23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4756 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

60. mál, iðnaðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er margt sem ber til tíðinda hér í þingsölum og það seinasta sem borið er á borð fyrir þm. er það að hæstv. iðnrh. núv. sé nánast að leiðrétta mistök sem hæstv. forvera hans í starfi, Gunnar heitinn Thoroddsen, hafi orðið á á því herrans ári 1978. Þá hafi fyrir mistök hjá þáv. iðnrh. farið í gegnum þingið frv., breyting á þessum lögum, sem alls ekki hafi átt að fara í gegnum þingið. Við sem munum eftir hæstv. iðnrh. þeim sem starfaði 1978 og seinna sem forsrh., Gunnari heitnum Thoroddsen, munum eiginlega ekki eftir þeim eiginleika að hann hafi verið mjög fljótfær þegar hann var að verja mál og sækja hér í þinginu. Við munum eftir því að hann hirti suma af þeim mönnum, þar á meðal núv. hæstv. iðnrh. stundum, héðan úr ræðustól af slíkri nákvæmni að maður varð nánast hissa hve höggin voru markviss.

Ég verð að undirstrika það að mér þykir það mjög ólíklegt að hæstv. þáv. iðnrh., Gunnari heitnum Thoroddsen, hafi orðið á þau mistök að hann hafi hleypt máli í gegnum þingið sem hann hafi alls ekki ætlað að koma hér í gegn.

Og ég vil undirstrika það að þeir sem hafa kynnt sér hans málflutning um afstöðu til útlendinga og þann þjóðlega metnað sem hann hafði til að bera, og kemur víða fram í hans málflutningi, þeir hljóta að hallast að því að þar hafi ekki verið um nein mistök að ræða hvað þingið varðar.

Hitt er aftur á móti upplýst hér og nú að hann virðist hafa smyglað frv. í gegnum Sjálfstfl. án þess að þeir hefðu nokkra hugmynd um hvað þeir voru að samþykkja. Það segir náttúrlega sitt um mat hans á sínum samstarfsmönnum að hann skyldi velja þá leið að láta þetta svífa í gegnum flokkinn án þess að flokkurinn vissi nokkuð hvað hann var að samþykkja.

Ég verð að segja eins og er að það hefur þá verið unnið af sömu nákvæmni og þegar við hlýddum stundum á hans málflutning hér í þinginu. Ég fell þess vegna algjörlega frá þeirri kenningu að þar hafi verið um mistök að ræða.

Þá komum við að því orðalagi sem hér er notað og sagt að hafi verið áður í lögum, þ.e. þann texta: „enda standi sérstaklega á.“ Það er nú það. Ég verð bara að segja eins og er að mér finnst að það megi túlka þetta orðalag út og suður eins og mönnum dettur í hug. „Enda standi sérstaklega á.“ Fyrirtækið getur verið að fara á höfuðið þess vegna. Það er hægt að velja hvaða skýringu sem er. Halda menn þá að lagatúlkun þessa frv. muni byggjast á því hvað iðnn. Ed. segir í sínu nál.? Ég er hræddur um ekki. Það hefur nákvæmlega ekkert gildi ef Nd. setti annan texta inn. Eftir hvorum ætti þá að fara? Auðvitað verður lagatextinn einn og sér að vera þess eðlis að eftir honum sé hægt að túlka lögin. Auðvitað þarf að standa í lagatextanum það sem máli skiptir en ekki einhverju nál.

Aðalatriði þessa máls er náttúrlega það að gera sér grein fyrir því að Alþingi Íslendinga er að afsala sér í reynd því valdi sem það hefur til að meta það sjálfstætt á hverjum tíma hvort útlendingar eigi að hafa meirihlutaeign í fyrirtækjum hér á landi eða ekki.

Þá kemur það næsta sem er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir líka: Ef fyrirtæki starfar að íslenskum lögum þá bannar því enginn að mynda dótturfyrirtæki í þessu landi og eiga meiri hlutann í viðkomandi dótturfyrirtæki. Og hver ætlar að setja reglur um það að viðkomandi dótturfyrirtæki megi ekki eignast auðlindir hér á landi? Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir það? Það er gjörsamlega opið út og suður á alla kanta! Það er hægt að stofna 10 dótturfyrirtæki þess vegna og móðurfyrirtækið gæti átt meiri hlutann í þeim öllum.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Fyrirtækin eiga ekki að vera stór. Ég hef aldrei séð vitlausari hugsun setta fram hér en þetta: Fyrirtækin eiga ekki að vera stór. Byrjaði Eimskipafélag Íslands sem eitthvert stórt fyrirtæki? Byrjuðu Flugleiðir sem eitthvað stórt? Loftleiðir sem eitthvert stórt fyrirtæki? Ætla menn að fara að binda það hér í lagatexta að svona fyrirtæki megi ekki stækka? Á að ganga frá því alveg skipulega að svona fyrirtæki skuli aldrei stækka? Er það það sem iðnrh. er að fara fram á? Og hver er þá tilgangurinn með aðstoðinni erlendis frá ef það á ekki að vera vöxtur í fyrirtækinu?

Nei, það er ekki til heil brú í þeirri röksemdafærslu sem hér er sett upp. Og þá er von að spurt sé: Er það ekki fyrst og fremst staðreynd málsins að sá sem hér stendur telur að útlendingar eigi aldrei að eiga meiri hluta í fyrirtækjum? Er það ekki fyrst og fremst það sem um er að ræða? Ég svara því neitandi. Ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að meta það og ég tel að það séu viss rök fyrir því að stundum sé það rétt að við tökum slíka ákvörðun. En það eru mörg smámál sett fyrir þetta þing til afgreiðslu og taka hér ótal tíma.

Hvers vegna skyldi Alþingi Íslendinga skorast undan því að taka afstöðu til svona mála í hvert skipti? Það er ekkert sem mælir gegn því að Alþingi taki á svona málum og það er sjálfsagður hlutur að það geri það. En að ákveða á þennan hátt með óljósu orðalagi út í bláinn að ráðherra „ef sérstaklega stendur á“ skuli hafa þetta vald hjá sér er alveg fráleitt að mínu viti og breytir engu fyrir mig hvernig menn hafa greitt atkvæði í Ed. um þetta mál.