15.03.1988
Neðri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5781 í B-deild Alþingistíðinda. (3900)

341. mál, þjóðfundur um nýja stjórnarskrá

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu merkasta máli, þjóðfundi til að gera lýðveldi okkar nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sú sem við höfum var okkur fengin 1874 sem „frelsisskrá úr föðurhendi“ eins þá var sagt. Við lýðveldisstofnunina 1944 sögðu þáverandi alþm. stjórnarskrána úrelta, hana yrði að endurskoða, sem skiljanlegt er þar sem að stofni til eru stjórnarskrárlögin frá 1840.

Nefnd um endurskoðun stjórnarskrár hefur af og til verið starfandi á vegum Alþingis síðan 1944. Ekki hefur afrakstur allra þessara nefnda verið mikill því að þegar að er gáð hefur aðeins ein þeirra skilað skýrslu um starfið, stjórnarskrárnefnd Gunnars Thoroddsens.

Þegar sú skýrsla er skoðuð sést að nokkrar nýjar greinar hafa bæst við, greinar sem fjalla um aukin mannréttindi, og er það vel, en hins vegar er engu bætt við um valddreifingu eða ábyrgð valdhafa og stjórnmálaflokka þrátt fyrir að það eru þær greinar sem flestar Vestur-Evrópuþjóðir hafa sett inn í sínar stjórnarskrár eftir síðari heimsstyrjöld til að styrkja lýðræðið.

Þessu aðgerðaleysi hér er illt að una því það er löngu tímabært að hefja markvissa endurskoðun stjórnarskrárinnar minnug þess að stjórnarskrá er grunnlög hverrar þjóðar og jafnframt reglur um það hvernig alþm., ráðherrar, forseti og aðrir æðstu embættismenn þjóðarinnar eiga að starfa og minnug þess að það er ekki eðlilegt að þeir einir og sjálfir setji sér þessar starfsreglur. Þess vegna þarf þjóðfundur að koma til.

Hvað varðar það frv. sem hér liggur fyrir eru ákvæði þess skýr. Í 1. mgr. 2. gr. stendur: „Þjóðfundur skal skipaður 60 fulltrúum kosnum með jöfnum atkvæðisrétti allra landsmanna sem kosningarrétt hafa.“ Það er spurning hvort þessir fulltrúar eru ekki óþarflega margir, að þeir ynnu betur ef þeir væru færri.

Í 3. mgr. sömu greinar stendur: "Forsrh. skal setja nánari reglur um kosningar til þjóðfundar, m.a. um fresti til framlagningar kjörskráa, framboð og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.“ Það er að margra áliti mikið atriði að stjórnmálamenn og þm. komi sem minnst við sögu hér og því væri athugandi að einhver óháður aðili hefði þetta verk með höndum. Það mætti hugsa sér að það væri kannski umboðsmaður Alþingis, sá nýi embættismaður. Að öðru leyti sé ég ekki agnúa á þessu máli eins og það liggur fyrir.

Herra forseti. Í fskj. með frv. eru gagnmerk skrif um stjórnskipun og stjórnarskrá rituð af fræðimönnum. Ein af niðurstöðum þeirra skrifa er sú að stjórnmálamenn hafi hingað til verið raunveruleg hindrun í vegi nauðsynlegrar endurskoðunar og breytingar á stjórnarskrá. Því vil ég spyrja hv. flm. hvernig hann hyggist koma í veg fyrir að þjóðfundarfulltrúarnir 60 eða hvað þeir nú verða margir verði allir alþm. eða stjórnmálamenn. Þar vil ég vitna í niðurlagsgrein fskj. með frv., með leyfi hæstv. forseta, en þar stendur:

„Stjórnarskráruppkastið 1983 sýnir svo glögglega sem frekast má vera að starfandi stjórnmálamenn leysa ekki þann stjórnskipunarvanda sem heitastur brennur á þjóðinni og ástæðan er augljós: Þeir eru sjálfir mesta vandamálið sakir þess hve rígbundnir þeir eru ríkjandi stjórnarháttum.“