07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5550 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

265. mál, launabætur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er enn til umræðu sú till. fimm hv. þm. Borgarafl. um að hækka persónuafslátt og taka jafnframt upp það sem þeir kalla launabætur. Þessi tillaga hefur nú þegar verið rædd á tveimur fundum, að vísu aðeins skamman tíma á hvorum fundi, og er nú hér til umræðu í þriðja sinn. Ekki harma ég það þótt við tökum okkur góðan tíma og marga fundi í að ræða tillögu sem varðar á svo beinan hátt afkomu fólks og mætti kannski minna á allan þann óratíma sem hefur farið í umræðu um bjórinn síafturgengna. Það mál er ýmist talið réttlætismál eða heilbrigðismál, en hið sama má segja um launamál landsmanna. Þau eru svo sannarlega réttlætismál, en þau geta ekkert síður verið heilbrigðismál því það kemur að sjálfsögðu niður á heilsufari ef fólk hefur ekki efni á því að búa vel að sér og sínum hvað varðar húsnæði, fatnað, mataræði og alla hollustuhætti.

Ég tók til máls um þessa tillögu næst á eftir hv. fyrsta flm. og lýsti afstöðu okkar kvennalistakvenna til þessarar tillögu og hvernig við vildum frekar taka á þessu máli. Við erum ekki sama sinnis og hv. flm. að ríkið eigi að greiða laun fyrir atvinnurekendur, heldur sjáum við ekki aðra leið færa en að lögfesta lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu sem miðist við framfærslu einstaklings. En þeir sem kaupa vinnuna eiga að greiða fyrir hana. Það er að okkar mati siðferðislega rangt að kaupa fulla vinnu fólks slíku lágmarksverði að það dugi ekki einu sinni til framfærslu einstaklings. Ef ríkið gripi inn í með greiðslum í formi launabóta, þá óttumst við meira en lítið að það mundi festa slíkt ástand í sessi og koma í veg fyrir að atvinnurekendur bættu ráð sitt.

Nú má vera að slík lögbinding lágmarkslauna kæmi illa við einhver fyrirtæki. Sú röksemd hefur oft heyrst gegn hugmyndinni um lögfestingu lágmarkslauna. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort slíkur atvinnurekstur á þá yfirleitt rétt á sér. Í mörgum tilfellum er svo áreiðanlega ekki. Í öðrum kunna að gilda þjóðhagsleg sjónarmið og byggðasjónarmið og þá ber að taka á slíkum tilvikum sérstaklega. Það er auðvitað alltaf vandasamt en ekki hægt að víkja sér undan því. Ég held að það hljóti hver einasti maður með sæmilega opin augu að sjá það og viðurkenna að það er nóg af peningum í þessu þjóðfélagi. Margir lifa hér góðu lífi og hafa fyllilega nóg fyrir sig og sína og meðaltölin líta nógu vel út. Það er misskiptingin sem er meinið. Við verðum að finna leið til þess að jafna launin í landinu. Það er verkefni sem þarf að vinnast og til þess þarf samvinnu allra aðila: ríkisvaldsins, samtaka launafólks og vinnuveitenda. Það er til marks um vanþroska að þessum aðilum skuli ekki hafa tekist betur að skipta tekjum milli manna og ástandið fer versnandi. Launabilið eykst sífellt og það er kannski fyrst og fremst orsök þeirrar miklu reiði sem knýr launafólk um allt land núna til þess að fella nýgerða kjarasamninga. Því ofbýður gjörsamlega hvernig ákveðnir einstaklingar misnota aðstöðu sína til þess að keyra upp eigin laun og taka til sín tekjur fram hjá skatti meðan tekjur starfsfólks sömu fyrirtækja ná ekki framfærslumörkum nema unnið sé tvöfalt og þrefalt. Við neitum að trúa því að það sé lágtekjufólkið sem hristir stoðir efnahagslífsins. Þar eru önnur öfl að verki. En svona hefur þetta gengið, því miður, og menn hafa ekki reynst þess umkomnir að taka af gagni á launabilinu og skattlausu umframtekjunum. Kannski eigum við bara svona langt í land enn þá með hugarfar og siðferði.

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni um þetta mál, þá erum við kvennalistakonur hjartanlega sammála hv. flm. þessarar till. um að þetta ástand er ófært og óviðunandi og það verður að leiðrétta. Við erum hins vegar ekki sáttar við þá leið sem hér er lögð til og teljum hana raunar illfæra þó ekki væri nema vegna þess að það gæti orðið þrautin þyngri að senda þessar launabætur aðeins í þá vasa sem á þurfa að halda. Eða eru menn búnir að gleyma hvernig til tókst með láglaunabæturnar fyrir nokkrum árum? Sakna ég nú hv. 4. þm. Norðurl. v. sem hefði getað skýrt okkur frá því hvernig það gekk til og einnig sakna ég þess að hv. síðasti ræðumaður skyldi ekki fjalla um það og minna okkur á hvernig gekk með þau mál.

Þá voru sjálfstæðir atvinnurekendur og alls konar framtalsslyngir kappar að fá tékka frá ríkinu og allt var það mál heldur til athlægis. En fyrst og fremst er það siðferðilegur réttur hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu og það er siðferðileg skylda hvers vinnuveitanda að greiða vinnu síns starfsfólks fullu verði. Það er skoðun okkar kvennalistakvenna. Þess vegna getum við ekki stutt þessa till. sem hér er til umræðu þótt við tökum heils hugar undir markmið hennar.