02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

60. mál, iðnaðarlög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir efasemdum og áhyggjum vegna efnis þessa máls. Ég vil reyndar byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvað reki hann til að flytja þetta mál sérstaklega nú þar sem það er í raun hluti af miklu stærra máli sem þarf að taka upp með heildarsýn í huga. Að vísu vék hv. 7. þm. Reykv. að þessu áðan, en mér þætti vænt um að það kæmi beint úr munni ráðherrans sjálfs sem hér flytur þetta mál.

Meginástæðan fyrir því að Kvennalistinn hefur áhyggjur af efni málsins er sú að við viljum gjalda varhug við of miklum afskiptum erlendra aðila af íslenskum atvinnurekstri. Það hefur reyndar verið viðhorf okkar alveg frá því að við komum inn á Alþingi. Við teljum að nauðsyn sé fyrir Íslendinga að standa vörð um eigin yfirráð yfir íslenskum atvinnuvegum og íslenskum auðlindum. Við erum fámenn þjóð á hjara veraldar, en við eigum aðgang að og yfirráðarétt yfir mjög verðmætum auðlindum sem aðrar þjóðir hafa haft og kynnu að hafa augastað á og nægir í því sambandi að nefna augljóst dæmi um fiskveiðilögsögu okkar.

Það er auðvelt fyrir erlendar þjóðir eða fjölþjóðafyrirtæki að ná mjög sterkum áhrifum og völdum í íslenskum atvinnurekstri og efnahagslífi í gegnum eignaraðild að íslenskum fyrirtækjum, jafnvel þó að það sé ekki meirihlutaaðild, og við höfum reyndar reynslu fyrir því. Kvennalistinn hefur ævinlega verið vel á verði þegar um er að ræða minnsta möguleika á afsali þessa mikilvæga yfirráðaréttar því að við teljum að tilvist okkar sem sjálfstæðrar þjóðar sé í hættu ef fjárfesting og eignaraðild erlendra aðila verður of víðtæk. Þetta hefur m.a. mótað afstöðu okkar til mála eins og stóriðju og nú nýlega eignaraðild erlendra banka að íslenskum bönkum. Það þýðir þó ekki jafnframt að við stöndum öndverðar gegn samvinnu og samstarfi við erlenda aðila, hvorki í nýsköpun í iðnaði né á neinum öðrum sviðum, og við verðum að hafa náin samskipti við umheiminn, en við verðum hins vegar að gæta okkar. Þjóðin er fámenn og ung og við lendum því mjög oft í hlutverki þiggjandans fremur en í hlutverki frumkvæðisaðilans. Við verðum að gæta þess vel að varðveita rétt okkar og frumkvæði á alþjóðavettvangi. Erlendir aðilar geta meira að segja öðlast vissan íhlutunarrétt yfir íslenskum auðlindum og atvinnuvegum með óbeinni stýringu. Gefum t.d. gaum að því hve vel það hentar nú Efnahagsbandalagslöndunum að Íslendingar skuli moka ferskum fiski til Evrópulanda. Gefum líka gaum að því hver áhrif þetta hefur á meginatvinnuveg okkar til langframa ef við leyfum þessari óbeinu stýringu að ráða þróun mála hérlendis.

Nei, það er fyllsta ástæða, hæstv. ráðherra, til að vera vel á verði þannig að við getum sjálf ráðið þróun mála í eigin landi. Kannski telur ráðherrann sig vera að opna örlitla glufu fyrir örfáa aðila sem þykir það brýnt nú, en straumurinn verður þungur að utan og glufan kynni að verða að gjá fyrr en varir.

Ég lýsi sérstökum áhyggjum yfir því valdi sem hæstv. iðnrh. ætlar að taka sér í þessu afdrifaríka máli með því að rýmka heimild sína til að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. iðnaðarlaganna um að meira en helmingur hlutafjár í iðnfyrirtækjum hér á landi skuli vera eign manna búsettra á Íslandi. Þarna tekur hann sér vald til að taka mikilvægar ákvarðanir sem hann þarf ekki að bera undir Alþingi. Það segir auðvitað ekkert í þessu máli hve oft hann hyggst gera þetta og hvenær. Þetta finnst mér vera atriði sem Alþingi á að taka ákvörðun um en ekki ráðherra einn. Ég lýsi enn fremur áhyggjum yfir því að hann skuli vilja rýmka réttinn enn frekar með því að krefjast ekki nauðsynjar á íslensku ríkisfangi til að tryggja þessa eignaraðild. Ég tel þetta hættulegt og að okkur beri að gjalda varhug við því.

Málið fer væntanlega til umfjöllunar í hv. iðnn. þessarar deildar sem ég hygg að við eigum ekki aðild að, Kvennalistinn, og vildi ég þess vegna biðja um áheyrnaraðild að nefndinni þegar málið fer þangað í umfjöllun því að ég tel mjög mikilvægt að fylgjast vel með þessu máli þegar fjallað verður um það í nefnd.