27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

Stefnuræða forsætisráðherra

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Hv. síðasti ræðumaður talaði um það að Borgaraflokkurinn ætlaði að veita ríkisstjórninni málefnalega stjórnarandstöðu. Mér finnst að hann ætti þá að hefja málflutning sinn á öðru en órökstuddum fullyrðingum eins og hann gerði hér í þessari ræðu sinni og mér virtist fátt standa upp úr þeim málflutningi sem hann hafði hér uppi.

Þegar úrslit alþingiskosninga í vor lágu fyrir var ljóst að ekki yrði auðvelt að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn sem setið hafði við völd hafði misst þingmeirihluta sinn vegna þess að Sjálfstfl. klofnaði. Undir forustu formanns Framsfl. tókst fyrri ríkisstjórn að ná tökum á verðbólgunni, draga úr skuldasöfnun erlendis, efla atvinnulífið og auka kaupmáttinn. Í kosningabaráttunni lögðum við framsóknarmenn áherslu á að þennan árangur yrði að varðveita.

Langar stjórnarmyndunarviðræður, þar sem flest var reynt til að ganga fram hjá Framsfl. við myndun ríkisstjórnar, leiddu til þess að nú ríkir ekki sá stöðugleiki í efnahagsmálum sem var undir forustu Steingríms Hermannssonar. Innanflokksátök, forustuleysi og óraunsæ kröfugerðarpólitík núverandi stjórnarandstöðuflokka leiddi að lokum til þess að forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl. sáu að ekki var hægt að ganga fram hjá Framsfl. við myndun ríkisstjórnar, þeim flokki sem hefur verið og mun verða kjölfestan í íslenskum stjórnmálum.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er samstarfssamningur þriggja og um margt ólíkra stjórnmálaflokka. Samkvæmt þeim samningi munum við framsóknarmenn eins og ætíð vinna af fullri ábyrgð og heilindum, enda er markmið stjórnarsamstarfsins að auka jafnrétti, vinna að valddreifingu og félagslegum umbótum og treysta atvinnuöryggi allra landsmanna. Fyrstu verkefni þessarar ríkisstjórnar hafa verið á sviði efnahagsmála, enda e.t.v. aldrei mikilvægara en nú að ná aftur því jafnvægi og þeim stöðugleika sem var í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Hallalaus ríkissjóður, stöðugt gengi og minni þensla á lánamarkaði gegna mikilvægu hlutverki í því sambandi. En þó reynt sé að halda ríkisútgjöldum í skefjum verður einnig að gæta þess að slíkt bitni ekki á þeirri félagslegu uppbyggingu og þjónustu sem við ætlumst til að íslenskt þjóðfélag veiti þegnum sínum. Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á þessi markmið. Auk þess er sérstök áhersla lögð á byggðastefnu og samgöngumál.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 eru framlög til menntamála, félagsmála og heilbrigðismála hækkuð hlutfallslega meira en almenn hækkun ríkisútgjalda. Þar hefur því ekki verið skorið niður. Og vegna síendurtekinna fullyrðinga um niðurskurð á opinberum framkvæmdum er rétt að benda á stóraukin framlög til vegamála og flugmála, sem hækka langt umfram verðlagsforsendur frv.

Hv. fulltrúi Kvennalistans sagði í umræðunum hér áðan að stórfelldur niðurskurður hefði verið á framlögum til hafnamála og hv. síðasti ræðumaður tók það einnig upp. Á fjárlögum síðasta árs voru framlög til hafnamála 74 millj. kr. Í fjárlagafrv. núverandi ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að verja til hafnaframkvæmda 250 millj. kr. Þetta er niðurskurðurinn sem þessir hv. þm. eru að tala um. Ég held að þeir ættu að kynna sér betur staðreyndir málanna.

Eitt af mikilvægustu verkefnum Alþingis á næstu vikum verður tvímælalaust mótun fiskveiðistefnunnar. Sjútvrh. hefur á undanförnum árum stjórnað þessum málaflokki af ábyrgð og festu og flestir hafa viðurkennt að honum hafi farist það erfiða verk einstaklega vel úr hendi. Þessi stefnumótun varðar hag og afkomu einstaklinga, fyrirtækja og þjóðfélagsins alls. Því er mikilvægt að um hana náist sem víðtækust samstaða. Ég tel farsælast að fylgja í aðalatriðum þeirri stefnu sem gilt hefur. Ég vara við róttækum breytingum sem leitt geta til mikilla átaka í þjóðfélaginu milli stétta, milli starfsgreina og milli byggðarlaga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í landbúnaði hefur markvisst verið stefnt að því að komast út úr þeim erfiðleikum sem offramleiðsla og breyttar markaðsaðstæður hafa valdið hér sem og erlendis. Nauðsynlegt er að sá grundvöllur, sem lagður var með búvörulögunum og samningum um afurðamagn, verði notaður sem best á aðlögunartímanum til nýrrar uppbyggingar og framfara. Honum má ekki raska með fljótfærnislegum breytingum og skyndiupphlaupum. Það er verið að vinna að mikilvægum en afar viðkvæmum skipulagsbreytingum í íslenskum landbúnaði. Til þess þarf bæði tíma og fjármuni svo afleiðingin verði ekki fjárhagslegt hrun og stórkostleg byggðaröskun.

Seinustu daga hefur nokkur skjálfti ríkt í þingsölum vegna fyrirhugaðra breytinga á húsnæðislöggjöfinni. Núverandi löggjöf gerir ráð fyrir því að allir eigi rétt á húsnæðisláni með niðurgreiddum vöxtum hvernig svo sem högum þeirra er háttað. Það gengur ekki. Sá sem selur stórt, dýrt og skuldlaust einbýlishús fyrir t.d. 8 millj. kr., kaupir minni íbúð, e.t.v. á 4 millj., á þá 4 millj. enn í afgang. Sá hinn sami á rétt á láni með niðurgreiddum vöxtum frá ríkinu sem hann getur ráðstafað ásamt eftirstöðvunum til kaupa á skuldabréfum með háum vöxtum. Þessu verður að breyta. Það sjá allir. Sú skylda hvílir hins vegar á ráðherra húsnæðismála og Alþingi að setja lög og almennar reglur um hvernig með þessi mál skuli fara þannig að ekki verði komið á fót pólitísku skömmtunarkerfi hjá Húsnæðisstofnun. Jafnframt þarf ráðherrann að tryggja að fyrirhugaðar breytingar raski ekki samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Um þetta snýst málið og það er skylda þm. og ráðherra að finna skynsamlega lausn í stað þess að eyða tíma í karp og stóryrði.

Virðulegi forseti. Framsfl. fer nú í fyrsta sinn með heilbrigðis- og tryggingamál síðan þau voru sett undir eitt ráðuneyti árið 1970. Ljóst er að í þessum málaflokki er að ýmsu að hyggja. Heilbr.- og trmrn. fer með rúm 40% af fjárlögum. Menntmrn., sem er næststærst, fer með 17%. Því er ekki óeðlilegt að litið sé til heilbrigðis- og tryggingamála þegar rætt er um aukið aðhald í ríkisbúskapnum. Sé hins vegar betur að gáð kemur í ljós að verulegur hluti þessara fjármuna er bundinn í svo föstum farvegi að varla verður við hróflað. Þar á ég við lífeyristryggingarnar, þ.e. elli- og örorkubætur. Í sjúkratryggingum og rekstri einstakra stofnana má hins vegar leita leiða til aðhalds og sparnaðar. Ég legg þó áherslu á að sú þjónusta sem nú er veitt verður ekki skert nema það sé liður í aukinni hagræðingu eða skynsamlegri verkaskiptingu milli stofnana. Áfram verður unnið að því að flytja sjúkrahús og vistheimili á svokölluð föst fjárlög til að auðvelda fjárhagslegt eftirlit. Í heilbrigðisþjónustunni hafa einstakir kostnaðarliðir hækkað meira en aðrir, svo sem lyfjakostnaður og sérfræðiþjónusta, og eru þau mál nú í athugun. Fyrirhugað er að endurskoða almannatryggingalöggjöfina með það að markmiði að gera hana einfaldari og auðskiljanlegri og til að jafna ýmiss konar misræmi sem nú er að finna í þeirri löggjöf. Tengsl hennar við önnur skyld lög, svo sem um málefni fatlaðra og aldraðra, þarf að athuga. Að lokinni endurskoðun laganna verður að huga að skipulagi Tryggingastofnunarinnar sjálfrar. Nefnd sem fær þetta verkefni er nú að hefja störf og vænti ég þess að hún geti skilað frá sér áliti síðari hluta næsta árs.

Lög um málefni aldraðra renna út í árslok 1988 en því fer víðs fjarri að öll þau verkefni sem sú löggjöf tekur til séu nú leyst. Þvert á móti tel ég eitt allra brýnasta viðfangsefni á sviði heilbrigðismála í dag vera frekari uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og sjúkradeildum fyrir aldraða. Þetta heyri ég hvar sem ég fer og þó að sjálfsagt sé áhugaverðara fyrir heilbrigðisstéttir að takast á við ýmis sérhæfðari verkefni fremur en umsjón með öldruðum, þá virðist mér þó sem allir viðurkenni að hér sé um brýnt úrlausnarverkefni að ræða. Því er nú hafin vinna við að endurskoða þessa löggjöf og hugmynd mín er að setja fram fimm ára áætlun um uppbyggingu húsnæðis og þjónustu í þessum málaflokki. Það verður að vinna í nánu samráði við fulltrúa sveitarfélaganna vegna þess að ráð er fyrir gert að sveitarfélögin taki á sig hluta af þessari þjónustu.

Þá langar mig að koma enn að einu sem oft hefur komið upp í umræðum stjórnarandstæðinga hér á undan. Þeir tala stöðugt um niðurskurð á framlögum til dagvistarmála, tónlistarskóla, félagsheimila og fleiri þátta, en þeir viðurkenna ekki þá staðreynd að þar er verið að tala um tilfærslu verkefna sem verður að eiga sér stað í samkomulagi og samráði við sveitarfélögin. Þetta vita auðvitað þessir hv. þm. Um þetta er búið að fjalla oft á undanförnum árum og lengi og það hefur verið gert í samráði og viðræðum við sveitarfélögin.

Hvað varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru uppi hugmyndir um að ríkið byggi og reki sjúkrahúsin en sveitarfélögin taki að sér heilsugæsluna. Þetta eru þeir málaflokkar sem snúa að heilbrrn. varðandi margumrædda verkaskiptingu. Hér er um flókið og vandasamt verkefni að ræða og verður undirbúningsvinna með fulltrúum sveitarfélaganna að hefjast hið fyrsta ef samkomulag á að takast fyrir næstu fjárlagagerð.

Sá sjúkdómur sem í dag veldur heilbrigðisyfirvöldum um allan heim mestum áhyggjum er alnæmi, eða eyðni. Áhyggjurnar stafa fyrst og fremst af því að engin lækning er enn þekkt. Fræðsla og upplýsingar til almennings um smitleiðir og varnir er því eina aðferðin sem yfirvöld geta beitt í þessu sambandi. Auk upplýsinga- og fræðslustarfsemi er verið að taka í notkun mjög fullkomna veirurannsóknastöð til að auðvelda eftirlit og auka rannsóknir á þessu sviði. Er það í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans um að nýta nýjustu tækni og framfarir í vísindum til að efla sérhæfðar lækningar.

Í stjórnarsáttmálanum er einnig gert ráð fyrir að auka forvarnir, heilsuvernd og sjúkdómaleit til að stemma stigu við sjúkdómum og slysum, svo og fræðslustarf um ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu. Þetta allt tel ég mjög mikilvægt og að því verður unnið á vegum heilbrrn. að samræma aðgerðir þeirra sem í dag vinna margvísleg forvarnarstörf, m.a. með því að setja fram neyslu- og manneldisstefnu og auka ráðgjöf um heilbrigða lifnaðarhætti.

Ég hef á undanförnum vikum heimsótt margar heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, og ég fullyrði að við búum við eitthvert fullkomnasta heilbrigðiskerfi í heimi og höfum á að skipa mjög vel menntuðu og hæfu starfsfólki til að sinna þessari þjónustu.

Að lokum vil ég leggja áherslu á þá grundvallarstefnu ríkisstjórnarinnar að þrátt fyrir nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum og ríkisfjármálum verður ekki vegið að þeim mikilvægu félagslegu þáttum sem velferðarþjóðfélag okkar byggir á. Um það mun Framsfl. framvegis sem hingað til standa vörð.