17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4698 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

263. mál, almannatryggingar

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt af vinnuþoli hv. þm. Það er nú aðeins liðinn rúmur klukkutími af þingfundinum og orðið heldur þunnskipað hér. Mér þætti vænt um ef forseti vildi láta gera hæstv. heilbrmrh. viðvart.

263. málið er á þskj. 562 og er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ásamt mér flytja þetta mál hv. þingkonur Kristín Einarsdóttir, Málmfriður Sigurðardóttir og Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Þannig var að góð vinkona okkar varð fyrir þeirri reynslu fyrir ári og nokkrum mánuðum betur að barnið hennar veiktist alvarlega og varð að liggja lengi og vera til læknismeðferðar á Landspítalanum, raunar svo mánuðum skipti. Þetta hafði í för með sér mikla röskun á högum allrar fjölskyldunnar, vinnutap foreldra og raunar allnokkurn launamissi. Í þessu tilfelli þurfti hins vegar ekki að koma til aðskilnaður fjölskyldu þar sem hún býr hér á höfuðborgarsvæðinu, en um alllangt skeið mátti þó heita að móðirin byggi á Landspítalanum. Öll þessi röskun bættist við þá tilfinningalegu áraun sem alvarleg veikindi eru ævinlega, ekki aðeins fyrir viðkomandi sjúkling heldur einnig og oft ekkert síður fyrir hans nánustu. Öllu þessu fékk þessi fjölskylda að kynnast, en hún vinkona okkar fékk líka að kynnast því hversu miklu erfiðari aðstæður sumra annarra geta orðið sem sækja þurfa nauðsynlega læknisþjónustu um langan veg.

Hún kynntist mæðrum sjúkra barna af landsbyggðinni sem sumar höfðu ekki séð eiginmann og systkini sjúka barnsins vikum saman og ekki notið þess styrks sem venslafólk getur veitt hvert öðru í slíkum tilvikum. Hún kynntist foreldrum sem höfðu orðið að flytjast búferlum vegna veikinda barns síns, fólki sem hafði mátt þola ótrúlega erfiðleika og fjárhagsáhyggjur ofan á allt það tilfinningalega rót sem veikindin sköpuðu, og margir voru hreinlega við það að brotna undan þessu alagi.

Reynsla vinkonu okkar varð til þess að við kvennalistakonur sáum að við svo búið mátti ekki standa, ástandið væri ekki til sóma fyrir okkar samfélag. Fyrsta skrefið var að ég beindi fsp. til þáv. hæstv. heilbrmrh. um hvernig háttað væri aðstoð við foreldra veikra barna á landsbyggðinni, sem þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimilum sínum vegna læknismeðferðar, og hvort foreldrar fengju greiddan ferðakostnað, hvernig þeim greiðslum væri háttað og í þriðja lagi hvort foreldrar hefðu í eitthvert hús að venda meðan á meðferð stæði. Fsp. var svarað í Sþ. 27. jan. 1987 og svörin leiddu í ljós, sem við raunar vissum, að aðstoð var af mjög skornum skammti og engin sérstök áform úrbætur.

Þegar við upphaflega hreyfðum þessu máli höfðum við fyrst og fremst í huga aðstæður vegna veikra barna, en þrátt fyrir nokkra sérstöðu slíkra tilfella er ljóst að þessi vandi er einnig fyrir hendi þegar um veikindi annarra náinna skyldmenna er að ræða. Að fsp. svaraðri varð niðurstaða okkar sú að þennan vanda yrði að lina með tvennum hætti. Annars vegar yrði að leysa tilfinnanlegan húsnæðisvanda fólks, sem dvelja þarf fjarri heimilum sínum vegna læknismeðferðar, og í langflestum tilfellum að sjálfsögðu hér í Reykjavík, svo að fólk þurfi a.m.k. ekki að vera þjakað af húsnæðisáhyggjum og tilheyrandi kostnaði þess vegna til viðbótar við alla aðra erfiðleika. Til þess þarf að okkar dómi engin lög, aðeins vilja, samvinnu og framkvæmdir og lögðum við kvennalistakonur fram tillögu um það skömmu eftir fyrrnefnda umræðu í Sþ. í janúar í fyrra. Sú tillaga varð reyndar ekki útrædd, en við flytjum hana aftur nú á þskj. 563 og mun ég ræða hana frekar einhvern næstu daga.

Hins vegar þótti okkur svo einboðið að tryggingakerfið yrði á einhvern hátt að koma til móts við fólk vegna þátttöku í kostnaði vegna alvarlegra veikinda þar sem sækja þarf meðferð í annað byggðarlag, kostnað vegna ferðalaga og uppihalds, svo og að bæta að einhverju marki þann launamissi sem fólk að einhverju leyti verður fyrir og getur orðið mjög tilfinnanlegur.

Það er oft svo, eins og hv. þm. þekkja vafalaust, að sjúklingar þurfa að leita læknismeðferðar til útlanda og þá gilda ákveðnar reglur um greiðslu fargjalds og uppihaldskostnaðar fylgdarmanns. Með fylgdarmanni er þá átt við lækni eða hjúkrunarkonu eða annan fylgdarmann ef brýn nauðsyn þykir til, eins og það er orðað í reglunum, en ég held að reynslan sé sú að þetta sé tiltölulega rúmt. Miklu strangari reglur gilda um kostnað vegna læknismeðferðar innan lands þótt oft sé um sambærileg tilvik að ræða.

Skv. j-lið 43. gr. laga um almannatryggingar skal greiða eins og þar segir, með leyfi forseta: „óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni með eða án innlagningar.“

Samkvæmt reglum um ferðakostnað sjúklinga innan lands nr. 70/1982 eru einungis greidd fargjöld fyrir sjúklinga og réttur til greiðslu þeirra mjög takmarkaður. Fargjald fylgdarmanns telst því aðeins ferðakostnaður að sjúklingurinn sé tólf ára eða yngri eða ósjálfbjarga. Ég held að það hljóti allir að sjá að þetta er allsendis ófullnægjandi aðstoð og geta menn nú rétt aðeins reynt að setja sig í spor foreldra 13, 14, 15 ára barna eða jafnvel eldri, hvort þeir mundu treysta sér til þess að senda þau fylgdarlaust um langan veg til þess að gangast undir læknismeðferð. Það er því engin spurning um að þessar reglur þarf að endurskoða hið fyrsta.

Engin heimild er í lögum eða reglugerð til að greiða uppihaldskostnað í þeim tilvikum þegar sjúklingur og fylgdarmaður hans þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimili vegna læknismeðferðar sem ekki er hægt að veita í heimabyggð og hér á ég að sjálfsögðu enn við þær reglur sem gilda varðandi læknismeðferð sem er unnt að veita innanlands. Það er því skoðun okkar, sem flytjum þetta frv. á þskj. 562, að samfélagið komi alls ekki nægilega til liðs við sjúklinga og aðstandendur þeirra í tilvikum sem þessum. Það er nógu þungbært, herra forseti, þegar alvarleg veikindi ber að höndum þótt ekki bætist við amstur og fjárhagsáhyggjur. Margir leggja á sig ferðalög og langar fjarvistir frá heimili og mega þola vinnutap og launamissi ofan á allt annað.

Sumir geta reitt sig á velvild ættingja eða vina um húsaskjól, en aðrir þurfa að gista hótel eða leigja fyrir stórfé. Þann vanda teljum við kvennalistakonur að samfélaginu beri að leysa með því að hafa ráð á húsnæði til leigu gegn hóflegu gjaldi fyrir aðstandendur sjúklinga, sbr. till. okkar til þál. á þskj. 563. Hins vegar þarf að tryggja með lögum aukinn rétt sjúklinga og aðstandenda þeirra til þátttöku almannatrygginga í fargjaldi og dvalarkostnaði þegar ekki er hægt að veita nauðsynlega meðferð í heimabyggð og enn fremur að tryggja rétt til dagpeninga ef veikindi náinna ættingja valda vinnu- og launatapi. Tillögur okkar í þessu efni liggja fyrir í frv. því til laga sem hér er nú til umræðu og er rétt að taka fram að við samningu þess nutum við faglegrar ráðgjafar Guðnýjar Björnsdóttur hdl., en hún hefur einmitt reynslu af umfjöllun tryggingamála og því var sú ráðgjöf okkur mikils virði og tryggir að okkar dómi að hér er um faglega vinnu að ræða og væntanlega hnökralausa.

Frvgr. eru þrjár og mun ég nú kynna þær og skýra nánar. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Eftirtaldar breytingar verði á 43. gr. laganna:

a. J-liður 1. mgr. orðist svo: Fargjöld fyrir sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar eða eftirlits hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar og fargjöld fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á.

b. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður er verði k-liður og orðist svo: Ferðastyrki til uppihaldskostnaðar sjúklings og fylgdarmanns samkvæmt j-lið ef dvelja þarf 30 daga eða lengur á tólf mánaða tímabili utan heimabyggðar. Skilyrði er að ekki sé hægt að veita sjúklingi nauðsynlega meðferð í heimabyggð. Ferðastyrkur til sjúklings miðast við dvöl hans utan sjúkrahúss. Þegar ferðastyrkur er greiddur greiðast jafnframt fargjöld án tillits til þess hvort um ítrekaðar ferðir er að ræða.

c. Á eftir 1. mgr. komi ný mgr. sem orðist svo: Tryggingaráð setur reglur um greiðslu fargjalda og ferðastyrkja samkvæmt j- og k-liðum 1. mgr. sem ráðherra staðfestir.“

Hér er um það að ræða, herra forseti, að það er gerð tillaga um að það sé kveðið skýrar á um það í hvaða tilvikum skuli greiða ferðakostnað en gert er í gildandi lögum og er sérstaklega ætlað að tryggja aukinn rétt þeirra sem verða fyrir verulegum útgjöldum vegna nauðsynlegrar dvalar utan heimabyggðar, bæði sjúklinga og aðstandenda. Ég hygg að þetta þarfnist ekki frekari skýringa við þessa umræðu, en er vitaskuld reiðubúin til þess að svara spurningum hv. þm. ef þeir hafa einhverjar.

2. gr. hljóðar svo:

„Við 45. gr. bætist ný mgr. sem orðist svo: Greiða má sjúkradagpeninga ef samlagsmaður neyðist til að leggja niður vinnu og missir launatekjur vegna alvarlegra og langvarandi veikinda barns hans, maka eða foreldris.“

Um þessa grein er það að segja að hér er gerð tillaga um nýtt heimildarákvæði í 45. gr. sem fjallar um greiðslu sjúkradagpeninga og að í þeirri heimild felist að bætt verði að nokkru fjárhagslegt tap vegna veikinda aðstandenda. Gert er ráð fyrir að ákvæðinu verði einungis beitt vegna alvarlegra og langvarandi veikinda nákominna ættingja og maka.

3. gr. er svo um gildistöku laganna og þarfnast ekki skýringa.

Ég vildi svo aðeins að lokum segja, herra forseti, að hljóti þetta frv. samþykki, svo og tillaga okkar á þskj. 563, fengist mikilvæg leiðrétting á aðstöðumun landsmanna eftir búsetu. Og vegna orða hæstv. ráðherra áðan varðandi það þingmál sem var hér fyrst til umræðu þá er vissulega gott og þarft að verið er að endurskoða tryggingalöggjöfina í heild sinni og ég vænti að þetta sé innlegg í þá endurskoðun. En ég er ekki tilbúin að fallast á að þetta mál geti beðið eftir því að þeirri endurskoðun og frágangi þeirra tillagna verði að fullu lokið. Því vonast ég til þess að þetta mál fái verðuga umfjöllun og afgreiðslu frá nefnd hið fyrsta. Og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og trn.