03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5443 í B-deild Alþingistíðinda. (3650)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Hinn gullni meðalvegur, sagði hæstv. fjmrh. í lok máls síns, hinn gullni meðalvegur hefur verið þræddur af hæstv. ríkisstjórn. Hann kom eðlilega víða við í þessu mikla máli og dvaldi verulegan hluta, fyrri hluta ræðu sinnar við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég mun væntanlega koma að því atriði síðar í ræðu minni, en ég get þó ekki látið hjá líða að minna ráðherrann á, þegar hann talar um að hinn gullni meðalvegur hafi verið þræddur, að í fjárlagafrv. og fjárlögunum eins og þau voru raunar samþykkt var gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fengi í senn hlut 1485 millj. kr. ef ég man rétt. Nú munu það verða um 1142 millj. En það var engu líkara en hæstv. fjmrh. hefði gleymt því að það eru lög í þessu landi sem gera ráð fyrir að sveitarfélögunum beri hartnær 1700 millj. kr. á þessum vettvangi. Hinn gullni meðalvegur er þræddur á þann veg að 1700 millj. kr. verða að 1142 og þá kemur það ekkert málinu við hvort verkaskiptingaráfanginn náðist í gegn eða ekki. Hinn gullni meðalvegur kemur á þennan veg fram í þessu máli.

Frv. það til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum sem hér er til 1. umr. eftir afgreiðslu hv. Ed. á þskj. 649 er fjórði meginþáttur almennra efnahagsráðstafana hæstv. ríkisstjórnar á 7–8 mánaða starfsferli hennar. Það má þó ekki gleyma því að tvær meginuppistöður hæstv. ríkisstjórnar höfðu farið með stjórn landsins óslitið allt seinasta kjörtímabil og gengu til kosninga vorið 1987, annars vegar undir kjörorðinu „Á réttri leið“ og hins vegar undir kjörorðinu „Eins og klettur í hafi“. Eftir að þriðji samstarfsaðilinn, sem átti sér málsvara í þessum ræðustól fyrir fáeinum mínútum, bættist við í hæstv. ríkisstjórn og tók mestan part við allri efnahagsstjórn landsins, að vísu með misdyggum stuðningi samstarfsaðilanna, sýnist mér að þrátt fyrir þrjár umsvifamiklar tilraunir til markvissrar efnahagsstjórnar og nú þá fjórðu sé árangurinn í samræmi við kjörorðin tvö sameinuð í eitt: Á réttri leið eins og klettur í hafi. Það hefur hvorki gengið né rekið í því meginmarkmiði að koma efnahagsstjórninni í viðunandi horf.

Við skulum í fyrsta lagi líta á verðbólgustigið. Það er á stöðugri uppleið. Menn segja að gegnumsneitt hafi það verið á sl. ári um 25%. Mér er nær að halda að það sé nær 30% um þessar mundir.

Við skulum líta á viðskiptahallann. Hann þótti hrikalegur þegar hann var um 3 milljarðar. Hann fór stöðugt vaxandi á sl. ári. Það lá ekki á borðum þm. fyrr en fyrir örfáum dögum hver hann var. Hann varð röskir 7 milljarðar kr., viðskiptahallinn, árið 1987. Á réttri leið eins og klettur í hafi.

Vinnufriður í landi. Það er ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin, hvorki fyrrverandi né þessi, hafi ekki fengið vinnufrið til ákvarðanatöku eða að gera sínar ráðstafanir eins og hér hefur margfaldlega fram komið. Það er alls ekki hægt að halda því fram. Það eru margar ástæður sem fyrir þessu liggja, en ríkisstjórnirnar, bæði sú fyrrverandi og þessi, hafa vissulega fengið starfsfrið.

Hin efnahagslegu lögmál létu hins vegar á sér standa sem tekist var á um í hv. Ed. fyrir jólin og raunar um hátíðarnar. Hin efnahagslegu lögmál létu hins vegar á sér standa og m.a.s. hornsteinn efnahagsstefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar, fastgengið, er fyrir bí hvað sem menn segja. Þegar gripið er til gengisfellingar er það breyting á grundvallaratriði efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Og í dag stöndum við frammi fyrir því sem staðreynd að gengisfellingin er 6%.

Í ljósi þessarar staðreyndar skulum við aðeins líta á eitt atriði sem skiptir máli. Í septembermánuði sl. voru langtímalán þessarar þjóðar um 80 milljarðar kr. eða nákvæmlega 79,8 milljarðar og við skulum hafa í huga að fjárlögin seinustu voru um 64–65 milljarðar. Rösklega sú upphæð eru langtímalán þessarar þjóðar, 80 milljarðar.

Hvaða breyting ætli hafi orðið á þessari upphæð í fyrradag þegar gengisfellingin er framkvæmd? 5 milljarðar röskir bætast við vegna gengisfellingarinnar einnar út af fyrir sig. Af þessum 80 milljörðum skulda opinberir aðilar 51,8 milljarða, lánastofnanir 21,6, einkaaðilar einungis 6,3. Og hvernig ætli þessir hlutir séu í hlutfalli við aðrar efnahagsstærðir í okkar þjóðfélagi? Erlend lán voru í árslok 1986 47,1% af vergri landsframleiðslu, 49% af þjóðarframleiðslu, 117% af útflutningstekjunum. Afborgunarhlutfallið var þannig þá að greiðslubyrðin var 18,9% af útflutningstekjunum. Ég býst við að eftir gengisfellinguna, sem núna varð eftir fráhvarfið frá fastgengisstefnunni hvað sem menn segja, sé hlutfallið komið yfir 20%. Þessi er staðan.

Það hefur legið fyrir í langan tíma að undan þessu yrði ekki vikist með hvaða hætti sem menn annars vildu grípa til ráðstafana. Það hefur legið fyrir að útflutningsverslunin, útflutningsatvinnuvegirnir hafa ekki getað starfað með eðlilegum hætti vegna þess hvernig gengisþróunin hefur orðið.

Við skulum líta á eitt atriði. Þegar mál þetta kemur til umfjöllunar í hv. Ed. í gær eða fyrradag koma fulltrúar Seðlabankans, Tómas Árnason og sjálfsagt fleiri menn, til fjh.- og viðskn. þeirrar hv. deildar. Þá kemur fram í svari Tómasar Árnasonar, með leyfi hæstv. forseta, að raunvextir lækki ekki þessa dagana þrátt fyrir breytingar á nafnvöxtum, enda ná þær breytingar einungis til óverðtryggðra lána. En það kom einnig fram í máli seðlabankamanna að raungengi íslensku krónunnar hafði hækkað milli áranna 1987 og 1988 um 8% sem er til marks um þessa þröngu stöðu útflutningsgreinanna. Það var því öllum ljóst að undan þessari aðgerð varð ekki vikist. Það skiptir engu máli hvort menn eru hér stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar. Það er hins vegar meginspurningin hvernig að henni var staðið.

Ég hef oft minnst á það í umræðum af þessu tagi, þó það hafi oftast verið utan þings fram að þessu, að ég man eftir einum aðstæðum í þessu þjóðfélagi þegar veruleg áföll urðu og útflutningsafurðir landsmanna lækkuðu í verðlagi í sviphendingu um 45%. Auðvitað er ekki hægt að komast fram hjá því að gengisþróun dollarans hefur verið að mörgu leyti áfall fyrir þetta þjóðfélag, en það áfall hefur ekki verið neitt viðlíka og varð þegar 45% verðfallið varð. Engu að síður tókst þá með friði að vinna sig út úr aðstæðunum. Hefur það tekist núna eða réttara sagt: vinnur hæstv. ríkisstjórn þannig að málum í dag að það séu líkindi til þess að takist að vinna sig út úr örðugleikum á eðlilegan hátt? Það er mér til efs. Ég mun koma að því máli nokkru síðar í máli mínu.

Þær aðgerðir sem hér er um að ræða í dag eru margþættar. Í fyrsta lagi er gripið til þess að fella gengið, en í annan stað er um að ræða ýmsar aðrar aðgerðir til að bæta hag útflutningsgreinanna. Uppsafnaður söluskattur verður að fullu endurgreiddur fyrirtækjum í fiskvinnslu og útgerð. Þetta er atriði sem lögð var áhersla á í umræðum á hv. Alþingi fyrir jól og lá fyrir að voru aðgerðir sem bráðnauðsynlegt var að vinna að. Það mátti ekki á það hlusta þá. Það var engu líkara en það þyrfti að vinna upp þá spennu sem síðan hefur orðið og láta ákveðin fyrirtæki verða rekin á halla ákveðinn tíma. Þannig hefur það verið í raun. Þessi endurgreiðsla er talin þurfa að verða um 587 millj. kr.

Fyrir töluverða baráttu stjórnarliða í lok sl. árs var knúin í gegnum þingið löggjöf um launaskatt. Nú er hún tekin aftur. Launaskattur í sjávarútvegi og samkeppnisgreinum iðnaðar er felldur niður en þó ekki að öllu leyti á þessu ári, einungis frá 1. júlí 1988. Þessi aðgerð er gert ráð fyrir að svari um 200 millj. kr.

Skuldum sjávarútvegsfyrirtækja við ríkissjóð og greiðslum vegna lána ríkissjóðs, sem afgreidd voru frá Fiskveiðasjóði 1984, verði breytt í lán til lengri tíma. Auðvitað er þetta aðgerð af hinu góða. Áfram verði síðan unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í útflutningsgreinum í samstarfi viðskiptabanka, Byggðastofnunar og annarra lánastofnana. Þannig eru ýmsar af þessum aðgerðum auðvitað út af fyrir sig jákvæðar.

Síðan er í þessu dæmi líka talað um olíuverðslækkun sem var staðreynd út af fyrir sig án alls tillits til þeirra aðstæðna sem hér er um að ræða.

Bætt starfsskilyrði launafólks eru einn af þeim liðum sem hér er um að ræða. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks og mun ríkissjóður leggja fram fé á árinu 1988 í því skyni. Það munu vera um 35 millj. kr. Þetta er náttúrlega minni háttar aðgerð, en er ein af þeim sem eiga sjálfsagt að vera mildandi í þessu efni.

Síðan eru aðgerðir til að hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Þar er fyrst um að ræða ríkisútgjöld sem verði lækkuð og það er óneitanlega athygli vert. A.m.k. tveir hæstv. raðherrar hafa látið bóka mótmæli í hæstv. ríkisstjórn af þeim ástæðum. Í fréttum hefur komið fram að hæstv. félmrh. hefur látið bóka mótmæli varðandi þá málaflokka sem undir hana heyra. Nákvæmlega sama fréttist í gær, að hæstv. samgrh. hefði látið bóka mótmæli vegna þess niðurskurðar sem tekur til hans málaflokks. Þetta eru sams konar vinnubrögð og gerðust við fjárlagaundirbúning þegar hæstv. landbrh. snerist gegn stefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Hann hafði að mörgu leyti sitt fram og samgladdist ég honum í rauninni yfir því. En það virðist vera orðið afskaplega algengt í vinnubrögðum þessarar ríkisstjórnar að út af fyrir sig er hæstv. ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald en hún virðist ekki vera samstillt stjórnvald a.m.k.

Í sambandi við þessar aðgerðir er lagt til að nafnvextir innlánsstofnana lækki almennt 1. mars um 14% eða að meðaltali um 2%. Þarna er farið inn á braut, sem þó hefur verið allt að því bannorð að því er mér hefur virst hjá hæstv. ríkisstjórn, að fara á undan með ákvarðanir um vexti, heldur láta efnahagslögmálin ganga fram að eigin vild. Seðlabankinn hefur ákveðið að lækka eigin vexti í viðskiptum við innlánsstofnanir um 2%. Fjmrn. hefur ákveðið frekari lækkun forvaxta á ríkisvíxlum um 1%. Eðlilegra hefði verið að þarna hefði verið fylgst að þannig að um hefði verið að ræða sama prósentuhlutfall í báðum tilfellum.

Síðan segir í seinasta hluta kaflans um vexti og fjármagnsmarkað að lagt verði fram frv. um starfsemi fjármálastofnana annarra en innlánsstofnana sem m.a. tryggi hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum. Þetta mun vera í þriðja eða fjórða sinn sem slíkri löggjöf er lofað. Jafnframt verður lagt fram frv. um skattskyldu fjárfestingarlánasjóða og veðdeilda banka. Þetta er sem sagt í stórum dráttum það sem hér er verið að leggja til.

Nú gerist það þegar þetta mál kemur til umræðu fyrst í hv. Nd. að ákaflega sérstætt fyrirbrigði á sér stað. Yfirleitt er það svo að ríkisstjórnir hafa sér til ráðuneytis sérfróða menn til að leggja til hinar ýmsu leiðir. Það er hér eins og endranær. En nú gerist það hins vegar í fyrsta sinn að sérfræðinga ríkisstjórnarinnar greinir á í verulegum atriðum og þessi ágreiningur um þessar ráðstafanir nær alveg inn í sjálfa ríkisstjórnina. Það er um svo veigamikið atriði sem spá um hvernig þessar ráðstafanir muni verka.

Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að viðskiptahallinn, eftir að þessar ráðstafanir hafi verið samþykktar á hinu háa Alþingi, verði um 10–12 milljarðar kr. Hins vegar eru sérfræðingar fjmrn. sem gera ráð fyrir að viðskiptahallinn verði einungis 8 milljarðar kr. Munurinn er verulegur, en við skulum hafa í huga að viðskiptahallinn á sl. ári var um 7 milljarðar kr.

Í forsendum Þjóðhagsstofnunar segir þetta: „Þjóðhagsstofnun hefur í ljósi nýgerðs kjarasamnings Verkamannasambands Íslands og vinnuveitenda og ráðstafana ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum í tengslum við hann gert drög að verðlags- og þjóðhagsspá fyrir árið 1988. Helstu niðurstöður þessara spáa eru sýndar í fskj. sem hér eru með.“

Það er í fyrsta lagi verðlagsspá. Hún hljóðar svo: „Miðað við 6% gengislækkun krónunnar 1. mars eru horfur á því að vísitala framfærslukostnaðar hækki um 15,5% frá upphafi til loka árs verði kjarasamningur Verkamannasambandsins og vinnuveitenda fordæmi annarra kjarasamninga á næstunni. Í þessu felst m.a. að upphafshækkun launa í öðrum samningum, þ.e. samningum iðnverka-, iðnaðar-og verslunarmanna, verði um 5%. Jafnframt er gert ráð fyrir að launaskrið verði óverulegt á árinu.“ - Þetta er afskaplega athyglisverð setning: „Jafnframt er gert ráð fyrir að launaskrið verði óverulegt á árinu.“

„Samkvæmt þessum forsendum verða verðlagshækkanir nokkuð örar næstu mánuði, en er líða tekur á árið dregur mjög úr verðbólgu. Það er vonin. Síðustu þrjá mánuði ársins gæti árshraði verðbólgunnar verið kominn niður í 6,5%. Hækkun vísitölu framfærslukostnaðar milli ársmeðaltala 1987 og 1988 gæti þá orðið um 25% . Hækkun vísitölu byggingarkostnaðar frá upphafi til loka þessa árs gæti orðið tæplega 121/2%, en hækkun lánskjaravísitölu 141/2%.“

En um þjóðhagsspána segir svo í þessu plaggi: „Standist forsendur verðlagsspárinnar hér að ofan verða ráðstöfunartekjur á mann tæplega 21% meiri á þessu ári en í fyrra. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verður hins vegar að meðaltali um 31/2% minni í ár en í fyrra. Þetta kemur fram í því að einkaneysluútgjöld í heild dragast saman og gæti samdrátturinn numið um 11/2% prósenti. Samdráttur þjóðarútgjalda verður hins vegar minni en þetta, fyrst og fremst vegna aukinna samneysluútgjalda, en einnig vegna aukningar í fjármunamyndun. Í spá um fjármunamyndun á þessu ári hefur verið reynt að taka tillit til áhrifa væntanlegra efnahagsráðstafana og samtals gætu þjóðarútgjöld dregist saman um 1/2%. Á móti áhrifum minnkandi þjóðarútgjalda á innflutning vegur áframhaldandi hækkun á raungengi krónunnar þannig að vöruinnflutningur gæti aukist nokkuð milli áranna 1987 og 1988 eða um 21/2%. Á hinn bóginn er reiknað með óbreyttum þjónustuinnflutningi frá síðasta ári. Horfur um útflutning á þessu ári voru raktar áður í tilkynningu frá Þjóðhagsstofnun. Hugsanlegt er að breytt samsetning sjávarvöruframleiðslu vegi á móti þeim samdrætti í afla sem þar var gert ráð fyrir og gæti því útflutningur sjávarvöru haldist óbreyttur eða jafnvel aukist. Dragist hins vegar sjávarvöruútflutningur saman í sama mæli og afli gæti halli á viðskiptum við útlönd á þessu ári orðið um 101/2 milljarður kr. eða sem svarar til tæplega 41/2% af landsframleiðslu.“

Þetta er forsendan sem hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson gekk út frá í ræðu sinni í fyrradag í Sþ. Fjmrh. komst að annarri niðurstöðu í hv. Ed. í gær. Hann gekk út frá forsendum sinna sérfræðinga í fjmrn. og niðurstaða hans var: Viðskiptahalli upp á rösklega 8 milljarða kr. Sérfræðingana greinir því á og sjálfa landsfeðurna líka. Hvernig er þá hægt að búast við því að aðrir í þessu þjóðfélagi geti náð saman um álit á því hver hér verður niðurstaðan?

Samkvæmt því sem von Þjóðhagsstofnunar er er gert ráð fyrir að verðbólgan á 1. ársfjórðungi þessa árs verði 18,4%, fari síðan upp í 27,8% eða tæp 30 á næsta ársfjórðungi. Síðan er vonin að þetta fari lækkandi niður í 10,7 og jafnvel 6,4 á seinasta ársfjórðungi. Færi betur og það væri vissulega afskaplega gott ef sú yrði raunin. En hver eru líkindin? Það er það sem máli skiptir fyrir almenning í þessu landi.

Mig langar aðeins, með leyfi hæstv. forseta, til að leiða fram til vitnis tvo aðila eða svo úr atvinnulífinu um hvernig þeir líta á þær ráðstafanir sem hér hafa verið gerðar eða eru í undirbúningi.

Við skulum fyrst líta á einn aðila úr iðnaðinum. Það er Víglundur Þorsteinsson ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, vitna í hans orð. Hann segir:

„Álit mitt á efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar ræðst af því hvernig þjóðin hegðar sér í framhaldinu. Við verðum fyrst og fremst að hætta þessu þenslubrjálæði“, segir formaður Félags ísl. iðnrekenda.

Þessar ráðstafanir bæta þó samkeppnisstöðu útflutningsiðnaðar og samkeppnisiðnaðar svo lengi sem gengisbreytingin endist. Það kemur hins vegar ekki fram í þessum orðum Víglundar Þorsteinssonar hvar þenslubrjálæðið er. Ætli það sé í kjördæmi hv. 6. þm. Norðurl. e. sem hér situr fyrir framan mig? Ég efast um það. Þenslubrjálæðið er auðvitað fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og búið að vera lengi.

Við skulum líta á hvað útgerðaraðili fyrir austan fjall segir um þessar aðgerðir, Páll Jónsson í Þorlákshöfn, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir: „Mér líst illa á þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar því mér sýnist sem fiskvinnslan verði áfram rekin með tapi. Ástandið er þegar orðið það slæmt að það er ekki á bætandi.“ Hann segir áfram: „Mér skilst nú að menn hafi verið ginntir til að semja. Því var lofað að ef kjarasamningar yrðu hóflegir yrði séð til þess að viðeigandi rekstrargrundvöllur næðist fyrir fiskvinnsluna.“ Þannig er viðhorf þessa rekstraraðila í sjávarútvegi.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að það væri ekki hægt að mæla gegn þessum ráðstöfunum með því að segja að gengisfellingin hefði orðið of lítil. Engu að síður verða þessir aðilar sem ég hef hér aðeins vitnað til að taka tillit til hinna beinhörðu staðreynda og reyna að reka sín fyrirtæki. Og trúa mín er sú að stjórnmálamenn þurfi einnig að taka tillit til staðreynda.

Ég gerði hér aðeins að umræðuefni fyrr í máli mínu þann þátt ræðu hæstv. fjmrh. sem tók til verkaskiptingaráforma um flutning á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð. Það kemur fram í nál. fjh.- og viðskn. Ed. að þeir fulltrúar Sambands ísi. sveitarfélaga sem komu á fund þar voru eðlilega óánægðir með niðurstöður þess máls eins og hér hefur orðið. Ég skil það vel. Þeir aðilar voru mjög ákveðnir í því að ná fram þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn hafði lagt til í frv. því sem forsrh. mælti hér fyrir 9. des. sl. Ég verð hins vegar að segja það að ég er ánægður fyrir minn hlut yfir því að verkaskiptingarfrv. náði ekki fram að ganga með þeim hætti sem hér var lagt til. Ástæðan er fyrst og fremst sú að málið var á þann veg undirbúið að það hefði verið sveitarfélögunum að minni hyggju mjög til óhags ef það hefði náð fram að ganga. Það er ekki rétt, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., að þetta mál hafi verið vel undirbúið. Það er ekki rétt að það hafi verið vel kynnt. Það er rétt sem hann sagði að ákveðnar tillögur frá ákveðinni nefnd höfðu verið sendar öllum sveitarstjórnarmönnum um landið. En það voru bara allt aðrar tillögur en verkaskiptingarfrv. hæstv. ríkisstjórnar gerði ráð fyrir. Það er allt annar handleggur. Þar var lagt á allt annan veg til. Og það kom líka í ljós þegar félmn. þessarar hv. deildar hafði samband við ákveðna sveitarstjórnarmenn og fékk andsvör, að vísu fyrst og fremst úr tveimur kjördæmum, eins og hæstv. fjmrh. sagði réttilega, það var Austurlandskjördæmi og Suðurlandskjördæmi, þ.e. hið forna Skálholtsstifti sem í rauninni tók fyrst við sér. Þá kom það greinilega í ljós að menn höfðu í fyrsta lagi ekki vitneskju um það hvernig frv. hafði verið úr garði gert og í öðru lagi að menn vildu athuga þessa hluti miklu betur.

Þó held ég að ótalið sé aðalatriði þessa máls sem þó hæstv. fjmrh. kom að, kannski óviljandi í máli sínu. Hann minntist á sérdeild Jöfnunarsjóðs. Að minni hyggju er sérdeild Jöfnunarsjóðs í raun fyrsta stigið að þriðja stjórnsýslustiginu. Meinið er hins vegar það að á þann veg sem þarna er lagt til er sérdeildin undir handarjaðri eins ráðuneytisins, en þriðja stjórnsýslustigið er hins vegar eina leiðin til þess að koma vitrænu samhengi í þessi samskiptamál, að minni hyggju, ríkis og sveitarfélaganna. Það er ekki hægt að hugsa sér að flytja ákveðin verkefni til sveitarfélaganna eins og þau eru í stakk búin í dag. Það verður að koma til annar samstarfsgrundvöllur. Og það er aðalatriði þessa máls að málið hefur strandað á þessari staðreynd núna hvort sem landsfeðurnir eða aðrir gera sér grein fyrir þessu atriði eða ekki.

Ég ætla að vona að þegar málið kemur aftur hér til umfjöllunar, e.t.v. síðar á þessu ári og vonandi síðar á þessu ári, þá verði á þann veg staðið að málum að menn reyni að ná saman um meginatriði en ekki að annar aðili, ríkið í þessu tilfelli, taki ákvarðanir og sendi ákvarðanir sínar út. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Nú skulum við aðeins heyra, með leyfi hæstv. forseta, hvernig forsvarsmaður eins stærsta sveitarfélags landsins tekur þeim aðgerðum sem felast í því frv. sem hér er sérstaklega til umræðu, þ.e. borgarstjórinn í Reykjavík. Hann segir um þetta atriði núna, með leyfi hæstv. forseta:

Þessi framsetning efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar hvað sveitarfélögin varðar nær ekki nokkurri átt. Að halda því fram að þær 260 millj. sem ríkið ætlar að spara sér sé tengt verkaskiptingunni eru hrein ósannindi. - Það sem um er að ræða er að ríkið ætlaði áður að leiðrétta skerðingu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að nokkru, þ.e. úr rösklega 900 og upp í 1485 millj., og skila að hluta því fé sem ríkið hefur haft af sveitarfélögunum. Nú gerir ríkið það ekki. Það sem felst í þessari ákvörðun er að ríkið sker framkvæmdir sveitarfélaganna niður um 260 millj., en eigin framkvæmdir aðeins um 300 millj. Í framhaldi af þessu er síðan talað um að ræða við sveitarfélögin um sérstakan niðurskurð. Út af fyrir sig get ég alveg fallist á það að það sé ekkert óeðlilegt þó að sveitarfélögin sem slík taki þátt í þeim vanda sem hér er um að ræða ásamt ríkinu. En ég get hins vegar endurtekið það sem ég sagði áðan, það er út frá þeim forsendum fyrst og fremst að ég er afskaplega ánægður yfir því að það náði ekki fram að ganga sú ranga stefna í þessum verkaskiptingaráformum sem hér voru uppi höfð.

Hæstv. forseti. Ég hef í rauninni orðið hér nokkuð orðfleiri í þessari umfjöllun minni en ég ætlaði en ég er innan tíðar kominn að lokum míns máls og vil þó reyna að leggja þyngsta áherslu á það sem ég kem að nú síðast.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það hefur verið vaxandi spenna í þjóðfélaginu um þessar efnahagsaðgerðir og margt í sambandi við þær. Ég verð að segja það að ég tel að við þær aðstæður sem hér eru nú beri ríkisstjórn að leita allra leiða til að gegna því meginhlutverki sínu að veita forustu. Það hefur að vísu líka komið vel fram að ríkisstjórnin er því miður í ákaflega mörgum tilfellum sjálfri sér sundurþykk. Ég held að það sé leitun á slíkum vitnisburði eins og varð hér, ég held í fyrradag frekar en í gær, að einn hv. ráðherra ríkisstjórnarinnar segir það blákalt í þessum ræðustól um eitt þýðingarmesta málið sem verið er að fjalla um þessa dagana, sem gengur hér fyrir stól í þessum töluðum orðum, að það verði að viðurkenna það að sanngirni í málflutningi á hendur þessum hv. ráðherra sé meiri úr röðum stjórnarandstöðunnar en stjórnarliðanna. Og þetta er ekkert einsdæmi. Þetta er víða í stjórnarliðinu að sundurþykkjan er með ólíkindum. Og hún er ekki fagnaðarefni, alls ekki fagnaðarefni vegna þess að það er þjóðin sem slík sem verður fyrir barðinu á slíkri stöðu.

Þess vegna er það að í jafnviðkvæmu máli og við fjöllum um hér núna, sjálf efnahagsmálin, kjaramálin, þá skiptir það ekkert litlu máli að ríkisstjórninni auðnist að veita forustu. En því miður er því ekki að heilsa. Og ég verð að segja það að mér hnykkti við þegar ég heyrði ræðu hæstv. forsrh. þegar hann kynnti þessar aðgerðir. Mér hnykkti við vegna þess að ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar hann lét að því liggja að samningarnir, sem var verið að vinna að og eru enn þá í burðarlið, samningsprósentan sem var verið að vinna að þyrfti endilega að fara upp allan launastigann. Það var verið að vinna að launasamningi með sérstakri áherslu fyrir þá lægst launuðu. En þegar þetta viðhorf kemur m.a.s. fram hjá hæstv. forsrh., sem eðli málsins samkvæmt vill auðvitað vinna að sátt og samlyndi í þessu sambandi í þjóðfélaginu og leggja grunn að samkomulagi, þegar m.a.s. hjá honum er lögð áhersla á það að launaprósentan, sem hafði náðst samkomulag um fyrir þá lægst launuðu, þyrfti endilega að ganga upp úr. Ég var ekki viss um að ég hefði heyrt þetta rétt og þess vegna aflaði ég mér þessa hluta ræðu hæstv. forsrh. fáum mínútum áður en ég fór í ræðustólinn. Hann segir, með leyfi forseta, í þessum hluta ræðu sinnar:

„Ljóst er að einn meginvandinn sem við höfum átt við að etja er vaxandi viðskiptahalli. Við þær aðstæður sem við búum við er um margt erfitt að ráðast til atlögu við þennan vanda. Ekki síst vegna þess að óhjákvæmilegt hefur verið að bæta launakjör þeirra sem lakast eru settir í þjóðfélaginu og reikna má með að launahækkanir fari upp launastigann að verulegu leyti í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kjarasamningum.“

Það er þetta viðhorf sem er það versta sem við eigum við að glíma í dag. Það er þetta viðhorf að þegar lögð er fram hér á Alþingi eina raunhæfa leiðin, eins og hv. 16. þm. Reykv. gerði hér í morgun ásamt nokkrum öðrum félögum okkar úr Borgarafl., þegar ekki einn einasti ráðherra hæstv. ríkisstjórnar sá ástæðu til að vera í þingsal, örfáar hræður voru við umræðuna, þar sem lögð var til eina raunhæfa leiðin um bætur fyrir þá sem lægst eru settir með aðstoð ríkisvaldsins um hækkun persónuafsláttar í sambandi við skattlagninguna, sem er eina raunhæfa leiðin, þá er þetta viðhorf hins vegar vakandi sem fram kom hjá hæstv. forsrh. Ef það viðhorf nær fram að ganga þá þarf enginn að búast við því að hér verði 10% verðbólga á miðju sumri og 6% verðbólga í haust. (Gripið fram í: Og núll um áramótin.) Þá er það borin von. En ef menn hins vegar hefðu borið gæfu til að hlusta á ræðu hv. 16. þm. Reykv., Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, hlusta á þá ráðgjöf sem þar kemur fram, mælt fram af fullum heilindum, mælt fram sem árangur af áratuga langri heilagri baráttu fyrir rétti hins lægsta í þjóðfélaginu til eðlilegs lífs, þá væri vön til þess að hægt væri að ná hér niður verðbólgu. En, því miður, það er forsjá hæstv. forsrh. í dag sem við lútum.

Ég vona að gæfa Alþingis verði á annan veg, með allri virðingu, hæstv. fjmrh.