17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4662 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Við þm. Borgarafl. í Ed. og reyndar einnig þm. Borgarafl. í Nd. höfum á þessu þingi lagt fram mjög ítarlegar og umfangsmiklar tillögur um skipan húsnæðislánamála. Ber þar fyrst að nefna frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka sem var lagt fram í hv. Ed. í nóvembermánuði. Í framhaldi af því lögðum við fram mjög umfangsmiklar og ítarlegar brtt. við frv. hæstv. félmrh. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Brtt. okkar fólu nánast í sér heildarendurskoðun á allri starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins og meðferð húsnæðislánakerfisins. Í raun og veru er um að ræða algerlega nýtt húsnæðislánakerfi eins og við höfum lýst því í þeim tillögum sem ég hef verið að segja frá.

Það var ætlun okkar að halda áfram með þessa vinnu til að skapa meiri umræðu um þessar hugmyndir og tillögur okkar. Við leggjum því fram frv. til laga á nýjan leik, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þar sem við tökum fyrir einn ákveðinn þátt laganna um Húsnæðisstofnun en það er VI. kafli núgildandi laga um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga.

Í brtt. okkar vorum við þegar með hugmyndir um hvernig mætti færa þau mál til betri vegar og við höfum haldið áfram þeirri vinnu og leggjum því fram hér og nú sérstakt frv. til laga um að breyta þessum kafla húsnæðislaganna en munum síðar meir leggja fram annað frv. til að breyta öðrum þáttum húsnæðislaganna.

Ef litið er á grg. með frv. er þar greint frá hvernig innstreymi og útstreymi skyldusparnaðar í Byggingarsjóð ríkisins hefur verið háttað að undanförnu, þ.e. allt frá árinu 1983. Þarf ekki annað en að horfa á þessar tölur til þess að komast að þeirri niðurstöðu að lögin um skyldusparnað ungs fólks hafa bersýnilega ekki náð tilgangi sínum. Stór hópur ungs fólks er undanþeginn skyldusparnaði. Skv. núgildandi lögum eru námsmenn, sem stunda nám í skóla sex mánuði á ári eða meira, undanþegnir skyldusparnaði, einnig þeir sem hafa stofnað heimili, keypt sér íbúð, hafa barn eða aðra skylduómaga á framfæri, þeir sem búa við varanlega örorku. Þeir geta því sótt um að fá skyldusparnaðinn endurgreiddan eftir hvert ár. Tölurnar um innstreymi og útstreymi sýna þessar hreyfingar. Árið 1983 voru greiddar inn í Byggingarsjóð ríkisins vegna skyldusparnaðar ungs fólks 351 millj. kr. Vegna undanþáguákvæða, eins og ég var að lýsa, var tekið út úr sjóðnum og greitt til þeirra, sem höfðu fengið viðurkennda undanþágu, litlu meira, þ.e. 359 millj. kr., þannig að mismunurinn er neikvæður. 8 millj. meira var tekið út úr sjóðnum en lagt var inn í hann árið 1983. Sömu sögu er að segja um árin 1984 og 1985. Það er tekið meira út úr sjóðnum en nemur greiðslum til sjóðsins vegna skyldusparnaðar á þeim árum. Staðan lagast eilítið á árinu 1986 og aftur 1987. Árið 1987 eru greiddar til Byggingarsjóðs ríkisins vegna skyldusparnaðar ungs fólks 1110 millj. kr., en út er tekið vegna undanþáguákvæðanna 1025 millj. kr. Af rúmum milljarði kr., sem fer til Byggingarsjóðs ríkisins vegna skyldusparnaðar, er nánast sama upphæð tekin út aftur vegna undanþáguákvæðanna þannig að eftir sitja í sjóðnum aðeins 85 millj. Það er því alveg bersýnilegt að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Skyldusparnaðurinn virkar ekki sem skyldi.

Skyldusparnaður ungs fólks er settur á með lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins eins og hún hét þá og er þessu lýst nánar í lögum nr. 42/1957. Frá Húsnæðisstofnun ríkisins hef ég fengið mjög ítarlega og fróðlega greinargerð um þróun skyldusparnaðar og ýmiss konar ákvæða varðandi skyldusparnað frá því að þessi lög voru sett og ætla ég að fá að lesa glefsur úr þessari greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:

Í lögum nr. 42/1957 er í fyrsta sinni ákvæði um skyldu til sparnaðar til íbúðarbygginga eða bústofnunar í sveit.

Fé ávaxtað í Byggingarsjóði ríkisins eða eftir atvikum í veðdeild Búnaðarbanka Íslands, þeirra sem eru í sveit.

Nær til einstaklinga 16–25 ára.

6% af launum greidd í peningum eða sambærilegum atvinnutekjum.

Fé í sjóðnum er undanþegið tekjuskatti og útsvari.

Við 26 ára aldur, hjúskap og heimilisstofnun er féð greitt út.

Fé þá greitt út að viðbættum vöxtum og uppbótum vegna vísitöluhækkunar sem greidd er af vísitölubundnum verðbréfum á innlánstímanum.

Forgangur til lána frá húsnæðismálastjórn. Lán megi vera allt að 25% hærri en almennt gerist. Þó ekki yfir 2/3 af matsverði viðkomandi íbúðar. Sparifjársöfnun verður að vera a.m.k. 25 000 kr.

Í 10. gr. laga nr. 42/1957 er átt við vísitölu framfærslukostnaðar.

Álag reiknað að fullu í samræmi við hækkun nefndrar vísitölu og hagað þannig í framkvæmd. Frá 1964 var farið að greiða fullar vísitölubætur á sparifé samkvæmt kaupgreiðsluvísitölu, sbr. lög nr. 63/1964 um verðtryggingu lána og síðar 5. gr. laga nr. 19/1965 um Húsnæðismálastofnun ríkisins, en þá voru einmitt sett ný lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Í þeim lögum er gengið út frá fullri vísitölutryggingu sparifjár eins og í eldri lögum, en hins vegar er nú miðað við kaupgreiðsluvísitölu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1965.

Frá 1964 var farið að greiða fullar vísitölubætur á skyldusparnað á grundvelli kaupgreiðsluvísitölu. 1968 er gerð breyting á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem skipta miklu máli, þ.e. lög nr. 21/1968, en þá eru lögtekin ákvæði um vísitölutryggingu lána og sparifjár.

1. málsl. 3. málsgr. 10. gr. þessara laga hljóðar svo: „Þegar sá sem sparað hefur fé eða lagt í sjóð skv. 1. málsgr. hefur náð 26 ára aldri eða stofnað til hjúskapar, verði það fyrr, skal hann eiga þess kost að fá sparifé sitt endurgreitt skv. 1. málsgr. með 4% vöxtum frá þeim tíma er það var lagt inn og með viðbót samkvæmt kaupvísitölu.“

Í nýjum lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1970, lögum nr. 30, er sama orðalag í 3. málsgr. 11. gr. Öll árin 1957 til 1964 var greidd full vísitöluuppbót á skyldusparnaðarfé.

Húsnæðismálastjórn fól í kjölfar nýrra laga frá 1970 Gauki Jörundssyni að semja grg. um þetta atriði og skila tillögum. Gaukur taldi mjög hæpið að skýra hefði átt lög nr. 21/1968 á þá leið að við endurgreiðslu skyldusparnaðarfjár skyldi aðeins greiða álag er næmi helmingi hækkunar á kaupvísitölu á innlánstímanum, enda þótt þeim skilningi hefði verið fylgt í framkvæmd. Það er sú starfsregla sem var viðtekin frá 1964, en áður hafði verið greidd full vísitöluuppbót á skyldusparnaðarfé. Gaukur taldi því að það ætti að greiða fulla vísitölu.

Í framhaldi af niðurstöðum Gauks sendi félmrn. bréf til húsnæðismálastjórnar, en þar segir m.a. eftirfarandi: „Fram til gildistöku laga nr. 21/1968 var skylt að lögum að greiða fullar vísitölubætur á skyldusparnaðarfé, enda lagaframkvæmd á þann veg. Ef skýra ætti lög nr. 21/1968, 5. gr., á þann veg að eftirleiðis ætti að endurgreiða skyldusparnað með álagi er aðeins svaraði til helmings vísitöluhækkunar hefði þar verið um mjög veigamikla breytingu að ræða frá fyrri lögum sem ekkert benti til að ætlunin hafi verið þótt ný vísitala kæmi til, svonefnd kaupvísitala, þ.e. ekkert hafi komið fram í grg. eða umræðum í þá veru. Ráðuneytið leggur fyrir húsnæðismálastjórn að vangreitt álag kaupvísitölu frá gildistöku laga nr. 21/1968 verði leiðrétt svo fljótt sem verða má. Það er því félmrn. sem leggur til við húsnæðismálastjórn að það beri að leiðrétta hálfa vísitölu í heila fyrir allt tímabilið 1957–1964.

Árið 1974 var það gert og leiðréttingar sendar út. Þessar leiðréttingar vekja óánægju einhverra og spurningar vakna um rétta meðferð við þær. Í blaðagrein skrifar Vilhjálmur Bjarnason m.a. eftirfarandi um það sem hann kallar mistök veðdeildar Landsbanka Íslands við leiðréttingarnar og rekur athugasemdir í þrem liðum:

„Mistök veðdeildarinnar við leiðréttinguna voru eftirfarandi:

1. Vísitölubætur voru reiknaðar á lægstu upphæð sem er inni á reikningnum á árinu. Þannig reiknast engar vísitölubætur fyrsta árið sem upphæð er inni á reikningi. T.d. 100 kr. lagðar inn 15. febr. 1974. Þá eru fyrst reiknaðar vísitölubætur 1. febr. 1975.

2. Veðdeild reiknar einungis með þeim prósentuhækkunum sem hafa orðið á vísitölunni frá því seinast voru reiknaðar vísitölubætur og prósentuhækkunin aðeins látin ná yfir höfuðstól plús vexti en hækkun í stigum ekki mæld miðað við þá vísitölu sem í gildi var á innborgunardegi.“

Veðdeildin svaraði þessum aðfinnslum þannig að e.t.v. þurfi að reikna vísitölubætur oftar en gert er en til þess skorti lagaheimild. Þannig er bæði fundið að reikningsaðferð við leiðréttingarnar og eins að vísitölubætur eru lagðar á sérreikning sem var vaxtalaus.

Í þágildandi lögum nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins segir í 11. gr.: „Þegar sá sem hefur sparað fé og lagt í sjóð skv. 1. málsgr. hefur náð 26 ára aldri eða stofnað til hjúskapar, verði það fyrr, kaupir eða byggir íbúð til eigin þarfa, sbr. e-lið Í 2. gr., skal hann eiga þess kost að fá endurgreitt sparifé sitt skv. 1. málsgr. með 4% vöxtum frá þeim tíma er það var inn lagt og með viðbót samkvæmt kaupvísitölu, sbr. 5. málsl. 5. gr. Enn fremur skulu þeir sitja fyrir um lán til íbúðabygginga úr húsnæðismálastjórn og mega þau lán vera allt að 25% hærri en almennt gerist, þó eigi yfir 3/4 af matsverði viðkomandi íbúðar. Þessi forgangsréttur til lána er þó bundinn því skilyrði að sparifjársöfnun þeirra sem að byggingu hlutaðeigandi íbúðar standa nemi samanlagt a.m.k. 150 þús. kr.

Hinn 17. febr. 1975 ritar Seðlabanki Íslands bréf til veðdeildar Landsbanka Íslands, en málið virðist þá hafa verið borið undir Seðlabankann. Seðlabankinn tíundar þar þau atriði sem að hans mati þarfnast athugunar.

1. Hvort rétt sé að reikna vísitölubætur tíðar, t.d. allt að fjórum sinnum á ári í stað einu sinni á ári eins og nú er gert. Orðalag ofannefndrar greinar gæti bent til hins fyrra.

2. Hvort núverandi framkvæmd endurgreiðslu skyldusparnaðar sé samrýmanleg ofangreindum lagaákvæðum eins og þau hafa verið frá 1970.

3. Hvort vísitölubætur skuli greiddar af vöxtum og vextir af vísitölubótum. Orðalagið virðist mjög opið þannig að túlka mætti á hvorn veginn sem er.

Félmrn. felur síðan Gauki Jörundssyni prófessor enn að semja álit sem virðist vera takmarkað við eftirfarandi: Hvort skýra beri umrætt ákvæði í 11. gr. laga nr. 30/1970 svo að reikna beri fjórum sinnum á ári vísitölubætur á skyldusparifé samkvæmt nefndum lögum, þar á meðal hvernig skýra beri tilvísun í 5. málsgr. 5. gr. í niðurlagi ákvæðisins.

Þann 25. apríl 1975 svarar Gaukur erindi ráðuneytisins á eftirfarandi hátt: „Að vísu hefur takmarkaða þýðingu að skera úr því hvort vísitölubætur á skyldusparnaðarfé skuli reiknaðar fjórum sinnum á ári eða aðeins einu sinni á ári þar sem önnur atriði tilhögunar á útreikningi þess álags skipta meginmáli. Ef reikna á vísitölu oftar en einu sinni á ári, þ.e. fjórum sinnum, er lágmarkskrafa til útreiknings sú að reiknað sé álag á innistæðu á hverju undanförnu þriggja mánaða tímabili, e.t.v. þá innistæðu sem er fyrir hendi í upphafi hvers tímabils. Orðalag 5. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1970 er fyrst og fremst að ákveða þá vísitölu sem vísitöluhækkun skuldabréfa Byggingarsjóðs ríkisins og húsnæðismálastjórnar skuli miðast við.

1. Hér er um lögþvingaðan sparnað að ræða.

2. Sparifé á að endurgreiðast með vísitöluálagi, þ.e. sparifé á að endurgreiðast án verðrýrnunar.

Velja beri þann kost sem sé hagstæðari sparifjáreigendum og tryggir best fullt álag samkvæmt vísitölu.“

Til að fara fljótt yfir sögu var það að lokum niðurstaðan að það skyldi farið í prófmál út af útreikningi verðbóta og vaxta á því sparifé sem skyldusparnaðarþolar áttu inni hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Það var í júní 1976 að félmrh. ákvað að það skyldi farin þessi leið og fól Ingólfi Hjartarsyni hdl. að undirbúa prófmálið og gæta hagsmuna Byggingarsjóðs ríkisins. Á sama tíma fór félmrn. þess á leit við Gunnar M. Guðmundsson hrl. að hann færi með þetta prófmál fyrir hönd skyldusparandans og féllst Gunnar á það. Í maímánuði 1976 hafði Gunnar höfðað mál á hendur fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs vegna ætlaðs vangreidds vísitöluálags á skyldusparnaðarfé Hólmfríðar Sigurðardóttur. Þetta mál var ekki talið svara til þeirra krafna sem gera yrði til prófmáls. Framhaldið er síðan ljóst. Fundinn var skyldusparandi, Gunnar H. Baldursson, mál höfðað og endanleg niðurstaða fékkst ekki fyrr en tíu árum síðar, þ.e. með dómi sem var kveðinn upp í Hæstarétti þann 24. mars 1986.

Það er athyglisvert þegar farið er yfir þessa sögu að nær allan tímann hefur deilan staðið um með hvaða hætti skyldi reikna vexti og verðbætur á það fé sem unga fólkið hefur verið lögþvingað til að greiða til Byggingarsjóðs ríkisins sem skyldusparnað.

Flm. þessa frv., þ.e. við þm. Borgarafl., eru sammála því meginmarkmiði með lagasetningu um skyldusparnað að ungu fólki sé auðveldað að eignast eigið húsnæði. En þá vaknar spurningin: Hefur því markmiði verið náð með því að karpa í 30 ár um vexti og verðbætur af skyldusparnaðinum eða sparifé unga fólksins í stað þess að leggja meiri áherslu á að leysa húsnæðisþörf ungs fólks, gefa því kost á að eignast íbúð með skyldusparnaði sínum?

Eins og ég gat um í upphafi máls míns er alveg augljóst að þetta veigamikla atriði, sem hlýtur að vera meginmarkmiðið með lagasetningu sem þeirri að lögþvinga ungt fólk til að spara saman fé til að gera því auðveldara að eignast eigið húsnæði, hefur ekki náðst. Það staðfesta þær tölur sem ég fór með áðan um innstreymi og útstreymi vegna skyldusparnaðargreiðslna í Byggingarsjóð ríkisins. Þess vegna þarf að hugsa þetta mál alveg upp á nýtt. Það þarf að finna einhverja aðra aðferð til að nota skyldusparnaðinn, það sparifé sem þannig myndast, á þann hátt að það sé fyrst og fremst hugsað um það meginmarkmið að leysa húsnæðisþörf ungs fólks. Því leggjum við þm. Borgarafl. til að það verði gerðar veigamiklar breytingar á lögunum um skyldusparnað ungs fólks þar sem verði lögð áhersla á að leysa húsnæðisþörf ungs fólks. Við viljum gera það með tvennum hætti:

Í fyrsta lagi leggjum við til að fyrir það fé sem safnast saman í Byggingarsjóð ríkisins vegna skyldusparnaðar verði byggðar sérstakar leiguíbúðir og eignaríbúðir sem ungt fólk á skyldusparnaðaraldri hafi forgang það, þ.e. það unga fólk sem ákveður að hafa sparifé sitt inni hjá Byggingarsjóði ríkisins. Við viljum ekki hrófla við undanþáguákvæðunum, við teljum rétt að þau séu áfram í lögunum, þannig að námsfólki, sem hefur ekki efni á því að skilja eftir skyldusparnaðinn í Byggingarsjóði ríkisins vegna tímabundins mikils kostnaðar vegna skólanáms, eins þeim sem búa við varanlega örorku og öðrum þeim, sem einhverra hluta vegna geta ekki séð af því fé sem annars á að renna til skyldusparnaðar, verði gert kleift að fá endurgreitt sparifé sitt árlega eins og verið hefur. En við viljum hins vegar verðlauna þá sem ákveða að hafa sparifé sitt inni í Byggingarsjóði ríkisins með þeim hætti að þeir fái forgang að ódýrum leigu- og eignaríbúðum sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefði þá frumkvæði um að byggðar verði í samvinnu við ýmis samtök, sveitarfélög og félagasamtök, m.a. samtök námsmanna, Félagsstofnun stúdenta svo dæmi séu nefnd. Slíkar íbúðir verði byggðar fyrir það fé sem þannig myndast í Byggingarsjóði ríkisins.

Ég er alveg sannfærður um það að sjái unga fólkið einhvern tilgang með skyldusparnaðinum, þannig að það geti leitt til þess að það fái aðgang að hentugum leiguíbúðum, yrði miklu minni ásókn í að fá skyldusparnaðinn endurgreiddan. Það hefur verið þannig öll þessi ár að unga fólkið hefur í raun ekki séð neinn tilgang með skyldusparnaðinum. Því er ástandið eins og ég lýsti því. Unga fólkið leitast við, það reynir að leita allra leiða til að ná fénu út jafnharðan aftur og það hefur verið greitt til Byggingarsjóðsins og hefur verið gripið til ýmissa örþrifaráða í þeim efnum. Allir þekkja hugtakið „sparimerkjagifting“. Það hefur gengið svo langt að ungt fólk á skyldusparnaðaraldri, sem t.d. ekki stundar skólanám eða á annan hátt getur notfært sér þau undanþáguákvæði sem eru í lögunum, hefur gift sig til þess að báðir aðilar geti náð út skyldusparnaðinum, stofnað á pappírunum til hjónabands og síðan skilið jafnharðan aftur þegar búið er að ná út skyldusparnaðinum. Þetta sýnir og sannar betur en nokkuð annað dæmi að unga fólkið sér engan tilgang með skyldusparnaðinum eins og honum hefur verið háttað.

Ef það hins vegar vissi að með því að halda skyldusparnaðinum inni í Byggingarsjóði ríkisins gæti það tryggt aðgang að ódýru leiguhúsnæði, þá er ég viss um að menn mundu hugsa dæmið upp á nýtt og vera ásáttir við að greiða skyldusparnaðinn til Byggingarsjóðsins.

Ég sé fyrir mér tvær leiðir í þessu sambandi. Annars vegar að skyldusparnaðarþoli geri sérstakan samning við Byggingarsjóð ríkisins um að sparifé hans verði ávaxtað með þeim hætti að hann eignist smám saman eignarhlut í íbúð sem Húsnæðisstofnun lætur þá byggja í þeim tilgangi sérstaklega í samvinnu við sveitarfélög og ýmis félagasamtök. Að skyldusparnaðartímabilinu loknu, þegar viðkomandi hefur náð 26 ára aldri, fær hann hreinlega afhent afsal fyrir eignarhluta í slíkri íbúð. Að sjálfsögðu fær hann þá um leið kost á húsnæðisláni þannig að hann geti keypt íbúðina og eignast hana að fullu eða, ef aðstæður eru þannig, að honum sé heimilt að selja eignarhlut sinn á markaðsverði. Er Húsnæðisstofnun ríkisins skylt að leysa til sín eignarhlut viðkomandi. Til þess að hafa eins mikið frjálsræði í þessu og hægt er höfum við líka talið að það sé eðlilegt að skyldusparnaðarþoli geti óskað eftir því að sparifé hans verði ávaxtað með venjulegum hætti, þ.e. að það verði lagt inn á reikning og reiknaðar verðbætur og vextir á höfuðstólinn. Hann fái síðan sparifé sitt endurgreitt að skyldusparnaðartímabilinu loknu þannig að það hafi verið ávaxtað á venjulegan hátt. Hins vegar teljum við eðlilegt að ávöxtunarkjörin séu betri en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, en þar segir að vextir á sparifé vegna skyldusparnaðar skuli vera hinir sömu og útlánsvextir Húsnæðisstofnunar vegna húsnæðislána. Þetta þýðir að vextir af sparireikningum hjá Húsnæðisstofnun eru 3,5%. Að vísu er síðan full verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu, en þessir vextir eru þó lægri en þeir vextir sem bjóðast af bundnum verðtryggðum bankareikningum og mun lægri en vextir af verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs. Við teljum eðlilegt að þeir sem leggja til hliðar hluta af tekjum sínum til skyldusparnaðar fái a.m.k. jafngóð kjör og ríkisviðskiptabankarnir bjóða af bundnum sparireikningum hverju sinni.

Kjósi skyldusparnaðarþoli að ávaxta fé sitt með þessum hætti ætti hann eftir sem áður að geta fengið aðgang að þeim leiguíbúðum sem Húsnæðisstofnun mundi byggja fyrir það fé sem safnast inn í Byggingarsjóðinn vegna skyldusparnaðar, en hann mundi að sjálfsögðu ekki eignast eignarhlut í íbúð. Til þess að svo verði verður hann að velja fyrri ávöxtunarleiðina þar sem hann gerir samning við Húsnæðisstofnun um að eignast eignarhlut í íbúð sem Húsnæðisstofnun hefur þá frumkvæði um að verði byggð á skyldusparnaðartímabilinu, eins og ég gat um í samvinnu við ýmis samtök og sveitarfélög.

Ef þær aðgerðir, sem hér eru lagðar til, næðu fram að ganga má búast við því, eins og ég hef reyndar áður vikið að, að ásókn í að ná út skyldusparnaðinum mundi minnka stórlega. Það er líklegt að flestir mundu kjósa að gera samning við Húsnæðisstofnun um að binda sparifé sitt í íbúð fremur en njóta venjulegrar ávöxtunar. Ég hef rætt þetta við fjölmörg ungmenni, einkum þó námsfólk, og spurt þau að því hvort þau mundu geta hugsað sér að reyna að herða mittisólina og lifa sparar á námstímanum og halda skyldusparnaðinum inni hjá Húsnæðisstofnun ríkisins ef þau með þeim hætti eignuðust eignarhlut í íbúð sem þau fengju afsal fyrir að skyldusparnaðartímabilinu loknu og samtímis því tilboð um húsnæðislán til að kaupa íbúðina að fullu. Flestir hafa svarað því játandi, að þeir mundu leggja mjög hart að sér til að geta náð þessu.

Hin leiðin er að halda fénu inni, en það verði ávaxtað með venjulegum hætti. Engu að síður fengju skyldusparendur forgang að hentugum leiguíbúðum sem yrðu þá byggðar fyrir þessa fjármuni. Þá er svarið það sama, að ef viðkomandi hefði kosið þá leið mundi hann leggja mjög hart að sér að halda skyldusparnaðinum inni til þess þó að geta haft aðgang að hentugum leiguíbúðum.

Þá er spurt: Eru nokkrir fjármunir til að byggja þessar leigu- og eignaríbúðir? Ef við lítum á innstreymi til sjóðsins og hugsum okkar að með þessum aðgerðum væri hægt að stöðva þó ekki væri nema helminginn af innstreyminu í sjóðnum þannig að útstreymið minnkaði um helming, undanþáguákvæðin yrðu ekki nýtt nema að hluta til, hefði fyrir árið 1987 verið laust fé til að byggja hentugar leigu- og eignaríbúðir sem nam 560 millj. Fyrir þetta fé hefði mátt byggja og ráðstafa allt að 150–170 íbúðum til ungs fólks á einu ári. Á árunum 1982–1987 hefði mátt byggja tæplega 1000 íbúðir fyrir ungt fólk með þessum hætti og stórt skref hefði verið stigið til þess að leysa húsnæðisvandamál ungs fólks.

Varðandi einstakar lagagreinar er ekki mikið að segja. Við höfum gert nokkrar orðalagsbreytingar á sumum lagagreinunum. Okkur þóttu þær vera í mörgum tilvikum óskýrar og í sumum tilvikum var um að ræða að hliðstæð ákvæði var að finna í mörgum lagagreinum. T.d. koma undanþáguákvæðin fram í tveimur lagagreinum í núgildandi lögum. Þannig höfum við í 71. gr. safnað saman öllum nauðsynlegum ákvæðum varðandi innheimtu skyldusparnaðar og hver er ábyrgð launagreiðanda sem á að halda eftir 15% af tekjum og skila til Byggingarsjóðs ríkisins.

Í 72. gr. er lýst yfir megintilgangi okkar með þessari lagasetningu, að allt það fé sem safnast í Byggingarsjóð ríkisins vegna skyldusparnaðar skuli notað til að byggja leigu- og eða eignaríbúðir fyrir ungt fólk.

Í 73. gr. er lýst hinum tveimur mismunandi ávöxtunarleiðum sem standa til boða þeim sem ber að greiða skyldusparnað til Byggingarsjóðs ríkisins. Svo að ég endurtaki hvað vakir fyrir okkur getur viðkomandi í fyrsta lagi óskað eftir því að fé hans verði ávaxtað með þeim hætti að hann eignist smám saman hlut í íbúð sem byggð hefur verið í þeim tilgangi. Hægt er að hugsa sér að viðkomandi fái íbúðina til leigu á meðan skyldusparnaðartímabil hans stendur yfir. Að því loknu fær hann lán hjá Byggingarsjóði ríkisins til þess að eignast íbúðina ef hann óskar þess. Eins er hægt að hugsa sér að sérstakar eignaríbúðir verði byggðar fyrir þá sem hafa gert samning við Húsnæðisstofnun um að ávaxta sparifé sitt á þann hátt.

Að sjálfsögðu eru margir lausir endar sem á eftir að hnýta í þessum tillögum, enda þyrfti að semja um þetta reglugerð, en ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar tillögur mundu á margan hátt geta orðið til þess að leysa vandamál, sem þarf að leysa, þ.e. mikla húsnæðiseklu sem er orðin mjög áberandi síðari árin. Það er að verða neyðarástand, einkum í húsnæðismálum námsfólks, svo að maður tali ekki um námsfólk sem þarf að koma utan af landi til höfuðborgarsvæðisins til að stunda nám í bæði háskóla og ýmsum sérskólum. Það á í miklum erfiðleikum með að finna húsnæði meðan það er við nám.

Í 74. gr. höfum við safnað saman öllum ákvæðum sem eru í núgildandi lögum um undanþágu frá skyldusparnaði, hverjir geta fengið undanþágu og vegna hvers.

Að lokum er 75. gr. Þar höfum við aðeins breytt orðalagi lítillega.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki þessi orð fleiri og hef lokið máli mínu.