25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4845 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

191. mál, tjón á ljósleiðurum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör þeirra. Það var jákvætt svar sem samgrh. gaf við fyrstu spurningunni. Menn bera ótakmarkaða ábyrgð á öllu því tjóni sem af verður ef þeir slíta ljósleiðara af gáleysi og þá ber auðvitað að hafa það í huga að menn virðast ekki geta neitað því að slíkir leiðarar séu lagðir um lönd þeirra þannig að þarna er lögð á menn talsverð ábyrgð sem þeir gerðu sér ekki grein fyrir að mundi á þeim hvíla þegar þeir keyptu landið eða eignuðust það. Mér finnst nú satt að segja lítil huggun fyrir menn að þeir eigi kost á því að tryggja sig gegn slíku og geti þannig takmarkað ábyrgð sína því að hætt er við að ekki verði almennt um það að ræða og reyndar kostnaður sem því fylgir. Menn þurfa að borga tryggingariðgjöld og þar með er verið að leggja á menn kostnað sem menn reiknuðu ekki með að á þeim mundi lenda.

Hæstv. ráðherra svaraði að ekki væri ástæða til að setja ákvæði í lög um merkingar á legu ljósleiðara. Ég er ekki alveg sammála þessari niðurstöðu. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að líta nánar á þessa hlið málsins og líta reyndar nánar á hvort ekki verði að takmarka hámarksábyrgð manna í þessu sambandi. Almennt gildir held ég um þetta nýja svið hið fornkveðna að gott er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Og þó að engin mál hafi enn komið upp af þessu tagi, þá gætu þau átt eftir að koma upp, fleiri en eitt og fleiri en tvö og verða talsverð flækja áður en lýkur.

Hæstv. félmrh. gerði grein fyrir úrskurði ráðuneytisins sem ég ætla út af fyrir sig ekki að gagnrýna sérstaklega. Það er vafalaust rétt að hér var um að ræða sérhæfð lög og yngri sem sett voru eftir að skipulagslög voru sett og þar af leiðandi voru þau talin ná lengra. Það er hins vegar alveg ljóst að valdsvið Landssímans virðist fleyga valdsvið skipulagsyfirvalda með allsérkennilegum hætti. Ég er því algjörlega sammála ráðherranum um það að gagnlegt væri að setja í skipulagslög fyllri ákvæði um framkvæmdir opinberra aðila eins og Pósts og síma, Vegagerðar og annarra slíkra aðila þannig að þessi mál liggi skýrar fyrir en þau gera nú.

Ég þakka að öðru leyti fyrir.