27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

Stefnuræða forsætisráðherra

Ragnar Arnalds:

Herra forseti, góðir Íslendingar. Í seinustu kosningum tók Sjálfstfl. sér kjörorðið „Á réttri leið!" Hver er leið Þorsteins Pálssonar? Í ræðu sinni áðan fór hann fögrum orðum um fjölskyldustefnu stjórnar sinnar og umhyggju hennar fyrir börnum. En hverjar eru gerðirnar? Eitt fyrsta verk þessarar stjórnar var eins og allir þekkja að leggja 10% söluskatt á allan mat nema mjólkurvörur, kjöt, fisk og egg. Þetta hafa margir nefnt í umræðunum í kvöld og það er sannarlega engin furða. Þetta eru þungar álögur á flestar fjölskyldur í landinu og því þyngri sem tekjurnar eru lægri og börnin fleiri. Nú skyldu menn halda að nóg væri að gert. En þetta reynist aðeins byrjunin. Bráðum á líka að leggja 10% skatt á mjólkina, kjötið og fiskinn, þessar fáu vörur sem skildar voru eftir í sumar. Og þó er versta skvettan eftir sem allir hafa ekki áttað sig á. Um áramótin á að hækka matarskatta í þriðja sinn á hálfu ári og þá um mörg prósentustig yfir alla línuna.

Þorsteinn Pálsson talaði fjálglega hér áðan um byggðastefnu þessarar stjórnar. Það er eitt megineinkenni fjárlagafrv. að þar fá sveitarfélögin hvert kjaftshöggið af öðru. Landbúnaður og sjávarútvegur verða fyrir þungum búsifjum, annars vegar með minnkandi framlögum, hins vegar með stórauknum sköttum. Frumvarpið felur í sér enn forhertari andbyggðastefnu en sjá mátti hjá seinustu ríkisstjórn og er þá mikið sagt.

Og hvað um hin fögru orð sem Þorsteinn Pálsson viðhafði áðan um íslenska menningu? Var ekki holur hljómur í þeim orðum þegar haft er í huga að ráðgert er að leggja söluskatt á hvers konar menningarstarfsemi í landinu, tónleikahald, leiklist, söng og danslist?

Að sjálfsögðu vantar fleiri krónur í kassann. Það þekkjum við öll. Viðskilnaður seinustu stjórnar í fjármálum var með miklum endemum, og því verður vissulega að afla nýrra tekna. Hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson spurði hér áðan um afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna. Ég svara: Það voru aðrar skárri leiðir til. Þúsundir fyrirtækja skila miklum hagnaði og borga þó engan tekjuskatt. Skattur á stóreignir er mjög léttvægur hér á landi og vaxtatekjur skattfrjálsar. Hreingerning í skattkerfinu eins og hæstv. fjmrh. talaði um hér áðan er auðvitað höfuðnauðsyn, en hann byrjar á öfugum enda. Það er ekkert annað en lélegur brandari þegar reynt er að réttlæta þessa fráleitu skattlagningu á matvörur og menningu með því að verið sé að draga úr skattsvikum. Stórfelld fjölgun þeirra sem standa eiga skil á söluskatti hlýtur að auka skattsvik. Aðeins forhertasta hægri stjórn leyfir sér að skattleggja matvörur og menningu og skera niður framlög til íþróttamála, tónlistarfræðslu, leikskóla og dagheimila, svo að nokkur dæmi séu nefnd, á sama tíma og ekki er hreyft við tekjuhæstu aðilum efnahagslífsins sem áfram sleppa með sáralitla skatta.

Vafalaust væru býsna margir tilbúnir til fjárhagslegra fórna ef þeir tryðu því að þessar aðgerðir stjórnarinnar væru rétta leiðin til að ná niður verðbólgu og auka festu í efnahagslífi. Er þetta leiðin að því marki? Ekkert er frekar til þess fallið að ýta undir verðbólgu en einmitt skattur á matvörur. Hann hefur keðjuverkandi áhrif til hins verra út um allt hagkerfið. Vísitölur hækka, launakröfur hækka og sala á búvörum minnkar. Síðan bætist það við að stjórnin er einkar iðin við að hækka vexti sem bæði veldur stórauknum útgjöldum fyrir ríkissjóð og örvar verðbólgu. Enda hefur verðbólgan vaxið jafnt og þétt í tíð þessarar stjórnar. Miðað við tólf mánaða útreikning var verðbólgan 16% þegar kosningar fóru fram, verður 24% í næsta mánuði og stefnir hraðbyri yfir 30% eftir áramót.

Í tíð stjórnar Gunnars Thoroddsens mældu sumir ársverðbólgu út frá mánaðarlegum verðbólguhraða til að geta fengið fram sem allra hæstar tölur. Með sams konar reikningsaðferð verður verðbólgan í nóvember komin yfir 60%. Slíkar reikningskúnstir eru að vísu alltaf umdeilanlegar. En hitt er óumdeilt að verðbólgan æðir upp á við með vaxandi hraða og ýmsir stjórnarsinnar í hópi vinnuveitenda eru farnir að boða stórfellda gengisfellingu á næsta ári. Þó er eins víst að stjórnin bíði með að fella gengið þar til hún sér færi á að kenna öðrum um og vafalaust verður reynt eins og oft áður að skella skuldinni á samtök launamanna.

Manna á meðal er mikið um það rætt hversu lengi þessi stjórn muni endast. Stjórnin þykir þreytt og þó er hún aðeins sextán vikna gömul. Sumir spá því að hún springi bráðlega. Ekki veit ég hvort það er rétt. En hitt vita allir að stjórnarmyndunin gekk ekki þrautalaust. Eftir að samkomulag tókst um málefnasamning gerðust þau fádæmi að verðandi ráðherrar voru í tvær vikur að takast á um stólana og voru því óneitanlega nokkuð lúnir er þeir loksins komust í þá. Reyndar tókst ekki að berja saman þessa stjórn fyrr en ráðherrum hafði verið fjölgað í ellefu og varð þá að grípa til þess úrræðis að mjókka stólana þeirra og koma þeim fyrir á nýjum stað hér beint fyrir framan ræðupúltið — sem út af fyrir sig er ósköp hentugt þegar rekja þarf úr þeim garnirnar. — Eftir að stólaúthlutun lauk hófst harður slagur um stofnanir og bitlinga. Sjálfstfl. og framsókn slógust um það af óvenjulegri heift hvor fengi dánarbú Útvegsbankans í sinn hlut. Þar var ekki spurt um hagsmuni lands og þjóðar, aðeins um þrengstu flokkshagsmuni. Á meðan minnti bankaráðherra Alþfl. helst á hlutlausan dómara í skylmingakeppni í stað þess að taka af skarið og segja sem er að þessi banki er eign okkar allra, þjóðareign, og á að vera það áfram. Hins vegar mætti sameina ríkisbanka, tvo eða fleiri.

Í ræðu sinni hér í kvöld var Þorsteinn Pálsson aftur og aftur að boða að hleypa þyrfti útlendingum í íslenskt atvinnulíf. Er það gæfuleg leið? Samstarf við útlend fyrirtæki getur verið nauðsynlegt og leiðir stundum til minnihlutaaðildar að íslenskum rekstri. En sé dyrum almennt lokið upp fyrir meirihlutaaðild útlendinga er sannarlega farið inn á hættulega braut.

Þess gætir í auknum mæli að menn virðast ekki skilja gildi þess að þjóðin verndi sjálfstæði sitt. Gleyma því hvílíkur styrkur það hefur verið fyrir íslenskt atvinnulíf að landið er sjálfstæð efnahagsleg eining. Nú heyrist æ oftar fullyrt að best væri fyrir okkur að fórna sjálfstæðu gengi krónunnar og hengja mynt okkar aftan í dollara eða pund.

Einu sinni var erfitt að finna Íslending sem mælti með varanlegri erlendri hersetu. Seinna samþykktu menn hersetu til bráðabirgða. Nú er aðstaða hersins í landinu aukin og bætt jafnt og þétt þótt öllum ætti að vera ljóst að herinn er hér ekki til að verja Ísland fyrir aðsteðjandi háska heldur kallar hann háskann yfir landið og dregur okkur inn í hugsanleg átök. Skref fyrir skref og ár frá ári hefur bandaríski herinn verið að breiða hér úr sér. Og eitthvað hliðstætt getur gerst í íslensku atvinnulífi ef útlendingar fá þar takmarkalítið svigrúm. Stóraukin eignaraðild útlendinga í atvinnurekstri væri auk þess augljóst skref í þá átt að undirbúa inngöngu Íslands í nýtt stórríki Evrópu sem nú er að fæðast.

Alþb. hefur ávallt lagt höfuðáherslu á sjálfstæðismál Íslendinga. Við höfum lagst af alefli gegn erlendri hersetu, erlendri stóriðju og meirihlutaeign útlendinga í íslensku atvinnulífi. Þessi mál hafa markað flokki okkar sérstöðu um árabil meðan aðrir flokkar hafa verið þverklofnir í afstöðu sinni.

Í nokkur ár hefur hægri bylgja gengið yfir Vesturlönd, rétt eins og kreppulægð úr vestri. Hægri flokkar hafa víðast ráðið ferðinni en félagsleg viðhorf látið undan síga. Einkenni þessarar hægri bylgju, sem oft er kennd við frjálshyggju, eru hávaxtastefna, stjórnleysi í ríkisfjármalum, sala ríkisfyrirtækja og forustuleysi í atvinnumálum. Reagan Bandaríkjaforseti hefur staðið fyrir miklum fjárlagahalla þar vestra og stefna Thatcher í Bretlandi hefur stóraukið atvinnuleysi þar í landi. Auðvitað hefur Ísland ekki losnað við áhrif þessarar hægri bylgju. Sjálfstæðismenn fóru strax að dæmi Reagans þegar þeir fengu færi á og stóðu fyrir gífurlegum hallarekstri ríkissjóðs ár eftir ár. Frjálshyggjan varð tískubóla um skeið og hún hefur líka togað til sín flokka sem verið hafa nær miðju. Ákafi Alþfl. og Framsfl. í að selja einkaaðilum ríkisbanka er einmitt dæmi þess hvernig hægri sinnaðir tískustraumar hafa leikið flokka sem eiga þó að heita félagslega sinnaðir.

Sem betur fer sjást þess mörg merki að frjálshyggjan sé að ganga sér til húðar. Almennt er viðurkennt að fjármálastjórn Reagans sé gjaldþrota. Kauphallarhrunið í New York nú á dögunum reynist tímabær aðvörun til Vesturlandabúa að láta ekki hægri öflin teyma sig öllu lengra út í fenið.

Hér á Íslandi sjá menn betur og betur að þjóðarskútan er ekki á réttri leið. Þúsundir Íslendinga, sem greiddu stjórnarflokkunum atkvæði í kosningunum í vor, gera sér grein fyrir því að íhaldsstjórnir færa þjóðina á villigötur.

Herra forseti. Ísland þarf nýja stjórnarstefnu þar sem félagsleg viðhorf sitja í öndvegi. Lífskjör þarf að jafna. Mat og menningu á ekki að skattleggja. Við þurfum raunverulega byggðastefnu. Á öllum sviðum verður að vernda sjálfstæði landsins. Þar vísar Alþb. veginn. Ég þakka fyrir.