07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5566 í B-deild Alþingistíðinda. (3706)

265. mál, launabætur

Árni Johnsen:

Herra forseti. Hún var hálfhjáróma, ræða síðasta hv. ræðumanns, eins og fótatak úr fjarska heildsalans. Hér er fjallað um mál sem brennur á í þjóðfélaginu og er ástæða til að ræða um. Það er margt sem hægt er að velta upp í þessu sambandi. Það er hægt að ræða um umsamin laun og útborguð laun. Því miður hefur þessi mismunur sem þarna er á í mörgum tilvikum í ýmsum stéttum og greinum valdið misskilningi og skapað tortryggni. Umsamin laun og útborguð laun. Grunnlaunin umsömdu og síðan yfirvinnan, bónusinn, yfirgreiðslan og annað sem hækkar launin.

Það er auðvitað tæknilegur galli á þessari tillögu því að hún afgreiðir bara annan endann, vekur upp hugmyndina, og það má ræða hana út frá því. Það er mikill munur á launagreiðslum milli stétta, milli kynja, milli landshluta og það er launamisréttið í landinu sem við eigum að ræða um í almennri umræðu hér. Það er mikill munur á yfirborgun launa eftir landshlutum, eftir greinum og fyrst og fremst er þó munur á greinum karla og kvenna í okkar þjóðfélagi og það er alvarlegast.

Það er oft talað um ákveðin dæmi í þessari umræðu. Það er talað um að iðnaðarmaður hafi fengið svo og svo mikið greitt í sambandi við ákveðið verkefni, ákveðna framkvæmd, t.d. Kringluna ágætu. Það finnst mér óraunhæft þegar menn taka heildina fyrir í þessum efnum. Það leiðir af sjálfu sér að í margslungnu verkefni getur allt farið úr böndum og það er fjarri því til fyrirmyndar. En það er nær að taka atriði sem eru meira alhliða og gefa raunhæfari mynd af ástandinu almennt. Enda reikna ég ekki með að hv. síðasti ræðumaður sé mjög að deila á uppbyggingu Kringlunnar í Reykjavík í sínum málflutningi.

Það hefur enginn hér í hv. Sþ. verið að tala um það að Reykvíkingar væru sökudólgurinn í þessu efni, ekki nema að það kom fram í máli síðasta ræðumanns. Þó að mest hreyfing sé á fjármagni í Reykjavík og hér sé mest spenna, þá er ekki verið að tala um að Reykvíkingar séu neinn sökudólgur í þeim efnum, a.m.k. hefur það ekki komið fram í umræðunni. Það ber t.d. vott um streymi í gegnum Reykjavík að nokkur hundruð þúsund farþegar fara um Reykjavíkurflugvöll á ári. Og það eru ekki Reykvíkingar sem eru meiri hluti í þeim farþegastraumi.

Það er nú svo að þó að atvinnuuppbyggingin sé mest á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þó að hún sé að mörgu leyti hagkvæm vegna þess að þar er minnst áhætta að byggja upp þar sem veltan er mest, þá mætti kannski ræða einnig um þann þátt og benda atvinnurekendum almennt á það að með stórbatnandi vegakerfi og bættum samgöngum hafa fjarlægðir í landinu minnkað og þær hafa skapað aðstæður sem valda því að það á ekki síður að vera spennandi fyrir atvinnnuuppbygginguna í landinu að teygja hana út á landsbyggðina í hin ýmsu pláss. Það munar ekki svo ýkjamiklu orðið hvort Seltirningur vinnur í Hafnarfirði eða Reykvíkingur í Hveragerði. Fjarlægðirnar eru búnar að vera með þeim samgöngum sem við búum við. Og að mínu mati eigum við að fjalla um þessa þætti á þeim nótum að skapa jafnan grundvöll fyrir alla landsins þegna í launum og réttlæti til launa.

Það er kannski minni fjárhagsleg áhætta að byggja upp atvinnurekstur í Reykjavík, en á móti kemur stöðugra vinnuafl úti á landi og atriði sem sjaldan er fjallað um: persónulegra mannlíf og umhverfi sem fólk þar býr við. Þannig eru kostir og gallar við alla hluti. Það á auðvitað að vera markmið okkar allra, og er það væntanlega, að stuðla markvisst að því að búa til ásættanlegar aðstæður í þjóðfélaginu, eyða tortryggni sem er vissulega til staðar. Og í fjölskylduþjóðfélagi eins og við búum í er auðvitað óþolandi að búa við það launamisrétti sem viðgengst.

Fyrir stuttu var haldin á Selfossi ráðstefna á vegum sjálfstæðismanna sem fjallaði um launamisréttið í landinu. Þar ræddu forustumenn verkalýðshreyfingarinnar um þessi mál. Þar ræddu verkamenn um þessi mál og komu beint úr sinni vinnu. Þar var verkamaður sem kom frá Þorlákshöfn beint úr beitningu, þar var ljósmóðir sem kom beint á fundinn frá því að taka á móti barni, þar var fólk sem var að ræða um hlutina án nokkurra milliliða og fjallaði um launamisréttið í landinu. Launamisréttið í landinu á sem betur fer ekki við meiri hluta landsmanna en of stóran hóp og þess vegna er ástæða til að ræða það hispurslaust.

Það er engin spurning að leiðtogar verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og aðrir sem standa í samningamálum eyða ómældum tíma í það að reyna að finna flöt á öllum hlutum sem geta komið til góða í sanngjörnum samningum. Gróft reiknað má kannski segja að annar endinn á þessari tillögu sem hér er til umræðu kosti 700–800 millj. kr. en þá þarf að gera ráð fyrir hinum endanum líka.

Það er ástæða til að brýna flm. til þess að hugsa til enda það sem þeir leggja fram en varpa ekki fram slíkum hlutum eins ómarkvisst og raun ber vitni.