11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það gætti örlítils misskilnings hjá hæstv. viðskrh. þegar hann leit svo á að ég teldi e.t.v. að verkefni stjórnvalda ætti ekki að vera að stjórna. Auðvitað á verkefni stjórnvalda að vera að stjórna, en innan þess ramma sem raunverulegt valdsvið er á hverjum tíma. Það er sennilega frægasta dæmi sögunnar þegar Aðalsteinn konungur boðaði ráðherra sína niður að sjónum og sýndi þeim fram á að jafnvel konungsvilji fengi ekki stöðvað aðfallið. Það væri vel ef þeir áttuðu sig á því einnig, þó mikinn meiri hluta hafi á bak við sig á Alþingi Íslendinga, ráðherrar vors lands, að það hljóta að verða efnahagsleg lögmál sem ráða því hvert eigi að vera skráð gengi gjaldmiðils en ekki að ráðherravilji ráði þar úrslitum til lengri tíma.