08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4367 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Þessi umræða snýst í raun um það hvort við Íslendingar eigum að framleiða þessa vöru sjálfir eða ekki og þar með okkar búvörur eða að taka að flytja inn þessar afurðir með öllum þeim sjúkdómum og öðru slíku sem þeim fylgir og þar með að leggja þessa atvinnugrein í rúst. Svo einfalt er þetta mál hvernig svo sem menn kunna að velta því upp.

Ég vil aðeins upplýsa það að verð á eggjum til neytenda er núna um 180 kr. í Finnlandi og 140 kr. í Danmörku, þar sem kílóið af korni er komið niður í 3–4 kr. Þumalputtareglan hefur verið sú í gegnum tíðina að heildsöluverð á eggjum sé tíu til ellefufalt fóðurverð. Í Bandaríkjunum kostar fóðrið um 34 kr. kg og verð til framleiðenda er þar á bilinu 30–40 kr. og þetta hlutfall mun vera nær alls staðar þar sem er borið niður.

Þá er rétt að upplýsa bæði hv. þm. og almenning um það atriði að meðferð á eggjum er þannig háttað að framleiðendur eða bændurnir sjálfir skila eggjunum frá sér í neytendaumbúðum. Þeir verðmerkja vöruna og þeir skila henni í verslunarinnréttingar sem þeir sjálfir eiga. Það verður engin rýrnun þar sem eggjabakkarnir eru ekki opnaðir á sölustað. Verslunin verður þannig fyrir engri rýrnun og því ófært að hún geti með nokkrum sanni lagt á vöruna nema að hámarki 10%.

Við söluskattsbreytinguna var ætlun nokkurra kaupmanna að hækka álagninguna um 20% sem þýddi að þeir ætluðu sér með hana upp í 40% og setja útsöluverðið þar með á 238–240 kr. eða reikna sig úr 144 kr. upp í 240 kr., nota sem sagt ringulreiðina við verðbreytingarnar til óraunhæfra hækkana á sama hátt og t.d. bakarar gerðu en náðist ekki fram. Framleiðendur komu í veg fyrir þetta með því að fara eftir því verði sem ríkisstjórnin auglýsti opinberlega. Núgildandi verð er einfaldlega fundið á þann máta að heildsöluverðið, sem er 144 kr., margfaldað með 22% álagningu að viðbættum 25% söluskatti gerir 220 kr. Allt hærra verð þýðir hærri álagningarprósentu kaupmanna sem fellur í hlut annarra en mín að verja.