22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4748 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

279. mál, greiðslusamningar vegna skólamannvirkja

Flm. (Ragnar Óskarsson):

Hæstv. forseti. Mér hefur verið bent á að það væri rétt að vísa þáltill. minni til félmn. Ég hafði lagt það til að henni væri vísað til allshn. en það stafaði af ókunnugleika. Ég óska þess vegna eftir því till. verði vísað til hv. félmn.

Ég vil leyfa mér að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað við þessa umræðu og lagt þáltill. minni lið með góðum orðum. Mér finnst umræðan hafa verið þannig að hv. þm. séu reiðubúnir að íhuga gaumgæfilega möguleika á gerð greiðslusamninga, bæði vegna skulda ríkissjóðs nú og einnig með tilliti til framtíðarinnar. Þessu hlýt ég að fagna sérstaklega enda er afar brýnt að koma uppgjörsmálum í öruggan farveg svo bæði ríkissjóður og sveitarfélögin eigi auðveldara með að gera sínar áætlanir um uppbyggingu skólamannvirkja.