15.03.1988
Neðri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5774 í B-deild Alþingistíðinda. (3898)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir hans framlag hér og skýringar af sinni hálfu varðandi það sem ég vakti máls á og einnig hæstv. iðnrh. Ég tók eftir að hæstv. iðnrh. hét því að taka mál þetta upp í ríkisstjórn og ganga þar eftir því að tekið verði saman yfirlit um þau mál sem raunverulega má vænta frá hæstv. ríkisstjórn inn í þingið, það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að freista að fá tekið hér á dagskrá.

Varðandi málflutning hv. 4. þm. Austurl., sem talaði hér áðan, hef ég ekki mikið að segja. Ég sé ekki að það geti verið óeðlilegt að neinu leyti að taka mál af þessu tagi upp í þingdeild og þó ég hefði kosið að taka mál þetta upp í Sþ. að viðstöddum hæstv. forsrh. vek ég athygli á því að hæstv. ráðherra er ekki með þingskyldu þessa dagana heldur situr inni fyrir hann varamaður eins og fyrir ýmsa fleiri hv. þm. Hæstv. iðnrh. er varaformaður Sjálfstfl. og staðgengill forsrh. þegar hann er fjarverandi og gegnir ekki sínum embættisskyldum, þannig að mér finnst hv. þm. gera helst til lítið úr varaformanni Sjálfstfl. sem hefur þó fyrir því að vera mættur á þingfundi og taka þátt í þessari umræðu af sinni hálfu.

Ég bendi á það, sem hæstv. forseti gerði raunar í sínu máli, að í þingsköpunum frá 1985 voru tekin upp ákvæði, sem áttu að koma í veg fyrir að mál kæmu að jafnaði mjög seint fram hér á þingi, þar sem er 18. gr. þingskapa sem kveður á um að mál skuli komin fram ekki síðar en sex mánuðum eftir að þing er sett, sem er þá 10. apríl eða 11. apríl, fyrsti dagurinn að loknu páskaleyfi þingsins. Ég held að það geti skapast hér allerfitt ástand fyrir starfslið þingsins a.m.k. miðað við þá stöðu, sem hér hefur verið vakin athygli á, ef þá rignir inn þingmálum á allra síðasta degi, miðað við þann eindaga sem þarna er settur, nema hæstv. ríkisstjórn ætli að freista þess að fá undanþágur frá þessu, svo sem þingsköp heimila, þar sem helming þm. þarf til þess, meiri hluta þm., að fá tekin mál á dagskrá að þessum fresti liðnum.

Hæstv. menntmrh. kom aðeins inn í þingsal en er nú fjarri. (Iðnrh.: Nei, nei, hann heyrir.) Hann heyrir og e.t.v. tekur hann þátt í þessari umræðu. Ég vakti athygli á því að frá hæstv. menntmrh. eru fram komin fjögur frv. af þrettán sem hann boðaði á sl. hausti. Hæstv. iðnrh. gaf skýringar af sinni hálfu varðandi hversu fá mál hann hefði flutt og reyndar voru þau ekki mörg sem hann boðaði en gaf skýringar á því og e.t.v. heyrum við frá hæstv. menntmrh. hvernig staðan er varðandi hans málaflokk, en hann verður að meta það hvort hann upplýsir þingið um það í tengslum við þessa umræðu eða með öðrum hætti.

En ég þakka þann vilja sem fram hefur komið hjá hæstv. iðnrh. að ganga eftir því í ríkisstjórn að farið verði yfir stöðuna að þessu leyti þannig að við þm. verðum fljótlega nokkurs vísari um áform hæstv. ríkisstjórnar.