09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4377 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er gott framlag í umfjöllun um þessi mál og vil ég þakka hv. þm. Eggert Haukdal fyrir það að hafa samið þetta frv. og lagt það hér fram þó að ég sé með ýmsa fyrirvara í sambandi við efni frv. En hvað um það. Það veitir ekki af að ræða þessi mál eins og þau horfa við í okkar þjóðfélagi í dag. Ekki síst vegna þess að þessi mál eru mjög viðkvæm og mistúlkuð á ýmsan hátt og það ekki minnst af þeim sem ættu síst að mistúlka þessi mál en ég mun koma að því síðar.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi nokkuð um vaxtamun í bankakerfinu. Auðvitað er nauðsynlegt að ræða það og athuga hvernig þetta er til komið, hugleiða það hvaða leiðir eru til að lækka þennan mun. En hann var með fullyrðingar, ef ég man rétt, um það að þessi munur væri langtum meiri en a.m.k. ég tel hann vera.

Áður en ég kem að því þá er ég hér með skýrslu frá Seðlabankanum fyrir framan mig sem segir nokkuð til um hvernig þetta hefur verið að undanförnu. Þessi skýrsla nær yfir nokkuð mörg ár, allt frá 1979 og fram til ársloka 1986.

Ég ætla ekki að fara að lesa alla þessa töflu en það er athyglisvert að munurinn hjá bönkunum er miklu minni en hjá sparisjóðunum. Ef ég tek hér ein fimm ár:

Árið 1982 er munurinn hjá ríkisbönkunum sagður 5,2%, en hjá sparisjóðunum 9,1%.

Árið 1983: Hjá ríkisbönkunum 6,6%, en hjá sparisjóðunum 11,4%.

Árið 1984: Hjá ríkisbönkunum 5,4%, en hjá sparisjóðunum 6,8%.

Árið 1985: Hjá ríkisbönkunum 4,4%, en hjá sparisjóðunum 9,2%.

Árið 1986, þ.e. síðasta árið sem er í þessari skýrslu, eru ríkisbankarnir með 6% mun en sparisjóðirnir með 8,8%.

Eftir þeim upplýsingum sem komu frá Tryggva Pálssyni, fjármálastjóra Landsbankans, í umræðum í Ríkisútvarpinu nýlega, þá er greiðsla ríkisbankanna til Seðlabankans rúmlega 2% af heildarinnlánum bankanna. Til þess að skýra þetta frekar vil ég segja það að eins og reglur eru nú þurfa bankarnir að binda í Seðlabankanum 13% af heildarinnlánum. Þessi binding er verðtryggð en vaxtalaus, þetta er ekki fært upp í hverjum mánuði, og þar af leiðir að bindingin í sjálfu sér í árslok getur af þessum ástæðum verið jafnvel 15%. Um síðustu áramót var greiðslan frá Búnaðarbankanum orðin meira en 13%, um 110 millj. kr. meira, en Búnaðarbankinn fékk ekki vexti af því fjármagni.

Það hefur um nokkurt skeið verið þannig að ríkið hefur látið bankana taka ríkisvíxla: Árið 1986 voru þeir skyldaðir til að taka 850 millj., 1987 1650 millj. og í ár er áætlað að þeir kaupi 1200 millj. Eða samtals 2 milljarða og 700 milljónir á þessum þremur árum. Þar að auki að kaupa af Framkvæmdasjóði 4%. Frjálsi markaðurinn hefur engar kvaðir, þ.e. þessi markaður sem virðist vera óskabarn þessarar ríkisstjórnar.

Nú var í septembermánuði, ef ég man rétt, farið að gefa almenningi kost á því að kaupa ríkisvíxla og um 20. nóv. sl. voru kjörin boðin þannig að ársávöxtun var orðin 39,6% miðað við 90 daga víxla, en 10 dögum seinna var þetta komið upp í 41,3%. Enn fremur var það ákveðið stuttu eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum að bankarnir mundu binda í Seðlabankanum eða kaupa ríkisvíxla sem samsvarar í kringum 10% af heildarinnlánum bankanna. Af þessu sem er á viðskiptareikningi Seðlabankans hefur ekki verið borgað nema 26% vextir. Þetta er skýringin á því dæmi sem kom fram hjá Tryggva Pálssyni um þennan mismun eða það sem Seðlabankinn tekur til sín og vaxtamunurinn þarf að vera það meiri hjá bönkunum.

En það er ekki öll sagan sögð. Hæstv. viðskrh. sagði hér sl. fimmtudag að það væri hræsni, það væri helber hræsni af formanni bankaráðs Búnaðarbankans að deila á þessa vexti þar sem hann sjálfur væri aðili samkvæmt lögum að því að ákveða vextina. Það er rétt að samkvæmt lögum eiga bankaráðin að ákveða vextina. En í hvaða stöðu setur ríkisstjórnin bankaráðin í þessum málum? Við skulum bara segja að Búnaðarbankinn hafi átt að eiga inni í þessum þremur formum um milljarð — það er ekki rétt tala en ég nota bara þessa tölu — en þegar búið var að ákveða það að setja ríkisvíxla til almennings og hækka vextina svona og ef bankinn átti ekki nema 800 millj. yrði hann að borga 48–49% miðað við desember en er nú orðið 51,6% miðað við árs ávöxtun. Og það þó það séu ekki nema tveir, þrír dagar.

Við berum ábyrgð á bönkunum og það eru ýmsar skyldur líka í lögum samkvæmt því. Bankarnir verða að eiga ákveðið eigið fé. Ég fullyrði það hér og nú, hæstv. bankamálaráðherra, að málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í sambandi við þessi mál gerir það að verkum að bankaráðin ráða ekki í þessu efni. Nema bankamálaráðherra ætlist til þess að það sé haldið á þessum málum þannig að við étum upp eigið fé. Það væri gaman að það kæmi fram. Og mig undrar það, miðað við þessa ræðu sem hæstv. ráðherra flutti sl. fimmtudag, að hann sem æðsti maður þessara stofnana skuli tala þannig því ég man ekki til þess að bankamálaráðherra hafi fyrr eða síðar rætt þessi mál á þann veg sem hann hefur gert raunar hvað eftir annað.

Það var fleira sem hæstv. ráðherra sagði í þessari ræðu, en því miður var ég ekki hér inni í salnum, ég var niðri í kaffistofu. Hæstv. ráðherra var bent á það hvort ekki væri rétt að kalla í mig, það hef ég séð í ræðu hans nú, en hann taldi það óþarfa. Hann hefur ekki kært sig um að ég væri til staðar til að svara. Hann talaði um að það væri skrýtinn málflutningur hjá formanni bankaráðs Búnaðarbankans að tala um launajafnrétti og hann fullyrti að laun væru einna hæst í Búnaðarbankanum eða í bönkunum. Hann talaði um ríkisbankana og eftir því sem Staksteinar Morgunblaðsins segja telur hann Útvegsbankann líka einn af þeim. (Gripið fram í: Það er ekkert að marka Staksteina.) Ég hef ekki lesið ræðuna alla þannig að ég skal ekkert um það segja.

Ég veit náttúrlega vel hver launakjör eru í landinu. Sumt af því er trúnaðarmál og ég mun ekki fara með það hér. Það er hins vegar ekki trúnaðarmál sem birtist í opinberum blöðum. Það er ekki trúnaðarmál. Í Þjóðviljanum fyrir helgina er sagt að laun Harðar Sigurgestssonar, forstjóra Eimskipafélagsins, séu 420 000 kr., forstjóra Ísals, Ragnars Halldórssonar 480 000 kr., laun Vals Arnþórssonar, stjórnarformanns SÍS, 380 000 kr., Sigurðar Helgasonar hjá Flugleiðum 360 000 kr., Jónasar Haralz bankastjóra 300 000 kr., Halldórs Jónatanssonar hjá Landsvirkjun 270 000 kr. og Höskuldar Jónssonar hjá Áfengisverslun ríkisins 260 000 kr. Ég hélt raunar að Höskuldur Jónsson væri einn af þeim sem væru hjá hinu opinbera.

Grunnlaun bankastjóra í dag eru rúmlega 215 000 kr., þeir hafa líka fyrir að sitja bankaráðsfundi. Þau eru ákveðin af bankamálaráðherra og þannig hefur það verið síðan ég kom í bankaráð. Ég gæti, ef ég vildi brjóta trúnað, talið upp yfir 20 menn, meira að segja menn sem eru í fyrirtækjum sem berjast nú í bökkum, sem hafa, ef það væri virt allt saman, töluvert meira en það sem talað er um að Höskuldur Jónsson hafi.

Þeir sem stjórna ríkisbönkunum og bera ábyrgð á þeirra launum hljóta að gera kröfu til þessara manna og líka þess að þeir hafi svipuð laun og sambærilegir menn hafa í þjóðfélaginu, enda mundi þeim ekki haldast á mönnum með öðrum hætti eða það er a.m.k. hætt við því miðað við það sem hægt væri að upplýsa að er í einkageiranum. Mér dettur ekki í hug að trúa því þó að Höskuldur Jónsson sé einn af bestu starfsmönnum í ríkisgeiranum að það séu ekki ýmsir aðrir sem hafa svipuð laun þar. Ég trúi því ekki. Og raunar hef ég kannski einhverjar hugmyndir um það.

Nei, ég hef alla tíð barist á móti þessu misrétti og ég mun gera það áfram. En það verður ekki gert með því að borga bankastjórum ríkisbankanna miklu minna en menn í sambærilegum stöðum hafa og ég tilgreini það ekki nánar. Það er annað mál.

Þá verð ég að koma svolítið betur inn á vaxtamálin. Það virðist vera sem ýmsir af ráðamönnum þjóðfélagsins trúi því, það sé bara trú, að það eigi við í þessu þjóðfélagi að vextirnir séu frjálsir. Það hafa þeir lært í útlöndum, t.d. hagfræðingarnir, þó að þeir komi sér ekki saman um það frekar en annað. Þeir eru ekki allir á einu máli um þetta en það gerist þótt reynslan sýni okkur að þetta á ekki við í okkar þjóðfélagi. Sumir af þeim sem nú eru komnir í vandræði tóku mark á yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar þegar hún settist á sína valdastóla. Ég man ekki betur, hæstv. bankamálaráðherra, en að þar væri efst á blaði að lækka verðbólguna, að lækka vexti. Ólafslögum er kennt um hvernig vextirnir eru komnir nú. Hvað sagði fyrrv. bankamálaráðherra hér í ræðustól á fimmtudag, og ég þekki vel þá sögu. Þegar verið var að ræða um þessi mál var því haldið fram af Ólafi Jóhannessyni og mörgum fleirum að það gengi ekki að hafa neikvæða vexti en raunvextir ættu ekki að vera hærri en 2–3%. Þetta staðfesti hv. 1. þm. Vestf., fyrrv. bankamálaráðherra, á fimmtudaginn var.

Nú er sjálfsagt hægt að deila um það endalaust hvað raunvextir eru og hvernig á þessu stendur, en þar eru fyrst og fremst tvær ástæður. Ég er hér með skýrslu frá Seðlabankanum sem er dagsett á Þorláksdag sl. þar sem ekkert er verið að hika við að segja hvað þarna liggur til grundvallar. Að vísu er sagt að það sé ótti við og mat manna á því að verðbólgan sé að vaxa. Þeir segja það. Þeir kenna um „gráa markaðinum“ svokallaða og þeir kenna um samkeppni ríkisins á lánamarkaðinum. Hverjir stjórna því? Eru það einhverjir menn úti í bæ? Eru það bankarnir?

Nei, það náttúrlega þýðir ekkert fyrir hvorki hæstv. bankamálaráðherra eða aðra að bera það á borð fyrir þjóðina að það séu einhverjir vondir menn í bankaráðunum sem hafa staðið fyrir þessari vaxtahækkun. Og ef hann vill skal ég ræða þessi mál betur hér eða annars staðar. Þó ég sé ekki hagfræðingur er ég búinn að vasast í ýmsu og hef gengið í skóla lífsins eins og aðrir og sem betur fer hef ég ekki lært hagfræðina eins og margir af þessum hagfræðingum okkar virðast hafa lært og eru fastir í þeim kennisetningum.

Hæstv. ráðherra segir eftir því sem Staksteinar segja — eins og ég sagði fékk ég ekki ræðuna fyrr en um hálftvö þannig að ég gat ekki lesið hana — að það sé ekki hægt að hrópa vextina niður. Ég vil segja honum það og öðrum hæstv. ráðherrum og stjórnarþm. að ef vextirnir verða svona áfram verða þeir hrópaðir niður. Það er óumflýjanlegt. Þá verða þeir hrópaðir niður þegar atvinnufyrirtækin stöðvast í stórum stíl, og eru farin að stöðvast, út af óhæfilegum vaxtakjörum og þegar atvinnuleysið fer að aukast hér og þar á landinu og einstaklingar verða komnir í þrot vegna þess að þeir tóku mark á ríkisstjórninni um það að verðbólgan mundi minnka, vextirnir mundu lækka, þeir fóru í ýmsa fjárfestingu. Aðrir voru svo lánsamir að þeir biðu með það, sáu til, því að þeir vissu að ekki var alveg að treysta á að aðgerðirnar færu eftir orðum, en þeir sem biðu eru líka hættir við að fara út í atvinnurekstur vegna þess að þeir sjá það að þeir eru að fara bara út í fen, út í ófæru, menn sem hafa kunnáttu og markað fyrir útflutningsvörur. Þannig er komið. Þannig blasir málið við. Svo eru sumir úr stjórnarliðinu jafnvel að hóta launamönnum, ef launin hækki nema um það sem þeir leggja til verði gengisfelling.

Ég var að hugsa um að lesa töluvert upp úr þessari skýrslu sem ég hef undir höndum og það kann að vera, ef ég sé ástæðu til síðar í þessum umræðum, að ég geri það. Þar kemur ýmislegt fram sem sýnir hvernig þróunin hefur verið, hvert stefnir. Í þessari umræðu ætla ég þó, herra forseti, að láta þetta duga en mun sem sagt, ef ég sé ástæðu til, lesa upp úr skýrslu Seðlabankans. Ég tel að það sé ekki trúnaðarbrot þó að ég hafi fengið hana sem bankaráðsformaður vegna þess að á þessari skýrslu er ekki tekið fram að hún sé trúnaðarmál.