25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4928 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

294. mál, utanríkismál

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú lagt fram og mælt fyrir skýrslu sinni um utanríkismál, en hennar hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu sem von er þar sem þetta er fyrsta skýrsla nýs utanrrh. í nýrri ríkisstjórn. Að vísu höfum við fylgst með ferli hæstv. utanrrh. þá mánuði sem hann hefur verið að störfum sem slíkur og er það alveg ljóst að hann hefur þegar markað ýmis ný spor sem utanrrh. og kannski á stundum markað þannig spor að teknar hafa verið ýmsar ákvarðanir sem eru óvanalegar og hafa valdið bæði fjaðrafoki og undrun manna, kannski öðruvísi ákvarðanir en við höfum átt að venjast hingað til. Ég er þó ekki að segja með þessu að þær hafi verið rangar eða ámælisverðar, einungis það að hæstv. utanrrh. hefur stundum komið á óvart á þessum stutta ferli sínum.

Ég held að það sé rétt og eðlilegt í upphafi máls míns að ég fjalli með örfáum orðum um stefnu Borgarafl. í utanríkismálum. Sum stjórnarblaðanna hafa reynt að gera lítið úr okkur og ekki nóg með það, þau hafa reynt að gera okkur tortryggilega í þeim málum. á þetta þó aðallega við um Morgunblaðið sem hefur gripið hvert tækifæri sem hefur gefist til þess að reyna að hártoga og snúa út úr og rangfæra hver sé stefna Borgarafl. í utanríkismálum. Í þeirri stefnu sem við lýstum yfir í utanríkismálum í kosningabaráttunni sl. vor kom það skýrt fram að við teljum það vera staðreynd að Íslendingar eru í varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO, og það er ekkert í heiminum sem bendir til þess að við getum farið úr þessu varnarsamstarfi. Þetta er einfaldlega staðreynd hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Og við verðum að viðurkenna aðra staðreynd og hún er sú að með þátttöku okkar í varnarbandalagi vestrænna þjóða höfum við búið við frið og öryggi frá stríðslokum.

Það er hins vegar skelfilegt til þess að vita að allt frá stríðslokum hafa orðið átök hér og þar í heiminum, stríðsaðgerðir sem hafa kostað fleiri mannslíf en öll seinni heimsstyrjöldin kostaði, þannig að það er síður en svo að það hafi verið friðvænlegt í heiminum. Þess vegna þarf engan að undra þó við séum því ekki meðmæltir að slíkt ástand í utanríkismálum sé nú fyrir hendi að við getum dregið okkur út úr þessu varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Ógnarjafnvægið, sem svo hefur oft verið kallað, er þrátt fyrir allt það sem hefur skapað frið í hinum vestræna heimi þessi rúmlega 40 ár sem eru liðin frá lokum heimsstyrjaldarinnar.

Hins vegar er það kannski áhyggjuefni að það er komið að því fljótlega að fæstir núlifandi Íslendinga hafa lifað það Ísland að hér sé enginn erlendur her. Það er í raun og veru skelfileg tilhugsun að hugsa til þess að brátt mun enginn núlifandi Íslendinga muna það Ísland þegar enginn erlendur her var hér á íslenskri grund. Þannig að það er síður en svo að ég eða mínir flokksbræður séum ánægðir yfir þessari stöðu mála. Helst af öllu mundum við vilja sjá það ástand alþjóðamála skapast að hernaðar- og varnarbandalög verði óþörf og erlendur her geti farið héðan. Það er alls ekki og síður en svo keppikefli að hér sé erlendur her alla tíð. En eins og er verðum við að beygja okkur undir þá staðreynd að meðan við búum við slíkt óöryggi í samskiptum milli stórveldanna og stríðsaðgerðir eru tíðar um allan hinn byggða heim, þá er varla um aðra kosti að ræða en að við höldum áfram þátttöku okkar í þessu varnarsamstarfi og hér sé haldið uppi vörnum með þeim hætti sem verið hefur.

Það er þó eitt atriði sem ég vildi aðeins fjalla um sem mér finnst lítið vera komið inn á í skýrslu hæstv. utanrrh. og ég verð kannski að varpa fram sem nokkurri gagnrýni á ýmsa forvera hæstv. utanrrh., en það eru öryggismál Íslendinga sjálfra í varnarsamstarfinu. Þeim málaflokki hefur verið allt of lítið sinnt að okkar dómi og ástæða til þess að taka þau mál upp til gagngerrar endurskoðunar og nýrrar hugsunar. Ég held nefnilega að öllum hljóti að vera það ljóst að það er ákaflega óhægt um vik að verja fólkið sem hér býr í landinu ef kæmi til styrjaldarátaka sem mundu beinast gegn herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna mundum við óska þess að það yrði athugað og lögð í það vinna að svara ýmsum spurningum sem vakna í sambandi við öryggi fólksins sem býr hérna, með hvaða hætti það yrði betur tryggt.

Við höfum í okkar málflutningi, m.a. í kosningabaráttunni, vikið að ýmsum hugmyndum þar að lútandi. T.d. vakna spurningar um hvort hægt væri að flytja starfsemi varnarliðsins að einhverju leyti frá þessu þéttbýlasta svæði landsins. Er hún betur komin annars staðar þar sem er minni hætta af varnarstöðinni? Og jafnvel höfum við varpað fram þeirri hugmynd, að við ættum að beita okkur fyrir því innan Atlantshafsbandalagsins að komið yrði upp einhvers konar forvarnarkerfi þannig að það mætti draga úr mikilvægi herstöðvarinnar hér e.t.v. með vísi að herstöð fyrir norðan Ísland.

Afvopnunarmál hafa mjög verið í brennidepli allt undanfarið ár og þau náðu í okkar huga að sjálfsögðu hámarki þegar leiðtogafundurinn var hér í Reykjavík í október 1986. Eftir leiðtogafundinn má segja að Íslendingar hafi komist á landakortið sem ábyrgur aðili í þessum málum. Auðvitað verðum við að viðurkenna í hvert skipti sem við ræðum utanríkismál að við erum mjög fámenn þjóð. Það verður alla tíð erfitt fyrir okkur að fá aðrar þjóðir til að taka mark á okkar. En ég held að sérstaða okkar bæði landfræðileg og menningarleg sé þess eðlis að þrátt fyrir allt sé hlustað á okkur. Ef við berum gæfu til þess að koma fram af fullri reisn í viðskiptum okkar við erlendar þjóðir þá er ekki nokkur vafi á því að það er komið fram við okkur sem jafningja þrátt fyrir stærðarmuninn. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það að allur almenningur hér á þessu landi er mjög meðvitaður um afvopnunarmál og friðarmál.

Ýmsir aðilar, bæði félagasamtök, stjórnmálamenn og aðrir, hafa lýst áhyggjum sínum yfir vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna og þeim styrjaldarátökum sem eru næstum því samfelld einhvers staðar í heiminum. Við höfum verið með ýmsar hugmyndir þar að lútandi með hvaða hætti við gætum lagt okkar á vogarskálina til að reyna að draga úr þessari áhættu. Ég minni t.d. á ágætistillögu, sem var flutt hér í Sþ. í haust sem leið, um það að boðað yrði til friðarráðstefnu hér í Reykjavík þar sem sérstaklega yrði fjallað um með hvaða hætti mætti koma í veg fyrir að það yrði mjög mikil aukning á vígbúnaði í Norðurhöfum samfara því að það yrði dregið úr kjarnorkuvopnabúnaði í Evrópu. En það var komið inn á það, hæstv. utanrrh. minntist á það í ræðu sinni að mig minnir, að auðvitað er hætta á því að þegar stórveldin hafa komið sér saman um, sem þau hafa þegar gert, að fækka meðaldrægum kjarnorkuflaugum í Vestur-Evrópu, þá verði þessum vopnum komið fyrir einhvers staðar annars staðar. Það er nokkuð sem við þurfum sérstaklega að huga að, að þeim verði ekki dembt í kafbáta sem síðan verði allt í kringum okkur hérna í Norður-Atlantshafinu. Því miður hefur þessi þáltill. fengið mjög hæga og þunglamalega meðferð þannig að hún er ekki komin úr nefnd, en við þm. Borgarafl. studdum þetta mál á sínum tíma. Og ég minni á að hér á Alþingi hafa verið fluttar tillögur um þessi mál.

Það hefur mikið verið rætt um að gera Reykjavík að nokkurs konar miðstöð friðarviðræðna og það er mál sem ég held að við gætum unnið betur að en gert hefur verið. Það var mjög athyglisvert hér í haust sem leið, þegar upp kom sú hugmynd að bjóða leiðtogum stórveldanna að halda fund sinn, sem þá var fyrirhugaður, hér í Reykjavík. Við þm. Borgarafl. funduðum um þetta og skoruðum á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að boðum þar að lútandi yrði komið á framfæri við ríkisstjórnir beggja stórveldanna. Ef þau kynnu að óska eftir þá væru leiðtogarnir velkomnir til fundar hér í Reykjavík.

Hæstv. forsrh. kaus að svara þessu nánast út í hött með útúrsnúningi einum saman, talaði um að við ættum ekki að vera að skipta okkur af ráðagerðum stórveldanna. En hér var aðeins verið að tala um það að bjóða þeim fundarstað ef þeim hentaði. Á sama tíma var hæstv. utanrrh. nánast að bjóða það sama á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York, að leiðtogarnir væru velkomnir hingað til fundar ef þeim þóknaðist. Þannig að það var einkennilegt að verða vitni að þeim orðaskiptum að í annan stað vísaði hæstv. forsrh. tillögu okkar borgaraflokksþingmanna algjörlega á bug og gaf það raunar í skyn að hún væri hreint bull en hæstv. utanrrh. var að stinga upp á hinu sama í ræðu sem hann hélt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.

Þá langar mig til þess að víkja að samstarfi okkar við Norðurlöndin og ýmsar alþjóðastofnanir, en þetta samstarf hefur kannski verið hornsteinn íslenskra utanríkismála í marga áratugi. Um samstarf okkar við Norðurlöndin er allt gott að segja. Það er ofur eðlilegt að við leitum eftir miklu og góðu samstarfi við hin Norðurlöndin. Þrátt fyrir allt erum við hluti af hinu norræna menningarsvæði. Þetta eru þrátt fyrir allt frændþjóðir okkar. Því miður heyrast oft þær raddir hér á Íslandi að við eigum að láta Norðurlöndin sigla lönd og leiðir og snúa okkur alfarið að samskiptum og samstarfi við hinn engilsaxneska heim og höfð eru uppi ýmis stór orð um að hin Norðurlöndin gagni okkur lítið og vilji lítið fyrir okkur gera. Ég held að þetta sé alrangt. Við höfum átt mjög gott samstarf við hin Norðurlöndin og því ber að halda áfram. Hins vegar þarf ævinlega að gæta þess, eins og við höfum lagt mikla og ríka áherslu á, að fyrir hönd Íslands sé ávallt komið fram af fullri reisn í öllum samskiptum við þær þjóðir sem við höfum samskipti við þannig að við þurfum ekkert að vera að skammast okkar fyrir það þó að við séum ekki nema tæplega 250 þús. manns. Við eigum að geta borið höfuðið hátt og komið fram með fullri reisn og það ber að gera fyrir okkar hönd alls staðar á alþjóðlegum vettvangi.

Ég hef þegar fjallað um aðildina að NATO, Atlantshafsbandalaginu, sem við tel um áfram vera einn af hornsteinum utanríkismála Íslendinga hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við munum ekki gera neina athugasemd þar að lútandi eða leggja til neina breytingu á því. Það eru engar aðstæður fyrir hendi á alþjóðavettvangi sem heimila slíkt.

Hvað varðar ýmis viðskiptasambönd þá höfum við að sjálfsögðu tekið þátt í Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA, um mjög langt skeið, frá því í byrjun áttunda áratugarins og á áttunda áratugnum náðum við, eins og hér hefur þegar komið fram í máli hæstv. utanrrh. áðan, mjög góðum samningum við Efnahagsbandalagið.

Það var talað um að það kynni að verða erfitt að ná betri samningum við Efnahagsbandalagið um sinn og því er ekki að leyna að við getum haft af því nokkrar áhyggjur hvað verður um Fríverslunarbandalagið því löndin sem eru í Fríverslunarbandalaginu týna nú ört tölunni. Mörg þeirra eru nú á leiðinni inn í Efnahagsbandalagið nýja. Jafnvel er farið að ganga svo langt að það er farið að huga að því í Svíþjóð, sem er nú eiginlega það ríki í Evrópu sem síst var ætlað að mundi nokkru sinni ganga inn í Efnahagsbandalagið, þar er farið að tala um leið til þess að Svíar geti tengst Efnahagsbandalaginu og jafnvel gengið inn í það sem fullgildir aðilar. Það gæti því endað svo á næstu árum, kannski áratug eða svo, að nánast öll lönd Vestur-Evrópu yrðu komin inn í Efnahagsbandalagið og við sætum þar einir fyrir utan.

Að sjálfsögðu verðum við að hugsa þessi mál mjög vandlega, með hvaða hætti við tengjumst áfram Vestur-Evrópulöndunum, því ég held að við séum sammála því eins og nær allir að um beina aðild okkar að Efnahagsbandalaginu geti vart verið að ræða, a.m.k. ekki meðan Efnahagsbandalagið heldur þeirri stefnu sinni óbreyttri að því fylgi fullur aðgangur að fiskimiðum okkar. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að við getum komið fram við Efnahagsbandalagið og stjórn þess í Brussel af mikilli festu og gert þeim það skiljanlegt að Íslendingar séu þrátt fyrir allt hluti af Vestur-Evrópu og þeir hafi vissar skyldur gagnvart okkur svo við getum áfram verið hluti af Vestur-Evrópu. Ég er ekki hér með að segja að við eigum þann valkost að leita eftir nánari samvinnu við Bandaríkin — það hafa heyrst raddir um það að við getum gerst fylki í Bandaríkjunum, það er enginn að tala um það hér - þá er engu að síður hugsanlegt að við gætum leitað eftir tvíhliða viðskiptasamningum við Bandaríkin í líkingu við það sem Kanadamenn gerðu nýlega þannig að slík viðskipti gætu að einhverju leyti komið í staðinn fyrir viðskipti okkar við Efnahagsbandalagið. Ég er ekki að segja að við eigum að hóta Efnahagsbandalaginu með þessu. Ég tel hins vegar að við eigum að hafa opinn hug gagnvart báðum þessum möguleikum því það kann vel að vera að við gætum átt betri viðskipti við Bandaríkin en nú er. Það kemur m.a. fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að það hefur töluvert dregið úr viðskiptum okkar við Bandaríkin. Hins vegar verður að velta því fyrir sér hvers vegna við höfum ekki reynt að notfæra okkur það að staða bandaríkjadals hefur verið ákaflega veik undanfarin ár sem hefur gert það að verkum að það er hægt að gera mjög hagkvæm innkaup í Bandaríkjunum fyrir Íslendinga. Hins vegar hafa gjaldmiðlar Evrópubandalagsríkjanna hækkað mjög í verði gagnvart íslensku krónunni þannig að innkaup frá Evrópubandalagsríkjunum hafa orðið okkur dýrari og dýrari á síðustu árum. Þannig getur þetta eitt valdið því að það væri rétt að huga að frekari og beinni viðskiptum við Bandaríkin.

Í skýrslunni er fjallað nokkuð um þá samvinnu sem við höfum átt við bæði Grænlendinga og Færeyinga. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við ættum ekki að reyna að stækka hópinn og fá jafnvel Nýfundnaland með í þessa samvinnu og þar með austurströnd Kanada. Ég held að við eigum margt sameiginlegt með þessum löndum sem búa hér við Norður-Atlantshafið. Það væri raunar mjög eðlilegt og sjálfsagt að þessi lönd hefðu víðtækt samstarf sín á milli bæði hvað varðar fiskveiðar og ekki síður varðandi efnahagsmál og verslunarviðskipti. Ég held að við ættum að reyna að beita okkur fyrir því að þessi samvinna verði aukin bæði við Grænland og Færeyjar og við ættum að reyna að taka hluta af austurströnd Kanada með í þessu sambandi og gerast frumkvöðlar í því að þessi ríki myndi með sér nokkurs konar efnahagsbandalag. Gæti það jafnvel orðið einhvers konar svar við Efnahagsbandalagi Evrópu og gæti hugsanlega styrkt okkur í því að vernda fiskimiðin gegn ásælni Vestur-Evrópuríkjanna.

Í þessu sambandi er rétt að fjalla aðeins um viðskipti okkar við Grænlendinga sem góðu heilli hafa farið mjög vaxandi undanfarin ár. Þar er þó við einokun dönsku Grænlandsverslunarinnar að eiga og væri kannski athugandi að reyna með samningum við Dani að liðka betur til fyrir viðskiptum við Grænlendinga þannig að við séum ekki ofurseldir einokun Grænlandsverslunarinnar í jafnríkum mæli og verið hefur, t.d. varðandi flutninga og margt annað. Ég tel að við getum átt miklu fjölbreytilegri viðskipti við Grænlendinga ef um það semdist við dönsk stjórnvöld.

Sú viðamikla breyting hefur orðið á starfsemi utanrrn. með stjórnarsáttmálanum frá því í vor að utanríkisviðskipti hafa verið færð yfir til utanrrn. Í skýrslu hæstv. utanrrh. sem hér liggur fyrir má segja að stór hluti skýrslunnar fjalli einmitt um utanríkisviðskiptin. Við höfðum um það ýmsar efasemdir í meðferð tveggja þingmála sem voru hér fyrir þinginu í kringum áramótin, en þau voru staðfesting á þessari breytingu sem þegar hefur átt sér stað. Þessi breyting er orðin að staðreynd og skal ég ekkert frekar fjalla um hana hér, en ég vildi þá nota tækifærið og fjalla nokkuð um utanríkisviðskipti og varpa fram ýmsum spurningum í því sambandi.

Ég dreg enga dul á það að við þm. Borgarafl. erum sammála um það að viðskipti Íslendinga við umheiminn hafi verið allt of þröng og lokuð fram til þessa. Ég tel að það þurfi að opna þessi viðskipti meira og ekki nóg með það: Það þarf að beita utanríkisþjónustunni betur fyrir vagninn í þessu sambandi og ekki síst virkja þá duglegu einstaklinga sem hér eru og stunda viðskipti en gjarnan á þann veg að þeir eru yfirleitt í innflutningsviðskiptum. Það er mjög athyglisvert hvað Íslendingar eru duglegir í innflutningsviðskiptum. Þó ég sé ekki að lasta þá fáu aðila sem hafa fengið að sinna utanríkisviðskiptunum, þá hef ég oft spurt sjálfan mig að því hvernig á því standi að við höfum ekki fyrir löngu breytt um stefnu í þessum málum, opnað meira utanríkisviðskiptin og reynt að virkja alla þá duglegu aðila, einstaklinga og fyrirtæki sem hér starfa að innflutningsmálum og beitt þeim einnig í utanríkisviðskiptamálum.

Í þessu sambandi höfum við látið okkur koma til hugar ýmsar aðgerðir sem gætu stuðlað að því að auðvelda slík viðskipti. T.d. settum við fram í kosningastefnuskrá okkar hugmynd að því að hér yrði sett á stofn heimsverslunarmiðstöð. Hún gæti annaðhvort verið hér í Reykjavík eða hugsanlega í tengslum við nýju flugstöðina. Þar færu fram bein tölvufjarskipti við allar helstu kauphallir og viðskiptamiðstöðvar heimsins þannig að þar væri hægt að gera bindandi samninga með tölvuboðum, nánast á broti úr sekúndu liggur mér við að segja, um kaup á ýmsum vörum sem við kaupum á heimsmarkaðsverði í líkingu við það sem er gert í öðrum löndum. Því miður höfum við farið varhluta af þessum viðskiptum þar sem við höfum verið ansi einangraðir hér á Íslandi í þessu tilliti.

Það er nú einu sinni svo að hér áður fyrr var mjög oft talað á þeim nótum að Íslendingar væru hér norður í Dumbshafi, allar samgöngur við Ísland væru mjög erfiðar, við værum mjög einangraðir hér, flutningskostnaður til og frá landinu væri mjög dýr og allt þar fram eftir götunum. Það má segja vegna þeirrar þróunar og þeirra breytinga sem hefur orðið á samgöngumálum og allri tækni, bæði fjarskiptatækni og sérstaklega í sambandi við flugumferð, þá eigi þetta ekki við lengur. Íslendingar eru í þjóðbraut. Við erum í þjóðbraut á milli Evrópu og Vesturheims og þetta getum við nýtt okkur. Ég held að það sé mjög auðvelt að hugsa sér það að Ísland geti orðið miðstöð verslunar og viðskipta sem fara fram einmitt á milli Vestur-Evrópu og Vesturheims. Þannig væri vel hægt að hugsa sér að með sérstökum fríverslunarsvæðum og fríiðnaðarsvæðum kæmi vara frá Vestur-Evrópu, á leiðinni vestur um haf til Bandaríkjanna og Vesturheims, hefði hér viðdvöl, hugsanlega væri henni pakkað um hér og eitthvað breytt og síðan héldi hún áfram. Og með sama hætti væri hægt að hugsa sér að vörur ættu erindi til Íslands á leið sinni frá Vesturheimi til Vestur-Evrópu. Nú og svo þar fyrir utan að varan kæmi aldrei hingað en hér væru milligöngumenn um slík viðskipti. Þannig held ég að við gætum hugað miklu, miklu betur að þessum þáttum í utanríkisviðskiptum okkar.

Þessu samhliða mætti vel hugsa sér að hér væri komið upp aðstöðu fyrir erlendar stofnanir, fjármálastofnanir, jafnvel þó að þær blönduðu sér beinlínis ekki inn í íslenskt efnahagslíf né fjármálalíf. Þeim væri heimiluð aðstaða hér til þess einmitt að stuðla að heimsviðskiptum vegna þeirrar einföldu staðreyndar að við erum hér í þjóðbraut. Ég held að þessi viðskipti gætu legið mjög vel við Íslandi bæði vegna legu landsins og ýmissa annarra þátta sem eru hagstæðir fyrir þetta, m.a. það að hér býr friðsemdarfólk, hér þurfa menn ekki að óttast að gerðar verði uppreisnir eða að hér séu uppþot sem geri staðsetningu slíkra stofnana hér á landi óvissa.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er nokkuð vikið að þróunarsamstarfi og hann segir þar frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem átti sér stað í Tanzaníu núna rétt eftir áramótin. Langar mig að fara nokkrum orðum um þátttöku Íslendinga í þróunarsamstarfi og hver hefur verið niðurstaðan af því undanfarin ár. Við höfum reynt ýmislegt fyrir okkur á þessu sviði. Það hefur heyrst mikil gagnrýni á það hvað við verjum litlu fé til þróunarhjálpar en ég er ekki viss um að það sé e.t.v. meinið í þessum þætti utanríkismála okkar, hvað við verjum litlum peningum til þróunaraðstoðar, heldur e.t.v. að við höfum ekki nýtt þau tækifæri sem við höfum haft nógu vel og okkur hefur kannski ekki orðið nógu mikið úr þessu fé sem við höfum veitt til þróunaraðstoðar. Hin Norðurlöndin hafa náð betri árangri en við og kannski er það eðlilega vegna þess að þau eru miklu stærri og burðugri en við erum. Það kemur aftur og aftur að því að við megum náttúrlega ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum þrátt fyrir allt aðeins 250 þús. sem hér búum og það er ekki hægt að ætlast til þess að við gerum stóra hluti í þessum málaflokki. Engu að síður eigum við erindi í þróunarhjálpinni. Ég held að það sé best gert með því, eins og reyndar hæstv. utanrrh. nefndi áðan í ræðu sinni, að þar sem við höfum yfir vissri þekkingu að búa getum við hjálpað ýmsum þjóðum. T.d. að byggja upp fiskveiðar og fiskiðnað, og við getum hjálpað þjóðum við að virkja jarðhita þannig að dæmi séu nefnd.

Það er svolítil sorgarsaga, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. ráðherra, hvað varð um jarðhitaverkefni það sem við höfðum unnið að í Kenýa, en það var nánast hrifsað út úr höndunum á okkur af Nýsjálendingum eins og hæstv. ráðherrann sagði frá. Ég hafði tækifæri til að fylgjast nokkuð með þessu jarðhitaverkefni þegar það fór af stað fyrir einum 10–15 árum síðan. Ég man að í byrjun var ákaflega erfitt að fá nokkra hjálp við að þreifa fyrir sér um að ná þessu verkefni. Það var um að ræða að rannsaka jarðhitasvæði í svokölluðum Rift valley í Kenýa og aðstoða þar við undirbúning og hönnun mikillar jarðgufuaflsvirkjunar sem þar er. Íslendingar komust þó inn í þetta verkefni í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og fengu síðan að gerast undirverktakar hjá enskum ráðgjafarverkfræðingi sem annaðist tækniþjónustu fyrir Kenýa-stjórn. Í tíð Alberts Guðmundssonar sem iðnrh. var mjög langt á veg komið með að ná samningum við Kenýa-stjórn um marghliða tækniaðstoð Íslendinga um uppbyggingu í Kenýa. M.a. var mjög eitt athyglisvert verkefni sem nánast átti aðeins eftir að undirskrifa samninga um, en það var að Íslendingar tækju að sér að aðstoða Kenýa-búa við að koma rafmagni út í sveitir landsins. Kenýa-menn höfðu séð það að Íslendingar höfðu orðið að leysa þetta með mjög einföldum hætti á Íslandi og þeim sýndist að þeir gætu nýtt sér þekkingu okkar og hugmyndir í því sambandi. Samhliða þessu verkefni var líka um það rætt að Íslendingar tækju að sér að smíða einföld raftæki svo sem upphitunarhellur sem mætti síðan nota í sveitum þar sem nær engin slík tæki eru þekkt fyrir. Því miður varð ekkert af þessu því að eins og óþarft er að rifja upp hér fyrir hv. þingheimi var það nánast nokkrum dögum áður en þessir samningar voru undirritaðir að hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson varð að víkja úr iðnrn. og segja af sér embætti iðnrh.

Ég tel engu að síður að hér sé verk að vinna og ég mundi vilja skora á hæstv. utanrrh. að beita sér markvisst fyrir því að aðstoða íslenska tækniráðgjafa við að koma hugmyndum sínum á framfæri erlendis og veita þeim alla þá aðstoð sem honum er megnug til þess að ná í verkefni og sinna þeim.

Ég tel t.d. að það hafi afskaplega litla þýðingu að safna peningum á Íslandi og afhenda síðan út í heim, oft í gegnum aðrar alþjóðlegar stofnanir. Ég held að það sé nefnilega dæmi um það að það hafi verið safnað fé á Íslandi, síðan afhent norrænum hjálparstofnunum sem síðan hafa notað þetta fé til þess að láta norræna tækniráðgjafa hafa verkefni. Þannig hef ég grun um að byggð hafi verið bæði barnaheimili, dagvistunarheimili og lítil sjúkrahús fyrir fé sem hefur verið safnað á Íslandi en síðan hafa hinar Norðurlandaþjóðirnar tekið að sér að selja efni og alla vinnu í þessum byggingum. Við þurfum því að vera mjög vel á varðbergi með hvernig slíkum peningum er varið sem við veitum til tækniþróunar og til þróunarhjálpar yfirleitt.

Það var, sem eðlilegt er, í skýrslu utanrrh. fjallað ítarlega um samskipti okkar við varnarliðið. Mér þótti vænt um að heyra - ég hef það skrifað hér hjá mér - að ákveðið hefur verið að fram fari mjög ítarlegar grunnvatnsrannsóknir á varnarsvæðinu sem verða unnar sem verkefni í samvinnu milli bandarískra og íslenskra ráðgjafa. Ég mundi kannski vilja upplýsa hæstv. utanrrh. um það, ef honum er ekki kunnugt um það, að íslenskir ráðgjafar hafa unnið að þessu verkefni fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og hafa gert mjög umfangsmiklar athuganir á grunnvatni og vatnsbúskap Suðurnesjamanna. Mér er mjög til efs að það finnist bandarískir ráðgjafar sem raunverulega geta leyst þetta verkefni betur. Ég held að í þessu tilviki gætu hinir bandarísku ráðgjafar lært heilmikið af okkur, þ.e. hinum íslensku ráðgjöfum sem hafa sinnt þessu máli. Það var reynt að stækka þetta verkefni þannig að allt Reykjanesið yrði undirlagt og vatnsból höfuðborgarsvæðisins yrðu tengd við þetta verkefni þannig að það fengist góð og ítarleg vitneskja um hvernig er háttað grunnvatnsstreymi og nýtanlegu vatni, bæði á öllu höfuðborgarsvæðinu og um öll Suðurnesin. Því miður fékkst ekkert fé til þessara rannsókna og þetta varð því aldrei meira en sjálf hugmyndin.

Það er kafli um hina nýju ratsjárstofnun í skýrslunni. Þar er boðað að fljótlega muni verða lagt fyrir Alþingi frv. um ratsjárstofnun. Við erum síður en svo óánægðir yfir þeirri þróun mála, við þm. Borgarafl., því að þetta kemur heim og saman við þá stefnu okkar að við teljum að Íslendingar geti tekið miklu virkari þátt í varnarsamstarfinu. Þetta er einmitt dæmi um það að Íslendingar taka yfir ákveðinn þátt mála. Enda hefur það alltaf farið dálítið í taugarnar á mér að í samskiptunum við varnarliðið er eins og það hafi alltaf vantreyst Íslendingum, kunnáttu þeirra og getu. Því miður hefur örlað á því að íslenskir ráðamenn, þá væntanlega á vegum utanrrn., hafa ýtt undir þessa skoðun. Ég held að þetta sé að vísu að heyra sögunni til en þetta var mjög áberandi hér áður fyrr, að varnarliðsmenn og yfirmenn Bandaríkjahers höfðu lítið álit á kunnáttu og þekkingu Íslendinga og það var síður en svo að íslenskir ráðamenn reyndu neitt að draga úr því.

Þess vegna þótti mér vænt um að heyra ummæli hæstv. utanrrh. um hugbúnaðarþróunina sem nú á sér stað fyrir ratsjárstöðvarnar og það að íslenskir hugbúnaðarsérfræðingar fái aðgang og aðild að því verkefni. Hæstv. ráðherrann kom inn á að það þyrfti að styrkja aðstöðu við Háskóla Íslands til þess að efla þar rannsóknir á sviði hugbúnaðargerðar og til að þjálfa sérfræðinga í hugbúnaðargerð. Ég er honum hjartanlega sammála. Það vill svo til að við rafmagnsverkfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands, en það ætti að vera skylt hæstv. utanrrh. sem er sjálfur rafmagnsverkfræðingur - ég vona að hann sé ekki alveg búinn að gleyma því - fer fram töluverð vinna á þessu sviði og raunar mjög athyglisverðar rannsóknir. Því miður er þessari starfsemi mjög þröngur stakkur sniðinn þannig að fjárskortur hamlar mjög að þarna sé hægt að gera eins myndarlega og menn vildu. Það er því mjög auðvelt, hæstv. utanrrh., að styðja við þessa starfsemi með því að taka rausnarlega þarna á með auknum fjárveitingum.

Ég sakna þess í skýrslunni að það er lítið fjallað um hvort eigi að taka upp einhverja aðra skipan mála verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli eða hvort við eigum að halda áfram eins og verið hefur. Satt best að segja hefur það verið gagnrýnt mjög í gegnum árin hvernig málum hefur verið háttað í sambandi við verktöku íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli og talað um mikið sukk í þessu sambandi. Víst er að framkvæmdir á vegum varnarliðsins hafa alltaf verið mjög dýrar og kann það að vera skýring á því að flugstöðin varð svona dýr. Allt sem byggt er og allt sem unnið er á varnarsvæðinu verður sjálfkrafa svo sem eins og þrisvar sinnum dýrara en aðrar framkvæmdir á Íslandi. Þetta hefur verið talið eðlilegt og sjálfsagt og Ameríkumenn virðast hafa kyngt þessu. Kannski vita þeir vel að það er um að ræða að einhverjir fá mikið fyrir sinn snúð en þeir hafa látið það gott heita. En svo mikið er víst að um áratuga skeið hefur gilt svokölluð helmingaskiptaregla þannig að Sjálfstfl. og Framsfl. hafa skipt þessu bróðurlega á milli sín og Alþfl. fengið kannski smámola með, en ekki mikið.

Það er fjallað um hafréttarmál í skýrslunni. Ég skal fara að stytta mál mitt, virðulegur forseti. Það er rétt að taka undir orð hæstv. ráðherra og fagna því að við höfum þó einir vestrænna ríkja fullgilt samninginn um hafréttarmál, enda höfum við verið þar miklir frumkvöðlar og ég tek undir það að hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur þar verið fremstur í flokki þá þegar við höfum fjallað um rétt til hafsbotnsins, með hvað hætti við gætum staðfest okkar rétt til hafsbotnssvæða umhverfis landið og nýtt þennan rétt. Það væri kannski vert að fjalla aðeins um og spyrja hvort nokkuð frekar hafi gerst í olíuleitarmálum. En það var hér fyrir nokkrum árum að bæði Bandaríkjamenn og jafnvel Rússar sýndu því pínulítinn áhuga hvort hugsanlegt væri að þrátt fyrir allt væru olíuberandi setlög í hafsbotninum umhverfis Ísland. Það er hins vegar eins og það mál hafi alveg sofnað aftur og væri gaman að heyra hvort nokkuð nýtt er á döfinni á þeim vettvangi.

Varðandi hvalamálið er ég alveg sammála hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur að við erum búin að gera okkur að hálfgerðum, ja, ég vil ekki segja fíflum, en hálfgerðum ösnum í þessu máli á alþjóðlegum vettvangi. Nú erum við þeirrar skoðunar að í sjálfu sér sé ekkert óeðlilegt að við veiðum hvali á Íslandi, enda held ég að við höfum í gegnum árin farið ákaflega varlega að í þeim málum. Við höfum aldrei gengið mjög nærri hvalastofnunum og ég held að að mörgu leyti hafi okkar hvalveiðar verið til fyrirmyndar hvað þetta varðar. En að draga þannig athygli að Íslandi með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. hefur gert, að vera nánast í því daglega að auglýsa Ísland út um allan heim sem eitt mesta hvalveiðiland heimsins er alveg með ólíkindum og yfirleitt eru öll afskipti hæstv. ríkisstjórnarinnar af hvalveiðimálinu næsta furðuleg. Sérstaklega er þó broslegur þessi margumræddi fundur í Ottawa. Okkur voru kynnt bréfaskipti ríkisstjórnarinnar og Bandaríkjastjórnar þegar sá fundur var í undirbúningi. Sérstaklega var okkur skemmt þegar við lásum bréf til Bandaríkjastjórnar, skrifað að ég held á mánudegi, þar sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna var nánast skipað að mæta á fund í Ottawa daginn eftir. Hann átti að hafa held ég rúman dag til stefnu og það var auðvitað ekkert verið að hugsa um það að utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanlega með sinn tíma skipulagðan vikur og mánuði fram í tímann. Okkur var mjög skemmt að lesa þessi bréfaskipti. Það þarf því kannski ekkert að koma á óvart þó að utanríkisráðherrann eða annar jafnháttsettur fulltrúi Bandaríkjastjórnar hafi þrátt fyrir allt ekki mætt í Ottawa.

Hins vegar eru mörg mál sem við þurfum að hafa áhyggjur af í sambandi við umhverfi okkar og tengjast hugsanlega hvalamálinu. Miklar selagöngur voru áberandi við Noregsstrendur fyrir nokkru síðan, í fyrra og hittiðfyrra að mig minnir. Spurningin er hvort við megum búast við einhverju slíku, að miklar selagöngur komi hér upp að Íslandi. Þær gætu haft skelfilegar afleiðingar í för með sér varðandi þorskveiðarnar. Það er ekki nóg með það að selurinn geti minnkað þorskstofninn hér verulega heldur eyðileggur hann þann þorsk sem er í sjónum með því að þorskurinn étur saur selsins sem er frekar óhugguleg staðreynd.

Þá er athyglisvert að það hefur komið upp í Bandaríkjunum að hnúfubakur hefur ekki lengur nóg æti og étur nú makríl. Drepst hann af því, þannig að það er ekki allt á sömu bókina lært í hvalamálum og þessum umhverfisverndarmálum. Það er því rétt að við fylgjumst vel með á þessu sviði. Ég held hins vegar að við getum hugsanlega gert það með öðrum hætti en við höfum gert hingað til, að leggja höfuðáherslu á það að auglýsa það út um allar grundir að áhugi okkar sé fyrst og fremst að veiða hvali til að geta selt kjötið til Japans.

Ég fer að stytta mál mitt, virðulegur forseti. Mig langar hérna undir lokin að fjalla örstutt um sjálfa utanríkisþjónustuna. Utanríkisþjónustan hefur alllengi verið í föstum farvegi. Mig minnir að fyrir nokkrum árum hafi þó verið til íhugunar, m.a. hér á hinu háa Alþingi, að breyta utanríkisþjónustunni og fjölga sendiráðum, setja upp sendiráð í þeim heimshlutum þar sem viðskipti okkar hafa farið mjög vaxandi svo sem í Japan og jafnvel víðar. En að athuguðu máli þótti þetta of dýrt og ekkert varð af.

Ég held að þetta sé miður vegna þess að einmitt Austurlönd fjær eru kannski að verða eitt mesta og mikilvægasta efnahagssvæði heimsins í dag. Við erum með þrjú fullgild sendiráð á Norðurlöndunum, en við höfum engan fastan sendifulltrúa í Austurlöndum fjær. Við höfum að vísu sendiherra, búsettan á Íslandi, ef ég fer rétt með, sem sinnir þessum heimshluta. En að sjálfsögðu hlýtur það að vera með allt öðrum hætti en ef við hefðum öfluga skrifstofu í Tókýó sem gæti sinnt viðskiptalegum hagsmunum okkar á þeim slóðum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að við gætum átt miklu meiri og betri viðskipti við Japana en við höfum gert. Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að vöruskiptajöfnuður á verslun okkar við Japana er neikvæður um 1 milljarð.

Ég minnist þess á einni ferð minni til Japans að ég ræddi þetta við japanska viðskiptamenn. Þeir sögðu að nánast í öllum samskiptum þeirra við aðrar þjóðir væru þeir alltaf þvingaðir til þess að vöruskiptajöfnuðurinn væri helst á núlli. Þeir sögðu t.d. að þeir kæmust ekki upp með það gagnvart Rússum að vöruskiptajöfnuðurinn væri ekki á núlli. Rússar kaupa því ekki meira af Japönum en þeir geta selt þeim. Þeir töldu að það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir Íslendinga að ná því í gegn að þessi vöruskiptajöfnuður yrði á núlli. Þessu þarf auðvitað að fylgja eftir.

Ég vildi því kannski varpa fram að lokum nokkrum hugmyndum, m.a. þeirri hvort hægt væri að hlutast til um að Norðurlöndin hefðu einhverja samvinnu í þessu efni, að Norðurlöndin gætu komið sér sameiginlega upp verslunarskrifstofum í þessum heimshlutum. Nú veit ég að hin Norðurlöndin hafa öll sendiráð í Tókýó. Engu að síður gætu Norðurlöndin eflaust staðið að og kostað sameiginlega verslunarskrifstofu á þessum slóðum. Gætum við þá tengst henni og þannig gætt hagsmuna okkar í þessum heimshluta ef það er svona dýrt að það er ekki nokkur leið að standa undir því að koma þar upp sendiráði.

Svíar hafa náð mjög góðum árangri með því að hafa svokallaða tækni- og vísindafulltrúa við sendiráð sín um allan heim. Með þessum hætti hafa Svíar getað fylgst með og fengið allar nýjar upplýsingar, upplýsingar um nýja tækni og nýja þróun í iðnaði, beint og milliliðalaust frá þeim löndum þar sem iðnaður stendur hvað best. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við um Japana og kannski iðnríkin í Vestur-Evrópu og svo Bandaríkin sjálf. Sendifulltrúarnir senda upplýsingar jafnharðan til heimalandsins og þar er þeim dreift til iðnaðarins og þeirra stofnana sem fást við rannsóknir og þróun tæknimála.

Ég held að eitthvað í þessum dúr þurfum við að gera til þess að treysta stöðu okkar. Þetta er liður í því að við þurfum að renna traustari stoðum undir atvinnulíf okkar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við getum gert það með þeim hætti að stunda fjörug viðskipti við umheiminn og hafa gott samstarf við allar þjóðir.