17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4676 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um húsnæðismál og er það eðlilegt. Svo lengi sem ég hef fylgst með stjórnmálum hafa umræður af þessu tagi verið snar þáttur í hinni pólitísku umræðu, hvort sem við höfum talað um það hér á Alþingi eða hvort talað hefur verið um það í borgarstjórn og einstökum sveitarfélögum eftir því sem á stendur á hverjum stað, og er það skiljanlegt þar sem það ríki sem við búum í er ungt og stendur ekki á gömlum merg þannig að við höfum á mjög stuttum tíma orðið að byggja okkar land upp og er það auðvitað gömul staðreynd, sem við þekkjum allir, að þeir sigrar sem við höfum unnið í húsnæðismálum eru meiri en orð fá lýst borið saman við það ástand sem var t.d. þegar ég var að alast upp í Reykjavík fyrir 30–40 árum. Það er mjög ólíku saman að jafna.

Eins og áður er það auðvitað svo að óskirnar eru meiri en við höfum fjármagn til að standa undir. Við endurskoðun á húsnæðislögum, ég hygg að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, var þar ákveðið tekið inn í 32. gr. húsnæðislaganna, e-lið, að heimilt væri að lána úr Byggingarsjóði verkamanna félagasamtökum eða sveitarfélögum sem vildu standa fyrir byggingu leiguíbúða fyrir námsmenn og er í þeirri grein gert ráð fyrir að 85% lánsfjárins verði með 1% vöxtum til 30 ára og afborgunarlaust í tvö ár. Þetta var almenn yfirlýsing löggjafans um að hann gerði sér grein fyrir þeim mikla vanda sem ýmsir námsmenn standa frammi fyrir þegar þeir hafa náð þrítugsaldrinum, þegar þeir hafa kvatt föðurhúsin og eru að stíga sín fyrstu skref í lífinu. Á hinn bóginn verður að viðurkennast að við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga hefur ekki tekist að leggja til hliðar nægilega mikið fé til að fullnægja í grófum dráttum þeirri eftirspurn sem verið hefur hjá námsmönnum eftir ódýrum leiguíbúðum. Það frv. sem hér er lagt fram, þótt samþykkt yrði, breytir engu um það. Hér er einungis verið að leggja til að fé sem sjóðurinn hefur til umráða verði varið til að byggja íbúðir fyrir námsmenn. Þessar fjárhæðir eru ekki meiri en svo, sem þar er talað um, að miklu meiri fjármunum er á hverju ári varið til þessara þarfa hvort sem er. Það nýja fé, sem talað er um að komi inn, er þá frá hópum sem eiga kost á því að fá peningana til baka og auðvitað vitum við að þar er ekki um þær fjárhæðir að ræða að neinum úrslitum ráði. Það er alveg ljóst.

Ef við hugsum um ung hjón sem stofna heimili eiga þau kost skv. núgildandi lögum á því að fá skyldusparnaðinn greiddan út, eins námsmenn. Í flestum tilvikum er ekki um svo háar fjárhæðir að ræða að dragi neitt til byggingar nýrrar íbúðar. Við erum því ekki að tala þarna um neitt sem skiptir sköpum. Aðalatriðið er hitt að fjármagn er mjög dýrt hér á landi. Það er af skornum skammti. Það eru ekki mörg ár síðan að við neyddumst til þess að afla fjármagns til byggingarsjóðanna með erlendum lántökum. Það er ekki mjög langt síðan að það var, nokkur ár. Síðan hefur það þó áunnist að tekist hefur með hjálp lífeyrissjóðanna að afla þessa fjár innan lands og þó svo að mikil eftirspurn sé eftir þessum lánum og meiri en hægt er að rísa undir, bæði vegna þess að peningar eru af skornum skammti og líka vegna hins að mikil þensla er í byggingariðnaðinum, þannig að óráðlegt væri að hleypa inn á markaðinn því fé sem nægja mundi til að fullnægja öllum óskum, þá eru úrbæturnar gífurlega miklar á þessum stutta tíma.

Ég ætla ekki, herra forseti, í þessari ræðu að fara ítarlega út í þær mismunandi hugmyndir sem fram hafa komið um hvernig best sé að standa að húsnæðismálunum í bráð og lengd. Það mál mun ég gera að umræðuefni við annað tækifæri. En ég vil aðeins leggja áherslu á þetta: að í lögum eru fullnægjandi heimildir til að koma myndarlega til móts við þá sem vilja standa fyrir byggingum fyrir námsmenn, sem eru hér í Reykjavík fyrst og fremst stúdentagarðarnir og samtök sérskólanema í öðrum skólum. Það eru fullnægjandi lagaheimildir út af fyrir sig fyrir því að hægt sé að gera meira í sambandi við húsnæðismál öryrkja og í sambandi við húsnæðismál aldraðra. Það eru líka til húsnæðislög um nægilegar heimildir fyrir því að láglaunafólk, eins og verkamenn t.d., geti fengið verkamannabústaði með þeim kjörum sem þar er boðið upp á. Þá er gert ráð fyrir 85% láni til 40 ára afborgunarlaust í þrjú ár og jafnframt gert ráð fyrir því að þau 15% sem upp á vanti séu lánuð úr Byggingarsjóði verkamanna til skamms tíma, þriggja ára má ég segja, til að auðvelda þessu fólki þannig að eignast húsnæði með viðráðanlegum kjörum. Allar þessar heimildir eru fyrir hendi. Í öllum þessum dæmum erum við að tala um 1% vexti. Á hinn bóginn er meira kvíðaefni fyrir menn hvernig við hugsum okkur til frambúðar að standa undir þeim miklu skuldbindingum, bæði fyrirheitunum sem gefin hafa verið í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna og eins raunar í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins, og hvernig þær muni leika þessa sjóði og hvað möguleika við höfum til frambúðar til að standa undir þeim mikla vaxtamun sem þar er um að ræða og vaxandi framlögum úr ríkissjóði. Það er auðvitað mjög mikið áhyggjuefni núna.

Ég hef tekið þátt í nefndarstarfi um húsnæðismál að ég hygg í fimm eða sex ár samfleytt og heyrt ýmsar hugmyndir sem fram hafa komið um hvernig æskilegt væri að búa að ungu fólki, öldruðum og öryrkjum ekki síst og þeim sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Það skortir ekki hugmyndir og tillögur um hvernig við viljum hafa slíkt kerfi. Það sem á hinn bóginn hefur alltaf vantað er að afla þess ódýra fjármagns sem þarf til að uppfylla þessar óskir. Þetta fjármagn verður ekki til af engu, það verður ekki hægt að útvega það nema með því að leggja þyngri byrðar á aðra. Ég held ég geti fullyrt, af því ég sé að einn fyrrv. húsnæðisráðherra gekk í salinn sem vildi beita sér og beitti sér fyrir miklum breytingum og umbótum á húsnæðislöggjöfinni, að hann átti á sínum tíma, eins og sú ríkisstjórn sem nú situr, í eilífu stríði við þetta eitt, að afla fjármagnsins. Þar eru ekki til neinar skyndilausnir sem ekki kosta neitt. Þetta vil ég að fram komi.

Á hinn bóginn vil ég líka að fram komi að vilji flm. er mikill til að leysa þessi vandamál, sem brenna vissulega á mörgum, bæði úti á landi og hér, en tilfærsla á fjármunum innan húsnæðislánakerfisins skiptir ekki máli þegar við lítum á heildarfjárhæðina og sá sparnaður, sem hér er gefinn í skyn, er sýnd veiði en ekki gefin.

Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég kom of seint á fundinn og þurfti aðeins að snúast eftir fund þannig að ég hef misst af því ef flm. hafa gert grein fyrir því hvað þeir byggjust við um þær íbúðir sem er talað um skv. 72. gr. Hér er talað um leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk sem þess óskar. Það hefði verið fróðlegt að fá upplýsingar um það, sem e.t.v. hafa verið gefnar í umræðunum og þá get ég kynnt mér það síðar ef svo er, hvað gert er ráð fyrir stórum íbúðum, hvort gert er ráð fyrir því að viðkomandi hafi þessar íbúðir til æviloka ef þeir óska, hvert gert er ráð fyrir að sanngjarnt endurgjald sé fyrir það fjármagn sem lagt er í íbúðina. Allt skiptir þetta auðvitað verulegu máli. Það hefur verið gerð úttekt á því norður á Akureyri í sambandi við hugsanlegar byggingar á stúdentaíbúðum fyrir háskólann þar hvað hægt sé að gera ráð fyrir að hver íbúð megi kosta mikið. Við höfum miðað þá við 3 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir að I5% af því fé verði lagt fram í eitt skipti fyrir öll þannig að það verði ekki krafist endurgjalds fyrir þá fjármuni og gert ráð fyrir því að hin 85% séu með 1% vöxtum til 30 ára. Við gerum ráð fyrir því að það sé námsmönnum ekki ofviða að standa undir slíkum kostnaði ásamt eðlilegu viðhaldi og fasteignagjöldum af viðkomandi íbúð og þá erum við að tala um stærstu íbúðir sem til greina geta komið. En þetta er allt matsatriði. Vonandi gefst ráðrúm til að ræða það frekar í tengslum við þau frv. sem nú eru í undirbúningi hjá húsnæðisráðherra.