02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5328 í B-deild Alþingistíðinda. (3555)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því að athugað sé hvort hæstv. heilbrrh. er hér innan dyra. Ég hef svolítið við hann að tala. (Forseti: Það mun verða athugað. )

Ég vil þakka síðasta ræðumanni fyrir hennar innlegg í þetta mál. Ég hef líka vænst þess að það yrðu kannski konurnar hér á þingi sem mundu ráða úrslitum í þessu alvarlega máli. Það er nú svo með karlpeninginn að hann virðist vera værukærari og kærulausari um slík mál en konurnar yfirleitt og mér fannst það mjög athyglisvert hvernig þessi unga kona, sem er að halda hér sína fyrstu ræðu á Alþingi, talaði og ég get tekið undir allt sem hún sagði.

Það er búið að ræða um þetta frv. Hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði því þau skil að við það er ekkert að bæta. En það er ýmislegt athyglisvert við þetta allt saman. Síðasti ræðumaður talaði um hvort það gæti verið tilviljun að bjórfrv. er nú til umræðu. Þið hafið séð fréttirnar í sjónvarpinu í gær. Eitt af því sem Helga Helgasyni í sjónvarpinu fannst athyglisverðastar fréttir var að bjórfrv. komst ekki til umræðu. Hann sagði ekki frá því að hér á hv. Alþingi hefði það verið upplýst að það ætti að skera niður 100 millj. af því sem var búið að ákveða að Húsnæðisstofnun ríkisins fengi og að það þýddi það að það yrði að svíkja nokkuð marga einstaklinga sem eru búnir að fá lánsloforð. Það var ekki málið. Það var ekki sagt frá því. Það var ekki frétt. Bjórmálið var frétt. Það er eins og þetta sé bara orðið mál málanna hjá sumum mönnum.

Það var hér fyrir nokkrum árum sem kosin var nefnd samkvæmt tillögu sem var borin fram hér á hv. Alþingi og samþykkt sem átti að leiða til þess að það yrði mörkuð áfengismálastefna á Íslandi. Í þessari nefnd voru 16 þjóðkunnir menn og niðurstaða þessarar nefndar varð sú að taka skyldi fastlega undir það að Ísland ætti að fylgja því sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beint til aðildarþjóðanna, að minnka áfengisneyslu um fjórðung fyrir aldamót. Þess vegna er nauðsynlegt að huga að því hvaða ráð eru líklegust til þess að stuðla að því að slíkt takist.

Þeir sem fluttu bjórfrv. sem var sett í ruslakörfurnar viðurkenndu í sinni grg. að allar líkur væru fyrir því að bjórinn mundi auka neyslu Íslendinga á áfengum drykkjum. En ég veit ekki betur - hæstv. heilbrrh. er hér mættur - en að Ísland sé aðili að þessari heilbrigðismálastofnun. Það hefur ekki frést um eitt einasta ríki sem ætli að bregðast öfugt við nema þessa bjórmenn hér á hv. Alþingi.

Það væri hægt að lesa upp fréttir frá mjög mörgum ríkjum, t.d. frá Norðurlöndunum, sem ætla sér að banna milliöl, sem ætla sér að hindra það að áfengisútsölum fjölgi og meira að segja hafa sumar þjóðir hækkað aldur þeirra sem mega kaupa áfengi upp í 20–21 ár en hann var 18. Eina landið sem hefur frést um að sé að reyna að gera ráðstafanir fyrir hið gagnstæða eru Íslendingar.

Við erum að státa okkur af því að hér sé mikil og öflug heilbrigðisþjónusta. Ég man ekki betur en að hæstv. heilbrrh. teldi hana vera með því besta í veröldinni. En liggur það ekki á borðinu, er það ekki alveg sama hvar við berum niður um þessi mál, að aukið böl, aukin slys fylgja aukinni áfengisneyslu. Ég held að þessir hv. þm. sem leggja nú til að við förum að auka drykkju - það er það sem þeir gera og viðurkenna sjálfir - ættu að íhuga hvort það er ekki nokkur mótsögn við það sem við erum að reyna, t.d. í umferðinni, að fækka slysum?

Ég hafði samband við lækni fyrir nokkru sem starfar á stóru sjúkrahúsi í Svíþjóð. Hann taldi að 40% af slysum þar væru út af áfengisneyslu og mest út af bjórdrykkju og þó er milliölið ekki lengur selt þar. Ég man ekki betur en að hæstv. heilbrrh. hafi verið spurður að því í einu blaðanna hvort hann sé með bjórnum og hann hafi ef mig ekki misminnir sagt: Ég er eiginlega sjálfur með bjórnum, en ég er líka heilbrrh. Mig langar því til að leggja fyrir hann þá spurningu hvort hann sem heilbrrh. geti mælt með því að við gerum ráðstafanir á Alþingi Íslendinga árið 1988 til að auka drykkju í landinu eins og þeir sem báru fram þetta frv. viðurkenndu í grg. að væri markmið og það væri hætt við því. Þeir gerðu það samt.

Ég er hér með blaðagreinar eftir mæta menn. Ég er með blaðagreinar eftir dr. Tómas Helgason. Ég er með blaðagreinar eftir Grétar Sigurbergsson geðlækni og eftir Jóhannes Bergsveinsson lækni. Og ég er með þessa, ég vil segja merkilegu bók, Skýrslu áfengismálanefndar ríkisstjórnarinnar, sem átti að verða til þess að marka stefnu, ekki að auka drykkju í landinu heldur hvernig ætti að draga úr henni. Ég get ekki betur séð en að átökin um frv. sem hér liggur fyrir séu um þetta í sjálfu sér: Á það að verða stefna Alþingis, á það að verða stefna stjórnvalda að auka drykkju? Á það að vera? Er það það sem er stefnt að og er það það sem menn vilja bera ábyrgð á? Ég skora á þá sem eru í vafa að útvega sér þessar greinar sem ég taldi upp hér áðan. Það er mikill fróðleikur í þessum greinum og hvað sem er um læknana sem skrifuðu - hvað þeir voru margir, 133 — ef menn lesa um reynslu allra þjóða, hvar sem við flettum upp, er reynslan öfug við það sem þessir læknar skrifa undir.

Nú er það alveg rétt að venja er að frv. um sölu áfengis eða sölu bjórs fari í allshn. og það hefur verið hefð. En það er spurning, eins og nú standa mál, hvort meiri hluti allshn. sé ekki orðinn ber að því að hún er vanhæf að fjalla um þetta frv., blátt áfram. Miðað við það sem ég hef hér sagt á undan væri réttara að vísa því til heilbr.- og trn. Þetta er ekki síður heilbrigðismál.

Ég ætla mér ekki að fara að halda hér lengri ræðu. Ég ætla ekki að halda uppi málþófi út af þessu máli. Ég á að vísu margt ósagt, en þetta mál á eftir að fara a.m.k. til 2. umr. og ef það fer í gegnum 2. umr. þá 3. og þá kannski gefst tækifæri til þess að bæta við ef mál standa þannig að manni sýnist nauðsyn að ræða þetta frekar.

Ég vil endurtaka það, ég vil spyrja hæstv. ráðherra heilbrigðismála að því, hvort það sé ekki rétt að Ísland sé aðili að Heilbrigðismálastofnuninni og hvort hann geti bent á nokkra þjóð í veröldinni sem hafi snúist eins í þessu máli og hér liggur fyrir, þ.e. að gera öfugar ráðstafanir við það sem grannþjóðir okkar eru að gera og sem er eðlilegast að við gerum í þessu máli. Það er eins og fólk sem ræðir um þessi mál og stendur að þessum tillöguflutningi sé lokað fyrir öllum rökum.

Ég man eftir því að þegar ég var drengur rak ég stundum fé til Akureyrar með föður mínum. Mér var sögð saga af því að sumir hverjir sem þótti sopinn góður urðu hálffullir þegar þeir sáu Akureyri og tóku á rás á undan hópunum til að ná sér í áfengi. Ég get ekki séð með þennan tillöguflutning annað en menn séu hálfölóðir eins og hinir gömlu menn sem ég var að segja frá.