26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4981 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

294. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Í gær gerði hv. þm. Guðrún Helgadóttir grein fyrir okkar almennu athugasemdum við þá skýrslu sem hér er til umræðu, skýrslu hæstv. utanrrh., svo og meginstefnu flokks okkar í utanríkismálum. Í minni ræðu mun ég staðnæmast frekar við einstök atriði skýrslunnar og fara lauslega yfir þau. Það væri ástæða til að eyða dálitlum tíma í þessar umræður vegna þess að frá okkar sjónarmiði séð höfum við eitt og annað við mál að athuga. Okkar afstaða hefur verið í grundvallaratriðum ólík afstöðu annarra flokka í þinginu og þess vegna eðlilegt að við þurfum kannski ítarlegri og lengri tíma en aðrir til að gera grein fyrir okkar stöðu í þessum málum. Ég mun þó reyna að þreyta ekki þolinmæði þingheims verulega.

Ég nota þetta tækifæri til að taka undir þær þakkir sem komið hafa fram til hæstv. utanrrh. fyrir að leggja skýrsluna fram svona snemma, til hæstv. forseta Sþ. fyrir að stuðla að því að umræða um skýrsluna getur þó tekið tvo daga, sem er betra en verið hefur, og sömuleiðis tel ég ástæðu til að þakka hv. formanni utanrmn. fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan. Sömuleiðis er ég þess fullviss, þó ég hafi ekki verið í utanrmn. um nokkurt skeið þekki ég það af reynslu félaga minna af samstarfinu í utanrmn., að þar hefur hv. formaður nefndarinnar reynt eftir megni að halda þannig á málum að sæmileg sátt gæti tekist um einstök úrlausnarefni, stundum hin flóknustu mál, eins og t.d. samþykktina vorið 1985. Þó svo að dálítil túlkunardeila sé uppi í þeim efnum og verði sjálfsagt er það engu að síður mikilvægur áfangi fyrir okkar utanríkisstefnu og hún er bersýnilega einn hornsteinninn undir utanríkisstefnu Íslendinga eftir að hún var gerð, eins og fram kemur í rökstuðningi hæstv. utanrrh. fyrir því á hverju hann hefur byggt sínar ákvarðanir í utanríkismálum.

Ég vil aðeins víkja að ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og segja að það sem mér finnst aðalatriðið í sambandi við Evrópubandalagið er að auðvitað er samstaða um það hér að við getum ekki orðið aðilar að Evrópubandalaginu á grundvelli óbreyttra stofnsamþykkta Evrópubandalagsins. Það er alveg ljóst. Um það er alger samstaða. Fyrir því eru margvísleg rök sem hér hafa verið rakin og engin ástæða er til að endurtaka, en auk þess er það hárrétt hjá hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfi Konráð Jónssyni að við værum að setja okkur í vonlausa samningsstöðu ef menn ætluðu sér að fara fram í þessu máli með einhverju óðagoti.

Hitt er svo annað mál og umhugsunarefni í sambandi við Evrópubandalagið og Vestur-Evrópu og stöðu hennar að það eru að gerast ný tíðindi, stórkostlega ný tíðindi í alþjóðamálum þar sem samskipti stórveldanna hafa breyst í grundvallaratriðum. Þau eiga núna býsna margt sameiginlegt. Það sem þau eiga sameiginlegt getur farið vaxandi á komandi árum að því er varðar vígbúnaðareftirlit og sérstaklega eftirlit með kjarnorkuvopnum. Þau munu bæði hafa af því hagsmuni að tryggja að þeir samningar sem þau hafa gert og þau kunna að gera verði haldnir. Þau munu m.a. líka hafa af því sameiginlega hagsmuni að koma í veg fyrir að önnur ríki vaxi þeim þrátt fyrir þessa samninga yfir höfuð að því er varðar kjarnorkuvígbúnað. Þannig er augljóst mál að Vestur-Evrópa þarf að skoða sína stöðu andspænis báðum stórveldunum samanlagt, liggur mér við að segja, eins og staðan er núna. Þess vegna er út af fyrir sig eðlilegt að menn ræði mikið um stöðu Vestur-Evrópu í ljósi þessara nýja viðhorfa og þessarar nýju stöðu stórveldanna.

Ég vil þá fyrst, virðulegi forseti, víkja að svörum hæstv. utanrrh. frá í gærkvöld. Ég vil segja að þau orðaskipti sem fóru fram á milli hans og hæstv. samgrh. eru sennilega alveg einstæð í okkar umræðusögu utanríkismála. Það sem er þó athyglisverðast fyrir okkur sem erum utan þessa safnaðar sem stendur að stjórninni að nafninu til er að hæstv. samgrh. skuli koma hér, í þinginu, og að því er virðist utanrrh. að óvörum, og gera mjög harkalegar athugasemdir við afgreiðslur á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er þeim mun undarlegra þegar það virðist vera viðurkennd vinnuregla í ríkisstjórninni að ræða þar ekki um utanríkismál eða, eins og segir í Morgunblaðinu 23. febr., með leyfi forseta, í viðtali við hæstv. forsrh. Þorstein Pálsson:

„Þorsteinn Pálsson forsrh. sagði að þetta mál hefði ekki verið rætt í ríkisstjórninni [Það er þetta upphlaup hæstv. fjmrh. sem ég ætla aðeins að koma að á eftir.] og raunar hefðu utanríkismál ekkert verið rædd milli stjórnarflokkanna síðan línan var lögð í stjórnarsáttmálanum.“

Auðvitað er það þannig samkvæmt íslenskum lögum að utanrrh. fer með þessi mál. Hann hefur þetta vald sem stjórnvald utanríkismála, sem ríkisstjórn Íslands í utanríkismálum þangað til hann yrði sviptur því þá með samþykkt Alþingis. En hann hefur þetta vald þangað til. Og málið er ekki rætt í ríkisstjórninni! Ég er satt að segja svo oft hissa á þessari ríkisstjórn að í þeim efnum kemst ég örugglega a.m.k. í hálfkvisti við hæstv. utanrrh. í því að verða undrandi á því sem frá ríkisstjórninni kemur og málsmeðferð hennar yfirleitt í öllum málum. En þarna liggur fyrir að forsrh. segir: Það er vinnuregla að ræða ekki utanríkismál í ríkisstjórninni. (AG: Þakkaðu fyrir.) Ja, ég veit ekki hvað ég á að þakka fyrir, hv. þm., í þessum efnum. Ég þakka alla vega ekki fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar yfirleitt. En það er vinnuregla í þessari stjórn að ræða ekki um utanríkismál. Svo kemur hæstv. samgrh., fyrrv. hæstv. utanrrh., og flytur hérna dómadagsprédikun með skammarræðu yfir hæstv. núv. utanrrh. Ja, þetta er sérkennilegt, virðulegi forseti. Þetta er óvenjulegt a.m.k. að ekki sé meira sagt.

Ég vil síðan víkja að einstökum atriðum í ræðu hæstv. utanrrh., seinni ræðunni í gærkvöld. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem kom fram hjá honum um að hann mundi, að svo miklu leyti sem Ísland hefði afl til, beita sér gegn því að stórveldin reyni að bæta sér upp missi eldflauga og kjarnorkubúnaðar í öðrum vígbúnaði. Það er mjög mikilvægt að þessi yfirlýsing liggi fyrir varðandi afstöðu Íslands í utanríkismálum.

Ég tel einnig mjög mikilvægt fyrir þingheim að taka eftir því að hæstv. ráðherra fullyrti eftir spurningu frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að þrátt fyrir aðildina að NPG-hópnum eða Nuclear Planning Group, væri Ísland óábyrgt varðandi ákvarðanir um staðsetningu kjarnorkuvopna. Þetta er í rauninni mjög sérkennilegt verð ég að segja. Ég sé ekki betur en þó að þetta sé ráðgjafarnefnd sé Ísland með aðildinni að ráðgjöfinni að taka á sig verulega ábyrgð þannig að ég er ekki viss um að það sé hægt að draga jafnskarpa línu milli ráðgjafar og stefnu og hæstv. utanrrh. gerði í gærkvöld.

Ég vil einnig fagna afdráttarlausri yfirlýsingu ráðherrans í sambandi við radarstöðvarnar, OTH-radarstöðina, þar sem ég skildi hann þannig að það kæmi ekki til greina að hans mati að leyfa hér uppsetningu OTH-radarstöðvar. Það er mjög mikilvægt atriði vegna þess að þessar stöðvar eru bersýnilega hluti af árásarkerfi. Það getur ekkert annað verið þar á dagskrá.

Ég tók einnig mjög glöggt eftir því að hæstv. ráðherra sagði: Varaherflugvöllur kemur ekki til greina. Nú hef ég frétt af því að það sé til einhver skýrsla um þennan varaherflugvöll. Var ekki fyrrv. hæstv. utanrrh. eitthvað að bauka með þennan varaherflugvöll? Fróðlegt væri að vita hvort þessi skýrsla er til einhvers staðar. Hefur Flugmálastjórn samið einhverja skýrslu um þetta mál eða flugmálastjóri látið semja? Þetta er mál sem ég held að væri gott að fá nánari fregnir af, ef ekki við þessa umræðu þá sem fyrst.

Hæstv. utanrrh. lagði á það áherslu að afstaða hans varðandi einstakar tillögur á 42. allsherjarþinginu hefðu verið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og hann sagðist reiðubúinn að láta fara fram hér atkvæðagreiðslu um afstöðu sína varðandi tillögu Mexíkó og Svíþjóðar um frystingu. (Utanrrh.: Í samræmi við stefnu Alþingis.) Í samræmi við stefnu Alþingis, já. Ég held út af fyrir sig að það sé engin ástæða til að neita utanrrh. um að þessi atkvæðagreiðsla fari fram, hjálpa til við að það verði kannað hver er hugur þingsins í þessu efni. Þegar upp koma svo alvarlegar athugasemdir frá stjórnarflokki forsrh., eins og Sjálfstfl., stærsta flokknum hér í þinginu, er eðlilegt að utanrrh. beinlínis óski eftir því að Alþingi segi hvaða skoðun þingið hefur á þessu máli. Ég tel að það sé fyllilega eðlileg hugmynd og í raun og veru óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að vilji þingsins verði kannaður. (AG: Er það ekki skoðað sem traustsyfirlýsing?) Það er hætt við því að hæstv. samgrh. mundi t.d. líta þannig á. En þá er orðið vandlifað örugglega í ríkisstjórninni ef ráðherrarnir geta ekki greitt atkvæði með traustsyfirlýsingum hver á annan. En þá kemur það bara í ljós. Varla birtist niðurstaðan þannig að hæstv. samgrh. flytji tillögu um vantraust á utanrrh., en það væri líka nýlunda og svo sem eftir öðru í ríkisstjórninni og yrði kannski enginn hissa eða hvað.

Það sem mér fannst líka athyglisvert þegar hæstv. utanrrh. var að skýra frá þessum tillögum, sem hann breytti afstöðu til á þingi Sameinuðu þjóðanna, var það að hann spurði: Hvað réði afstöðu Íslands? Ég fékk lítið af svörum, sagði hann. En þá spyr ég: Af hverju var ekki hægt að spyrja fyrrv. hæstv. utanrrh. um það af hverju hann tók þessa afstöðu? Sitja þeir ekki svo að segja hlið við hlið á fundum tvisvar í viku í ríkisstjórninni hérna í „hvíta húsinu“ við lækjargötu eða hvað? Hvaða ofboðslegir sambandsörðugleikar eru þetta þarna á milli ráðherra í ríkisstjórninni? Auðvitað átti hæstv. fyrrv. utanrrh. að geta svarað því hvaða rök lágu á bak við hans afstöðu.

Þegar ég var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust, einmitt þá daga sem greidd voru atkvæði um þessar tillögur í fyrstu nefnd allsherjarþingsins, þóttist ég finna út af hverju það var sem ýmis NATO-ríki voru mjög gagnrýnin á afstöðu Íslands til þessara tillagna. Rökin voru ekki efni tillagnanna. Það kom mjög skýrt fram í viðræðum sem ég átti við t.d. fulltrúa Noregs og Vestur-Þýskalands á allsherjarþinginu sem ég hitti fyrir tilviljun á göngu. Það voru ekki tillögurnar sem slíkar og efni þeirra. Hvað var það þá? Það voru flutningsaðilarnir. Það var af því að tillögurnar voru fluttar: ein af Úkraínu og Tékkóslóvakíu, önnur af Þýska alþýðulýðveldinu, Kúbu, Rúmeníu og Tékkóslóvakíu. Það var af því að flutningsaðilarnir voru þessir. Þá mátti ekki styðja þær. Það sem í rauninni er verið að segja við hæstv. utanrrh. er að hann eigi með atkvæði Íslands á allsherjarþinginu að taka þátt í þessum blokkaleik burt séð frá innihaldi þeirra tillagna sem liggja fyrir. Þegar hæstv. samgrh. er að gagnrýna áróðurstillögur á allsherjarþinginu, sem er mjög margt til í, er hann í hinu orðinu í rauninni að segja að Ísland eigi að taka þátt í áróðursleiknum með því að hlaupa eftir því hverjir flytja tillögurnar á allsherjarþinginu en ekki hvað er í þeim.

Ég tók vel eftir því sem kom fram síðan í ræðu ráðherrans í gærkvöld varðandi viðskiptabann á Suður-Afríku. Þar kom fram að hann hafði gert tillögu um það í ríkisstjórninni að það yrði sett viðskiptabann á Suður-Afríku. Það kom jafnframt fram að það væri ágreiningur um það innan ríkisstjórnarinnar. Það fer að verða vandséð um hvað er eiginlega þessi stjórn og um hvað er samstaða í henni. Það er hvert málið á fætur öðru þar sem kemur fram að það er ágreiningur.

Ég tel að það sé út af fyrir sig mjög eðlilegt og við höfum flutt um það till., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að sett verði viðskiptabann á Suður-Afríku. En það er mjög athyglisvert að þetta mál skuli svo lokast inni í ríkisstjórninni og nauðsynlegt og æskilegt að það fái meðferð hér við umræðu um skýrslu utanrrh. En ég hygg að það sé mjög sjaldgæft í Vestur-Evrópu að innan ríkisstjórna séu ágreiningsmál jafnmörg og þýðingarmikil að því er varðar framkvæmd utanríkismála og nú er um að ræða, m.a. um Suður-Afríku. Er það neikvætt að uppi séu skiptar skoðanir í ríkisstjórn? Um það héldu þeir formenn Sjálfstfl. hér fyrrum langar ræður. Geir Hallgrímsson, fyrrv. formaður Sjálfstfl., og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson fluttu um það langar ræður hér áður hvað það væri óskaplegt að innan ríkisstjórnar væru mismunandi áherslur í utanríkismálum. Hvað það væri ofboðslegt fyrir ásýnd Íslands, veikti traust þess og stöðu á alþjóðavettvangi og Morgunblaðið skrifaði síðu upp og síðu niður um þessi ósköp. Nú liggur málið þannig að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Sjálfstfl. leiðir stjórn þar sem bersýnilega er um að ræða viðleitni til þess að taka tillit til nýrra aðstæðna í utanríkismálum og þar af leiðandi ágreiningur af því að forusta Sjálfstfl. er í þessum málum, eða hluti hennar, nátttröllið í íslenskri utanríkismálaumræðu þó að þíðunnar gæti oft, jafnvel eins og í málflutningi hv. 8. þm. Reykv. Ég verð að hryggja hann með því að ég verð að hæla honum í þessu sambandi. Ég veit að það spyrst ekki vel í prófkjörsstríðinu sem alltaf er hjá íhaldinu og hv. þm. Sverrir Hermannsson var að tala um í fyrradag í öðru samhengi.

Varðandi herstöðvarmálið, sem ég ætla að koma hér að aðeins seinna í ræðu minni, sagði hæstv. utanrrh.: Það á ekki að segja upp herstöðvarsamningnum eins og staðan er núna. Ég tel reyndar alveg þvert á móti að staðan sé þannig núna að það eigi einmitt að fara að undirbúa uppsögn herstöðvarsamningsins og koma hernum úr landinu. Það væri í samræmi við þær aðstæður sem nú eru uppi í alþjóðamálum, bestu samræmi við þá þróun sem þar er uppi. Ég er þess vegna fullkomlega ósammála hæstv. utanrrh. um þessa afstöðu eins og ég mun koma hér að síðar.

Ég ætla síðan að víkja að einstökum atriðum sem fram komu hér í umræðunni í gær varðandi skýrsluna. Hæstv. utanrrh. talaði í tvo tíma í gær og allt í lagi með það. Þetta er mikið mál og menn þurfa að tala ítarlega um það. En fyrir nokkrum sólarhringum voru fjölmiðlarnir stútfullir af því að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar hefði gefið meiri háttar pólitískar yfirlýsingar á alþjóðafundi hjá krötum á Norðurlöndum. Það var hæstv. fjmrh. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel athyglisvert að hæstv. utanrrh. gat haldið hér tveggja tíma ræðu án þess að nefna hæstv. fjmrh. Það er eðlilegt að hann skyldi sleppa því, en það er athyglisvert. Og það er bersýnilegt að menn gera ekki mikið með það sem hæstv. fjmrh. sagði í þessari makalausu ræðu. Ég tel að það sé hins vegar alveg óhjákvæmilegt að þessi ræða sé rædd hér aðeins vegna þess að þetta er þó enn einn úr þessari ríkisstjórn. Ég tel óhjákvæmilegt að það sé aðeins rætt.

Ég vil í fyrsta lagi mótmæla tóninum í þessari ræðu, að ef Norðmenn fari þarna inn missum við Íslendingar bandamann og verðum þess vegna í raun og veru að hlaupa á eftir þeim. Hvers lags samningsstaða væri það nú fyrir Ísland ef það legði málin upp svona gagnvart Evrópubandalaginu? Hvers lags samningsstaða væri það?

Hann segir t.d. í þessari ræðu, hæstv. fjmrh.: „Samningarnir við EB eru tímabundnir.“ Það eru þeir ekki. Þeir eru uppsegjanlegir, en þeir eru ekki tímabundnir. Hann gengur út frá þessu grundvallaratriði í ræðu sinni þannig að manni skilst að hann haldi að þessir samningar renni út.

Hvað á svo aðildin að kosta? Fjmrh. veit yfirleitt hvað hlutirnir kosta og sérstaklega þjóðin auðvitað eftir að hann tók við embætti fjmrh. Hvað ætlar hann að borga? Hvaða agn er það sem Vestur-Evrópuríkin eiga að bíta á? Hvað er það? Að þau fái að kosta herinn hér á vellinum. Að þau fái að borga fyrir herinn. Það er agnið sem þau eiga að bíta á. Þetta er sérkennileg uppsetning í alþjóðapólitík, verð ég að segja. Næsti bær við þessa speki væri þá að hæstv. fjmrh. legði til að til þess að EFTA hefði samningsstöðu gagnvart Efnahagsbandalaginu ætti EFTA að vígvæðast, EFTA ætti að hervæðast þannig að það hefði einhverja samningsstöðu þegar það fer að liðast í sundur að lokum.

Ég held að það sé nauðsynlegt að það sé fullt málfrelsi í þessu landi og ráðherrar tali og tali og þingmenn lesi upp nöfn á læknum og ég veit ekki hvað og hvað þó það sé stundum skrýtið hvernig að þeim hlutum er staðið. Ég er málfrelsissinni. En drottinn minn dýri. Eru engin takmörk fyrir því sem ráðherrar geta blaðrað á alþjóðavettvangi? Eru engin takmörk fyrir því? Nei, það eru sennilega engin takmörk fyrir því. Það er ekki hægt að setja neinar reglur um þetta hvorki í þingsköp eða samþykktir um Stjórnarráð Íslands. En þessar yfirlýsingar eru alveg rosalegar.

Ég hélt fyrst að þetta væri stefna Alþfl., en svo tek ég nú eftir því mér til ánægju að það er misskilningur. Ég las Alþýðublaðið í morgun, sem ég les oft mér til ánægju, en þar eru alveg skýrar yfirlýsingar um það mál að þetta er ekki stefna Alþfl. Hér er um að ræða eitthvert einkaútspil formanns Alþfl.

En halda menn að svona yfirlýsingar styrki Ísland í samningsstöðunni á komandi árum eða missirum? Auðvitað ekki. Auðvitað eru svona ræður þýddar og skoðaðar af merkilegum þjóðarleiðtogum og landsfeðrum eins og hæstv. fjmrh., hvert orð vegið og metið. Þetta veikir stöðu okkar í þessum samningum á komandi mánuðum, missirum og árum, því miður.

Um þessa umræðu og skýrsluna að öðru leyti vil ég taka undir það sem fram kom hjá hv. 13. þm. Reykv. í gær varðandi skýrsluna og þann svip sem er á henni. Skýrslurnar sem við fengum á síðustu árum frá utanrrh. íhaldsins minntu á lýsingar á landi og hafi eftir frostaveturna miklu. Það var samfelldur ís svo langt sem augað eygði, bæði til lands og til sjávar. Ég veit ekki hvort þm. hafa nýlega eða einhvern tímann lesið Sólon Íslandus þar sem Davíð Stefánsson segir frá því hvernig ísinn lagði hrammana yfir Norðurland sem eru einhverjar myndrænustu lýsingar sem til eru á ís í íslenskum bókmenntum að mínu mati. Þessar lýsingar hefðu átt fjarska vel við um skýrslur fyrrv. utanrrh. Það var hvergi stingandi strá. Það var íshellan yfir öllu, kaldastríðsbrynjan yfir öllu. Það væri rangt að líkja skýrslunum við freðmýrar vegna þess að þar stendur upp úr eitt og eitt strá.

Nú er hægt að segja að það sé grastoppur á stangli og jafnvel gróðurnál í skjólsælum lautum hér og þar þannig að umræðan og aðkoman að þessu máli núna er önnur en áður, ber merki þíðu frekar en kalda stríðsins og frostsins í samskiptum manna, flokka og þjóða sem fylgdi kalda stríðinu.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að hæla hæstv. utanrrh. mikið meira vegna þess að ég er ekki viss um að það sé mjög gott fyrir hann að það spyrjist víða að ég sé að senda honum rósir í stórum stíl. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna að ég tel það út af fyrir sig jákvætt að það skuli hafa verið stöðvaður áfangi við Helguvíkurstöðina. Ég tel einnig að í skýrslunni sé í raun og veru opnað með vissum hætti, eins og ég kem að hér á eftir, varðandi kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Auðvitað í tengslum við annað. Engum hefur dottið neitt annað í hug, eins og ég rakti ítarlega í umræðum um þetta mál á síðasta þingi. Ég tel það einnig mjög jákvætt, sem fram kom í framsöguræðu ráðherrans í gær, að það eru uppi hugmyndir um að ráða sérstakan sendi herra til að sinna þessum afvopnunarmálum og ráðstefnum öllum þar sem við erum með fjarska lítið lið miðað við aðrar þjóðir. Það er dálítið sárt stundum að vera Íslendingur í alþjóðasamskiptum og taka eftir því að við eru ekki með mannskap til þess að ná eins utan um málin og við vildum. Þess vegna verða menn oft að taka mið af því sem gerist með öðrum þjóðum og Norðurlandaþjóðunum sérstaklega. Svo gott sem það er er ekki rétt að hafa það þannig að þær stýri okkur að einu eða neinu leyti.

Hins vegar er fjöldamargt sem vantar í þessa skýrslu. Í rauninni er hún of mikil lýsing og of lítil stefna. Það sem ég tel að vanti sérstaklega í þessa skýrslu, að mér finnst, eru sex þættir.

Það er í fyrsta lagi spurningin um alþjóðlega eftirlitsstofnun með vígbúnaði sem er eitt heitasta umræðuefni alþjóðastjórnmála um þessar mundir, þ.e. hvort unnt er að koma upp alþjóðlegri eftirlitsstofnun sem hefur eftirlit með vígbúnaði í heiminum, sérstaklega kjarnorkuvígbúnaði, þannig að þau mál verði ekki í höndum stórveldanna einna. Ég sé haft eftir hæstv. utanrrh. í Helgarpóstinum fyrir nokkru að hann eigi sér þann draum — hvorki meira né minna - að bæði Rússar og Bandaríkjamenn stjórni radarstöðvunum hérna saman. Ég á mér hins vegar þann draum að það væru t.d. Sameinuðu þjóðirnar eða önnur slík alþjóðleg samtök sem hefðu með þetta að gera. Þessi spurning um alþjóðlega eftirlitsstofnun er algjör lykill að því að hægt sé að halda vígbúnaðar- og afvopnunarviðræðum áfram með einhverjum árangri, að vinna traust fyrir slíka stofnun.

Ég bendi á að leiðtogar ríkjanna sex hafa lagt á þetta mjög mikla áherslu. Það liggur einnig fyrir að ríki eins og t.d. Kanada, Ástralía, Vestur-Þýskaland hafa auk stórveldanna alla þá tækni sem þarf til að fylgjast með vígbúnaði og þróun mála í þeim efnum.

Annað atriði sem ég tel að hefði gjarnan mátt nefna í skýrslu hæstv. utanrrh. er umræðan um alþjóðlegt öryggiskerfi. Eins og kunnugt er hafa farið fram ítarlegar umræður um alþjóðlegt öryggiskerfi m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sovétríkin hafa óskað eftir því að fram fari um það mál umræður á næsta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég man satt að segja ekki hvort það var samþykkt að setja það á dagskrá næsta allsherjarþingsins, ég man það ekki, en alla vega var það rætt. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því í þessu máli og það sem ég upplifði svo sterkt á allsherjarþinginu sl. haust var það að sovéthliðin á heiminum svo að segja, hvað sem ég á við með því, það er hópur ríkja sem gengur þar undir merkjum, virðist vera með svo að segja allt frumkvæði að umræðum hjá Sameinuðu þjóðunum og jafnvel á alþjóðavettvangi og maður tekur eftir því jafnvel hér. Ég tók eftir því að fulltrúar vesturveldanna gagnrýndu þessar hugmyndir um alþjóðlegt öryggiskerfi vegna þess að það væri ekkert í þeim, þetta væri ómerkilegt og það væri hægt að gera þetta innan ramma Sameinuðu þjóðanna og allt það. Engu að síður var umræðan þarna í gangi og vesturhliðin á heiminum verkaði eins og frumkvæðislaus, íhaldssöm, geðvond og pirruð. Ég mundi í sporum þeirra sem ráða fyrir málum af þessu tagi á Vesturlöndum hafa áhyggjur af þessu. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir okkur, sem búum hér í Vestur-Evrópu, að okkar megin, hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á NATO og því öllu saman, sé líka frumkvæði. Það duga ekki geðvonskuviðbrögð, eins og oft hefur verið um að ræða í tíð Reagans eða var um að ræða, gagnvart því sem kom frá Sovétríkjunum. Það dugir ekki. Það verður bersýnilega að velta því mjög alvarlega fyrir sér: Hvert á frumkvæðið að vera? Ég er þeirrar skoðunar að þó Ísland sé vissulega ekki stórveldi heldur smáríki í raun að fólksfjölda til nýtur Ísland svo mikillar virðingar á alþjóðavettvangi, það nýtur virðingar á alþjóðavettvangi eins og sést t.d. á leiðtogafundinum, að Íslendingar gætu, einmitt Ísland gæti haft frumkvæði, forustu varðandi umræður um alþjóðamál. Ég tel að í skýrslu eins og þessari og í þessari umræðu ætti þess vegna að fjalla um alþjóðlegt öryggiskerfi, alþjóðlega öryggismálastefnu ættum við kannski frekar að kalla það, því að þarna liggur framtíðin, í alþjóðastofnun sem hefur eftirlit með hlutunum og menn treysta og í nýju alþjóðlegu öryggiskerfi sem leysir af hernaðarbandalögin. Auðvitað tekur það tíma og auðvitað er það ekkert sem gerist á einni nóttu, en þarna er örugglega beðið eftir frumkvæði frá vesturhliðinni, ef ég má orða það svo.

Þriðja atriðið sem ég saknaði í ræðu hæstv. utanrrh. og skýrslunni voru orð um starfsemi þingmanna á Norðurlöndum varðandi kjarnorkuvopnalaus svæði. Ég mun koma að því aðeins ítarlegar á eftir. En ég held að einmitt í sambandi við boð Ryzhkovs, forsætisráðherra Sovétríkjanna, til Jörgensens-nefndarinnar og í sambandi við boð Æðsta ráðsins til þinganna á Norðurlöndum og víðar, að ég hygg, komi þetta einmitt fram, verki eins og Sovétríkin, sovéthliðin sé að leita að frumkvæði, leita að nýjum leiðum og við tökum við. Í sambandi við Jörgensens-nefndina fannst mér í rauninni slæmt að það mál skyldi koma þannig upp að menn ræddu það í fyrsta lagi hvort við ættum að fara í þessari nefnd til Sovétríkjanna til viðræðna. Ég tel að nálgun mála í svona nefndum eigi að vera „ballanseruð“ og það sé óeðlilegt og óheppilegt að ræða þessi mál við annan aðila en ekki hinn.

Fjórða atriðið, sem er mikið minna, sem ég tók eftir að er ekki í þessari skýrslu en var í skýrslu Matthíasar Á. Mathiesens, hæstv. fyrrv. utanrrh., er um mannvirkjasjóð NATO. Í skýrslu hæstv. fyrrv. utanrrh. segir að það sé verið að vinna skýrslu um mannvirkjasjóð NATO, á bls. 51 í því plaggi. Ég vildi aðeins inna eftir því hvar það rit er á vegi statt.

Í fimmta lagi finnst mér að hér þurfi að fara fram dálítil umræða um spurninguna um kjarnorkuvopn á ófriðartímum. Hæstv. utanrrh. lýsti því alveg af dráttarlaust yfir, ég hygg sl. sumar eða sl. haust, að Íslendingar vildu ekki hafa kjarnorkuvopn, hvorki á friðartímum né á ófriðartímum. Þessi yfirlýsing hæstv. utanrrh. vakti mjög mikla athygli ekki bara á Íslandi heldur í samstarfslöndum Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu. Og auðvitað hefði þurft að ræða þetta mál hérna aðeins. En mér finnst dálítið um það, þó að samgrh. hafi verið brattur hér í gær gagnvart hæstv. utanrrh., með Sjálfstfl. að það er eins og hann vilji þegja í hel, helst, vissar óþægilegar yfirlýsingar hæstv. núv. utanrrh. sem fara aðeins undir skinnið á íhaldinu.

Ég held að það hefði þurft að ræða þetta mál aðeins og ég vil taka það fram af okkar hálfu að við erum algjörlega sammála þessari áherslu sem fram hefur komið frá hæstv. utanrrh. í þessu efni. Ég hefði hins vegar kannski gjarnan viljað heyra rök frá þeim sem eru hinnar skoðunarinnar og segja: Yfirlýsing um kjarnorkuvopn ekki á Íslandi á aðeins við um friðartíma, hitt er opið. Ég held að það standi upp á þá að gera grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli. Nú ef það gerir enginn í þessari tveggja daga umræðu er það auðvitað til marks um það að þeir séu sammála hæstv. utanrrh. í þessum efnum og þá stendur það eftir.

Ég ætla síðan að víkja aðeins að einstökum þáttum í skýrslunni og fyrst þá að kaflanum um Suður- og Mið-Ameríku. Í skýrslu fyrrv. utanrrh., bæði Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Á. Mathiesens, var engu líkara af orðum sem þeir létu falla um ástandið í Nicaragua en að þeir væru svona heldur á bandi „contranna“ og vildu heldur stuðla að því að Bandaríkjastjórn og Bandaríkjaþing samþykktu að veita dálitla peninga til contra-skæruliðanna til þess að þeir gætu haldið áfram að glíma við sandinista-stjórnina í Nicaragua. Í þessari skýrslu er tekið öðruvísi á þessum málum. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að inna hæstv. utanrrh. eftir því hver afstaða hans og þar með ríkisstjórnarinnar sé til fjárframlaga Bandaríkjamanna til þess að halda uppi skæruhernaði contra-skæruliða í Nicaragua. Þetta er brennandi mál, kemur aftur og aftur upp, m.a. á þingum Sameinuðu þjóðanna. Og utanrrh. verður þá að móta afstöðu til einstakra tillagna sem snerta þessi efni. Ég held að það væri mjög æskilegt að fá nokkur orð frá honum um þetta atriði.

Ég kem þá næst, í öðru lagi, varðandi einstök atriði, að spurningunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Hæstv. utanrrh. sagði: Þetta mál þarf að skoða í heild, það þarf m.a. að skoða með tilliti til ástandsins á Kola-skaga. - Nú, auðvitað, auðvitað. Auðvitað verða menn að hafa auga á hernaðaruppbyggingunni á Kola-skaga. Það kemur ekkert annað til greina, enda er það grundvallaratriði í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mál í Jörgensens-nefndinni, þar sem nokkrir Íslendingar hafa átt sæti, að það eigi jafnframt umræðunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að pressa á samdrátt í vígbúnaði á aðliggjandi svæðum og þar með töldum Kola-skaga. Það kemur ekkert annað til greina. Og mér finnst að stundum þegar menn eru að tala um þessi mál með Kola-skagann og Eystrasaltið o.ff. sé ákveðinn hópur úr kaldastríðstímanum hér á Íslandi eins og að nota Kola-skagann og nota Eystrasaltið til að hræða menn frá stuðningi við hugmyndina um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. En auðvitað dettur engum manni í hug sem er að fjalla um þessi mál varðandi kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að annað komi til greina en að sú umræða sé tengd því ástandi sem er í aðliggjandi ríkjum og hjá stórveldunum og hernaðarbandalögunum.

Hæstv. utanrrh. nefndi það að hægt gengi í embættismannanefndinni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og það sýnist mér að sé rétt. Hann sagði að ákvörðun um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að því er okkur varðar hlyti að gerast í samráði við önnur NATO-ríki. Og ég segi enn og aftur, auðvitað, hvað annað? Hvað annað? Þetta er einmitt ein aðferðin sem oft hefur verið notuð gegn kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum, að þeir sem berjast fyrir þeim segi sem svo: Heyrðu, þetta gerist bara hér og okkur kemur ekki við hvernig heimurinn er að öðru leyti. Auðvitað liggur málið ekkert þannig.

Í framsöguræðu sinni sagði hæstv. utanrrh. líka að samfara ákvörðun um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd yrði að eiga sér stað samdráttur á kjarnorkuvopnum og útilokun kjarnorkuvopna helst í hafinu og það er einmitt eitt grundvallaratriðið í áliti Jörgensens-nefndarinnar sem var gefið út 1. júní 1987 að hafið eigi að vera þarna inni.

Þannig stendur á með þessi mál, kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, að það virðist vera meiri hluti fyrir þeim á flestum þjóðþingum Norðurlanda. Það er meiri hluti fyrir þessu í Danmörku, það er meiri hluti í Svíþjóð, það er meiri hluti í Finnlandi, það er meiri hluti í Noregi, og þá komum við auðvitað að spurningunni um það: Ætlum við að láta það gerast að Norðurlönd að öðru leyti verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði en við verðum ein eftir sem þýðir aukinn þrýsting á Ísland og umhverfi Íslands að taka við kjarnorkuvopnum? Við höfum verið þeirrar skoðunar, allir flokkar hér í þinginu, m.a. man ég eftir ræðum sem um það voru fluttar af Sjálfstfl., að Ísland ætti að fylgjast með þessum málum og það væri verra að Ísland yrði viðskila við öll hin Norðurlöndin. Um þetta liggja m.a. fyrir ræður frá 30. nóv. 1985, fluttar af hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, Birgi Ísl. Gunnarssyni og Ólafi G. Einarssyni á ráðstefnu um þessi mál í Kaupmannahöfn. Núna stöndum við hins vegar frammi fyrir þeirri afgerandi spurningu: Ætlum við að taka þátt í umræðunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd með virkum hætti eða ekki vegna þess að þetta er að komast á alvarlegt stig, vinnustig?

Eftir fund sem var haldinn í Stokkhólmi núna fyrir nokkrum dögum um þessi mál þar sem var samþykkt að taka boði Ryzhkovs, forsrh. Sovétríkjanna, og ákveðið að fara einnig í viðræður í Washington um þessi mál, eftir þann fund ræddi ég lauslega við formann utanrmn. Alþingis og sagði honum frá því sem ég er að segja frá hér. Sömuleiðis ræddi ég aðeins um þessi mál við hæstv. utanrrh. vegna þess að þessi mál eru á dagskrá. Ég veit að það hefur verið viss tilhneiging til að ýta þessum málum frá sér, það mundi ekki gerast, það væru draumórar, þetta væri rugl í friðarhreyfingum eins og það var kallað o.s.frv. í Morgunblaðinu hér áður. Þannig er það ekki. Málið er á dagskrá og það er óhjákvæmilegt fyrir þingið og ríkisstjórnina að skoða það. Ég held að það sé mjög æskilegt að að því máli komi allir þingflokkar og ríkisstjórnin. Ég held að við megum ekki útiloka okkur eða neitt fyrir fram í sambandi við mál af þessu tagi. Málið er núna komið á það stig.

Ég gæti farið yfir grundvallaratriðin fyrir kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum sem Jörgensensnefndin hefur samþykkt. Ég ætla ekki að gera það í einstökum atriðum. Ég veit að bæði ráðherra og þm. hafa fengið þetta í hendur. Lögð er á það áhersla að þessi mál verði að skoðast með hliðsjón af öðru. Lögð er á það áhersla t.d. að Eystrasaltið eigi að dragast með inn í þessa mynd o.s.frv. Það er því alveg ljóst að spurningin um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd er að komast á dagskrá sem verkefni. Það þýðir ekkert að ýta henni lengur frá sér, þessari spurningu. Hún er á dagskrá. Hún er með.

Mig langar síðan, herra forseti, að víkja aðeins að Efnahagsbandalaginu aftur og bara segja þetta: Ég er sammála hv. þm. Kjartani Jóhannssyni um að það á að verða til nefnd sem skoðar þessi mál. Við eigum ekki að tala um aðild, hún er ekki á blaði, kemur ekki til greina. Við þurfum heldur ekki að tala um mikla eða litla aðlögun á þessu stigi málsins. Við þurfum auðvitað að halda þannig á málinu að við eigum sem besta samningsstöðu, en við þurfum að skoða þetta vendilega og stöðu Íslands í sambandi við Vestur-Evrópu og Evrópubandalagið. Ég held að þetta ætti gjarnan að vera þingmannanefnd eða nefnd sem flokkarnir fengju aðild að. Það skiptir miklu að við reynum að halda þannig á málum að við séum nokkurn veginn samferða í stórum málum eins og þessu. Ég minni á gott fordæmi í þeim efnum. Það er utanríkismálanefndin 1984/1985. Þannig á að vinna. Það á að reyna að laða menn saman um grundvallaratriði af þessu tagi og það væri rangt að mínu mati að ætla að leysa þessi könnunarmál gagnvart Evrópubandalaginu með því að skipa einhverja embættismannanefnd eða einhverja nefnd stjórnarflokkanna einna. Hér er um mikið víðara mál að ræða og nauðsynlegt að við vöndum okkur við það og að allir leggi sig fram um að ná þeirri niðurstöðu sem skynsamlegast er fyrir þjóðina í heild. Og við skulum ekki vera með neinn asa og ekkert óðagot í þessu efni. Við höfum ágæta samninga við Efnahagsbandalagið og þeir eru ekki tímabundnir þó að hæstv. fjmrh. haldi það. Það er auðvitað hægt að segja þeim upp, en það stendur ekkert til, hvorki af hálfu okkar né heldur af hálfu Evrópubandalagsins, að segja þeim samningum upp. Í tengslum við þetta mál er kannski rétt að minnast aðeins á utanríkisviðskiptin og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það hafi verið mikið vafamál hvort rétt hafi verið að flytja þau yfir í utanrrn., mikið vafamál. Ég óttast að það sem gerist í þeim efnum verði í raun og veru ekkert annað en það að viðskrn. verði flutt inn í utanrrn. og að utanríkisþjónustan að öðru leyti, þ.e. sendiráðin, verði í jafnlitlum tengslum við viðskiptin og þau voru áður. Ég held að það þurfi endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og það þarf að breyta, mér liggur við að segja því hugarfari sem er ríkjandi í sendiráðunum.

Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það að utanríkisþjónusta okkar er ekki nægilega vel skipuð að því er varðar fjölda starfsfólks og ef þessi breyting á viðskrn. yfir í utanrrn. á að verða eitthvað verður að endurskipuleggja ráðuneytið og starfsemi þess og endurskipuleggja sendiráðin og breyta, mér liggur við að segja innstillingu þeirra sem stýra sendiráðunum. Ég er ekki að tala um það að þeir hafi unnið vont verk á undanförnum árum, en það blasir við að þeir heyra nú undir ráðuneyti sem er allt öðruvísi en það var áður og rökin fyrir því að flytja viðskrn. yfir voru náttúrlega þau að viðskrn. væri ekki í nægilegum tengslum við utanríkisþjónustuna og til að fylgja þeim rökum eftir þarf auðvitað að taka á þessum málum með nýrri mannaskipan og endurskipulagningu á utanríkisþjónustunni og sérstaklega sendiráðunum í heild.

Ég vil þessu næst, herra forseti, koma aðeins almennt að Sameinuðu þjóðunum og vekja athygli á þeirri gífurlegu breytingu sem þar hefur orðið á afstöðu ríkjanna á undanförnum árum. Ég tel að breyting á okkar afstöðu til afvopnunartillagnanna hafi verið jákvæð á síðasta hausti. Ég bendi hins vegar á að í einstaka málaflokkum virðist afstaða Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum vera ákaflega hlutlaus eða þá öllu heldur ákaflega óvirk. Þetta kemur t.d., að mínu mati, vel fram í Palestínumálinu, Ísrael. Þar var um að ræða afgreiðslu t.d. á átta tillögum í Palestínumálinu á síðasta allsherjarþingi ef ég sé rétt. Íslendingar greiddu atkvæði með tveimur, á móti einni, en sátu hjá við fimm tillögur. Og mér sýnist þegar maður fer yfir afstöðu Íslands á undanförnum árum til Palestínumálsins að betra hefði verið að fara nákvæmar ofan í þróun mála í Palestínu eins og síðustu atburðir sýna. Ég held að Ísraelsstjórn hafi í raun og veru treyst of mikið á það að hún ætti samúð allra hvað sem hún gerði og ég tel að framferði Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum núna á undanförnum vikum sé alveg yfirgengilegt. Það er hroðalegt og ég tel að í þessum efnum eigum við að ganga mjög hart fram vegna þess að það er eitt af grundvallaratriðunum í stefnu okkar að verja rétt þjóða til sjálfsákvörðunar, Palestínumanna líka. Ég held að það sé mjög skynsamlegt sem hæstv. utanrrh. nefndi í gær, að við reynum að móta, Norðurlöndin, sameiginlega stefnu gagnvart Palestínu hið fyrsta og ég held að við hefðum kannski betur gert það mikið, mikið fyrr.

Ég gæti farið nákvæmar yfir Palestínumálið og er tilbúinn til að gera það við tækifæri og hef reyndar lagt fram ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fsp. um það mál og vík kannski aðeins nánar að því hér á eftir. En ég tók eftir því, þegar maður skoðar atkvæðagreiðslurnar hjá Sameinuðu þjóðunum á undanförnum árum, að afstaða Íslands er alveg sérstaklega veik og óburðug liggur mér við að segja þegar að Palestínumönnum kemur.

Ég vil í sambandi við Sameinuðu þjóðirnar leggja síðan tvær spurningar fyrir hæstv. utanrrh. Það er fyrst: Íslendingar hafa verið með í Sameinuðu þjóðunum frá upphafi en aldrei átt aðild að Öryggisráðinu. Það hefur aftur og aftur komið fram að það væri áhugi á því að Ísland ætti fulltrúa í Öryggisráðinu, áhugi hjá öðrum. Við höfum alltaf hafnað því vegna þess að við höfðum ekki efni á því og það er dýrt að vera sjálfstæð þjóð, það er dýrt að halda uppi utanríkisþjónustu með reisn. Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun að ég tel að Íslendingar og íslenska ríkisstjórnin eigi að íhuga það mjög alvarlega að næst þegar okkur gefst kostur á eigi Ísland að fara inn í Öryggisráðið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær kom þetta upp síðast? Er það rétt að það hafi verið á sl. ári og hann hafi hafnað því eða var það kannski forveri hans? Ég vildi gjarnan heyra skoðun hans á hugsanlegri aðild Íslands að Öryggisráðinu.

Önnur spurning sem ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra varðandi Sameinuðu þjóðirnar er um afvopnunarþingið sem verður haldið í sumar, þriðja afvopnunarþing Sameinuðu þjóðanna. Það var haldið þing 1982 og 1978 eða 1979, ég man það ekki alveg, ég held að það hafi verið 1979. á þeim þingum voru fulltrúar Alþingis, á báðum þeim þingum, trúi ég, rétt eins og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég beini því til hæstv. utanrrh. og auðvitað ekki síður til hæstv. forseta Sþ. hvort það er ekki mál sem á að athuga, að Ísland verði þátttakandi í afvopnunarþinginu vegna þess að við höfum verið það og það mundi vekja athygli, neikvæða að ég held, ef Ísland yrði ekki með á þessu þriðja afvopnunarþingi og auðvitað nauðsynlegt að utanrmn. og hv. formaður hennar fjalli einnig um það mál.

Mig langar þá kannski að allra síðustu í sambandi við þessi einstöku mál sem ég hef hér rætt aðeins til að bæta við í sambandi við Ísrael og Palestínu. Ég tel að ræða ráðherrans hafi verið betri en skýrslan í því máli og ég tel að skynsamlegt sé að það sé reynt að samræma stefnu Norðurlandanna í sambandi við þessi mál. Það er auðvitað dálítið umhugsunarefni að umræðan um utanríkismál á Íslandi hefur snúist um vígbúnaðarmál, afvopnunarmál, af og til kannski um Suður-Afríku, mjög lítið um ástandið í Mið-Ameríku, sáralítið um Palestínumálið í raun og veru, og það hefur verið viss tilhneiging til þess að segja: Þessi mál eru það langt frá okkur að þau koma okkur svo lítið við. Frá sjónarmiði utanrrn. er málið hins vegar ekki svona einfalt vegna þess að utanrrn. verður aftur og aftur, bæði á allsherjarþinginu og alls konar þingum, að vera að taka afstöðu til mála sem eiga sér þarna stað. Þess vegna held ég að það sé mjög nauðsynlegt að þegar fram fer umræða um skýrslu utanrrh. fari fram umræða um þessi mál í heild og líka mál á svæðum sem eru langt í burtu frá okkur. Mér finnst t.d. slæmt að það skuli vanta í þessa skýrslu, svo að ég nefni eitt dæmi, umfjöllun um kjarnorkuvopnalaust svæði í Kyrrahafi, Rarotonga-samninginn og reynsluna af honum. Hvernig er hann? Hafa menn kynnt sér hann? Auðvitað hafa menn gert það. Þar er um að ræða mjög merkilega fyrirmynd að hugmynd um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum þar sem gert er ráð fyrir því að stórveldi og hernaðarbandalög geti tengst þessum samningi um kjarnorkuvopnalaust svæði í Kyrrahafi með viðaukasamningum af ýmsum toga. Þegar ég segi að í skýrslu utanrrh. sé fullmikið af lýsingum en fulllítið af stefnu á ég m.a. við það að mér finnst vanta umræður um stefnumótandi atriði af þessu tagi.

Mig langar síðan aðeins að spyrja hæstv. utanrrh. um mál sem er kannski dálítið óskylt en er hvergi nefnt í þessum skýrslum og ræðum og hefur sennilega aldrei verið rætt í neinum umræðum, en það er um afstöðu Íslands gagnvart flóttamönnum, mönnum sem koma hingað og er vísað frá. Fyrir liggur fsp. um það efni frá hv. 2. þm. Austurl. Unni Sólrúnu Bragadóttur. Ég hygg að móttökur þær sem þetta hrjáða og hrakta fólk fær hér á landi séu kuldalegri en gerist víða og ég hef grun um að það séu til alþjóðasáttmálar sem okkur hefur láðst að staðfesta í þessu efni og ég vil inna hæstv. utanrrh. eftir hvort nokkuð er uppi varðandi þau mál núna í utanrrn.

Og svo að lokum þetta, herra forseti. Ég tel að í ljósi þeirrar þíðu sem nú er í alþjóðamálum, þeirrar umræðu sem hér fer fram, og þíðuna má merkja hér á Alþingi Íslendinga líka, eigi að leggja áherslu á eftirfarandi fjögur meginatriði:

Í fyrsta lagi tel ég að stefna eigi að því að losna við herinn úr landinu. Það eigi að gera það vegna þess að það sé í samræmi við hina jákvæðu þróun sem nú er að ganga yfir í utanríkismálum. Það væri dýrmætt framlag Íslendinga í þessum efnum og við eigum að hefja strax viðræður um þetta mál við Bandaríkin og við Atlantshafsbandalagið.

Í öðru lagi eigum við að fara í virkar viðræður og umræður á alþjóðavettvangi, alls staðar þar sem við getum, um nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi, eftirlitskerfi, og nýja alþjóðlega öryggismálapólitík. Við eigum að láta rödd Íslands heyrast alls staðar. Við eigum að vera með duglega, ötula utanríkisþjónustu sem hefur frumkvæði og beitir sér í málum. Liður í því gæti verið ráðning sérstaks sendiherra í afvopnunarmálum eins og hæstv. utanrrh. nefndi í gær.

Síðan tel ég að við eigum í tengslum við þetta að undirbúa það að við getum losnað við hernaðarbandalög, getum komið okkur út úr hernaðarbandalögum, um leið og við höfum séð þessum málum forráð og í tengslum við það í nýju alþjóðlegu öryggiskerfi.

Að lokum vil ég segja í sambandi við þessa umræðu: Við eigum að athuga okkar stöðu gagnvart Vestur-Evrópu. Aðild er ekki á dagskrá. Um það er allsherjar samstaða í þinginu. Við eigum að athuga okkar stöðu og við eigum að fara yfir mál mjög rækilega, hleypidómalaust, ekki með neinu óðagoti, t.d. byggjandi á þeirri hugmynd sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson setti fram í gær.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.