það. En þetta er svipa á fólk þegar það sest að samningum vegna þess að það fólk sem lökust hefur kjörin veit að verðbólga bitnar illa á því. En ég skil það ekki, ef hann hefur svo mikinn áhuga fyrir því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, af hverju þeir byrja bara ekki heima hjá sér. Það fólk sem hefur einna lélegust laun í dag er á þeirra geira. Þar eru laun mjög algeng frá 31 þús. og upp í rúm 40 þús. og það er nú í febrúar. Langar þá sjálfa til að lifa af þessum launum? Og hvernig fer fólk að því að lifa á þessum launum? Það leggur á sig alveg ótrúlega vinnu. Það eru mörg dæmi, sem ég þekki núna síðustu 1–2 árin, um það að fólk vinnur ekki á einum vinnustað, það vinnur á tveimur og það vinnur jafnvel á þremur. Menn ættu allir að geta sagt sér það sjálfir hvernig svona vinnulag fer með heimilin, einkum þegar það er kona sem verður að leggja slíka vinnu á sig. Ef þið haldið að þetta sé ekki rétt get ég nokkurn veginn gefið ykkur upp hvernig þetta gengur til. Konan vinnur á barnaheimili, kannski ekki alveg hellan vinnudag, síðan fer hún út og skúrar og svo fer hún jafnvel út á veitingastað og uppvartar.

Og hvernig fer þetta svo með fólk? Ég hef fram að þessu verið í stjórn lífeyrissjóðs. Þar var árið 1987 áberandi fjölgun á fólki sem var á örorku. Nú fer heldur fækkandi í félaginu. Árið 1986 voru örorkuþegar 138, árið 1988 voru þeir komnir upp í 162. Þetta er fólk sem ekki er orðið 67 ára og þar af leiðandi ekki komið á ellilaun. Þetta er það sem fólk ber úr býtum í þessum vinnuþrældómi sem við búum við. Þetta er nú velferðarþjóðfélagið okkar í dag og mér skilst að kjör þessa fólks megi alls ekki batna.

Þegar laun voru hækkuð á Vestfjörðum um 13% sagði hæstv. forsrh.: Þessi laun mega ekki fara yfir allt. Það er allt of mikið. Hann segir það sama enn. Þetta segir hæstv. ráðherra þó að hann sé alþm. í kjördæmi þar sem nærri hver einasti launamaður vinnur á strípuðum töxtum, þar sem nær ekkert er til af hálaunafólki og þar sem er meira viðvarandi atvinnuleysi en kannski í nokkru kjördæmi öðru, einkum í Rangárvallasýslunni.

En þetta er það sem við heyrum í hvert einasta skipti sem samningar eru gerðir. Því er það að nú í seinni tíð og á seinni árum hef ég æ meir og meir komist á þá skoðun að löggjafinn verður að gera eitthvað sérstakt fyrir láglaunafólk. Þetta verður ekki lagað í kjarasamningum. Ég hef ekki trú á því og hef ekki haft það í nokkra hríð. Það er staðið yfir fólki, þegar verið er að semja, með svipuna í hendinni: Ef þú gerir þetta, ef þú gerir hitt, þá skal þér hegnt með verðbólgu eða atvinnuleysi. Það er alveg sama hvað forsrh. segir hér um frjálsa samninga. Samningar eru ekki frjálsir þegar svona hótanir dynja sífellt á fólki. Hann hlýtur að vita sjálfur hvað hann segir.

Það er vonandi að það gangi eitthvað þegar þeir tala saman á morgun. En ef það er of mikið að það fólk sem nú hefur um 30 þús. kr. tekjur fái bættar tekjur sínar með 13% launahækkun yfir árið get ég ekki óskað neinum til hamingju sem ætlar að fara að gera þá kjarasamninga.

Það er sjálfsagt nokkuð sem við vildum helst öll að fólk geti sjálft gert út um sín mál, sest niður og samið sjálft og gert út um sín mál sjálft, en þetta hefur bara ekki tekist. Það er alltaf spiluð þessi sama plata: Það má ekkert hækka, þá fer allt úr böndunum. Atvinnurekendum hefur tekist að halda launum niðri með góðri hjálp ríkisvaldsins og opinbera geirans og síðan er blekið varla þornað á samningunum þegar farið er að yfirborga og koma með alls konar aukasporslur handa þeim sem þeir vilja sjálfir. Ég hef setið á móti atvinnurekanda við samningaborð og hann hefur alveg sett hnefann í borðið og harðneitað að semja um þá launahækkun sem við vorum að fara fram á, en hann sagði okkur hins vegar hlæjandi: Mér dettur ekki í hug að borga þessi laun í mínu fyrirtæki. Ég borga meira. Það er svo gott að vera góður strákur og geta látið kenna þessum vondu verkalýðsrekendum, eins og þeir sögðu þá, um. Hann sagði þetta ekki. Þetta eru mín orð. En svona hafa þeir unnið.

Það væri hægt að segja afskaplega mikið um efnahagsmálin ef fólk vissi bara hvernig þau eru eða hvert þau stefna. Róm er að brenna, segir utanrrh. og síðan fer hann í sólbað til Tælands, held ég.

Það vita allir að við búum við viðskiptahalla. Við vitum ekkert hvað mikinn. Það vita allir að við búum við vaxtastefnu sem er smátt og smátt að beygja fleiri og fleiri niður í duftið, sem er að gera fleiri og fleiri að öreigum. Það hefði einhvern tíma ekki átt að vera stefna þess flokks sem hæstv. forsrh. er formaður fyrir. Nauðungaruppboðum fjölgar svo mikið að borgardómari hefur ekki orðið við og hefur hann þó bætt við sig miklu starfsliði, að hann segir. Auðvitað eru sum þessi nauðungaruppboð á fyrirtækjum, en þau eru kannski einna mest á íbúðarhúsnæði fólks. Það rís nefnilega enginn undir skuldum af íbúðarhúsnæði sem það hefur keypt eða byggt í seinni tíð og verður að búa við þessa óréttlátu vaxtastefnu.

Gengið er fallið og það á eftir að falla meira. Það er áreiðanlegt að það á eftir að falla. Staða útflutningsatvinnuveganna er slæm, segja þeir a.m.k., og ég geri ráð fyrir að það sé mikið til í því þó það sé hins vegar venja líka, ég verð að segja það, að menn bera sig ekki vel þegar líður að kjarasamningum. Það kemur alltaf einkennilegur fjörkippur í menn þegar búið er að semja. Það er eins og menn eigi þá alltaf meira í buddunni. Ég minnist þess ekki síðan ég kom til vits og ára að það hafi ekki verið ákaflega neðarlega hljóðið í mönnum um það leyti sem það átti að semja. En það breytist oft um leið og staðið er upp.

Ég verð að segja að að einu leyti get ég verið sammála þeim þarna í Garðastrætinu og það er að ég hef ekki trú á kjarasamningum til þriggja eða fjögurra mánaða vegna þess að þeir þýða samninga a.m.k. til hausts. Við vitum að ef samið er t.d. fram að 1. maí verða engir frekari samningar gerðir fyrr en í haust. Ég held að það sé þess vegna betra að taka samninga til lengri tíma, en þá er alveg öruggt að það verður að opna pyngjuna betur. Það semur enginn við þessa ríkisstjórn upp á von og óvon. Það treystir henni enginn orðið, a.m.k. ekki launþegastéttin. Fólk gerir það bara ekki. Enginn veit upp á hverju hún tekur. Það duttu engum í hug, held ég, í fyrra þegar gengið var til kosninga þær efnahagsráðstafanir sem nú hefur verið gripið til. Það datt engum í hug, þegar hann hlustaði á orðin „Hverjir eiga Ísland?", að lagður yrði á matarskattur t.d. Ég skal ekki fara meira út í hann í bili. En ég held að engum hafi dottið það í hug.

Ég er sannfærð um að sú varfærni og sú tregða sem nú er á kjarasamningum byggist að miklu leyti á þessu vantrausti, þessu algera vantrausti og þessari vantrú sem er á ríkisstjórninni. Hún hefur á sínum tiltölulega stutta ferli gert hverja aðförina af annarri í vasa launafólks og ráðist verst á þá sem verst eru settir. Það verður fróðlegt að vita upp á hvað þeim verður boðið á morgun í viðræðum. Ætla þeir t.d. að bjóða láglaunafólki með undir 45 þús. kr. á mánuði — ég nefni ekki lægri tölu, ég skil ekki hvernig fólk á að geta lifað á lægra mánaðarkaupi — einhverja afkomutryggingu sem ríkisstjórnin ábyrgist? Ætla þeir að gera það? Eða ætla þeir að halda sig við þetta að bjóða fólki allt niður í 31 þús. kr. á mánuði í mánaðarlaun og kannski mest upp í rúmlega 40 þús. kr.?

Það er rétt að verkalýðshreyfingin stendur dálítið illa að vígi til að fara í hörku í kjarasamningum. Það er rétt að það er svo margur sem baslar við skuldir og á erfitt þar af leiðandi með að leggja frá sér verk og taka á. En ég er sannfærð um það, ég held það ekki, ég er sannfærð um það að það kemur að því að ef þeir sem stjórna málefnum þjóðarinnar ætla að halda áfram að haga sér eins og þessi stjórn hefur gert hlýtur fólk að taka hraustlega á móti. Það getur ekkert annað skeð. Það ræður engin ríkisstjórn á Íslandi við alþýðuhreyfinguna eða launþegahreyfinguna ef hún stendur saman og ef hún virkilega snýr sér að því að krefjast síns réttar.

Ég hef aldrei verið mikill talsmaður verkfalla. Ég fór í gegnum þau mörg á mínum yngri árum og ég veit alveg hvernig þau léku mig en samt sem áður er ég ekki alveg samþykk því þegar fólk talar um að þá hafi verið svo auðvelt að fara í verkfall. Við fórum í verkfall með vikukaupið í vasanum. Við vissum ekkert hve langt þetta verkfall varð. Það gat verið — ja, ég man eftir sex vikna verkfalli. Kaupmaðurinn á horninu hélt í manni lífinu á meðan þetta gekk yfir þrátt fyrir það að maður rifist við hann daglega og hefði ólík sjónarmið. Tíminn fram að verkfalli fór í það að borga skuldirnar. En í gegnum þessi verkföll vannst þó ýmislegt. Það vannst ýmislegt sem hefur orðið verkalýðnum að hvað mestu liði síðan. Og verkalýðurinn hann hélt sinni reisn.

Ég held að launþegahreyfingin íslenska hafi orðið mikla þörf fyrir að eignast aftur þá reisn sem hún hafði þá. Mér þykir nógu vænt um hana til að óska þess að hún eignist hana á ný.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það sem ég sagði áðan um efnahagsmálin. Þau eru í afskaplegri óvissu og ég er sannfærð um að fólk veit ekkert hvert ríkisstjórnin ætlar í þeim málum. Ég get reyndar bætt því við að þeir hafa ekki hugmynd um það sjálfir hvert þeir ætla. Öll þeirra verk núna upp á síðkastið hafa sýnt það að þeir vita kannski hvaðan þeir leggja upp, en þeir vita ekkert hvar þeir enda, hafa ekki hugmynd um það.

Ég var að lesa blöðin áður en ég fór hérna í þingið í morgun. Hvernig er með tollana? Hvernig er með skattana? Það kváðu vera einir þrír mánuðir í það að tollurinn komist í lag svo að hægt sé að vinna tollskjölin. Skatturinn fer einhvers staðar ofan í skúffu því að þar er ekkert komið í lag.

Það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er svo sannarlega ekki traustvekjandi. Ég sé að hæstv. fjmrh. brosir. Honum finnst svo gaman að þessu, sjálfsagt. En ég held að það séu margir, og þeim fer fjölgandi í hans eigin flokki þó að honum takist að heilaþvo þá stundum, sem hafa ekkert gaman af þessu, ekki neitt.

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa mjög langt mál því hæstv. forsrh. hefur gert ítarlega grein fyrir stöðu efnahagsmála. Ég fagna því hins vegar að þessi umræða fer fram og ég fagna því að stjórnarandstaðan hefur hafist handa um að taka upp þessa umræðu hér á Alþingi. Ég tel að það sé til góðs að það sé gert, sérstaklega ef það má verða til þess að auka raunsæi í efnahagsmálum, hér á Alþingi, hjá þjóðinni allri, hjá launþegum og hjá vinnuveitendum og ég ætla ekkert að undanskilja ríkisstjórn í því sambandi. Auðvitað er það mikilvægt til þess að við getum tekið réttar ákvarðanir og þá án þjóðfélagslegra átaka. Mér þótti leitt að heyra síðasta ræðumann, hv. 16. þm. Reykv., halda því fram að hún óskaði þess helst, ég skildi hana svo, að verkalýðshreyfingin fengi sína fyrri reisn. Ég hef ekki orðið var við það að verkalýðshreyfingin hafi misst sína reisn. En ef það þarf til að vinna reisn að efna til átaka í þjóðfélaginu er illa fyrir okkur komið.

Við verðum hins vegar að gera okkur fulla grein fyrir hvaða ástandi við stöndum frammi fyrir og höfum staðið frammi fyrir lengi. Við stöndum frammi fyrir því að viðskiptahalli verði 4–5% af þjóðartekjum eða svipað og var 1983. Á árinu 1983 varð allt að því hallæri í þessu landi. Við urðum fyrir miklum áföllum og tekjur okkar lækkuðu mikið. Við höfum smátt og smátt verið að vinna okkur út úr þessu ástandi. Við höfum stóraukið okkar þjóðartekjur, við höfum stóraukið kaupmátt og ráðstöfunartekjur eins og hér hefur komið fram. Það er því ekki um það að ræða að við höfum orðið fyrir stórkostlegu áfalli. Það er hins vegar um það að ræða að tekjur okkar hafa hækkað mikið á undanförnum árum og það er eins og allt þjóðfélagið vænti þess að þessar tekjur geti haldið áfram að hækka og það sé vandalaust að halda kaupmætti ráðstöfunartekna síðasta árs jafnvel þótt þjóðartekjur dragist eitthvað saman og nauðsynlegt hafi verið að lækka halla á ríkissjóði eða koma á hallalausum ríkisbúskap.

Auðvitað hlaut sú ákvörðun, að koma á hallalausum ríkisbúskap, að leiða til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkaði. Það varð ekkert hjá því komist. Það má auðvitað deila um það hvernig það skuli gert og hvaða sköttum skuli beitt í því sambandi. Ég tel að þar hafi verið rétt haldið á málum en það varð ekki hjá því komist að slíkt leiddi til nokkurrar kjararýrnunar, nema það hafi þá verið ætlunin að velta slíku yfir á atvinnuvegina sem geta ekki undir því staðið.

Ég vildi aðeins gera að umræðuefni rekstrargrundvöll atvinnuveganna, þá einkum sjávarútvegsins. Ég vænti þess að um það sé samstaða hér á Alþingi, og mér heyrist það, að þessi rekstrargrundvöllur, þ.e. botnfiskvinnslunnar, er óviðunandi. Botnfiskvinnslan getur ekki staðið undir neinum kostnaðarhækkunum. Það hefur verið mikið á hana lagt að undanförnu. Fiskverð hefur hækkað, laun hafa hækkað þrátt fyrir allt og vaxtakostnaður hefur hækkað mikið. Ef svo heldur fram sem horfir getur ekkert annað gerst en að þessi botnfiskvinnsla stöðvist og þar með undirstaða okkar samfélags. Og ætli það muni nú ekki koma við okkur öll, hvar sem við stöndum í þjóðfélaginu, ef þessir atvinnuvegir stöðvast? Hjá því þarf að komast. Það er eitt af þeim verkefnum sem ríkisstjórnin á nú við að glíma og er jafnframt helsta viðfangsefni kjarasamninga um þessar mundir.

Það hefur verið til umfjöllunar í ríkisstjórn, eins og hæstv. forsrh. tók fram, með hvaða hætti yrði aftur tekin upp endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í meira mæli en þegar hefur verið ákveðið og hvernig að því verður staðið. Það er ekki komin niðurstaða í það mál en ég held að sú skoðun sé ótvíræð að hjá því verði ekki komist miðað við þá stöðu sem nú er uppi.

En það er fleira sem verður að gera. Ég minni á þann viðskiptahalla sem við stöndum frammi fyrir sem áreiðanlega verður vart undir 10 milljörðum ef svo fer fram sem horfir. Það er nokkuð sem við Íslendingar getum ekki staðist til langframa og er óafsakanlegt í því árferði sem nú er.

Menn hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hafi setið auðum höndum í þessu máli. Svo er alls ekki. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að því í samvinnu við Alþingi, að sjálfsögðu, að koma á hallalausum ríkisbúskap. Á sl. hausti, þegar laun hækkuðu vegna ákvæða um svokölluð rauð strik, var rætt við aðila vinnumarkaðarins um það hvort ekki væri rétt að fresta þeirri hækkun og nota það svigrúm sem þar kom til þess að jafna launin í landinu. Þær umræður sem þá fóru fram í ríkisstjórn báru þess vott að menn skildu það að slík launahækkun mundi verða til þess að það yrðu brestir í undirstöðuatvinnuvegunum og því væri mikilvægt að koma í veg fyrir þá launahækkun og það svigrúm yrði notað til þess að jafna launamun í landinu. Á það var ekki fallist af aðilum vinnumarkaðarins og þeir töldu réttara að sú launahækkun gengi fram og tekið yrði til við kjarasamninga síðar. Ég tel að þarna hafi orðið mikil mistök og ríkisstjórnin reyndi að gera sitt til að koma í veg fyrir að svo yrði.

Hitt er svo annað mál að ég held að ekki verði hjá því komist að gripið verði til frekari aðhaldsaðgerða í þessu þjóðfélagi til að draga úr viðskiptahallanum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að sú lækkun sem þarf að verða á viðskiptahallanum komi eingöngu fram í rýrnandi kaupmætti fólks hér í landinu. Það verður jafnframt að koma fram í minnkandi fjárfestingum.

Það liggur fyrir samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar að fjárfestingar muni aukast í allmörgum greinum á árinu 1988. Þannig er gert ráð fyrir að fjárfestingar í íbúðarhúsnæði aukist verulega sem er að sjálfsögðu þenslumyndandi og enginn vafi á því að það þarf að gera ráðstafanir til að svo verði ekki. Það er gert ráð fyrir að fjárfestingar í atvinnuvegum, bæði fiskveiðum og iðnaði, verði verulegar og að mínu mati of miklar. Það hefur gætt mikillar bjartsýni í sjávarútvegi og það hefur orðið til þess að margir hyggja á endurnýjun skipa sinna og endurnýjun í sínum fyrirtækjum. Það er út af fyrir sig eðlilegt vegna þess að það hefur verið lítið svigrúm til að endurnýja flotann á undanförnum árum og hann er á margan hátt úreltur. Það má hins vegar ekki gerast nema fyrir því sé fjárhagslegur grundvöllur og því miður hefur það gerst í allmörgum tilvikum að út í slíkar fjárfestingar hefur verið farið án þess að rekstrargrundvöllur væri fyrir hendi og viðkomandi fjármálastofnanir hafa ekki stöðvað slíkar fjárfestingar.

Ég hef fyrir mitt leyti átt viðræður við stjórn Fiskveiðasjóðs og lagt á það áherslu að slíkt gerist ekki og að þar verði gætt mikils aðhalds í öllum lánveitingum. Um það hefur verð rætt í ríkisstjórn að það sama eigi einnig við aðra fjárfestingarlánasjóði.

Það vekur einnig athygli hversu miklar fjárfestingar eru fyrir höndum hjá sveitarfélögunum og þá einkum hjá Reykjavíkurborg. Og það er ástæða til að fara þess á leit við stjórnendur þess sveitarfélags að gæta raunsæis í fjárfestingum og reyna að halda þeim í skefjum því að ábyrgð þess stóra sveitarfélags er mikil í þessu þjóðfélagi. Það eru ekki eingöngu atvinnurekendur, launþegar, ríkisvald og fjármálastofnanir sem bera ábyrgð, heldur ekkert síður sveitarfélögin í landinu. Þetta sveitarfélag hefur gefið út áform um það að fjárfestingar þess verði á árinu 1988 tæplega 41/2 milljarður kr. Þetta mun að sjálfsögðu valda mikilli þenslu hér á Reykjavíkursvæðinu. Og ekki er nú á bætandi. Það hlýtur að vera á ábyrgð þessarar sveitarstjórnar, sveitarstjórnar Reykjavíkur að koma í veg fyrir að slíkt þensluástand sé hér.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins leggja á það áherslu að við verðum að ráðast gegn þeim viðskiptahalla sem við horfum nú fram á, viðskiptahalla sem mun valda verðbólgu og þenslu ef ekki verður á tekið. Það er alveg sama hvaða kjarasamningar verða undirritaðir af aðilum vinnumarkaðarins. Ef okkur tekst ekki að koma í veg fyrir þensluna mun okkur ekki takast að koma í veg fyrir launaskrið og launahækkanir og það mun koma verst við þá sem minnst bera úr býtum og lágtekjuhópana.

Hv. 16. þm. Reykv. hefur mikla reynslu í sambandi við kjaramál, reynslu sem er mikils virði og rétt er að hlusta eftir hennar reynslu. Hún sagði áðan að hún hefði ekki trú á því að aðilar vinnumarkaðarins mundu geta bætt kjör hinna lakast settu. Þetta er nú samt það verkefni sem aðilar vinnumarkaðarins hafa. Og þetta eru þau hugtök sem aðilar vinnumarkaðarins nota þegar nú er verið að standa í kjarasamningum. Ef það er rétt hjá hv. þm. að það sé alls ekki svo — og hún sagði að ríkisstjórn yrði að tryggja það að kjarabætur yrðu fyrst og fremst til þessa fólks. Það hefur oft verið reynt og það hefur verið gripið inn í kjarasamninga undir þeim merkjum að það ætti fyrst og fremst að bæta kjör þeirra sem minnst bæru úr býtum. Ég minni t.d. á að það var gert hér 1978 í febrúar og það er enginn vafi á því að þær aðgerðir lutu að því að bæta fyrst og fremst kjör hinna lægst.launuðu. En þær aðgerðir voru brotnar niður af aðilum vinnumarkaðarins og ekki virtar af þeim. Það er alveg sama hvað ríkisvaldið gerir í reynd. Þegar upp verður staðið er það fyrst og fremst ábyrgð aðila vinnumarkaðarins að sinna þessu verkefni og koma því til leiðar að laun þeirra lægst launuðu hækki sem mest. Það er hins vegar hlutskipti ríkisvaldsins að gæta þess að félagsleg aðstaða þessa fólks sé sem best og skattlagning á það sé hófleg. En ég á von á að það sé mjög erfitt að koma tekjuauka til þessa fólks í gegnum skattakerfið eins og það er í dag því að persónuafsláttur og barnabætur og ýmislegt fleira er þrátt fyrir allt svo hátt að lægstu laun bera litla sem enga skatta.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Steingrími Sigfússyni fyrir að hefja máls á þessu alvarlega máli. Ég hafði vænst þess að það kæmi betur fram í hans máli hvað þeir í stjórnarandstöðunni vildu gera. Það er út af fyrir sig eðlilegt að krefjast svara af hæstv. ríkisstjórn, en stjórnarandstaðan ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð í þessu máli jafnframt. Það er ekki hennar hlutskipti á nokkurn hátt og ég vænti þess að það sé ekki hennar ætlan að fara að efna til deilna og jafnvel átaka eða hvetja til þeirra á vinnumarkaði. Það hefur stjórnarandstaða stundum gert en ég vænti þess að stjórnarandstaðan ætli sér ekki slíkt í dag að efna til átaka á vinnumarkaði því að síst af öllu megum við við því miðað við þá stöðu sem nú er í þjóðarbúinu.

Sigríður Lillý Baldursdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar til umræðu. Menn eru raunar ekki á eitt sáttir um að um stefnu sé að ræða. Sumir trúa því að fyrstu skref hæstv. ríkisstjórnar hafi verið mistök og framhaldið hljóti að verða á öðrum nótum. En ég hræðist að hér sé í raun um stefnu að ræða, stefnu þar sem réttur fjármagnsins og þeirra fáu sem það eiga er settur í forgang, en réttur fólksins settur í afgang.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á það áherslu að ríkissjóður verði hallalaus. Aðgerðir hennar eru við það miðaðar og það er vel í sjálfu sér, en aðferðin sem beitt er til að svo megi verða er ekki rétt. Á sama tíma og þeim sem ágætar tekjur hafa er enn léttur róðurinn með því að falla frá stighækkandi tekjuskatti nú þegar staðgreiðsla hans er tekin upp er seilst sérstaklega í léttar pyngjur láglaunafólks með því að leggja söluskatt á alla matvöru og hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert til að taka á þeirri hávaxtastefnu sem hefur verið við lýði undanfarin ár og gert mörg heimili og framleiðslufyrirtæki í landinu gjaldþrota.

Gerir hæstv. ríkisstjórn sér ekki grein fyrir því hvaðan fjármagnið í ríkiskassann er sprottið? Fjármagnið er sprottið frá vinnu fólksins í landinu og framleiðsla er grundvallaratriði hagkerfisins. Að fylla ríkiskassann á kostnað láglaunafólks og horfa fram hjá vanda framleiðslufyrirtækjanna er því skammgóður vermir.

Margt hefur verið rætt og ritað um 25% söluskattsálagningu hæstv. ríkisstjórnar á matvöru. Skattur þessi, sem nefndur hefur verið matarskattur, kemur misþungt niður. Verst bitnar hann á þeim sem hafa lægst launin eins og ég gat um áðan, en til að geta betur áttað sig á því ætla ég að setja upp dæmi.

Skoðum matarútgjöld tveggja fjögurra manna fjölskyldna og gerum ráð fyrir að þær hafi þurft 30 þús. kr. til matarkaupa í ágúst. Eftir áramótin þegar álagning matarskattsins var komin á að fullu hækkaði sú upphæð í 37 500 kr. Gerum nú ráð fyrir að tekjur annarrar fjölskyldunnar séu 150 000 kr. á mánuði. Hlutfall matarútgjalda af heildartekjum þessarar fjölskyldu fyrir álagningu söluskattsins var 20%, en eftir söluskatt á matvæli varð hlutfall matarkostnaðar af heildartekjum 25%. Gerum nú ráð fyrir að hin fjölskyldan hafi haft 50 000 kr. í tekjur. Fyrir áramótin var hlutfall matarkaupa af tekjum þessarar fjölskyldu 60%, en eftir matarskatt var hlutfallið orðið 75%. Hlutfall útgjalda vegna matarkaupa hækkaði um 5% hjá þeirri fjölskyldu sem hafði hærri tekjurnar, en um 15% hjá hinni fjölskyldunni sem hafði lægri tekjurnar með tilkomu matarskattsins. Þetta er fjölskyldustefna hæstv. ríkisstjórnar.

Ég veit að fátt er einfaldara en að setja upp sannfærandi töludæmi og fá hvað það fram sem viðkomandi þóknast. En mér er ómögulegt að koma auga á nokkra sanngirni með vangaveltum mínum um 25% söluskatt á matvæli. Skoðum aftur sömu fjölskyldurnar og í dæminu hér áðan, en í stað þess að skoða hlutfallslega hækkun matarútgjalda af tekjum, það lifir enginn á prósentunni í sjálfu sér, skulum við nú athuga hver afgangurinn af tekjum þessara fjölskyldna er þegar matarkaupunum sleppir, það fé sem þessar fjölskyldur eiga að nota í önnur nauðsynleg útgjöld, skatta og til kaupa á lágt tolluðum lúxusvarningi.***

Sú fjölskylda sem hafði 150 000 kr. í tekjur hefur í afgang þegar hún er búinn að kaupa matinn sinn 120 000 fyrir matarskatt og 112 500 eftir matarskatt. Líklegast þurfum við ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessari fjölskyldu. Lítum á hina. Hún hefur 50 000 í tekjur þannig að fyrir matarskatt var afgangur tekna þegar matarkaupum sleppti 20 000 kr. Eftir matarskatt var afgangurinn einungis 12 500 kr.

Við í Kvennalistanum höfum verulegar áhyggjur af þessari fjölskyldu, en þær eru margar fjölskyldurnar í landinu sem eru líkt eða jafnvel enn verr settar. Hækkun barnabóta og lífeyrisgreiðslna er fjarri því að vega upp þá lífskjaraskerðingu sem matarskatturinn veldur og ég bið menn að athuga að fjölskyldurnar báðar sem ég nefndi áðan í dæmunum fá jafnháar barnabætur því að barnabætur eru ekki tekjutengdar. Að auki er fjöldi láglaunafólks sem nýtur þessara bóta í engu.

Matarskatturinn er stórháskaleg tilraun, tilraun gerð á lifandi fólki, tilraun til að fækka möguleikum til undandráttar frá söluskatti, er okkur sagt. Tilraun þessi er verulega keimlík einni sem ég hef heyrt af. Þá tilraun gerði bóndi nokkur, að því er sagt er, á hrossi sínu. Hún var í því fólgin að smáminnka fóðrið við hrossið dag frá degi og freista þess að það vendist skortinum. Tilraunin gekk vel framan af, en því miður dó hesturinn daginn áður en fóðurskammturinn varð að engu. Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til að hætta nú tilraun sinni því mér segir svo hugur að hver dagur geti nú verið hinn síðasti. Skammturinn, sem stórum hluta þjóðarinnar er nú ætlað að lifa af, er að verða eða jafnvel er orðinn að engu. Þessu til áréttingar langar mig, með leyfi forseta, að lesa upp ályktun sem var samþykkt á fundi trúnaðarráðs verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði 28. jan. sl. Ályktunin er svohljóðandi:

„Fundur í trúnaðarráði verkamannafélagsins Hlífar mótmælir harðlega hvers konar skattálagningu á matvöru þar sem slík skattlagning hlýtur óhjákvæmilega að koma harðast niður á fólki með lágar tekjur. Fundurinn bendir á að nú er svo komið að dagvinnulaun verkamanns duga ekki lengur fyrir matarútgjöldum. Byrjunarlaun eru 27 577 kr. á mánuði, en útgjöld vísitölufjölskyldunnar til matarkaupa í janúar sl. voru 28 200 kr. Matarútgjöldin hafa hækkað um 5400 kr. á mánuði frá því í júlí sl. Á sama tíma hafa lágmarkslaunin hækkað um 2100 kr. Fundurinn skorar á alþm. að kynna sér betur launakjör verkafólks og fella niður matarskattinn nema þeir ætli sér vísvitandi í hungurstríð við lágtekjufólkið í landinu.

Þá lýsir fundurinn fyllsta stuðningi við Neytendasamtökin og baráttu þeirra gegn okri og óeðlilegum viðskiptaháttum.“

Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn hugsað sér að bregðast við tilmælum sem þessum og hver eru skilaboð hv. stjórnarþm. til láglaunafólksins í landinu? Einn þeirra, hv. 17. þm. Reykv. Geir Haarde, sá sérstaka ástæðu til þess að nota tækifærið í sjónvarpsþætti á dögunum. Hann benti viðstöddum og sjónvarpsáhorfendum á að gera sér grein fyrir því að ekki væri hægt að hækka laun hinna lægst launuðu nema til kæmu auknar tekjur þjóðarinnar og við því væri ekki að búast næstu missirin. Ævintýri á borð við þetta eru æ ofan í æ boðskapur þeirra sem þykjast vita til þeirra karla og fjölmörgu kvenna sem lægst launin hafa.

Ég bið menn að gera sér grein fyrir því að þjóðartekjurnar eru nægar. Kakan er nógu stór til að metta alla. Það þarf einungis að skipta henni með öðrum hætti. Ástandið hér er nú þannig að það er látið óátalið að sumir taki mettir hverja sneiðina á fætur annarri, eyði og spenni þannig að líkja má við það þegar hástéttin í Róm kastaði upp matnum svo að fyndist magarými fyrir einn bitann enn meðan stór hópur þjóðarinnar svalt. Þetta var upphaf hnignunar Rómaveldis og bið ég hæstv. ríkisstjórn að leiða að því hugann.

Fróðlegt er að rifja það upp í þessu sambandi að á

þessum tíma í Rómaveldi byggðu menn glæsihallir og mikla minnisvarða. Einnig þetta er að gerast í höfuðborginni þessa dagana.

Í stjórnarmyndunarviðræðum Kvennalistans sl. vor gerðum við að úrslitaatriði að lágmarkslaun í landinu skyldu hækkuð og miðuð við framfærslu. Þá var okkur bent á að í fyrsta lagi væri ekki hægt að meta lágmarksþörf einstaklings eða fjölskyldna og í öðru lagi giltu aldagömul lögmál um innbyrðis hlutföll launa, lögmál sem giltu í Mesópótamíu til forna eigi við hér í dag, hafi í raun ætíð gilt og muni ætíð gilda. Því væri fráleitt að ætla að hækka lægstu launin, slík hækkun mundi skila sér upp allan launastigann. Fólkið sem næst lægstu launin hafi heimti sína hækkun og svo koll af kolli.

En hvað er nú að gerast í kjarasamningum? Frá Vestfjörðum berast þau tíðindi að samið hafi verið um heildarbónus í frystihúsunum. Allir sem í húsunum vinna fá jafnháa bónusgreiðslu í krónum talið allt frá móttöku og þar til fiskurinn er kominn í frysti. Þetta þýðir auðvitað að þeir sem næstlægst kaupið höfðu sætta sig við að þær sem höfðu lægsta kaupið hækki og allir fái sömu laun. Vissulega er hækkunin smánarleg. En þetta tekur af allan vafa um að lögmálið sem hagfræðingarnir sameinuðust um að fullvissa þjóðina um að væri lögmál er ekkert lögmál. Alla vega er það ekki láglaunafólkið sem kemur launaskriðunni af stað. Það skyldi þó ekki vera að þeir sem enn hærra kaup hafa standi á bak við og ýti við fyrstu steinunum, kannski til þess að viðhalda því sem þeir kalla lögmál sem þá er ekki annað en val þeirra sem valdið hafa á því launakerfi sem þeim þóknast.

Mesti og besti auður hvers lands er fólkið sjálft sem lifir þar, hugsar og starfar. Þetta er gullvæg setning fengin frá skáldinu Einari Benediktssyni. Má ég biðja um ríkisstjórn sem hefur hana að leiðarljósi. Við kvennalistakonur krefjumst ábyrgrar ríkisstjórnar, stjórnar sem vilI axla ábyrgð. Og ég bendi hv. Alþingi á að slík stjórn þarf ekki að vera í meginatriðum gráteinótt. Hún gæti jafnvel eingöngu verið með mjúkum línum. Stjórn sem tæki allar sínar ákvarðanir út frá þorra fólks og bæri á höndum sér þá sem bera minnst úr býtum.

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson): Herra forseti. Stjórnarandstaðan er að auglýsa eftir stefnu núv. ríkisstjórnar og það er þegar vel er að gáð dálítið skiljanlegt. Ríkisstjórnin hefur nefnilega verið svo upptekin af því á undanförnum vikum og mánuðum að vinna verkin sín, að koma fram umbótamálum sínum þar sem aftur á móti stjórnarandstaðan hefur verið svo upptekin af því að hlusta á sjálfa sig að það er kannski ástæða til að staldra núna við og rifja upp: Við hvaða vanda var að fást þegar þessi ríkisstjórn tók við? Hver er hennar stefna? Rifjum upp.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við á miðju sumri var hallarekstur í ríkisbúskapnum um 3~/z,milljarður kr. Í annan stað: Ef haldið hefði verið sama útgjaldastigi

og Alþingi komst að niðurstöðu um nú fyrir jólin í fjárlögum, en haldið áfram að byggja tekjuöflun ríkissjóðs á því ónýta skattkerfi sem við tókum við, hefði hallinn í ríkisbúskapnum verið á bilinu 6-8 milljarðar kr. Þá hefði mér þótt gaman að heyra ræður stjórnarandstæðinga um velferðarríkið, um þá sem eiga bágt og þá sem eru hjálparþurfi og þá sem hefði þurft að rétta hjálparhönd og um byggðastefnuna margfrægu ef ekkert hefði verið að gert. Þá hefði verið ástæða til að biðja um ábyrga ríkisstjórn, eins og hv. seinasti ræðumaður bað um, með hjartað á réttum stað.

Í ágúst sl. var það staðfest að lánsfjáráætlun hafði farið úr böndunum með þeim hætti að ætla mátti að innstreymi erlends lánsfjármagns væri komið á fimmta milljarð umfram það sem lánsfjárlög gerðu ráð fyrir. Þegar hallinn í ríkisbúskapnum og ástandið í lánsfjármálum var með þessum hætti gat hver maður sagt sér það sjálfur að upphafleg spá um viðskiptahalla var út í hött. Og þá er fyrirsjáanlegt að staðfesting á útgjaldaeyðslu og þenslu umfram tekjuöflun í þessum þjóðarbúskap mundi leiða til viðskiptahalla sem var miklu meiri og hann er núna metinn upp á 61/z milljarð. Samt tek ég það fram að það var laukrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfussyni að vandinn sem við er að fást er ekki kreppuástand eða hallærisvandi. Vandinn sem við er að fást er nákvæmlega þessi: að góðæri, hagvaxtarskeið sprottið í sjávarútveginum á undanförnum 2-3 árum snerist upp í þenslu- og verðbólguvanda vegna þess að það var ekki gripið í taumana í tæka tíð af ótta við kosningar. (SJS: Og er ekki enn.) Svo komum við að því, hv. þm. Svo skulum við heldur betur fara yfir þá lexíu, hv. þm., áður en hv. þm. leyfir sér slíka sleggjudóma.

Þetta var ástandið og svo segja stjórnarandstæðingar öðrum þræði: Óvissuástandið er svo mikið og það stafar af því að ríkisstjórnin hefur horft á þetta aðgerðarlaust og ekkert aðhafst. En vikum saman hlustaði ég á síbylju þeirra um það að þessi ríkisstjórn sæist ekki fyrir í athöfnum sínum, að hún keyrði hina dauðþreyttu stjórnarandstöðu svo hart fram við að koma fram umbótamálum, m.a. í því að endurskipuleggja frá grunni 4/5 hluta af tekjustofnum ríkisins. Stjórnarandstaðan mátti vart mæla fyrir þreytu og mælti þó lon og don í síbylju. M.ö.o.: ríkisstjórnin er svo aðgangshörð, hún er svo athafnasöm, hún hefur á sex mánaða ferli gert svo mikið að sáran er undan kvartað. Svo segja þeir: Það er svo mikil óvissa í efnahagslífinu af því að ríkisstjórnin hefst ekki að.

Og hvað er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert? Ég lýsti því við hvernig ástandi hún tók og ég segi: Það var ekkert kreppuástand. Það var ástand sem kallaði á aðgerðir til að stöðva stórhættulega verðbólguþróun. Og því næst það að þegar fram kom á þetta haust varð vandinn erfiðari aðallega af tveimur ástæðum: dollarahrun sem þýddi auðvitað tekjumissi að því er varðar þær útflutningstekjur sem verslað er með í dollurum, í annan stað hækkun

evrópskra gjaldmiðla og þar af leiðandi innflutningsverðs sem af því leiðir og í þriðja lagi horfur á samdrætti í afla. Þetta jók á vandann vegna þess að það varð að taka harðar á því að stöðva útgjaldaþensluna umfram þjóðartekjur við þessi skilyrði af því að það var minna til skiptanna. Að öðru leyti þýddi þetta að misgengisvandinn í íslenskum þjóðarbúskap, sem að langstærstum hluta til býr við dúndrandi góðæri, varð með aukinni áherslu vegna þess að sjávarútvegur og fiskvinnsla, útflutningsatvinnuvegirnir, höfðu orðið í vaxandi mæli að þola áföll þar sem aftur á móti mjög margar greinar lifðu í gósentíð og það varð misgengi í lífskjörum fólks.

Á sl. tveimur árum hefur kaupmáttaraukning launþega orðið 40% (Gripið fram í.) og þá grípa menn fram í og segja: Já, en, já, en, ekki allra, ekki allra. (KH: Að meðaltali.) Að meðaltali, já. Og þá er spurningin þessi: Það er misgengi í starfskjörum atvinnuvega og það er misgengi í lífskjörum fólks. Af hverju? Vandinn er m.ö.o. ekki meiri en þessi: Það þarf að skapa bætt rekstrarskilyrði fyrir útflutningsatvinnuvegi og það þarf að leiðrétta misgengi í kjörum, en það er af nógu að taka.

Þessi ríkisstjórn sat ekki aðgerðarlaust hjá. Hún byrjaði á því í fyrsta lagi að draga stórlega úr hallarekstri ríkissjóðs með tekjuöflun upp á 1 milljarð á sl. ári. Hún greip til aðgerða gegn innstreymi erlends lánsfjár. Hún lagði skatta á erlendar lántökur. Hún hækkaði ábyrgðargjöld vegna ríkisábyrgða vegna veittra lána. Hún steig m.ö.o. fyrstu skrefin í því að rétta við fjárhag ríkissjóðs, draga úr lánaþenslu.

Því næst vann hún það sem hún hefur verið gagnrýnd einna harðast fyrir en er alveg vafalaust rétt og nauðsynlegt við þessar aðstæður. Hún hætti við að sætta sig við það að reka ríkissjóð eftir 2-3 ára góðæri og við þessi skilyrði með halla í tvö ár og ákvað að ná jöfnuði á einu ári og skemmri tíma en það. Og þetta gerði þessi ríkisstjórn. Það er leitt.n að ríkisstjórn sem hefur markað svo afdráttarlaust slíka stefnu. Það er reyndar leitun að ríkisstjórn á Vesturlöndum sem hefur snúið svo miklum viðvarandi halla í ríkisbúskap við á jafnskömmum tíma. (Gripið fram í.) Það fer ekki saman að segja: Ríkisstjórnin er stefnulaus, en verða hins vegar að játa þessum staðreyndum, að ríkisstjórnin hefur á skömmum tíma endurreist tekjuöflunarkerfi ríkisins sem var í molum, að ríkisstjórnin hefur snúið hallarekstri sem stefndi í 6-8 milljarða upp í jöfnuð, að ríkisstjórnin hefur lagt fram aðhaldssama lánsfjáráætlun, lánsfjárlög, sem fól m.a. í sér þau áform að ríkissjóður tæki engin ný erlend lán, sem fól m.a. það í sér, ef við berum það saman við fjárfestingarfyllirí annarra, að samdráttur í fjárfestingum ríkisins skv. fjárlögum og lánsfjárlögum er 15% á sama tíma og aukning fjárfestingar hjá sveitarfélögum er 43%, á sama tíma og fjárfestingaráform Reykjavíkurborgar milli ára aukast um 63%. Segi menn svo að þetta sé ekki ríkisstjórn sem hafi sýnt öfluga viðleitni í þá átt að forða því ástandi sem hlotist hefði af ef hér

hefði verið aðgerðarlaus ríkisstjórn. Ég spyr. Mönnum kann að þykja óvissa ríkja í sumum

þáttum efnahagsmála hér, en ég bið menn að hugleiða: Hvernig halda menn að ástandið hefði verið, rekstrarafkoma atvinnuvega, kaupmáttur launþega, ef þessi ríkisstjórn hefði ekki gert það sem hún hefur gert, ef við sætum uppi eftir tveggja til þriggja ára góðæri með svona mikinn halla í ríkisbúskapnum, ef engu aðhaldi hefði verið beitt í lánsfjárlögum, ef ekkert hefði verið gert til að efla sparnaðarform eins og gert var með peningaráðstöfunum á sl. hausti, ef það hefði verið látið reka á reiðanum.

Þessi ríkisstjórn hefur þess vegna skilgreint sína stefnu mjög skýrt og skilmerkilega þótt stjórnarandstaðan hafi verið of upptekin við að hlusta á sjálfa sig til að taka eftir því eða skilja það. Hún hefur gert það í ríkisfjármálum, hún hefur gert það í peningamálum og lánsfjármálum, hún hefur gert það með því að viðhalda hér stöðugleika í gengi og láta ekki undan látlausum kröfum ýmissa atvinnurekendahópa um að fella gengið eftir pöntun og ekki gert það þrátt fyrir að sumir stjórnarandstæðingar hafa ekki staðist þá freistingu að taka undir eins og fram kom í þessum umræðum.

Þessi ríkisstjórn hefur heldur ekki gripið inn í þá þróun sem leitt hefur til hárra raunvaxta þótt þeir séu að vísu ekkert hærri en í helstu viðskiptalöndum þegar grannt er skoðað. Hún hefur ekki stöðvað þá þróun og það eru ákveðin rök fyrir því eins og ég kem að síðar. Menn geta gagnrýnt þessa stefnu ef þeir hafa einhver rök til þess og menn geta reynt að leggja fram aðra stefnu, en menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé ríkisstjórn án stefnu. Menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé aðhaldslaus ríkisstjórn. Menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé athafnalaus ríkisstjórn.

En síðan spyrja menn: En það er samt sem áður óvissa í íslenskum efnaliagsmálum. Hvað með gengið? Það er samt sem áður óvissa í íslenskum efnahagsmálum. Hvað með kjarasamninga? Það er samt sem áður augljóslega við erfiðleika að fást í íslenskum efnahagsmálum. Við erum ekki komnir inn á lygnan sjó. Hvað með þennan háa fjármagnskostnað? Hvað með þessa háu vexti? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því?

Mér þætti gaman að sjá framan í þann stjórnarandstæðing sem færði rök fyrir því máli sínu að á undanförnum vikum eða mánuðum hefði verið rétti tíminn til þess að verða nú við óskum útgerðarauðvaldsins, sem einu sinni hét á máli Alþb. og annarra, og fella gengið eftir pöntun. Hver væri hugsunin í því eftir tveggja, þriggja ára mesta góðæri Íslandssögunnar að ljúka því með því að fella gengi íslensku krónunnar? Hvers konar eiginlega ræfildómur væri það út af fyrir sig og hvað mundi það þýða? Hvaða áhrif hefði það á verðbólgumarkmiðin? Hvaða áhrif hefði það á fjármagnskostnaðinn? Hvaða áhrif hefði það á erlend aðföng, ekki aðeins útvegsins, fiskvinnslunnar og atvinnulífsins? Hvaða áhrif hefði það á þensluna og verðbólguna að spýta í

með gengislækkun í þessu ástandi? (AG: Eru ekki upplýsingarnar frá Þjóðhagsstofnun?) Það meinar enginn neitt með þessu tali sínu, með þessum kröfum sínum um gengislækkun. Að vísu kvarta ákveðnir aðilar, en stjórnarandstaða sem hefur ekkert annað að gera en taka undir með hverjum þeim manni sem í eiginhagsmuna skyni, vegna þess að hann horfir framan í afleiðingarnar af eigin gerðum, heimtar gengislækkun er ekki upp á marga fiska.

Hvaða tilefni er til gengislækkunar? Það er halli á frystingu. Það er halli í fiskvinnslunni. Það er hagnaður í saltfiskvinnslu og útflutningi. Það er hagnaður hjá útgerðinni. Það er halli á bátaútgerð. Það er umtalsverður hagnaður á útgerð minni togara. Það er einnig hagnaður á útgerð stærri togara. Það er verulegur hagnaður á frystitogurum. Ef menn vilja meta þetta í einhverjum prósentum er hallinn alvarlegastur hjá frystingunni, gæti verið allt að 7%. Það er hagnaður á söltun um 2,6%, það er hagnaður á minni togurum upp á 6,4%, það er hagnaður á stærri togurum upp á 6,8%, það er hagnaður hjá útgerðinni alls um 2,7%. Og allt er þetta miðað við 3% ávöxtunarkröfur og stöðu mála í janúar. (SJS: Hvað eru þetta gamlar upplýsingar?) Splunkunýjar.

Nú rifja ég upp: 80% fyrirtækja í útgerð er samrekstur með fiskvinnslu. Það er halli í fiskvinnslu, mjög alvarlegur vandi hjá frystingu. Hvað er að segja um útgerðina? Hvað er að segja um fjárfestingaráform útgerðarinnar? Er það rétt að þessir sömu aðilar stefni að nýfjárfestingu, nýjum fiskiskipum, meiri háttar endurnýjun á eldri skipum, stækkun skipaflotans, þrátt fyrir horfurnar, upp á 3i/z-4 milljarða, að verulegu leyti fjármagnað með erlendum lánum? Bendir það til voðalegrar afkomu? Bendir það til þess að það sé nauðsynlegt að almenningur í landinu rétti fram núna sérstaklega umtalsverðar fjárhæðir til að rétta hag útgerðarinnar? Er stjórnarandstaðan að heimta það eða mættu menn kannski staldra við og spyrja sjálfa sig, vega og meta? Vandinn er sá, hann er nýstárlegur, að útgerðin stendur mun betur en vinnslan. Að svo miklu leyti sem hægt er er þetta ekki vandamál stjórnvalda því ef þessar tilfærslur geta farið fram innan fyrirtækja er það auðvitað gott. En ef það þarf að gerast að frumkvæði stjórnvalda er vandinn sá að færa til fjármagn frá útgerð m.a. til vinnslunnar að hluta. Er gengislækkunin rétta leiðin til þess? Vilja menn stafa það fyrir sjálfum sér hvaða afleiðingar slík gengislækkun hefði við þessar kringumstæður? Og vilja menn bera það saman við þær kröfur sem menn eru að gera um það að varðveita kaupmátt, um það að koma í veg fyrir óðaverðbólgu, um það að reyna að ná þeim árangri að fá hér lækkandi verðbólgu þegar líða tekur á árið?

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið sagt: Ríkisstjórnin er búin að gera, eins og ég tíundaði áðan, margt og mikið til þess að reyna að koma hér á jafnvægi, draga úr þenslu, draga úr vexti einka

neyslu, endurreisa ríkisfjárhag, beita aðhaldi í lánsfjármálum. Við höfum hins vegar sagt: Það vantar herslumuninn til þess að ná vissu um það að þessi jafnvægispólitík beri árangur á seinni hluta árs og sú vissa getur ekki komið fyrr en við höfum vitneskju um að það takist hérna kjarasamningar sem samrýmast þessum markmiðum. Það verða engar yfirlýsingar gefnar um gengisbreytingar fyrr en sú vitneskja liggur fyrir og ef kjarasamningar verða með raunsæjum og skynsamlegum hætti á engin gengislækkun að verða. Það tryggði best það að varðveita kaupmáttinn og ná lækkun verðbólgu þegar líða tekur á árið, en það væri líka ávísun á það að þá gæti ríkisstjórnin beitt sínu frumkvæði til þess að fá seðlabanka til að lækka nafnvexti í þrepum í takt við lækkandi verðbólgu og niðurstaðan yrði sú hin sama fyrir atvinnuvegi og almenning og ekki hvað síst hina lægst launuðu, að við værum þá komnir út úr óveðrinu inn á lygnari sjó í átt til traustari lífskjarabóta á seinni hluta ársins.

Sumir hafa þóst geta haft efni á því að hella sér yfir Vestfirðinga fyrir kjarasamningana sem þeir gerðu og hafa lítið gert af því að setja sig í spor annars vegar verkafólksins þar og vinnuveitenda þar, fólksins sem starfar eingöngu nánast við útgerð og fiskvinnslu. Hvernig stóð á því að það tókst að gera þessa samninga til ársloka þrátt fyrir að það er halli á frystingu? Hóflegir launasamningar já, en þeir dugðu samt sem áður til þess að rétta hlut fiskvinnslufólksins í samanburði við aðra hópa. Af hálfu atvinnurekenda voru þeir gerðir í trausti þess að ef kjarasamningar væru leystir eftir slíkum leiðum mundu þeir þola taprekstur fyrri hluta árs í voninni um það að uppskera árangur á seinni hluta ársins í lækkaðri verðbólgu. Ég þekki engan þann mann sem hefur efni á því að hella sér með skömmum eða skætingi yfir þá menn sem af þjóðhagslegri ábyrgð og raunsæi gera slíka samninga. Og þó að það sé hverju orði sannara að þeir verði ekki fyrirmynd kjarasamninga fyrir önnur svæði þar sem atvinnulíf er fjölbreyttara er raunsæið, ábyrgðartilfinningin vissulega fyrirmynd þeim sem nú ætla að setjast að kjarasamningaborði.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur því verið haldið fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar við að endurskipuleggja tekjuöflunarkerfi ríkisins og fjárhag ríkissjóðs hafi verið gerðar með þeim hætti að þar með hafi verið lagðar byrðar fyrst og fremst á hina tekjulægstu. Þar hafi verið lagðir steinar í götu kjarasamninga. Þar hafi breiðu bökunum, fyrirtækjunum og öðrum slíkum verið hlíft. Allar hafi þessar byrðar verið lagðar á þá sem síst skyldi. Við heyrðum þessi rök í ræðu fulltrúa Kvennalistans áðan.

Við erum að tala um laun, kaupmátt, lífskjör heimilanna í landinu. Athyglisverðasta staðreyndin um þá hluti er í mínum huga sú, að útgjöld meðalfjölskyldunnar miðað við verðlag og laun í janúarmánuði, þ.e. þessarar frægu vísitölufjölskyldu, eru 135 000 kr. í janúarmánuði. Og nú tek ég fram: Ég

er ekki að tala um framfærsluþörf. Ég er að tala um könnun á því hverju þessi meðalfjölskylda eyddi í reynd árið 1988 í janúar. Hún eyddi 135 000 kr., trúlega með 11/z-2 fyrirvinnur. Af þessum 135 000 kr. eyddi hún rúmlega 24 þús. kr. í matvæli miðað við verðlag í janúarmánuði og hún eyddi þar af leiðandi um 110 000 kr. og gott betur í annað en matvæli, þessi meðalfjölskylda upp á 3,7 persónur. Þetta eru ekki tilbúnar tölur. Þetta er verðlag í janúar miðað við að það hafi hækkað frá desember til janúar um 10%, ekki 7% eins og fjmrn. sagði að mundi gerast þegar tollalækkunin væri komin til skila heldur um 10%. Samkvæmt vísitölumælingunni í byrjun janúar, þegar engar tollalækkanir höfðu skilað sér, ekki nokkrar, söluskattshækkunin ein var komin, var hækkunin 11%. Miðað við 10% hækkun frá desember til janúar er þetta útgjaldamynstur fjölskyldunnar: 24 000 kr. í matvæli, afgangurinn í annað. Afgangurinn hefur enn ekki lækkað sem hann mun gera vegna þess að áhrifin af tolla- og vörugjaldslækkuninni eru ekki komin til skila.

Og þegar hinn ágæti og mildi fulltrúi Kvennalistans var að fara með sín dæmi hér áðan trúði ég varla mínum eigin eyrum vegna þess að ég veit að hér er um að ræða menntaðan eðlisfræðing sem mætti vafalaust treysta til að halda búreikninga hinnar hagsýnu húsmóður og sýna svolitla sanngirni í umfjöllun um mál af þessu tagi.

Það er hægt að afskrifa sannleikann með ýmsum hætti. Það er hægt að einblína á einn þátt söluskattsbreytingarinnar, æpa matarskattur! og reikna dæmið síðan út frá þeirri forsendu. En það er rangur útreikningur. Það sem á að gera er þetta: Það var annars vegar um það að ræða að þá var verið að lækka tolla og vörugjöld. Það var hins vegar um það að ræða að þá var verið að breikka söluskattsstofn og hækka söluskatt. Jafnhliða var innleitt staðgreiðslukerfi skatta. Og það var verið að hækka skattfrelsismörk einstaklinga og barnafjölskyldna mjög verulega og það var verið að auka beinar útgreiðslur af auknum tekjum ríkissjóðs til fyrst og fremst barnmargra fjölskyldna. Ef menn vilja meta áhrif þessara breytinga í heild á hag fjölskyldnanna skulu menn reikna það dæmi rétt og taka tillit til þess í fyrsta lagi: Hvaða áhrif hefur þessi breyting annars vegar miðað við tiltekin laun og fjölskyldumynstur í auknum matarútgjöldum, í lækkun annarra útgjalda, í ráðstöfunartekjum eftir beina skatta að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka? Hverjar eru þá ráðstöfunartekjur þessara fjölskyldna eftir kerfisbreytinguna? Eru þær meiri eða eru þær minni? Og þá lítur dæmið svona út:

Dæmið er um hjón með tvö börn með meðaltekjurnar 135 000 kr. Forsendurnar eru 10% hækkunin frá desember til janúar, hlutföll vísitöluútreikningsins um útgjaldaþætti matvæla og annarra þátta. Þá er hækkunin 1900 kr. í mat, önnur útgjöld þessarar fjölskyldu hafa lækkað um 2500 kr., skattar þessarar fjölskyldu að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka hafa lækkað um 4400 kr., ráðstöfunartekj

ur þessarar fjölskyldu hafa hækkað um 5000 kr. eða um 3,7%. Þetta eru dæmi um heildaráhrif skattkerfisbreytingarinnar á hag meðalfjölskyldunnar í landinu.

Dæmi 2: Hjón með tvö börn en heimilistekjur undir meðaltali, 80 000 kr. Matarútgjöldin hafa hækkað um 1700 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1300 kr., beinir skattar eftir útborgun barnabóta og barnabótaauka hafa lækkað um 7400 kr., ráðstöfunartekjur þessarar fjölskyldu hafa vaxið um 7000 kr. M.ö.o.: afkoma hennar er betri eftir breytinguna en áður um 8,8%.

Hvernig lítur dæmið út fyrir einstætt foreldri með tvö börn, meðaltekjur þess fjölskylduhóps? Tekjurnar eru 73 000 kr., matarútgjöldin hafa hækkað um 1200 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1200 kr., beinir skattar hafa lækkað um 5800 kr., ráðstöfunartekjur hafa hækkað um 5800 kr. Afkoma fjölskyldunnar hefur batnað um 7,9%.

Meira að segja ef litið er á einstakling sem hefur engin börn á sínu framfæri en lágar tekjur, 71 400 kr., hafa matarútgjöldin hækkað um 700 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1400 kr., beinir skattar hafa lækkað um 1300 kr. og afkoma hans hefur skánað um 2000 kr., ráðstöfunartekjur eftir skatt, eða batnað um 2,8% . (SJS: Síðan hvenær er samanburðurinn tekinn?) Samanburðurinn er miðaður, eins og ég er margbúinn að segja, við verðtöku í janúar miðað við þá forsendu að hækkunin á matarútgjöldum hafi numið 10% frá desember til janúar þar sem aftur á móti vísitölukönnunin í fyrstu viku janúar gerði ráð fyrir að það hefðu verið 11%.

Og ég bæti við: Þó að hv. þm. sem nú spyr gerði ráð fyrir 50% skekkjumörkum í öllum þessum dæmum mundu samt sem áður öll koma út með bættan hag þessara fjölskyldna sem ég tók dæmi um. (SJS: Var þetta hækkun síðan í ágúst eða september?) Það er ágætt dæmi til um það sem þeir hafa verið að skiptast á orðum um hv. forseti Alþýðusambands Íslands og efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Ólafur Ísleifsson. Og hvernig líta þær tölur út?

Það var fundið að því að það væri verið að bera saman útgjöld vísitölufjölskyldu og hins vegar lágmarkstekjur einstaklings. Ef hins vegar þar er tekið dæmi af fjögurra manna fjölskyldu, sem er broti stærri en vísitölufjölskyldan, lítur það svona út: Hjón vinna bæði úti fullan vinnudag, bera hvort um sig úr býtum lágmarkslaun. Börn eru tvö og annað undir sjö ára aldri. Alþýðusambandið upplýsir þá að lágmarkslaun hafi hækkað um 2100 kr. á mánuði frá því í júlí, þ.e. um 4200 kr. fyrir bæði hjón. Matvöruútgjöld af öllum ástæðum, ekki bara af skattkerfisbreytingunni, frá því í júlí, hækkun matvöruútgjalda af öllum ástæðum, þar á meðal búvöruverðshækkunarinnar, hv. þm., 1. des. um 9% sem enginn tók eftir og enginn mótmælti, hækkun matvöruútgjalda var 5400 kr. Þá er eftir að taka tillit til þess hver var hækkun barnabóta og barnabótaauka frá því í júlí. Og þegar það dæmi er gert upp er niðurstaðan sú að

hagur þessarar fjölskyldu hefur batnað en ekki versnað.

Nánar tiltekið svona: Barnabætur með fyrsta barni voru á fyrra ári eða fyrir 1. júlí, áður en þessi ríkisstjórn tók við, 12 625 kr., en eru 17 888 kr. á fyrri hluta árs 1988. Þessar upphæðir tvöfaldast sé barnið undir sjö ára aldri. Bætur með öðru barni voru 18 900 kr., en eru á fyrri hluta árs 1988 26 800 kr. Hjónin fa óskertan barnabótaauka með hvoru barni um sig þar sem tekjur þeirra ná ekki skerðingarmörkum. Oskertur barnabótaauki nam 30 000 kr. í gamla kerfinu, en 42 400 kr. í hinu nýja. Barnabætur og barnabótaauki til þessarar fjölskyldu eru því 3618 kr. hærri fjárhæð í janúar 1988 en í júlí 1987. Á móti hækkun matvöruliðar um 5400 kr. kemur því launahækkun um 4200 kr. og hækkun barnabóta og barnabótaauka um liðlega 3600 kr. eða um 7800 kr. Er þetta nægilega skýrt?

Þessi dæmi, sem ég hef verið að rekja, eru á forsendum um verðbreytingar í janúar og þá er enn eftir að taka tillit til tveggja þátta, að verðlækkanir sem tekur vikur og mánuði áður en þær koma fram að fullu vegna tollalækkunar og vörugjaldslækkunar, eru ekki komnar inn í þetta dæmi. Fjölskyldan á eftir að njóta verðlækkana í vaxandi mæli. Og í annan stað: Ég er hér að miða við neyslugrundvöll sem er úreltur um tíu ár. Þegar menn skoða þetta í ljósi nýja neysluvörugrundvallarins athuga menn það að vegna hækkandi rauntekna hefur útgjaldamynstur fjölskyldunnar breyst. Matarútgjöldin þar eru nefnilega enn þá lægri en útgjaldaaukinn í öðrum þáttum enn þá meiri þannig að matarútgjöldin eru ofmetin í dæmunum sem ég tók, en lækkunin, sem að lokum skilar sér til þessarar fjölskyldu, er vanmetin.

Hefur þessi kerfisbreyting verið gerð í þágu hinna efnameiri? Einstætt foreldri með tvö börn og meðaltekjur: aukning ráðstöfunartekna um 7,9%. Hjón undir meðaltekjum með tvö börn: aukning ráðstöfunartekna um 8,8%. Hjón með meðaltekjur hins vegar, 135 000 kr. á mánuði og tvö börn: aukning ráðstöfunartekna um 3,7%. En einstaklingur með meðaltekjur: þar er bótin lægst, 2,8%. Hvað sýnir þetta? Þetta sýnir að hér er um að ræða ráðstafanir sem búið er að afflytja og breyta í öfugmæli. Sú staðreynd að þessi ríkisstjórn varði 3 milljörðum kr. til að lækka vöruverð í landinu og 2,8 milljörðum kr. til að greiða út til þeirra sem á þurfa að halda barnabætur og barnabótaauka leiðir til þess ásamt með stighækkandi forsendum tekjuskattskerfisins að hér er um að ræða tekjutilfærslur frá hinum betur settu, meðaltalinu og ofar, og til þeirra fjölskyldna sem meiri hafa framfærslu og bágari afkomu. Það er þveröfugt við alla síbylju stjórnarandstöðunnar. Hún er röng og hún stenst ekki. (Gripið fram í.) Þetta er ekki svaravert. Svara þú fyrir þitt mál. Stattu fyrir máli þínu með rökum. (AG: Þetta er staðreynd.) Ég er að rekja staðreyndir fyrir hæstv. fyrrv. fjmrh. og ég vona að hann skilji þær. (AG: Þetta eru útgjöld ríkissjóðs, en hverjar eru tekjurnar

á móti? - Komdu með tekjurnar? Þetta voru útgjöldin.) Við skulum koma að því nánar síðar hver hafi verið aukning á skattbyrði, hæstv. fyrrv. fjmrh., hver hafi verið raunveruleg aukning á skattbyrði. Menn hafa nefnilega líka verið að skemmta sér við það að nefna tölur um að skattadæmið þýddi álögur á þjóðina, ekki 5 milljarða, nei, nei, 7 milljarða, 8 milljarða, 9 milljarða, 10 milljarða, í auknum skattaálögum á þjóðina.

T.d. leyfa menn sér það, eins og t.d. fyrrv. formaður Alþb. gerði og hafði að gamanmálum, að það væri náttúrlega svo um alla skatta að þeir væru greiddir út. En er enginn munur á því þegar menn skattleggja ákveðna vel setta tekjuhópa til að greiða út í formi millifærslna hjá öðrum sem verr eru settir? Það sem skattlagt er í hópi Á verður að tekjum hjá hópi B og er væntanlega allt annað en venjuleg skattlagning til samneyslu í ríkissjóð. Þeir sem eru nú að gagnrýna þetta eru auðvitað ekki Borgarafl., afl., nei, en það eru fulltrúar Alþb. og Kvennalistans, málsvarar félagshyggjunnar, þeir sem vilja kenna sig við hina sígildu jafnaðarstefnu eins og Alþb.

Því hefur verið haldið fram líka, til þess að reyna að renna stoðum undir áróðurinn sem er rangur, að skattkerfið í staðgreiðsluskatti, sem var afgreitt hér svo til ágreiningslaust, væri ekki stighækkandi vegna þess að það vantaði í það hátekjuþrep. Þetta er rangt og er auðvelt að sýna fram á það með mörgum dæmum. Það er rangt vegna þess að skattfrelsismörkin voru hækkuð mjög verulega bæði fyrir einstaklinga og hjón. Og það er samspil milli hækkunar á skattfrelsismörkum og útborgunar á skattfrjálsum barnabótum og barnabótaauka. Það er rangt líka vegna þess að persónuafslátturinn er föst upphæð þar sem þú ert staddur í tekjuskalanum. Og það er rangt vegna þess að afnámið á frádráttarliðunum var auðvitað skattaskjól hinna betur settu með hærri tekjurnar. Nú mun birtast innan tíðar nákvæmur samanburður á því á réttum forsendum hvernig fjölskyldur í ólíkum tekjuflokkum og ólíkum fjölskyldugerðum fara út úr samanburðinum á gamla tekjuskattskerfinu og staðgreiðslukerfinu núna. Það er sannað með ótal dæmum að m.a.s. í staðgreiðslukerfinu einu er um að ræða „prógressjón“, þ.e. kerfið er stighækkandi eftir tekjum og þeir koma best út úr því sem lægstar hafa tekjurnar. Ég skal nefna eitt dæmi um það.

Við skulum taka dæmi af hjónum sem bæði eru útivinnandi. Annar makinn hefur 60 000 kr. á mánuði en hinn 30 000, samtals 90 000 kr., og tvö börn á framfæri. Staða þessarar fjölskyldu í staðgreiðslukerfinu verður sú að hún fær útborgað á mánuði hverjum 5700 kr. á mánuði í eins konar neikvæðum tekjuskatti að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka. Ef þú tekur nákvæmlega jafnsetta fjölskyldu, hjón með tvö börn, en helmingi hærri tekjur, sem skiptast í 120 000 kr. og 60 000 kr., þ.e. mánaðarlaun væru 180 000 kr., mundi þessi fjölskylda greiða skatt upp á 28 500 kr. eða 16% af

tekjum sínum. Farirðu ofar í tekjuskalanum sérðu auðveldlega hversu „prógressíft“ dæmið er.

Þeir sem halda því fram að það hefði verið til tekjujöfnunar að því er varðaði launþega að setja annað hærra þrep í þetta kerfi hafa ekki rétt fyrir sér. Þeir hefðu að vísu náð til sjómannastéttarinnar sem er tekjuhá í góðærinu. Þeir hefðu líka náð til launþegahópa þar sem báðir aðilar vinna úti og leggja á sig mikla vinnu af því að þeir eru að byggja. En þeir hefðu ekki náð, hvorki í þessu kerfi að sinni né hinu eldra, til þeirra sjálfstæðu atvinnurekenda sem telja fram þurftarlaun eða eru skattlagðir á grundvelli áætlaðra launa ríkisskattstjóra. (Gripið fram í.) Þið hefðuð ekki náð þessu með þessu þrepi, það er staðreynd, hvorki ég né þið. Til þess þarf að fara aðrar leiðir.

Svo hef ég gaman af því þegar hinn mjúkmáli Kvennalisti fer með rórillið sitt um að þessi nauðsynlega forsenda fyrir endurreisn ríkisfjárhags og velferðarríkis á Íslandi, þessi skattkerfisbreyting, sé fólgin í því að leggja nú skatta á nauðsynjar, en hlífa lúxusvörum. Meðalfjölskyldan, þessi sem eyðir 135 000 kallinum, hvað eyðir hún miklu í lífsnauðsynjarnar sínar? 24 000 kr. Hvað eyðir hún þá miklu í ónauðsynjár, í lúxus? Bróðurpartinum, rúmlega 110 000 kr. á mánuði. Og hvað er lúxusinn? Er það ekki húsnæði, er það ekki fatnaður, eru það ekki barnavörur, eru það ekki t.d. íþrótta- og tómstundavörur, eru það ekki ferðalög, eru það ekki sjónvörp, er það ekki bílI og rekstur á bíl, eru það ekki hjólbarðar? Eruð þið að segja mér að þessi stærsti útgjaldapóstur fjölskyldu í nútímasamfélagi sé lúxus? Eruð þið að halda því fram? Auðvitað meinið þið ekkert með þessu. Þetta, sem einhvern tíma var lúxus yfirstétta, er hversdagsleg nauðsynjavara alls almennings á Íslandi sem flytur inn 23 000 bíla á þessu ári og m.a.s. 500 sjóbla og munar ekkert um það, þjóðar sem heldur uppi neyslu af því tagi sem þið sjáið fyrir augunum, (Gripið fram í: Sjóbíla?) sjósaltaðra bíla, niðursoðinna, nætursaltaðra. Mig langar til að spyrja málsvara félagshyggjunnar í þessum þingsal, Albþ. og Kvennalista: Hvað er lúxus alþýðuheimilanna á Íslandi í dag? (KH: Ert þú ekki málsvari félagshyggju?) Mér er brugðið um annað, er það ekki? Hef ég ekki mátt sitja undir skömmum, skætingi, níði og rógi og afflutningi á þeim málum sem við höfum verið að flytja einmitt undir þeim formúlum að hér sé ekki um að ræða jafnaðarmenn. Ég ætla að spyrja ykkur: Hvað kallið þið lúxus? Að mínu mati er það ekki lúxus fyrir alþýðufjölskylduna í landinu hvort hún á bíl, sjónvarp eða útvarp eða hvort hún getur farið í einhver ferðalög í orlofi. En það er lúxus fyrir eina fjölskyldu að þurfa ekki að skulda peninga í dag. Það er lúxus að hafa komið þaki yfir höfuðið á sér áður en það kerfi var afnumið að lán væru gjöf. Það er lúxus í dag að þurfa ekki að búa í leiguhúsnæði. Það væri reyndar lúxus í dag að eiga kaupleiguíbúðir og hafa aðgang að þeim fyrir láglaunafólk. Það er lúxus í dag fyrir marga að búa ekki í byggðarlögum þar sem

atvinnulífið, atvinnufyrirtækin eru bara útgerð og fiskvinnsla sem stendur kannski á veikum grundvelli. Það er lúxus í dag að geta komið barninu sínu á barnaheimili, á dagvistarheimili til þess að bæði hjónin geti aflað tekna. Það er lúxus að eiga samhenta fjölskyldu í stað þess að horfa á eftir henni leysast upp í ofþreytu, taugaveiklun, fíkniefnum, áfengisböli o.s.frv. Það er lúxus að geta lifað friðsömu lífi, stundað tómstundir, notið tómstunda o.s.frv. Og af hverju er ég að segja þetta? Það er vegna þess að ég er hér að tala um að það kostar peninga að reka velferðarríki á Íslandi.

Þeir menn sem þora ekki að endurreisa ónýtt skattakerfi, sem þora ekki að standa fyrir máli sínu gagnvart alþýðu manna og segja: Menn eiga að vera jafnir fyrir skattalögum og menn eiga að greiða skattana sína af því að það er það verð sem menn eiga að borga fyrir siðmenntað þjóðfélag — menn sem á undanhaldi sínu frá öllum hugmyndum og hugsjónum verja hið ónýta skattakerfi sem við bjuggum við, menn sem ausa þá sem beita sér fyrir slíkum umbótum óhróðri og afflytja allt þeirra mál, menn sem á sama tíma flytja tillögur um stóraukin útgjöld ofan á þá tekjuöflun sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir, slíkir menn eru hræsnarar og um þá þarf ekki meira að segja.

Þeir málsvarar barnafjölskyldnanna í landinu sem hafa uppi þau orð að það skipti engu máli að barnafjölskyldurnar fá núna senda heim ávísun fjórum sinnum á ári upp á 550 millj. kr. og með barnabótaauka upp á 650 millj. kr. og fara um þetta óvirðulegum orðum og segja að þetta skipti engu máli eru ekki góðir málsvarar barnafjölskyldnanna í landinu. Þeir mættu gjarnan bóka það hjá sér af því að það er spurt um: Hefur þetta ekki verið áður? Jú, þessar upphæðir voru að vísu ekki útborgaðar. Þær voru teknar frá skatti upp að vissum mörkum áður, nú útborgaðar og skattfrjálsar. Þær voru í fyrra fyrir kerfisbreytinguna 1,9 milljarðar. Þær verða á þessu ári alls 2,8 milljarðar og það er aukning upp á tæpar 900 millj. kr. Það er líka staðreynd upp á lífskjör fjölskyldna að skattfrelsismörk hjóna með tvö börn, annað yngra en sjö ára, hækka upp í 100 þús. kr. að teknu tilliti til barnabóta, að skattfrelsismörk einstæðra foreldra hækka um 76 þús. kr., að barnabætur til einstæðs foreldris með tvö börn, annað yngra en sjö ára og tekjulágt einstætt foreldri með óskertan barnabótaauka fær útborgað á þessu ári 210 þús. kr. Menn geta svo sem fussað yfir þessu og sagt að þetta séu einhverjar sjónhverfingar. En þetta er stefnubreytingin, sem við erum að boða, að hætta að bora gat á skattalögin, að hætta að gera skattheimtuna óframkvæmanlega, að gera menn jafna fyrir skattalögum, að afla tekna en greiða þær síðan út til þeirra sem helst þurfa á að halda. Menn gætu sagt: Það ætti að greiða út meira. Menn gætu nefnt hér tölurnar um hlut hinna öldruðu í þessu þjóðfélagi og sagt: 32 þús. kr. á mánuði, hæstu tölurnar fyrir ellilífeyrisþega, þetta er skammarlegt, þetta er of lítið, þetta er of lágt. En þá skyldu menn

ekki koma jafnframt og hafa allt á hornum sér og endasteypast um allt þjóðfélagið með fordæmingu á þeim mönnum sem hafa kjark í sér til þess að leggja á skatta fyrir þessum útgjöldum. (Gripið fram í.) Já, og svo skulum við koma að því, hv. þm.

Því er t.d. haldið fram að þessir skattar hafi bara verið lagðir á hina efnaminni. Ég er búinn að nefna dæmin um það, hv. þm. Því er haldið fram að það hafi ekki verið komið nálægt fyrirtækjunum í landinu. Á sama tíma kemur stjórnarandstaðan og segir: Það er búið að ganga svo hart að fyrirtækjunum ílandinu að það verður að endurgreiða þeim, það verður að endurgreiða þeim uppsafnaðan söluskatt. Jafnframt vegna ástandsins í landbúnaðinum er of langt gengið að skerða framlög til stoðdeilda landbúnaðarkerfisins um 300 millj.

En hverjar eru staðreyndirnar um skattlagningu á fyrirtækin? Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert? Hún hefur í fyrsta lagi lagt á erlent lántökugjald sem bitnar á fyrirtækjum. Hún hefur í annan stað hækkað ábyrgðargjöld vegna lána til fyrirtækja. Hún hefur hækkað álagningu á tekjuskatt félaga um nokkur hundruð millj. kr. Hún hefur lagt launaskatt á fyrirtæki. Hún hefur lagt skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hún hefur krafið ríkisfyrirtæki um arðgreiðslur. Og hún hefur lagt sérstakt gjald á verktaka í þágu varnarliðs. Alls að upphæð 1,6 milljarðar kr. af þeim nettó 5 milljörðum sem um er að ræða í aukinni skattheimtu. Jafnframt var í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að draga úr og minnka millifærslur til fyrirtækja og stofnana upp á 1 milljarð þó að Alþingi legði ekki blessun sína yfir það og drægi úr þeim greiðslum aftur. M.ö.o.: það voru 2-21/2 milljarður sem lagðir voru á fyrirtækin, enda linnir ekki kröfunum núna af hálfu forsvarsmanna fyrirtækja um að hér hafi verið gengið of langt og svo veður stjórnarandstaðan um land allt og segir: Fyrirtækjunum var hlíft. Og það er rangt. Það er líka rangt.

Þessi ríkisstjórn breytti tekjuskattsálagningu fyrirtækja á þann veg að það er ekki lengur heimilt að færa niður útistandandi vörubirgðir og gjaldfæra þær síðan eins og áður var upp á 10%. Það er aðeins upp á 5%. Skattfrjáls framlög í fjárfestingarvarasjóði voru lækkuð úr 40% af tekjum í 25%. Skattfrjáls framlög í varasjóð eru afnumin. Fyrning á bifreiðum í eigu fyrirtækja er lækkuð úr 20% í 10% og það er ekki lengur leyfilegt að fjármagna bílakaup fyrirtækja með fjármögnunarleigum nema samkvæmt eðlilegum skattalögum, þ.e. það er bara tekið tillit til fyrningar og eðlilegra vaxta sem færa má sem reksturskostnað. Ég tók eftir því að málsvarar Alþb. voru dálítið hissa að þetta skyldi verða samþykkt, en þetta var dálítið líkt tillögum sem Alþb. flutti og ég hef lýst yfir stuðningi við þó það gengi ekki eins langt og þeirra tillögur gengu, enda gengu þær að sumu leyti of langt.

Það er m.ö.o. ekki rétt, sem hv. þm. hefur haldið fram og ég hef hlustað á hann segja 10, 20, 30 sinnum í málþófsræðustólnum, að fyrirtækjunum

hafi verið hlíft þó ég hafi sparað mér það að svara honum þangað til núna. Það er rangt, hv. þm. Ég hef hins vegar sagt nægilega margt um það hvað þurfi að gera framvegis til að ljúka þessari heildarskattaendurskoðun að því er varðar virðisaukaskatt, að því er varðar skattlagningu fjármagnstekna og ég get ímyndað mér að milli okkar t.d. sé ekki mikill ágreiningur um það. En það er ekki sanngjarnt að segja: Þið áttuð að byrja á þessu, vegna þess að það er ekki hægt. Það var dúndrandi halli á ríkissjóði og það varð að byrja á söluskattinum sem er stærsti tekjustofninn. Það var búið að taka ákvarðanir um staðgreiðsluna og það var búið að leggja svo mikið á skattkerfið í landinu að það réði ekki við meira. Þess vegna varð að fara í þetta í þessari röð. Það eru rétt rök.

Það er alrangt, sem haldið hefur verið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að hún hefði getað brúað bilið, náð jöfnuði í ríkisfjármálum þótt hún hefði flutt, sem hún ekki gerði, einhverjar tillögur um stóreignaskatt. Hún hefur ekki flutt neinar tillögur um stóreignaskatt. Það gerðum við þm. Alþfl. hins vegar 1983-1984, um stigbreytilegan stóreignaskatt sem þá átti að skila nokkrum hundruðum milljóna. Við féllum hins vegar frá því. Af hverju gerðum við það? Við fluttum þær tillögur ekki aftur. Hvers vegna ekki? Vegna þess að sú breyting er orðin á í þessu þjóðfélagi að hinir raunverulegu stóreignamenn eiga ekki eignirnar sínar í steinsteypu. Þeir ávaxta sitt fé með öðrum hætti sem ber meiri arð. Í steinsteypunni er hins vegar margt af tekjulágu öldruðu fólki sem hefur ekki tekjur til að standa undir slíkri skattlagningu. Það er þess vegna röng leið og hún hefði ekki skilað neinum tekjum upp í það stóra gat sem ég er að tala um. M.ö.o.: það er rangt, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram, að hún hefði komið með einhverjar raunsæjar tillögur sem hefðu skilað þessum árangri eftir öðrum leiðum. Það er hreinlega ekki satt.

Það bar dálítið á því og ber kannski dálítið á því enn að einstaka kaupmenn hafi ætlað að hagnast á skattkerfisbreytingunni, að þeir hafi ætlað að nota skattkerfisbreytinguna sem tilefni til þess að læða fram hjá verðhækkunum eða hækkun á álagningu sem átti ekkert skylt við skattkerfisbreytinguna og skattkerfisbreyting gaf ekkert tilefni til. Auðvitað hefur verið hér verðbólga, hefur ekki stjórnarandstaðan verið að lýsa því, há og mikil verðbólga. Vita menn að hækkun Evrópugjaldmiðla þýðir verulega hækkun á innflutningsverði? Tóku menn eftir verðhækkuninni á búvörum? Tóku menn eftir dæminu um fiskverðið þar sem reynt var að réttlæta óréttmæta hækkun með tilliti til einhverra upplýsinga um hækkun á fiskverðsmörkuðum sem reyndar reyndust rangar? Tóku menn eftir tilraun bakara til að hækka brauð umfram þessi tilefni? Ég get ekki að mér gert að segja það, en það eru tveir aðilar sem eiga nokkuð sameiginlegt í þessu máli, hafa reynt að hagnast með óeðlilegum hætti á réttmætri skattkerf

isbreytingu. Það eru kaupahéðnarnir og stjórnarandstaðan hvor með sínum hætti, báðir með svikinni mynt, og aðrir þeir sem halda sig til hlés og þora ekki að bera ábyrgð á gerðum sínum. Þeir verða ekki menn að meiri áður en lýkur.

Hvernig væri nú að þeir sem kenna sig við félagshyggjuna og vildu gjarnan bera kratarósina í barminum undir forustu nýs formanns litu til fyrirmyndarríkisins, velferðarríkisins Svíþjóðar, og hættu að afgreiða mál eins og kjánar með „frösum“ heldur settust nú niður og stúderuðu rækilega rannsóknina sem fjmrn. sænska, ekki sænski krataflokkurinn, gerði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á spurningunni: Eigum við að afnema matarskattinn í Svíþjóð? Kynnið ykkur skýrsluna. Það er eina almennilega rækilega úttektin sem fram hefur farið á því máli. Og hver var niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú einfaldlega að það hefði orðið til tjóns fyrir barnafjölskyldur og láglaunahópa í Svíþjóð að afnema virðisaukaskatt á matvæli vegna þess að það hefði þýtt að þar með hefði fallið frá tekjuöflun, þeir hefðu orðið að hækka virðisaukaskattinn á afganginum upp í 35%. Menn geta hugsað hvaða afleiðngar það hefði haft. Það hefði þýtt að í staðinn fyrir að greiða út af öflugu, heilsteyptu kerfi, eins og við erum hér að taka upp, til barnafjölskyldna og hinna tekjulágu, með því að afnema virðisaukaskattinn, en fella þá auðvitað niður greiðslurnar, þá hefði niðurstaðan orðið sú, og það er þrælrannsakað, að það hefði orðið barnafjölskyldunum í óhag. (SJS: Er þá ekki best að leggja 100% á þetta?~ Nei, það er ekki rökrétt ályktun af þessu, hv. þm. Ég skora á þig, hv. þm., að kynna þér þetta mál vandlega. (SJS: Ég hef gert það.) Það er stundum ekki nóg að segja: Kratarnir á Íslandi eru nú öðruvísi en í Svíþjóð-og það er rétt, Ísland er öðruvísi en Svíþjóð. Þrátt fyrir allt tal ykkar um Íslandsmet í skattheimtu er það nú samt sem áður svo að tekjuskattar á Íslandi eru einhverjir hinir lægstu, kannski hinir lægstu í öllu OECD-ríkjabandalaginu. Neysluskattar eru tiltölulega háir, en hlutur ríkis og sveitarfélaga, opinberra aðila í heildarskattheimtu af þjóðartekjum er 29% hér, þriðja lægsta hlutfalli af skattheimtu í OECD. Svíþjóð 52%, Noregur 49,8%, Danmörk 51%. Voruð þið ekki að tala um fyrirmyndarríki, velferðarríki? (AG: Hvað með Alaska?) Ég er að tala um heildarskattheimtu. Það sem ríki og sveitarfélög taka í sinn hlut af þjóðartekjum er þetta. Við erum innan við 30%, þessi lönd 50%. Meðaltalið í OECD er 38,8%. Þá vita menn það.

Það er auðvelt að slá sig til riddara í pólitík. Það er auðvelt að fara með falleg orð um hin mjúku gildi. Það er auðvelt að segja að maður beri fyrir brjósti alla þá sem sjúkir eru og hrjáðir. Allir komið þið til mín. Það er auðvelt að biðja um fleiri dagvistarheimili. Það er auðvelt að segja: Hlynnið betur að hinum sjúku. Byggið fleiri sjúkrahús, fleiri heilsugæslustöðvar, fleiri sambýli o.s.frv. Þetta hljómar ákaflega vel og fagurlega þegar það er fram borið af hlýju hjarta indælla kvenna og það er mikill munur á

þessu eða kvótapólitíkinni hans Halldórs eða skattapóliri7cinni hans Jóns Baldvins. Það er mikill munur á því að hafa hjartað á réttum stað.

Vitið þið hvað það kostar að liggja á sjúkrahúsi í einn dag? Það kostar 12 þús. kr. á dag. Vitið þið hvað það kostar að liggja á minni háttar sjúkrahúsi úti á landi? 8000 kr. á dag. Vitið þið hvað það kostar að liggja á langlegudeild? 5000 kr. á dag. Dagvistun fatlaðra sem greidd er af sjúkratryggingum: 1200 kr. á dag. Dagvistun aldraðra sem greidd er af sjúkratryggingum: Mjög lítið. 975 kr. á dag, minna en ef vistmaður er á elliheimili. Í sambýli fyrir fatlaða 3400-4800 kr. á dag.

Lítið nú yfir fjárlögin. Lítið yfir hvað velferðarríkið á Íslandi gerir, hvað það ver miklum hluta af tekjum, tekur mikla skatta til þess að borga út kostnað við að byggja sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, við að halda uppi almannatryggingum, við að halda uppi sjúkratryggingum, við að halda uppi atvinnuleysistryggingum, við það að halda uppi skólakerfi, við það að halda uppi umönnunarstofnunum fyrir öryrkja, fyrir fatlaða. Lítið síðan á landsbyggðarpólitíkina, á vegina, á hafniruar, brýrnar, flugvellina, samgöngurnar. Og lítið þið svo á stjórnarandstöðuna sem hefur í síbylju vikum og mánuðum saman hrópað: Þið eruð skattpíningarmenn! skattpíningarmenn! skattpíningarmenn! með þriðju lægstu skatta í OECD, flytur síðan tillögur um meiri útgjöld á öllum sviðum, meiri útgjöld! meiri útgjöld! meiri útgjöld! og stærra gat! Og svo kemur hún og segir: Hvar er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar? Veldur hún ekki óvissu? Jesús minn almáttugur! Ja, ríkisstjórn sem hefur svona stjórnarandstöðu þarf ekki að kvíða sinni framtíð. (Gripið fram í.)

Hér á meðal þm. er einn hv. þm. sem í umræðum um skattkerfisbreytinguna lýsti miklum áhuga á að við færum að bandarískri fyrirmynd og gerðum m.a. eitthvað í því að tryggja bætt skattaeftirlit með því að taka hér upp sjóðvélar sem fyrrum formanni Alþb. fannst svo fyndið að hann veltist um af hlátri, aðgerð til að koma á bættum skattskilum. Ég hef tekið þetta mál upp á mína arma, rannsakað það í þaula, talað við tæknimenn, haft samráð við kaupmenn, aflað upplýsinga erlendis frá og mun á morgun gefa út reglugerð um það að þann 1. maí skal hver einasti smásöluaðili í þessu landi hafa slíka löggilta innsiglaða sjóðvél. Ég hef haft marga vinnufundi með skattakerfinu svokallaða. Ég hef rætt við ríkisskattstjóraembættið, skattrannsóknarstjóra og skattyfirvöld í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég hef lagt fram sjálfur tillögur og ég hef heimtað tillögur um hvað menn ætla að gera til þess að tryggja það að nú þegar búið er að skapa forsendur fyrir eftirliti og innheimtu, undanþágulaust söluskattskerfi á matvörur og engar refjar, engin svik og engir prettir, þá sjái þeir til þess að þessi verðmæti skili sér í velferðarkerfi á Íslandi. Það má heita svo að það hafi enginn fjmrh. talað við þetta skattakerfi síðan Magnús frá Mel var. Það er nærri því eins og

rykfallið. Og það er fullt af mönnum sem eru hissa á því að það þarf að gera til þeirra kröfur. En þær verða gerðar. Og það verða ekki bara þessir búðarkassar. Það verða settar á eftirlitssveitir tveggja manna til að taka fyrir úrtök, áhættugreinar, fyrirtækjahópa, ekki til einhverrar allsherjarrannsóknar eða ofsóknar heldur að tryggja með tíðum heimsóknum að eftirlitið og innheimtan sé í lagi.

Ég er ekki að lýsa lögregluríki á Íslandi. Ég er ekki að boða að hér eigi að setja upp einhverja skattalögreglu með miklum fjölda manns, enda er skattakerfið á Íslandi vanmegnugt og fámennt og hvað snertir heimildirnar sem hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði til að ráða hérna nýja menn, 20 manns, sem samþykkt var á Alþingi að okkar frumkvæði, þá eru allir hættir nema einn, allir.

Auðvitað þarf að gera margvíslegar breytingar, skipulagsbreytingar, lagabreytingar til þess að straumlínulaga þetta kerfi og gera það árangursríkt. En það verður gert. Það þarf líka að endurskoða bókhaldslög og það verður gert. Það þarf að herða viðurlög. Það verður gert. Það verður tryggt að þeir sem eru vörslumenn almannafjár skili því.

Var ekki einhver að segja, tók ég ekki rétt eftir því - jú, það var hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, að kjósendur á Íslandi hefðu áreiðanlega ekki átt von á þeim ósköpum sem nú hafa yfir þá dunið af málflutningi Alþfl. fyrir kosningar. Ég gróf upp úr kassa hjá mér blað sem dreift var á vinnustöðum um land allt og heitir: Tvær hliðar á sama máli, minnisblað til þín frá Alþýðuflokknum. Önnur hliðin: stöðugleiki og nýsköpun í efnahagsmálum ný atvinnustefna. Þar segir um ríkið: Hlutverk ríkisins verði skilgreint að nýju. Heildarendurskoðun á ríkisbúskapnum á kjörtímabilinu. Kannast menn eitthvað við það? Hallarekstur ríkisins verði stöðvaður með nýju tekjuöflunarkerfi og fækkun útgjaldaliða. Endurskipulagning banka og sjóðakerfis. Auknar fjárveitingar í húsnæði, skóla og samgöngumál. Kannast menn við það að þetta hafi verið efnt? Hin hiiðin á sama málinu: skattar. Staðgreiðslukerfi skatta, já. Upprætum skattsvikin, herðum skatteftirlit, fyrirtækin beri sinn hlut skattbyrðarinnar. Virðisaukaskatt í stað söluskatts. Já, en lægra skatthlutfall og án undanþága. Skattbyrði tekjuskatts lækki um leið og bætur almannatrygginga og fjölskyldubætur hækki. Kannast menn við að þetta hafi verið efnt? Sveitarfélög fái aukið frjálsræði um skattstofna, álagningu og gjaldskrár þjónustufyrirtækja. Og hvað er sagt um valddreifingu? Fækkun og stækkun sveitarfélaga. Gjöld og fjármagn heim í héruð. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð. Kannist þið við þetta? Ætlið þið svo að halda því fram að kjósendum hafi ekki verið sagt hvert við stefndum og hvert við ætluðum? Er ekki hér Jónsbók eða stjórnarsáttmáli? (AG: Það eru þrir flokkar í ríkisstjórn. Eru þeir búnir að samþykkja þetta?) Ertu ekki að kvarta undan því, hv. þm.? Er ekki verið að kvarta undan því að það sé verið að framkvæma þessa stefnu?

(AG: Ég er ekki að kvarta undan því. Ég er að spyrja.) Með leyfi forseta segir í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun skattakerfisins:

„1. Staðgreiðsla beinna skatta einsfaklinga kemur til framkvænda í ársbyrjun 1988.“ Er það ekki komið? Höfum við ekki staðið við það?

„2. Tekjuskattsálagning atvinnurekstrar verður jafnframt endurskoðuð og einfölduð og að því stefnt að ný skipan taki gildi á árinu 1988.“ Hefur það ekki verið gert? Búið.

„3. Launaskattur og tryggingagjöld atvinnurekenda vegna launþega verða einfölduð og samræmd og leggist sem jafnast á allar atvinnugreinar.“ Er ekki búið að leggja á launaskatt? Það er ekki búið að samræma hann. Hann er enn 3,5% í verslun og þjónustu. En það er búið að stíga fyrsta skrefið.

„4. Athuguð verður skattlagning fjármagns- og eignatekna og samhengi slíkrar skattlagningar og eignarskatts og skatta af öðrum tekjum.“ Það stendur hér: athuguð verður. Það er ekki tímasett. Það er í undirbúningi. Starfshópur vinnur að því. Menn munu sjá það.

„5. Tekin verður upp ný, samræmd og einfölduð gjaldskrá aðflutnings- og vörugjalda sem gæti komið til framkvæmda á árinu 1988.“ Er það ekki búið?

„6. Virðisaukaskattur, eða nýtt og endurbætt söluskattskerfi, verði komið í varanlegt horf 1989. Undanþágum frá núverandi söluskatti verður fækkað í áföngum sem aðdraganda að breyttu skattkerfi. Fyrsta skref í þessa átt kemur til framkvæmda um mitt ár 1987 og annað í ársbyrjun 1988.“

Er ekki búið að framkvæmda þetta í áföngum? 1987? Er það ekki komið í framkvæmd? 1988? Munið þið kannski ekki á næstu vikum fá að sjá virðisaukaskattsfrv.? Var ekki einhver að spyrja að því hér hvort þessi ríkisstjórn vissi hvaðan hún legði upp og hvert hún ætlaði? Getur hugsast að þessi ríkisstjórn sé að vinna samkvæmt áætlun? Ég held að það sé leitun að ríkisstjórn sem eftir sex mánaða tíma getur flett upp á bls. þetta í sínum starfssáttmála og sagt um viðamesta málið í stjórnarsáttmálanum, endurskoðun skattakerfisins: Þetta er búið á sex mánuðum. (SJS: Hvað með kaflann um kvótann? Var hann ekki felldur?) Ég er að tala um skattamál. Getið þið nefnt mér dæmi um ríkisstjórn sem hefur staðið jafnvel við sín kosningaloforð og þessi? Þið gætuð ekki nefnt mér hana þó þið færuð heiminn á enda. (AG: Hvað hefur breyst í söluskattinum? Það hefur ekkert breyst.)

Ég held ég hafi gert það eins skýrt og unnt er að áróðurinn sem beint hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar gegn aðgerðum þessarar ríkisstjórnar við að endurreisa skattakerfið, sem allir vissu að var í molum, standa við sín fyrirheit, standa við sína starfsáætlun, áróðurinn um áhrif þessarar skattkerfisbreytingar er rangur og staðreyndirnar sjálfar munu afhjúpa það þegar fram líða stundir. Og ég endurtek: Það verður hlegið að lokum að þeim úrtölumönnum sem í nafni félagshyggju a.m.k.

andæfðu þessum nauðsynlegu þjóðfélagsumbótum. Það sem menn spyrja síðan um er þetta: Það er

samt sem áður óvissa og hún lýtur að gengi og hún lýtur að kjarasamningum. Ekkert af því sem ríkisstjórnin hefur gert er steinn í götu kjarasamninga. Þvert á móti. Það er verið að leggja grundvöll að framtíð velferðarrríkis á Íslandi með traustara tekjuöflunarkerfi. Það er hlutur sem verkalýðshreyfingin mun skilja betur, ef hún skilur það ekki þegar, síðar meir.

Það er ekki mark takandi á þeim sem hrópa á gengislækkun. Það er ekkert tilefni til neinnar gengislækkunar í þessu ástandi. Það á að taka þetta í einn punkt. Við skorum á fulltrúa launþega, við skorum á atvinnurekendur í landinu að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna, setjast að samningaborði, semja út árið, semja um varðveislu kaupmáttar, leiðréttingu á misgengi hinna lægst launuðu. Ríkisstjórnin mun þá vera reiðubúin að koma inn í það dæmi til að greiða fyrir rekstrarafkomu í sjávarútvegi eftir því sem henni er fært án þess að það verði gert á kostnað trausts ríkisfjárhags. Fari menn þessa leið eru menn komnir yfir erfiðasta hjallann vegna þess að þá, þegar slíkir samningar lægju fyrir árið á enda, er gefinn hlutur að verðbólga mun fara ört lækkandi á seinni hluta árs. Þá en fyrr ekki er hægt að taka ákvörðun um lækkun nafnvaxta. Þessi leið, og það vita menn af reynslu og það geta menn reiknað sjálfir, mun tryggja betur afkomu atvinnuveganna, sérstaklega afkomu útflutningsatvinnuveganna, og hún mun tryggja betur kaupmátt launþega en allar tölur um lögbundin lágmarkslaun upp í 40 þús. kr. Það vita allir sem eitthvað hafa komið nálægt kjaramálum.

En eins og fram kom í máli forsrh. er það ekkert launungarmál að ríkisstjórnin hefur verið að vinna að og undirbúa tillögur um valkosti og greinargerðir, hvað hún geti gert að því er varðar hugsanlega endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Ég tek það fram, leyni ekki þeirri skoðun minni: Það á ekki að borga neitt til útgerðar, ekki neitt. Hagur hennar er góður. Fjárfestingaráform hennar eru stórbrotin. Það á að beina þessu fé að vinnslunni til þess að skapa forsendur fyrir því að greiða hærri laun hjá fiskvinnslufólki. Það á að bjóða fiskvinnslunni upp á skuldbreytingar 1-2 ár, framlengingu á skuldbreytingum. Það er í undirbúningi hjá hæstv. sjútvrh. og viðskrh. endurskoðun á verðjöfnunarsjóði fiskvinnslunnar sem getur komið ýmsum öðrum greinum til góða. Og það á, ég tek undir það með hæstv. sjútvrh., að taka á fjárfestingaráformum sem eru langt umfram okkar efni. Nefndi ég ykkur ekki tölur í upphafi máls míns, ég man það ekki? Reykjavíkurborg 63% milli ara, sveitarfélögin 43%. Og ætla menn svo að halda áfram ræðunum sínum um að það sé verið að eyðileggja fjárhag sveitarfélaga, Jesús minn almáttugur!, og nota það sem átyllu fyrir því að leggja stein í veg þeirra merku umbóta að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna, enda hefur fjárhagur þeirra verið styrktur um 1200 millj. milli

áranna og hana nú? Það má líta á skipin. Það má líta á fjárfestingaráform sem ekkert liggur á. Ég hins vegar minni á að af hálfu hins opinbera, þ.e. ríkisins, var búið að skera býsna mikið niður. Það var ekki gert ráð fyrir neinum erlendum lántökum ríkisins, engum. Það er ekki um að ræða neinar umtalsverðar framkvæmdir á vegum ríkisins eða ríkisstofnana nema hjá Landsvirkjun og raforkugeiranum, hitaveitunum. Það er hins vegar mjög hátt stig fjárfestingaráforma hjá einkaaðilum og sveitarfélögum. Hér hefur ríkisstjórnin ekki ótvíræð völd. Hún á að beita fortölum, sannfæringarkrafti. Það er mjög þýðingarmikið að þetta verði gert. Þetta er það áhrifaríkasta sem hægt er að gera til að draga úr spennunni, eftirspurnarspennunni, miklu áhrifaríkari aðferð en reyna að freista einhverra hlutaskipta í þjóðfélaginu í gegnum gengislækkun sem mundi vara í nákvæmlega þrjá mánuði og skilja alla eftir í verra ástandi eftir en áður.

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það þykir ástæða að vekja athygli á því að þessar umræður hafa nú staðið í nær hálfa þriðju klukkustund. Það hafa 16 hv. þm. kvatt sér hljóðs. Það hafa sex lokið máli sínu. Af þessu má ætla að við þurfum að halda vel á spilunum ef okkur á að takast að ljúka þessari umræðu fyrir kvöldverð. En ef það tekst ekki verður kvöldfundur að loknu matarhléi. Það er vakin athygli á hvernig málin standa, en það er ekki verið að boða takmörkun umræðna af hálfu forseta.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við vorum að hlusta á tímamótaræðu. Það er ekki hægt að segja annað. Ég hygg að margir sem hlustuðu á hana hafi haft tilfinningu fyrir því að hæstv. fjmrh. hafi eftir að þinghléið var gefið hrokkið upp við vondan draum, að mál hafi ekki farið á þann veg sem hann og hæstv. ríkisstjórn gerðu ráð fyrir.

Það sem ríkisstjórn verður að athuga, ekki síst ef það er talin ástæða að þrengja að, er að hún verður að sýna réttlæti. En bera þær ráðstafanir sem gerðar voru og það ástand sem er í landinu þess vott að réttlætið hafi verið haft að leiðarljósi? Hæstv. ráðherra las upp alls konar tölur. Ég vil blátt áfram ekki trúa því að hann trúi þeim sjálfur. Þeir sem fara í búðirnar og kaupa í matinn vita betur. Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. ráðherra og aðra stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að tala við þetta fólk ef þeir gera sér ekki sjálfir grein fyrir hvað hefur verið að gerast um sl. áramót í þessu máli.

Ég held að orð á Alþingi, fullyrðingar, hvort sem þær eru um hvað hefur hækkað og hvernig þetta komi út, hafi í raun og veru ekki mikið að segja heldur sé það reynslan. Þess vegna ættu þessir hv. þm. og ráðherrar að reyna að fylgjast með sjálfir hvernig þróunin hefur orðið.

Það hefur verið fullyrt hvernig vaxtamunurinn sé í bönkunum. Ég ætla ekki að fara inn á það í þessari

umræðu, enda er ég á mælendaskrá um annað mál sem hv. þm. Eggert Haukdal er flm. að og mun ég koma að því frekar þá. En eitt er alveg ~ íst, að ástandið í þessum málum er langt frá því að vera eins og hæstv. fjmrh. vildi vera láta í ræðustól, enda leyndi sér ekki að hann var órólegur út af stöðu mála þó hann læsi upp margar tölur til að reyna að fullvissa þingheim og aðra þá sem hér hlusta um að það væri fyrst og fremst verið að hugsa um þá sem minna hafa í sambandi við þá kerfisbreytingu sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið fram. Að halda að matur fyrir fjögurra manna fjölskyldu kosti ekki nema 24 þús. á mánuði. Það má a.m.k. sleppa einu sinni eða tvisvar ýsunni í hverri viku ef það á að duga og ýmsu öðru. Nei, svona ræður þýðir ekki að flytja hér og þýðir ekki að segja þjóðinni. Buddan segir til sín og ég held að hæstv. ráðherrar og þm. stjórnarliðsins ættu að passa sig að vera ekki með of miklar fullyrðingar. Reynslan er nefnilega ólygnust. Reynslan mun sýna og er farin að sýna hvað var verið að gera.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál öllu frekar. Mér sýnist að það bendi flest til þess að það verði farið út í verkföll. Ég skil vel þá sem eru með lágmarkslaun þó að þeir vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bæta hag fjölskyldna sinna og reyna að knýja fram kauphækkun — því að hver treystir sér til að lifa á þessum launum, hver treystir sér til þess?

Hæstv. fjmrh. var að tala um lág laun, 71 þús. kr. á mánuði fyrir einstaklinginn. Ég þekki nokkuð af fólki sem er með rúmar 30 þús. og enn fleira sem er með um 40 þús. Hvernig fer það að að lifa? Og það þýðir ekkert að vera með meðaltöl. Það er stór hluti af fólki í landinu sem er með 30-40, kannski upp undir 50 þús. kr. — og ef það er ein fyrirvinna, hvernig kemst sú fjölskylda af?

Hæstv. fjmrh. talaði um hvernig mál stæðu og hverju hefði verið lofað og hann fór í gráu bókina og las upp. En hann las ekki um að það var verið að lofa því að lækka verðbólguna. Hefur hún lækkað? Að lækka vexti. Hafa þeir lækkað? Ég held að hv. þm. og hæstv. ráðherrar ættu að lesa þetta gráa kver. Það er ekki nóg að lesa upp aðeins eina, tvær, þrjár setningar, en ef menn fara að lesa það miðað við staðreyndirnar hljómar það að miklu leyti sem öfugmæli.

Fyrir norðan er farið að syngja eftirfarandi ljóð með viðlagi og það er kannski nóg fyrir mig að lesa það upp því það segir allt sem segja þarf, með leyfi forseta:

Flokkarnir gáfu fyrirheit

um félagslegt jafnrétti í raun, bæta aðstöðu í bæjum og sveit, borga lífvænleg laun,

lækka verðbólgu og lánakjör, loforðin mörg og góð. Íhaldsstjórn var svo ýtt úr vör. Eftir stóð þjóðin hljóð.

Og viðlagið:

Fjármagnið sýgur framleiðsluna og fátækan almenning.

Skattinn fræga á matinn muna margir sem kjósa á þing. Ríkisstjórn Reykjavíkur, ríkisstjórn braskara.

Viljirðu verða ríkur verðurðu að búa þar. Fjármagnið frelsi hefur, fátækir lítinn rétt. Örlagavefinn vefur velbúin millastétt.

Og svo kemur viðlagið:

Fjármagnið sýgur framleiðsluna og fátækan almenning. Skattinn fræga á matinn muna margir sem kjósa á þing.

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa hafið þessa umræðu um efnahags- og kjaramál. Það var vissulega vel til fundið. Hann valdi líka rétt þegar hann valdi að vitna í nýlega greinargerð Þjóðhagsstofnunar þar sem boðað er að nú sé brýnast að koma á betra samræmi milli þjóðarútgjalda og þjóðartekna en verið hefur. Þetta var vissulega vel til fundið því það er mála sannast að eftir nokkur óvenjugjöful ár og mikla aukningu kaupmáttar er nú við verulegan jafnvægisvanda að etja í íslenskum efnahagsmálum því góðærinu fylgdi mikill knýr til þess að eyða og fjárfesta og knýrinn dettur ekki niður um leið og vaxtarskilyrði framleiðslunnar breytast til hins lakara. Þetta er auðvitað kjarni vandans.

Það kom upp náttúrufræðingurinn í hv. málshefjanda þegar hann valdi að vitna til forsögulegra skepna í sínu máll og sagði það til marks um hvað það borgaði sig illa að hugsa hægt að dínósárinn hefði orðið að lúta í lægra haldi fyrir týrannósárinum og seinna samkvæmt þróunarkenningunni fyrir öðrum skepnum yfirleitt. Ég veit ekki hverja á að velja í hlutverkin í þessu líffræðilega leikriti hv. þm. Ef hann líkir sjálfum sér við týrannósárusinn, þá dó hann nú líka út. En ég er ekki þar með að segja að ríkisstjórnin taki að sér hitt hlutverkið. Það gerir hún alls ekki.

Það er nefnilega kjarni málsins að það er ekki nóg að bregðast skjótt við, það er ekki nóg að hugsa hratt. Það þarf líka að hugsa rétt og bregðast rétt við. Það er kannski það sem hv. þm. hefur vanrækt því eftir hans skynsamlegu greiningu á eðli vandans dró hann ekki réttar ályktanir af henni því hann virtist helst vera að mæla með lægri sköttum, lægra gengi, lægri vöxtum. Allt þetta hlyti að stofna því tæpa jafnvægi, sem við þó erum að glíma við að halda, í mjög mikla hættu. Þetta er einmitt vandinn því að markmiðin eru eins og oftast nær áður einföld og skýr fyrir efnahagsstefnu þessarar stjórnar. Þau eru að ná niður verðbólgunni, að draga úr viðskiptahalla gagnvart útlöndum, að tryggja afkomu útflutningsatvinnuveganna, að bæta hag þeirra lægst

launuðu og sem minnst hafa úr býtum borið á síðustu velgengnisárum.

Leiðin að þessu marki er hins vegar vandrötuð. Því miður eru horfur á að þjóðartekjur á þessu ári verði í besta falli þær sömu og þær voru í fyrra. Það er því ekki um annað að ræða en að veita þjóðarútgjöldunum strangt aðhald. Ríkisstjórnin hefur vissulega lagt sitt af mörkum með hallalausum fjárlögum fyrir þetta ár og með aðhaldi í peningamálum undanfarið missiri. Það er ekki nokkur leið að halda því fram að hún hafi ekki hafst að, eins og glöggt kom fram í máli fjmrh. Það er hið mesta öfugmæli. Hitt er svo annað að þessar aðgerðir hafa að sjálfsögðu bakað henni nokkrar óvinsældir um hríð, en þegar frá líður mun henni verða þetta þakkað. En með því að ríkisstjórnin hefur með þessu lagt sitt af mörkum að sinni er nú komið að aðilum vinnumarkaðarins að leggja fram sinn skerf. Það liggur í augum uppi að kröfur um almenna aukningu kaupmáttar eru út í hött eins og nú horfir í þjóðarbúskapnum. En á hinn bóginn er ákaflega brýnt að bæta kjör hinna lægst launuðu. Tilraunin sem gerð var til að hækka þetta kaup, þ.e. hjá hinum tekjulægstu, sem gerð var í desembermánuði árið 1986, að hækka þetta sérstaklega umfram önnur laun fór því miður að hluta til út um þúfur vegna þess að aðhald skorti í ríkisfjármálum og peningamálum í aðdraganda kosninganna í apríl í fyrra og fyrst að þeim loknum. En þótt þannig megi að nokkru leyti saka slaka efnahagsstjórn um það hvernig fór fyrir síðustu samningunum eiga aðilar vinnumarkaðarins einnig þar sína sök. Nú geta þeir hins vegar alls ekki bent á aðhaldsleysi í ríkisfjármálum og peningamálum því að slíku er ekki til að dreifa.

Samningarnir, sem gerðir hafa verið á Vestfjörðum, eru lofsverð tilraun til að leysa kjaramálin við þær aðstæður sem þar ríkja. Þeir geta að vísu ekki orðið nein allsherjarfyrirmynd, en þeir lýsa því hugarfari, þeirri skynsemi sem þarf til að ná farsælli lendingu í kjaramálum þessa árs. Það þurfa fleiri hins vegar að sýna sínar lausnir áður en fram er haldið. Þegar slíkir samningar eru í sjónmáli mun ríkisstjórnin geta tekið af öll tvímæli um starfskjör atvinnuvega og beita frumkvæði sínu til að stuðla að lækkun vaxta. En ýmsir hafa einmitt gerst til þess að nefna vaxtamálin, málshefjandi meðal annarra, og ég vildi koma að þeim hér á eftir, en víkja fyrst nokkrum orðum að gengisstefnunni.

Það var rétt hjá málshefjanda og öðrum, sem rætt hafa gengismálin, að það er ekki skynsamlegt að hafa þar uppi stórar yfirlýsingar. Gengisstefna þessarar stjórnar hefur það að meginmarkmiði að skapa almennan stöðugleika í efnahagsmálum, vill gefa traustari viðmiðun bæði fyrir viðskiptalegar ákvarðanir atvinnulífsins og fyrir tekjuþróunina. Sú hækkun raungengis, sem hefur hér orðið á sl. ári og reyndar heldur enn áfram, er bein afleiðing af því að rauntekjur almennings hafa hækkað þar sem launahækkanir hafa farið langt umfram verðbólgu. Ef menn hugsa sér að lækka raungengið sem eitthvert úrræði í vanda atvinnuveganna er nauðsynlegt að þeir geri sér það ljóst að slík breyting er ófram

kvæmanleg nema með því að samtímis eigi sér stað raunlækkun á tekjum almennings. Lækkun gengisins, sem hefði eingöngu þau áhrif að peningalaun hækkuðu jafnharðan að sama skapi í kjölfar hennar, mundi í engu bæta afkomu atvinnurekstrarins í landinu heldur aðeins hafa í för með sér meiri verðbólgu með öllum þeim vandamálum sem henni fylgja. Við þennan vanda, sem er af innlendum rótum runninn, hefur svo bæst óhagstæð þróun í erlendum gjaldeyrismálum á erlendum gengismörkuðum þar sem dollarinn hefur lækkað verulega í samanburði við myntir Evrópulanda og Japans. Þetta hefur auðvitað valdið miklum vandræðum í mikilvægum útflutningsgreinum sem eru háðar dollaramörkuðunum og jafnframt valdið hækkun innflutningsverðlags frá Evrópu og Japan sem þyngst vega í okkar innflutningi. Sem betur fer eru nú nokkrar horfur á því að þessi óheillaþróun hafi snúist við um sinn. Ég ætla þó engu um það að spá hvernig þetta endist. Gengi dollarans virðist hafa komist í lágmark gagnvart íslensku krónunni um sl. áramót, en þá var kaupgengi hans hér á landi skráð á 35,60 kr. Síðan hefur hann hækkað verulega og var í morgun skráður á 37,17 kr. eða nærri 4,5% hærri en var um áramót.

Það er hins vegar rétt að benda á að þótt lækkun á dollara undanfarin tvö ár hafi reynst Íslendingum mjög óhagstæð hefur verulega dregið úr þeim áhrifum vegna þess að okkur hefur tekist á þessum árum að auka verulega útflutning til hágengissvæðanna, bæði í Evrópu og Asíu, og vinna þannig upp nokkurn hluta tekjutapsins í dollurum. Það var skymsamleg ábending hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að menn skyldu fara hæ t í yfirlýsingar í gengismálum við þessar aðstæður. ~g tel að þegar við lítum lengra fram eigum við að huga að því að tengja gengi íslensku krónunnar fastar við erlent myntsvæði, annaðhvort Evrópumyntsvæðið eða stærri blöndu af gjaldmiðlum. Við skyldum jafnan hafa það hugfast að gengið er og verður akkeri fyrir stöðugt verðlag í þessu landi.

Þá sný ég mér nokkuð að vaxtamálunum sem mjög hafa verið til umræðu. Þá er nauðsynlegt að menn geri sér ljósa grein fyrir því hvað valdið hafi þeirri hækkun nafnvaxta og raunvaxta sem orðið hefur hér á landi frá miðju síðasta ári. Þessi hækkun á sér margvíslegar orsakir.

Í fyrsta lagi hefur verðbólga farið vaxandi á þessu tímabili og um leið, því miður, óvissa um framvindu efnahagsmála bæði hið ytra og hið innra. Nýlegar skoðanakannanir Hagvangs, sem hann hefur gert fyrir Seðlabankann, sýna að nú býst almenningur og fyrirtæki við því, að verðbólga verði á þessu ári, 1988, um eða yfir 30% að meðaltali, en í desember 1986, fyrir rúmu ári, bjuggust menn við helmingi lægri verðbólgu á næstliðnu ári. Þetta er hugarfar sem við verðum að reyna að breyta. Það er á þessu sem við berum ábyrgð sameiginlega, ríkisstjórn og stjórnarandstaða.

I öðru lagi hefur svo samkeppnin á markaðnum

um fjármagnið aukist mikið að undanförnu, bæði vegna aukinnar lánsfjáröflunar opinberra aðila vegna hallareksturs í fyrra og óhjákvæmilegs aðhalds í peningamálum.

Í þriðja lagi hefur svo hækkun raunvaxta innlánsstofnana falið í sér jöfnun kjara við hinn frjálsa verðbréfamarkað, en þar höfðu raunvextir farið hækkandi um sinn, en þeir höfðu alls ekki hækkað á sl. ári heldur fóru þeir fremur lækkandi. Það er nauðsynlegt að menn geri sér ljóst að fram til nóvember 1986 greiddi besti lántakandinn á markaðnum, ríkið, hæstu vextina á hinum opinberlega skráða markaði. Einstaklingar, sem tóku lán í bönkum, greiddu mun lægri vexti en ríkið. Þetta var fullkomlega óeðlilegt ástand. Nú hefur vaxtarófið rést við. Því miður hefur það gerst með verulegri meðalhækkun vaxta, en þetta var samt nauðsynleg breyting til að hreinsa til á markaðnum þannig að hann geti starfað eðlilega síðar og lækkað með bættum stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég segi það hiklaust að tilraunir til að lækka vexti við núverandi óvissuskilyrði með einföldum yfirlýsingum stjórnvalda mundu hafa mjög neikvæð áhrif á peningalegan sparnað, sérstaklega í innlánsstofnunum, og auka þannig á eftirspurnarspennu og innflutning. Það er enginn vafi á því að jafnframt hafa hinir háu vextir, sem menn gera sér tíðrætt um, dregið úr lánsfjáreftirspurn, a.m.k. miðað við það sem ella mundi vera, en óttinn við vaxandi verðbólgu hefur ýtt mjög undir fjárfestingu. Við þurfum betri upplýsingar um lánsskilmála, betri skilning fólks og fyrirtækja á því hvað felist í skilmálum. Raunvaxtaskilningurinn síast smám saman inn. Við þurfum betri og betur virkan fjármagnsmarkað en ekki lögþvinganir. Það er enginn vafi á því að mikilvægasta skilyrðið fyrir því að raunvextir geti farið lækkandi er aukinn stöðugleiki í efnahagsmálum og þá sérstaklega raunhæfir kjara.samningar til aillangs tíma. Tilraun til að grípa nú inn í vaxtaþróunina með stjórnvaldsákvörðun við skilyrði fullkominnar óvissu í kjaramálum væri dæmd til að mistakast.

Ég minni líka á að það er ekki eins og vaxtaákvörðunarvaldið sé í höndum einhverra óvalinna manna. Bankaráð ríkisbankanna t.d. eru í reynd sá aðili sem ákveður vextina að réttum lögum, þeim lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem samþykkt voru 1985. Það er þess vegna næsta kyndugt að hlusta hér á formann bankaráðs eins stærsta ríkisbankans, Búnaðarbankans, berja sér yfir háum vöxtum. Hann hefur ákveðið þá sjálfur. Hann hefur líka talað hér af miklum skilningi á kjörum hinna lægst launuðu. Ég er honum sammála um það að við þurfum að bæta kjör þessa fólks. Hann hefur sýnt að hann er svo mikill jafnréttismaður að hann hefur enn betri skilning á kjörum hinna hæst launuðu því hann hefur sem formaður í bankaráðinu hækkað kaupið hjá þeim sem hæst hafa launin í hinu opinbera kerfi. Þannig er víðsýnið fyrir norðan. Þannig er skilningurinn á kjörum fólksins í landinu.

Ég get ekki látið hjá líða að segja eitthvað um þessa endalausu hræsni sem hér veður uppi í þingsölum. (GuðmÁ: Er ekki ráð að kalla manninn í salinn?) Hann verður að lesa þetta í þingtíðindunum.

En ég vildi að lokum segja um vextina áður en ég hverf að langtímasjónarmiðum um ákvörðun þeirra að um leið og skynsamlegir kjarasamningar eru í sjónmáli mun nkisstjórnin ekki hika við að beita sér af alefli til þess að vextirnir geti lækkað samstiga verðbólgunni. Það er okkar stefna í vaxtamálum. Og lækkun vaxta er vissulega verðugt og brýnt viðfangsefni. En menn verða að halda ró sinni. Vextirnir verða ekki hrópaðir niður, hvorki úr þessari pontu né nokkurri annarri. Að baki háum vöxtum liggja efnahagslegar forsendur sem verður að breyta eigi vextirnir að lækka. Háir raunvextir stafa einfaldlega af því að framboð á lánsfé er lítið í samanburði við eftirspurn eftir lánum. Nafnvextir eru hins vegar ekkert annað en raunvextirnir að viðbættri verðbólgu. Það eru fyrst og fremst auðvitað raunvextirnir sem skipta máli og vænlegasta leiðin til að lækka þá er þessi einfalda en erfiða leið að koma á betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á lánámarkaðnum. Allar fullyrðingar, sem hér eru síendurteknar þess efnis að lögmál hagfræðinnar gildi ekki hér á landi, eiga ekki við nein rök að styðj ast. Það er t.d. engum blöðum um það að fletta að lækkun raunvaxta mundi auka eftirspurn eftir lánsfé. Menn þurfa ekki annað en líta á ásóknina eftir lánum úr íbúðalánasjóðunum til að sannfærast um þennan einfalda hlut. Þá leikur heldur enginn vafi á að verðtrygging sparifjár og hækkun raunvaxta hefur leitt til aukins sparnaðar á undanförnum árum í okkar peningastofnunum.

Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að á undanförnum vikum og mánuðum hefur komist á betra jafnvægi milli innlána og útlána í mikilvægum lánastofnunum. Við höfum líka þær fréttir af hinum nýju stofnunum á lánsmarkaðnum hér á landi að þar sé að komast á betri jöfnuður milli eftirsóknar eftir lánsfé og framboðs á því. Afnám verðtryggingar og lækkun raunvaxta, t.d. að tillögu hv. 3. þm. Suðurl. sem hér var rædd í gær, en við þá umræðu gat ég því miður ekki verið nærstaddur vegna þess að ég var í nokkrum skilningi í fangelsi, þ.e. ég var að ræða fangelsismál í Ed. — slík tillaga hlyti að leiða til þess að tekin yrði upp að nýju víðtæk skömmtun á takmörkuðu lánsfé. Slíkt yrði engum til hagsbóta nema þeim fáu sem sérstakrar velvildar njóta í lánastofnunum landsins.

Ég vil leyfa mér að hrósa hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hóf þessa umræðu hér í dag, fyrir að hafa áttað sig á því að málið er flóknara en svo að vextirnir verði með góðu móti lækkaðir með valdboði einu saman. Hann sagði við umræðurnar í gær sem rétt er — því miður heyrði ég bara síðustu fimm mínúturnar af þessum umræðum — að lækkun vaxta verði ekki ákveðin með lögum frekar en verðbólgan verði bönnuð með lögum. Það þyrfti til samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum til þess að ná vöxtunum

niður. Og það er alveg rétt. Það þarf til samræmdar ráðstafanir af því tagi sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir, er að beita sér fyrir og mun beita sér fyrir.

Ærið margt af því sem sagt hefur verið um vexti að undanförnu virðist mér fremur til þess ætlað að koma mönnum í pláss í fréttatímum útvarps, sjónvarps og blað9 en til að stuðla að skynsamlegri umræðu um vaxtamál. Þær vaxtatölur sem iðulega hafa heyrst í þessum umræðum eru fjarri öllu lagi, fjarri öllum sanni. Almennt talað eru raunvextir hér á landi nú á bilinu 3,5-12% eftir því um hvernig lánsviðskipti er að ræða, en ekki 20-30% eða þaðan af hærri tölur eins og oft eru nefndar. Það er vissulega rétt að á jaðri viðskiptalífsins, þar sem menn hafa lent í vandræðum, ekki vegna hárra vaxta heldur vegna þess að þeir hafa lagt í vafasaman rekstur þar sem tekjur ná ekki gjöldum eða steypt sér út í framkvæmdir án fyrirhyggju, hafa menn lent í vandræðum og neyðst til að taka lán með ofurkjörum. Það er oft sjálfskaparvíti og þau eru verst.

Að því marki sem innlent lánsfé er hér á ferðinni eru raunvextir svipaðir og gerast í nálægum löndum. Hins vegar verðum við líka að gæta að því að stór hluti þess lánsfjármagns sem er hjá íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega þeim sem eru í útflutningsstarfseminni, er erlent að uppruna og er fengið að láni á kjörum sem tíðkast á erlendum fjármágnsmarkaði. Hér hefur áður verið talað um að íslenskt atvinnulíf ætti rétt á því að fá fjármagnið á alheimsverði. Það var m. a. hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson sem lýsti eftir þessu. Þetta er reyndar svona. Langstærstur hluti fjármagnsins er fenginn á þennan hátt. Og raunar er það svo að raunvextir á þessum gengistryggðu lánum, sem bera venjulega erlenda nafnvexti, eru stórlega neikvæðir þegar svo háttar eins og á sl. ári og háttar reyndar enn, því miður, að innlent verðlag hækkar meira en erlendis og genginu er haldið föstu. Þótt almennt séu þannig raunvextir af lánum síst hærri hér á landi en erlendis verður því ekki neitað að þeir eru hærri en áður var og hærri en við verður búið til lengdar. Áframhaldandi fjárfesting í þjóðhagslega arðbærum framkvæmdum og ýmis rekstur eru undir því komin að raunvextirnir geti lækkað. Jafnframt er sú tilfærsla á fjármunum frá skuldurum til lánardrottna sem hlýst af óæskilega háum raunvöxtum óþolandi þegar til lengdar lætur. Hins vegar verða raunvextirnir áfram að haldast nægilega háir til þess að sparnaðarviðleitni fólks sé ekki slævð eða dregið úr aðhaldi að fjárfestingu, þ.e. að menn neyðist til að velja það eitt sem rís undir raunverulegum vöxtum. En ákvörðun vaxta með valdboði mun engri góðri lukku stýra. Við höfum af því langa reynslu að skömmtun á fjármagni í verðbólgu er forskrift að sóun fjármuna og misskiptingu auðs og valda í þessu landi.

En hvernig á þá að lækka vextina? Til skamms tíma litið verður að leggja höfuðáherslu á að koma á betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum en verið hefur.

Eins og nú horfir um þjóðartekjur á þessu ári verðum við að veita þjóðarútgjöldunum ýtrasta aðhald. Hallalaus fjárlög voru fyrsta skrefið í þessa átt. Frestun á ýmsum meiri háttar framkvæmdum kemur einnig til greina. Ég tek undir það með hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh. að nú sé þörf á því að fara vandlega yfir áform opinberra aðila og allra þeirra sem hið opinbera getur haft áhrif á um framkvæmdir á þessu og næstu árum. Um leið og í sjónmáli eru samningar um starfskjör almennings og fyrirtækja þá og þá fyrst er ástæða til þess fyrir stjórnvöld að beita stefnu til lækkunar vaxta með ákveðnu frumkvæði sínu. En það er hins vegar fjarstæðukennt að tala í sömu andránni, eins og margir gera, um aðhald í peningamálum og lækkun vaxta. Hvoru tveggju verður ekki bæði haldið og sleppt, en það er líka nauðsynlegt að gera margvíslegar umbætur á fjármagnsmarkaðnum. Annars vegar verðum við að setja lög um fjármagns- og lánastarfsemi utan bankakerfisins, hinn svonefnda gráa markað, þannig að sambærilegar reglur gildi um skylda starfsemi. Hins vegar, og það er enn mikilvægara verkefni, verðum við að endurskipuleggja bankakerfið.

Á vegum ríkisstjórnarinnar er nú verið að ljúka smíði á frv. um fjármagnsmarkaðinn utan bankanna. Þessi frv. eru samin í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og voru reyndar boðuð með stefnuræðu forsrh. Í þessum frv. verða ákvæði um starfsemi verðbréfasjóða og fjármögnunarfyrirtækja, um afborganaviðskipti og greiðslukort. Þessi frv. munu m.a. fela í sér tillögur um að þessi nýju fyrirtæki hafi í fyrsta lagi lágmarksstofnfé, í öðru lagi að krafist verði nafnskráningar allra þessara viðskipta, í þriðja lagi að skattskylda þeirra verði samræmd, í fjórða lagi að áskilið verði starfsleyfi, í fimmta lagi að reiknings- og upplýsingaskylda til bankaeftirlitsins verði skýrt áskilln, að þessum fyrirtækjum verði í sjötta lagi settar lausafjárkvaðir og í sjöunda lagi að tryggt verði að óháðar ákvarðanir séu teknar um kaup og sölu verðbréfa þessara sjóða. Þessari löggjöf er ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavinanna og betri hagstjórn í landinu. En þessi frv. eru ekki til þess hugsuð að kæfa í fæðingu nýjabrum í okkar atvinnulífi því það er fjármagnsmarkaðurinn vissulega.

Þá sný ég mér með örfáum orðum að íslenska bankakerfinu. Það er barn síns tíma, en sá tími var því miður ekki hollur uppvexti peningastofnana. Íslenska bankakerfið er því óhagkvæmt sem kemur fram í því að vaxtamunur virðist almennt vera meiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Að þessu vék hv. 4. þm. Norðurl. e. í sínu máli. Ég tel að með minni afskiptum ríkisins af rekstri bankanna, með samruna banka og sparisjóða í færri og öflugri lánastofnanir en nú eru, sé von til þess að vaxtamunur geti farið lækkandi. Það er raunhæfasta aðferðin til þess að lækka vextina. En róttækasta leiðin til þess að tryggja samkeppni í slíku bankakerfi og þar með aðhald að vaxtamun er að leyfa erlendum

fjármálastofnunum starfsemi hér á landi, ýmist gegnum umboðsskrifstofur eða með þátttöku í íslenskum hlutafjárbönkum. Þetta er í rauninni eina skynsamlega leiðin til þess að gera hvort tveggja í senn: að bæta ávöxtun sparifjár í bönkum og stuðla að lækkun útlánsvaxta.

Ábending formanns Alþb., sem nýlega hefur fram komið um það að verðgildi sparifjár á óverðtryggðum reikningum hafi rýrnað á síðasta ári, var næsta þörf. Hún var nú reyndar eingöngu í því fólgin að benda á það að tvisvar sinnum tveir væru fjórir og að Seðlabankinn hefði staðfest það. Það er hins vegar um tómt mál að tala að hækka vexti á innlánum og lækka þá á útlánum nema til komi róttæk endurskipulagning á íslenska bankakerfinu. Ég tel það meðal allra brýnustu verkefna þessarar ríkisstjórnar að vinna að slíkri endurskipulagningu og mér þykir gott til þess að hugsa að eiga liðsmenn í röðum stjórnarandstæðinga, m.a. hv. málshefjanda.

Allt sem ég hef nú rakið er að því marki stefnt að koma á betra búskaparlagi í landinu, að draga úr þeim einkennum óráðsíu og þenslu sem vekja hér jafnan verðbólgu. Hv. 18. þm. Reykv. óskaði sér þess í sinni jómfrúrræðu hér áðan, sem var haglega samin, en þó ekki um kjarna málsins. (AG: Það var ekki jómfrúrræða.) Jú, víst var hún það hjá hv. 18. þm. Reykv. Þú passar þitt fólk ekki nógu vel. Þín er hin 16. Hv. 18. þm. Reykv. óskaði sér þess í sinni jómfrúrræðu, sem var fróm og falleg ósk, að þetta land fengi ábyrga ríkisstjórn. Það vilI nú svo vel til að þetta land hefur slíka ríkisstjórn. En ég vil leyfa mér að ljúka máli mínu með því að óska mér þess fyrir landsins hönd að það eignist líka jafnábyrga stjórnarandstöðu.

Þórður Skúlason:

Herra forseti. 50-60 manns hefur verið sagt upp í frystihúsi á ótilgreindum stað úti á landi vegna þess að rekstrargrundvöllur er brostinn. 25 manns hafa misst vinnu á prjóna- og saumastofu sem hefur verið lokað vegna gjaldþrots. Mikill samdráttur og óvissa ríkir í byggingariðnaði vegna þess að enginn þorir að fjárfesta í íbúðarhúsnæði sökum þess að mikið misgengi er á milli söluverðs og áhvílandi lána. Verslun og þjónusta dregst saman vegna samdráttar í landbúnaði og fólksfækkunar í sveitum. Bændur fá ekki uppgert fyrir haustinnlegg og afurðasölufyrirtæki berjast í bökkum.

Er þessi lýsing ekki dæmigerð fyrir fréttaflutning af landsbyggðinni um þessar mundir? Svarið er jú. Því miður. Þannig birtist efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar okkur landsbyggðarfólki í raun, í samdrætti, stöðnun og óvissu á meðan þenslan vex stöðugt hér á höfuðborgarsvæðinu fyrir sunnan.

Samtals tapaði landsbyggðin um 1500 íbúum hingað til höfuðborgarsvæðisins á sl. ári og það þarf að leita langt aftur í tímann til þess að finna sambærilegar tölur. Ástæðan er augljós og blasir alls staðar við hvar sem litið er yfir sviðið: Stefna ríkisstjórnar

innar og aðgerðir hennar allar eru landsbyggðinni fjandsamlegar. Og ég spyr hæstv. ríkisstjórn: Á þetta ástand að vera viðvarandi í byggðamálum? Er þetta framtíðarbyggðastefna þessarar stjórnar? Er þetta e.t.v. byggðastefna unga fólksins sem var kjörorð Sjálfstfl. á Norðurl. v. fyrir síðustu kosningar? Stjórnarþm. mega líka gjarnan svara þessari spurningu. En landsbyggðarmenn eiga heimtingu á svörum og skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins á lika heimtingu á svörum. Hún býr sig nú reyndar undir það að taka við tugþúsundum landsbyggðarfólks á þeim fáu árum sem enn eru eftir til aldamóta. Skipulagsstofan hefur svarað sér sjálf. Og miðað við stefnu ríkisstjórnarinar er svar hennar skynsamlegt. Miðað við hagsmuni þjóðarheildarinnar er svarið hins vegar rangt og óskynsamlegt. Það er beinlínis rangt og hættulegt að efna til meiri fólksflutninga af landsbyggðinni hingað til höfuðborgarsvæðisins en þegar eru orðnir. Það þjónar heldur ekki hagsmunum þessa svæðis þegar til lengri tíma er litið. Og ég spyr enn og aftur: Er framtíðarspá skipulagsstofunnar um fólksflutninga í samræmi við stefnu stjórnarinnar í byggðamálum? Ef svo er ekki: Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að spáin rætist ekki?

Hver á Ísland? er sígild spurning. Ísland er í tröllahöndum undir þessari stjórn sem hefur frjálshyggjuna að leiðarljósi eins og gleggst kemur fram í ástandi efnahagsmála um þessar mundir. Jafnvel stjórnarþm. er tekið að blöskra. Oftrúin á peningana og fjármagnið er allsráðandi. Engin verðmæti í þjóðfélaginu eru betur tryggð en peningarnir. Peningarnir, sem teknir voru að láni til húsbygginga og aðeins voru hluti af byggingarkostnaði, eru fyrr en varir orðnir meira virði en öll húseignin. Húsbyggjandinn hefur tapað öllu því sem hann lagði í bygginguna af eigin fé.

Þrátt fyrir að afborganir og vextir verði sífellt hærra hlutfall af launum sem bannað er að verðbæta í 30-40% verðbólgu eins og nú er, þá hækka stöðugt áhvffandi lán. (Dómsmrh.: Það er ekki bannað að verðbæta laun.) Nei, en það nást ekki samningar um það og það var bannað á sínum tíma. (Dómsmrh.: Já, það er annað mál.) Afleiðingin af þessu öllu saman er auðvitað sú að stöðugt hækka áhvílandi lán, enda eru þau að fullu verðbætt. Það grípur um sig vonleysi og uppgjöf hjá einstaklingunum sem oftar en ekki endar með því að þeir verða gjaldþrota og nauðungaruppboðin taka við. Slíkir gjörningar eru að sliga embætti borgarfógeta eftir því sem dagblaðið Tíminn sagði í morgun og vextir á Íslandi eru sennilega þeir hæstu í heiminum.

Hæstv. viðskrh. Alþfl. og ríkisstjórnin horfa upp á það að vextir hækki á einu ári um 100%. Trúaratriðið að vextir skuli vera frjálsir er allri skynsemi yfirsterkari. Og auðvitað hefur mismunur útláns- og innlánsvaxta aldrei verið meiri en einmitt núna. Svo dæmi sé tekið eru dráttarvextir nú komnir í 4,3% á mánuði eða 51,6% á ári. Er nokkur furða þó að bankastarfsemin í landinu þenjist út við þessar

aðstæður? Var ekki einhvern tíma verið að tala um það að fækka bönkum? Gróði bankanna á sl. ári hlýtur að vera gífurlegur og gróði þeirra sem eiga peninga og ávaxta þá á „gráa fjármagnsmarkaðnum“ er auðvitað enn þá meiri. Það eru fjármagnseigendurnir sem eru sérstakir skjólstæðingar þessarar ríkisstjórnar sem með stefnu sinni gerir þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Í stað stóreignarskatts er lagður á matarskattur.

Það eru fjármagnseigendurnir sem eiga Ísland og eignatilfærsla til þeirra hefur aldrei verið meiri og hraðari en einmitt undir handarjaðri alþýðuflokksráðherranna sem fyrir réttu ári gáfu sig út fyrir að vera málsvarar lítilmagnans og réttlætisins.

Auðvitað ber ríkisstjórnin fulla ábyrgð á vaxtaokrinu og getur létt því af með einu pennastriki ef hún vill og hennar ábyrgð er mikil og afleiðingarnar af stefnu hennar eru alvarlegar og slæmar.

En hverjir borga þá þessa háu vexti? Ég hef þegar tekið dæmið af húsbyggjandanum og auðvitað leikur vaxtaokrið margan einstaklinginn og fjölskylduna grátt. En fyrirtækin og framleiðslugreinarnar á landsbyggðinni verða líka hart úti í þessu vaxtafári. Þau geta ekki velt þessum háu vöxtum út í verðlagið. Þau eru með mikið birgðahald, hæga veltu og lítið eigið fé. Afkoma þeirra margra hverra veltur því að miklu leyti á því hvaða stefna er rekin í vaxta- og peningamálum. Þess vegna eru þau nú mörg hver í verulegum rekstrarerfiðleikum. Þess vegna eru málefni fyrirtækjanna og atvinnurekstrarins nú inni á borðum sveitarstjórna vítt um landið því að atvinnulífið er að stöðvast fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda og ranga stefnu.

Hvernig er með fiskvinnsluna? Hér hefur verið greint frá því að hún er rekin með tapi. Og hvernig er með skel- og rækjuvinnsluna? Hún er rekin með enn þá meira tapi. Til hvaða aðgerða greip hæstv. ríkisstjórn með skattakónginn Jón Baldvin í broddi fylkingar í sumar gagnvart þessum atvinnurekstri? Það voru lagðar á nýjar álögur, 1% launaskattur og felld niður endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti. Þetta er nú allur skilningur stjórnarinnar á högum þessara greina. Nú sér ríkisstjórnin hins vegar að sér þó í litlu sé og uppsafnaður söluskattur skal nú endurgreiddur samkvæmt frv. sem lagt hefur verið fram. En auðvitað er það atriði léttvægt miðað við annað óhagræði af efnahagsstefnu stjórnarinnar sem nú er að sliga atvinnureksturinn.

Og hvað með vaxtarbrodd íslensks iðnaðar sem einu sinni var kallaður, ullariðnaðinn? Hann kom lítillega til umræðu hér í morgun. Það liggur á borðinu að á tvæpum tveimur árum hefur nánast tekist að drepa þessa atvinnugrein. Fyrir utan einhverja aðstoð við samruna Alafoss og iðnaðardeildar SÍS hefur ekkert verið gert af hálfu stjórnvalda til að laga stöðu þessarar greinar utan eitt sem kom fram hér í morgun í máli iðnrh. — og það er afleitt að hann skuli ekki vera hér við núna, en mig langar örlítið til að vitna í það sem hann sagði hér í morgun vegna þess að ég álít að það lýsi vel

hugarfari ríkisstjórnarinnar til framleiðslugreinanna í landinu.

Hann var einmitt að segja frá því að hann hefði gert einn hlut fyrir ullariðnaðinn: Hann hafði skrifað bréf. Hann hafði skrifað bréf til fjárfestingarlánasjóða iðnaðarins og hann hafði líka skrifað bréf til sveitarstjórna er hýsa ullariðnað og ,þar bað hann um lækkun eða niðurfellingu aðstöðugjalda á fyrirtæki í ullariðnaði. Já, þvílíkt bjargráð og þvílík reisn hjá ráðherra og ríkisstjórn sem nýbúin er að leggja launaskatt á þessa atvinnustarfsemi! Mér skilst líka að uppsafnaður söluskattur í ullariðnaði fáist ekki endurgreiddur lengur. Vonandi er það rangt hjá mér. Svo er því vísað til sveitarfélaganna að gefa eftir meðan ríkissjóður eykur sínar álögur og heldur niðri tekjum sveitarfélaganna, skammtar þeim útsvarstekjur neðan nauðþarfa og hirðir af þeim lögbundin og löngu umsamin framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar fyrir utan hefði ráðherrann auðvitað átt að vita að sveitarstjórnir margar hverjar hafa verið með beina aðild að ullariðnaðinum sem eignaraðilar eða ábyrgðaraðilar.

Það liggur þegar fyrir að sveitarfélög tapa stórfé nú þegar sauma- og prjónastofur verða gjaldþrota vítt um landið. Þær upphæðir nema trúlega á annan tug milljóna, jafnvel meira. Milli 500 og 600 manns hafa misst vinnu vegna erfiðleika og samdráttar í ullariðnaðinum. Sveitarstjórnir vítt um landið hafa örugglega gert sitt til að halda lífi í þessum atvinnurekstri, en ríkisstjórnin ekkert. Hún bregður fyrir hann fæti með nýjum álögum og fer svo fram á að sveitarfélögin felli niður gjöld af greininni. Ja, þvílík ráð og þvílíkar aðgerðir!

Það er auðvelt að vera gjafmildur á kostnað annarra, en stórmannlegt er það ekki. En þannig er nú einu sinni viðhorf ríkisstjórnarinnar til framleiðslugreinanna og sveitarfélaganna og kemur víða fram í stefnu hennar.

Fjölmargar sveitarstjórnir á landsbyggðinni standa nú frammi fyrir því við gerð fjárhagsáætlana að tekjur duga ekki fyrir rekstrargjöldum. Því veldur of lág útsvarsprósenta og óvissa um innheimtu í staðgreiðslukerfi skatta og til viðbótar kemur síðan vegna stefnu stjórnarinnar atvinnureksturinn inn á borð sveitarstjórnarmanna með ógreidd gjöld og skuldir sem hlaðast upp við sveitarfélögin, með beiðni fyrirtækjanna um skuldbreytingar og frestun á greiðslu á gjöldum og þjónustugjöldum líka, með beiðni um lækkun gjalda eða niðurfellingu og með beiðni um nýtt og aukið hlutafé frá sveitarfélögunum. Þessar kröfur dynja nú á verst settu sveitarfélögunum á landsbyggðinni, smærri kaupstöðunum og þéttbýlisstöðunum, kauptúnum og kaupstöðum sem eru að reyna að halda uppi þjónustu þrátt fyrir litla fjárhagslega getu og eru líka að reyna að aðstoða atvinnulífið og halda því gangandi. Þetta á auðvitað ekki við sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldrei í sögunni hafa haft annan eins tekjuafgang og einmitt núna. Manni skilst að samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkur

borgar verði framkvæmdafé borgarinnar 2 milljarðar á næsta ári. Sveitarfélögin á þessu svæði eru heldur ekki með atvinnureksturinn á sínum herðum og hann kemur aldrei neitt inn á þeirra borð. Þau eru heldur ekki með neinar erfiðar veitustofnanir eins og mörg sveitarfélög úti á landi því þar eiga hitaveitur í mörgum tilfellum í miklum rekstrarerfiðleikum. Reykjavíkurborg sækir gull í greipar allra sinna stofnana, vatnsveitu, hitaveitu og hafnar og er auðvitað með allt aðra aðstöðu en sveitarfélögin úti á landi í þessum efnum.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum sveitarfélaganna miðast við þarfir Reykjavíkurborgar einnar og ekki er litið til neins annars. Aumingjarnir úti á landi mega eiga sig. Sjóndeildarhringur hæstv. ríkisstjórnar nær ekki lengra en upp í Mosfellssveit og suður í Hafnarfjörð. Það er nú allt víðsýnið. Það sannast í efnahags- og fjármálastefnu stjórnarinnar allri sem er landsbyggðinni einstaklega fjandsamleg. Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ríkisstjórnin stendur óneitanlega frammi fyrir talsverðum vanda í efnahagsmálum. Sá vandi er hvorki nýr né óvæntur, en það væri skinhelgi að halda því fram að ríkisstjórnin ætti ekki við vanda að glíma. Sjálfsagt geta menn ekki farið fram á það eða ætlast til þess að allir þm. þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna á Íslandi séu sammála um aðgerðir í jafnerfiðum málum og efnahagsmálum, enda er það ekki svo og verður sjálfsagt seint. Það væri skinhelgi að viðurkenna það ekki að margir stjórnarþm. hafa áhyggjur af stöðu efnahagsmála. I mínum flokki eru miklar áhyggjur. Ég skal lýsa því í fáeinum orðum hvað ég á við með því.

Við stöndum frammi fyrir kjarasamningum í þessu þjóðfélagi. Kjarasamningum fylgir ævinlega nokkur óvissa. Verðbólgan er of mikil og hún hefur verið vaxandi. Staða útflutningsatvinnuveganna er slæm og fer versnandi. Vaxta- og fjármagnskostnaður er of mikill miðað miðað við samkeppnisaðila okkar erlendis. Við rekum hér gengishækkunarstefnu í reynd. Hallinn á viðskiptum við útlönd er allt of mikill og þar ber ríkisstjórnin vissulega ábyrgð. Þar verður að taka til hendinni. Hins vegar hefur tekist að ná jöfnuði í búskap ríkisins. Það er vel. Og fjmrh. á heiður af þeirri baráttu sem hann hefur háð á þeim vettvangi. Jafnvægi er í stjórn ríkisbúskaparins.

En mig langar að fjalla örfáum orðum um hvern þessara þátta. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um kjarasamningana, ég ætla ekki að gerast spámaður á þeim vettvangi og ég ætla heldur ekki að fara að ræða hér almennt um þá stefnu hvort kjarasamningar eigi að vera algjörlega frjálsir eða hvort þeir eigi að vera þríhliða, hvort ríkisstjórnin eigi að koma inn í slíka samninga. Ég hef hins vegar margsinnis bæði í ræðu og riti lýst þeirri skoðun minni að kjör hinna lægst launuðu verði ekki bætt með beinum samningum á vinnumarkaði. Þar verði ríkisvaldið að koma inn í. Ég tek þess vegna

algjörlega undir það sem 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sagði hér um þau mál. Ef menn eru sammála um það, sem mér finnst margir vera, sem hér hafa talað, þá þurfa menn að taka til höndum. Það er vissulega vandaverk, jafnvel þó að hið opinbera vilji taka þar til höndum vegna þess að það getur hæglega mistekist líka. Mistökin eru of mörg á leiðinni þegar við höfum reynt að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Vítin eiga að vera til varnaðar. Ég held að menn verði að gá að sér, hvernig þeir fara að núna, ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji ganga þessa braut.

Aðaláhyggjuefni mitt í því hversu há verðbólgan er, er að hún er þetta há þrátt fyrir það að genginu hefur verið haldið nokkurn veginn föstu, þrátt fyrir utanaðkomandi hækkanir, þrátt fyrir stöðugt hækkandi gengi íslensku krónunnar hefur verðbólgan farið vaxandi. Það er áhyggjuefni. Það er mikið áhyggjuefni.

Mig langar líka til að koma hér dálítið inn á vaxtamálin og vil byrja á að segja það að ég er algjörlega sammála viðskrh. um það að vextirnir verði ekki lækkaðir hér úr þessum ræðustól með einhverjum yfirlýsingum. Þeir verða heldur ekki lækkaðir með stjórnvaldsákvörðunum eða lagasetningum. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að þeir verði ekki lækkaðir nema með minnkaðri eftirspurn á lánsfjármarkaði og auknu framboði á honum. En kannski greinir okkur dálítið þar á mig og viðskrh. Ég veit það ekki. Mig langar til að gera grein fyrir mínum skoðunum varðandi það einmitt hér úr þessum ræðustól.

Í fyrsta lagi er ég ekki sammála því að raunvextir á Íslandi hafi verið svipaðir og í löndunum í kringum okkur vegna þess að raunvextir eru skilgreiningaratriði. Raunvextir eru gjarnan skilgreindir hér sem vaxtastig yfir lánskjaravísitölu. Lánskjaravísitala er að mínu viti mjög gallaður mælikvarði. Lánskjaravísitalan mælir eingöngu kostnaðarbreytingar í þjóðfélaginu og tekur ekkert tillit til tekjubreytinga. Það er mikill galli. Það er svo mikill galli að ég efast um að við hana verði búið lengi. Og ég hygg að hún sé ónothæf á styttri fjárskuldbindingar. Á sama tíma og menn segja að allt eigi helst að vera frjálst og frjáls markaðsöfl eigi að leita jafnvægis þá eiga menn auðvitað ekki að freista þessa að binda eða reyra með vísitölum ákveðna þætti eins og þarna hefur verið gert. Fyrir utan það að á sama tíma og menn eru flestir hygg ég sammála um það að ekki sé unnt að binda kaupmátt launa við vísitölu, þá held ég að menn hljóti að sjá það að ávöxtun sparifjár eða lánsfjár er óviðunandi að binda á þennan hátt eingöngu við kostnaðarhækkanir. Það þarf ekki annað en að gefa sér einföld dæmi. Ef þjóðin yrði fyrir stórum áföllum, við skulum segja í sjávarútvegi, tekjur þjóðarinnar stórminnkuðu í einu vetfangi, laun þar af leiðandi hlytu að lækka, þá sjá menn allir að þeir sem fé eiga geta náttúrlega ekki fengið ávöxtun af sínu fé í samræmi við kostnaðarhækkanir. Þarna er einn þáttur sem við höfum

bundið við kostnaðarhækkanir og að mínu viti ranglega.

Ég tel alveg ljóst að raunvextir hér eru miklu hærri en í löndunum í kringum okkur. Við þurfum ekki annað en bera saman þróun meðalgengis og þróun lánskjaravísitölu og raunvextina sem reiknaðir eru yfir lánskjaravísitölu. Það kann vel að vera að hagfræðingarnir okkar geti sagt: Þetta er bara teorían, þetta er einfalt. Yfir vísitölunni er þetta vaxtastig. Og raunvextirnir eru einmitt þetta sem greitt er yfir verðbólguna. En við hinir, sem borgum þessa vexti, við sjáum að þessi teoría stenst ekki. Ekki síst í samanburði við þá sem við eigum að keppa við á erlendum mörkuðum. Fyrir utan það að lán með þessum vöxtum sem talað er um í bönkunum, 8-9,5% ofan á lánskjaravísitölu, fáum við ekki. Það er ekki hægt að fá þau. Við borgum allir 1418%. Og það eru ekki bara þeir, eins og viðskrh. heldur, sem reka einhvern erfiðan rekstur eða hafa fjárfest ranglega. Við fáum bara ekki önnur lán. Þetta eru lánin sem eru notuð. Menn selja verðbréf á markaðnum þannig að raunvextirnir yfir lánskjaravísitölu sem við greiðum eru miklu hærri en þetta.

Ég skal bjóða mönnum með mér í bankann og lofa þeim að hlusta á það þegar farið er fram á lán á þessum 9,5%. Það fæst ekki. Því miður. Ef menn skoða raunveruleikann, þá er hann öðruvísi.

En það sem er meginmálið að mínu viti þegar menn tala um þessa vexti og tala um það, eins og hagfræðingarnir gjarnan gera, að allt verði þetta að leita jafnvægis, og ég er sammála því, við lækkum ekki vexti öðruvísi, þá er einn meginþáttur sem menn gleyma og það er að menn eru að loka þessum markaði. Þetta er lítill markaður hér, lokaður á þessu skeri úti í miðju Atlantshafi.

Ef húsgagnaframleiðendur fengju snögglega mikla eftirspurn hér inni þá geta þeir ekki hækkað verðið vegna þess að það er svo mikil eftirspurn og þá getur ekki ríkisstjórnin komið og sagt: Menn verða að bara að búa við svona hátt verð á húsgögnum, ja, þar til að jafnvægi næst. Hvers vegna er þetta ekki hægt? Vegna þess að húsgögnin eru bara flutt inn og þeir verða að keppa við það verð sem kemur erlendis frá.

Alveg það sama skeður með framleiðendur á frönskum kartöflum í Þykkvabænum. Þeir geta ekki selt á því verði sem þeim dettur í hug hér á markaðnum. Menn rísa upp og segja: Við viljum bara fá þessar frönsku kartöflur innfluttar og borga minna.

Þess vegna segi ég: Ef menn vilja búa við frjálsan innflutning og frjálsa álagningu og frjálsa samkeppni og frjálsa vexti, þá verða menn að búa við það. (Gripið fram í.) Og þá verða menn bara að opna markaðinn. (Gripið fram í: Það viljum við.) Já. Og þá viljum við fá að taka lánin þar sem þau eru ódýrust. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Já. Þess vegna á ríkisstjórnin ekki að leggja sérstakar hömlur á erlenda lántöku og loka þannig markaðnum. Það

verður bara eingöngu til þess að þeir sem eru að reyna að framleiða verða að borga miklu meira fyrir þennan framleiðsluþátt en hinir sem þeir eru að keppa við á erlendum mörkuðum.

Ég er búinn að velta þessu mikið fyrir mér og ég held að þetta séu hreinlega leifar af gamalli haftastefnu. Ég má fara hérna út og kaupa 10 þús. bíla inn í landið. Ég get fengið gjaldeyri til þess. Vegna hvers? Vegna þess að við erum með frjáls viðskipti og frjálsan innflutning og það er enginn sem stöðvar það og það má ekkert stugga við því. Ég er heldur ekkert á móti því. En ef ég vil fá lán til að framleiða lax, þá er það ekki hægt. Það verður að setja á það sérstök gjöld. Vegna hvers? Vegna þess að þessi maður ætlar að taka erlent lán. Það gengur ekki upp. Það gengur ekki upp. Ég held að þarna séu gríðarlega margar mótsagnir. Ég held að menn séu enn í fjötrum þessarar gömlu haftastefnu. Við eigum að opna þetta. Það getur vel verið að við eigum að setja þá kröfu að erlendir bankar komi hér og keppi við þá innlendu. Þið getið ekki bundið þá sem eiga að keppa með framleiðslu sína á erlendum markaði í þessa fjötra lokaðs fjármagnsmarkaðs hérna, lagt gjöld á erlendu lántökurnar og sagt þeim svo að keppa. Ég skal koma seinna að gengisstefnunni.

Ég held að þetta sé mjög alvarlegt mál og ég held að í þessu sé grundvallarskekkja. Í allri vaxtaumræðunni eru tvær skekkjur gerðar: Annars vegar eru raunvextirnir í grundvallaratriðum rangt metnir vegna þess að lánskjaravísitalan er vitlaus mælikvarði til að meta raunvextina út frá. Hins vegar þýðir ekkert að tala um jafnvægi, framboð og eftirspurn á þessum markaði nema hann sé opnaður. Nema hann sé hreinlega opnaður. Af hverju halda menn að fulltrúar erlendra banka, sem eru eigendur að þessum fjármagnsleigum hér að verulegu leyti, beinlínis segi það í samtölum: Þessi íslenski fjármagnsmarkaður, þetta er bara gósenmarkaður, við höfum hvergi nokkurs staðar aðra eins ávöxtun og þar. Það er bara um að gera að komast í að reyna að lána þar því að þar er vissulega ávöxtunin mikil. Halda menn að það sé vegna þess sem viðskrh. segir, að raunvextirnir hjá okkur séu ekkert hærri en í löndunum í kringum okkur? Í raunveruleikanum, þetta er allt spurning um afstæði og viðmiðun, í raunveruleikanum eru þeir miklu hærri. Við höfum að undanförnu opnað á ákveðnum stöðum, eins og í gegnum fjármagnsleigurnar, sem viðskrh. er réttilega að vinna núna að að setja löggjöf um. Þar höfum við opnað. Þar eru erlendir aðilar upp í 60- 70% eigendur að þessum fjármagnsleigum. Fjármagnið rennur þar í gegn og þar njóta þeir þessarar ávöxtunar hjá okkur mörgum, sem erum að reyna að framleiða fyrir erlendan markað, ávöxtunar sem er algjörlega „unique“ líklega í allri veröldinni. Það er ekki bara um allan vestræna heiminn sem þarf að leita að öðrum eins fjármálaráðherra og við höfum, eins og hann réttilega skýrði hér áðan út frá stöðu ríkissjóðs, heldur held ég að lánsfjármarkaðurinn hérna sé bara algjört „úníkúm“. Og það má ekki

skoða hann öðruvísi en út frá þeirri heild sem við lifum hér við í kringum okkur þegar við skoðum almennt frjálsa samkeppni, frjálsa verslun og annað slíkt. Þetta er lokaður markaður í dag. Hann er hættulega lokaður. Það verður að opna hann ef menn ætla að fá jafnvægi í það sem hér er að ske.

Mig langar líka til að víkja dálítið að gengisstefnunni. Menn kalla þetta fastgengisstefnu sem hér er. Auðvitað er þetta ekki fastgengisstefna. Þetta er gengishækkunarstefna. Gengi íslensku krónunnar hækkar í hverjum mánuði í réttu hlutfalli við kostnaðarhækkanir í landinu. Hvernig gengisstefnu á ein þjóð að reka? Ég hlustaði á forsrh. tala hér áðan og mér heyrðist aðrir ráðherrar taka undir það að hornsteinn þessarar ríkisstjórnar væri þessi fastgengisstefna. Fastgengisstefnan. Ég verð að játa það að mín skynsemi segir mér að gengisstefna einnar þjóðar eigi að miðast við það að rekstrarstaða og vinnuaðstaða útflutningsatvinnuveganna sé í sæmilegu jafnvægi, stöðug. Að staða útflutningsatvinnuveganna sé í sæmilega öruggu jafnvægi. Það er sú gengisstefna sem mér finnst að við hljótum að verða að reka.

Ég hef hlustað á menn halda hér úr þessum ræðustól margar ræður um gífurlega eignatilfærslu á þeim tímum sem vextirnir voru neikvæðir. Eignatilfærslur frá sparifjáreigendum yfir til skuldara. Þetta vitna menn í lon og don, og kannski aðallega don. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. Þarna hefur orðið mikil eignatilfærsla og menn voru of seinir að átta sig. En ég vil segja ykkur það að mín skoðun er sú að í íslensku þjóðfélagi eigi sér stað í dag alveg gífurleg eignatilfærsla, alveg gífurleg eignatilfærsla vegna þessarar fastgengisstefnu. Á hverju byggir fastgengisstefnan? Hún byggir á því að útflutningsatvinnuvegirnir búa við verðstöðvun. Útflutningsatvinnuvegirnir búa við verðstöðvun í 30% verðbólgu. Hvernig halda menn að það endi? Prófið að setja verðstöðvun á veitingastaðina hérna. Hvað haldið þið að þeir héldu opnu lengi? Það gera menn ekki. Við erum búnir að setja verðstöðvun á útflutningsatvinnuvegina og með því erum við að brenna upp eigið fé útflutningsatvinnuveganna. Það er engin spurning um það í þessari verðbólgu.

Menn geta vel haldið hátíðlegar ræður um að það sé ekki ábyrgt að vera að tala mikið um gengið hér úr þessum ræðustól. En ég svara ykkur því: Það er ekki mikil ábyrgð í því að standa að þeim gífurlegu eignatilfærslum sem þessi gengisstefna hefur í för með sér. Og enn á ný segi ég: Það er gat í því efnahagskerfi, sem byggt er upp á frjálsum innflutningi, frjálsri verslun, frjálsri samkeppni, frjálsum vöxtum, í því efnahagskerfi sem á að leita að jafnvægi með frjálsum markaðsöflum en heldur genginu föstu. Hvað gera menn með því? Menn skekkja alla myndina. Og menn flytja til fjármagn á gífurlegan hátt.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða afleiðingar þetta hefur. Og ég efast um að menn geti borið mikla ábyrgð á því til lengdar ef þeir gera sér grein

fyrir því hvað skeður. Það eru auðvitað fjölmörg fyrirtæki í útflutningsiðnaði sem þegar eru komin í gífurlega erfiðleika. Ég man nú ekki hvað það eru margar prjónastofur sem hafa hætt, kannski 17. Samkeppnisiðnaðurinn á líka í mjög miklum erfiðleikum. Menn eru að flytja fé frá útflutningsatvinnugreinunum yfir í verslun og þjónustu. Auðvitað er þetta alvarlegt mál vegna þess að þó við höfum góða kaupmenn þá lifum við ekki allir á innflutningi eða því að fara til Mallorka. Við lifum á þessum útflutningsgreinum og við mölvum þær niður með þessari stefnu.

Forsætisráðherrann okkar var einu sinni fjármálaráðherra. Hann tók þá ákvörðun, og ég vil segja skynsamlegu og erfiðu ákvörðun, að halda verðbólgunni niðri um tíma með því að taka á sig halla á ríkissjóði. Ég hef aldrei leyft mér að gagnrýna hann fyrir það, þann hluta af hallanum sem varið var til þess. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt og það hafi verið eina leiðin í þeirri stöðu til að ná tökum á verðbólgunni. Þá var verðbólgan greidd niður með fé ríkissjóðs. Menn tóku á sig hallann á ríkissjóði. En núna berjast menn við að greiða niður verðbólguna með eigin fé útflutningsatvinnuveganna. Það er þar sem hallinn er að myndast núna en ekki hjá ríkissjóði. Það er þaðan sem féð er tekið til að greiða þetta niður.

Svo koma menn náttúrlega og segja: Það verður að grípa inn í þetta til að stöðva þensluna. Þenslan er eitthvert galdraorð sem menn vísa alltaf í þegar talað er um efnahagsmál. Jú, jú, grunnurinn að þessu öllu saman er þenslan. Við verðum einhvern veginn að stöðva þessa þenslu sem tröllríður öllu. En af hverju halda menn að þenslan sé? Og hvar er þessi þensla í okkar þjóðfélagi? Hún er ekki úti á landi. Hún er ekki úti á landi þessi þensla. Hún er hérna á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju haldið þið að hún sé hérna á höfuðborgarsvæðinu? Það er vegna þess að verslun og þjónusta landsins er hér. Og það er vegna þess að útflutningsatvinnuvegirnir eru mest úti á landi. Og með gengisstefnunni erum við að færa féð frá þeim atvinnuvegum yfir í verslun og þjónustu sem blómstrar hérna. Eðlilega verður það þensla sem af því hlýst. Ef menn ekki átta sig á kjarnanum sem að baki þessu liggur, þá grípa menn til rangra aðgerða.

Hallinn á viðskiptunum við útlönd. Ég tók eftir því að það var annaðhvort fjmrh. eða viðskrh. sem las það hér upp í ræðustólnum áðan að eitt af meginmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar væri að stuðla að jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Það tek ég heils hugar undir. Ég hef aldrei verið svona sannfærður um það, eins og mér finnst ráðherrarnir tala, að meginmarkmiðið í efnahagsmálunum sé að halda verðbólgunni niðri. Auðvitað verðum við að reyna það. Verðbólgan veldur mælikvarðabreytingum hér innan lands og við þurfum að vara okkur á þeim eignatilfærslum sem við stuðlum að með þeim leikreglum sem við sköpum hér.

En hallinn á viðskiptunum við úttönd er náttúr

lega alveg hreint gagnsær. Við getum ekki lifað um efni fram endalaust. Við erum með halla á viðskiptum við útlönd upp á 6-8 milljarða á síðasta ári. Menn eru að spá því að hann verði 9-10 milljarðar á þessu ári. Þarna, segi ég, þarna ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð. Ég hefði kosið að fjmrh. okkar tæki í höndina á mér núna eftir að hafa barist við að ná jöfnuði á ríkissjóði og einhenti sér með okkur í það að ná jöfnuði í viðskiptunum við útlönd. Hvað sem skeður inni í landinu — það er annað mál. En jöfnuður í viðskiptum við útlönd verður að koma. Þessi halli er allt of mikill í því ástandi sem við búum við núna. Það er alveg ljóst. Og ég mun gera þá kröfu bæði í mínum flokki og til þessarar ríkisstjórnar að hún grípi til aðgerða til þess að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Ég tel að það sé alveg meginmál.

Nú skyldi enginn maður misskilja mig að því leyti að þó ég tali alveg hreint út um það sem mér finnst um þessi efnahagsmál, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að þjóðin eigi kost á betri ríkisstjórn við þessar kringumstæður en hún hefur núna. En ég tel að ríkisstjórnin verði að taka sig saman og takast á við þessi mál. Og ég heiti á forsrh., því undir hann heyra efnahagsmálin, að taka þessi mál upp mjög alvarlega. Mér virðist vera mörg hættuteikn á lofti. Ég óttast það að við stöndum frammi fyrir því að lenda inni í sömu verðbólguskriðu og halla í viðskiptum við útlönd og við höfum verið í 10-15 ár hér á undan ef frá eru talin rétt síðustu ár. Ég óttast það. Því miður er allt of margt sem til þess bendir að við munum festast í 4-6% viðskiptahalla og verulegri verðbólgu ef menn ekki ná tökum á því sem hér er um að ræða.

Ég frábið mér því að ríkisstjórnin taki að sér að stjórna fjárfestingum í Reykjavík. Alveg. Ég er ekki stjórnlyndur maður og ég held að það gangi ekki upp. Ég held að ríkisstjórnin eigi að reyna að móta leikreglurnar. Það eru grunnstærðirnar sem skipta öllu máli. Og þó að menn haldi hér ræður eins og margir ráðherranna hafa haldið með áhyggjur sínar af sjávarútveginum og bent á það að nú eigi að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til sjávarútvegsins, þá er það nú svo að enn þá hefur þjóðin út af fyrir sig eða þjóðarbúið ekki tapað á því þó að sjávarútvegurinn eða fiskvinnslan fyrst og fremst sé að verða illa leikin. Fyrirtækin skipta um eigendur vegna þess að þeir sem eiga þau tapa og svo fer þetta til annarra, en fiskurinn er unninn og hann er fluttur út og tekjurnar koma inn. Útgerðin stendur í allt annarri stöðu vegna kvótakerfisins og frjálsa fiskmarkaðarins og mun gera það. Ég ætla ekki að fara frekar út í það hérna. Það sem er enn þá alvarlegra í þessu, og ég óttast að gleymist þó að menn drífi sig nú í það að endurgreiða söluskatt til fiskvinnslunnar, það er margt annað sem verður bara ekki bætt á stuttum tíma.

Hvað með ferðamannaiðnaðinn? Hafa menn reynt að kynna sér það hvernig hann muni standa í sumar með fastgengisstefnunni? Ég get sagt ykkur

það að ég er alveg viss um að það tekur langan tíma að laga það ef hann dettur niður í sumar vegna fastgengisstefnunnar. Ullariðnaðinn og annars staðar þar sem um er að ræða markaði erlendis tekur langan tíma að laga. Hitt eru eignatilfærslur innan lands sem út af fyrir sig eru grafalvarlegt mál.

Ég held þess vegna að ríkisstjórnin, eins og ég sagði í upphafi, standi frammi fyrir glettilega erfiðri efnahagsstöðu. Glettilega miklum erfiðleikum. Ég held hún hafi burði til að takast á við þessa erfiðleika. Ég held að það sé skinhelgi að viðurkenna ekki að erfiðleikarnir eru til staðar. Og ég held að það sé skilyrði til að geta tekist á við þá að skynja hvar þeir liggja og hvar rótin er. Ég er alveg viss um það að ef menn takast á við þetta af fullum áhuga og vilja þá er hægt að gera það. Ég gat ekki látið hjá líða að standa hér upp og lýsa mínum áhyggjum yfir stöðunni.

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Okkur þm. stjórnarandstöðunnar hefur borist óvæntur liðsauki, en ræða hv. 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar var sem hann hefði lært utanað stefnuskrá Borgarafl. áður en hann flutti og undirbjó þessa ræðu og býð ég hann velkominn til starfa með stjórnarandstöðunni.

Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þm. vék að í máli sínu hér á undan. Við skulum taka fyrst fyrir vaxtaokrið og raunvaxtaguðinn sem ég hef kallað svo. Ég er nefnilega alveg sammála því að það er með ólíkindum að hér úr þessum ræðustóli og reyndar víða í fjölmiðlum er því haldið fram að 99,5% raunvextir umfram lánskjaravísitölu séu sambærilegir við það sem erlendar þjóðir kalla raunvexti af venjulegum skuldabréfalánum.

Í grg. með frv. til l. um húsnæðislánastofnanir var fylgiskjal sem sýnir lánskjör á þýskum húsnæðislánamarkaði í Frankfurt 20. okt. sl. Þar er talað um að raunvextir geti verið u.þ.b. 7%. En við hvað eru þessir raunvextir miðaðir? Þessir raunvextir eru einfaldlega reiknaðir á þann hátt að það er selt skuldabréf fyrir láninu með afföllum, vextirnir geta verið allt frá 3% upp í 5% nafnvextir af skuldabréfinu. Það er selt með einhverjum afföllum og út á það koma þessir raunvextir, 7%. Það dettur engum manni í hug að tala um einhverja lánskjaravísitölu eða verðbólgu til þess að mæla raunvextina. Þess vegna er það algjörlega ábyrgðarlaust hjal að vera að tala hér um samanburð á raunvöxtum miðað við útreikning á lánskjaravísitölu og svo þeim raunvöxtum sem gilda hjá nágrannaþjóðunum.

En þá er einmitt komið að kjarna málsins. Það er lánskjaravísitalan og fastgengisstefnan. Okkur er ætlað að taka lán og greiða þau til baka af þeim launum sem við höfum hér í þjóðfélaginu. Launin eru ekkert bætt, eins og kom svo ágætlega fram í máli hv. 16. þm. Reykv., Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur. Það hefur ekkert rautt strik verið í tengslum við kjarasamninga síðan 1. okt. sl. en lánskjaravísitalan heldur áfram á fullu. Lánskjaravísitalan var

1886 stig 1. des. sl. og þá var hún 2,44% hærri en í mánuðinum þar á undan. Síðan fór hún í 1913 stig 1. jan. sl., var það eilítið minni hækkun, 1,43%. En hún er komin á fullt aftur. 1. febr. núna er hún 1958 stig og er hækkunin 2,35%. Við sjáum því að það stefnir í þetta 25-30% verðbólgu. Ef ekkert á að bæta launin þá sjá allir hvernig það fer. Launafólkið í landinu stendur ekki undir lánskjaravísitölulánum. Og það er alveg sama þó að það séu jafnvel lánskjaravísitölulán með niðurgreiddum vöxtum eins og tíðkast í húsnæðislánakerfinu, jafnvel þó að vextir séu ekki meiri en 3,5%, það stendur enginn undir þessu. Það fara allir hér á vonarvöl. Það sem verra er að fyrirtækin, sem eiga að taka rekstrarlán til þess að rekstur þeirra geti gengið með eðlilegum hætti, þau þurfa líka að faka lán með þessum kjörum og eiga síðan að keppa við miklu, miklu ódýrari lán sem samkeppnisfyrirtæki erlendis eiga aðgang að.

Þess vegna get ég heils hugar tekið undir það með hv. 10. þm. Reykv. að það er kominn tími til að fyrirtæki og einstaklingar hér fái þá aðgang að erlendu fjármagni. Algjörlega frjálst. Það er miklu einfaldara að heimila þá erlendum bönkum að setja hér upp umboðsskrifstofur og bjóða hér lán til handa einstaklingum og fyrirtækjum þeirra án allrar ábyrgðar. Ég er alveg sannfærður um það að ef erlendur banki ætlar að lána hér einhverju fyrirtæki eða einhverjum einstaklingi, þá verður það hans mál að rannsaka það mjög gaumgæfilega að fyrirtækið eða einstaklingurinn sé borgunarmaður fyrir láninu. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því fyrir hönd hins erlenda banka. Hann sér um það.

Það er alveg með ólíkindum að menn skuli getað ímyndað sér það að við getum flutt hér inn til landsins alls konar skran fyrir erlendan gjaldeyri á nánast útsölumarkaði vegna þess hve gengið er lágt skráð í svipinn, en síðan megum við ekki taka erlent fjármagn að láni til þess að styrkja hér framleiðsluna og reyna að byggja upp ný atvinnufyrirtæki.

Þá er komið að öðrum þætti sem mjög hefur verið vikið hér að í dag en það er þessi margumrædda þensla og fjárfestingaráform. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á menn tala hér um að allar fjárfestingar séu af hinu illa. Það er ekki annað að heyra á tali manna hér í dag en að draga beri stórlega úr öllum fjárfestingum, það sé einhver voveiflegur hlutur ef menn ráðast í fjárfestingar. En hvernig á að tryggja fólkinu atvinnu í landinu ef atvinnufyrirtækin megi ekki fjárfesta? Ég veit ekki betur en nánast öll lönd í hinum lýðfrjálsa heimi reyni að laða til sín erlent fjármagn til þess að auka fjárfestingu í atvinnurekstri. Það er með þeim þætti sem styrkari stoðum er rennt undir atvinnulífið og fleiri atvinnutækifæri skapast. Það er með því að auka fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum en ekki að draga úr henni. Hitt er svo annað mál að það má gjarnan draga úr fjárfestingu ríkissjóðs og fjárfestingu ýmissa sveitarfélaga þó svo að ég geti að einhverju leyti tekið undir með mörgum sem hafa réttilega bent á að eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu,

þá er fjárfestingin fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu en mætti gjarnan vera meiri og jafnari um allt land.

Út af fyrir sig er ekkert á móti því að hafa vísitölur. Ef við hins vegar ætlum að láta lánin fylgja lánskjaravísitölu þá er alveg ljóst að launþegar eiga kröfu á því að launin fylgi sömu vísitölu. Annaðhvort verður að hafa það þannig að laun og lánskjör fylgi einni og sömu vísitölu eða laun og lánskjör fylgi engri vísitölu. Þetta gengur ekki öllu lengur því að ef fer sem horfir þá fara allir á hausinn, að minnsta kosti venjulegt launafólk og þau fyrirtæki sem eru háð því að þurfa að taka rekstrarlán á þessum kjörum. Það getur vel verið að það sé hagur fjármagnseigenda að þetta sé með þessum hætti. Þá endar þetta hins vegar einfaldlega þannig að fjármagnseigendur verða ríkari og ríkari en hinir verða fátækari og fátækari. Hins vegar er spurning: Hverjir ætla að standa undir þessum rosavöxtum ef búið er að setja kannski meiri partinn af öllum fyrirtækjum hér á hausinn og flesta launþega þannig að þeir eru ekki lengur borgunarmenn fyrir sínum lánum? Ætlar þessi fámenni hópur fjármagnseigenda í einhverjum lokuðum hring að kaupa skuldabréf hver af öðrum á þessum háu vöxtum? Ég sé eiginlega ekki hvernig þetta endar allt saman.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að komandi kjarasamningum í máli sínu og talaði fjálglega um stóraukinn kaupmátt sem hefði aukist nálega helmingi meira en þjóðartekjurnar hefðu aukist um. Ég held að menn ættu ekki að sjá eftir því þó að kaupmáttur launa á Íslandi hafi aukist eitthvað.

Ég hef oft velt því fyrir mér og sPurt mig að því hvernig á því standi að laun á Íslandi, almenn dagvinnulaun eru eins lág og raun ber vitni í samanburði við nágrannalöndin. I raun þarf að fara til Suður-Evrópulandanna, til hinna fátækari héraða í Suður-Evrópu til þess að finna jafnlág dagvinnulaun og þekkjast á Íslandi. Þetta gerist þrátt fyrir það að hér á Íslandi séu þjóðartekjur með einhverjum alhæstu í öllum heiminum.

Í tilefni af þessu fluttum við þm. Borgarafl. þáltill. þar sem við leggjum til að framkvæmd verði vönduð og nákvæm úttekt á því hvernig skiptingu þjóðartekna á Íslandi er háttað. Stafar þetta lága kaup af því að tiltölulega fáir skipta með sér meiri hluta allra þjóðarteknanna og launþegarnir, þ.e. fjöldinn skiptir með sér miklum minni hluta þjóðarteknanna? Ég vil gjarnan fá svör við þessu. Hvernig stendur á því að þjóð sem hefur einhverjar mestu þjóðartekjur í öllum heiminum borgar svona lág laun? Það hlýtur að vera eitthvað að hagkerfinu. Nú er það alveg ljóst að hagkerfið hér virðist hafa stillt sig inn á svona lág laun og í hvert skipti sem talað er um að hækka launin þá er hrópað: úlfur, úlfur. Það fer allt þjóðfélagið á hvolf ef launin verða hækkuð. En hvernig stendur á því að nágrannalöndin virðast hafa hagkerfi sem hefur stillt sig að miklu hærri dagvinnulaunum? Það fer ekkert á hvolf þar, þetta virðist ganga ágætlega.

Við lögðum því til í sömu till. að gerður yrði nákvæmur samanburður á dagvinnulaunatekjum ákveðinna markhópa og það mætti gjarnan taka þá sem njóta tryggingabóta með til þess að fá þeirri spurningu svarað í eitt skipti fyrir öll: Hvernig stendur á því að laun eru svona lág hér á Íslandi?

Hæstv. forsrh. sá ástæðu til að fara að agnúast út í okkur stjórnarandstöðuþm. fyrir óbilgirni hér fyrir hátíðirnar, að við skyldum ekki vilja hleypa öllum stjórnarfrv. í gegn, einn, tveir, þrír, þá væntanlega án nokkurrar umræðu. Hann minnti á fund sem við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar áttum með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og leiðtogum stjórnarflokkanna sunnudaginn 20. des. sl. Þar sagði hann að hann hefði boðið stjórnarandstöðunni mikið kostaboð, að draga úr söluskatti á fiski með því að greiða niður söluskatt á fiskmeti að einhverju leyti og fresta einu stóru stjórnarfrv. fram yfir hátíðar, þ.e. frv. til l. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það var sú gulrót sem átti að fá okkur stjórnarandstöðuþm. til að fallast á það að hætta allri umræðu um þessi frv. og afgreiða þau þar með fyrir jól. Ég hef nú reyndar hugsað um það eftir á að jafnvel þó að við hefðum setið hér og aðeins rétt upp hönd, en ekkert talað, þá hefði það ekki verið hægt því aðeins formsatriðanna vegna hefði ekki verið nægur tími að afgreiða öll þessi frv. fyrir jól þó svo við hefðum engar umræður haft. En hins vegar var það mjög athyglisvert að sjá það svo síðar meir, nokkrum dögum seinna og jafnvel daginn eftir, koma í ljós að þetta, sem hæstv. forsrh. var að bjóða okkur í staðinn fyrir það að falla frá allri umræðu um þessi óvinsælu skattafrv. ríkisstjórnarinnar, þetta var ríkisstjórnin löngu búin að ákveða að gera hvort sem var. Hún var búin að ákveða það að draga úr söluskattsálagningu á fiskmeti með því að greiða niður söluskatt að hluta til og hún var búin að ákveða það að fresta verkaskiptingarfrv. Það skyldi því engan undra þó að við hefðum ekki verið neitt sólgnir í það að ganga að þessu kostaboði.

Hins vegar er það ekki rétt sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að við hefðum nánast viljað láta ríkisstjórnina kasta fyrir róða allri sinni efnahagsmálastefnu. Það er hin mesta firra. Við óskuðum einungis eftir því að ekki yrði lagður söluskattur á matvæli og við viðurkenndum það að til þess að ná því fram þyrfti eflaust að fara til baka í upphafleg áform ríkisstjórnarinnar, um að ná halla ríkissjóðs niður á þremur árum í staðinn fyrir á einu ári. Það er nefnilega einu sinni svo að með því að ætla sér að jafna ríkissjóðshallann á einu ári þá höfum við orðið vitni að einhverri mestu skattaálagningu sem þessi þjóð hefur séð — líklega frá stofnun lýðveldisins ef ekki allar götur frá upphafi. Við skulum bara öll rifja það upp að þetta land byggist upphaflega vegna þess að mönnum þykir nóg um ofríki og skattheimtu Haralds hárfagra. Þess vegna flytja menn til Íslands. Það sem verst er núna er að ég veit ekki hvert við eigum að flýja ef við getum ekki unað lengur við þá skattheimtu sem hæstv. ríkisstjórnin er búin að

skella yfir almenning. Við höfum ekki lengur í nein hús að venda. Ég efast stórlega um að Norðmenn mundu vilja taka við okkur aftur. (EgJ: Jan Mayen.) Ja, það kann að vera að einhverjir ríkisstjórnarliðar mundu vilja setjast þar að, en ætli við mundum þá ekki heldur reyna að þreyja þorrann hér á gamla skerinu, a.m.k. við stjórnarandstöðuþm.

En það er rétt að staldra aðeins við þessar skattaálögur. Hæstv. fjmrh. flutti hér mjög langa ræðu. Það var ekki talað um málþóf þá. Hann talaði hér í nærri einn og hálfan klukkutíma. Og ég rifja það upp hér að í hinum miklu og löngu umræðum sem urðu um stjórnarfrv., bæði fyrir og um hátíðarnar og hér í upphafi árs, þá vorum við stjórnarandstöðuþm. mjög sakaðir um það, bæði af hálfu stjórnarþm. og af hálfu ýmissa fréttamanna, sem sáu ástæðu til að taka undir með stjórnarþm., að við töluðum allt of lengi. Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hefði verið hvað drýgstur í hópi þeirra sem töluðu lengi, einmitt í umræðunum um stjórnarfrv. hér um og eftir hátíðarnar. Og hann er trúr sinni köllun því að hann hefur flutt hér langlengstu ræðuna í dag og ætti eiginlega að vera réttnefndur konungur málþófsmanna. En hann talaði um það að þessi ríkisstjórn hefði verið mjög dugleg, hún hefði verið mjög athafnasöm og vísaði því til föðurhúsanna þegar menn voru að tala um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Það er nú einu sinni svo að verkstjóri sem hefur verkamenn í vinnu hjá sér og setur einn þeirra til að grafa skurð, kemur svo kannski að lokum dags til að sjá hvernig gengur með skurðinn og kemst að því að verkamaðurinn hefur grafið skurðinn á algjörlega vitlausum stað. Nú, verkamaðurinn að sjálfsögðu hefur verið mjög duglegur kannski allan daginn en verkið er bara gagnslaust. Það er ekkert gagn í því. Hann gróf skurðinn á vitlausum stað. Ég held það megi lýsa aðgerðum ríkisstjórnarinnar á þennan hátt að þessar aðgerðir reynast okkur gagnslausar þegar á hólminn kemur. Þær eru á vitlausum stað.

Skattbyrðin sem stefnt er að fyrir árið 1988, eins og ég gat um áðan, er langmesta skattaálagning sem þjóðin hefur nokkru sinni upplifað. Það stefnir í að skattbyrði fari yfir 26% af vergri landsframleiðslu sem er langhæsta skattprósenta sem við höfum séð. Það er talað um að eitt ár í upphafi ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsens hafi skattaálögur nálgast þetta mark, en við verðum að hafa það hugfast að þá voru ytri aðstæður allt aðrar. Bæði er þjóðarframleiðslan, þ.e. þjóðartekjurnar, miklum mun hærri í dag en þær voru þá og þá voru ytri aðstæður fyrir þjóðarbúið mjög óhagstæðar, olíuverð var mjög hátt og fiskafurðir okkar seldust frekar illa á erlendum mörkuðum. Nú eru skilyrðin miklu hagstæðari og þrátt fyrir þetta þarf að keyra skattheimtuna upp í það almesta sem nokkru sinni hefur sést. Það er ansi fróðlegt að sjá hv. þm. Sjálfstfl. í kór rétta upp hönd þegar verið er að skrúfa skattheimtuna upp í það mesta sem þjóðin hefur nokkru sinni séð.

Það er alltaf talað um að það hafi þurft að taka allt tekjuöflunarkerfi ríkisins til endurskoðunar, þessi margfræga hreingerning hæstv. ráðherrans á tekjuöflunarkerfinu. En það hefur ekkert verið talað um að taka útgjaldakerfi ríkissjóðs til hreingerningar. Hefði ekki verið nær að halda sig við upphafleg markmið og jafna halla ríkissjóðs á þremur árum og nota þá þessi þrjú ár til þess að efna til allsherjarhreingerningar á útgjaldahlið ríkisins? Það er ágætt að ætla sér bara að koma við hreingerningu á tekjuhlið ríkissjóðs en láta síðan útgjöldin eiga sig, þau megi vera hin sömu og þau hafa alltaf verið.

Mér sýnist, af minni reynslu úr sveitarstjórnarmálum, að það sé farið alveg öðruvísi að þegar verið er að setja upp fjárhagsáætlun fyrir ríkisvaldið í samanburði við það sem er gert þegar verið er að stilla upp fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélögin. Hjá vel reknum sveitarfélögum er yfirleitt þannig staðið að að fyrst er athugað hverjar muni verða tekjur sveitarfélagsins. Það er byrjað á því að reikna út hvað útsvörin muni gefa af sér, hvað sveitarfélagið muni fá inn í tekjur af aðstöðugjöldum og fasteignagjöldum o.s.frv. Að því loknu er byrjað að athuga hver útgjöldin geti orðið. Mér sýnist hins vegar að hér sé hafður sá hátturinn á að útgjöldin eru athuguð fyrst, það er stillt upp útgjaldahliðinni, og svo eru skattar auknir þangað til komnar eru tekjur inn fyrir þessum útgjöldum.

Það er talað um að skattkerfið hafi verið ónýtt. Við hefðum að sjálfsögðu ekkert haft á móti því að taka þátt í að laga þetta skattkerfi. Eitt af því sem var lögð höfuðáhersla á í þessari hreingerningu á tekjuöflunarkerfinu var að koma á nýju söluskattskerfi þar sem yrði lagður söluskattur á miklu breiðari stofn en áður var. Þetta fól m.a. í sér að það var lagður söluskattur á matvæli. Matarskatturinn er það sem þessi ríkisstjórn mun væntanlega verða frægust fyrir og spurningin er: Var engin önnur leið til?

Hæstv. sjútvrh. auglýsti m.a. eftir því hvort stjórnarandstaðan hefði einhverjar skoðanir í þessu efni. Ég get reynt að kynna hér hugmyndir okkar í skattamálum. Ég hef alla tíð verið mjög efins um að það sé eitthvert vit í því að innleiða skattkerfi sem er hannað og búið til fyrir stóru þjóðfélögin í Evrópu. Virðisaukaskatturinn svokallaði er fundinn upp og má segja hannaður, svo ég taki mér það orð í munn, fyrir milljónaþjóðfélögin í Evrópu sem eru með allt annarri efnahagslegri uppbyggingu en þetta litla þjóðfélag langt norður í Dumbshafi. Við skulum taka sem dæmi lönd eins og Þýskaland, Frakkland og jafnvel Danmörk. Ætli það sé ekki nálægt lagi að um 80% af öllum neysluvörum sem eru til sölu í verslunum í þessum löndum séu framleiddar í landinu sjálfu? Aðeins um 20% eru innfiutt. Á Íslandi er þetta öfugt. Hér eru u.þ.b. 80% af öllum neysluvörum, sem eru til sölu hér í búðum og almenningur kaupir daglega, innfluttar vörur, en kannski ekki nema 20% af neysluvörum framleiddum í landinu sjálfu. Það sjá allir menn að það þarf að

vera allt annað skattkerfi sem hentar í litlu þjóðfélagi eins og við búum í.

Síðan er annað. Í tengslum við tolla- og viðskiptasamninga milli ríkja hefur verið lögð á það áhersla að það eigi að forðast sem allra mest að leggja á skatta við landamæri. Þetta er ofur eðlileg og skiljanleg krafa af hálfu t.d. Evrópulandanna sem eru öll með landamæri þannig að vöruflutningar eiga mjög greiðan aðgang yfir þessi landamæri. Þar fara vöruflutningar fram með bílum og járnbrautarlestum og það tekur kannski nokkra klukkutíma að flytja vörur úr einu landi í annað. Það er ósköp eðlilegt að þessi lönd vilja ekki taka upp landamæraskatta. Það sjá allir menn. En til Íslands koma allar vörur með flugvélum eða skipum til hafna á Íslandi. Það er allt önnur flutningsaðstaða á varningi til Íslands en gerist í Evrópulöndunum. Þetta segir okkur að það er miklu eðlilegra að vera með landamæraskatta í landi eins og Íslandi meðan í löndum eins og í Vestur-Evrópu er ósköp eðlilegt að reynt sé að forðast landamæraskatta. En því í ósköpunum ætlum við þá að taka upp skattkerfi sem er hannað einmitt og miðað við þær forsendur, sem gilda í Efnahagsbandalagslöndunum, að það beri að forðast landamæraskatta og miða við að meginþorri alls neysluvarnings, sem er til sölu í landinu, sé framleiddur í landinu sjálfu? Það segir sig sjálft að við hljótum að þurfa að búa okkur til alveg sérhæft skattkerfi sem tekur einungis mið af íslenskum aðstæðum. Það er þetta sem við höfum lagt áherslu á í stefnuskrá Borgarafl., að taka hvern einasta málaflokk og brjóta hann til mergjar og leita að þeirri stefnu sem hentar best fyrir þetta fámenna þjóðfélag norður í Dumbshafi, eins og ég sagði áðan, en ekki apa eftir einhverjar erlendar hagfræðikenningar sem eru allar saman stílaðar upp á milljónaþjóðfélög sem búa við allt aðrar aðstæður en hér gerast. Þess vegna létum við á sínum tíma kanna lauslega hvort það væri möguleiki á því að taka upp söluskatt í tolli, fella niður allan söluskatt á þjónustu innan lands og af smásöluversluninni, en láta samkeppnisfyrirtækin, sem sarr.kvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar eru ekki nema 2500 talsins, greiða bókhaldslegan virðisaukaskatt. Það yrði framkvæmt með þeim hætti að þau fyrirtæki þyrftu ekki að greiða söluskatt af aðföngum, þau mættu í staðinn bókfæra söluskatt sem væri á aðföngum til þeirra án þess að greiða hann, en yrðu síðan að skila ríkinu að lokum virðisaukaskatti, þ.e. söluskatti af framleiðsluvörunni þegar hún yfirgefur fyrirtækið, en þá yrði um leið dreginn frá sá bókfærði söluskattur sem var á aðföngum til fyrirtækisins. Þetta skattkerfi væri margfalt einfaldara og að sjálfsögðu væri enginn matarskattur á innlendum matvælum í þessu kerfi. Hins vegar mundi ég ekkert amast við því þó að það kæmi fullur skattur á innflutt matvæli. Ég mundi ekkert sjá eftir því. En mér hrýs hugur við því að horfa upp á það að það sé kominn söluskattur á innlenda matvöru því að nógu var hún dýr fyrir.

Það var talað um hér áðan, ég held að það hafi

verið hæstv. fjmrh., að í Svíþjóð og í Danmörku, það var víst aðallega í Svíþjóð, hefðu launþegasamtökin eitthvað verið að amast við virðisaukaskatti á matvæli. Síðan hefðu einhverjir spámenn og sérfræðingar reiknað út að það gagnaði launþegahreyfingunni þar mest að það skyldi einmitt vera virðisaukaskattur á matvælum. Það er talað um að það sé fullur virðisaukaskattur á matvælum í Danmörku, 22%, og þetta nota menn svo til að rökstyðja að það sé allt í lagi að taka upp matarskatt á Íslandi. En menn átta sig ekki á einu. Matvara í þessum löndum er ekkert dýr. Hún þolir vel 22% virðisaukaskatt án þess að hún verði svo dýr að almenningur hafi ekki efni á að kaupa hana. Matvara hefur hins vegar ávallt verið dýr á Íslandi af ofur eðlilegum ástæðum vegna þess að skilyrði til landbúnaðar á Íslandi eru ekki mjög hagstæð. Við verðum að viðurkenna þá staðreynd að við búum svo norðarlega að landbúnaður hlýtur alltaf að eiga erfitt uppdráttar. Landbúnaðarframleiðsla á Íslandi verður alltaf dýr í samanburði við aðrar þjóðir. Þess vegna er gjörsamlega útilokað að það sé hægt að skattleggja hana á sama hátt og nágrannalöndin gera sem hafa mjög hagstæðan landbúnað, geta framleitt sínar landbúnaðarafurðir á miklu ódýrari og hagkvæmari hátt en við gerum. Það er alveg út hött, enda á eftir að koma á daginn að launþegar fara hér á vonarvöl ef það á að verða að laun eigi ekki að hækka nema um 13% það almesta og sagt að það sé langt umfram það sem þjóðfélagið þoli, en síðan koma matarskattarnir á fullu. Það skal viðurkennt að ákveðið var að greiða niður söluskatt á mjólk, dilkakjöti. — Var það ekki í heilum skrokkum? Mig minnir endilega að þegar hæstv. fjmrh. fór út í búð og keypti sér kótilettur var kominn fullur matarskattur á þær. Eitthvað minnir mig að það hafi komið fram í sjónvarpinu þó svo að þar hafi einnig komið fram, löngu fyrr reyndar, að hæstv. fjmrh. er lítið í því að kaupa lambakjöt.

En það er annað sem kom fram í umræðum um fjárlagafrv. um jólin. Það var að sú upphæð sem á að fara til niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum er föst, þ.e. hún er ekki háð verðbreytingu. Það þýðir að sjálfsögðu að það mun draga úr niðurgreiðslu á þessum afurðum eftir því sem líður á árið, eftir því sem verðbólgan æðir áfram, en það virðist allt stefna í að það verði hér 30% verðbólga eins og sumir hæstv. ráðherranna hafa bent réttilega á.

Ég vildi segja frekar frá þessum hugmyndum. Við höfum ekki haft aðstöðu til að láta reikna þetta nákvæmlega fyrir okkur eða kanna nema það var athugað lauslega af Þjóðhagsstofnun fyrir okkur í kosningabaráttunni að taka söluskatt í tolli af öllum innfluttum vörum og taka síðan upp bókhaldslegan virðisaukaskatt hjá þessum 2500 samkeppnisaðilum. Ég vek athygli á þessari hugmynd sem dæmi um hugmyndir sem skoða mætti betur áður en farið er að apa eftir eitthvert virðisaukaskattskerfi stórþjóðanna úti í Evrópu.

Það hefur margt verið sagt um efnahagsmál og ég

veit ekki hvort það er ástæða til að lengja þessar umræður öllu meira. Mig langar þó að lokum að fjalla aðeins um fastgengisstefnuna svokölluðu. Það er búið að tala mikið um hana. Ég get út af fyrir sig alveg tekið undir það með hæstv. ráðherrunum að það er í sjálfu sér orðin úrelt lausn að í hvert skipti sem fyrirtæki eða hluti atvinnurekstrar í landinu stendur höllum fæti sé argað á gengisfellingu. Síðan kemur þessi víxlverkun: gengisfelling, auknar kröfur um launahækkanir o.s.frv. En hins vegar þýðir ekkert að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að ef verðlag í landinu, allur kostnaður, verð á þjónustu með meiru, æðir upp um tugi prósenta á einu ári meðan genginu er haldið föstu hlýtur að enda með því að innlend framleiðsla getur pakkað saman því hún getur ekki keppt við erlenda framleiðslu þar sem verðbólgan er langtum, langtum minni án þess að gengið breytist þá að sama skapi. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að gengið falli hér á hverjum degi vegna þess að þjónustan innan lands hækkar miklu meira en þjónusta erlendis. Það er miklu meiri verðbólga hér en í nágrannalöndunum. Þetta gerist þrátt fyrir að genginu sé haldið föstu.

Það var flutt í Sþ. mjög merkileg tillaga um að tengja íslenska gjaldmiðilinn við einhvern erlendan gjaldmiðil og láta hann fylgja honum. Ég spyr hvort það gagni nokkuð. Mundi ekki eftir sem áður verðlag og þjónusta hér innan lands geta vaðið upp úr öllu valdi þó svo að við mundum t.d. binda íslensku krónuna við jafnvel þýska markið? Við sætum þá allt í einu uppi með þýskt mark. Við getum jafnvel tekið upp þann gjaldmiðil hér á Íslandi. Við sætum þá uppi með þýskt mark sem væri miklu minna virði hér en það væri í Þýskalandi. Ég sé ekki að þetta leysi neitt í sjálfu sér. Við hljótum að þurfa að taka mið af þessu. Ég vil því taka aftur undir með hv. 10. þm. Reykv., sem eins og ég sagði í upphafi máls míns er orðinn óvæntur liðsmaður stjórnarandstöðunnar á þingi, að þetta gengur ekki svona öllu lengur því að það hlýtur að vera albrýnasta verkefnið sem við eigum fram undan að ráðast á viðskiptahallann og reyna að minnka hann. Það gerum við ekki með þeim hætti að hvert útflutningsfyrirtækið á fætur öðru leggi upp laupana vegna þess að allur kostnaður innan lands hefur vaðið upp um tugi prósenta en verð útflutningsvörunnar stendur í stað. Það sjá allir menn. Það verður eitthvað að gera til að laga þetta. Það er að vísu rétt og allur almenningur tekur undir það að menn eru dauðþreyttir á svokölluðum gengisfellingum. Það voru þó fundin upp ýmis ráð áður fyrr. Það var talað um gengissig og síðan kom gengissig í einu stökki. Nú ég vildi að lokum kenna hæstv. ráðherrunum eina aðferð enn. Hún er sú að það þarf ekkert annað en laga myntvogina. Það þarf ekkert annað en breyta vægi bandaríkjadals í myntvoginni, leiðrétta myntvogina. Þá breytist gengið af sjálfu sér. Ég mundi ekki einu sinni kalla það gengisfellingu. Það er einungis verið að tala um að laga myntvogina, auka vægi dollarans í myntvog. Mikill hluti útflutn

ingsframleiðslu okkar er í dollurum og ef vægi dollarans yrði aukið í myntvoginni mundi gengið að sjálfsögðu breytast. Það mætti kalla það leiðréttingu myntvogar. Auðvitað er það gengisfelling, en ef menn vantar nafn á þetta er þetta ein leið.

Virðulegur forseti. Ég held ég láti þetta nægja að sinni. Ég hef lokið máli mínu.

Málmfríður Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu um efnahagsog kjaramál er rétt að minnast þess að þrátt fyrir allt það tal um slæma afkomu þjóðarbúsins, sem heyrst hefur að undanförnu, erum við langt frá því að vera illa sett hvað ytri aðstæður varðar þó að þær séu e.t.v. ekki eins hagstæðar og á síðasta ári. Sjávarafli hefur aukist hin seinni ár og aldrei verið meiri útflutningstekjur en á síðasta ári. Við höfum ekki orðið fyrir neinum meiri háttar áföllum. Við höfum búið við einstakt góðæri. Og þó að einhver samdráttur verði nú á tekjum er hagur okkar betri en oft áður. Hvað er þá að? Þar kemur ýmislegt til.

Þeir sem ráða ferðinni í efnahags- og atvinnumálum okkar hafa sýnt ábyrgðarleysi. Þeir hafa magnað upp verðbólgu með gegndarlausum innflutningi og offjárfestingu og margfaldað launabilið í landinu með þvílíku launaskriði að meðaltalskaupmáttur hefur sjaldan verið hærri þó að fjöldi launafólks hafi tæpast fyrir nauðþurftum. En ráðamenn einblína sífellt á meðaltalið, sem ekki nokkur lifandi maður tekur upp úr umslaginu sínu mánaðarlega, og þeir telja að allt sé harla gott.

Um aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í peningamálum og áhrif þeirra má ýmislegt segja. Þær áttu að miða að því að auka sparnað og draga úr þenslu og fjárfestingu, en lítið bólar á því að svo muni verða, a.m.k. ef litið er til þess að Reykjavíkurborg hefur engan veginn undan að úthluta lóðum til húsbygginga.

Eitt er það sem enginn hefur vikið að í þessari umræðu en er afleiðing þenslunnar sem aðallega birtist hér á suðvesturhorninu. Vita menn hvað það kostar núna að leigja sér húsnæði? Vita menn að þriggja herbergja íbúð fæst nú ekki leigð í Reykjavík fyrir minna en 32-40 þús. kr. á mánuði? Það er hvergi tekið með þegar reiknað er hvílík blessuð tekjuaukning hefur fallið mönnum í skaut í kjölfar efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar. Það er líka vitað mál að helst fæst ekki íbúð nema að borga 3-6 mánuði fram í tímann. Og hvernig á lágtekjufólk að komast af sem ekki á húsnæði? Það skyldi ekki vera að húseigendur hefðu möguleika á að skjóta leigutekjum undan skatti. Og það skyldi ekki vera að þeir sem eru að greiða niður skuldir vegna húsbygginga greiði mánaðarlega í vexti áþekkar upphæðir og það sem ég nefndi um húsaleiguna.

Háir vextir áttu að vera eitt hagstjórnartækið til að minnka eftirspurn eftir lánsfé og auka sparnað. En sú hefur ekki orðið raunin. Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er aftur á móti að sliga atvinnureksturinn í landinu og er ölluin þeim þung í skauti sem

skuldabyrðar bera og þar á ég ekki síst við þá sem eru að kikna undan skuldum vegna húsbygginga. Þrátt fyrir allar hagfræðikenningar hefur aldrei sannast að háir vextir leiddu til sparnaðar. Og um þessa vaxtastefnu yfirleitt vísa ég til umræðna í gær þar sem hún var harðlega gagnrýnd af stjórnarliðum jafnt sem stjórnarandstæðingum og flestir töldu að hún ýtti undir verðbólguna sem nú er að aukast óhugnanlega. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er að lenda í ógöngum. Það er sama hvernig reiknað er.

Undirstöðuatvinnuvegirnir verða að hafa skilyrði til að greiða mannsæmandi laun og fyrsta og síðasta skilyrðið til þess að þeir hafi það er að lækka verðbólguna. Ríkið á að fara sér hægt í samkeppni á lánsfjármarkaðnum. Verðlagi verður að halda í skefjum, ekki láta það æða upp eins og nú er greinilega að gerast. Það verður að hafa hemil á þenslunni og viðskiptahallanum og það verður að hamla móti hinum gegndarlausa innflutningi og koma jafnvægi á utanríkisviðskiptin. Vanhugsaðar aðgerðir ríkisstjóruarinnar hafa blásið að verðbólgunni og valda því að nú krefst verkafólk leiðréttingar á kjörum sínum. Halda menn að aðgerðir eins og matarskatturinn verði ekki til þess að auka launakröfur? Veit hæstv. fjmrh. að mánaðarlegar barnabætur með þrem börnum nægja varla til að greiða dagvist fyrir eitt barn? Halda menn yfirleitt að fólk geti lifað einhverju lífi á launum sem eru á bilinu 3~ 40 þús. ?

Hæstv. fjmrh. beindi áðan þeirri fsp. til Kvennalistans hvað væri lúxus. Ég get upplýst hann um að þegar blessun matarskattsins hefur fallið á það sem enginn maður getur án verið, daglegt fæði, og fólk hefur reitt af höndum greiðslu fyrir það er svo lítið eftir af launum þess, hvernig svo sem spekingar hagræða því með reiknikúnstum, að flest annað sem menn þurfa er orðið lúxus. Ein af orsökunum til hinnar margumtöluðu upplausnar fjölskyldunnar í nútímaþjóðfélagi er sú að það kostar óhóflegt vinnuálag að framfleyta henni. Við höfum nóg til skiptanna í þessu þjóðfélagi til að allir hafi nóg á milli handanna, en skiptingin er ekki réttlát. Það verður að tryggja að lægstu laun nægi til framfærslu og tryggja atvinnuvegunum skilyrði til að geta greitt þau.

Ég vil í því sambandi minna á að á tveim síðustu þingum hafa þingkonur Kvennalistans borið fram frv. um lágmarkslaun sem dugi til framfærslu einstaklings, en þau hlutu ekki náð fyrir augum hv. þm. Í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sl. vor sem við kvennalistakonur tókum þátt í með nokkrum núverandi ráðherrum snerist umræðan að miklu leyti um afkomu heimilanna og fyrst og fremst þeirra sem lægstu tekjurnar hafa. Öll vorum við sammála um að engir gætu lifað af lægstu launum sem viðgangast í landinu, en við gátum hins vegar ekki sameinast um leiðir til að leiðrétta það ranglæti og því fór sem fór. En krafa okkar var sú að fest væri í lög að laun

væru ekki lægri en svo að þau dygðu til framfærslu einstaklings. Er það ósvífin krafa? Viðmælendur okkur héldu hins vegar fast við Mesópótamíulögmálið svokallaða, sem hagfræðingar þeirra töldu óumbreytanlegt, og töldu að þeir gætu lagfært kjör lágtekjufólks á annan veg og varanlegri en að lögbinda lágmarkstekjur við framfærslukostnað. Úrræði þeirra höfum við nú séð og þau hafa ekki reynst betur en svo að nú rís fólk upp og krefst kjaraleiðréttinga og hærri launa.

Út af fyrir sig er afstaða hagfræðinga mjög einkennileg. Þrátt fyrir framfarir um aldir, iðnbyltingu og tæknibyltingu virðast þeir sáttir við það launabil sem þeir telja að haldist hafi óbreytt síðustu 3000 árin og virðist ekki koma til hugar að rétt sé að breyta því né heldur að það sé hægt. Þeir sýnast haldnir einhverri stöðnun sem hindrar skapandi hugsun. Hvernig væri að þeir tækju sig saman og hættu nú að láta glamra í kvörnunum en fyndu leiðir til að hindra að hækkanir á lægstu laun gangi sífellt sjálfkrafa upp allan launastigann og fyndu leiðir til að minnka launabilið? Ég set þessa uppástungu fram hér af því að augljóst er að af sjálfsdáðum fara þessir vísu menn ekki að nota menntun sína og færni á þennan hátt. Hugsanir þeirra og hugmyndir eru skorðaðar í öðru fari.

Halldór Blöndal:

Frú forseti. Ég verð að segja fyrst að þau orð sem talsmaður Kvennalistans, hv. 7. þm. Norðurl. e., sagði áðan voru mjög eftirtektarverð og er nauðsynlegt að þm. Kvennalistans, annaðhvort við þessar umræður eða þá við annað tækifæri síðar, útskýri fyrir þingheimi frekar hvað við sé átt þegar talað er um að unnt eða gerlegt sé að bæta kjör þeirra sem verst eru settir með lagasetningu frá Alþingi. Fyrr í þessari umræðu minnti hæstv. sjútvrh. á að það hefði verið gert með lögum í febrúarmánuði 1978. Ég vil segja að það hafi verið djarfasta tilraun sem gerð hafi verið til þess að koma til móts við þá lægst launuðu og var þar gripið á ýmsum kjaraatriðum einmitt með þeirri löggjöf. Við munum að út úr því varð mikil sprenging. Upp úr því urðu til slagorð eins og „Kjarabarátta er kosningabarátta“, „Samningana í gildi“ og þar fram eftir götunum. Ég er alveg handviss um að sá hv. þm. sem er formaður þingflokks Kvennalistans hafi á þeim tíma snúist öndverður við þessarilagasetningu og hrópað ekki síður en aðrir félagar í Alþb. að samningana skyldi í gildi, að þessi lög um lágmarkslaun skyldu brotin niður. Það er þess vegna mjög bagalegt nú, þegar þessi rödd hefur heyrst hér frá Kvennalistanum, að ekki skuli vera hér inni neinir fulltrúar Kvennalistans sem geti útskýrt við umræðurnar hvort Kvennalistinn hafi nákvæmlega í huga að fara þá leið sem þá var farin til að bæta lægstu launin eða hvort Kvennalistinn hefur aðrar hugmyndir uppi. Auðvitað er tal af þessu tagi gagnslaust með öllu ef þeir sem bera hugmyndina fram eru ekki reiðubúnir að lýsa henni í einstökum atriðum að sínu leytinu eins og Alþfl. á

sínum tíma þegar hann talaði um stóreignaskattinn og lagði fram um hann þáltill. hér á Alþingi en fékkst ekki til að skýra hvað fyrir honum vekti í lagafrv. þannig að þingið gæti formlega tekið afstöðu til hugmyndarinnar og velt því fyrir sér á hverjum sú skattheimta bitnaði fyrst og fremst og hvað var þar á ferðinni.

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð í dag og ég hef verið að hugsa um það nú áður en ég tók til máls a.m.k. að það er synd að allur sá mikli fjöldi sem hefur tekið þátt í skoðanakönnunum að undanförnu skuli ekki hafa fengið tækifæri til að hlýða á þessa umræðu því það er greinilegt á þeim málflutningi sem hér hefur verið að það er alger vendipunktur í stjórnmálaumræðunni, í efnahagsumræðunni nú með þessari efnahagsumræðu. Ég er mjög þakklátur hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hann skyldi hafa átt upptökin að efnahagsog kjaraumræðunni núna, en ég vil líka segja að þessi langa og ítarlega umræða, sem fram fer í þinginu nú, vekur upp þá spurningu hvort ekki sé rétt að athuga um hvað það mundi kosta að á einhverri rás Ríkisútvarpsins yrði útvarpað öllum umræðum frá Alþingi þannig að fólkið sem kýs menn á þingið geti fylgst náið með þeim málflutningi sem hér fer fram, geti t.d. fylgst með því hvort málþófi hafi verið uppi haldið nú fyrir áramót og jól og hvort víst sé að allt sem þá t.d. var sagt hafi verið sagt af hjartans einlægni eða til að standa sem lengst í pontunni og má kannski segja að þagnarræðan hafi verið innihaldsríkust, a.m.k. á vissu stigi þeirrar málþófsumræðu sem þá fór fram.

Það er eitt sem vekur líka umhugsun þegar maður hlýðir á umræður eins og þessar, hversu hún fer út um víðan völl og hversu erfitt er að átta sig á því, þegar maður hlustar á alla þessa ráðherra og alla þessa þingmenn, hvað það sé í raun og veru sem meiri hluti þm. vill leggja höfuðáherslu á. Hvað er það sem við teljum brýnast, hvaða markmið eru það í efnahagsmálum sem við teljum nú brýnast að náð sé? Það var eftirtektarvert í því samhengi að ýmsir þm. töluðu annars vegar um að útflutningsatvinnuvegirnir væru í mikilli hættu, að samkeppnisiðnaðurinn væri í hættu og sumir sögðu að byggingariðnaðurinn úti á landi væri að stöðvast. Samt sem áður kom ekki fram hjá þessum sömu mönnum neinn ótti við að atvinnuleysi væri fram undan né heldur hitt að kjaraskerðing væri e.t.v. nauðsynleg til þess að við gætum haldið fyrirtækjunum gangandi. Kannski sýnir ekkert atriði jafnvel og þetta hversu vel hefur tekist til um stjórn landsins nú á síðustu missirum og árum að við umræðurnar núna skuli þessi þanki ekki koma upp þrátt fyrir öll stóru orðin. Og það er kannski enn merkilegra fyrir þá sök að þegar sú ríkisstjórn var mynduð sem var á undan þessari, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, óttaðist þjóðin öll að til alvarlegs atvinnubrests kynni að koma vegna efnahagsástandsins þá og við munum að á þeim tíma beitti forseti Íslands sér fyrir því að hér yrðu hafðar hraðar hendur um myndun meiri

hlutastjórnar og lá í loftinu að að öðrum kosti yrði mynduð utanþingsstjórn fyrir 1. júní 1983. Nú er þessi ótti ekki uppi. Þeir þm. sem hér hafa talað í stjórnarandstöðu nú hafa ekki uppi neinn ótta um þetta. Sá grundvöllur að atvinna sé í landinu er í hugum allra hv. þm. sem ég hef hlýtt á hér í dag. Ég þurfti að vísu að bregða mér einu sinni aðeins frá, en ég hygg að það hafi ekki komið fram þar heldur. Þeir hafa í stórum dráttum haldið sig við það að atvinnuástandið væri svo gott að ekki þyrfti að óttast atvinnubrest. Þetta er mjög athyglisvert.

Annað, sem mér þótti líka mjög athyglisvert, kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. áðan þegar hann hélt því fram í sínu máli að Íslendingar væru, sem er auðvitað rétt, háðari útflutningi og innflutningi, utanríkisviðskiptum, en aðrar þjóðir. Þetta er auðvitað rétt. Það er þetta sem veldur því að íslenska hagkerfið er viðkvæmara fyrir sveiflum en hin stóru hagkerfi þar sem viðskiptin eru meiri inn á við og hinar stóru sveiflur, sem við verðum t.d. fyrir í fiskafla eða verðum fyrir ef einhver einn meiri háttar markaður okkar bregst, verða ekki. Í máli forseta Alþýðusambands Íslands fyrir tveim dögum, þegar verið var að ræða um það hvernig við Islendingar gætum aðlagað okkur hinum stóra markaði EBE eftir 1992, kom fram hjá honum í innskoti: Þessar náttúrlegu sveiflur eins og okkar íslenska þjóðfélag hlýtur alltaf að verða fyrir og við verðum að búa okkur undir. Það eru þessar náttúrlegu sveiflur sem hafa valdið okkuð erfiðleikum að halda hér sama stöðugleika í efnahagslífinu og nauðsynlegur er til þess að við getum stefnt að því með öruggri vissu að halda verðbólgunni í skefjum jafnharkalega og gert er í þeim iðnvæddu stórþjóðum sem við berum okkur saman við. En ég komst hins vegar,alveg að annarri niðurstöðu en hv. 7. þm. Reykn. Ég mundi geta ímyndað mér að Rauða-Kína með múrinn í kringum sig, með öll milljónahundruðin innan múrsins, gæti byggt sér upp eitthvert sérstakt skattkerfi, einhvern sérstakan gjaldmiðil sem er óháður umhverfinu, eitthvert sérstakt Rauða-Kína skattkerfi. Á hinn bóginn held ég að við vegna þessara miklu utanríkisviðskipta séum nauðbeygðir til að haga skattheimtunni á atvinnuvegina hérna í sem mestu samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Og auðvitað mundi það vera mikil uppgjöf fyrir fram ef við mundum nú, þegar þessi stóri og sterki markaður er að styrkjast og myndast, gefast upp fyrir fram í þeirri samkeppni sem þar hlýtur að verða og sem við hljótum að reyna að gerast aðilar að. Þó við treystum okkur ekki til þess að ganga inn í Efnahagsbandalagið, eða Evrópubandalagið eins og það heitir nú, hljótum við að reyna að ná samningum einmitt við þetta bandalag um gagnkvæm tollfríðindi. Þess vegna held ég að sé nauðsynlegt að við búum okkur undir þetta ekki aðeins með því að lagfæra tekjuöflunarkerfið. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég hef aldrei séð neina útlistun á því sem kallað er söluskattur í tolli og bókhaldslegur virðisaukaskattur hjá þjónustuaðilum. Ég hef ekki

séð þetta útfært og skal ekki um það ræða, en ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar almennt að við eigum að reyna að samræma skattkerfið hér á landi og af þeim sökum er ég mikill fylgismaður virðisaukaskatts.

Það er laukrétt hjá hæstv. fjmrh. að þessi ríkisstjórn hefur gert meira kannski en nokkur önnur ríkisstjórn í sambandi við tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs á stuttum tíma. En hitt er mikill misskilningur hjá honum ef hann heldur að þetta verk hafi allt verið unnið á þessum haustmánuðum. Það er mikill misskilningur. Það var búið að setja lögin um staðgreiðsluna. Tollalög var búið að setja og átti eftir að staðfesta tollskrána. Það var búið að leggja fram tvö frv. um virðisaukaskatt. Mér þykir nú leiðinlegt, eins fast og ég studdi formann Borgarafl. á sínum tíma sem fjmrh., ef hann er alveg fallinn frá þeim hugmyndum sem við þá höfðum um virðisaukaskattinn og ég hafði satt að segja vænst þess að hann mundi hjálpa okkur að koma því í gegnum þingið. En við sjáum nú til. Þegar hann les þessa pappíra á nýjan leik, þegar rifjast upp fyrir honum hans eigið handaverk á þeim skulum við vona að hann komi til liðs við okkur því við viljum alltaf fá góða liðsmenn, ekki neita ég því. En auðvitað var þetta allt saman meira og minna undirbúið, sumt að fullu unnið. En hitt er líka rétt að þegar nýr aðili kemur í ríkisstjórn er nauðsynlegt að fara yfir þetta allt saman aftur og þá koma upp viss atvik sem menn eru ekki algerlega sammála um og þurfa að semja um á nýjan leik. En-niðurstaðan hjá hæstv. fjmrh. er rétt. Þessi ríkisstjórn hefur lyft grettistaki í sambandi við fjáröflunarkerfið og við eigum eftir að gera betur. Frv. um virðisaukaskatt verður lagt fram á þinginu nú á næstu vikum og það frv. verður afgreitt á vorþinginu þannig að virðisaukaskattur kemur í stað söluskatts um næstu áramót sem þýðir í fyrsta lagi að það bætir stöðu útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisiðnaðarins, það styrkir smáfyrirtækin í landinu vegna þess að margvísleg aðföng og þjónusta sem þau þurfa að kaupa en eru inni í stóru samsteypunum eins og SÍS verða ekki tvísköttuð eins og er samkvæmt núgildandi kerfi. Þess vegna mun virðisaukaskatturinn í fyrsta lagi styrkja okkur gagnvart erlendum innflutningi, í samkeppninni erlendis með okkar útflutningsvörur og hann mun styrkja frjálsa samkeppni og litlu fyrirtækin. Þessu hefðum við af lagatæknilegum ástæðum getað dembt inn um áramótin, en á hinn bóginn var ekki talið að skattkerfið mundi þola það samtímis öllu öðru sem var að gerast og sú er skýringin á að þetta var ekki lögfest.

Ég hlustaði með mikilli athygli á það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði þegar hann var að tala um þá miklu eignatilfærslu sem hefði verið vegna rangrar gengisskráningar og tók eftir því að hann sagði að hann mundi gera þá kröfu að ríkisstjórnin gripi til aðgerða til að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Nú er sá hv. þm. ekki hér inni, en væri fróðlegt að fá að vita nákvæmlega hvað hann var að fara með

þessum ummælum.

En auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að gengi krónunnar er núna hátt skráð. Þetta vitum við. Við vitum líka að gengi krónunnar hefur oft áður verið hátt skráð. Það var t.d. mjög hátt skráð stundum á árum viðreisnarstjórnarinnar, en mikið hefur verið vitnað til þess tímabils, og væri fróðlegt að fá t.d. samanburð nú eða á árinu 1967 þegar mikla gengisfellingin var þá eða á árinu 1968. Auðvitað hafði þá myndast mikil spenna í gjaldeyrismálunum hér á landi, líka vegna þess að á þeim tíma voru verðskuldbindingar óverðtryggðar og ógengistryggðar þannig að gengisfellingin þýddi mikla eignatilfærslu innan lands og létti á augabragði af mikilli skuldabyrði, sérstaklega hjá þeim útflutningsfyrirtækjum sem höfðu staðið undir hallarekstri um hríð. Það er því ekki nýtt að slík spenna myndast í gengismálum. En ég vil út af segja að við erum búnir að reyna það sem kallað var gengissig. Ég man að þáv. viðskrh., hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson, kallaði þetta gengisaðlögun í einni ræðu og var gert grín að því. Við erum búnir að reyna þessa leið að láta aðila vinnumarkaðarins semja um kjarabætur sem atvinnuvegirnir og þjóðarbúið standa ekki undir og síðan hefur gengið sigið eða verið fellt og þetta hefur gengið svona jafnt og þétt. En menn eru svo fljótir að gleyma að jafnvel maður eins og hv. 7. þm. Reykn. talar nú um að rétt sé að taka upp launa- og lánavísitölu og slengja í eitt, eins og það mundi bæta eitthvað, sem auðvitað hefði í för með sér, ef aukinn hagvöxtur væri í landinu, að launþegarnir mundu ekki fá að njóta þess einir, en hugsunin var ekki sú. Auðvitað þýðir slík binding tveggja ólíkra þátta í þjóðfélagsgerðinni það að við verðum fyrir tapi fyrr eða síðar. Auðvitað er það svo. Auðvitað getum við ekki búið við þjóðfélag þar sem einn hópurinn, aðilar vinnumarkaðarins, á að hafa það fyrir sérstakt hfutverk að semja um launakjör og lífskjör í landinu sem næsti hópur, ríkisstjórnin, á svo sjálfkrafa að taka til baka og allt á þetta að gerast á kostnað krónunnar. Það er þess vegna ekki undarlegt þó að jafnlífsreynd kona og 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir skuli hafa sagt nú við umræðurnar að aðilar vinnumarkaðarins væru þess ekki megnugir að bæta kjörin í landinu. Það vekur þess vegna enga furðu.

En í mínum huga stendur þessi barátta ekki um hvort ríkisstjórnin vikunni fyrr eða síðar kýs að láta gengið síga. Þessi spurning er að verða miklu alvarlegri. Ef þessi alvarlega tilraun, sem nú er gerð til þess að fylgja stöðugleika í gengismálum, fer út um þúfur, er þá ekki skammt í það að við hrösum líka úr því vígi að geta sagt að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil? Þessi þanki er svo ofarlega í hugum manna að jafnvel hv. 7. þm. Reykn. talaði um það áðan að við tækjum t.d. upp þýska markið. En vaninn við að Íslendiagar gætu ekki búið við alvörugjaldmiðil var svo sterkur að hann bætti við: En auðvitað yrði íslenska markið verðminna en þýska markið undir eins. Það er þessi þankagangur, það er

¢essi hugsun sem við verðum að uppræta í okkur Íslendingum. Við verðum að taka upp þann þjóðernismetnað og það stolt að berjast fyrir því til þrautar að við getum verið menn, ekki aðeins fyrir okkar tungu, ekki aðeins fyrir okkar sögu heldur að við getum líka verið menn fyrir okkar eigin gjaldmiðli og við höfum þrek til þess að standa svo að stjórn okkar efnahagsmála að við getum stjórnað landinu með íslenskri krónu. Um það stendur stríðið nú. Það er svo alvarlegt. Sumir halda því fram að ríkisstjórnin hefði átt að vera búin að grípa inn í og fella gengið. Hvað eru þeir í raun og veru að segja? Það sem þeir eru í raun og veru að segja er að aðilum vinnumarkaðarins sé ekki treystandi. Þeir eru að segja að ríkisstjórnin hafi átt að grípa inn í nú þegar samningalotan stóð sem hæst og segja við aðila vinnumarkaðarins: Hættið að tala saman. Það sem þið eruð að gera verður áreiðanlega vitleysa. Við nennum ekki að bíða eftir því að sjá hvað þið eruð að gera og nú skulið þið bara snauta heim til ykkar í miðjum samningaviðræðunum. Og haldið þið að því hefði verið tekið þegjandi? Haldið þið að það sé leiðin til þess að stjórna landi og bera ábyrgð á þegnum sínum að haga sér með þeim hætti að virða ekki þær leikreglur sem settar hafa verið og láta ekki á það reyna hvort aðilar vinnumarkaðarins geti staðið undir þeirri ábyrgð að semja um laun og kjör fyrir þá umbjóðendur sem þeir standa fyrir? Þetta held ég að sé laukrétt. Ég held að orð gamals fyrrv. forsrh. séu líka rétt: Ef menn hugsa sér að gripið verði til alvarlegra efnahagsráðstafana, ef það er hugmyndin, verður þjóðin auðvitað að hafa fundið að til þess bar brýna nauðsyn og að önnur þau ráð sem tiltæk voru höfðu brugðist. Mitt mat er að svo sé ekki komið. Ég er sammála því í öllum meginatriðum sem ríkisstjórnin hefur gert í þessu efni fram til dagsins í dag. Auðvitað geta menn talað um eitthvert minni háttar atriði sem skiptir ekki máll þegar maður horfir á atburðarásina í heild. Ég er mjög ánægður yfir því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á kjara- og gengismálunum og hef þá trú að aðrir stjórnmálaflokkar hefðu ekki staðið betur að því þannig að ég er mjög ánægður yfir þessu.

En erfiðleikarnir eru þessir: Hv. síðasti ræðumaður, glögg og greind kona norðan úr landi sem hefur fengist við ýmislegt, hefur bæði fengist við búskap og unnið að ýmsu öðru, komst að þeirri niðurstöðu hér í ræðu sinni að fyrirtækin og heimilin væru bæði jafnilla stödd. Sami tónn var frá ýmsum öðrum. Sá hv. þm. sem á undan henni talaði, hv. 7. þm. Reykn., hafði þá framtíðarsýn að fyrirtækin upp til hópa þyldu ekki vaxtaþungann og heimilin ekki heldur og sá fyrir sér lítinn hóp manna sem stæði uppi með allar, eignir Íslendinga. Þannig virðist umræðan vera á þeim nótum að að sé ekki svigrúm fyrir frekari kjarabætur en nú er og þm. í stórum dráttum því sammála því, sem við höfum sagt, að nú sé kominn sá tími að nauðsynlegt sé að standa vörð um kaupmáttinn en ekki stefna að því að hækka hann, sem er það sem við Íslendingar höfum alltaf

orðið að gera, menn sem eiga allt sitt undir stopulum sjávarafla. Þjóð sem þekkir þá lífsbaráttu jafnvel og við Íslendingar veit það og er jafnviss um það og tvisvar tveir eru fjórir að ef aukin aflabrögð eru og verð hækkar á mörkuðum má hún vænta betri daga, en ef aflabrögðin dragast saman og ef harðnar á mörkuðunum þýðir það minni tekjur fyrir hvern og einn hér á landi. Þetta vita allir Íslendingar, hver einasti maður.

Ég veit ekki hvort ég á aðeins að víkja að þessu með vextina. Það er laukrétt að raunvextir eru hér of háir og þegar ég tala um að raunvextir séu of háir á ég við að ósköp væri notalegt að þeir væru lægri. En spurningin er á hinn bóginn: Hvernig ætlum við að ná því marki að lækka vextina? Við vitum það, sem höfum talað við fólk á ýmsum stöðum á landinu, að það var mikill framtaks- og framfarahugur í mönnum á sl. ári og menn voru óhræddir við að steypa sér í mikla fjárfestingu. Þeir sem hafa lesið yfir þær beiðnir sem sveitarfélögin sendu fjvn. um margvíslegar framkvæmdir víðs vegar um landið vita líka að sveitarfélögin treysta sér til að standa undir þungum byrðum vegna fjárfestingar. Það er alveg ljóst. Ekki aðeins Reykjavíkurborg heldur ýmis önnur sveitarfélög. Ég veit ekki hvort ég á að skjóta því inn í að gamni mínu að hæstv. samgrh. bætti við, þegar hann talaði um miklu fjárfestinguna, húsnæðisráðherranum, en ég tók eftir að þegar fjmrh. talaði um borgarstjórann bætti hann ekki húsnæðisráðherranum við. Og við vitum auðvitað af hverju það er. Það er af því að hann er alþýðuflokksmaður og auðvitað var Reykjavík tekin út úr vegna þess að henni er svo vel stjórnað. Það þótti mér líka vænt um að heyra hjá þeim, framsóknarmanninum og alþýðuflokksmanninum, því að alltaf erum við nú pínulítið í þessum pólitíska leik, en auðvitað er hitt jafnrétt að öll þessi mikla krafa um fjárfestingu um allt land frá opinberum aðilum, frá þm. ef við horfum á brtt. við fjárlagafrv., frá okkur stuðningsmönnum stjórnarinnar þegar við lágum í ráðherrunum og vorum að reyna að knýja fram aukið framkvæmdafjármagn í okkar kjördæmi, frá einstökum sveitarstjórnarmönnum eins og ég sagði áðan, frá forstöðumönnum opinberra stofnana, frá stúdentaráði, frá verkalýðsfélögum, m.a.s. kaup ríkisins á eignum SÍS, þessari ljótu skrifstofubyggingu þarna upp frá, kallar á nýja fjárfestingu á þenslusvæðinu í Reykjavík. Menn eru ekkert feimnir við að berjast fyrir þessu, sömu mennirnir og koma upp í pontuna og tala um að vextir séu of háir ætlast til fyrirgreiðslu ráðherra um að sveitarfélög úti á landi geti fengið fé úr Framkvæmdasjóði til sinna þarfa og bætast þannig í biðröðina um fjármagnið.

Svo spyrjum við: Hvernig stendur á því að við Íslendingar getum ekki staðið undir þessari fjárfestingu, þessari lánsfjárþörf? Það er auðvitað sú eðlilega skýring á því að vöxtunum var pólitískt stjórnað, sérstaklega þó á áttunda áratugnum. Það voru neikvæðir vextir sérstaklega á fyrri hluta þessa áratugs með þeim afleiðingum að peningar sjóð

anna, peningar bankanna urðu að engu, en þeir sem voru að byggja eignuðust fyrir lítið sín híbýli.

Það er enginn vandi að telja upp stórfyrirtæki sem voru í vandræðum á árunum 1970 og 1971, en voru orðin forrík 4-5 árum síðar. Eitt gleggsta dæmið um þetta er t.d. Slippstöðin á Akureyri og það er hægt að benda á fleiri, fleiri dæmi um þetta. Á þessum tíma hrundi spariféð. Síðan höfum við verið að reyna að byggja þetta upp. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens kom með lánskjaravísitöluna eða var það næsta ríkisstjórn á undan? (ÓÞG: Það var 1979.) Var það 1979? En sú ríkisstjórn bætti þá um betur því að hún kom inn á þetta sama. (SJS: Ólafslög.) Já, ég bið afsökunar á þessu. Rétt skal vera rétt. Þá var gerð tilraun til að snúa við. Síðan höfum við um leið og við höfum verið að byggja upp íslenska spariféð verið að berjast á móti því að safna of miklum erlendum skuldum. Það er auðvitað rétt sem sumir hafa sagt á sl. ári: Ef lán mín hefðu verið í dollurum en ekki verðtryggðum krónum hefði greiðslubyrðin orðið minni og þeir hefðu heldur viljað hafa dollara. En við erum að reyna að komast út úr því og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að styrkja sparifjáröflunina í landinu.

Núna eru vextir svo háir sem raun ber vitni. Eru alþm. þeirrar skoðunar að það sé vegna þess að við séum með óeðlilegum hætti að byggja upp innlendan sparnað? Ætli nokkur trúi því? (AG: Já.) Einn. Ég held að það séu ekki fleiri. Ég held að hinir skilji það, hv. þm., að það sem veldur háu vöxtunum er óstöðugleikinn í efnahagslífinu og þess vegna er það kjarni málsins nú, þegar við horfum fram á þetta ár, að okkur takist að byggja upp þá trú á það sem við erum að gera, þann stöðugleika, að vextirnir lækki, að verðbólgan verði viðráðanleg og að meiri bjartsýni gæti í landinu. Ég hygg að við þurfum ekki að hafa mikið fyrir því að byggja þá bjartsýni upp. Ég hygg að fólk almennt trúi því og viti það að ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir þörfum og góðum hlutum og ég held að menn finni það þegar verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum hefur tekist að ná samkomulagi, sem ég vil leyfa mér að trúa að verði innan þess ramma sem þjóðfélagið þolir, að okkur mun takast að ná stöðugleikanum. Ég vil á hinn bóginn vona að allar þær hrakspár sem stjórnarandstæðingarnir hafa verið með lýsi ekki þeirra hugarfari, að á bak við þessar hrakspár sé ekki ósk um að hrakspáin rætist. Ég vona að stjórnarandstæðingar í málflutningi sínum hafi ekki verið með þá von, en sakna þess á hinn bóginn að málflutningur þeirra hefur verið svo út um víðan völl órökvís og órökstuddur að óhjákvæmilegt er annað en Ijúka þessari ræðu eins og hún byrjaði með því að segja að nú hafa orðið þáttaskil í efnahagsumræðum. Það liggur ljóst fyrir að stjórnarandstaðan hefur ekkert fram að færa, hefur engan málstað. Og það sem verra er: Það sem stjórnarandstaðan hefur þó verið að reyna að segja er sagt af slíkri linku að auðfundið er að hún trúir ekki á það sem hún er þó að reyna að segja.

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið komið víða við í umræðum á Alþingi í dag. Hér hafa verið til umræðu efnahags- og launamál. Síðasti ræðumaður endaði með því að segja að hér hefðu ekki verið lagðar fram tillögur af stjórnarandstöðu. Það er nú svo að við lögðum fram fjölda tillagna um efnahagsmál við umræður fyrir áramót og þar á milli um aðrar leiðir en núv. ríkisstjórn hefur kosið að fara. Þær voru að sjálfsögðu allar felldar þannig að við getum ekki farið að leggja fram nýjar tillögur nú sérstaklega í þeim sökum heldur hljótum við að ræða hvernig er komið og af hverju.

Hæstv. utanrrh. sagði í viðtali fyrir skömmu að Róm væri að brenna. Og þá var spurt: Hver kveikti í? Og ég spyr: Hver kveikti í Róm? Það er skoðun framsóknarmanna, virðist vera, að Róm sé að brenna. En hver kveikti í? Hæstv. fjmrh. kom inn á í ræðu sinni í dag að það ástand sem núna væri í efnahagsmálum væri allt fyrrv. ríkisstjórn að kenna og þá auðvitað stjórn fjármála og hæstv. forsrh. væri þá sérstaklega ábyrgur. Ég varð undrandi á því að hæstv. fjmrh. skyldi ráðast svo hörkulega á forsrh. og hefði viljað heyra í hæstv. forsrh. þegar hann svaraði fjmrh. því að hann var að ásaka hæstv. forsrh. fyrir að ástand í efnahagsmálum væri tilkomið vegna hans linku í stjórn. Og nú er spurningin: Hver spilar á fiðluna í ríkisstjórninni? Hver er fiðluleikarinn? Hver spilar á fiðluna á meðan Róm brennur?

Það var upplýst að hæstv. utanrrh. er á sólbaðsströnd og kannski verður hann sólbrenndur eða sólbrunninn. Hver veit. En það veit enginn. Það er spurning sem hefði verið gaman að bera fram ef hæstv. fjmrh. væri ekki enn einu sinni floginn því hann er ekki þrekmikill maður: Hver á Alþfl.? Þeir fóru í hundrað funda herferð sem frægt er orðið og spurðu: Hver á Ísland? Nú spyr ég: Hver á Alþfl.? (AG: Svíar og Danir.) Ég gæti ímyndað mér að það væru kannski kratar á Norðurlöndunum eftir hans tillögum að dæma. Það var gefin út bók um jólin sem bendir til þess að kratar á Norðurlöndum eigi Alþfl. Það er ekki að vita annað en að þeir stjórni þá félögum sínum vel.

Ég held að meginvandinn í stjórn peningamála og vaxtamála sé í rauninni stjórnleysi. Ég tek undir það sem bæði hæstv. sjútvrh. sagði í dag varðandi stöðu í sjávarútvegi og hv. 10. þm. Reykv. þar sem þeir komu inn á gengismálin. Sl. haust vakti ég máls á þessum atriðum við umræður um efnahagsmál sem urðu utan dagskrár og benti á þetta þá þegar og ítrekaði raunar þau sjónarmið við 2. umr. fjárlaga. Það er alveg ljóst að gengi íslensku krónunnar byggist ekki á því hvort ríkisstjórnin hefur ákveðið að það eigi að vera fast gengi eða ekki. Gengið byggist á því hvernig staðan er í efnahagsmálum hér innan lands. Útflutningsatvinnuvegirnir ráða þar miklu um og sú staða hvernig innflutningurinn er og jafnvægið á milli innflutnings og útflutnings er.

Það hefur verið upplýst að viðskiptahalli var 6,5 milljarðar, menn tala nú um 8 eða jafnvel 10 milljarða, á síðasta ári. Og nú er spurningin og það væri gaman að fá fjmrh. til að svara því ef hann er ekki sofnaður, hvort 10 milljarðar í óhagstæðum viðskiptajöfnuði þýði að við séum svo rík að þetta sé umframfé sem við séum að flytja inn. Það er spurning sem brennur á vörum fólks.

Ég held að það liggi ljóst fyrir að á síðasta ári hefur gjaldeyririnn verið á útsölu. Gjaldeyririnn er okkar eyðslueyrir gagnvart útlöndum og við getum ekki eytt honum eins og við höfum gert. Það verður að vera jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Það er skylda að huga vel að þessu og þegar bandaríkjadollarinn fellur og dollurum fækkar fyrir frystu vörurnar á bandaríkjamarkaði lækkar auðvitað kaupið í frystihúsunum. Það er það sem við erum að glíma við núna. Frystihúsin, þar sem lægsta kaupið er í landinu, geta ekki greitt hærra kaup vegna þess að dollurum hefur fækkað og frystiiðnaðurinn stendur mjög illa. Á öðrum sviðum kemur þetta ekki eins við. Hér hafa verið framkvæmdir á síðasta ári sem hafa verið fjármagnaðar með dollaralánum. Ýmis verslunarfyrirtæki hafa hér byggt myndarlega fyrir það á miklu hagstæðari lánum en áður. Viðskiptajöfnuðurinn verður að vera hagstæður. Þegar gengið er rangt skráð, eins og það hefur verið, hleður þetta utan á sig eins og snjóbolti og endar með því að gengið verður fellt um tugi prósenta eins og hefur verið gert áður.

Það er hins vegar með ólíkindum hvað drottinn hefur verið okkur hollur í efnahagsmálum. Á síðasta ári vorum við með einhver hagstæðustu kjör sem við höfum nokkurn tímann fengið í sögu þjóðarinnar, mikinn afla, hagstætt verð fyrir aflann og afurðir, lágt olíuverð og núna er ein búbótin fallin til okkar, að loðnulýsið er hækkandi á heimsmarkaði vegna aflabrests við Perú, að ansjósuveiðar þar hafa brugðist. Þetta hefur áhrif á þjóðarbú okkar og þetta eru þau þrjú atriði sem mest hafa áhrif. Við verðum að taka tillit til þessara hluta.

Ég held að þegar maður lítur á þetta hljóti maður að telja að það sé algert stjórnleysi í vaxtamálum og þar hafi ríkissjóður Íslands gengið á undan með slæmu fordæmi með því að spenna vextina upp á skuldabréfum. Algeng ávöxtun á verðbréfamörkuðum er á milli 11 og 15% umfram verðbólgu. Hæstv. fjmrh. hélt því fram að þetta væru sambærilegir vextir við það sem væri erlendis. Þetta er svo mikil rangfærsla að eigendur Alþfl., kratarnir á Norðurlöndum, mundu ekki trúa því. Staðreyndin er sú að algeng ávöxtun er miklu nær því að vera 5% á eðlilegum mörkuðum og aðeins yfir það.

En hafa þm. leitt hugann að því hvernig gengisútreikningur á verðbréfamarkaðnum fer fram og hver er ábyrgur fyrir því? Það er að vísu búið að tilkynna að hér eigi að flytja frv. um þessa markaði samkvæmt því sem viðskrh. hefur sagt okkur, en það er svo samt að enginn hefur verið ábyrgur hingað til fyrir því. Það eru starfsmenn verðbréfamarkaðanna

sjálfir sem spá fyrir um hækkun lánskjaravísitölu og hafa sjálfdæmi um hækkun og hvað þeir taka í eigin vasa. Þegar þeir t.d. áætla í byrjun mánaðar 2,5% hækkun á mánuði á lánskjaravísitölu bréfs kemur e.t.v. í ljós að 20. sama mánaðar, þegar Seðlabankinn birtir lánskjaravísitöluna, hefur vísitalan e.t.v. aðeins hækkað um 2%. Og nú spyr ég og væri gaman að hafa hér einn ráðherra Alþfl., en þeir eru náttúrlega horfnir af þingi eins og oft áður: Hver hirðir mismuninn, þetta hálfa prósent, af hinum seldu verðbréfum frá 1. hvers mánaðar til hins 20.? Eru það verðbréfasalarnir eða hvað? Enginn atvinnurekstur getur borið þessa vexti. Og þó er ástandið verra en komið hefur fram í þeim tölum sem ég nefndi hér. Það eru ljóst að á sumum bréfum er allt upp undir 20% vextir umfram verðbólgu áætlaðir og hafa aldrei verið svo háir nokkurn tímann.

Svo er það skattlagningin sem núna er dembt yfir þjóðina og hæstv. fjmrh. taldi það sér til ágætis og ríkisstjórn að þessi skattlagning væri dugnaður ríkisstjórnarinnar. Hún er nú áætluð 20% hærri en skattlagning ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens sem var þó talin ótæk af Sjálfstfl. Og nú spyr ég: Hvar eru þeir menn núna sem stóðu hérna og gagnrýndu harðlega þá skattlagningu? Hvar eru þeir? Sumir hafa komið hér upp og sagt: Við erum bara ánægðir með þetta. Við gleðjumst yfir þessari skattlagningu. Og þó eru það 20% að raungildi hærri skattar en voru lagðir á í þeirri tíð.

Þessir skattakóngar eru ánægðir og þeir telja að fólkið í landinu hafi bara eitthvað misskilið þetta. Hvernig halda menn að fólki líði núna þegar það stendur frammi fyrir því að borga alla þessa skatta? Það hefur verið komið aftan að fólkinu. Það hefur verið stungið rýtingi í bakið á kjósendum.

Í skattabreytingunum hefur t.d. það tapast að þeir húsbyggjendur sem fengu vaxtafrádrag fá nú smávegis bætur í staðinn sem eru ekki nærri sama tala. Þeir standa frammi fyrir verulegri kjaraskerðingu og sumir fá á milli 100 og 200 þús. kr. hærri skatta út af þessu og sjá vart fram á hvernig þeir eiga að greiða með þeim peningum og þeim launum sem þeir hafa í dag. Og barnabæturnar. Það er nú ein snilldin. Það er stórkostlegt að sjá hvernig hæstv. fjmrh. hefur talað um þetta. Hann er að auglýsa að þetta komi í staðinn fyrir matarskattinn. En þetta er ekki nema brot af því sem matarskatturinn er. Svo eru allir hinir sem fá engar barnabætur og verða samt að borga matarskattinn.

Það er stórkosttegt að sjá hvernig þessir menn koma fram. Þeir vita alls ekkert hvað þeir eru að gera. Og þó eigendur Alþfl., kratarnir á Norðurlöndum, hafi gefið þeim forskriftina held ég að þeim hefði aldrei dottið þetta í hug. Jafnvel Thatcher, sem sjálfstæðismenn, sérstaklega ungir sjálfstæðismenn, hafa verið svo hrifnir af að þeir titra þegar minnst er á hana af hrifningu, hefur þrátt fyrir mikla gagnrýni af hendi krata í Bretlandi og víðar aldrei dottið í hug að leggja á matarskatt. Þar eru . matvæli ekki

sköttuð. Og henni er li~ca ljóst að það verður að vera til ódýrt húsnæði. En þeir menn sem þykjast hafa verið að túlka hennar stefnu og gerðir leggja á þennan skatt vegna þess að þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera. Sannleikurinn er sá að þær tekjur sem koma inn af matarskattinum verða engar þegar upp verður staðið. Þær verða núll! Það eina sem gerist er að þeir sem lökust kjörin hafa munu fara verst út úr því.

Ég held að hér hafi verið komið lítillega inn á að það hafi verið reiknað út nýlega af Seðlabankanum að sparifjáreigendur hafi verið féflettir um 3 milljarða af almennum sparisjóðsbókum og innlánsreikningum á síðasta ári. Það er ekki vansalaust að það skuli ekki betra eftirlit með því að það skuli vera raunvextir á innlánum eða a.m.k. að menn fái nokkurn veginn það fjármagn óskert sem þeir hafa lagt inn.

Hér hefur verið rætt um atvinnumál, sjávarútveginn. Það er eitt mál þar sem ætti kannski að koma til umræðu. Það er sala á ferskum fiski til Efnahagsbandalagsins. Það hefur töluverð áhrif á atvinnulífið í landinu þegar á sama tíma er lagður skattur á saltfisk. Verkunin færist úr landinu. Þetta kemur niður á þeim byggðarlögum úti á landi þar sem síst skyldi. Ég hef ekki heyrt á þessum svokölluðu utanbæjarþingmönnum að þeir hafi nokkuð ígrundað hvaða afleiðingar þetta hafi. Og iðnaðurinn. Hann er í miklum vanda. Það er alltaf talað um að það verði að láta það fara eins og fara vill. Ég tel að það hafi gerst slæmir hlutir þar. Það hefur verið minnst á ullariðnaðinn. Undir forustu Sjálfstfl. var myndaður nýr einokunarhringur þar þegar Sjálfstfl. afhenti SÍS Alafoss. Ég heyrði ekki einn einasta sjálfstæðismann standa upp og mótmæla því. Nú er búið að steypa þessu í einn einokunarhring sem er algerlega gegn öllu því sem sá flokkur hefur alltaf barist fyrir. Hafa þeir varla mátt heyra minnst á SÍS nokkru sinni fyrr en núna að þeir slá höndunum saman við þá og er þá ekkert slæmt við það. Er gaman að sjá samruna SÍS og Sjálfstfl. Það var gott að þeir skyldu sameinast í ullinni að lokum.

Svo er það landbúnaðurinn. Þar er þannig ástandið að það er mjög slæmt. Þar er verið að mynda einokunarhring í framleiðslu á kjúklingum og eggjum. Það er ekki gott að á þeim tímum þegar menn vilja heldur hafa meira frelsi skuli gengið líka í þessa veru til myndunar einokunarhrings sem á að skammta neytendum kjúklinga og egg á því verði sem þeim sýnist. Ég spyr: Er þetta minnisvarði um þessa ríkisstjórn, einokunarhringar? Það verða kannski fleiri einokunarhringar þegar líður á kjörtímabilið.

Og svo skulum við ekki gleyma einu, sem hér hefur ekki verið minnst á í umræðunni, og það er blessuð flugstöðin sem utanrrh. a.m.k. virðist helst vilja vera í frekar en í þingsölum. Það er eytt þar milljörðum fram yfir og hæstv. forsrh. sagði í ræðustól fyrir áramótin, ef ég man rétt, eða rétt eftir áramótin, að hann væri tilbúinn að láta landsdóm

fjalla um sín mál þar. Og nú spyr ég: Er forsrh. búinn að láta ákæra sig fyrir landsdómi eða ætlar hann ekki að standa við þau orð? Það verður gaman að sjá þegar hann ætlar að standa við að hafa veitt 850 millj. án þess að væri til stafur um það í fjárlögum og þykist ætla að sleppa með það. Og ég spyr: Ætlar hann að ákæra sjálfan sig þannig að hann geti staðið fyrir framan landsdóm og fengið úrskurð um hvort hann hafi verið að brjóta stjórnarskrána eður ei?

Það hafa líka dembst yfir þjóðina skattar svo með ólíkindum er. Fasteignagjöldin eru hærri en nokkru sinni áður og skattar, sem hafa verið lagðir á þá húskofa sem fólk er búið að eyða ævinni í að koma yfir höfuðið, eru ógnvænlegir. Menn voru að tala um Reykjavíkurborg í þessum umræðum og þann tekjuafgang sem Reykjavíkurborg hefur, en sannleikurinn er sá að ein meginástæðan fyrir því að Reykjavíkurborg stendur svo vel eru allar þær fasteignir sem eru innan borgarinnar og þeir háu skattar sem eru á þeim. Það er ekki sérstaklega vegna góðrar stjórnar á þessu bæjarfélagi. Það eru heldur eignarskattarnir, fasteignaskattarnir, sem eru nokkurs konar stóreignaskattar núna hjá launafólki, sem skapa þetta.

Og við eigum von á meiru. Við eigum von á því að tryggingafélögin hækki bifreiðatryggingar yfir 50% ef við eigum að taka mark á fréttum og þó er ekki nema 30% verðbólga. Og talsmenn þess að stærri einingar geri betri útkomu eru horfnir hér. Þeir minnast ekki á þetta. Á síðasta ári hafa tryggingafélögin fengið fleiri bifreiðir til trygginga en nokkru sinni áður þannig að þeirra rekstur ætti að vera miklu betri og það ættu að vera lægri iðgjöld en á síðasta ári. Þetta ætti að þýða hagkvæmni, en þá eru þeir að biðja um 50% hækkun. Þetta hefur auðvitað áhrif á afkomu fólksins í landinu.

Allir þeir skattar sem við í Borgarafl. höfum margmótmælt hér í umræðum eru ógnvænlegir. Ég sá það í blöðunum um daginn að einn varaþm. Sjálfstfl. hafði ekki fylgst betur með umræðum en svo að hann hélt að enginn á Alþingi hefði mótmælt þessum sköttum. En það vil ég þó segja að bæði Borgarafl. og þeir aðrir sem voru í stjórnarandstöðu mótmæltu þessum sköttum í umræðum þó af ólíkum ástæðum væri. Við í Borgarafl. erum andvígir þessari skattastefnu og munum standa fast að því að það verði linað á þeim tökum ef við eigum kost á.

Hæstv. fjmrh. kom inn á í ræðu sinni að hann hefði unnið vel að öllum þessum skattlagningum. Hann hefði unnið ljóst og leynt að því að leggja meiri skatta á fólkið. Það er alveg makalaust að líta til þess hvernig hann hefur ráðist á fólkið með þessum sköttum og ætlast svo til þess að stjórnarandstaðan þegi. (Gripið fram í: Í ræðustól?) Í ræðustól jafnvel. Hann sagði ýmislegt sem stenst ekki og eru hreint og beint rangfærslur. Hann hélt því fram að við í stjórnarandstöðunni hefðum ekki mótmælt skattlagningu fyrirtækja. Þetta er alrangt. Við í Borgarafl. mótmæltum af hörku skattlagningu

fyrirtækja alveg eins og á einstaklinga og munum gera það áfram. Það er sorglegt að tekjuöflunarkerfi ríkisins eða öllu heldur skattaáþján ríkisins skuli vera slilc sem er nú og hefði verið nær að ráðast á gjaldahlið ríkisins og hafa lægri tekjur, en fjárlögin hafa hækkað 50% á milli ára. Þetta eru mestu skattar sem nokkurn tíma hafa verið lagðir á þjóðina og svo ætlast þeir til þess að launþegar skrifi undir hvað sem er og það á að kenna þeim um verðbólguna. Það eru ekki launþegarnir heldur ríkisstjórnin sem hefur skapað þá verðbólgu sem er núna.

Sú fjánnálastjóm sem ríkisstjórnin stendur að er alröng. Ég ætla að vona að þessi ríkisstjórn vakni einhvern næstu daga og átti sig á því að þessi fjármálastjórn er alröng. Hún getur ekki gengið í landi eins og Íslandi. Þegar hæstv. fjmrh. fór að miða sig við ríki OECD í samanburði við skatta á launum er það alrangt vegna þess að það er ekki hægt að miða við það. Hér er vægi launþega allt annað og allt aðrar forsendur sem gefast en í hinum stóru milljónaþjóðfélögum. Þetta er svo alröng staðhæfing og samanburður að það stenst aldrei. Ég vona að ríkisstjórnin muni vakna og bæta sig af því að þjóðin á það skilið að hún verði ekki kaffærð í sköttum.

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hér í dag hafa farið fram miklar umræður um efnahags- og atvinnumál og er það að sjálfsögðu af hinu góða. Hér hafa flutt mjög góðar ræður ráðherrar, forsrh. í upphafi þegar hann svaraði málshefjanda. Í ræðu sinni kom forsrh. m.a. inn á að það steðjuðu miklir erfiðleikar að útflutningsatvinnuvegunum og ríkisstjórnin væri nú að athuga með hvaða hætti hún gæti mætt þessum vandamálum og styrkt stöðu útflutningsatvinnuveganna, þ.e. sérstaklega þeirra fyrirtækja sem þar starfa og ekki hvað síst einnig stöðu þess launafólks sem vinnur við sjávarútveg og fiskiðnað á Íslandi.

Hæstv. forsrh. gat um m.a. nokkur atriði sem ríkisstjórnin hefði til meðferðar. Ástæðulaust er að tíunda frekar allt það sem hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu um með hvaða hætti ríkisstjórnin hygðist bregðast við án þess að geta farið nákvæmlega út í það þar sem það er ekki tímabært vegna þess að samningar hafa ekki enn tekist á vinnumarkaðnum í heild. Það sem hæstv. ráðherra kom inn á er vissulega spor í rétta átt.

Það sem mér finnst hafa vantað nokkuð inn í umræður í dag hjá ýmsum hv. þm. er að mér finnst þeir ekki hafa gert sér nægilega grein fyrir meginatriðum þess máls sem við erum að fjalla um. Þeir hafa margir hverjir dvalist í aukaatriðum, vil ég segja. Að vísu hafa sumir farið mjög nákvæmlega í saumana á einstökum undiratriðum þess máls sem hér er til umræðu, en þeir hafa forðast það eins og heitan eld að ræða um það, sem er meginatriði málsins, með hvaða hætti hv. Alþingi eða hv. alþm. geti tryggt íslenskri þjóð að óðaverðbólga dynji ekki yfir hana.

Það er kannski til of mikils mælst að ætlast til þess af hálfu sumra þm., sem hér hafa talað, að þeir skilji og skynji með hvaða hætti verðbólga verður til og hver eru áhrif óðaverðbólgu í flóknu nútímasamfélagi. Ég ætla ekki að reyna í stuttu máli að koma með þau atriði sem máli skipta frá hagfræðilegu sjónarmiði er menn hafa í huga þegar þeir ræða um þetta, enda væri það of í lagt úr því sem komið er, en hins vegar held ég að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að öll barátta og viðleitni stuðningsmanna ríkisstjórninnar beinist að því að vernda og verja fólkið í landinu fyrir því að lenda í óðaverðbólguástandi á næstu árum.

Það er staðreynd sem allir hv. þm. viðurkenna að óðaverðbólguástand mundi koma sérstaklega hart niður á launafólki og það er margviðurkennt, bæði af sérfræðingum sem og forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, að engum kemur það verr en láglaunafólki í verkalýðshreyfingunni eða öryrkjum og öldruðum ef óðaverðbólga geisar á Íslandi.

Þá er það atriði líka fyrir sig að gera sér grein fyrir hvaða áhrif óðaverðbólga hefur á stöðu fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild. Óðaverðbólga þýðir í stuttu máli lakari lífskjör, eignaskerðingu og hrun atvinnuveganna. Það sem við stjórnarstuðningsmenn leggjum áherslu á er fyrst og fremst að við viljum tryggja atvinnuöryggi í landinu. Það gerum við ekki nema halda verðbólgunni niðri. Við viljum ótruflaða framleiðslu til sjávar og sveita og við viljum tryggja að útflutningur helstu sjávarafurða og annarrar vöru frá Íslandi sé stöðugur. Við leggjum áherslu á og þjóðin í heild að Íslendingar búi við öruggar gjaldeyristekjur, ekki bara af vöruútflutningi heldur einnig vegna þjónustu og annarra möguleika sem við höfum á þeim sviðum sem eru duldar tekjur. Allar truflanir, óábyrg stjórnmálastefna, mundu skaða íslensku þjóðina ómælanlega í því ástandi sem við blasir ef aðhaldsstefna ríkisstjórnarinnar verður brotin til baka. Þetta eru helstu forsendur jafngóðra lífskjara á Íslandi, þ.e. þess velferðarríkis sem við viljum allir berjast fyrir og tryggja.

Það er óvefengjanlegt að Ísland er fyrirmyndarþjóðfélag og Íslendingar eru gott fólk. Þetta er góð þjóð sem leggur áherslu á að tryggja almenna afkomu og almenna velferð. En það kostar mikla fjármuni fyrir fámenna þjóð að viðhalda og byggja upp nútímalegt heilbrigðiskerfi og tryggja öllum jafnan rétt til hjúkrunar. Það kostar einnig mikið fyrir fámenna þjóð að búa við almannatryggingakerfi og lífeyrissjóðakerfi sem tryggir öllum mannsæmandi lífeyri í ellinni. Þrátt fyrir ýmsa ágalla þess kerfis er staða aldraðra og öryrkja mun betri á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum. Þetta er viðurkennd staðreynd. Þeir sem hafa staðið að því að tryggja þetta eru m.a. hið opinbera í gegnum hið háa Alþingi með sínum ákvörðunum í sambandi við fjárlög og almannatryggingakerfið og svo hins vegar eru það forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og þeirra sem koma og eiga aðild að atvinnulífi landsmanna.

Elli- og örorkumál á Íslandi eru í flestu til fyrirmyndar. Eru einhverjir hv. þm. að biðja um að með óábyrgri stefnu í efnahagsmálum verði öll þessi uppbygging brennd upp í báli óðaverðbólgu? Hvað um íbúðaeigendur, lántakendur? Eru hv. þm. að biðja um óábyrga stefnu í efnahags- og atvinnumálnm til að gera íbúðaeigendum enn örðugra að standa í skilum og eignast sínar íbúðir? Nei, góðir þm. Orðaflaumur og sýndarmennska í sölum hins háa Alþingis tryggir ekki öryggi sjúkra og aldraðra né lífskjör láglaunafólks. Abyrg afstaða, staðfesta og rétt framtíðarsýn um þróun mála er það sem skiptir máli fyrir fólkið í landinu. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og neita því að við Íslendingar erum sérstæð þjóð og hér býr mjög kröfuhart fólk.

Fyrirmyndarríkið Island kostar mikið fé. Það er kröfuhart þjóðfélag, en þeir sem byggja Ísland eru engir aukvisar. Þetta er framsækið og harðduglegt fólk sem hefur raunsætt gildismat. Þess vegna eru Íslendingar reiðubúnir að standa við gerða hluti og sækja enn frekar fram á flestum sviðum.

Við höfum þróað upp mikið og dýrt skólakerfi. Við höfum þróað og byggt upp mjög dýrt tryggingakerfi. Við höfum þróað og byggt upp mjög sterkt en dýrt heilbrigðiskerfi. Enginn hv. þm. er á móti því, svo sem fram kemur í afgreiðslu fjárlaga, að þetta sé allt tryggt og viðunandi fjármagn renni til þessara þarfa.

Þá hafa hv. þm. einnig tekið afstöðu til þess í gegnum lánsfjáráætlun að halda áfram að byggja upp þetta kröfuharða en fámenna þjóðfélag með nútímahætti. Í fyrsta lagi höfum við tekið afstöðu til þess í gegnum vegáætlun að byggja upp samgöngukerfi í stóru og harðbýlu landi sem er mjög dýrt. Það þarf mikið fjármagn til að fjármagna atvinnutæki í sjávarútvegi, fiskiðnaði, almennum iðnaði, nýtísku verslun, flugsamgöngum, hótelum o.s.frv. Það kostar mikið að byggja upp nútímalegt samfélag í stóru og harðbýlu landi, en þessi jákvæða uppbygging stenst ekki nema á Íslandi ríki jafnvægi í efnahagsmálum og íslenskir stjórnmálamenn, sérstaklega hv. alþm. séu í jafnvægi og tryggi að þetta verði ekki allt rifið með óábyrgri stefnu í stjórnmálum eða af óábyrgum aðilum vinnumarkaðarins sem kynnu að vera þar til staðar. Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að byggja, tryggja og efla það kerfi sem við höfum byggt upp í því velferðarríki sem við búum við. En þeir leggja ekki hvað síst áherslu á að tryggja að íslenskt atvinnulíf búi við góðar og öruggar aðstæðnr. Það má ekki mikið út af bregða svo að ekki fari illa.

Við skulum líta á meginkröfur stjórnarandstæðinga. Þeir krefjast í fyrsta lagi hærri ríkisútgjalda, í öðru lagi krefjast þeir meiri fjárfestinga og í þriðja lagi krefjast þeir aukinnar neyslu á öllum sviðum. En þeir segja fólkinu ekki hvað þessi yfirboð þeirra mundu kosta fólkið í landinu, bæði launamenn sem og fyrirtækin. Þeir skýra ekki frá því að þessi yfirboð um hærri ríkisútgjöld, meiri fjárfestingu og aukna neyslu munu kalla yfir þjóðina óðaverðbólgu og

atvinnuleysi. Óneitanlegt er að það er erfitt hjá ýmsum, því skal

ekki neitað, og það ber að leiðrétta og lagfæra kjör láglaunafólksins. Þetta geta allir stjórnmálamenn tekið undir, enda er þetta viðurkennt í íslensku þjóðfélagi og íslensk verkalýðshreyfing hefur unnið að þessu og reynt að vinna að þessu í áratugi. Þar hafa hinir mætustu menn komið við sögu og lagt mikið af mörkum í þeim efnum. Því miður hefur ekki tekist sem skyldi að tryggja að láglaunafólkið héldi sínum hlut þegar launaleiðréttingar hafa átt sér stað í íslensku þjóðfélagi og ég hef ekki enn séð þær tillögur frá stjórnarandstæðingum sem mundu tryggja það. En sú stefna stjórnleysis og óðaverðbólgu og ábyrgðarleysis, sem ýmsir en þó ekki allir stjórnarandstæðingar boða, mundi leiða mikla ógæfu yfir Íslendinga, enda kemur það fram í því sem hér hefur verið sagt af hálfu ýmissa þm. En á sama tíma sem þessir „ágætu“ stjórnarandstæðingar ýmsir kalla á stjórnleysi vill svo til að í verkalýðshreyfingunni á Íslandi og úti í atvinnulífinu eru menn sem hafa tekið ábyrga afstöðu. Ég vísa til þeirra samninga sem nýlega voru gerðir vestur á Vestfjörðum.

Það sem menn verða að gera sér grein fyrir og verða að meta réttilega er að viðurkenna að við búum núna við breyttar og verri aðstæður en voru fyrir hendi fyrir 1-2 árum. Allar ytri aðstæður eru íslensku þjóðfélagi miklu óhagstæðari en þær voru fyrir,þótt ekki sé farið lengra aftur í tímann en hálft ár. Á helstu mörkuðum hefur verðlag helstu afurða ekki breyst í erlendri mynt í neinu samræmi við þróun innlends kostnaðar. Á sl. ári munu innlendar kostnaðarhækkanir hafa orðið tvöfalt til þrefalt meiri en verðhækkanir urðu á afurðum erlendis og er þá reiknað með áhrifum neikvæðrar þróunar helsta gjaldmiðilsins, sem Íslendingar hafa sínar tekjur af í útflutningi, sem er dollarinn. Hv. stjórnarandstæðingar vita væntanlega að dollarinn bandaríski vegur hvað þyngst í gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Ég leyfi mér að spyrja suma hv. þm. sem hér hafa talað hvað mest í dag hvort þeir álíti að það hafi engin áhrif á afkomu íslensku þjóðarinnar hvernig dollarinn hefur hrunið niður í verðgildi á rúmu ári, sérstaklega gagnvart þeim gjaldmiðlum sem Íslendingar nota til vöruinnkaupa og á ég þar við sterlingspund, vestur-þýsk mörk og aðra vestræna gjaldmiðla.

Núverandi ríkisstjórn er að vinna að því að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum til að mæta þessari neikvæðu þróun sem stafar fyrst og fremst af ytri aðstæðum sem eru okkur gersamlega óviðráðanlegar. Ríkisstjórnin vill viðhalda því velferðarríki sem Íslendingar leggja áherslu á. Hún leggur einnig áherslu á að viðhalda fullri framleiðslu og tryggja atvinnuöryggið. Ég undirstrika þetta orð, „atvinnuöryggi“. Því miður virðist það gersamlega fara fram hjá mörgum að atvinnuöryggið getur verið í mikilli hættu við þær aðstæður sem við búum við, sérstaklega í sambandi við útflutningsatvinnuvegina.

Röskun á framleiðslustarfseminni mun kalla á atvinnuleysi og lakari lífskjör og tefla í hættu afkomu ellilífeyrisþega, öryrkja og annarra sem eiga allt sitt undir því að tekjuöflun ríkisins sé ekki trufluð í innbyrðis átökum og verkföllum.

Það var gerð skoðanakönnun fyrir nokkru í einu dagblaðanna í Reykjavík og samkvæmt þeirri könnun fór ekki á milli mála að meiri hluti Íslendinga vill ekki verkföll. Meiri hluti Íslendinga vill ekki átök á vinnumarkaðnum. Meiri hluti Íslendinga vill að samið sé á þeim nótum sem gert var á Vestfjörðum fyrir rúmri viku. Þetta þýðir raunverulega að meiri hluti íslensku þjóðarinnar vill fá starfsfrið. Fólk er reiðubúið að mæta þeim erfiðleikum sem við stjórnarsinnar og stjórnarstuðningsmenn höfum viðurkennt að eru til staðar en stjórnarandstæðingar vilja ekki enn viðurkenna. Það er krafa íslensku þjóðarinnar að hún fái að búa við öryggi og þjóðin skilur eða meiri hluti hennar að um stund verðum við að axla ákveðna kjaraskerðingu í trausti þess að stefna núv. ríkisstjórnar nái fram að ganga, en þó með þeim leiðréttingum sem nauðsynlegar eru vegna láglaunafólks.

Og síðast en ekki síst og það skal enn undirstrikað: fólkið leggur áherslu á að framleiðslustarfsemin í landinu sé ótrufluð. Það vill ekki að pólitískir tækifærissinnar eða óábyrgir aðilar tefli öllu í hættu á Íslandi. Fólkið vill frið. Það vill fá að starfa.

En það er ekkert einsdæmi og ekkert eitt mál hjá Íslendingum að við erfiðleika sé að stríða í atvinnuog efnahagsmálum. Öll helstu viðskiptaríki Íslands eiga við mikla erfiðleika að stríða í efnahags- og atvinnumálum. Það þarf ekki að fara lengra en til Englands til að gera sér grein fyrir því hvernig ástatt er. Þar í landi eru milljónir manna atvinnulausar. Sömu sögu er að segja um Vestur-Þýskaland. Það er álitið að innan ríkja Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu, og þar með eru talin Kanada og Bandaríkin, séu um 14 millj. atvinnuleysingja. Þetta er mikið atvinnuleysi og þetta er mikil byrði og mikið vandamál í þessum ríkjum.

Þá er einnig viðurkennt og staðreynd að öll vestræn ríki eiga í mjög harðri samkeppni við lönd eins og t.d. Japan og jafnvel núna á síðustu árum við kommúnistaríkin, þ.e. Sovétríkin og Austur-Evrópuríkin, þar sem þau undirbjóða mjög á hinum frjálsu mörkuðum bæði vöru og þjónustu. Ísland er hluti af efnahagssvæði vestrænna ríkja. Þótt við vildum getum við ekki losað okkur undan þeim neikvæðu áhrifum sem upp koma í efnahagslífi þessara landa. Við erum svo viðskiptalega tengd þessari efnahagsheild að erfiðleikar þar koma niður á íslensku þjóðfélagi, því miður. En við getum þó gert ráðstafanir til að draga úr þyngstu höggunum og það hefur núverandi ríkisstjórn og sú sem var á undan núverandi ríkisstjórn reynt að gera og tekist í ýmsum efnum mjög vel.

Ég minni á að Íslendingar hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af því að hér ríkti atvinnuleysi. Hér býr fólk yfirleitt ekki við skort, en þó er því miður

nokkur hluti þjóðarinnar þannig staddur að það verður að leiðrétta kjör hans. Ég harma það þess vegna, því að á meðal stjórnarandstæðinga eru margir mætir hv. þm., að þeir skuli ekki gera sér betri grein fyrir raunverulegri þróun mála í heiminum í kringum okkur og hvaða áhrif það hefur á okkar stöðu og framtíðarhorfur. Stjórnarsinnar gera sér hins vegar skýra grein fyrir þessu. Þeir gera sér grein fyrir að það fylgja því miklir erfiðleikar að þurfa að standa að erfiðri og ég vil segja í ýmsu tilliti neikvæðri ákvarðanatöku sem skerðir lífskjör um sinn. En það sem skiptir máli í stjórnmálum eins og öllu öðru er að menn verða að vera heiðarlegir og segja þjóðinni sannleikann um stöðu mála hverju sinni. Að neita staðreyndum og reyna að blekkja fólk um raunverulega erfiða stöðu atvinnulífs og efnahagslífs eru ákveðin svik við íslenska þjóð, svik við fólkið í landinu. Ég trúi því ekki um hv. stjórnarandstæðinga að það sé tilgangur þeirra í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram.

En erfiðar aðstæður krefjast staðfestu. Það er því skylda núv. ríkisstjórnar og raunar allra hv. alþm. að stuðla að því að tryggja jafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap, tryggja fulla atvinnu og tryggja góða afkomu og lífsöryggi fólksins í landinu og leggja alveg sérstaka áhersln á að efla frjálst atvinnulíf og velferðarríki á Íslandi. Þessum markmiðum verður haldið til streitu hvað sem líður neikvæðum óábyrgum árásum ýmissa stjórnarsinna á núv. ríkisstjórn og þá stefnu sem hún stendur fyrir.

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það var allt að því eins gaman að hlusta á síðasta ræðumann tala, hv. 14. þm. Reykv., og skemmtikraftana, Jónana tvo, fyrr í dag. Hv. 14. þm. Reykv. byrjar með því að undirstrika að menn verði að vera heiðarlegir og segja þjóðinni sannleikann og talaði eins og stjórnarandstæðingar geri það ekki, þeir séu alvondir og vilji allt það sem er neikvætt fyrir þjóðfélagið, en hann og hinir góðu englar stjórnarmanna vilji segja sannleikann og gera gott á móti vondu mönnunum í stjórnarandstöðunni.

Ég hef aldrei heyrt þennan ágæta fyrrv. flokksbróður minn og annars góða vin halda eins undirbúna blaðagreinaræðu og nú og mér er næst að spyrja hann: Er frumritið komið út á Morgunblað þegar? (GHG: Þetta er allt í bútum.) Er það allt í bútum úti í Morgunblaði? (GHG: Nei, nei.) Jæja, en þessi ræða var eins og samin blaðagrein. Hún sagði hvorki svart né hvítt.

Hann hóf ræðu sína með því að tala um erfiðleika sem steðja að útflutningsatvinnuvegunum og verið væri að athuga hvað hægt væri að gera þeim til bóta. Hann er nýbúinn að samþykkja launaskatt á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Hann er nýbúinn að samþykkja að endurgreiða ekki söluskatt af sjávarútveginum þó svo ríkisstjórnin hafi síðan hugsað sig um. En stjórnarandstaðan varaði við þessu öllu. Og svo koma menn á Alþingi rétt eftir að búið er að

samþykkja slíkar ráðstafanir í efnahagsmálum og tala eins og englar og þykjast vera að segja sannleikann. Um hvað? Um hvað þeir voru að gera eða hvað þeir vildu hafa gert og hvað þeir eru að undirbúa að gera? Hvílíkur tvískinnungur. Ég held að það sé ekki nokkur annar maður sem hefur eins áberandi forðast að tala um aðalatriðin og kom hér þegar hann var að tala um verðbólguna og talar um að stjórnarsinnar, allir þeir sem styðja stjórnina, viti hvað verðbólga er, viti hvernig hún verður til, af hverju hún verður til, en stjórnarandstæðingar hafi ekki hugmynd um það. Þeir séu fáfróðir einstaklingar sem séu að reyna að þykjast vera þm. en vita ekkert hvað verðbólga er. Við verðum að reyna að læra af þessum hv. herrum. Allar þær ráðstafanir sem hv. þm. og stjórnarliðið í heild hefur verið að samþykkja sem efnahagsráðstafanir fyrir áramót eru verðbólguhvetjandi og stjórnarandstaðan, samstillt stjórnarandstaða þó hún hafi ólíkar stjórnmálaskoðanir, hefur varað við því sem er á leiðinni. Það er ekki vegna þess að það er farið að ráðum stjórnarandstöðunnar að hæstv. forsrh., efnahagsráðherrann, hlýtur að hafa fyrirskipað Þjóðhagsstofnun að gefa engar upplýsingar eða útreikninga. Það hlýtur að vera vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki láta fólkið í landinu sjá að verðbólgan er miklu hærri en jafnvel uppgefið er þegar talað er um 34-40% verðbólgu eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. áður og er hann þó stjórnarsinni. Eitthvað er ríkisstjórnin að fela. Og að tala svo um engla ríkisstjórnarinnar sem þykjast vilja vernda og verja fólkið í landinu frá verðbólgunni og sér í lagi láglaunafólkið.

Hv. þm. er búinn að eyða allri sinni starfsævi fram á þennan dag í þau 70 ár sem verkalýðshreyfingin hefur verið skipulögð og enn þann dag í dag þarf verkamaðurinn að vinna dag og nótt til að geta lifað sómasamlegu lífi í landinu. Atta stunda vinnudagur nægir ekki til að borða, að kaupa brauð fyrir börn og gamalmenni sem hann ætlar að leyfa sér að nota hér sem ástæðu fyrir því að hægt sé að gera vel við aldraða og sjúka, að réttlæta skattana. Ef þessir skattar væru ekki lagðir á væri velferðarríkið Ísland í hættu. Þá er hann að tala um viðbótarskattana því að fjárlögin hækkuðu um 50%. Niðurstaða, eyðsluniðurstaða fjárlaga er 65 milljarðar fyrir 1988, en var 43 milljarðar fyrir 1987. Það er um 50% hækkun. Að ætla svo að segja að sú hækkun, sú aukna eyðsla og þær tekjur sem þarf að ná inn í viðbótarskatta hafi ekkert að segja eða sé gert til að gamla fólkið og það sjúka geti haft það eins gott og það hafði áður, annars væri allt hrunið. Það hvarflar ekki að sjálfstæðismönnum nú að tala um að skera niður útgjöldin. Það hvarflar ekki að þeim. Það á bara að leggja á þjóðina. Þeir tala svo um að þeir séu að verja sjúka og aldraða, þeir séu að verja velferðina á Íslandi. Að viðhalda hverju? Fullri atvinnu með því að gera fjármagnsmarkaðinn svo dýran og fjármagnið, vinnutæki fyrirtækjanna og þjóðarinnar svo dýrt að fyrirtækin hrynja? Hvar er ullariðnaðurinn í dag?

Hvar eru saumastofurnar í dag? Hvar eru frystihúsin sem var verið að benda á áðan? Eitt frystihús sagði upp 50 eða 60 manns í dag. Hvað er að ske? Er verið að verja fyrirtækin? Er verið að verja fólkið í landinu? Það er verið að ráðast á fólkið. Og þessi gríðarlegi árangur, sem ríkistjórnin er nú ekki búin að ná, við skulum sjá hvernig árið 1988 endar og vita hvort það hefur nægt að færa ríkissjóðshallann með matarskatti inn í bókhald eldhúsanna í landinu. Það eru eldhúsin sem hafa minna til ráðstöfunar. Það er fólkið. Það eru heimavinnnandi matreiðslumanneskjurnar, sem eru að reyna að halda lífinu í fátæku fólki fyrir lítið eða ekki neitt, sem verða að borga 25% meira í dag en í gær. Svo komið þið upp í ræðustól á Alþingi, á þeim vettvangi þar sem þið eruð nýbúnir að samþykkja alla þessa skatta, og segið svo: Við erum að bjarga fólkinu. Þið skjótið ekki mann og segið: Við erum að gera þetta fyrir þig, vinur. Það er gamall brandari mafíunnar í Bandaríkjunum þegar þeir skjóta einhvern: Þú ert vinur minn. Ég skal skjóta þig fyrir ekki neitt. — Komið ekki hingað til að telja fólki trú um að þið séuð algóðir í öllu sem þið eruð að gera. Það er rangt. Það er mjög rangt.

Það er alveg rétt og því breytir þessi ríkisstjórn ekki að Íslendingar eru yfirleitt gott fólk og það hefur ekkert með efnahagsráðstafanir né heldur umræður á Alþingi um efnahagsmál að gera. Hv. 14. þm. Reykv. Jafnvel þó að forsrh. segi þetta eru þetta engar nýjar fréttir fyrir stjórnarandstöðuna. Við vissum það fyrir fram að Íslendingar eru gott fólk. En það er hægt að breyta góðu fólki með því að fara illa með það. Landið er harðbýlt. Það var viðvörun. Til hvetra? Ég var ekki klár á því. Til hverra var viðvörun um að menn skyldu varast að rífa niður með óábyrgum launakröfum þetta góða kerfi sem ríkisstjórnin er að koma á? (GHG: Ég sagði aldrei orð um launakröfur. Ekki eitt orð.) Það var það sem ég skrifaði niður. (GHG: Ekki eitt orð.) Það er það sem ég skrifaði niður. Ég bið afsökunar ef það er rangt tekið eftir. En hvað var verið að rífa niður með því? Þú skalt athuga þína miða sem þú ert með, hvort þetta er ekki þar. Að segja svo að stjórnarandstaðan hafi krafist hærri ríkisútgjalda (GHG: Það sagði ég. Það er rétt.) og aukinna fjárfestinga (GHG: Það sagði ég, alveg rétt.) og aukinnar neyslu. (GHG: Það sagði ég líka.) og það hefði skapað óðaverðbólgu ef orðið hefði verið við þessum kröfum. Ég er alveg sammála. Það hefði kannski skapað atvinnuleysi. En það skapar ekki atvinnuleysi það sem er að ske núna, að fiskiðjuverin eru að segja upp fólki í dag svo tugum skiptir, að ullariðnaðurinn er búinn að loka sínum fyrirtækjum nema Álafossi sem gengur í ríkissjóð, sem gengur eitt fyrirtækja sem ég þekki í ríkissjóð, er ríkisfyrirtæki, og saumastofur eru þegar lokaðar. Er það ekki til að skapa atvinnuleysi?

Ég kannast ekki við þessar kröfur frá stjórnarandstöðunni. Hitt er annað mál að stjórnarandsfaðan tekur þátt í umræðum, hún tekur þátt í störfum

Alþingis og hún þarf ekki alltaf að hafa sömu meiningar um ráðstöfun ríkissjóðstekna og stjórnarliðar. Það veit ég ekki til að hafi nokkurn tíma skeð. En það er eins og stjórnin tali þannig að henni sé illa við að stjórnarandstaðan skuli vera eins áhrifamikil og hún er, fámenn eins og hún er. Ég veit ekki betur en stjórnarandstaðan hafi tekið efnahags- og launamál á dagskrá allan tímann sem efnahagsmál voru hér í umræðum. En hvorki þm. né ráðherrar höfðu eitt einasta orð að segja. Og þeir þakka alveg sérstaklega fyrir það núna þegar aðalafgreiðslutími efnahagsmála er liðinn hjá án þess að ráðherrar í ríkisstjórn eða stjórnarliðið hafi séð ástæðu til að taka til máls. Nú koma þeir og þakka fyrir að efnahagsmál skuli vera komin á dagskrá. Af hverju komu þeir ekki með það sjálfir á dagskrá? Af hverju voru þeir að bíða eftir því að stjórnarandstaðan kæmi með það? Er eitthvað sem bannar ykkur hverjum fyrir sig að taka til máls? Þarf stjórnarandstaðan að hvetja ykkur eitthvað? Er þessi hrærigrautur sem er kölluð ríkisstjórn, hrærigrautur ólíkra flokka, með eitthvert samstarf sín á milli eða samkomulag um að tala helst ekki? Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. séu alltaf blaðrandi. Síðan kemur blessaður forsrh. í fjölmiðlana og hann er spurður: Er það rétt sem hinir segja? Þetta er alveg eins og þeir segðu við einhvern mann: Barðirðu konuna þína í morgun? Það er alveg sama hvort hann segir já eða nei. Hann viðurkennir að berja hana nokkuð reglulega. En forsrh. getur ekki svarað öðruvísi en: Ég er sammála hinum. Ef hann ekki gerir það er kominn upp opinber ágreiningur í ríkisstjórninni sjálfri. Það getur verið að það sé rétt ágiskun hjá mér að ríkisstjórnin megi ekki taka til máls og þess vegna þakkar hún stjórnarandstöðunni fyrir að taka upp umræðu um efnahags- og kjaramál til þess að geta kvatt sér hljóðs.

Látið okkur bara vita ef þið viljið ræða mál. Við skulum koma með það á dagskrá hvenær sem er. Við skulum gera það fyrir ekki neitt, það er alveg rétt, og láta það heita hvað sem hæstv. bankamálaráðherra vili. Þegar hv. 14. þm. Reykv. var að lesa upp „blaðagrein“ áðan datt mér í hug að hæstv. ráðherra hefði verið andvaka í nótt og samið ræðu um málin sem voru hér á dagskrá. Það er eins og hann hafi haft hugboð um eða vitað hvað átti að ræða hér utan dagskrár og samið það fyrir fram því það passaði stundum og passaði stundum alls ekki neitt. Hann var að tala um mál sem hafa verið hér á dagskrá frá degi til dags. Hann hringlaði frá einum fundi Alþingis til annars. En málin sem voru á dagskrá í dag koma ekki svo mikið inn í söguna. Það er eins og ræðan hafi verið samin í nótt vegna þess að ráðherra hafi verið andvaka eða eitthvað slíkt. Ég trúi því vel að hann hafi verið það. Það kemur mér ekkert á óvart þó ráðherrarnir séu mjög oft andvaka.

Nú segir hv. 14. þm. Reykv., ég tala mikið um hans mál vegna þess að hann kemur úr atvinnulífinu, hann hefur verið launþegi hjá útflutningsfyrirtæki

eða samtökum, að ytri aðstæður hafi versnað mjög mikið frá því í fyrra vegna hækkandi innlends kostnaðar. Er það ekki rétt með farið? (Gripið fram í.) Já, en hver tók þátt í að greiða atkvæði með hækkununum? (Gripið fram í.) Innlendum kostnaði, já. Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að fá ekki endurgreiddan söluskatt? Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að 1 % launaskattur er settur á? Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að verslunar- og skrifstofuhúsnæði tekur 2% í staðinn fyrir 1% o.s.frv. og hægt að halda áfram? Hvað er þetta? Hvers lags fíflagangur er þetta? Auðvitað er þetta kostnaðarhækkun. Og þetta er innlend kostnaðarhækkun. Það kemur ekki utan að. Svo er talað um að lækkun dollarans sé alvond. Það á allt að lenda á aumingja dollaranum. Af hverju? Það er alveg ljóst að þið komist ekki hjá því að lækka gengið. Þið getið farið í burtu og látið næstu stjórn gera það. Það er kannski langbest. Reiknið út hvað gengislækkun gefur, mér er alveg sama hvaða prósenta það er af útflutningsverðmætum, hvað gefur hún ykkur margar viðbótarkrónur og hvað eykur hún skuldina af yfir 80 milljörðum eða meira sem eru í dollurum? Ég er ekki viss um að við töpum neitt á dollaranum. Og afurðirnar hafa hækkað. Verðið í erlendum gjaldeyri, í dollurum, hefur hækkað þó það hafi kannski hækkað minna en tilkostnaðurinn hefur hækkað innan lands. Á sama tíma hefur EURO-gjaldeyrir hækkað og við erum að selja í auknum mæli til Evrópu þannig að við erum að fá auknar tekjur þar svo það er ekki allt neikvætt. Það er eingöngu talað um það sem er neikvætt og ríkisstjórnin getur notað miðað við að enginn viti hvað er að ske nema hún. Ef dæmið er tekið í heild sinni efast ég um að gjaldeyrisviðskipti okkar séu okkur í óhag eins og málin standa.

Ég vona að það sé til að reyna að blekkja okkur þegar talað er um að ríkisstjórnin með aðgerðum sínum tryggi atvinnuöryggi og afkomu fólksins. Það er verra ef þeir eru að blekkja sig sjálfir, þeir sem nú ætla að senda öryggissveitir til þess að vera vissir um að fá inn eins mikið af tekjum og mögulegt er, eins og á að koma inn. En má ég spyrja hæstv. fjmrh. úr því hann er nú kominn í salinn: Eiga þessar öryggissveitir að vera í sérstökum búningum? Verða þær auðþekkjanlegar þegar þær ganga um göturnar, þegar þær marsera um göturnar? Verða þær merktar eitthvað? Er Sjálfstfl. búinn að samþykkja þessar öryggissveitir? (GHG: Gömlu búningarnir eru allir tíndir.) Er ekki hægt að kalla þær eitthvað? Þurfa þær ekki að heita eitthvað? Þurfa þær ekki að heita skattaskoðunarsveitir? Það er auðvelt að skammstafa það. Það væri gaman að sjá þegar þetta er komið í framkvæmd hjá ykkur.

Það þarf ekki hv. 14. þm. Reykv. til að segja okkur í stjórnarandstöðu eða nokkrum Íslendingi og heldur ekki þeim sem standa í forustu verkalýðsins að Íslendingar vilja ekki verkföll. Það vill enginn. Það þýðir ekkert að tala um að þjóðinni sé skipt í fólk sem vilI verkföll og aðra sem vilja þau ekki. Það

vill enginn verkföll, ekki einu sinni þeir sem verða að boða til þeirra ef nauðsyn krefur. Það veit enginn betur en einmitt hv. 14. þm. Reykv., svo lengi hefur hann staðið í forustuliði verkalýðsins í Reykjavík. Þess vegna eru það heldur engin ný sannindi að íslenska þjóðin vilI lifa við frið. Þetta er aðalinntak stjórnarliða í efnahagsumræðum, í umræðum á Alþingi Íslendinga um efnahagsmál og kjarabætur. Þetta er bara til að drepa kjarna málsins á dreif. Og að fara svo að bera saman við ástandið á Englandi. Hefur það eitthvað breyst við stjórnarskiptin? Hefur ástandið í Englandi eða í Efnahagsbandalagslöndunum eða Kanada eitthvað breyst við að þessi ríkisstjórn tók við? Á þetta eitthvert erindi í efnahagsumræður okkar hér þó svo að við höfum viðskiptasambönd við þessar þjóðir? Þetta er rugl! Guði sé lof að við höfum ekki haft atvinnuleysi. Ég man atvinnuleysi hér og ætla ekki að fara út í þá sálma. Guð almáttugur, það var þá orðið til þess að ljúka ræðu hérna að menn verði að vera heiðarlegir og segja þjóðinni sannleikann. Það kom þá úr réttri átt. Það kom þá úr réttri átt hjá frummælanda þegar hann talaði um hvað ráðstafanirnar sem gerðar hafa verið hafa haft að segja fyrir kerfið sem við búum við. Tollþjónustan er óvirk í dag. Ég kalla það óvirkt þegar það tekur margar vikur sem áður tók engan tíma. Ég var búinn að setja á sem fjármálaráðherra hraðafgreiðslu. Það er búið að taka hana af og nú tekur margar vikur að fá tollafgreiðslu. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið að hringla með kerfið. Tryggingastofnun ríkisins biður fólk með auglýsingum í fjölmiðlum að hafa ekki samband við stofnunina vegna þess að hún sé upptekin við nýja kerfið sem var þegar auglýst var að senda út ávísanir. Gjaldheimtan er ekki tilbúin að taka við skattpeningunum. Ríkisstjórnin er nýbúin að hækka, eins og ég gat um áðan, útgjaldahlið fjárlaga um 50%, úr 43 milljörðum í 65 milljarða, og verður það eflaust enn þá hærra þegar upp er staðið. Og það er búið að sprengja efnahagsstefnu þjóðarinnar. Þjóðhagsstofnun, forstjóri hennar lýsir því yfir að hann hafi engar forsendur. Það er búið að taka frá honum allt sem hann þarf til að vinna með. Hann hefur engar forsendur til að vinna fyrir ríkisstjórnina lengur og þjóðina. Hann getur ekki gert þjóðhagsspá. Ég held að hann megi ekki gera hana. Það segir mér enginn að Þjóðhagsstofnun hafi ekki einhverjar tölur. Hún hefur tölur en hún má ekki vinna þær. Það er mín skoðun vegna þess að ríkisstjórnin kærir sig ekkert um að láta fólkið sjá árangurinn af starfi sínu þó ekki lengra sé.

Og ofan á allt þetta er svo kjarabarátta í fullum gangi og ef eitthvað er að marka yfirlýsingar stefnir allt í hörð verkföll. Ég vona að svo verði ekki. Ég segi af gefnu tilefni af árásum á stjórnarandstöðuna í sambandi við kjaramál og þá deilu sem er og er að harðna að Borgarafl. er reiðubuinn að gera allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa ríkisstjórninni ef hún þarf á því að halda og það getur orðið til þess að komast hjá verkföllum. Mér er næst að halda, ég

jafnvel fullyrði hér, að stjórnarandstöðuflokkarnir allir séu reiðubúnir að hjálpa ríkisstjórninni til þess að komast hjá verkföllum, að það verði ekki ríkisstjórninni að falli. En það furðulega við þetta allt saman er að varla hafði ríkisstjórnin samþykkt þær ráðstafanir sem nú gandríða þjóðinni en yfirlýsing kemur frá formanni eins af stjórnarflokkunum um að hann hafi alls ekki viljað þessar ráðstafanir. Hann átti við að hér væri allt að brenna í kalda kol þegar hann tók lýsinguna af Róm. Að sjálfsögðu meinti hann það. Og hann sá í efnahagsráðstöfunum, sérstaklega í vaxtamálum, ófreskju. Við vitum öll hvað ófreskja er. Það er ekkert grín. Ófreskja er ekkert grín. Það er formaður Framsfl. sem segir þetta um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum skömmu eftir að hann sjálfur og hans flokkur hefur samþykkt þær. Og það staðfestist í dag. Þegar hv. 10. þm. Reykv. kemur hér upp og talar eins og hann talaði staðfestir hann nákvæmlega það sem formaður hans var búinn að segja.

Ég er ekkert hræddur við að taka höndum saman við ríkisstjórnina og bæta laun þeirra lægst launuðu með lögboði. Ég skal taka þátt í því. Það er í framhaldi af því sem hæstv. forsrh. talaði um, að ráðstöfunartekjur hefðu aukist um 18% og þjóðartekjur um 8%. Hann segir svo: Það er eðlilegt að bæta kjör þeirra sem lægst eru settir. Og ég er honum sammála. Ég lýsi stuðningi mínum við þessa hugsun. Og ég er líka sammála hv. 16. þm. Reykv. þegar hún segir að lægstu laun verði ekki leiðrétt með kjarasamningum. Ég hlýt að vera henni sammála. Þið hljótið öll að vera henni sammála vegna þess að kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar hefur staðið í 70 eða 80 ár og enn þann dag í dag lifir ekki verkamaðurinn, sá lægst launaði í þjóðfélaginu, af átta stunda dagvinnulaunum og fimm daga vinnuviku. Ég segi: Ég skal koma í samstarf með ríkisstjórninni ef við viljið lögfesta það sem er niðurstaða eftir ítarlega könnun af ábyrgum aðila hvað eiga að vera algjör lágmarkslaun til þess að einstaklingur geti lifað sómasamlega á Íslandi. Það er alrangt hjá hv. 14. þm. Reykv. að það hafi aldrei komið tillaga um leiðréttingu á þessu frá stjórnarandstöðunni. Það kom fram hjá hv. talsmanni Kvennalistans að vegna þess að núverandi stjórnarliðar höfnuðu einmitt þessum ráðstöfunum fóru þær ekki í stjórnarsamstarf. Það er ekki hægt að haga sér þannig að það verði að leiðrétta alla daga og á öllum fundum stjórnarliða. (GHG: Mætti ég spyrja hv. þm. hver séu lágmarkskjörin?) Ég sagði: Það verður að kanna af ábyrgum aðilum. Ég er ekki reiðubúinn til að segja það. Ég veit það ekki. En þeir sem gerst þekkja hafa verið að tala um í kringum 45 og allt upp í 55 þús. á mánuði sem lágmark. Ég veit ekki hvort það er rétt, hvort það er of hátt eða hvort það er of lágt. Ég sagði, eftir könnun ábyrgra aðila, þeirra aðila sem við getum treyst, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, skulum við taka saman höndum og hækka laun við þá lægst launuðu og hætta að tala um það allan tímann að við viljum þetta og við

viljum hitt en greiðum svo atkvæði öðruvísi þegar á hólminn er komið. Við skulum vera menn til að breyta þessu.

Hæstv. sjútvrh. er farinn svo að ég ætla ekki að tala til hans. Það hefðu orðið eins konar borgarmálefni að tala við hann að mestu leyti vegna þeirra orða sem hann lét falla um borgarstjórn Reykjavíkur. Þó ég sé ekki alsæll með allt það sem borgarstjórn Reykjavíkur er að fara út í núna held ég að borginni hafi yfirleitt verið nokkuð vel stjórnað. Og sú þensla sem hefur verið á byggingarmarkaði eða vinnumarkaði í Reykjavík er ekki bara vegna framkvæmda borgarstjórnarinnar. Auðvitað vilI borgarstjóri, ungur og frískur maður, gera ýmsa hluti og gera þá í hvelli. Hann verður að halda sinni reisn og hann verður að stjórna sinni borg og sínum flokki og það verða allir að skilja. Og ég hef bæði gaman af því og styð hann í mörgu af því sem hann er að gera þó að það sé ekki í öllu.

En hvaða fjárfestingar hafa verið hérna í Reykjavík? Hver byggði Mjólkurstöðina? Hver byggði báknið, SÍS-báknið, ég veit ekki hvað það er kallað, inni á Ártúnshöfða? Hver er að byggja Sláturfélag Suðurlands? Það er fjöldinn allur af byggingum sem hér hafa risið og langstærstu húsin í Reykjavík eru byggð af aðilum sem ekki hafa heimilisfesti í Reykjavík. Ef við tökum þær framkvæmdir í burtu og skiljum bara eftir það sem er byggt á vegum Reykjavíkurborgar verð ég að segja það að þótt ég hefði viljað gera ýmislegt annað, og þá er ég kannski með gömul baráttumál mín í huga, meira fyrir aldraða og á annan hátt en gert er í augnablikinu, er Reykjavík, ekki bara frá ári til árs, heldur frá mánuði til mánaðar, fallegri og betri borg en hún var. Og það hlýtur að vera eitthvert stolt til handa Reykjavík frá öðrum en Reykvíkingum, bara sem höfuðborg. Það þarf hins vegar að fara varlega í allt.

Nú er ég ekki að halda og ætla mér ekki að halda frekari kosningaræðu fyrir Sjálfstfl. eða borgarstjórann í Reykjavík, en ég held að við verðum að meta það sem vel er gert. Við skulum fara í gegnum borgina einhvern tímann saman og sjá hvað er byggt af öðrum en fyrirtækjum heimilisföstum í Reykjavík. Þetta hefði ég viljað, svona með öðru, segja við hæstv. sjútvrh. og náttúrlega er ég búinn að segja það svo oft. Þegar menn eru að fagna hallalausum ríkissjóði, eins og að er staðið, eru það eldhúsin í landinu sem standa undir hallanum. Það er búið að færa halla ríkissjóðs inn í eldhúsin, m.a. með matarskattinum, og svo er talað um að við þurfum á sama hátt í næstu lotu að koma viðskiptahallanum niður í núll. En í guðanna bænum gerið þið það fyrir mig sem fyrrverandi félaga að reyna ekki að koma því yfir á eldhúsin eða heimilin líka, reynið þið að finna eitthvað nýtt. Ég hefði viljað sjá myndarlega skorin niður útgjöldin í staðinn fyrir að hækka þau um 50% .

Þegar ég var fjármálaráðherra á vegum Sjálfstfl. þótti það ekki nóg niður skorið sem þá var á fjárlögum fyrir 1986, en til þess að fá þau fjárlög

samþykkt þurfti ég að fá samþykki núv. forsrh., þáv. og núv. formanns Sjálfstfl., og þingflokksins til þess að hóta stjórnarsliti þann sama dag. En strax og fjárlögin voru samþykkt sneri flokkurinn við mér baki. En það er önnur vinnuaðferð í dag.

Ég var að vona að hæstv. fjmrh. hefði eirð í sér að sitja svolítið lengur og kannski skemmta okkur svolítið meira seinna í kvöld. (SJS: Hann skrapp heim til að borða ýsuna.) Já, ég veit það. Hann hefur líklega verið nýbúinn að fá barnabæturnar, þær gefa honum líklega 1'/z til 2 kg af ýsuflökum. En ríkisstjórnin hefur verið upptekin við að leiðrétta mistök síðustu ríkisstjórnar. Hvað segir hæstv. forsrh. við þessu? Að hæstv. núv. fjmrh. hefur þurft að eyða öllum sínum tíma frá því hann varð ráðherra í að leiðrétta mistök forvera síns. Hann hefur ekki verið svo upptekinn, það veit hæstv. forsrh., við að undirbúa skattalögin eða undirbúa staðgreiðslukerfið eða undirbúa virðisaukaskattinn vegna þess að öll þessi frv. voru þegar í undirbúningi hjá hæstv. fjmrh. þess tíma, á undan mér í embætti, Ragnari Arnalds. Mér er næst að halda að fjmrh. á undan honum hafi líka unnið að þessu frv. þannig að það eru margir fjmrh. en oftast nær sömu embættismennirnir í ráðuneytinu sem hafa unnið að þessum málum. Svo að við skulum ekkert hæla okkur af þrekvirki í þeim málum.

Eitt vil ég segja að gefnu tilefni frá hv. 14. þm. Reykv., eða var það hv. 2. þm. Norðurl. e., að þegar ég lagði virðisaukafrv. fram í Ed. Alþingis á sínum tíma sem fjmrh. kom ég því ekki í gegnum Ed. Ég lagði það fram og formaður fjh.- og viðskn., sem þá var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði mér að það væri alls ekki stuðningur í nefndinni fyrir frv. þannig að hann ráðlagði mér að fá það ekki út úr nefndinni. Það getur verið að Sjálfstfl. hafi breytt um skoðun núna. Ég fékk ekki stuðningsyfirlýsingu þegar ég lagði það fram, heldur heimild til að leggja það fram til skoðunar, til kynningar, svo að það getur verið að það sé breytt.

Þessi ummæli og það sem við vorum áhorfendur og áheyrendur að hér í þessu virðulega sameinaða Alþingi og í deildum Alþingis líka við afgreiðslu þeirra frv. sem stjórnin lagði fram var sundurþykkja, óánægja og jafnvel rifrildi á milli stjórnarliða og ráðherrar hæstv. gefandi yfirlýsingar fram og til baka eins og þeir væru að verja sig, verja sinn flokk, og svona skapa fyrirvara fyrir jákvæðri afstöðu sem þeir urðu að taka en voru ekki reiðubúnir til að gera með glöðu geði. Þetta er að koma aftur. Þegar hæstv. fjmrh. færir yfir á forvera sinn alla ábyrgð á öllu því sem illa hefur verið gert kalla ég það ódrengilegt. En það sýnir að það er ekki samstaða í ríkisstjórninni. Þessi ummæli benda til vissrar ástæðu til að ætla að fram undan geti verið stjórnarkreppa. Þessi ummæli eru svo ódrengileg að þrátt fyrir persónulegan ágreining okkar, hæstv. forsrh. og mín, vil ég verja hann gegn svona ummælum. Og ég vara hæstv. fjmrh. við að tala svona.

Fjmrh. hæstv. talaði um það óvissuástand sem

hann tók við og gerði lítið úr stjórnarandstöðunni og að stjórnarandstaðan hefði vart mátt mæla þegar stjórnarfrv. komu fram, en á sama tíma var kvartað undan málþófi. Ætli það verði ekki kvartað undan málþófi, hæstv. forseti, vegna þess að ég tala í máli sem er á dagskrá núna, í máli sem hæstv. fjmrh. tók einn og hálfan tíma á miðjum degi til að ræða? Það skyldi þó aldrei vera. Þegar við töluðum var kvartað undan því að við töluðum, en ríkisstjórnin þagði þá þó svo að nú telji hann nauðsynlegt, þegar þessar ráðstafanir hafa sýnt hve vondar þær eru, að tala í einn og hálfan tíma. Hann hefði betur gert það þegar hann þurfti að skýra málin betur og þegar hann var að fá spurningar frá okkur, þegar við vorum að vara hann við til þess að þjóðfélagið liði ekki fyrir það sem hann var þá að kokka.

Hann talaði mikið um að ríkisstjórnin hefði ekki setið aðgerðalaus. Ég verð að segja að þetta er alveg rétt. Ég vil bæta við: Því miður, hún hefði betur gert það. Hún hefði betur setið aðgerðalaus en að halda svona áfram eins og hún hefur gert. Ég kalla það ekki aðhald í útgjöldum eða vinnu gegn verðbólgu að auka útgjöld ríkissjóðs um 50% og þurfa að hækka tekjuhliðina á móti um 22-25 milljarða og segja svo við fólkið í landinu: Þetta skiptir engu máli. Matarskatturinn skiptir ykkur engu mali. Þessir 65 milljarðar sem voru áður 43 fyrir ári síðan, þeir skipta ykkur engu máli. Bíðið þið bara, kjánarnir ykkar, og sjáið þið að eftir nokkra mánuði, kannski ár, eitt og hálft ár, fer verðbólgan niður. Ef það er leiðin að setja á 25% matarskatt og hækka útgjaldalið fjárlaga um 50% og svo tekjuhhðina eða skatta til að mæta því og með þessari ráðstöfun taki það u.þ.b. ár, skulum við segja, nokkra mánuði til eitt og hálft ár, af hverju hækkuðuð þið þetta ekki enn þá meira til þess að ná niður verðbólgunni á skemmri tíma? Ef þetta er sú trú sem þið hafið? Það er alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli láta sér detta í hug að fólkið í landinu sé ekki betur upplýst en þetta.

Virðulegi forseti. Ég veit að það vilja eflaust allir, ekki bara forseti, komast hjá löngum kvöldfundi eða frestun svo að ég skal reyna að stytta mál mitt.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að það þyrfti að útvarpa frá Alþingi öllum umræðum til þess að fólkið í landinu fengi að fylgjast með því sem gerist á Alþingi. Ég vil eindregið taka undir þessi orð og engum trúi ég betur til þess að ná árangri í því sem getur verið Alþingi fyrir góðu en einmitt forseta sameinaðs Alþingis. Ég beini því þessum orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. til forseta vors og bið hann um að koma þessu í framkvæmd og hans mun verða minnst í sögu Alþingis svo lengi sem Alþingi starfar, það fer ekki á milli mála, svo mikil og góð breyting yrði það.

Það er verst að virðulegur þm. er farinn, en hann talaði um að þessi ríkisstjórn hefði gert meira en nokkrar aðrar í tekjuaukningu. Ég held að ég þurfi ekki að endurtaka það sem ég er búinn að segja. Ég vil taka undir þessi orð. Ég held að það sé öllum ljóst og fólkið er farið að finna fyrir því að þessi

ríkisstjórn hefur gert meira en nokkur önnur í tekjuöflun. En það er bara þetta sem ég hefði gjarnan viljað vita, hvort þessu grettistaki í fjáröflunarkerfi, eins og hann orðaði það, verður fylgt eftir með þessum eftirlitssveitum og hvernig þær eiga að starfa. Því það er alvarlegt mál, það er miklu stærra og alvarlegra mál en hæstv. fjmrh. kannski gerir sér ljóst, ef það bíður okkar og íslensku þjóðarinnar að helmingurinn af þjóðinni eigi eftir að elta hinn til þess að vita hvort seinni helmingurinn er þjófur eða ekki þjófur. Þetta er miklu stærra mál en hann áttar sig kannski á. Það getur verið og ég vona að hann hafi þarna troðið á tungunni á sér, en ekki verið að upplýsa samþykktir ríkisstjórnarinnar.

Þá vil ég segja það að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur misskilið hv. 7. þm. Reykn. Hann var að tala gegn því að festa íslensku krónuna við einhvern erlendan gjaldeyri en ekki með því. Hann var að tala gegn því. Þetta mál sem nú er uppi eða hugmynd sem hér hefur komið fram á Alþingi í, að ég held, frumvarpsformi, að íslenska krónan verði lögð niður og samstarf verði tekið upp við erlendan aðila er ekki ný hugmynd. Hún kom upp hj á Jónasi Jónssyni á sínum tíma. Þegar rætt var um það fyrst að Bandaríkjamenn fengju hér aðstöðu á Keflavíkurflugvelli með hersetu var talað um að tryggja alls konar framkvæmdir á vegum og á kostnað Bandaríkjamanna. Það var talað um að Bandaríkjamenn tryggðu sölu á öllum okkar afurðum á hámarksheimsmarkaðsverði meðan þeir væru hér og ekki minna en til 99 ára ef ég man rétt. Og það var talað um að gullfótur dollarans tryggði jafnframt íslensku krónuna eða jafnvel yrði tekinn upp dollari á Íslandi á meðan samningarnir væru í gildi svo að þetta er ekkert nýtt mál. En ég er jafnmikið á móti því nú eins og þegar Jónas Jónsson sagði mér frá þessu löngu eftir að hann hafði borið það fram.

Ég ætla ekki að fara að ræða í fjarveru hv. 2. þm. Austurl. fullyrðingar hans í sambandi við þátttöku ríkisins í að spenna upp vexti og verðbréf og verðbréfamarkaðinn. Það sér hins vegar hver heilvita maður að þegar ríkisstjórnin þarf að bjóða hærri vexti og betri kjör í hverf skipti sem einhver verðbréfaflokkur fellur í gjalddaga og ríkissjóður þarf að standa í skilum þarf hann alltaf að selja ákveðið magn til þess að geta staðið í skilum. Og með því að hækka vextina og jafnvel bjóða afföll líka tekst honum að brúa bilið frá einum gjalddaga til annars. Þetta er ljótur leikur sem hlýtur að enda með skelfingu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni, en ég vona að þó ég hafi tekið þátt í þessum umræðum verði það ekki skrifað á málþóf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það mætti margt um þá umræðu segja sem hefur farið fram í dag. Einu verður þó varla neitað þegar kemur að lokum hennar að það var þörf fyrir hana. Það sýnir þátttakan og sá tími

sem það hefur tekið að ræða þessi mál sem hefði ugglaust getað orðið lengri.

Ég skal aðstæðna vegna reyna að fara eins fljótt yfir sögu og mér er kostur. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja örfáum orðum að ummælum sem hér hafa fallið undir umræðunni, einkum frá hæstv. ráðherrum.

Hæstv. forsrh. lá mikið á að koma því að að meðaltölin væru í ágætu lagi. Þar með ættu menn ekkert að vera að röfla allt of mikið um það að kaupmátturinn rýrnaði og ýmislegt væri að fara úr böndunum vegna þess að meðaltalsráðstöfunartekjur, eða hvað það nú heitir allt saman, væru alveg þokkalegar og reyndar mjög háar og þess vegna hlytu menn að hafa það nokkuð gott. Þetta könnumst við allt saman við. Þess er vert að minnast að á bak við þessi meðaltöl liggur margt, m.a. gífurlegur þrældómur. Öll yfirvinna, launaskrið, yfirborganir, fjármagnstekjur og aðrir slíkir hlutir koma þarna til auk hins venjulega kaups. Sú staðreynd er jafnframt ljós, þrátt fyrir öll meðaltölin, að menn eru í góðærinu, í þessu mesta góðæri sögunnar, jafnfjarri því að geta framfleytt sér af tímakaupi eins og þeir hafa lengi verið, ef ekki heldur fjær. Það er annar mælikvarði til að líta á þessa hluti og segir sína sögu.

Eitt hefur komið mér mjög á óvart, herra forseti, og þó kannski ekki á óvart en það hefur vakið athygli mína nú sem endranær. Það er hvernig hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar kjósa að stilla málunum upp þegar þeir fjalla um verðbólguna. Þeir tala um það, þessir hv. og hæstv. menn, að það megi alls ekki hækka launin. Þá fari verðbólguskriða af stað. En hver er staðan? Hver er verðbólgan í dag? Við skulum fara aðeins yfir það. Hún er þannig að á milli mánaðanna desember og janúar var hún 54%. Og meðaltalsverðhækkanir sl. þriggja mánaða eru yfir 30%. Er hægt að tala um að það fari eitthvað af stað í þessum efnum þegar verðbólguhraðinn er slíkur? Auðvitað ekki. Þetta er hins vegar gamalkunnug aðferð, gamalkunnug hótun, svipa til að reiða upp þegar gengið er til kjarasamninga. Ef þið vogið ykkur að semja um einhverjar launahækkanir verður ykkur kennt um það að verðbólgan hafi farið af stað, veskú. Og þetta er reynt núna, eina ferðina enn, þó að sú staðreynd blasi við að tvennir síðustu kjarasamningar voru mjög hógværir samningar, verðbólgulækkandi samningar. Þannig að sú verðbólguskriða sem núna stendur yfir í landinu verður ekki með nokkru móti skrifuð á ábyrgð þeirra sem gerðu tvenna síðustu kjarasamninga. Oft hefur mátt reyna þetta en aldrei er það ósanngjarnara en nú. Hverjir gengu fram fyrir skjöldu og prísuðu síðustu kjarasamninga sem fyrirmyndarsamninga aðrir en þeir sömu menn sem nú eru að reyna að klína því enn þá eina ferðina yfir á samningsaðila að ef þeir leyfi sér að hækka kaupið skuli þeir bera ábyrgðina á verðbólgunni? Það eru mennirnir sem sjálfir misstu stjórn á henni. Það eru þeir hinir sömu ráðamenn úr síðustu og núv. ríkisstjórn sem eru búnir að missa tökin á hlutunum og hleypa

verðbólgunni upp í 30-50%. Þeir tala úr glerhúsi og ættu að gæta þess.

Ég verð, herra forseti, vegna þeirra tilrauna hæstv. forsrh., sem eru ekki nýjar af nálinni, til að rangfæra það tilboð sem stjórnarandstaðan gerði stjórnarliðum 20. des. sl. í sambandi við framgang mála hér á Alþingi, að fara ofurlítið yfir þá hluti. Hæstv. ráðherra kýs að stilla málum svo upp að stjórnarandstaðan hafi gert halla á fjárlögum að sérstakri kröfu, rétt eins og það væri bara æðsta keppikefli okkar og æðsta takmark að hafa sem mestan halla á fjárlögum. Mér satt best að segja blöskrar svona framsetning. Hver á sér þann draum, með leyfi að spyrja, hver á sér það takmark í efnahagsmálum að það sé halli á ríkissjóði? Auðvitað ekki nokkur maður. Það er einnig alrangt og útúrsnúningur af versta tagi að við höfum hafnað allri frekari tekjuöflun ríkisins.

Við settum fram tvær óskir fyrst og fremst. Númer eitt að fallið yrði frá matarskattinum. Við gerðum okkur grein fyrir því að það að falla frá þeirri skattheimtu þó að ýmiss konar önnur tekjuöflun kæmi í staðinn gæti þýtt það að erfitt yrði að ná hallalausum rekstri á ríkissjóði þegar í stað. Og þess vegna settum við sem einn af þessum þremur liðum að við gætum sætt okkur við það að í staðinn fyrir að ná hallalausum ríkissjóði strax yrði það gert á þremur árum. Hæstv. forsrh. getur ef hann vill haldið áfram að snúa út úr þessu. Ég held hins vegar að það sé svo barnalegt að ætla að reyna að telja fólki trú um það að einhver heilvita stjórnmálamaður í landinu eigi það sem sérstakt takmark, sérstaka ósk, að reka ríkissjóð með halla að ég held að þetta gangi ekki upp hjá hæstv. ráðherra.

Þriðja óskin var ofur eðlileg. Hún var um það að ef gengið yrði til slíks samstarfs, samkomulags um hlutina, vildum við fá tryggingu fyrir því að ekki yrði svo þvert ofan í það að Alþingi færi heim gripið til einhverra stórfelldra efnahagsráðstafana með bráðabirgðalögum. Það var ofur eðlileg ósk við þessar aðstæður og ekkert um það að segja.

Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. forsrh. að hann hætti þessum útúrsnúningum því að þeir fara honum ekki vel. Þeir fara engum manni vel og allra síst forsrh. sem vilI vera málefnalegur, hygg ég. Það er auðvitað hægt að túlka hlutina svona. Það er hægt að snúa út úr þessu á alla enda og kanta, það veit maður. En mér finnst það ekki mjög stórmannlegt að fara þannig með tilboð sem við gerðum af einlægni vegna þess að ríkisstjórnin bað um viðræður við stjórnarandstöðuna. Mér finnst það ekki stórmannlega gert í sjálfu sér að nota sér það að stjórnarandstaðan var tilbúin til þess að ræða við ríkisstjórnina með þeim hætti að henda á lofti þær hugmyndir sem við vörpuðum þarna fram, snúa út úr þeim og reyna að nýta sér þá aðstöðu sem hæstv. forsrh. er oft og tíðum í, í fjölmiðlum og annars staðar, að rangfæra þær með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Haldi þetta áfram eins og það gerði t.d. í áramótagrein hæstv. ráðherra og oft áður áskil ég

mér auðvitað allan rétt til þess að svara því þá mjög rækilega og þá kann ýmislegt fleira að koma í ljós sem þarna var rætt.

Ég fullvissa svo hæstv. forsrh. um það að ég mælti fyrir þessum hugmyndum með góðri samvisku og gæti gert það enn vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það hefði ekki verið neinn stórglæpur í tengslum við aðrar ráðstafanir þó að ríkissjóður hefði ekki náðst með öllu hallalaus á þessu ári. Ég er sammála um að það var æskilegt markmið en menn verða stundum að láta byrinn ráða. Og að mínu mati var miklu mikilvægara að koma í veg fyrir þá skattpíningu á almenningi og láglaunafólkinu í landinu sem felst í matarskattinum. Það var margfalt mikilvægara markmið og keppikefli en það, þó að það sé gott út af fyrir sig að reka ríkissjóð hallalausan. Hæstv. forsrh. má þar af leiðandi hætta að vorkenna mér fyrir það að hafa tekið þátt í því að bera fram þetta tilboð við hæstv. ríkisstjórn.

Það var svo eitt mjög athyglisvert hér í umræðunni, herra forseti, að stjórnarliðar lýstu mjög eftir stefnu stjórnarandstöðunnar. Og hæstv. forsrh. eyddi drjúgum hluta ræðu sinnar í að ýmist snúa út úr því sem stjórnarandstaðan hafði fært fram, eins og þarna 20. des., eða þá að fjalla um það í löngu máli að stjórnarandstaðan hefði ekki lagt fram þetta og lagt fram hitt. Það gerði einnig hv. 2. þm. Norðurl. e. og fleiri og fleiri stjórnarliðar. Hvers vegna? Ég held að svarið sé einfalt, herra forseti. Það er vegna þess að stjórnarliðar sjálfir hafa ekki frá neinu að segja. Þeir geta ekki notað ræðutíma sinn til þess að segja frá eigin stefnu. Hæstv. forsrh. hafði svo fátæklegt nesti hingað í ræðustólinn að honum dugði það ekki nema í fáeinar mínútur. Þá sneri hann sér að stjórnarandstöðunni og eyddi því sem eftir var af ræðutímanum í hana. Skiljanlega, vegna þess að það var svo lítið að frétta úr þeim herbúðum sem hann á þö að heita talsmaður fyrir. Það er ábyggilega skýringin á því að stjórnarliðar hver um annan þveran eyddu mestöllum tíma sínum í það að segja að stjórnarandstaðan hefði ekki verið með stefnu í þessu eða stefnu í hinu – sem er rangt því að stjórnarandstaðan á þessu þingi hefur að mínu mati gert ítarlegar og málefnalegar grein fyrir því í mörgum greinum hvernig hún hefði viljað taka á ríkisfjármálum og fleiru heldur en þær stjórnarandstöður sem ég hef fylgst með á undanförnum árum.

Ég nefni tillögur í skattamálum, ítarlegar brtt. við þau skattafrv. sem hér voru flutt, aðrar áherslur í ríkisfjármálum, brtt. við fjárlög og svo auðvitað þær almennu, pólitísku áherslur sem iðulega hafa komið fram hér í umræðum á Alþingi. Ef stjórnarliðið er hins vegar svo gjörsamlega heillum horfið að það sér ekkert nema þá von að fá einhverja hjálp hjá stjórnarandstöðunni, þá er auðvitað sjálfsagt að reyna að verða við því. Ég skal taka að mér að taka saman yfirlit um helstu hugmyndir stjórnarandstöðunnar, a.m.k. fyrir Alþb., og að koma þeim á framfæri við ríkisstjórnina henni til aðstoðar. Það er

alveg sjálfsagður hlutur. Og ég er alveg viss um að það verður mér til góðs ef stjórnarliðið er nú tilbúið til þess að skoða þær vandlega eins og ætla má eftir ræðuhöld þeirra hér í dag.

Það er svo rangtúlkun og öfugmæli af versta tagi sem kom hér fram bæði hjá hæstv. fjmrh. og fleirum að stjórnarandstaðan hafi ekki haft neinar hugmyndir um það hvernig mætti afla tekna aðrar en þær þá að leggja á matarskatt. Við gerðum rækilega grein fyrir því hvernig við vildum leggja á skatta til að standa undir tiltekinni samneyslu en gera það með öðrum hætti en hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn gerði.

Það þyrfti alveg nýjan fund, herra forseti, líklega jafnlangan þeim sem hér hefur staðið frá því um hádegisbilið ef ég ætti að reyna að svara eins og hálfs tíma messu hæstv. fjmrh. hér fyrr í dag, enda er hann nú á brottu genginn þannig að það hefur kannski lítið upp á sig. Hann fór víða vegu að sækja sér rök, yfir í Svíaríki og margt víðar. Margt dróst inn í hans mál, sem hann flutti nokkuð garpslega og ber að fagna því að hann er vaknaður til lífsins sá hæstv. ráðherra og farinn að reyna að verja sig og gjörðir sínar. En ég held að það sé þó hægt að draga þetta allt saman í eina setningu í raun og veru. Óll þjóðin er greinilega með á nótunum og hún er alveg sannfærð um það, íslenska þjóðin, að það geti ekki verið sérstök blessun fyrir almenning í landinu að gera matvælin dýrari. Það gangi engan veginn upp að þessar brýnustu nauðsynjar, daglegu þarfir hvers og eins, að það geti verið almenningi til hagsbóta að hækka verðið á þessum vörum. Svo einfalt er málið. Allt hagfræðinga- og spekingagengið er í raun og veru óþarft þegar kemur að svona einföldum sannindum, hvort sem það er í Póllandi eða á Íslandi, í Costa Rica eða hvar annars staðar, Tahiti, Port au Prince, þar sem almenningur rís upp til að mótmæla því þegar þessar daglegu brýnustu nauðsynjar eru hækkaðar úr samræmi við kaupgetu í landinu. Það er einfaldlega sá dómari sem menn eiga víða, hvað sem öllu röflinu í hagfræðingunum og öllum krataskýrslum frá Svíþjóð líður, því að almenningur ræður í þeim löndum þar sem lýðræði ríkir og því eiga menn að hlýða. Skoðanakönnun Dagblaðsins, þó að hún sé e.t.v. ekki dómur guðs almáttugs í þessum efnum, þá sýnir hún mönnum að það er sáralítið brot af íslensku þjóðinni sem styður aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Og á þá ekki hæstv. ríkisstjórn að taka eitthvert mark á því? Eiga menn að vera nákvæmlega jafnheilagir eftir sem áður í málflutningi sínum fyrir þessum skatti þegar það liggur fyrir að yfir 85% þjóðarinnar eru á móti honum? Ég spyr. Er það lýðræðislegur hugsunarháttur hjá ríkisstjórn sem á að heita meirihlutastjórn í landinu?

Það er auðvitað ekki svo að slagurinn hafi staðið um samneyslu eða ekki samneyslu, um velferðarríki eða ekki velferðarríki á Íslandi eins og hæstv. fjmrh. og sumir fleiri reyna að snúa þessu dæmi. Spurningin stendur hins vegar um það: Hvernig er teknanna

aflað til að borga hina sameiginlegu neyslu? Hverjir eiga að bera þar þyngstar byrðar? Það gengur ekki upp að reyna að telja almenningi trú um að það sé sérstök blessun og hagsbót fyrir hann að skatturinn komi fyrst og fremst frá honum sjálfum vegna þess að almenningur horfir upp á það hvert fjármunina ætti í raun og veru að sækja. Ef þetta er svona, eins og hæstv. fjmrh. vill hér vera (áta, þá hlýtur það að vera enn þá betra að leggja á 50% matarskatt og enn þá betra að leggja á 75% matarskatt o.s.frv. því að blessunin hlýtur að vaxa í réttu hlutfalli við það sem matarskatturinn hækkar ef þetta er rétt, ef þetta á að ganga upp. Kannski það verði næsta stórkostlega uppfinning Alþfl. í skattamálum og það verði farið á hundrað fundi út um allt land til þess að segja við fólkið: Matarskatturinn er bara ekki nógu hár. Nú er næsta þarfaverk að hækka hann úr 25% í 50%. Maður gæti svo sannarlega átt von á því.

Herra forseti. Ég hefði haft af því óskaplega ánægju að ræða pínulítið vaxtamál, m.a. við hæstv. viðskrh. sem ræðir þau mál af viti og það er ævinlega gaman að rökræða við slíka menn þó maður þurfi ekki að vera þeim sammála. Ég ætla bara að segja eina setningu um það og það er þetta: Í öllum kennslubókum heimsins um hagfræði og vaxtamál má lesa setningar af því tagi að þrátt fyrir öll lögmálin og allar kenningarnar hafi hvergi tekist að sýna fram á beint samband milli vaxta og sparnaðar. Dr. Magni Guðmundsson fjallar einmitt um þetta í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun. Svo sitja menn bara uppi á Íslandi og bíða eða gera „experimentum“, eina tilraun og þeir ætla að bíða þótt það kosti það að allt atvinnulíf og öll heimili í landinu verði gjaldþrota því þá langar svo til þess að reyna að sanna þetta sem engum öðrum hagfræðingum heimsins hefur tekist. Og hvers vegna hefur mönnum ekki tekist þetta? Hvers vegna hefur aldrei tekist að sýna fram á það í reynd að hægt væri að stilla af þetta lögmál framboðs og eftirspurnar með vöxtunum þannig að sýna mætti fram á bein áhrif á sparnaðinn, einhvers konar línulegt samband þar á milli eða logariþmískt eða hvernig sem það nú yrði? Það er vegna þess að það eru svo ótal margir aðrir hlutir en vextirnir sem hafa áhrif á það hvernig almenningur ráðstafar sínum peningum. Það eru líka svo margir aðrir hlutir sem hafa áhrif á það hvað almenningur hefur mikla peninga til að leggja inn. Það er auðvitað aðalatriðið. Og þeir peningar eru núna að minnka. Þess vegna er alveg sama hvernig ríkisstjórnin hækkar vextina. Almenningur mun hafa minni og minni peninga á næstu mánuðum til að leggja inn í bankana. Og minni peninga einnig eftir því sem vextirnir hækka vegna þess að þá minnkar launagreiðslugeta fyrirtækjanna og þannig getur þetta elt skottið á sjálfu sér. Um þetta geta menn lesið ótal dæmi úr bókum. Svo sitja menn hér, þessir menn sem hafa tekið þetta í einhverri barnatrú, og ríghalda í það að þessi lögmál muni að lokum stilla sig inn á eitthvert jafnvægi. Ja, þvílík endemi!

Það er m.a.s. auðvelt að sýna fram á það með

öðrum dæmum að hærri vextir geta leitt til þess að fjármagnið stoppi styttri tíma í bönkunum. Við skulum taka dæmi af manni sem ætlar að kaupa sér bíl sem kostar eina milljón. Hann byrjar að safna fyrir honum núna 5. febr. og hann ætlar að kaupa bffinn þegar hann er kominn með þessa milljón. Hann leggur þetta allt saman inn á bók mánuð eftir mánuð eftir mánuð og vextirnir bætast við. Og hvað gerist ef vextirnir hækka? Þá er hann fljótari að ná upp í milljónina. Þá á hann fyrr fyrir bílnum þannig að hann tekur alla peningana fyrr út úr bankanum en ella hefði verið. Þannig getur þétta nefnilega verkað á ótal vegu. Það er hægt að finna dæmi um alla skúpaða hluti í þessum efnum.

En það að hanga eins og hundur á roði á því að þetta skuli ganga upp hér á Íslandi hvað sem tautar og raular, hversu háir sem vextirnir verða, hvernig sem atvinnulífinu reiðir af, það er einhvers konar ofstæki sem ég hélt satt best að segja að hefði liðið undir lok á miðöldunum. Þetta minnir mann á svona ofstækishugsunarhátt sem maður les úr sögubókum frá miðöldum.

Herra forseti. Ég held að niðurstaða þessarar umræðu sé í raun og veru sáraeinföld. Hún er sú að ríkisstjórnin hefur engu svarað. Hæstv. fjmrh. reyndi í einn og hálfan klukkutíma að verja matarskattinn. Hæstv. sjútvrh. sagði hluti sem allir vita: að það séu mjög erfiðar rekstraraðstæður í sjávarútvegi. Og hæstv. fjmrh. eyddi stórum hluta ræðu sinnar í það að snúa út úr fyrir stjórnarandstöðunni. Þetta skilaði okkur ekki miklu um það hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir á næstunni og hver sé efnahagsstefnan til framtíðar út frá ríkjandi aðstæðum. Það er það sem spurt er um. Það var ekki mikil leiðbeining fyrir aðila vinnumarkaðarins hefðu þeir lagt það á sig, liggur mér við að segja, að sitja hér og hlusta á alla þessa umræðu, hefðu þeir síðan ætlað að setjast niður á samningafund á morgun. Hefðu þeir verið miklu nær um það hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir, hvers sé að vænta í efnahagsmálunum, segjum á næsta ári því að nú tala menn um samninga til lengri tíma litið? Svarið er einfalt. Svarið er nei. Það kom ekki nokkur skapaður hlutur fram um það hvort ríkisstjórnin hyggst eitthvað fyrir og þá hvað það væri. Svarið var í raun og veru þetta: Við vitum ekkert, við þorum ekkert að gera, við þorum ekkert að segja, okkar helsta von er að það verði samið, þá ætlum við að sjá til hvort okkur dettur ekki eitthvað gott í hug, þá ætlum við að fara að gera tilraunir til að stjórna. — Þetta var a.m.k. mín samantekt á því sem kom fram hér í máli hæstv. ráðherra.

Kokhreysti hæstv. forsrh. hér í upphafi umræðunnar, um það að í raun og veru væri þetta allt í lagi og efnahagsstefnan væri ljós og skýr, er nú sérkennileg þegar maður rifjar það upp að hæstv. fjmrh. sagði fyrir jól að það væri alveg ljóst - hann sagði það hérna uppi í Ed. — að það væri alveg ljóst að þegar eftir áramót yrði að grípa til víðtækra efnahagsráðstafana. Svo kom Alþýðublaðið út fyrir nokkrum dögum. Hvernig var forsíðan? Geysilegur

uppsláttur um þessar rosalegu efnahagsráðstafanir sem fjmrh. væri með í undirbúningi — og hæstv. forsrh. sagði að þeir væru gamansamir á Alþýðublaðinu. Og hvað sagði hæstv. utanrrh. vestur á Sögu fyrir nokkrum dögum? „Róm brennur.“

Og er það svo trúverðugt að hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh., yfirmaður efnahagsmálanna, komi hér upp og segi: Þetta er allt í fína lagi, efnahagsstefnan er alveg skýr og klár og það þarf ekkert að gera, við bara höldum okkar striki hérna með fast gengi og háa vexti, bíðum eftir að þetta lagist? — Nei. Það er nú ekki trúverðugt. Þegar ráðherrarnir eru þvers og kruss, út og suður að lýsa því yfir að auðvitað þurfi að grípa til víðtækra efnahagsráðstafana, hvers vegna er þá staðan sú að það skuli ekki vera hægt að segja svo mikið sem eitt einasta orð um það hvað eigi að gera? Getur hugsast að það sé vegna þess að í ríkisstjórninni sé ein höndin upp á móti annarri? Hver höndin upp á móti annarri? Skoðanirnar jafnmargar og hæstv. ráðherrar, líklega 11 talsins? Mér dettur það helst í hug ef þær eru þá einhverj ar.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel eins og ég hef sagt að hún sýni það sjálf að hennar var þörf. Mönnum lá ýmislegt á hjarta, ekki síst hv. stjórnarliðum sem ég hygg að hafi, svo merkilegt sem það kann nú að virðast, notað meiri hluta ræðutímans hér í dag vegna þess að þeim lá svo mikið á annaðhvort að þvo hendur sínar eða þá að tjá sig um ástandið.

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða sem fram hefur farið hér í dag hefur verið um margt athygli verð. Kannski má segja með nokkrum sanni að hún hafi ekki verið rílc að innihaldi í samræmi við tímalengd hennar, en vafalaust til þess fallin að menn geti dregið af henni nokkrar ályktanir.

Það liggur fyrir skýrt eftir þessa umræðu að þessi ríkisstjórn sem nú situr greip þegar í stað eftir að hún kom til starfa til aðhaldsaðgerða í efnahagsmálum til þess að koma í veg fyrir verðbólgu. Með miklu átaki hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, það hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaði og fylgt hefur verið stöðugleikastefnu í gengismálum.

Nú standa yfir kjarasamningar og þeir valda eðlilega nokkurri óvissu og flestir vænta þess að þeim ljúki á viðunandi hátt innan tíðar. Ymsir talsmanna stjórnarandstöðunnar hafa látið þau orð falla hér í þessum umræðum að ekki mætti kenna aðilum vinnumarkaðarins um verðbólguna og ekki væri það stórmannlegt af hálfu stjórnarflokkanna að beina orðum sínum einungis til aðila vinnumarkaðarins þegar talað væri um nauðsyn þess að lækka verðbólgu. Undir þetta ætla ég að taka. Til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálunum og ná niður verðbólgu þarf mjög víðtækar og alhliða aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum. Þessi ríkisstjórn hefur staðið þannig að verki. Hún lítur á kjarasamninga sem einn

þátt í víðtækum aðhaldsaðgerðum, hún hefur höfðað til þeirra sem þar bera ábyrgð að fylgja þeirri stefnu og hún hefur fengið býsna góðar undirtektir í máli þeirra sem forustu hafa fyrir atvinnurekendum og launafólki. En aðgerðir stjórnarinnar hafa komið fram á öðrum sviðum og felast í því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, ná betra jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og árangur af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið á því sviði er að skila sér. Það hefur verið sýnt hér með tölum í dag og ekki hrakið. Og það er alveg ljóst að gengisstefnan er einn meginþátturinn í því að tryggja hér jafnvægi og viðhalda kaupmætti. Við vitum það alveg nákvæmlega að ef gefið verður eftir á því sviði og farið inn í gamla farveginn að fella gengið þegar kröfurnar koma fram og hagsmunahóparnir heimta, þá lendum við inni í þessum gamla víxlgangi.

Auðvitað er það rétt að kostnaðarhækkanir hafa orðið hér innan lands. En eiga menn við þessar aðstæður að gefa alltaf eftir? Eiga menn sýknt og heilagt að gefa eftir og segja sem svo: Það er sama hvernig hlutirnir þróast hér innan lands, við strikum yfir þá reikninga með gengisfellingu og verðbólgu? Ég er ekki að varpa sök á einn aðila í þjóðfélaginu frekar en annan. Þegar kostnaðarhækkanir verða getur það stafað af því að ríkisstjórn beitir ekki nægu aðhaldi í peningamálum. Það getur stafað af offjárfestingarákvörðunum í atvinnulífinu. Það getur stafað af því að launafólk fer fram á og knýr fram launahækkanir umfram verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Það er ástæðulaust að ásaka einn aðila umfram annan. En að draga úr því aðhaldi sem stöðugleikastefna í gengismálum veitir að þessu leyti væri fullkomið ábyrgðarleysi og að segja sem svo: Það er nákvæmlega sama hvernig hlutirnir gerast, við leiðréttum þetta bara sjálfkrafa eftir á með því að lækka gengið.

Reyndar hef ég nú ekki skilið talsmenn stjórnarandstöðunnar þannig að þeir væru að biðja um þetta. Þeir segja samt: Það þarf að lækka gengið, en við erum á móti því að lækka gengið. Þeir segja: Það þarf aðrar aðgerðir en bara hófsama kjarasamninga. Þeir eru samt á móti því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Þeir eru samt á móti því að það séu gerðar aðgerðir á peningamarkaði til þess að ná jöfnuði. Þannig er nú eiginlega niðurstaðan af þessum umræðum að því er varðar málflutning stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstjórnin hefur lýst alveg skýrri stefnu, komið þeim málum fram í framkvæmd og verk og þær ákvarðanir eru farnar að bera árangur. En við stöndum frammi fyrir margs konar vanda. Það er vandi í rekstri höfuðatvinnuveganna vegna þess að kostnaðarhækkanir hafa verið of miklar hér innan lands og vegna þess að viðskiptakjörin hafa verið að versna og kaupmáttur útflutningsteknanna að rýrna. En við leysum þetta ekki með því að slaka á aðhaldsaðgerðunum. Við þurfum að leggja nokkuð á okkur til þ~ss að komast út úr verðbólgunni.

Þess vegna er það alveg ljóst að hér liggur fyrir

skýr stefna í efnahagsmálum, aðhaldsstefna á öllum aðalsviðum efnahagslífsins. Það er verið að vinna að ráðstöfunum til þess að treysta stöðu útflutningsatvinnugreinanna og hér hefur verið greint frá ákvörðunum sem teknar hafa verið í þeim efnum og öðru sem er í undirbúningi. Allt eru þetta mikilvægir þættir og sripta sköpum um okkar framtíð. En við getum ekki vænst þess að við þessar aðstæður komist fiskvinnslan, svo dæmi sé tekið, í einu vetfangi samkvæmt meðaltalsútreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem hér eru mikið nefndir, upp fyrir núllpunkt. Við getum ekki vænst þess að við eyðum viðskiptahallanum í einu vetfangi. En hann mundi rjúka upp á við ef við færum að stórauka hallareksturinn á ríkissjóði, draga úr aðhaldsaðgerðum á fjármagnsmarkaðnum og láta algjörlega skeika að sköpuðu hvernig kjarasamningar færu.

Tölur sýna að verðbólga mun fara lækkandi ef okkur tekst að halda áfram á sömu braut. Hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi það að verðbólgutölurnar í byrjun janúar væru yfir 50% ef sú tala væri yfirfærð á það sem kallað er ársgrundvöllur á máli hagfræðinga. Ef horfurnar, sem hér hefur verið greint frá varðandi verðbólguna í byrjun febrúar, eru um 1% eða rétt rúmlega 1% þá væri það einhvers staðar í kringum 15% verðbólga á ársgrundvelli og verðbólgufall úr rúmlega 50 niður í 15. Þetta er auðvitað einfalt dæmi og mánaðarútreikningar af þessu tagi segja ekki mikla sögu. En af því að hann notaði slíka viðmiðun ... (Gripið fram í.) Hv. þm. gerði það einnig - þá væri verðbólgan komin niður í 15%, en yrði nokkru meiri u.þ.b. 30% ef við notuðum þriggja mánaða viðmiðun að því er varðar verðbólguna í febrúar. Af þessu sjáum við að við erum að ná árangri, ekki nægjanlega miklum, við náum ekki nógu miklum árangri, en við erum að ná árangri og megum ekki gefa eftir í þessu efni.

Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ríkisstjórnin hafi framið mikla synd með því að auka útgjöld og vissulega ber að hafa aðhald að útgjöldum. Þeir hinir sömu hafa þó staðið að stórauknum útgjaldatillögum við afgreiðslu fjárlaga. Í hverju er helsta útgjaldaaukningin fólgin sem ákveðin var með fjárlögunum? Er hún ekki fólgin í því að auka niðurgreiðslur á brýnustu lífsnauðsynjum almennings? Er hún ekki fólgin í því að hækka barnabætur, að hækka tryggingabætur, að verja auknu fjármagni til þess að lengja fæðingarorlof? Atti að hætta við þetta allt saman? Ber að skilja orð þeirra sem þessa gagnrýni báru fram á þann veg? (Gripið fram í.) Ég efast um það. Ég hygg hins vegar að þessi orð beri fremur að skilja á þann veg að maður eigi að taka mátulegt mark á þeim. (AG: Það réttlætir ekki skattheimtuna.) Það væri ábyrgðarleysi við þessa stöðu, vaxandi viðskiptahalla, að slaka á í ríkisfjármálunum vegna þess að það er ekki bara einn þáttur efnahagsstarfseminnar sem ber uppi baráttuna við verðbólguna heldur allir þættirnir. Þess vegna væri það ábyrgðarleysi.

Það tæki of langan tíma að víkja að máli allra

þeirra sem hér hafa talað í dag. Það var athyglisvert að hv. 18. þm. Reykv. gat þess að útgjöld vísitölufjölskyldunnar hefðu á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hækkað um 5400 kr. að því er varðar matarkostnað og að lágmarkslaunin hefðu hækkað um 2100 kr. Hitt var þó enn athyglisverðara að talsmaður Kvennalistans, þess stjórnmálaflokks sem haft hefur hæst um það að nauðsynlegt væri að sinna meir félagslegum úrbótum, lengja fæðingarorlof og auka barnabætur, gat þess í engu að til viðbótar þessum 2100 kr. er aukning í barnabótum á sama tíma upp á 3600 kr. hjá fjögurra manna fjölskyldu sem hefur lægstu laun. Upp á 3600 kr. Nei, þegar kemur að þessum staðreyndum þá er það einskis metið. Það er litið svo á að það komi barnafjölskyldunum og lágtekjufjölskyldunum ekkert við og skipti hag þeirra engu máli. Þetta sýnir afar vel sýndarmennskuna í málflutningi þessa flokks.

Ég ætla aðeins að varpa ljósi á málflutning stjórnarandstöðunnar með því að vitna hér til ræðu þess þm. stjórnarandstöðunnar sem mér sýndist tala af mestri skynsemi úr því liði og reis hæst í málflutningi sínum úr máli st~órnarandstöðunnar, en það er hv. 7. þm. Reykn. Ég hygg að það sé óumdeilt að ræða hans var af hálfu stjórnarandstöðunnar sú sem bar af og reis hæst. Hann ítrekaði öll fyrri ummæli sín um það hversu hroðalegt það væri að leggja á þennan matarskatt eins og hann kallaði. Ég ætla ekki að fara aftur með öll þau lýsingarorð. Síðan lýsti hann stefnu flokks síns í skattamálum og sagði að það væri stefna sem byggði á því að leggja á matarskatt í tolli. Það mætti leggja matarskatt á alla innflutta matvöru, bara ekki innlenda. Niðurstaðan af þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið af hálfu þessarar stjórnar er sú að skatturinn hefur verið greiddur niður af öllum mikilvægustu innlendu matvælunum. En eftir öll stóru orðin þá er það bara höfuðstefna að leggja matarskatt á allar innfluttar vörur, enda hafði formaður viðkomandi flokks tvívegis lagt fram frv. um það sem stjórnarandstaðan kallar matarskatt án þess að gera tillögur um nokkrar hliðarráðstafanir til þess að verja hag þeirra sem lakast eru settir, barnafjölskyidnanna í landinu og það er kannski ástæðan fyrir því að þau frv. náðu ekki fram að ganga á þeim tíma.

Hv. 7. þm. Reykn. sagðist taka undir það með ráðherrunum sem talað hafa að í gengismálum þýddi ekki að halda þannig á málum að við færum aftur inn í þennan víxlhækkunarfarveg á milli gengis og kostnaðarhækkana. Síðan tók hann fram að hann tæki algjörlega undir sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. um að nú hefðu kostnaðarhækkanir orðið í útflutningsatvinnuvegunum og þess vegna yrði að lækka gengið og niðurstaðan varð sú að það ætti ekki að lækka gengið, heldur ætti að lækka gengið án þess að kalla það gengislækkun með því að breyta myntkörfunni. Þessi ræða lýsir mjög vel málflutningi stjórnarandstöðunnar hér í dag og er mjög gott dæmi um það en er auðvitað valin hér vegna þess að að mínu mati reis hún hæst af þeim ræðum sem

fluttar voru af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Herra forseti. Ég skal ekki fyrir mitt leyti lengja þessar umræður mjög. Það liggur hér fyrir skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar um aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum. Það liggur fyrir að við búum við ákveðinn vanda sem ekki er einfalt að feta sig fram úr bæði að því er varðar rekstur atvinnuvega, og uppgjör á vinnumarkaði, en forsenda þess að við náum árangri á því sviði er að við slökum ekki til í alhliða aðhaldsstefnu við núverandi aðstæður í efnahagsmálum.

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það var brugðið á það ráð að taka ekki matarhlé og hafa kvöldfund á þeirri forsendu að við mundum geta lokið umræðunum núna, en nú hafa tveir hv. þm. kvatt sér hljóðs. Forseti væntir þess að þeir taki tillit til þess hvað áliðið er orðið . . . (ÓÞG: En er ekki leyfi til þess að halda áfram umræðum?) Ég er ekki búinn að ljúka setningunni og ég ætla að ljúka henni með því að gefa hv. 5. þm. Reykv. orðið. Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil eiginlega óska eftir því að þessari umræðu verði hér með frestað ef það er ekki ætlunin að halda áfram. Forsrh. hefur gefið tilefni til að halda áfram. Ég hafði búið mig undir það að hætta og má segja hætti í miðri ræðu. Ég á mikið eftir af minni ræðu. Ég óska eftir því að þessari umræðu verði frestað og hún megi halda áfram sem fyrst, hvort sem það verður í nótt eða í annan tíma því að síðustu ummæli hæstv. forsrh. gefa mér tilefni til þess að lýsa hann enn þá einu sinni og nú úr ræðustól hér í Alþingi ósannindamann. Frummælandi leiðrétti hæstv. forsrh. með mildara máli en ég geri nú, þannig að við erum tveir ræðumenn í kvöld búnir að lýsa hann hvor á sinn hátt ósannindamann. Ég hef gert það áður. Og vegna ummæla sinna hefur hæstv. forsrh. gefið mér tilefni til að halda minni ræðu áfram, sem ég annars hefði ekki gert, þannig að ég verð að fara fram á það að fundinum verði frestað úr því að umræður geta nú ekki haldið áfram, að mér hefur skilist.

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Forseti hefur ítrekað tekið það fram að hann var ekki að takmarka umræður og forseti hefur líka greinilega lýst hugmyndum um að ljúka fundinum án þess að það verði tekið matarhlé og yrði kvöldfundur. Það hafa ekki komið neinar athugasemdir fram hér fyrr á fundinum við þessi sjónarmið. Þess vegna hugði forseti að það væri hægt að framkvæma fyrirætlanir hans á þennan veg.

Nú hefur komið upp sú staða að það er óskað eftir að fresta umræðum. Umræðum getur ekki verið frestað til morguns því að það væri mjög óeðlilegt að fresta utandagskrárumræðum til dags sem er ekki þingdagur (AG: Það má fresta þeim lengur.) og það er mjög óeðlilegt að fresta þeim lengur eða fram yfir helgi, utandagskrárumræðum, og algjörlega and

stætt þingvenju.

Spurningin er: Vilja menn halda fundi áfram hér í kvöld? Ef svo er þá er spurning hvort ekki sé rétt, þó að seint sé, að taka nú matarhlé. Eða treysta þeir sér, sem hafa beðið um orðið, að stilla máli sínu það mikið í hóf að það sé betra að taka þann kost að halda fundinum nú áfram?

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að þær umræður sem nú eiga sér stað séu um þingsköp. Ég er alveg reiðubúinn að ljúka þessum umræðum. Það var hæstv. forsrh. með sínum ósvífnu fullyrðingum, sem eiga sér engan stað, sem gaf mér tilefni til að koma hér upp aftur og óska eftir því að umræðurnar héldu áfram. M.a. sé ég ekki að fundurinn geti haldið áfram vegna þess að mín ræða er svar til manna sem ekki eru viðstaddir, sem ekki sjá sóma sinn í að virða það sem er annars skylda hvers þm. að vera viðstaddur nema hann hafi fjarvistarleyfi sem forseti tekur gilda. En þessir menn eru ekki viðstaddir. Af þeim ástæðum taldi ég betra að fara fram á það að fresta fundinum og ég sé enga ástæðu til að fundi sé ekki frestað ef á þarf að halda, mismunandi lengi, það getur verið ákvörðun forseta hve lengi, frekar en að óska eftir því að þeir þrír eða fjórir þm. sem ég mundi þá þurfa að svara yrðu sóttir. Mér finnst það heldur verra að senda eftir þeim. En ég legg það í hendur forseta að ákvarða fyrir mig um þessa frestunarbeiðni. Ef hann sér einhverja annmarka á að fresta umræðum lengur en þangað til í kvöld, þá get ég fallið frá beiðni minni. En orð mín sem svar við óforskömmugheitum hæstv. forsrh. standa.

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Forseti vill ítreka spurningu sína, sem honum virðist ekki hafa verið svarað, hvort þeir sem hafa beðið um orðið telja ráðlegt að ... (AG: Ég skal svara beinna ef forseti vilI fá það beinna frá mér að svo framarlega sem frekara tilefni gefst ekki, þá fell ég frá beiðni minni.) Já. Þá skulum við gera tilraun til að halda núna umræðum áfram. (AG: Þá sé ég ekki tilefni til að taka til máls.) Ef að? (AG: Ef ekki gefst frekara tilefni til.) Já.

Óll Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að níðast á tíma hv. þm. né annarra með því að taka til máls við þessa umræðu, en lokaorð hæstv. forsrh. voru með þeim hætti að ég fann mig knúinn til þess og gat í rauninni ekki setið undir þeim ummælum sem hann lét falla um fjarstaddan hv. þm. og ræðu hans og þá afgreiðslu sem hann í rauninni viðhafði og ég vil kalla útúrsnúning eða a.m.k. að hann lét liggja í láginni aðalatriði í því efni sem hann fjallaði um í ræðu hv. 7. þm. Reykn. Hann tók út úr það atriði að það að leggja á söluskatt í tolli, eins og réttilega kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn., þýddi skattheimtu af innfluttum matvælum. En það sem hæstv. forsrh. Íslands lét sér sæma að þegja um í þessu atriði var að

jafnframt þýddi sú skattheimtuaðferð algert gjaldleysi á allri innlendri þjónustu. Þetta atriði lét forsrh. sér sæma að þegja um. Það kann að vera að þessi baráttuaðferð hæstv. forsrh. sé ástæða fyrir því hvernig komið er í því meginhlutverki ríkisstjórnar Íslands, sem hún á að rækja, sem er að veita forustu. Hún á að veita forustu til þess að það sé hægt að ná samstöðu í þjóðfélaginu á sem flestum sviðum.

Ég kom fyrir fáum dögum í kjördæmi okkar hæstv. forsrh. austanvert, fyrir austan Þjórsá. Þar eru nú aðstæður sem bera mjög svipað yfirbragð og var raunar í því sama kjördæmi fyrir mörgum árum, laust fyrir 1970, þegar bryddaði á atvinnuleysi. Það hefur verið lítið gert úr því hér í umræðunum í dag í máli hv. stjórnarliða að atvinnuleysi eða hætta á atvinnuleysi sé með þjóðinni um þessar mundir. En sú var tíð árið 1967 að gjaldeyristekjur Íslendinga hröpuðu um 45%. Þá bar íslensk þjóð gæfu til að njóta forustu aðila sem höfðu til að bera hæfileika til að sameina þjóðina til þess stórátaks að komast út úr þeim örðugleikum á 2-3 árum. Þeir örðugleikar sem nú eru uppi hér í landi eru hjóm miðað við það sem þá var. En þá var ekki staðið svo að málum úr ræðustóli, þori ég að fullyrða, hér á hv. Alþingi að mestur hluti ræðutíma eða verulegur hluti í svarræðutíma hæstv. forsrh. fór til að snúa út úr. Hann fór á þeim tíma til að sameina aðila í þjóðfélaginu til stórátaks.

Það hefur nokkuð einkennt þessa umræðu í dag að fáeinir stjórnarliðar hafa tekið undir meginrök stjórnarandstöðunnar. Og það vilI svo til að einn hv. alþm., raunar einnig úr kjördæmi okkar hæstv. forsrh., raunar flokksbróðir hæstv. forsrh., næsti maður á lista Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi, hefur lagt fram á Alþingi, ekki lengra síðan en í gær, frv. til laga um kjarna þess vandamáls sem nú er við að etja í íslensku þjóðfélagi. Kjarni vandamálsins í þjóðfélaginu í dag eru áhrif lagasetningar frá því 1979 um lánskjaravísitöluna. Það er kjarni vandamálsins á árunum á undan, lengi í íslenskri sögu, hin eilífa víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Í dag er það önnur víxlhækkun. Það er víxlhækkun vaxta og verðlags. Eins og kom hér fram í ágætri ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir fáum mínútum eru það sömu lögmál sem verið er að fjalla um og það verður ekki fundin lausn á þessum vandamálum með öðru en það náist nokkurt heildarsamkomulag í þjóðfélaginu. Það var rétt í máli hæstv. forsrh. hér áðan. Samkomulag verður að nást. En leiðin til þess er ekki sú að vega að mönnum úr launsátri eins og því miður oft virðist vera háttur hæstv. forsrh.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og ég vona að þessi ræða verði ekki talin málþóf. Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar löngu umræðu

um efnahags- og kjaramál langar mig að þakka forseta fyrir þolinmæli hans við okkur þm. í dag. Mig langar að endingu að svara þótt í litlu sé orðum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. og málshefjandi hafði í sinni síðustu ræðu um vaxtastefnu stjórnarinnar og kenninguna sem hún er á byggð. Reyndar vék hv. síðasti ræðumaður einnig að þessu sama máli í sinni ræðu.

Þeim þótti það báðum og mörgum öðrum, sem eru gagnrýnir á það sem gert hefur verið í vaxtamálum hér á síðustu árum, að þetta byggist á grárri, þurri kennisetningu um jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lánamarkaði og styðjist ekki, eins og það er stundum orðað, við íslenskan veruleik. Ég get ekki á mér setið að minna þá sem þannig tala á það að e.t.v. hafa verið öflugustu talsmenn raunvaxta á Íslandi tveir þm. sem nú eru allir, þeir Magnús Kjartansson og Vilmundur Gylfason, sem báðir töluðu fyrir jákvæðum raunvöxtum út frá siðferðilegu sjónarmiði fremur en hagsýni eða hagfræði. Þeir spurðu: Hvernig er það verjandi að láta sparifé almennings og oft hinnar eldri kynslóðar brenna upp á báli verðbólgunnar? Af öllu því tjái og tundri sem óðaverðbólgunni fylgdi væri þetta verst. Þetta eru sannindi sem við eigum að hafa hugföst. Þetta er ekki þurr kennisetning. Þetta er ávöxtur á lífsins tré sem við eigum að nema okkur til skilnings. Þetta vil ég biðja hv. 4. þm. Norðurl. e. að hafa hugfast þegar hann hugleiðir vaxtastefnuna og minni hann á um leið að sennilega hefur nýsköpunin á fjármagnsmarkaðnum með öllum sínum göllum haft þá kosti í för með sér að gefa hinni eldri kynslóð og þeim sem vilja spara kost á að verja sinn geymda eyri þannig að hann verði græddur. Þetta vildi ég biðja hv. þm. að hafa hugfast þegar þeir gagnrýna vaxtastefnu þessarar stjórnar.

Steingr~mur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil bara fá að þakka fáeinum orðum þessa hjartnæmu ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti í lokin. En ég þakka honum einnig fyrir að vitna í þessa mætu sómamenn. Ég er þeim, var þeim og verð þeim hjartanlega sammála. Og ég bið hæstv. viðskrh. að ætla mér ekki að rugla saman annars vegar því að tryggð sé eðlileg ávöxtun fjár, að sparifé landsmanna geti staðið með eðlilegum hætti inni í bönkum án þess að rýrna, og hinu að hafa vaxtastigið jafnbrjálað og það er í dag. Á þessu tvennu er reginmunur sem ég veit að hæstv. viðskrh. gerir sér grein fyrir. Það er væntanlega keppikefli okkar allra að hafa hér sem eðlilegast ástand í þessum efnum og auðvitað er eðlilegt ástand einungis það að spariféð geti haldið verðgildi sínu, borið eðlilega, hóflega ávöxtun, raunvexti 2-4% eins og ég hygg að flestir séu sammála um að væri hið ákjósanlega ástand.

Efnisskrá.

Aðför (34. mál, aðfararstaður) 4167.

Aðför (231. mál, aðfarargerð á skrifstofu fógeta o.fl.) 4172.

Almannatryggingar (201. mál, örorkulífeyrisþegar á stofnunum.) 4140, 4167.

Barnalög (207. mál, sameiginleg forsjá barna o.fl.) 4121.

Drengskaparheit unnið 4066.

Fangelsi og fangavist (212. mál, heildarlög) 4145. Framleiðsla og sala á búvörum (228. mál, greiðslur fyrir sauðfjárafurðir) 4109.

Framtíðarhlutverk héraðsskólanna (199. mál) 4090. Frárennslis- og sorpmál (184. mál) 4208.

Haf- og fiskveiðasafn (159. mál) 4067. Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit (229. mál, heildarendurskoðun) 4103.

Innflutningur á gölluðum Subaru-bifreiðum (230. mál) 4204.

Innheimtustofnun sveitarfélaga (214. mál, meðlagsgreiðslur fanga) 4166.

Langtímaáætlun í samgöngumálum (183. mál) 4099. Lánskjör og ávöxtun sparifjár (205. mál) 4172. Meðferð opinberra mála (213. mál, fangelsismálastofnun) 4166.

Rafskautaverksmiðja við álverið í Straumsvík (219. mál) 4199.

Staða ullariðnaðarins (218. mál) 4193. Tekjustofnar sveitarfélaga (211. mál, útsvarsprósenta) 4169.

Umræður utan dagskrár 4227 (staðan í efnahags- og kjaramálum).

Úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu (226. mál) 4215.

Varamenn taka þingsæti — rannsókn kjörbréfa 4065.

Vesturlandsvegur (165. mál) 4076.

Mælendaskrá.

Forseti Sþ. Þorv. Garðar Kristjánsson 4065, 4066, 4102, 4199, 4273, 4343, 4344.

Forseti Nd. Jón Kristjánsson 4145. Forsrh. Þorsteinn Pálsson 4234, 4339.

Dómsmrh. Jón Sigurðsson 4121, 4133, 4139, 4145, 4158, 4165, 4166, 4205, 4207, 4275, 4345. Fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson 4254.

Heilbr.- og trmrh. Guðmundur Bjarnason 4103. Iðnrh. Friðrik Sophusson 4194, 4197, 4199, 4200, 4203, 4218, 4225.

Landbrh. Jón Helgason 4113. Samgrh. Matthías A. Mathiesen 4082. Sjútvrh. Halldór Ásgrímsson 4227. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir 4140, 4244.

Albert Guðmundsson 4071, 4089, 4322, 4343, 4344. Alexander Stefánsson 4087, 4097, 4140.

Árni Gunnarsson 4179.

Danfríður Skarphéðinsdóttir 4112. Eggert Haukdal 4172; 4204, 4206. Egill Jónsson 4109, 4116.

Eiður Guðnason 4067, 4073, 4076, 4088. Eyjólfur Konráð Jónsson 4081.

Friðjón Þórðarson 4080,4133.

Guðmundur Ágústsson 4099, 4103, 4151, 4164, 4208, 4214.

Guðmundur H. Garðarsson 4317. Guðmundur G. Þórarinsson 4072, 4286. Guðrún Agnarsdóttir 4071, 4107.

Guðrún Helgadóttir 4128. Halldór Blöndal 4222, 4304.

Hjörleifur Guttormsson 4068, 4074, 4094, 4193, 4196, 4198, 4199, 4202.

Hreggviður Jónsson 4070, 4211, 4312. Jón Sæmundur Sigurjónsson 4066. Jón Kristjánsson 4197.

Júlíus Sólnes 4293.

Karl Steinar Guðnason 4157, 4163, 4207. Kjartan Jóhannsson 4084.

Kristín Einarsdóttir 4124, 4137.

Kristín Halldórsdóttir 4096, 4138, 4169, 4211. Matthías Bjarnason 4185.

Málmfríður Sigurðardóttir 4143, 4302. Níels Árni Lund 4221.

Ólafur G. Einarsson 4167.

Óli Þ. Guðbjartsson 4090, 4097, 4344. PálmiJónsson 4222.

Ragnhildur Helgadóttir 4072, 4131, 4137. Salome Þorkelsdóttir 4108, 4156. Sigríður Lillý Baldursdóttir 4251.

Skúli Alexandersson 4083, 4112, 4119, 4199. Stefán Valgeirsson 4145, 4213, 4217, 4224, 4226, 4273.

Steingrímur J. Sigfússon 4102, 4187, 4219, 4227, 4332, 4346.

Valgerður Sverrisdóttir 4110, 4121, 4215, 4226. Þórður Skúlason 4209, 4282.

1