01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5265 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég hélt lengi vel á meðan ég hlustaði á ræðu hæstv. félmrh. að hún mundi haga orðum sínum þannig að ekki yrði ástæða til þess að koma hér upp aftur, en mig langar til þess að gera örfáar athugasemdir.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að frv. þetta barst ekki í hendur þeim sem það átti að gera sl. föstudag þó svo að það hafi kannski verið borið hér í húsið eftir að menn voru farnir héðan. Í öðru lagi, og það er auðvitað aðalatriðið, lá ekki fyrir endanleg og formleg tilkynning, þó að ekki hefði verið nema munnleg tilkynning frá formanni þingflokks, um að þetta frv. gæti farið fram eins og það var úr garði gert.

Síðan kveður við annan tón þegar þessu sleppir í máli hæstv, ráðherra þegar hún spyr: Gerir þetta bara nokkuð til? Er ekki bara algengt að frumvörp séu sett fram án þess að samkomulag sé orðið um þau? Er hún þá raunverulega að viðurkenna það að þetta hafi verið sett fram án samkomulags? (Félmrh.: Útúrsnúningur.) En það vill nú svo vel til að í plaggi því sem við sjálfstæðismenn lögðum fram 8. febr. er sérstaklega tekið fram, og það var reyndar lesið hér áðan, að, með leyfi forseta, „þingflokkurinn getur alls ekki fallist á að málið verði lagt fram á Alþingi fyrr en stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um frv.“ Það skiptir því engu máli hvað hefur verið gert hér einhvern tíma áður þegar slíkur fyrirvari er gerður.

Ég ítreka síðan bara það að við teljum að þarna séu einkum tvö atriði sem þurfi að athuga sérstaklega í nefndinni og ég tel að þær skýringar sem ráðherrann gaf séu alls ekki fullnægjandi. Við skulum þá bara athuga það í nefndinni hvort við getum náð samkomulagi um það eins og við töldum okkur vera búna að gera, við hv. 5. þm. Norðurl. v., og ég vænti þess, úr því sem komið er, að óðagot og hátterni ráðherrans í þessu máli spilli því ekki alveg og endanlega.