03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5429 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

265. mál, launabætur

Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem talað hafa í þessu máli. Satt best að segja finnst mér það dálítið nöturlegt þegar verið er að tala um jafnþýðingarmikið mál og kjör launafólks í landinu að þá skuli maður tala um það bara fyrir þingtíðindi. Þm. gefa sér mjög fáir tíma til þess að vera viðstaddir, að ég tali nú ekki um ráðherrana. Þeir sjást líklega ekki í þinghúsinu frekar en fyrri daginn.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um það sem hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir sagði um þessa till. okkar síðast þegar hún var til umræðu. Þetta er kannski fyrst og fremst til upplýsingar.

Tillögur um lágmarkslaun eru ekkert nýtilkomnar. Það er ekkert nýtilkomið að hin lágu laun hér á Íslandi eru til vansæmdar. En hitt er annað mál að launamisréttið hefur aldrei verið eins gífurlegt og í seinni tíð. Einu sinni flutti Stefán Jónsson tillögu um lágmarkslaun. Mér hefur alltaf fundist sú tillaga ágæt, sérstaklega á þeim tíma sem hún var flutt, enda var hún svo skynsamleg að hún var eiginlega ekki rædd. Ég veit meira um tillögur um lágmarkslaun. Þar ætla ég bara að fara í minn eigin feril því að ég þekki hann. Ég þori ekki að treysta minni mínu svo að ég sé að nefna margt fólk og gleyma kannski öðru.

Eftir að ég kom að samningum aftur 1976 eftir að hafa ekkert nálægt þeim komið síðan 1950 var mér það alveg ljóst að kjaramál voru komin í þann farveg að þau yrðu ekki leyst í samningum. Ég á kannski eftir að tala betur um þetta í síðari umræðu, en mér var það ljóst.

Ég tók við Sókn 1976 um vorið eða síðla vetrar. Þá boðuðum við til láglaunaráðstefnu með öllum verkalýðsfélögum í Reykjavík. Ég held að það hafi verið eitt félag sem þáði boðið, þ.e. eitt félag í Reykjavík, það var nokkuð af félögum utan af landi. Við ræddum þessi mál mikið og útkoman varð sú að við samþykktum að í næstu kjarasamningum yrði gerð krafa um 100 þús. kr. lágmarkslaun. Þetta var þegar gamla myntin gilti.

Alþýðusambandsþing 1976 var mikið átakaþing. Það gerðust ýmsar uppákomur. Ég var í kjaramálanefnd þingsins. Þar urðu miklar umræður um einmitt þessa tillögu og hún náði samþykkt á Alþýðusambandsþingi, kannski óviljandi, í öllu fuminu sem varð þar út af því hvernig mál æxluðust þar. En hún var samþykkt samt. Hún vakti ekkert mjög mikla hrifningu, en þó varð einn maður til að leggja okkur nærri því óvænt lið. Þar ég við Ólaf heitinn Jóhannesson sem þá var í ríkisstjórn. Hann sagði að sér fyndist tillagan sanngjörn og það væri vel hægt að borga þessi laun.

Síðan eru gerðir samningar sem kallaðir hafa verið „sólstöðusamningarnir“. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga þar, en hins vegar varð mjög mikil breyting til bóta bæði á launum og kjörum láglaunafólks í þessum samningum. Það sem felldi þá samninga var það sem alltaf vill ske. Þeir þutu upp allan launastigann. Kauphækkunum var velt út í verðlagið, samningum kennt um verðlag og verðbólgu. Í skjóli þess voru svo sett þau lög sem við kölluðum „kaupránslögin“ í febrúar 1974. Mér dettur í hug: Ætli að það sé alltaf komið svona aftan að fólki af ríkisvaldinu í febrúar? Ég hugsa það megi taka hann út úr almanakinu.

Við börðumst gegn þessum lögum. Mér er mjög minnisstætt að ég fór norður á Húsavík og sá þar þann mesta snjó sem ég hef nokkurn tíma séð og vona að ég sjái aldrei aftur, var þar veðurteppt í tvo sólarhringa og fór með togara til Akureyrar og var þar veðurteppt í þrjá sólarhringa. Þá vorum við að berjast gegn þessum lögum.

Þetta var kosningaár. Það var kosið um vorið, það var 1978, og kannski urðu þessi mál meira kosningamál en kjaramál. En það er einmitt þá um vorið sem ég fór að ræða það við hóp af fólki sem ég vissi að hafði svipaðar skoðanir í þjóðmálum og ég að það yrði að setja einhverja tryggingu, einhverja afkomutryggingu fyrir það fólk sem alltaf væri troðið undir. Ég sé ekkert athugavert við þetta og ekkert ljótt við þetta. Og mig langar að heyra: Hvað er athugavert við þó að kjör lægst launaða fólksins séu tryggð, að það megi ekki fara neðar en þetta í launum með nokkurn mann án þess að það þurfi endilega að fara upp úr öllu? Ég álít að við, löggjafinn, og þjóðfélagið berum ábyrgð á öllum þegnum þjóðfélagsins. Ef einhverjum mistekst, sem við köllum aðila vinnumarkaðarins, ef þeir svíkjast undan merkjum, eiga ekki hinir að gjalda þess sem illa fara út úr þessu.

Nú hafa verið gerðir kjarasamningar, þ.e. Verkamannasambandið hefur gert kjarasamninga. Verkamannasambandið stóð eitt að þessum kjarasamningum. Aðrir máttu ekki nálægt þeim koma. Mér vitanlega hafa þeir aldrei verið ræddir neitt í miðstjórn ASÍ. Ég á að heita þar enn þá og ég hef ekki heyrt nefnt að þeir væru ræddir þar. Þeir eru gerðir í Garðastrætinu náttúrlega eins og allir vita. Þessir samningar eru í minni vitund þrælpólitískir nauðungarsamningar. Þeir eru felldir núna í hverju verkalýðsfélaginu á fætur öðru.

Það er erfitt að tala við fólk sem er ekki viðstatt, en það verður að hafa það. Ég sagði í fáeinum orðum við hæstv. fjmrh. einhvern tíma í vetur að ef verkalýðshreyfingin reyndi ekki að rétta hlut lægst launaða fólksins núna mætti hún fara að biðja fyrir sér. Hann sagði hérna við mig í gættinni: Hún má fara að biðja fyrir sér. Hann kannski neitar því eins og hann sagði það. Svona handviss var hann um að hann hefði alla þræðina í sinni hendi. Þessir þræðir hæstv. fjmrh. eru illilega að slitna úr höndunum á honum þegar þessir samningar, sem sagðir eru samdir í Arnarhvoli, eru kolfelldir í verkakvennafélaginu í Hafnarfirði.

Við vitum hvernig fór um samningana í Dagsbrún. Það er ekkert nýtt að upphlaup eru í verkalýðsfélögunum í kringum samninga. Ég hef staðið frammi fyrir mjög erfiðum fundum í Sókn, en það fólk sem hefur haft forustuna er ungt, reitt fólk sem hvorki kann við vinnuna né kjörin. Svo hefur verið. Ég lái því ekki, alls ekki, en það er auðvitað erfitt að standa frammi fyrir svona fundum og finna sjálfur að maður hefur ekki náð þangað sem maður vildi ná. Ég sá eins og þið sjálfsagt það sem birtist á skerminum frá Dagsbrúnarfundinum þegar verkamennirnir gengu út af fundinum. Þetta var fólk úr öllum aldursflokkum. Ég þekkti gamla baráttujaxla, menn sem þekkja erfiða lífsbaráttu og erfiða kjarabaráttu, menn sem aldrei hafa brugðist sínu félagi. Þeir gengu út og þið sáuð hversu sárir þeir voru á svipinn.

Ég segi bara það: Ef löggjafinn og ríkisvaldið ætlar ekkert að taka við sér öfunda ég þá ekki ef þeir ætla að taka við brennandi reiði þessa fólks. Þeir eru engir menn til þess. Þegar verkamenn rísa upp í reglulegri reiði, virkilegri, réttlátri reiði, ráða ekki svona skussar við þá, það er útilokað, eins og þeir sem eru að reyna að stjórna landinu núna. Kannski á þetta eftir að sjást, en ég er friðsemdarmanneskja, þó ég hafi svolítið hátt núna, og ég hef alltaf viljað leysa ágreining áður en hann verður vandamál. Að vísu er ágreiningur um kaupgjaldsmálin núna orðinn ákaflega mikið vandamál. En enn er kannski hægt að leysa það. Þessi leið, sem við leggjum til borgaraflokksmenn, er leið til að leysa þetta.

Það verður að gera eitthvað og gera það strax fyrir það fólk sem er búið að troða undir svona rækilega og svona lengi. Í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt. Mér er alveg sama þó talað sé um einhverja uppgjöf í mér. Það er engin uppgjöf í mér enn þá. Ég er raunsæ manneskja sem reyni að fara þá leið sem ég held að gefist best hverju sinni.

Ég veit að við höfum ekki tíma núna nema fram til kl. 1 og ég held að ég sé búin að segja það sem er nauðsynlegast í bili. Ég á eftir að segja ýmislegt í sambandi við þessa kjarasamninga og fleira þegar efnahagsmálin verða rædd.