25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4847 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

233. mál, söluskattur af íslenskum kvikmyndum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. 3,6 millj. kr. er það sem þessi lagabreyting þýddi fyrir ríkissjóð og hlýtur vissulega að vera alveg stórkostlegur hvalreki fyrir hæstv. fjmrh. að geta náð inn öllum þessum peningum af íslenskum kvikmyndum í von um að það verði tvær frumsýndar á þessu ári og áhorfendur að þeim verði 40 þús.

Þegar söluskattslögin voru sett í vetur þá var það talið upp að eftirfarandi þættir væru teknir undir söluskatt: aðgangseyrir að gufubaðsstofum, nuddstofum, ljósastofum, heilsuræktarstofum, svo og að útisamkomum og að sýningum á íslenskum kvikmyndum, svo og vélbinding heys.

Ég taldi enga ástæðu til að spyrja um alla þessa þætti, t.d. útisamkomurnar, né heldur taldi ég ástæðu til þess að inna eftir því hvaða pólitísk afstaða lægi á bak við það að rukka sérstaklega söluskatt af útisamkomum eða af íslenskum kvikmyndum. En ég bendi á að þessi ákvörðun er auðvitað í hrópandi ósamræmi við hátimbraðar ræður hæstv. forsrh. aftur og aftur um nauðsyn þess að efla, bæta og þróa hið íslenska nýja myndmál. Það er alveg bersýnilegt að þær yfirlýsingar eru aðeins orð en ekki athafnir og þar af leiðandi. markleysa.

Ég bendi á að við þm. Alþb. fluttum hér við meðferð þessara mála í báðum deildum þingsins tillögu um að fella niður söluskatt af íslenskum kvikmyndum. Og til vara fluttum við tillögu um það að ef innheimtur yrði söluskattur af íslenskum kvikmyndum þá yrði hann látinn renna í Kvikmyndasjóð. Þessar tillögur okkar voru báðar felldar og athyglisvert var í þeirri svarræðu hæstv. fjmrh., sem ég þakka hér að öðru leyti fyrir, það sem hann flutti hér áðan, að hann nefndi það ekki einu orði hvernig ætti að fara að því að innheimta söluskatt af íslenskum kvikmyndum ef kvikmyndagerðarmenn nota þá aðferð, sem bæði Hrafn Gunnlaugsson og Þráinn Bertelsson hafa bent á, að þeir muni sjálfir setjast í miðasölurnar og rukka, en sala listamanna á eigin verkum beint til neytenda er söluskattslaus samkvæmt öðrum ákvæðum í söluskattslögunum. Þannig sýnist mér ákvæðið í fyrsta lagi auðvitað andmenningarlegt en í öðru lagi sennilega óframkvæmanlegt líka.