29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Já, það er sannast sagna að við búum við mjög erfitt ástand á Suðurnesjum eða í Reykjaneskjördæmi. Það er augljóst að það er mikill skipaflótti af svæðinu. Ég bið þm., hvar í flokki sem þeir standa og fyrir hvaða kjördæmi sem þeir eru, að líta í eigin barm og hugsa um að byggðarlag í þeirra eigin kjördæmi yrði fyrir slíkri blóðtöku sem ég held að sé óhætt að segja að Suðurnesin hafi orðið fyrir í þessari atvinnugrein á undanförnum árum. Þetta er svo alvarlegt vandamál að þingið allt verður að sameinast um að reyna að taka á þessu og menn verða að skoða það út frá því sjónarhorni að það væri að gerast í þeirra eigin heimabyggð.

Það geta sjálfsagt verið ýmsar ástæður sem liggja til þessarar þróunar. Ein er byggðastefnan eins og hún var rekin á sínum tíma, önnur er fiskveiðistefnan, bæði ofveiði, sérstaklega á smáfiski, og að hinu leytinu er ég ekki í nokkrum vafa um að kvótakerfið eins og það hefur verið rekið og eins og það hefur verið upp byggt hefur hallað á Suðurnes. Það hefur reyndar hallað á Suðurlandið allt. Þeir aðilar sem hafa verið sunnan hinnar tilteknu línu hafa orðið undir í bardaganum, ef ég má orða það svo. Þetta verður auðvitað að leiðrétta. Það voru forsendur fyrir þessari skiptingu á sínum tíma í tvö svæði. Það var annars vegar reynsla tiltekinna ára sem var valin til viðmiðunar, hversu góð sem sú reynsla var sem viðmiðun, og hins vegar að á þeim tíma voru greiddar uppbætur á t.d. karfa- og ufsaveiðar. Nú eru þessar forsendur ekki fyrir hendi og þess vegna á að mínum dómi að endurskoða þetta. Það verður að tryggja að allir sitji við sama borð í þessu efni. Það verður að tryggja við útfærslu fiskveiðistefnunnar. Annað er óviðunandi. Við megum ekki rífa sundur landið og láta einstökum byggðum blæða út vegna þess að við finnum ekki réttan kúrs í fiskveiðistjórn.