03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5408 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

306. mál, umsóknir erlendra manna um landvist

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. beinir til mín fsp. í fjórum þáttum um umsóknir erlendra manna um landvist.

Um 1. liðinn í fsp. vil ég segja að í lögum frá 1965 um eftirlit með útlendingum eru ákvæði um það hvernig bregðast skuli við ef útlendingur leitar hér hælis sem flóttamaður. Sú verklagsregla gildir að útlendingaeftirlitið tekur skýrslu af viðkomandi manni og aflar sér upplýsinga um hann frá útlöndum, ef þess er kostur, í því skyni að sannreyna þær upplýsingar sem hann gefur. Eðli málsins samkvæmt nær þó slík upplýsingasöfnun ekki til heimalands viðkomandi manns, en ef einstaklingurinn hefur komið hingað frá Vestur-Evrópulöndum er spurst fyrir um hann hjá innflytjendaeftirliti landsins sem hann kom síðast frá. Reynslan hefur sýnt að þetta er nauðsynlegt. Um þetta er nokkurt samstarf, sérstaklega milli Norðurlanda.

Við mat á umsóknum sem hingað berast um landvist er farið eftir Genfarsáttmálanum frá 1951 um stöðu flóttamanna sem Ísland gerðist aðili að árið 1955. Í honum er að finna skilgreiningar og leiðbeiningar um það hvernig fara skuli með mál flóttamanna sem hingað koma og um stöðu þeirra og réttindi. Sérhver umsókn er metin sjálfstætt og reynt að kanna aðstæður hvers einstaklings fyrir sig, en í sumum tilfellum er af mannúðarástæðum rétt að veita mönnum hér tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi þótt ákvæði flóttamannasáttmálans eigi ekki við um þeirra stöðu.

Í öðru lagi er það samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum skylda útlendingaeftirlitsins að halda spjaldskrá yfir útlendinga sem dveljast hér á landi. Í þeirri spjaldskrá eru skráðar og flokkaðar umsóknir útlendinga um landvist, hvort sem um er að ræða umsókn um hæli sem flóttamaður eða umsókn um tímabundið dvalarleyfi. Á undanförnum árum hefur umsóknum nokkurra einstaklinga, sem sótt hafa um hæli hér á landi, verið synjað. Í öllum tilfellum hefur verið þar um að ræða menn sem hafa verið staddir í eða nýkomnir frá landi þar sem ekki var talin ástæða til þess að fólk væri að flýja ofsóknir, í langflestum tilfellum eitthvert Vestur-Evrópuríkjanna sem öll eru eins og Ísland aðilar að þessum sama sáttmála, Genfarsáttmálanum. Samkvæmt honum þurfa menn sem leita hælis sem flóttamenn að snúa sér til yfirvalda í fyrsta ríki sem þeir koma til og virðir réttindi flóttamanna. Á árinu 1987 var þannig einum manni, einum útlendingi, Pólverja reyndar, gert að snúa aftur til Noregs þar sem hann átti óafgreidda umsókn um hæli sem pólitískur flóttamaður. Þess skal sérstaklega getið að enginn umsækjandi hefur verið sendur aftur til heimalandsins eða lands þar sem minnsta ástæða væri til að ætla að persónulegt öryggi hans væri í hættu á þeim tíma sem ég þekki til þessara framkvæmda.

Sem svar við 3. liðnum í fsp. vil ég rekja eftirfarandi tölur: Á árinu 1985 var fimm útlendingum veitt hér hæli. Einn var frá Víetnam, einn frá Íran, einn frá Rúmeníu, einn frá Ghana, einn frá Póllandi. Á árinu 1986 var sjö flóttamönnum veitt hér hæli. Einn var frá Afganistan, einn var frá Pakistan, einn frá Eþíópíu, einn frá Víetnam, tveir frá Póllandi og einn frá Íran. Á liðnu ári, árinu 1987, var sjö flóttamönnum veitt hæli. Þar af voru þrír frá Júgóslavíu, einn frá Tanzaníu, einn frá Póllandi og einn frá Íran.

Eins og ég nefndi áðan hefur í sumum tilfellum verið veitt hér landvist fólki sem ekki uppfyllir skilyrðin til að fá landvist sem flóttamenn og eins hefur það komið fyrir að flóttamenn hafa afturkallað umsóknir um viðurkenningu sem slíkir, en sækja í staðinn um dvalar- og atvinnuleyfi á sömu kjörum og aðrir útlendingar sem hér eru við störf. Með slíku fyrirkomulagi er hægt að verða við beiðni um landvist í sérstökum tilfellum þar sem mannúðarástæður mæla með því og eins getur þetta í sumum tilfellum verið betra fyrir fólkið sem ekki vill brjóta allar brýr að baki sér í sínu upprunalandi og vill e.t.v. ekki vekja athygli á flótta sínum hingað ef um flótta er að ræða.

Það er stundum gert, og þá vík ég að almennri fsp. hv. 2. þm. Austurl. um viðhorf okkar til flóttamanna, að skipta flóttamönnum í tvo hópa og er annar kallaður á því máli sem tíðkast í þessum málum spontant-flóttamenn, þ.e. fólk sem fyrirvaralaust ber að dyrum í móttökulandinu, oftast nær á eigin vegum eða tiltölulega fáir saman. Hinn hópurinn er jafnan kallaður kvótaflóttamenn. Það sem ég hef sagt hér hingað til á einkum við um fyrrnefnda hópinn, þ.e. menn sem koma hingað einn og einn af sjálfsdáðum. Í síðara tilfellinu er um það ræða að ríkisstjórnir í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ákveða að bjóða tilteknum hópi flóttafólks landvist, yfirleitt fólki sem dvelst í flóttamannabúðum og sem ósennilega á afturkvæmt til síns upprunalands eða fólk af þjóðernisminnihluta sem stjórnvöld vinna markvisst að að flæma burt úr ríki sínu. Íslendingar hafa tekið við slíkum hópum frá Ungverjalandi, Víetnam og Póllandi og nýlega samþykkti ríkisstjórnin að taka við 20 flóttamönnum til viðbótar frá Víetnam.

Eins og fram hefur komið í máli mínu þegar hefur engum þeim sem sótt hefur hér um landvist sem flóttamaður verið vísað til síns heimalands eða lands þar sem hann teldi sig ekki öruggan og frávísanir hafa verið hér mjög fátíðar. Við höfum hins vegar ekki orðið fyrir þeirri ásókn flóttamanna sem nágrannalönd okkar, t.d. Norðurlöndin, eiga mörg við að glíma. Þar kemur auðvitað til lega landsins og sjálfsagt fleira. Flóttamannastraumurinn til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs er orðinn þar verulegt vandamál þar sem erfitt reynist að útvega flóttafólkinu húsnæði, vinnu og nauðsynlega fræðslu. Hitt er einnig staðreynd að stór hluti flóttafólksins er ekki flóttafólk í skilningi Genfarsáttmálans heldur fólk í leit að betra lífi en það á völ í sínum heimalöndum. Það er nú reynt að sporna við þessum straumi í flestum þessara ríkja, en allar Norðurlandaþjóðirnar standa hins vegar að þeirri stefnu að veita móttöku fólki sem telst flóttamenn í skilningi Genfarsáttmálans.

Ég hugsa að það sé rétt skoðun að við eigum að búast við auknum þrýstingi hér um að taka við fleiri kvótaflóttamönnum, en ég tel við getum naumast tekið við fleiri flóttamönnum en geta okkar til þess að laga þá að íslensku samfélagi leyfir. Það þýðir t.d. að við verðum að eiga á að skipa fólki með nægilega þekkingu í tungumálum og siðum flóttamannanna til að kenna þeim íslenska tungu, fræða þá um íslenska siði og veita þeim grundvallarþekkingu um okkar samfélag. Sé þetta vanrækt koma skjótt upp margvísleg vandamál eins og reynsla nágranna okkar sýnir. En reynsla þeirra og okkar sýnir einnig að þegar vel tekst til eru flóttamenn þjóðfélaginu alls ekki til byrði. Kostnaður við móttöku þeirra er fljótur að skila sér í framlagi þeirra til atvinnulífs ásamt því sem þeir auðga jafnan þjóðfélag móttökulandsins á margvíslegan hátt. En í fámennu landi verðum við auðvitað að beita okkar getu þannig að það sé til heilla fyrir þá sem hingað koma og þá sem hér búa.