15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5757 í B-deild Alþingistíðinda. (3883)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Skyldusparnaður ungs fólks á aldrinum 16–25 ára, er ekki hefur formlega undanþágu skv. 74. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, er skylt að leggja til hliðar 15% af tekjum sínum. Atvinnurekendum er falið að halda eftir af tekjum þessa fólks og skila til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég held að í mörgum tilfellum sé þessu ábótavant, atvinnurekendur skili seint, það sé ekki nógu gott eftirlit haft með þessum skilum atvinnurekenda og þar með tapast vextir og verðbætur og unga fólkið fær ekki það sem því ber. Þetta unga fólk hefur ekki miklar tekjur og reynir því allt til þess að komast undan því að tekinn sé skyldusparnaður af því. Ef yfirlit væru send út frá Byggingarstofnun ríkisins mánaðarlega og greiddir væru hæstu vextir á hverjum tíma ásamt verðtryggingu sæi þetta unga fólk einhvern árangur af sínum sparnaði. Eins og þetta er í dag eru send út yfirlit yfir skyldusparnað einu sinni eða tvisvar á ári. Mikil ásókn er í að fá skyldusparnað greiddan út hjá þeim hópum sem hafa rétt til þess, einkum námsmönnum. Það hefur lítinn tilgang að safna sparifé hjá Byggingarsjóði ríkisins eins og skyldusparnaður ungs fólks hefur verið. Námsmenn sækja yfirleitt sinn skyldusparnað eftir ár hvert.

Lagt hefur verið fram frv. til laga um breyt. á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, á þskj. 581. Flm. eru þm. Borgarafl. Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson. Ef helmingur þess fjár sem rann til Byggingarsjóðs ríkisins vegna skyldusparnaðar árið 1987, 560 millj. kr., hefði verið notaður til þess að byggja hentugar leigu- eða eignaríbúðir fyrir ungt fólk hefði mátt byggja og ráðstafa allt að 150–170 íbúðum.

Árin 1982–1987 hefði mátt byggja tæplega 1000 íbúðir fyrir ungt fólk með þessum hætti. Stórt skref hefði verið stigið til þess að leysa húsnæðisvanda ungs fólks með þessu. Við verðum að viðurkenna að lögin um skyldusparnað hafa ekki náð tilgangi sínum og tel ég ákaflega hæpið að eftir 26 ára aldur hafi fólk áhuga á að ávaxta fé sitt áfram hjá Byggingarsjóði ríkisins þegar allt er gert í dag, jafnvel sparimerkjagiftingar, til þess að ná út skyldusparnaðinum. Þess vegna verður að bæta ávöxtun skyldusparnaðar frá því sem er í dag og greiða þessu fólki hæstu vexti á hverjum tíma ásamt verðtryggingu.