25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4875 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):

Herra forseti. Í fréttum Ríkisútvarpsins seinni hluta janúarmánaðar sagði af fundi sjálfstæðismanna á Dalvík. Á fundinn var mættur hæstv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson og hafði hann lýst því yfir að nú væri ákveðið að koma á fót fiskvinnsluskóla á Dalvík. Þessi yfirlýsing vakti mikla undrun og umtal á Siglufirði, jafnt hjá samflokksmönnum ráðherrans sem öðrum. Menn voru vel minnugir samþykktar Alþingis frá 30. mars 1973, sem hneig í þá átt að koma á fót fiskvinnsluskóla á Siglufirði, og einnig jákvæðra niðurstaðna fulltrúa menntmrn. þar að lútandi frá því í október 1984. Það sést því á þessum tímasetningum að menntmrn. ætlar ekki að rasa um ráð fram í þessum efnum og hefur vafalaust notað tímann vel til undirbúnings.

Í umræðum um þetta mál í Sþ. þann 11. júní 1985 segir fyrrv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir, með leyfi forseta: „Þessi athugun málsins stendur yfir. Það er nokkuð viðurhlutamikið að stofna til nýs skóla á svo sérhæfðu sviði og það er skynsamlegt að standa vel að athugun þess máls áður en ákvörðun er tekin um að hefjast handa.

Frumathugun um aðstæður á Siglufirði var gerð á sl. hausti. Þessa athugun gerði deildarstjóri í menntmrn., Stefán Ólafur Jónsson, en meginniðurstöður hans voru eftirfarandi: Heppilegt yrði, ef skóli yrði stofnaður á Siglufirði, að skipuleggja hann með öðrum hætti en Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Tillaga um þetta liggur fyrir þó hún sé vitanlega ekki fullunnin.“

Þeim mun meiri varð undrunin á Siglufirði þegar útkoman reyndist svo sú að stofna svona skóla á Dalvík. Miðað við hefðbundinn undirbúningstíma menntmrn. í þessum efnum vaknar auðvitað spurningin til að byrja með hvort þessi yfirlýsing ráðherrans sé tímabær þegar skólinn kemur væntanlega ekki til með að rísa á Dalvík fyrr en einhvern tímann eftir árið 2010. Þörfin á slíkum skóla er auðvitað rík, jafnt á Siglufirði, Dalvík sem og öðrum stöðum. En fyrst og fremst er nauðsynlegt að Norðlendingar fái vitneskju um fyrirætlanir ráðherra varðandi þessa skólavæðingu á þeirra svæði þó svo um langtímaáætlanir sé að ræða. Eða hvað hyggst menntmrh. koma á fót mörgum fiskvinnsluskólum á Norðurlandi?

Í lærðri grein í Morgunblaðinu 13. des. 1986 eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson skólastjóra um sjávarútvegsskóla er bollalagt um verknámsskóla í fiskvinnslu sem leggja megi algerlega til jafns við kjötiðnaðarnám eða fag líkt og kjötvinnslu. Fiskvinnsluskólar í formi fiskiðnskóla eiga því fullan rétt á sér og þörfin er rík. Starfsfræðsla fólks í fiskvinnslugreinum sem hlyti viðurkenningu í launum er nauðsynleg ef halda á hæfileikafólki í þessum störfum og er víst aldeilis ekki vanþörf á. Fiskvinnsluskólar geta hins vegar gegnt fjölþættara hlutverki en því að vera fiskiðnskólar.

Guðjón segir m.a., með leyfi forseta: „Sjávarútvegsskólar gætu orðið til mikillar eflingar öllum sjávarútvegi og plássum vítt og breitt um landið ef í hverjum landsfjórðungi yrði komið á fót skólum í grunnnámi skipstjórnar, vélstjórnar og fiskvinnslu.“

Sagt var um Gunnar á Hlíðarenda að hann væri jafnvígfimur á báðar hendur og barðist jafnt til beggja hliða. Flestir aðrir gátu og geta aðeins vinstra eða hægra megin í einu. Svo var farið með fyrrv. menntmrh. Ragnar Arnalds, sem hafði mikinn áhuga á fiskvinnsluskóla á Siglufirði, að hann notaði sinn tíma sem menntmrh. til að koma upp slíkum skóla í Hafnarfirði og sagði í umræðum um þetta mál, einmitt 11. júní 1985, með leyfi forseta, að það hlyti að ganga fyrir og það væri algerlega óraunhæft að stofna annan skóla á nákvæmlega sama tíma. Þetta höldum við að gildi jafnt um Dalvík og Siglufjörð og við efumst ekki um að Siglufjörður er fyrr í röðinni þegar kemur að því að stofna fiskvinnslu- eða fiskiðnskóla á Norðurlandi.