17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4685 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

256. mál, almannatryggingar

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta þarf ekki að vera langt mál. Ég ætla aðeins að lýsa eindregnum stuðningi mínum við þessa till. Það er rétt sem kemur fram í grg. með tillögunni að augnsjúkdómar eru ættgengir. Þar af leiðir að í sömu fjölskyldunni geta verið mörg börn sem þurfa á gleraugum að halda. Þess vegna er mjög brýnt að það sé komið til móts við þetta fólk.

Ég hef líka rekist á það t.d. með gamalt fólk sem er inni á stofnunum og hefur þessa svokölluðu vasapeninga að það er vandamál fyrir það að fá ekki gleraugun út úr almannatryggingum. Að vísu greiða sveitarfélögin eða félagsmálastofnanir sjálfsagt fyrir þetta fólk eftir beiðni, en það er nú einu sinni það sem er algjört eitur í þess beinum. Það er einhvern veginn auðveldara með það sem kemur beint frá Tryggingastofnuninni.

Ég lýsi ánægju minni yfir því sem hæstv. heilbrrh. segir að það sé í fullum gangi og unnið af krafti að því að endurskoða tryggingalöggjöfina og vona að hann fylgi því vel og vandlega eftir. En það breytir engu um það að það hafa komið hér fram tillögur um ýmsa hópa, sem hafa sitt lífsviðurværi stundum og ýmsa hjálp úr almannatryggingum, sem þarf að bæta fyrir strax því að ég hef satt að segja ekki trú á því þó að ég beri mjög gott traust til hæstv. núv. ráðherra að hann taki svo mikið fram þeim sem hafa setið á undan honum að það verði mjög hraður gangur í þessu.

Ég skal ekki lengja mál mitt meira en lýsi eindregnum stuðningi mínum við tillöguna.