28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er hægt að hafa langt mál um frv. til l. um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér liggur fyrir en það eru þó einkum tilteknir þættir sem ég hef áhuga á að ræða hér. Þá langar mig fyrst að fara nokkrum orðum um þær deilur stjórnarsinna sem hafa komið upp í tengslum við þetta mál.

Það tungumál sem þar hefur verið talað er þess eðlis að það verður að ætla að um alvarlegan trúnaðarbrest sé að ræða innan þessara flokka. Ég verð að segja það sem skoðun mína að t.d. ummæli hv. þm. Páls Péturssonar, sem jafnframt er formaður og talsmaður Framsfl., um hæstv. félmrh. eru fyrir neðan allar hellur. Í viðtali við fréttamann Bylgjunnar fyrir nokkru segir þessi hv. þm., og lætur fréttamann hafa eftir sér „að texti frv. sé óvenju illa unninn, orðalag sé óskýrt og að greinargerðin sem fylgi frumvarpinu sé að hluta til rugl.“ Þessi hv. þm. segir enn fremur sjálfur í viðtali við stöðina: „Félagsmálaráðherra er óskaplega ný í starfi. Þetta er hennar fyrsta þing og hún er ákaflega óþolinmóð.“ Mér finnst persónulega hér svo harkalega talað niður til hæstv. ráðherra að formaður þingflokks Framsfl. geti ekki verið þekktur fyrir svona munnsöfnuð. Ég leyfi mér að efa það að hann hefði talað í þessa veru ef hæstv. ráðherra hefði verið karlmaður.

Það hefur einnig komið fram hjá stjórnarsinnum að þetta frv. stríði gegn samningum við aðila vinnumarkaðarins sem ég dreg hins vegar stórlega í efa. Þeir hafa ekki fært rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni og þótt þeir hafi fengið til stuðnings við sig forseta Alþýðusambands Íslands þá hygg ég að hann mæli ekki fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar.

Hv. stjórnarþingmenn sem hér hafa talað, einkum þó og sér í lagi hv. framsóknarmenn — og ég harma að þeir skuli taka þessa afstöðu því ég taldi þá sitja í félagshyggjuflokki, a.m.k. hafa þeir gefið sig út fyrir það að vera flokkur félagshyggju og samvinnu og að við ættum margt sameiginlegt í baráttunni fyrir þeim málaflokki sem hér um ræðir — þeir hafa látið orð um það falla að jafnvel lífeyrissjóðirnir gætu gripið til þess ráðs að draga í land með skuldabréfakaup „ef þeim finnst skjólstæðingum sínum mismunað“, eins og einn hv. þm. Framsfl. komst að orði. „Ef þeim finnst skjólstæðingum sínum mismunað.“ Svo mörg voru þau orð. Er verið að mismuna skjólstæðingum lífeyrissjóðanna ef reynt er að koma í veg fyrir að hátekjufólk og stóreignafólk fái lán úr Byggingarsjóði ríkisins? Þetta er spurning sem ég varpa fram.

Ég hygg að ef fram heldur sem horfir í þeim umræðum og deilum sem hér hafa hafist þá eigi menn að vera heiðarlegir gagnvart sjálfum sér og öðrum og segja hreint út að núverandi ríkisstjórn geti farið að pakka saman, en ekki að vera að finna útgönguleiðir með þessum hætti. Mér finnst þetta mál vera komið á svo alvarlegt stig að menn verði að fara að hyggja að því yfir höfuð hvort einhver alvarlegasta og djarfasta tilraun sem gerð hefur verið um áratugaskeið til að koma skikk á efnahagsmál þjóðarinnar eigi að fara út um þúfur vegna þess að einstakir stjórnarþingmenn geta ekki komið sér saman um veigamikil hagsmunamál þjóðarinnar og þjóðfélagsþegnanna.

Mig langar aðeins, herra forseti, að fara nokkrum orðum um það sem mér finnst raunverulega skipta máli í allri þessari umræðu sem hér hefur farið fram og á eftir að fara fram. Við erum að tala um stórt og viðkvæmt mál. Við erum að tala um fleiri milljarða króna og ráðstöfun þeirra. Þetta er ekkert smámál. Auðvitað getur það komið fyrir að menn greini á um frv. af þessu tagi en það hefði verið eðlilegra að leysa þau ágreiningsmál inni í þingflokkunum. Ég vil benda á það sem hefur verið að gerast hér á landi á allra síðustu árum. Hvernig stendur á því að þessi málaflokkur er orðinn svona ofurviðkvæmur og erfiður viðfangs? Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst sú að hávaxtastefna sú, sem hér hefur verið fylgt, hefur haft þau áhrif að fólk leitar eftir niðurgreiddu fjármagni eftir niðurgreiddum vöxtum. Ég hygg að eftirspurnin eftir húsnæðisstjórnarlánum sé nokkuð í réttu hlutfalli við það hvað vextir hafa verið að hækka á undanförnum árum. Það er svo komið að það dettur engum heilvita manni í hug að fara til síns eigin lífeyrissjóðs til að biðja um lífeyrissjóðslán sem nú ber 9% vexti ofan á verðtryggingu.

Ég lít svo á að fólk hafi á síðustu árum leitað óeðlilega mikið til Byggingarsjóðs ríkisins eftir lánum vegna þess hve fjármagnið á hinum almenna markaði hérlendis er orðið dýrt. Þetta er stóri vandinn og við þessum vanda verðum við að bregðast. Ég verð að segja það eins og er að mér þótti verulega notalegt að hlusta á hæstv. utanrrh. tala í útvarpsumræðunum í gær og lýsa þeirri skoðun, sem ég lýsti í þingræðu fyrir nokkru, að, eins og hann orðaði það með leyfi forseta, „fjármagnið hafi leikið lausum hala og til þess megi rekja þensluna sem nú ógnar efnahagslífinu öllu.“ Hann segir enn fremur að einnig megi lesa úr þjóðhagsáætlun að eftirlit það sem Seðlabanka var falið samkvæmt lögum hafi brugðist. Raunvextir væru hér mun hærri en í nágrannalöndunum eftir vaxtafrelsið en skilyrði þess hefði verið eðlilegur vaxtamunur og svipaðir raunvextir hér og í helstu viðskiptalöndum okkar. Vaxtamunurinn hefði hins vegar aukist og gerðist varla meiri en hér á landi.

Þetta er hárrétt hjá hæstv. utanrrh. Og væri nú ekki rétt af hinu háa Alþingi að leita skýringanna á hinum ört vaxandi vanda húsnæðiskerfisins einmitt í þessu og gæti það ekki dregið úr álaginu á húsnæðiskerfið ef menn stæðu upp og reyndu að lækka vextina á hinum almenna markaði í stað þess að stuðla stöðugt að hækkun þeirra?

Mig langar í þessu sambandi að minna á að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru fjármagnsgjöld ríkissjóðs, vextir, orðin 4,8 milljarðar kr. Þetta eru engar smátölur. Og það kemur fram enn fremur að þegar litið er á ráðstöfun tekna fara 8,1% af heildardæminu í vaxtagreiðslur. Ég held að þetta sé orðið svo stórfellt vandamál að ef menn skirrast við því að ræða hávaxtastefnuna og áhrif hennar á samfélagið í heild eru þeir að svíkjast um. Og mín skoðun er sú, og það vil ég segja hér hreint út, að ef menn hefðu ekki gengið inn á braut hávaxtastefnunnar hér á landi væri ekki þessi húsnæðisvandi fyrir hendi. Ásóknin í þetta ódýra fjármagn væri ekki fyrir hendi.

Við þetta bætist að sú lánskjaravísitala sem við notum nú er að mínu mati ranglega útreiknuð. Grundvöllur hennar er ranglega útreiknaður þannig að hún hefur hækkað óeðlilega miðað við aðra þætti í samfélaginu. Ég hygg t.d. að það gæti verið skynsamlegt að taka inn í reikningsgrundvöll lánskjaravísitölunnar skatta í þjóðfélaginu ef það gæti eitthvað dregið úr áhrifum hennar.

Ég hef fengið, hv. þm., útreikning á því hvernig lánskjaravísitalan hefur hækkað frá 1. júní 1979 miðað við ýmsa aðra þætti í peningamálum þjóðarinnar. Við skulum líta á það dæmi.

Til 14. þ.m. hefur lánskjaravísitalan átjánfaldast frá 1. júní 1979. Til samanburðar hefur verðgildi bandaríkjadollars 11,5-faldast. Verðgildi sterlingspunds hefur nífaldast, danskrar krónu svipað. Þýska markið hefur tólffaldast og íbúðaverð í Reykjavík þrettánfaldast. En hvað skyldu launin hafa margfaldast? Þau hafa fjórtánfaldast.

Með þessu er ég að segja við ykkur að lánskjaravísitalan hefur þotið upp miklu hraðar en flestir aðrir þættir sem við ættum raunverulega að miða við í okkar samfélagi. Þessi hækkun á lánskjaravísitölunni að viðbættum mjög örum og óeðlilega örum vaxtahækkunum að mínu mati, um 84% hækkun á vöxtum frá 1. jan. si., hefur valdið því að almenningur leitar í æ ríkara mæli eftir lánum úr Byggingarsjóði ríkisins þar sem vextir eru niðurgreiddir. Þetta er hluti af þeim stóra vanda sem við stöndum núna frammi fyrir.

Ég bendi hv. þm. á mjög fróðlega grein sem birtist í Dagblaðinu í dag, eftir Brynjólf Jónsson hagfræðing, um áhrif hárra raunvaxta. Þetta ætti að verða kvöldlesning a.m.k. þeirra manna sem hafa prédikað hvað mest hávaxtastefnuna. Það er margt athyglisvert sem kemur fram í þessari grein.

Ég vil líka í þessu sambandi fara nokkrum orðum um þau ummæli sem hér hafa komið fram þess efnis að lífeyrissjóðirnir kynnu að draga að sér hendurnar og undirrita ekki samkomulag við Byggingarsjóð á grundvelli þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir. Að vísu komu hér fram tölur um fjölda eða fæð þeirra lífeyrissjóða sem hefðu undirritað þetta samkomulag, en sem betur fer hafa fleiri lífeyrissjóðir gert það en kom fram í umræðunum í fyrra dag. Mér finnst, það er persónuleg skoðun mín, lífeyrissjóðir hér á landi vera komnir út á býsna hálar brautir. Ég hygg að þeir verkalýðsforingjar sem fara með yfirráð lífeyrissjóðanna og hafa undirgengist það að laun hér á landi væru ekki vísitölutryggð hafi að vissu leyti borið sig rangt að þegar þeir eru með fulla lánskjaravísitölu á lánum úr lífeyrissjóðum, sjóðum fólksins í landinu og bæta þar ofan á hæstu lögleyfðu vöxtum. Ætli lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna séu ekki í annarri hverri nauðungaruppboðsauglýsingu sem birt er í blöðunum? Ég hygg að það sé vaxtakröfugerð þeirra sem á umtalsverðan þátt í því að nauðungaruppboðin fara fram. Mér finnst það skjóta skökku við að lífeyrissjóðirnir, sem fara með fjármuni verkalýðshreyfingarinnar og fólksins í landinu, skuli hafa um það forgöngu að lána fé með þeim hætti sem þeir gera.

Ég minnist þess að einn hv. þm., Guðmundur H. Garðarsson, gerði tilraun til þess í sínum lífeyrissjóði að fá vaxtastigið lækkað, en það tókst ekki. Ég vil auk þess benda á þá hörku sem lífeyrissjóðirnir sýndu í samningaviðræðum við ríkisvaldið. Ég hefði sagt við forustumenn þeirra lífeyrissjóða, sem þá voru að semja við ríkissjóð um skuldabréfakaup, að þeir gætu farið heim og hvílt sig. Ég mundi tala við þá sem ríkissjóður einhvern tíma seinna. Lífeyrissjóðirnir eiga nefnilega engan annan kost betri en ávaxta fjármagn sitt með kaupum á ríkisskuldabréfum. Og ég hygg að þeir hefðu komið aftur.

En hvað hefur gerst? Ríkissjóður varð að kaupa þessi skuldabréf með tiltölulega háum vöxtum sem hefur haft áhrif á allt heildarvaxtadæmið til hækkunar. Ég leyfi mér að fullyrða að lífeyrissjóðirnir hafi að vissu leyti gengið á skjön við sín meginmarkmið. Auðvitað eiga þeir að reyna að ávaxta fjármuni sína á þann hátt sem best er á hverjum tíma og þeirra forustumenn munu ugglaust gera það, en ég hygg að þeir séu komnir út fyrir öll skynsamleg mörk. Auðvitað fannst mér líka ótækt og verð að segja það sem skoðun mína hreina og klára að í forustu fyrir hluta af þessum lífeyrissjóðum skyldi vera, hinn ágætasti maður að vísu, en maður sem er um leið forustumaður eins stærsta verðbréfafyrirtækis á landinu, maður sem hlýtur að hafa af því hagsmuni að vaxtastig sé tiltölulega hátt í landinu. Ég er ekki að væna hann um að hann hafi misnotað aðstöðu sína, en í hans sporum hefði ég aldrei tekið þátt í þessum viðræðum. Og ég hefði óskað eftir því sem fjmrh. að hann viki sæti í þessum viðræðum.

Ég hygg að nauðsynlegt væri að skoða nokkuð starfsemi lífeyrissjóðanna í þessu landi, hvernig þeir hafa ávaxtað fjármuni sína, í hvað hafa þeir notað þá. Ég minni á að t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna kom talsvert við sögu núna fyrir skömmu vegna þess að hann gerði tilboð í Útvegsbanka Íslands. Hann hefur lánað fé í margs konar framkvæmdir sem ég hygg að séu kannski ekki alveg gulltryggðar. Spurningin er þessi: Er þetta peningalega vald, lífeyrissjóðirnir í landinu, komið út fyrir eðlileg mörk í starfsemi sinni? Hvernig stendur á því að þeir eiga þess engan kost núna að lána fjármuni til fólks? Það er vegna þess að fólkið vill ekki fá þessa fjármuni lánaða. Þeir eru of dýrir.

Í tengslum við þá umræðu sem hér hefur farið fram vil ég segja að það þarf engan að undra þótt komi til umtalsverðra átaka um húsnæðismálakerfið. Hins vegar finnst mér afskaplega óskynsamlegt af þm. stjórnarflokka að hafa í frammi þau orð sem þeir hafa mælt á undanförnum dögum í tengslum við þetta frv. Væntanlega eru þetta traustabrestir í samstarfi stjórnarflokkanna. En ef menn meina eitthvað annað með þessu eiga þeir að segja það berum orðum. Ef þeir eru að reyna að finna útgönguleið út úr þessu stjórnarsamstarfi eiga þeir bara að segja það, ekki að gera það á þennan hátt. Og ég hygg að það væri ekki verulega gæfulegt að láta slitna á máli af þessu tagi þar sem hæstv. félmrh. hefur fengið mjög afdráttarlausan stuðning feikilega fjölmenns hóps þjóðarinnar í þessu máli.

Það skýtur líka býsna skökku við að heyra hverja ræðuna á fætur annarri frá stjórnarandstöðuþm. þar sem þeir styðja þetta frv. að verulegu leyti með nokkrum málefnalegum athugasemdum en síðan stíga stjórnarliðar í stólinn og finna því allt til foráttu. Ég held að mönnum væri nær að reyna að setja niður þessar deilur og leysa þetta mál á skilmerkilegan og góðan hátt.

Ég hef leyft mér að fjalla um það hér, herra forseti, af hverju ég tel þennan vanda vera orðinn svona mikinn. Þetta er hluti af miklu stærra vandamáli, þ.e. þeirri stefnu sem rekin hefur verið í vaxtamálum hér á landi og vegna þeirra vandræða sem t.d. lánskjaravísitalan hefur valdið, og ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég hyggi það verulega tímabært að endurskoða reiknigrundvöll lánskjaravísitölunnar. Ég hygg að það ættu að koma fleiri þættir inn í hana, eins og ég sagði upphaflega, t.d. skattarnir, þannig að hún mundi ekki vega eins þungt og hún nú gerir.

Mig langar aðeins í lokin, herra forseti, að geta þess að það er almennt álit fróðra manna að áhrif hárra raunvaxta á fasteignalánum séu undantekningarlítið þau að kaupgeta manna minnki. Það leiðir síðan aftur til þess að færra fólk býr í eigin húsnæði en áður og þar með hefur þessi hávaxtastefna gengið þvert á yfirlýstar skoðanir ýmissa manna sem vilja hag sjálfseignarstefnunnar sem mestan. Um þetta höfum við dæmi frá Bandaríkjunum, þar sem um 1 millj. fjölskyldna missti húseignir sínar þegar vextir fóru upp úr öllu valdi á árabilinu 1970–1980, og við höfum þessi dæmi víðar að. En eitt verður að liggja fyrir í þessu máli og það er að með þessu frv. er hæstv. félmrh., sem getur auðvitað svarað fyrir sig sjálf að öllu leyti, að finna leið til að koma húsnæðislánakerfinu í gang á nýjan leik. Hún vill líka fá svigrúm til að geta gert nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi sem allir eru sammála um að þurfi að gera. Það er enginn vafi á því að bæði stjórn og stjórnarandstaða eru sammála um að það þarf að gera enn frekari breytingar á húsnæðislánakerfinu.

Ég hygg að það væri gæfulegast fyrir hv. þm. að gefa hæstv. félmrh. kost á því að koma þessum breytingum í framkvæmd þannig að kerfið geti farið að vinna aftur og tími vinnist til þess að breyta því til frambúðar, ef menn hafa þá hug á því, sem ég hygg að flestir hafi.

Ég hefði getað haft mörg fleiri orð um þetta mál, en hirði ekki um að lengja þessa umræðu sem mér finnst hafa snúist upp í líklega eitthvert leiðinlegasta mál sem stjórnarflokkarnir hafa orðið að fjalla um frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Það hafa auðvitað komið upp fleiri ágreiningsmál innan stjórnarflokkanna af ýmsu tagi, en þetta er það alvarlegasta. Þetta er langalvarlegasta málið vegna þess að hér er verið að fjalla um hæstu fjárhæðirnar og hér er verið að fjalla um fólkið í landinu sem þúsundum saman bíður eftir að fá lausn sinna mála í húsnæðismálakerfinu. Ég hygg að menn gerðu rétt með því að reyna nú að setja niður þessar deilur og ná samkomulagi þannig að þetta fólk þurfi ekki að bíða miklu lengur eftir lausn á sínum málum. Allt sem verður til þess að tefja framgang þessa frv. er um leið á þann veg að það hlýtur að auka á vanda fólksins sem nú stendur uppi án þess að vita nokkurn skapaðan hlut hvað verður um þess umsóknir í nútíð og framtíð og hvað verður um þetta kerfi í það heila tekið. Ætla t.d. stjórnarsinnar að snúast gegn frv., við þurfum að fá að vita það, ef þeir koma ekki í gegn tillögum sem þeir hafa rætt um en ekki orðað fyllilega? Ég hef ekki heyrt menn tala um afgerandi brtt. á frv. Það sem ég hef heyrt eru útúrsnúningar að mjög verulegu leyti. Menn verða að reyna að finna það út hjá sjálfum sér hver og einn hvort þeir eru að snúast gegn þessu frv. af einhverjum óljósum ástæðum sem kunna að vera m.a. þær að þeir eru að reyna að finna útgönguleið úr stjórnarsamstarfinu. Mér fannst t.d., eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson talaði áðan, ekki standa steinn yfir steini í ummælum hans. Hann fór hverja hringferðina á fætur annarri. Hv. þm. Alexander Stefánsson hefur þó komið orðum að því sem hann vill breyta, en tillögurnar liggja ekki klárar fyrir, tillögurnar liggja hvergi nærri klárar fyrir.