03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5509 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði e.t.v. talið fullt eins eðlilegt þar sem ég ætlaði að leggja spurningar fyrir hæstv. iðnrh., núverandi hæstv. forsrh., að ég hefði fengið að ljúka seinni ræðu minni við þessa umræðu með því að endurtaka spurningar mínar við hæstv. ráðherra, en ég get svo sem gert það og látið það heita örstutta athugasemd og vona að það verði þá litið á aðstæður mínar með velvilja þar sem hæstv. iðnrh. var ekki til staðar þegar ég bar upp mínar spurningar.

En hæstv. ráðherra hafði uppi tilburði til að svara þeim og hefur væntanlega fengið það endursagt að ég taldi ástæðu til að inna talsmenn ríkisstjórnarinnar eftir því hvaða áhrif niðurstöður í atkvæðagreiðslum um kjarasamningana vítt og breitt um landið síðustu sólarhringa hefðu á áform ríkisstjórnarinnar og stöðu þessara efnahagsráðstafana. Hæstv. iðnrh. taldi þetta ekki mikið vandamál og gerði frekar lítið úr því að verið væri að fella samningana, talaði um að það væri nú verið að samþykkja þá í stærstu félögunum á höfuðborgarsvæðinu. En staðreyndin er sú að ekki færri en níu eða tíu verkalýðsfélög hafa sl. þrjá sólarhringa fellt kjarasamningana, þar af nokkur mjög stór félög á svæðum sem skipta þjóðarbúskapinn miklu máli. Ég nefni verkalýðsfélögin í Vestmannaeyjum, Einingu á Akureyri, félögin í Grindavík og Sandgerði, félagið á Höfn, Grundarfirði, Eskifirði eða Reyðarfirði, Framsókn hér í Reykjavík o.s.frv. Ég held að það sé ástæða til þess fyrir hæstv. iðnrh. að huga aðeins að ummælum sínum og ég minni á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við efnahagsaðgerðirnar þegar þær voru kynntar. Með leyfi þínu, forseti, stendur á forsíðu þess plaggs, sem er dags. 29. febr.: „Á grundvelli stefnunnar í gengismálum og með þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir mun draga úr verðbólgu á síðari hluta ársins. Forsenda þessa er að þeirri almennu stefnu, sem mörkuð hefur verið í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið gerðir, verði fylgt í öðrum samningum.“ Þar er því ekki bara slegið föstu að undirstaða alls þessa sé að þeir kjarasamningar sem þá höfðu verið undirritaðir yrðu samþykktir heldur og að þeir yrðu að fordæmi fyrir alla aðra. Nú sýnist alveg hið gagnstæða vera að gerast. Það er greinilegt að fólkið í landinu unir ekki þessari niðurstöðu upp til hópa. Og halda menn þá að það sé líklegt að það takist á næstu dögum samningar í þessa veru? Auðvitað ekki. Þar sem búið er að fella samninga af þessu tagi hér og þar í landinu er alveg ljóst að það mun ekki teljast ásættanleg niðurstaða fyrir neitt verkalýðsfélag að semja á þeim nótum sem þarna var gert. Það munu engir forsvarsmenn verkalýðsfélaga skrifa undir samninga af þessu tagi úr því sem komið er þegar dómur almennings hefur fallið um samningana með þessum hætti á fjölmörgum stöðum.

Það er allt að gliðna undir hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki bara að hún sé að losna upp innan frá, límið sé allt saman búið, heldur er þessi grundvöllur, sem átti nú að treysta stjórnarsamstarfið á með efnahagsráðstöfunum og hvað eina, allur að molna niður. Ég held að það sé ástæða til að fara að kalla höfðingjana heim frá Brussel og hafa fullmennta ríkisstjórn á næstu sólarhringum. Ég held að þeir geti gert margt þarfara en að vera að þvælast þar úti og skamma Rússa fyrir afvopnunartillögur og ættu að fara að hafa sig heim, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., þannig að það væri hægt að eiga orðastað við alla ríkisstjórnina um þessi mál á næstu dögum.

Ég kvaddi mér samt sérstaklega hljóðs, herra forseti, og langar til að ljúka með því að gera athugasemdir við fráleit ummæli hæstv. fjmrh. varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verkaskiptafrv. og þá menn sem lögðust gegn samþykkt þess á þinginu og annars staðar fyrr í vetur.

Það er fráleitur málflutningur af hæstv. fjmrh. að ætla í raun að kenna þeim mönnum, sem ekki vildu láta þetta frv. yfir sig ganga, um þann niðurskurð sem ríkisstjórnin er nú að grípa til á Jöfnunarsjóðnum, en það var í raun það sem hæstv. ráðherra var að ýja að áðan. Ég mótmæli slíkum málflutningi. Ég mótmæli honum, hæstv. fjmrh. Það er útúrsnúningur og þvættingur af versta tagi. Það er hæstv. fjmrh. sjálfur sem ber ábyrgð á þeim niðurskurði en ekki aðrir og hann getur ekki skotið sér á bak við það þó að illa gert og óvandað frv., sem byggði á innstæðulausri ávísun á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fyrir áramótin, næði ekki fram að ganga. Það er lágkúrulegur málflutningur. (Fjmrh.: Hvaða innistæðulausa ávísun er hv. þm. að tala um?) Hæstv. fjmrh. þorir náttúrlega ekki að standa ábyrgur fyrir þeim athöfnum sem hann með ráðstöfunum sínum hefur gerst sekur um, miskunnarlausum niðurskurði á lögmætum tekjum sveitarfélaganna og er að reyna að skjóta sér á bak við hluti sem þessa. Það er ekki rishár málflutningur, hæstv. fjmrh. (Fjmrh.: Hefur þm. engin rök í máli sínu?) Þingmaðurinn hefur næg rök fyrir máli sínu. (JBH: Fleira?) Þau voru m.a. flutt bæði af stjórnarandstæðingum og ýmsum stjórnarsinnum á þingi sem lögðust gegn frv. hæstv. ríkisstjórnar um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, m.a. vegna þess að þar var vísað út í loftið, út í tómarúmið og í raun og veru engar tryggingar settar fyrir því að sveitarfélögin fengju hlut sinn bættan ef sú breyting næði fram að ganga.

Herra forseti. Þetta átti víst að verða örstutt athugasemd og skal ég þá ljúka henni. Ég ætla að geyma miklar umræður um vaxtamál við hæstv. viðskrh., sem við höfum reyndar oft átt áður hér, til betri tíma, en það er rangt að ég hafi nokkurn tímann talað um einhliða valdboð til að kveða niður vextina í þjóðfélaginu. Það veit hæstv. viðskrh. af því að við höfum rætt þau mál ítarlega. Ég hef sagt að á því máli þyrfti að taka með samræmdum aðgerðum á öllum sviðum ríkisfjármála og yfirstjórnar efnahagsmála. En það er að mínu mati næsta kyndugt þegar hæstv. viðskrh. er að sverja af sér að ríkisstjórnin hafi beitt áhrifum sínum til að knýja fram svokallaða lækkun nafnvaxta núna 1. mars. Ég vitna aftur í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sem er dagsett 29. febr. Þar segir á bls. 3 undir fyrirsögninni Vextir og fjármagnsmarkaður: „Nafnvextir innlánsstofnana lækka almennt 1. mars um 14%.“ Hafði ríkisstjórnina dreymt þetta eða hvað? Giskaði hún á að þeir mundu lækka? Hafði hún enga hönd í bagga með þessu? Auðvitað vita allir betur. Ríkisstjórnin var búin að ná því fram, pína bankana til að lækka vexti. Það er hægt ef menn þora því. Þessi aðgerð sýnir það þó lítil sé. Tilburðir hæstv. viðskrh. til að halda höfðinu og standa á vaxtafrelsinu, hinum heilögu lögmálum, voru næsta óburðugir áðan.