11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

239. mál, löggjöf um auglýsingar

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Á síðasta þingi, 109. þingi, flutti ég þáltill. um auglýsingalöggjöf. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd níu þm. til að undirbúa í samráði við helstu hagsmunaaðila heildarlöggjöf um auglýsingar. Við vinnu sína skal nefndin taka sérstaklega mið af þeim miklu breytingum sem orðið hafa eða standa fyrir dyrum á sviði fjölmiðlunar. Jafnframt skal nefndin hafa að leiðarljósi að tryggja sem best gæði auglýsinga og eðlilega og nauðsynlega neytendavernd, þar með talið að vernda börn og unglinga fyrir innrætandi auglýsingum. Nefndin skal hraða störfum og skila áliti sínu í frumvarpsformi til Alþingis eigi síðar en í lok febrúar 1987.“

Niðurstaða þessa máls á síðasta þingi var sú að samþykkt var 18. mars 1987 þáltill. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að undirbúa heildarlöggjöf um auglýsingar.“

Nú hefur nokkuð verið rætt um þetta mál að undanförnu í fjölmiðlum og víðar úti í þjóðfélaginu, sem eðlilegt er, en litlar fréttir hef ég haft eða litlar spurnir hef ég haft af því frá hæstv. ríkisstjórn hvað málinu líði á þeim vígstöðum. Þar sem hæstv. ríkisstjórn var falið sérstakt verkefni á þessu sviði hef ég leyft mér að spyrja viðskrh. um undirbúning löggjafar um auglýsingar og fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður framkvæmd þáltill. um auglýsingalöggjöf sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987?

2. Er þess að vænta að heildarlöggjöf um auglýsingar verði sett á yfirstandandi þingi?

3. Hvernig hyggst ráðherrann tryggja að nauðsynleg neytendavernd, þar með talið að vernda börn og unglinga fyrir innrætandi auglýsingum, verði hluti af væntanlegri löggjöf?"