28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

34. mál, aðför

Flm. (Jón Magnússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 19 frá 4. nóv. 1887, um aðför, 33. gr. þeirra laga. Á 109. löggjafarþinginu flutti ég sams konar frv., en það varð ekki útrætt.

Hér er lögð til sú breyting á aðfararlögunum að miðað er við að aðför hefjist að starfsstöð viðkomandi fógeta. Gerð er krafa um að gerðarþola sé birt áskorun um fyrirkall með a.m.k. sjö daga fyrirvara fyrir fyrirtökuna, en láti hann undir höfuð leggjast að mæta í fógetaréttinum megi gera fjárnám eða lögtak í þinglýstum eða skráðum eignum hans eða eignarréttindum. Sé fjárnám eða lögtak gert með þeim hætti er sú skylda lögð á fógeta að senda gerðarþola tilkynningu í ábyrgðarbréfi. Önnur efnisákvæði lagagreinar þessarar eru óbreytt frá núv. 33. gr. aðfararlaganna.

Þessi breyting, sem hér er lögð til, er sett fram í þeim tilgangi að draga úr kostnaði og tímasóun við aðfarargerðir. Meginreglan skv. 33. gr. er sú að aðför skuli hefja á heimili gerðarþola sem hefur það í för með sér að fógeti, lögmaður og tveir vottar fara að heimili gerðarþola og gera aðför í flestum tilvikum í þinglýstum og skráðum eignum eða eignarréttindum hans. Þetta bakar gerðarþola ærinn kostnað, sérstaklega í dreifbýlinu þar sem þá þarf kannski að keyra hundrað eða hundruð kílómetra. Þess eru dæmi að kostnaður við aðfarargerð sé jafnvel margfaldur á við það sem gerðarþolinn þarf að greiða vegna höfuðstóls og vaxta, samanlagt, kröfunnar sem verið er að innheimta.

Nái þessi breyting fram að ganga mun það auðvelda störf fógeta og draga úr mannaflaþörf sýslumanna og bæjarfógetaembætta því að ljóst er að löng og tímafrek ferðalög starfsmanna þeirra embætta valda því að þeir sinna ekki öðrum störfum á meðan.

Ég vek athygli á því að með þessari breytingu er ekki dregið úr réttaröryggi gerðarþola. Ef eitthvað er eykst það. Nú er staðan sú að gerðarþoli veit iðulega ekki að gert hefur verið hjá honum fjárnám eða lögtak fyrr en löngu seinna, jafnvel ekki fyrr en komið er að uppboði á þeim eignum sem aðför hefur verið gerð í. Með þessari breytingu sem hér er lögð til fær gerðarþoli tilkynningu með tryggum og öruggum hætti um það hvenær aðför á að framkvæma. Réttarstaða hans er því betri nái þessi breyting fram að ganga.

Meginatriði málsins er því, eins og að framan greinir, að draga úr óþarfa tilkostnaði og tímasóun við aðfarargerðir, hvort heldur um er að ræða lögtak eða fjárnám, og færa þessi mál í nútímalegra horf.

Lög um aðför eru frá árinu 1887 og eiga bráðum 100 ára afmæli. Nauðsynlegt væri að taka þau í heild til endurskoðunar hið fyrsta og aðlaga þau breyttum aðstæðum. Sú breyting, sem hér er lögð til, er þó löngu orðin tímabær og ég get ekkert séð því til fyrirstöðu að hún verði samþykkt áður en til heildarendurskoðunar kemur á aðfararlögunum. Fjölmargir hafa hvatt til þess að aðfararlögin yrðu tekin til endurskoðunar í heild sinni, m. a. samtök dómara og lögmanna. Af þeirri heildarendurskoðun hefur ekki orðið og óvíst er hvenær af henni verður. Væntanleg heildarendurskoðun laganna á þó ekki að hamla því að gerðar verði nú þegar brýnar breytingar á þeim eins og lagt er til.

Ég bendi á því til stuðnings ályktun aðalfundar Dómarafélags Reykjavíkur frá 26. nóv. 1986 sem borin var fram af stjórn félagsins, en ályktun Dómarafélags Reykjavíkur í því efni, sem hér ræðir um, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fundurinn skorar á dómsmrh. að beita sér fyrir því að hið bráðasta verði gerðar nauðsynlegar breytingar á aðfararlögum sem leiði til þess að

a. kröfur samkvæmt víxlum, tékkum og skuldabréfum verði aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar,

b. samhliða áðurnefndum breytingum verði fógeta heimilað að framkvæma aðfarargerðir á starfsstöð sinni að undangengnum tryggum boðunum til gerðarþola.“

Frv. þetta er í samræmi við b-lið ályktunar Dómarafélags Reykjavíkur frá 26. nóv. 1986.

Að minni hyggju er um að ræða sjálfsagða og nauðsynlega breytingu á aðfararlögum sem mundi draga úr mannaflaþörf dómstóla, gera aðfarargerðir kostnaðarminni fyrir gerðarþola og tryggja betur hagsmuni þeirra.

Ég vænti þess að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi og mælist til þess að því verði vísað til allshn. Nd. að lokinni þessari umræðu.