01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5173 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mín ætlan er ekki að ræða mikið efnisþátt þess frv. sem hér er til umræðu. Aðalástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er sú að menn hafa æðimikið blandað samningamálum inn í þessa umræðu, bæði í gær og í dag, og mér finnst að sumir hverjir hv. þm. tali nokkuð ógætilega um þá hluti og af nokkurri vanþekkingu og á það ekki síst við þann hv. þm. sem var að ljúka máli sínu áðan. Það er afskaplega þægilegt að standa fyrir utan allt, fyrir utan stéttarfélögin og gagnrýna harkalega þá menn sem eru í forustu fyrir þau og eru þó að reyna að hala inn aukin réttindi til handa því fólki sem í félögunum er. Það er léttasti vandinn að standa fyrir utan, á götum og gatnamótum og gagnrýna, þurfa enga ábyrgð að bera.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Svavar Gestsson, sem er nú kominn algjörlega endurnærður eftir að losna undan oki formannsins í Alþb., endurnærður og sprelllifandi og frískur, sem hóf umræðu, held ég, um jólaföstusamningana, nefndi þá og sagði ef ég man rétt: Það voru góð og jákvæð atriði í þeim samningum.

Þetta er rétt. Ég held að þegar menn ræða um samningamálin í heild ættu þeir að skoða hvað hefur gerst áður í þessum efnum. Við skulum aðeins rifja upp framhald af jólaföstusamningunum frá því í desember 1986. Það voru að mörgu leyti tímamótasamningar og hefðu þeir haldist út samningstímabilið hefðum við ekki staðið í þeim sporum sem við stóðum í núna í samningsgerð. Þeir samningar héldu að því er varðaði flesta sem þeir tóku til og þá fyrst og fremst láglaunafólkið. Þeir vöruðu allt fram í mars. Þá breyttist allt. Og hvers vegna? Þá voru samningamálin sett á uppboð rétt fyrir kosningar og það var fyrrverandi hæstv. fjmrh. sem stóð að þeim leik, spretti samningamálunum upp og gjöreyðilagði þann árangur sem náðist í desember að því er varðaði láglaunafólkið. Þá hófst launaskriðið sem staðið hefur síðan. Menn vita vel hverjir hafa þar fengið mest. Þar hafa þeir verst settu setið eftir. Ég held að menn þurfi að skoða í þessu ljósi hvað hefur verið að gerast í samningamálum og hvernig þau hafa þróast. Það er líka vitað að kaupmáttur á síðasta ári er hinn hæsti sem verið hefur um langt árabil. Þá erum við að tala um meðaltöl að sjálfsögðu og þarf ekki að taka það fram.

Menn segja núna að það hafi verið gerðir slæmir samningar. Ekki ætla ég að hæla þessum samningi og sjaldan hef ég staðið upp frá samningsborði ánægður. Yfirleitt er það svo að menn telja sig þurfa að ná meiru en menn standa frammi fyrir í lokin. Svo mun vera á fleiri sviðum.

Ég hef sagt og segi það hér: Það var aðeins einn aðili sem stóð við sinn þátt í jólaföstusamningunum og það var láglaunafólkið innan Alþýðusambandsins. Bæði vinnuveitendur og ríkisvald sviku. Þegar það gerist trekk í trekk að stjórnvöld bregðast þeim loforðum sem þau gefa þegar þau eiga aðild að samningum er ekkert létt verk að fá fólk til að trúa því að nú haldi það hjá ríkisstjórn. Það kann kannski að verða svo að það sem nú hefur gerst og hvernig það fer sem nú hefur verið samið um muni ekki síst byggjast á því hver töggur verður í hæstv. ríkisstjórn, hvernig hún skilar sínu hlutverki. Það hlýtur að verða að koma í ljós með hvaða hætti það gerist. Það er enn trúað á að við megum eiga von á því að stjórnvöld standi við sinn hlut.

Hv. síðasti ræðumaður talaði um Vestfjarðasamningana. Ég hygg að sá hv. þm. hafi engin efni á að kasta rýrð á þá sem stóðu að þeim samningi, hvernig sem menn svo meta hann sem slíkan, það er annað mál. Utanaðkomandi aðilar vita minnst um það sem er að gerast í samningsgerð utan þess svæðis sem þeir eru á. Ég tala nú ekki um þegar þeir taka ekki einu sinni þátt í einu eða neinu sem er í kringum slíka vinnu. Það er ekki annarra að dæma slík vinnubrögð. Það er þess fólks sem við það vinnur og á við það að búa. Menn vilja tala um kratasamninga í þeim efnum. Menn mega nefna það hvaða nöfnum sem þeir vilja. Séu þeir ánægðir með þá samninga sem við þá eiga að búa má kalla þá hvað sem er. En það þarf oft djörfung til að ríða á vaðið og þeir sem ríða á vaðið þeir geta líka átt von á því að þeir sem á eftir koma nái meira innan úr pottunum. Þessa djörfung sýndu þeir Vestfirðingar. Það var ekki öfundsvert hlutskipti þeirra að taka forustuna í þessum efnum miðað við þær kringumstæður sem við búum við og ekki þá síst Vestfirðingar að því er varðar fiskveiðar og fiskvinnslu á því svæði, en 80–90% af öllu vinnuafli vinnur við það þar. Ég held að menn þurfi aðeins að skoða og líta í kringum sig áður en menn fara að gagnrýna harkalega hluti eins og þá sem hér er verið um að ræða.

Hv. þm. Júlíus Sólnes sagði áðan að ríkisstjórnin væri búin að taka til baka, ekki bara það sem var samið um hér heldur meira. Hvernig eru slíkir útreikningar fengnir? Það hefði verið ástæða til að háskólamenntaður maðurinn, hv. þm., hefði farið yfir dæmið allt og sett það upp fyrir okkur hina í tölum. Það ætti að vera vandalítið hjá manni ofan úr Háskóla að setja dæmi upp fyrir okkur hina óbreyttu þm. um hvernig hlutirnir koma út eins og hann setur þá fram. (JúlS: Það stendur hér í drögum frá Þjóðhagsstofnun.) Það stendur ekkert um það. Það er rangt. Menn ættu að lesa betur. Það er til þess ætlast af þm., ég tala nú ekki um hinum hámenntuðu, að þeir geti gert sig skiljanlega á því máli sem þeir tala og menn viti hvað þeir eru að tala um.

Hann heldur kannski, hv. þm., að 6% gengisfelling þýði 6% kauplækkun. Kannski það sé kennt í Háskólanum. Nei, þetta er algerlega rangt, hv. þm. Auðvitað vissu menn fyrir, það var spurning um hvenær menn viðurkenndu það, að gengið var fallið og menn vissu hvað þeir voru að tala um í kringum þessa gjörð. Menn eru hins vegar ekki að semja um gengisfellingar. En ég tek undir með þeim sem hafa sagt: Hefði ekki Verkamannasambandið komið að þessari samningsgerð hefðu trúlega orðið hærri tölur að því er varðar fall á gengi en menn standa nú frammi fyrir. Þá er ástæða til að spyrja þessa hina sömu menn, sem telja að þetta dugi ekki, það þurfi meira: Hvað átti að gera? Átti að fella gengið meira? Á að skera meira niður? Við þessu hafa engin svör fengist. Það er líka ástæða til þess að spyrja hv. þm. Svavar Gestsson um það: Átti að fella gengið meira til að bjarga betur og á að skera meira niður og hvar? Hv. þm. Svavar Gestsson veit auðvitað alveg hvað hann er að tala um, maður sem hefur verið fremstur í flokki í áraraðir einmitt í svona verkefnum og kannski verri oft og tíðum. En hv. þm. er snjall leikari í orði, kann með hlutina að fara í munni þó hann hafi sjálfur staðið að enn þá verri verkum í gegnum árin.

Auðvitað er það ekkert fagnaðarefni sem menn eru hér að ræða um. Það fagnar þessu enginn. Þetta varð að gera og kannski má segja: Menn mega þakka fyrir að það þurfti ekki að ganga lengra þó í þessum efnum.

Víkjum aðeins að því sem hv. þm. Júlíus Sólnes sagði áðan. Það er búið að taka meira en samið var um. Núna í febrúar samkvæmt spám sérfræðinganna beggja megin borðsins var kaupmátturinn 123 stig. Hann var 134 árið 1987. Eftir að verkamannasamningarnir hafa verið gerðir er kaupmátturinn kominn í 132 stig. Þá er búið að taka allt „materíalið“ inn í dæmið. Hann er kominn í 132 stig. Þetta er eftir þeim reikningi sem ég lærði í barnaskóla. Þetta þýðir ekki að það sé búið að taka meira en um var samið. Ekki ef menn eru að tala um kaupmáttinn. Eru menn að tala um eitthvað annað?

Ég held að menn eigi að skoða dæmið betur þó að ég sé á engan hátt ánægður og tek það sérstaklega fram að vissulega hefði ég viljað gera betri samninga en hér um ræðir. En menn skulu ekki gleyma því að í langflestum sjávarþorpum víðs vegar í kringum landið er staða atvinnufyrirtækja sú að þau hafa beðið eftir því að loka. Þau hafa trúlega beðið eftir því að verkalýðsfélögin sjálf lokuðu þannig að þeir þyrftu ekki að gera það sjálfir, eigendurnir. Þetta er sú staða sem menn stóðu frammi fyrir. Lífið í þessum tilvikum er ekki alltaf dans á rósum og menn geta ekki alltaf baðað sig sem slíka.

Það er alveg ljóst að stjórn undanfarinna ára á fjármunum, peningamagninu, efnahagsstjórnin, hefur verið á þá lund að það hefur sorfið að framleiðslugreinunum en hinir hafa verið mataðir, í þjónustugeiranum. Það er það sem við erum að blæða fyrir nú. Þeirri stjórnun þarf auðvitað að snúa við. Það þarf að sjá svo um af stjórnvöldum að framleiðslugreinarnar, undirstöðuatvinnugreinarnar, geti þrifist með eðlilegum hætti.

Það má segja að fari menn niður í höfuðborg Reykjavíkur á dags millibili sjái maður breytingu hér í uppbyggingu. Öll þenslan er á þessu svæði hér. Peningaflóðið er hér. Hér ætlar Reykjavíkurborg að byggja fyrir 4–5 milljarða á þessu ári án þess að þurfa að taka nokkra krónu að láni. Ekkert slíkt þekkist nokkurs staðar úti um land. Það er þetta sem er þess valdandi hvernig nú er búið að atvinnulífi landsmanna víðs vegar úti um landið. Það verður að finna fjármagninu annan farveg en bara í þjónustugeirann.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Svavar Gestsson sem talaði líka um að tryggingarnar væru veikar í þessum samningi. Um það má deila hvort þær eru veikar eða veikar ekki. Ég held hins vegar að þær tryggingar sem í honum eru, sem eru 1. júlí og 1. nóv., hljóti að veita stjórnvöldum aðhald. Það er líka tilgangur með samningsgerðinni, að stjórnvöld hafi aðhald að því er varðar verðbólguna. Við hefðum gjarnan viljað ná lengra í þessum efnum, fá frekari tryggingar, en þess var ekki kostur.

Hv. þm. Svavar Gestsson minntist líka á starfsmannasjóðinn. Hann beindi því að vísu til hæstv. fjmrh. og hann hlýtur að svara því. En ég minni á að þetta var ein af kröfum Verkamannasambandsins, um starfsmenntunarsjóð, og þá höfðu menn fyrir sér í huganum það sem gerst hefur að því er varðar námskeiðin í fiskvinnslunni fyrst og fremst sem hafa skilað miklu.

Frá 1. mars og þangað til í desember á sl. ári mun kaupmátturinn vera á bilinu frá 125, þegar hann fer lægst í ágúst, upp í 137 í desember. Þetta er rokkandi. Kröfur Verkamannasambandsins voru settar fram með það í huga að reyna að halda óbreyttum kaupmætti frá árinu 1987. Það var kannski dirfska að reikna með slíku þegar litið er til ástandsins í kringum okkur og vitandi það að við búum við versnandi kjör. Eigi að síður var það talin skylda af hálfu Verkamannasambandsins að halda þannig á málum að við gætum sem næst haldið uppi kaupmætti frá árinu 1987. Hann er 3% minni í þessari samningsgerð heldur en var og engin ástæða til þess að leyna því á einn eða neinn hátt. Og þó að ég sé ekkert hissa á því að menn séu óánægðir, þá fullyrði ég það að menn hefðu ekki náð lengra í þessum efnum án harðvítugra átaka, langvarandi verkfalla sem menn hér innan dyra ættu að vita hvað kynnu að kosta. Frammi fyrir þessu stóðu menn og það kemur að því alltaf annað slagið hjá þeim aðilum sem við þessi verkefni fást að menn þurfa að taka ákvarðanir, taka afstöðu og þá bera jafnvel ábyrgð og standa eða falla með sínum gjörðum.

Menn hafa heyrt það núna í gær og í dag að launafólk er ekkert hrifið af þessum samningum. Það er tvennt sem ég held að fólki gremjist fyrst og fremst. Það er það hvernig betur launuðum stéttum hefur tekist að ná fram sínum kröfum verulegum umfram láglaunafólkið sl. ár og nánast fram á þennan dag. Og líka það hvernig ríkisvaldið brást sinni skyldu í samningsgerðinni frá árinu 1986. Þetta er sú gremja sem er að brjótast út innan raða félaga í Verkamannasambandinu. Það er því mikil ábyrgð sem hæstv. ríkisstjórn ber að því er þetta varðar nú, hvort það heldur eða ekki. Ef öðrum líðst það að skríða upp eftir baki láglaunafólks með enn frekari hækkunum en um er að ræða hjá þeim, þá er enginn friður. Þá er enginn friður í þessu landi á vinnumarkaðnum. Það gerist ekki eina ferðina enn án þess að verði tekið til hendinni á þeim bæ. Ég held að það sé hollt fyrir menn að hafa það í huga, jafnt hina sem gagnrýna þessa samninga sem lélega og einskis virði og okkur sem að þeim stóðu, það er nauðsynlegt að hafa það í huga að við ætlumst til þess af stjórnvöldum að þau standi við sinn hlut í samningsgerðinni og láti á það reyna ef aðrir ætla sér þá ósvinnu að taka sitt á þurru meira en Verkamannasambandið samdi um.

Menn gerðu lítið úr, og gera kannski enn, því hlutaskiptakerfi sem Vestfirðingarnir tóku upp. Ekki ætla ég að gera það að umræðuefni hér. Við fáum frekari fréttir af því þegar fram líða stundir. Það er hlutur sem tekur nokkurn tíma að reyna á hvernig kann að skila sér. En eftir fréttum að dæma mun nú vera annað hlutaskiptakerfi komið upp og það mun vera innan Sambands ísl. samvinnufélaga. Hvort sem menn kalla það bónus, einstaklingsbónus eða hlutaskipti í aukavinnu, þá er það nýtt í þessum heimi að því er varðar laun. Kannski hefur Verkamannasambandið verið of fljótt á sér að semja, en það skýtur skökku við að þetta dæmi, hvort sem það er nú rétt eða rangt, ég tala nú ekki um ef það er rétt, að þetta dæmi skuli koma úr þeim herbúðum þar sem andstaðan var mest við það að leiðrétta kjör láglaunafólksins. Það skýtur skökku við ef slíkt gerist á þeim bæjum. En kannski kann þetta að vera svo víðar.

Í lokin vil ég taka sérstaklega undir lok ræðu hæstv. fjmrh. sem fjallaði um vanda í orkumálunum. Ég held að það verði ekki unað lengur við annað en að stjórnvöld grípi í taumana í þessum efnum. Ætli menn trúi því að það kostaði 30 þús. í janúarmánuði að hita upp íbúðarhúsnæði vestur á fjörðum, 30 þús. upphitunarkostnaður og rafmagn. Þ.e. þessi eini þáttur í heimilishaldinu kostar öll lágmarkslaunin. Og spyrji menn nú sjálfa sig sem búa hér á þessu svæði og beri saman. Það er auðvitað verkefni stjórnvalda að grípa hér í taumana. Þetta er líka kjaramál, ekki hvað síst hvernig tekst að jafna þennan gífurlega aðstöðumun sem fólk býr nú við. Það gæfi mörg prósent í kauphækkunum ef þarna tækist að taka til hendinni til jafnréttis. Og ég ítreka það, ég treysti því og mun að sjálfsögðu ýta á það á þeim stað sem ég hef aðstæður til að í þessu verði farið að vinna og að menn sitji ekki aðgerðarlausir lengur, því að ef svo fram heldur sem horfir þá verður ekki langt í það að velflestir af þessum köldu svæðum sem menn kalla hyggja á brottför hingað á suðvesturhornið. Og það er enginn betur settur með því.