16.03.1988
Efri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5787 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Frsm. menntmn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta mál á fimm fundum. Til viðtals við nefndina komu dr. Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskóla Íslands, og Jónatan Þórmundsson prófessor, Bjarni Kristjánsson, rektor Tækniskóla Íslands, og Haraldur Bessason sem er forstöðumaður Háskólans á Akureyri.

Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Háskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Kennaraháskóla Íslands, Hinu íslenska kennarafélagi, Akureyrarbæ og Fjórðungssambandi Norðlendinga auk bréfs Haraldar Bessasonar þar sem hann svarar athugasemdum sem fram komu við frv. að beiðni menntmn. Umsagnirnar og bréf Haralds eru prentuð sem fskj. með þessu nál. svo að hv. þingdeildarmönnum gefist svigrúm til þess að líta yfir þau álitamál sem þar var vakin athygli á og þeir geti kynnt sér þær tillögur sem þar hafa verið gerðar.

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða mjög um tildrög þess að Háskólinn á Akureyri varð til. Ástæðan er auðvitað sú að það hefur mjög háð byggðum þar norður við Eyjafjörð og raunar á Norðurlandi að engin skólastofnun skuli hafa verið á Akureyri sem tekur við af framhaldsskólastiginu. Það var að vísu þannig komið að fyrir nokkrum árum var stofnuð undirbúningsdeild Tækniskólans og ég hygg að deildir úr Tækniskólanum hafi verið á Akureyri, en á hinn bóginn var greinilegt að ýmsir sem þar bjuggu áttu þess ekki kost að afla sér nauðsynlegrar og praktískrar menntunar nema flytja búferlum til Reykjavíkur um sinn og það var auðvitað greinilegt að það gat ekki langur tími liðið án þess að háskólamálið yrði tekið upp af fullri alvöru af Norðlendingum og borið fram til sigurs.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum að stefna Háskólans á Akureyri sé ekki nægilega skýrt mörkuð í því lagafrv. sem hér liggur fyrir. Vil ég það eitt um það segja að Aþena stökk að vísu alvopnuð úr höfði Seifs, en ég held að margir hafi ekki leikið það eftir henni, enda var hún guða ættar og ekki gædd þeim ófullkomleika mannsins sem við verðum svo oft vör við sem erum í þessum þingsölum, sérstaklega stjórnarandstaðan, og þjóðin almennt þegar hún ræðir um verk stjórnmálamanna.

Ég held að nauðsynlegt sé að líta aftur til sögunnar þegar við veltum fyrir okkur hversu ítarleg lagafrumvörp eigi að vera um nýjar stofnanir og hvernig eigi að standa að stefnumörkun nýrrar skólastofnunar. Ég skil vel Norðlendinga þegar þeir vísa til þess að e.t.v. er sá háskóli, sem Jón helgi stofnaði á sínum tíma á Hólum, eini háskólinn hér á landi sem með fullri reisn hefur staðið undir því virðingarheiti að geta kallað sig universitas og borið sig saman við háskóla hvarvetna í heiminum, enda var hann helgur maður og góð fyrirmynd okkur Norðlendingum öðrum að öllum metnaði þó svo að við flestir hverjir séum eftirbátar hans, ekki síst að því sem lýtur að skólamálum og þeim krafti sem fylgir orðum heilagra manna.

Frv., sem hér liggur fyrir, er sem sagt mótað af því að þessi stofnun hefur ekki verið til. Það er verið að leggja grunn að nýrri stofnun. Til samanburðar vitna ég t.d. til þeirra laga sem sett voru á sínum tíma um Tækniskóla Íslands, á árinu 1963. Enn fremur vísa ég til hinna nýju laga sem sett hafa verið um þann skóla og eru raunar fyrirmynd þess sem hér stendur. Það er m.a. eftirtektarvert þegar við tölum um Háskólann á Akureyri að ýmsir hafa fundið að því að háskólanefndin skuli skipuð mönnum sem ekki eru starfsmenn skólans eins og gert er ráð fyrir hér í 4. gr. frv. Samkvæmt ábendingu Jónatans Þórmundssonar, sem ég er mjög þakklátur fyrir að skyldi hafa gefið sér tíma til að tala við þingnefndina, en eins og við vitum hafa prófessorar við lagadeild Háskólans fyrir allmörgum árum gert okkur þm. aðvart um það að ekki þýði að senda þeirri deild frv. til umsagnar, heldur beri að ræða sérstaklega við einstaka prófessora, en mér þykir vænt um að prófessorinn skuli einmitt í þessu máli hafa sýnt áhuga sinn með því að mæta á fundi nefndarinnar, flytur nefndin brtt. þess efnis að sú skipan háskólanefndar, sem gert er ráð fyrir í 4. gr., falli inn í bráðabirgðaákvæði en í stað þess skuli háskólanefndin skipuð með öðrum hætti eins og fram kemur í 2. brtt. eða þannig að rektor sé formaður nefndarinnar. í öðru lagi eigi forstöðumenn deilda háskólans sæti í nefndinni, einn fulltrúi lausráðinna kennara, tveir fulltrúar nemenda, en skrifstofustjóri eigi sæti á fundum nefndarinnar og hafi þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Til samanburðar við Tækniskóla Íslands, sem að hluta til er háskóli, vil ég aðeins geta þess að þar er gert ráð fyrir að menntmrn. fari með yfirstjórn skólans, skipi rektor og kennara, svo og skólanefnd. Í 2. gr. laga um tækniskóla, en í hinum eldri lögum var út frá því gengið og það kemur raunar fram í 10. gr., önnur skólanefnd, segir svo:

„Við skólann starfar fimm manna skólanefnd, skipuð af menntmrn. til fjögurra ára í senn. Alþýðusamband Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda og Tæknifræðingafélag Íslands tilnefna hvert um sig einn mann í nefndina og annan til vara en ráðuneytið skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar.“

Þarna sjáum við að í Tækniskólanum er talið skynsamlegt að leita með þessum hætti út fyrir skólaveggina til þess að breikka þann bakgrunn sem skólanefndin hafi og hef ég ekki heyrt annað á rektor Tækniskólans en að hann sé ánægður með þann hátt sem þar er á hafður. En í brtt. er sem sagt gert ráð fyrir því að háskólanefndin verði einvörðungu skipuð því fólki sem starfar innan veggja skólans frá og með 31. maí 1990. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því að eftir rúm tvö ár taki hin nýja skipan háskólanefndarinnar við, en þá eru þrjú skólaár liðin síðan háskólinn tók fyrst til starfa og þá hefur einnig sjávarútvegsbrautin starfað í eitt ár og rekstrardeild, sem hér er talað um, mótast frekar en nú er, hvað svo sem um matvælabraut verður að ræða, en það ákvarðast að sjálfsögðu af fjárlögum og af ríkisstjórn og skólayfirvöldum á hverjum tíma.

Ég vek athygli á því að breytt orðalag er í 1. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að niður falli orðin „með sérstöku tilliti til atvinnuvega þjóðarinnar“ en í staðinn verði skotið inn orðunum „í atvinnulífinu“ einni málsgrein síðar þannig að hún hljóði svo: Hann skal veita nemendum sínum menntun er gerir þá hæfa til að sinna ýmsum störfum í atvinnulífinu og ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu eða stunda frekara háskólanám.

Ég vil aðeins undirstrika að það er auðvitað matsatriði hvernig skilgreina skuli hlutverk menntastofnunar á borð við Háskólann á Akureyri. Við getum lesið okkur til í lögum um það hvernig slík skilgreining er varðandi aðrar menntastofnanir og það er auðvelt að sjá það þegar fram í sækir að það er fyrst og fremst komið undir innra starfi skólans, hvernig að honum er búið og hverjir við hann starfa, hversu góðan hljómgrunn skólinn fær, bæði í umhverfinu og hjá þeim sem í honum eru, hvort hann rís að lokum undir nafni. Ef vel tekst til er hann fljótur að útvíkka hlutverk sitt þannig að hann gerir meira en að rísa undir þröngum skilgreiningum á borð við þessa í bókstaflegri merkingu orðanna.

Ekki þarf að taka fram að þegar talað er um vísindalega fræðslustofnun felast auðvitað rannsóknir í orðinu „vísindalegur“. Ég man ekki eftir að ég hafi heyrt talað um vísindamann öðruvísi en að rannsóknir séu snar þáttur í hans störfum og eins hlýtur að vera þegar þetta sama lýsingarorð er notað um stofnun og þá sem í henni vinna.

Hér í 4. brtt. er kveðið skýrt á um það að endurskoðun laganna skuli fara fram áður en þrjú ár eru liðin frá setningu þeirra og til frekari áréttingar er kveðið sérstaklega á um það að niðurstöður skuli lagðar fyrir Alþingi fyrir árslok 1991. Ástæðan er vitaskuld sú að skólaárið byrjar að haustinu og eðlilegt er, ef um lagabreytingar eða breytta skipan skólans væri að tefla, að hún taki þá gildi frá og með næsta skólaári þannig að Alþingi hafi veturinn 1991–1992 til þess að taka afstöðu til nýs lagafrv. ef fram kemur eða þeirrar niðurstöðu sem endurskoðunarnefndin í heild kemur með.

Ég vil að lokum aðeins segja það að það hefur sýnt sig víða erlendis að þar sem menntastofnanir á borð við Háskólann á Akureyri hafa verið stofnaðar úti í hinum strjálu byggðum eða ekki í helsta þéttbýlinu eru þær mikil lyftistöng fyrir umhverfið í margvíslegum skilningi, bæði metnaðarlega og líka í praktískum skilningi, ef ég má nota það orð, ekki aðeins vegna þess að með háskólanum flytjast auðvitað í bæinn háskólamenntaðir menn með sína reynslu og sína þekkingu, ekki aðeins,vegna þeirrar glaðværðar og bjartsýni sem ávallt fylgir stúdentalífinu, heldur líka vegna hins að bein tengsl munu áreiðanlega, skapast fljótt milli atvinnulífsins og háskólans. Ég hygg að enginn vefengi að einmitt við Eyjafjörðinn sé fjölbreytni í sjávarútvegi mjög mikil og af þeim sökum sé Akureyri ákjósanlegur staður til þess að verða miðstöð fræðslu í sjávarútvegsfræðum hér á landi.

Sumir hafa lagt þá spurningu mjög fyrir hvort hugmyndin sé að Háskólinn á Akureyri verði universitas. Við sem vorum í háskólanefndinni höfðum flestir hverjir ekki aðaláhyggjurnar af því hvort þessi stofnun yrði universitas eða ekki, a.m.k. ekki á allra næstu árum, heldur veltum við hinu fyrir okkur, með hvaða hætti væri hægt að efna til kennslu á háskólastigi sem kæmi umsvifalaust að notum og yrði gagnleg, ekki aðeins þeim einstaklingum sem á Akureyri búa heldur líka fyrir atvinnuvegina í heild og byggðarlagið.

Þá var auðvitað álitamál hvar helst skyldi bera niður. Ástæðan fyrir því að hjúkrunarfræðin var valin var einfaldlega sú að læknar við fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri höfðu þungar áhyggjur af að hjúkrunarfræðingaskortur væri farinn að segja alvarlega til sín og voru raunar þeirrar skoðunar að eina leiðin til þess að reyna að sporna gegn því að hann væri viðvarandi væri að efna til slíkrar menntunar við Háskólann á Akureyri. Var sýnt fram á það með úttekt sem gerð var á þeim kennslukröftum sem bjuggu á Akureyri eða í næsta nágrenni að í flestum greinum voru þá þegar á staðnum hæfir kennarar til þess að kenna við slíka braut.

Ég vil sérstaklega taka fram að sjúkrahúsið á Akureyri hefur veitt háskólamálinu ómetanlegan stuðning, ekki síst með því að leggja til húsnæði undir hjúkrunarbrautina, ekki síst með því að leggja fagbókasafn sitt til þannig að það komi að fullum notum þeim sem á hjúkrunarbrautinni eru og með því að skipuleggja svo innkaup sín á fræðibókum og tímaritum að vel geti nýst einmitt við þetta nám, heldur einnig með því að læknar við sjúkrahúsið, ekki síst Gauti Arnþórsson, hafa í samráði við einstaka kennara við Háskóla Íslands unnið mikið starf við skipulagningu hjúkrunarbrautarinnar þar. Nefni ég Jóhann Axelsson sérstaklega sem dæmi í því.

Ég held að menn séu sammála um að vel sé að hjúkrunarbrautinni staðið í öllum greinum og ég held að þeir nemendur sem þar stunda nám hafi náð góðum árangri og að þetta samstarf milli sjúkrahússins og háskólans lofi góðu, ekki aðeins með því að breikka grunn sjúkrahússins, vera enn nýr þáttur í því merkilega innra starfi sent það hefur unnið, heldur gefi brautin einnig fjölmörgu fólki öðru tækifæri til þess að fara í þetta háskólanám þannig að það geti stundað það frá heimilum sínum í sínu umhverfi og það komi þannig að gagni fyrir landið í heild. Ég held að þetta sé mat þeirra sem hafa kynnt sér það mál.

Varðandi iðnrekstrarbrautina er það að segja að það hefur háð mönnum við Eyjafjörð sem í atvinnulífinu eru og starfa og ekki hyggja á langt háskólanám, sex eða átta ára háskólanám, að þar hefur skort kennslu í hagnýtum fræðum sent koma bæði inn á rekstrarhlið og tæknilega eða framfærsluhlið fyrirtækja. Var iðnrekstrarbrautin af þeim sökum valin og var það með sérstökum ráðum gert því að Bjarni Kristjánsson, rektor Tækniskóla Íslands, hafði greint háskólanefndinni frá því að mjög mikil þörf væri einmitt á þessari kennslu á Akureyri sem hér í Reykjavík. Það er að vísu rétt að í sumum greinum má segja að sú kennsla kallist ekki akademísk, en í öðrum greinum gerir hún það og er það heldur ekki kjarni málsins, heldur hitt að bæði í Tækniskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri er nú verið að vinna að því að byggja ofan á iðnrekstrarbrautirnar þannig að framhaldsnámið á öðrum staðnum verði meira tæknilegs eðlis en aftur rekstrarlegs á hinum. Þarna hefur því tekist góð og mikil samvinna og það er einmitt á grundvelli þess náms sem þarna er sem hugað er að því að byggja upp nám í rekstrarfræðum við Háskólann á Akureyri á næstu árum.

Ég þakka meðnefndarmönnum mínum samstarfið í nefndinni og þolinmæði kannski á stundum og lýsi sérstakri ánægju minni yfir því að allir nefndarmenn eru sammála um nauðsyn þessa máls eins og fram kemur í undirskriftum þeirra undir nál. þó tveir þeirra séu að vísu með fyrirvara, þau Danfríður Skarphéðinsdóttir og Guðmundur Ágústsson, svo og Svavar Gestsson sem sat fundi nefndarinnar. Hann var samþykkur nál. efnislega en þó með fyrirvara sem hann mun væntanlega gera grein fyrir.

Upp kom í nefndinni spurning um það hvort orðið ítarlegur skuli skrifað með ypsilon eða einföldu í-i, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér á skrifstofunni, þá er siður hér hinu háa Alþingi að skrifa þetta orð með einföldu í-i.