15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4573 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði nú vonast til þess að fá orðið á undan hæstv. utanrrh. vegna þess að ég vonaði að hann sæi ástæðu til þess að svara þeim fáu spurningum sem ég vil gjarnan leggja fyrir hann og ég tel að sé mjög áríðandi að hann svari af ástæðum sem munu koma fram í mínu máli.

Ég verð að leiðrétta hæstv. utanrrh. að einu leyti. Keflavíkurmannvirkið var rætt í ríkisstjórninni þegar ég sat þar. Hæstv. utanrrh. sem þá var, Geir Hallgrímsson, kynnti mannvirkið mjög vel og ríkisstjórnin öll samþykkti að fara út í þessar byggingar og þar með ég sjálfur líka þrátt fyrir það að ég er ekki ádeilulaus á hvernig að var staðið. Þannig að ég og hæstv. utanrrh. erum jafnsekir um það að hafa farið út í þetta mannvirki því það var kynnt og það var kynnt það dýrt sem það er og búist var við að áætlunin gæti verið of lág. Þetta eru umræður sem ég man vel eftir sem fjmrh. og áttu sér stað á fundi ríkisstjórnarinnar. Ég man nú ekki hvort þessar umræður eru sérstaklega bókaðar eða ekki. Það man ég ekki. En við skulum ekki firra okkur ábyrgð á því sem skeð hefur.

Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra þegar hann flýr á bak við gengislækkanir í sambandi við þennan aukna kostnað. Ég veit ekki til þess að gengislækkun dollarans hafi breytt verðlaginu heima í USA nokkurn skapaðan hlut. Það var a.m.k. ekki, eftir þeim upplýsingum sem fékk núna í desember þegar ég var rúma viku í Bandaríkjunum, vart við það að gengi dollarans, sem breyttist þá daglega, hefði nokkur áhrif á verðlag á amerískum vörum innan lands eða til útflutnings að því sem ég frétti þá. Að vísu má segja að fall dollarans hefur getað haft áhrif gagnvart mannvirkjunum á Keflavíkurflugvelli að því leyti sem dollararnir þurftu að standa undir hækkandi verðlagi hér innan lands á þeim hluta sem þetta 20 millj. dollara framlag Bandaríkjamanna átti að fjármagna af mannvirkjagerðinni sjálfri eða kaup á því sem hækkaði hér vegna innanlandshækkana á Íslandi en það er bara partur af þeim hækkunum sem við erum að tala um á mannvirkinu öllu. Ég geri ráð fyrir því að megnið af þessum 20 millj. dollurum hafi farið í tækjakaup frá Bandaríkjunum og ýmislegt af byggingarhlutum sem mér skilst að hafi verið fluttir inn frá Bandaríkjunum, framleiddir í Bandaríkjunum, og á þeim hluta er engin gengislækkunarsveifla.

Mér finnst margt í þessum umræðum hafa staðfest það sem ég hef haft vissan ótta við, að við séum að tala um upphaflega áætlaðan kostnað og kostnaðinn eins og hann er í dag, en það er miklu meiri kostnaður en áætlaður var, en við skulum gera okkur grein fyrir því að mannvirkið er langt frá því að vera fullkomnað. Ég hefði annaðhvort viljað fá það staðfest hjá hæstv. utanrrh. hér og nú að sú niðurstöðutala sem við erum að tala um sé endanlegt verð á mannvirkinu eins og það kostar þegar það er fullbúið eða þá að fá upplýsingar um það hvað er áætlað að komi til viðbótar til þess að fullklára mannvirkið. Ég er ansi hræddur um að það sé ekki til áreiðanleg áætlun til að klára mannvirkið og ég er líka hræddur um að fullklárað verði það nokkuð miklu dýrara, nokkuð miklu kostnaðarsamara en gefið er til kynna í þeim upplýsingum sem fram hafa komið í umræðunum hér.

Sem sagt, hæstv. utanrrh.: Eru þetta lokatölur á fullkláruðu mannvirki sem við erum hér að ræða sem of háar eða er þetta bara fyrir þann hluta mannvirkisins sem þegar er kominn upp? Það er talað um mannvirki á Möltu og það er talað um mannvirki í Bandaríkjunum, í Harrisburg ef ég man rétt. Ég get sagt frá því að rétt eftir að þetta mikla mannvirki okkar var tekið í notkun þá var ég á leiðinni til Suður-Frakklands, ég var með fyrstu farþegum sem fóru í gegnum alveg nýja stöð sem er ekki minni, hún er áreiðanlega þó nokkuð stærri en okkar nýja stöðin í Nice. Hún er mörgum sinnum einfaldari í allri útfærslu. Þetta er flókin og á margan hátt erfið flugstöð sem við höfum byggt. Það er hægt að gera hlutina á miklu, miklu einfaldari og ódýrari hátt eins og kom fram hér áðan hjá þeim sem gat um stöðina í Harrisburg eða hvar það var nú í Bandaríkjunum, en hún kostaði fullkláruð skildist mér 14 millj. dollara.

En það er annað, hæstv. utanrrh., sem ég vil fá svar við vegna þess að nú er ég að tala um hluta af sjálfstæði og sjálfstæðum ákvörðunum íslenskra stjórnvalda. Þegar það var kynnt fyrir mér sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands að byggja ætti þetta mikla mannvirki og hvað það var áætlað dýrt, þá fannst mér það réttlætanleg ákvörðun af einni

ástæðu eingöngu og það var sú ástæða að mannvirkið yrði utan umráðasvæðis hervalda á Íslandi, að það væri verið að færa alla starfsemi innanlands- og utanlandsflugs og alla starfsemi sem Ísland hefur rekið í Keflavík í samráði við og í samstarfi við ameríska herinn út fyrir umráðasvæði Bandaríkjamanna á Íslandi. Á þessum forsendum vildi ég borga nokkuð mikið fyrir mannvirkið og á þessum forsendum byggði ég mína afstöðu til hugmyndarinnar á sínum tíma. En mannvirkið var enn þá í byggingu þegar ég fór að finna fyrir því að þessi rök voru ekki lengur inni í myndinni og ég sem ráðherra gerði ítrekaðar tilraunir til að gegna stöðu minni sem slíkur gagnvart stærstu tollinnheimtustöð landsins og mér tókst það ekki. Þrátt fyrir það að ég hafði upplýsingar sem gerðu það nauðsynlegt var fyrir mig sem yfirmann tollþjónustunnar að gera þar miklar breytingar á tókst mér það ekki. Mér tókst það aldrei. Og mér er næst að halda að vegna afstöðu minnar til Keflavíkurstöðvarinnar og vegna ítrekaðra tilrauna minna til þess að gegna mínu embætti sem fjmrh. á þann hátt sem ég taldi nauðsynlegt. Átti ég í erfiðleikum á öðrum sviðum í starfi. Ég vil minna hæstv. utanrrh. á samstarf okkar til nokkurra ára í flugráði þar sem við margreyndum að fara að landslögum og fá viðurkenningu á því að flugstöðvarsvæðið á Keflavíkurflugvelli heyrði undir flugmálastjóra og flugráð eins og landslög segja til um. Við reyndum í sameiningu að fá flugmálastjóra inn í varnarmálanefnd en það tókst ekki. Við kláruðum okkar löngu setu í flugráði saman til margra ára án þess að koma þessum málum í það horf sem landslög segja til um og þau eru enn þá í þessu horfi.

Þess vegna spyr ég: Verður flugstöðin nýja í Keflavík innan eða utan við umráðasvæði herstöðvarinnar eins og upphaflega var ætlast til eða verður hún það ekki? áíslenskur ráðherra fjármála ekki að hafa umráðarétt yfir stærstu tollstöð landsins? Á íslenskur flugmálayfirmaður, sem lögum samkvæmt ræður yfir öllum flugmálum á landinu, flugvöllum o.fl., á hann enn þá að vera fyrir utan, ábyrgur fyrir því sem skeður samkvæmt lögum en ófær um að gegna stöðu sinni samkvæmt reglugerð?

Ég talaði um tollþjónustuna, ég hafði m.a.s. sagt það í ríkisstjórn Íslands að ef flugstöðin yrði innan við landamerki heryfirvalda í Keflavík þá mundi ég sem fjmrh. byggja tollskýli utan við girðingu til þess að geta gegnt þeirri skyldu sem hvíldi á herðum tollstjóraembættisins og tollþjónustunnar. Þetta er mikið og stórt mál og ég vil gjarnan að utanrrh. svari þeirri spurningu: Er þetta virkilega breytt frá því sem upphaflega var ætlað og að nýja flugstöðin verði áfram undir sama skipulagi og sú gamla þrátt fyrir upphafleg rök sem urðu til þess að ég sem fjmrh. samþykkti að hefja þessar framkvæmdir?

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um orðinn hlut. Skýrsla utanrrh. liggur hér fyrir. Það er mjög gott og þakkarvert að það kom fsp. sem gerði þessa skýrslu nauðsynlega, en ég vil segja það við hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, 6. þm. Reykv., að ég ætla að vona það að tal hennar og hugsun verði ekki til þess að aðrir þurfi að standa í sömu sporum og ég sem ráðherra og sanna sakleysi mitt hvað eftir annað. Við skulum vera viss í okkar sök áður en við köllum, hvort sem það eru embættismenn eða ráðherra eða aðra sem hér starfa, þm., siðlausa á einhvern hátt. Ég hef ekki þekkt einn einasta þm. frá 1974 sem ég mundi segja að væri siðlaus á einhvern hátt. Kvennalistinn hefur haft sín tækifæri til að koma inn í stjórn þessa lands og ég ætla að vona að hann komi sér ekki hjá því í framtíðinni og að hann komi þá með nýtt siðgæði inn í íslensk stjórnmál ef hann vill breyta til. Þangað til skulum við bíða með stóru orðin.

Ég fagna því að þessi fsp. kom fram og að þessi skýrsla kom fram en ég vil gjarnan fá að vita: Eru þetta lokatölur fyrir mannvirkið fullklárað eða er til áætlun um fullklárað mannvirki? Vegna þess að samkvæmt upplýsingum starfsfólks á staðnum er langt í land með að flugstöðin sé fullkláruð. Það er fullklárað sem auga gestsins sér við komu eða brottför en það er margt ógert enn við mannvirkið í heild. Og stærsta málið er að sjálfsögðu að vita hvort ráðherrar geta gegnt stöðu sinni. Verður mannvirkið innan eða utan yfirráðasvæðis hersins?

Í sambandi við sjálfan samninginn við herinn, sem að sjálfsögðu snertir þetta mál sem er hér á dagskrá, þá ætla ég ekki að hefja umræður um það, en fullyrði að honum er ekki framfylgt sem skyldi.