16.02.1988
Efri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4596 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. nefnd sem fjallaði um þetta mál fyrir afgreiðsluna. Það hefur reyndar komið fram hjá talsmanni minni hl., hv. 6. þm. Reykv., að hv. Ed. hafi tekið sér þann tíma sem hún þurfti. Undir það get ég tekið. Ég vil þó að það komi fram við þessa umræðu að það var í samráði við mig sem ákveðið var að freista þess ekki að afgreiða þetta mál fyrir jól, einfaldlega vegna þess að það voru önnur mál sem þurftu að fá hraðari afgreiðslu fyrir þingið. Hins vegar hafði hv. meiri hl. nefndarinnar þegar afgreitt málið, 22. des., þótt minnihlutaálitið kæmi ekki fyrr en 3. febr. og það var jafnframt í samráði við mig sem beðið var með að taka þetta mál til umræðu þar til nú en þar kom til að framsögumenn báðir voru ekki viðstaddir síðustu viku. Öllu máli skiptir þó að fram hefur komið nú þegar í nái. meiri hl. að gera má ráð fyrir að þetta mál fái afgreiðslu innan tíðar og ég óska eftir því, ef hægt er, herra forseti, að mál þetta fái tiltölulega hraða meðferð úr þessu, enda hefur málið nú verið skoðað rækilega af nefnd og hv. þm. þess vegna fengið nægan tíma til að kynna sér efni frv. sem alls ekki er flókið þótt þar með sé ekki verið að segja að þetta sé smámál. Því hefur ekki verið haldið fram þótt málið sé einfalt og ekki flókið.

Ég nefni örfá atriði sem komið hafa fram í ræðum hv. ræðumanna sem hafa talað.

Í fyrsta lagi held ég að ástæða sé til að benda á að lagaákvæði iðnaðarlaganna eru þrengri en ákvæði samsvarandi laga í öðrum atvinnugreinum. Ég bendi jafnframt á að skv. 16. gr. samningsins um EFTA-aðildina er ljóst að það var gert ráð fyrir því þar þegar við gengum í Fríverslunarbandalagið á sínum tíma að þetta lagaákvæði fullnægði þeim skilyrðum sem bandalagsþjóðirnar gerðu og það er á þeim forsendum byggt. Menn telja m.a. að það hafi verið mistök þegar þetta ákvæði féll úr lögunum við þær breytingar sem gerðar voru árið 1978 og ég bendi jafnframt á að þær breytingar sem þá voru gerðar á lögunum voru fyrst og fremst breytingar vegna handiðnar hér á landi. Um það fjallaði það mál. Það var aðalatriði málsins og svo virðist að í þeim breytingum sem gerðar voru að bestu manna yfirsýn, svo að notað sé orðalag þess tíma, sé verið að horfa fyrst og fremst til þeirra lagaákvæða. Það hefur nokkuð verið gert úr áliti hæstv. sjútvrh. en hann talaði í umræðunum 2. nóv. og tók þar mjög skýrt fram að hann styddi þetta frv., eins og skráð er í Alþingistíðindum, þannig að það er hægt að segja það hér og nú og ítreka að hæstv. sjútvrh. er stuðningsmaður frv. enda er um stjfrv. að ræða sem hann hefur tekið þátt í umræðum um.

Ég ætla ekki að deila um frelsisákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. um atvinnufrelsið. Ég læt það liggja milli hluta. Það hafa hvergi komið fram varðandi flutning þessa máls þau rök sem koma fram í þeirri skýrslu sem hv. 7. þm. Reykv. vitnaði til og er á þskj. 700 frá þinginu í fyrra og er samin að mig minnir af Birni Líndal og Hreini Loftssyni. Það eru þeirra rök. Hins vegar geta menn velt þessum stjórnarskrárákvæðum fyrir sér og það er alveg ljóst að hafi útlendingar sama rétt hér á landi, það verða að gilda um það almennar reglur, og þeir sem hér búa og verða ríkisborgarar gilda auðvitað stjórnarskrárákvæði, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, jafnt um þá sem Íslendinga, enda erum við bundnir af slíkum sáttmálum eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum slíkum sáttmálum sem tryggja það að með útlendinga sé farið með sama hætti og þá sem búa í ríkjunum sjálfum sem hafa gerst aðilar að slíkum samningum. Það sem ég segi hér útilokar hins vegar ekki hugmyndir hv. 7. þm. Reykv. um skilning hans á þessu stjórnarskrárákvæði, en ég tel ástæðu til að láta það liggja á milli hluta, enda finnst mér það ekki koma þessu máli við.

Ég tek það fram að ég er fyllilega sammála og sáttur við þau atriði sem koma fram í meirihlutaálitinu og ég tel þar koma fram ábendingar og reglur, meginreglur, sem hægt sé að fylgja. Auðvitað er það svo og þar er ekki nákvæmlega að orði kveðið fremur en ávallt, hvorki í texta í nál. né heldur í lagaákvæðum, en ég held þó að hugtök eins og smærri rekstur eða meðalstór gefi tilefni til þess að álíta að ef um stórrekstur er að ræða, eins og stóriðju, þá iðju sem við þekkjum sem stóriðju, mundi það að sjálfsögðu ekki vera í verahring iðnrh. að veita undanþágu í slíkum tilvikum, heldur hlyti atbeini Alþingis að koma til. Það liggur í hlutarins eðli og hlýtur að gerast með þeim hætti því að í samningum við slík fyrirtæki er jafnan fjallað um önnur atriði sem atbeina löggjafans þarf við.

Af því að minnst er á kísilmálminn er augljóst að kísilmálmurinn hefði komið til Alþingis þrátt fyrir það að þessu ákvæði yrði breytt í þá veru sem lagt hefur verið til með frv. sem hér er til umræðu.

Ég hef, þar sem spurt var um það, að sjálfsögðu kynnt mér hvernig útlendingar eiga samstarf við innlenda aðila og var minnst á Glitni í því sambandi og mér er það ljóst að full ástæða er til þess að skoða lagaákvæðið um slíkt samstarf bæði á því sviði og fjölmörgum öðrum. Ég gæti talið upp 10–15 lagabálka þar sem ástæða væri til þess að kíkja á slík atriði sem snerta samstarf Íslendinga og erlendra aðila. En ég er ekkert viss um er ekki atriði þessa máls.

Hv. 14. þm. að það sé af hinu vonda að fá til landsins erlent fé með öðrum hætti en venja hefur verið á undanförnum árum og áratugum, að taka það eingöngu að láni, en leyfa ekki útlendingum að taka áhættu með því að koma og afhenda féð sem er afhent í rekstur sem áhættufjármunir.

Það er full ástæða til þess að benda á í þessu sambandi að prófessor Þorvaldur Gylfason segir frá því í einu dagblaðanna í dag að Íslendingar séu með skuldugustu þjóðum í heimi af því að við höfum lagt svo mikla áherslu á lántökur sem verður að greiða hvernig svo sem reksturinn fer sem fjármagnið er notað til. Ekki meira um þetta því að þetta Reykv. spurðist fyrir um fiskiðnaðinn og bað mig um að segja mitt álit á því hvort þessi lagabreyting yrði til þess að ég gæti með því heimildarákvæði, sem gert er ráð fyrir að samþykkt verði og breytt í lögunum, heimilað útlendingum að eignast meiri hluta í fiskvinnslufyrirtækjum. Svo er ekki. Það er ljóst að iðnaðarlögin ná til iðnaðar. Það er að vísu rétt að samkvæmt orðanna hljóðan gæti svo virst sem fiskiðnaður tilheyrði þeim iðnaði, en í 2. gr. laganna er minnst á að lögin nái til fyrirtækja sem þurfa iðnrekstrarleyfi og fiskvinnslan þarf ekki iðnrekstrarleyfi og svo hefur aldrei verið. Fiskvinnslan hefur fylgt útgerðinni í sjóðakerfið, og er talin standa með útveginum, og tilheyrir allt öðru ráðuneyti, þ.e. sjútvrn. Það er því ekki í verkahring iðnrh. að veita útlendingum heimild til þess að eignast hvorki 1 né 51% í fiskvinnslufyrirtækjum, ekki á grundvelli þessa lagaákvæðis sem hér er verið að leggja til að breytt verði.

Ég fagna því að hv. þm. Júlíus Sólnes skuli hafa skrifað undir meirihlutaálitið og tel að það styrki framgöngu frv. að slík breið samstaða hafi náðst um það og vænti þess að það merki að frv. fái greiðari leið í gegnum þingið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til, nema þess verði krafist, að ég fjalli frekar um þetta mál en vísa til fyrri ræðna sem fluttar voru í þessar hv. deild hinn 2. nóv. sl.