11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

244. mál, launastefna ríkisins

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í tilvitnun í fsp. í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það ætlan hennar að afstaða til kjaramála komi fram fyrst og fremst í samningum ríkisins við opinbera starfsmenn og það mun því fyrst reyna á framkvæmd stefnunnar þegar að því kemur að gera kjarasamninga víð samtök opinberra starfsmanna. En auk þeirra orða sem vitnað er til í fsp. í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir að átak verði gert til að koma á jafnrétti kvenna og karla með sérstakri áherslu á launajafnrétti. Það er ljóst að það er þörf á öflugu upplýsingastarfi á sviði launa- og kjaramála og að mínu mati væri ástæða til að Hagstofa Íslands kæmi í ríkara mæli en verið hefur inn í slíkar athuganir.

13. okt. sl. skipaði forsrh. nefnd um sérstaka samanburðarkönnun á launum karla og kvenna. Verkefni nefndarinnar er að hafa yfirumsjón með úrtaksathugun sem gerð verði í því skyni að leiða í ljós svo sem kostur er hvort eða í hvaða mæli sé munur á launum eftir kynjum og ef svo sé, í hverju hann felist fyrst og fremst og hverjar séu skýringar hans. Formaður nefndarinnar er Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri. Auk hans skipa nefndina þau Esther Guðmundsdóttir þjóðfélagsfræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu félmrn. að fenginni tillögu Jafnréttisráðs, og Sigurður Snævarr hagfræðingur, skipaður samkvæmt tilnefningu Þjóðhagsstofnunar.

Nefndin samdi áætlun um starf sitt og naut í því sambandi fulltingis Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Lagði nefndin tvo kosti fyrir ráðuneytið til athugunar og ákvörðunar. Annars vegar er um að ræða kost er lýtur að þeirri sérstöku athugun sem mælt er fyrir um í skipunarbréfi nefndarinnar, þröngt skilgreindri. Hins vegar er fjallað um annan kost er snýst um víðtækari athugun á launum og lífskjörum í landinu. Er þá miðað við að auk þess sem fullnægt væri upphaflegu markmiði með samanburði á launum karla og kvenna væri jafnframt komið til móts við ýmsar óskir sem fram hafa komið á undanförnum missirum, ekki síst hér á Alþingi, um könnun og samanburð á launum og lífskjörum hér á landi og í nágrannalöndunum. Er þá haft í huga að Finnar, Norðmenn og Svíar hafa nýlega gert slíkar kannanir með samræmdum hætti og Danir munu leggja fram sambærilegan efnivið í norræna skýrslu um þetta efni. Könnun af þessu tagi gæti gert okkur kleift að taka að fullu þátt í þessu norræna verkefni og fá á þann hátt eðlilegan samanburð á lífskjörum hér á landi og á Norðurlöndum. Loks gæti könnun af þessu tagi að líkindum nýst stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á sviði fjölskyldumála, en þess er að vænta að fyrsta skýrsla fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar liggi fyrir í næsta mánuði.

Með tilliti til þessa ákvað forsrn. að fela nefndinni að hlutast til um framkvæmd könnunarinnar með víðtækari hætti en áður var áformað. Nefndin hefur nú samið við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að vera til ráðuneytis um gerð könnunarinnar og mun nefndin annast greiningu og skila ítarlegri skýrslu um niðurstöðurnar. Gert er ráð fyrir að spurningarnar miðist við að kanna og skýra launamun kynja þannig að spurt verði um laun og tekjur, atvinnu og atvinnuþátttöku, vinnutíma svo og um þætti er kunna að skýra launa- og tekjumyndun og launamun svo sem menntun, ábyrgð, starfsstöðu, starfsreynslu og fleira. Auk þess mun könnunin taka til fjölmargra þátta lífskjara, t.d. fjölskyldumála, heimilishátta og aðstöðu, heimilisfars, afnota af þjónustu, frítíma og margs fleira. Gert er ráð fyrir að eftir því sem unnt verði verði höfð hliðsjón af spurningum um þessi efni sem fram koma í hinni norrænu lífskjarakönnun sem áður er að vikið.

Tryggð hefur verið aukafjárveiting sem nemur 21/2 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við þetta verkefni. Nefndin gerir ráð fyrir að könnunin fari fram fyrir vetrarlok og að meginniðurstöður muni leggja fyrir á hausti komanda.