16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5815 í B-deild Alþingistíðinda. (3923)

351. mál, lágmarkslaun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Kvennalistans hafa endurflutt frv. um lágmarkslaun af ofur skiljanlegum ástæðum. Mikil óánægja ríkir víða í þjóðfélaginu um það hversu lægstu laun eru lág og hversu lítið miðar, ef hægt er að komast svo að orði að miði á annað borð, í því efni að skapa lágmarksframfærslu af afrakstri eðlilegrar vinnu. Frv. Kvennalistans er afar einfalt, svo ekki sé meira sagt, ein grein og gerir ráð fyrir því að sett verði lög um 50 þús. kr. mánaðarlaun fyrir 40 dagvinnustundir á viku og síðan breytist þessi tala með framfærsluvísitölu.

Það er skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að þó það væri vissulega æskilegt að svona einföld till. gæti leyst þennan vanda þá sé svo ekki því miður og eigi að taka á þessu vandamáli þá verði að gera það í samhengi við aðra hluti, fyrst og fremst launabilið og launamuninn eins og hann er. Við höfum því lagt fram till. til þál. um mörkun nýrrar launastefnu, launajöfnun og lágmarkslaun sem var dreift hér á borð þm. rétt áðan og er á þskj. 705. Það er sem sagt okkar afstaða að þessi einhliða lagasetning án nokkurra ráðstafana nái ekki tilgangi sínum nema reynt sé að tryggja að samtímis verði launin jöfnuð í landinu og þess gætt að þær hækkanir sem slík lagasetning mundi a.m.k. tímabundið leiða til á lægstu launum, fari ekki upp allan launastigann og hverfi í verðlagshækkunum á tiltölulega stuttum tíma.

Ég hygg, herra forseti, að hv. þm. Kvennalistans hafi gert sér grein fyrir þessum annmörkum. Hér kom till., sem einnig var dreift í dag, frá hv. þm. Kvennalistans og er á þskj. 708 um að skipaður verði sérstakur starfshópur til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Og með leyfi, herra forseti, langar mig til að lesa tillgr. í þessari þáltill. Kvennalistans því hún tengist óhjákvæmilega því máli sem hér er til umræðu, en þar segir:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa samstarfshóp til að finna leiðir til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Um þær leiðir verður að vera fullt samráð svo að lögbinding lágmarkslauna nái tilættuðum árangri og verði raunverulega til að bæta kjör þeirra lægst launuðu og draga úr launamun og launamisrétti.“

Ég er hv. þm. Kvennalistans alveg hjartanlega sammála um þetta og ég hygg að þær hafi með þessum tillöguflutningi í raun svarað því sjálfar að einhliða aðgerð af því tagi sem frv. á þskj. 682 gerir ráð fyrir og hér er til umræðu lengur allt of skammt og nær ekki tilgangi sínum. Ég fagna því að þm. Kvennalistans hafa gert sér grein fyrir þessu og brugðist við því fyrir sitt leyti með þessum viðbótartillöguflutningi sem er í raun einhvers konar fylgifiskur frv. þó það sé í formi þáltill. og lagt fram í Sþ.

Ef maður vildi vera naglalegur við hv. þm. Kvennalistans mætti auðvitað spyrja af hverju þetta var ekki fært inn í sjálft frv. og frv. gert þannig úr garði að til viðbótar lagasetningu um lágmarkslaun kæmu hliðarráðstafanir sem þar kæmu fram, en ég hygg í raun og veru að viljinn skipti hér öllu máli og það er greinilega skoðun hv. þm. Kvennalistans að það þurfi að leita leiða til þess að tryggja árangur af slíkri aðgerð og um það er ég þeim alveg sammála.

Það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvort tímasetning þessa frv.-flutnings hv. þm. Kvennalistans sé heppileg, á sama tíma og kjarasamningar standa yfir að flytja þá hér frv. um lögfestingu 50 þús. kr. á mánuði. A.m.k. er það mín skoðun og mér er ekkert að vanbúnaði að lýsa því yfir að ég hefði átt erfitt með að standa að því að lögfesta slíka hluti á meðan kjarasamningar stæðu yfir í þjóðfélaginu, en þeir standa einmitt yfir þessa dagana. Að því leyti til a.m.k. tel ég fyrir mitt leyti ástæðu til að fagna því að þetta frv. er eingöngu hér til 1. umr. Ég hefði talið lakara ef það hefði verið þannig statt að það hefði verið til síðustu umræðu í seinni deild og þar af leiðandi komið til endanlegrar afgreiðslu á þessum sólarhringum.

Í till. þeirri sem við þm. Alþb. höfum lagt fram og fjallar um þetta efni ásamt með fleiru gerum við ráð fyrir því að atburðarás, ef til lagasetningar um lágmarkslaun kæmi, yrði sú að fyrst yrði látið á það reyna hver yrði niðurstaða í almennum kjarasamningum. Ef hún yrði ekki viðunandi, ekki ásættanleg fyrir samfélagið, þá yrði gripið til tímabundinna ráðstafana, tímabundinnar lagasetningar um lágmarkslaun sem síðan yrðu óþörf jafnskjótt og kjarasamningar færu upp fyrir þau mörk sem lágmarkslaunin væru.

Ég held að það sé engin deila um það, herra forseti, að það sé æskilegast að þessir hlutir séu leystir í kjarasamningum ef þess er kostur og þess vegna eigi að líta á allar aðgerðir af því tagi að lögbinda lágmarkslaun sem tímabundnar aðgerðir og það eigi að undirstrika það að svo sé. Það finnst mér viss galli á þeirri framsetningu sem er á frv. hv. þm. Kvennalistans að þar er ekki tekið sérstaklega á þeim þætti.

Till. okkar þm. Alþb. gerir fyrst og fremst ráð fyrir því að ráðist verði á launamuninn í landinu. Ég hygg að þeim mun meir sem menn skoða þessi mál þeim mun ljósara verði það fyrir mönnum að það er í raun launamunurinn og vaxandi misrétti í þeim efnum sem er undirrót vandans. Ástæðan fyrir því að jafnilla gengur og raun ber vitni að hækka hér lægstu laun er sú að launabilið er sífellt að breikka og sú viðmiðun sem lægstu launin eru í þeim efnum, óviðunandi lág að sjálfsögðu, verður auðvitað enn hroðalegri þegar hún er skoðuð í því ljósi hver hæstu launin í landinu eru orðin og um það hafa komið fram athyglisverðar upplýsingar undanfarin ár.

Við gerum því ráð fyrir því að ný launastefna, sem mörkuð yrði, byggði á þeim grundvelli að launamunur í landinu yrði aldrei meiri en fjórfaldur og að launamunur á einstökum vinnustöðum yrði aldrei meiri en þrefaldur. Og við viljum ganga lengra í þessum efnum í jöfnunarátt og setja það sem framtíðarmarkmið að launamunur í landinu verði hvergi meiri en tvöfaldur. Það kann ýmsum að þykja þetta býsna róttæk stefna en að mínu mati er lítið gagn að því að vera að hugsa fram í tímann nema menn hafi kjark til þess að hugsa jákvæðar og róttækar hugsanir og vilji ganga langt í réttlætisátt og jafnaðarátt og það viljum við gera. Þess vegna skilgreinum við markmið okkar með nýrri launastefnu og stefnu um launajöfnuð á þennan hátt.

Við gerum einnig ráð fyrir því að farin yrði önnur leið en hv. þm. Kvennalistans gera í sínu frv. til að finna hver væru eðlileg eða óhjákvæmileg lægstu laun í landinu. Þar er sett fram 50 þús. kr. tala. Við gerum þess í stað ráð fyrir því að reynt yrði að skapa samstöðu um að finna ákveðinn lágmarkslaunagrundvöll, skilgreina lágmarkslaunavísitölu sem tæki mið af því hver væru nauðsynleg útgjöld venjulegs launafólks til heimilisreksturs og þessi lágmarkslaunavísitala yrði reiknuð út fjórum sinnum á ári. Tækist síðan ekki með kjarasamningum að ná lægstu launum upp fyrir þann þröskuld sem lágmarkslaunavísitalan mælir á hverjum tíma, þá kæmi til lagasetningar um lágmarkslaun. Síðan mundi þessi lágmarkslaunavísitala verða að viðmiðun fyrir yfirvinnu, elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu og þær stærðir aðrar sem taka mið af lægri kauptöxtum í dag. Það má velja sér margar fallegar tölur í þessum efnum og það má stinga upp á því að lágmarkslaun eigi að vera skattfrelsismörkin, 42 þús. kr., 49 þús. kr. eins og þau væru samkvæmt brtt. Alþb. Það má líka stinga upp á því að lágmarkslaun í dagvinnu ættu að vera framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar, 115 þús. kr. á mánuði. En ég hygg að það væri farsælast í þessum efnum ef menn næðu samstöðu og samkomulagi um ákveðna lágmarkslaunavísitölu, ákveðna lágmarkslaunaviðmiðun, sem tæki mið af framfærslukostnaði í samfélaginu og sú tala breyttist þá í samræmi við þann framfærslukostnað. Það væri að mínu mati miklu rökréttari aðferð heldur en sú að velja sér í upphafi einhverja tölu og verðtryggja hana síðan.

Ég bendi á að engin sérstök vísindaleg rök liggja að baki þeirri niðurstöðu sem á endanum varð um skattfrelsismörk eða ég bið þá hv. þm. sem vita betur að sýna mér fram á þau. Ég sat í fjh.- og viðskn. og varð ekki var við að þar væri reynt að rökstyðja þessa niðurstöðu, 42 þús. kr. mánaðartekjur sem skattfrelsismörk, með neinum sérstökum vísindalegum eða félagslegum rökum. Sú tala hefði þess vegna alveg eins getað orðið 40 þús. eða 45 þús. Þar var nánast hending ein sem réði ferðinni.

Við gerum svo ráð fyrir því að hluti af okkar nýju launastefnu verði að gera sérstakar ráðstafanir, lögbundnar ef með þarf, til að tryggja jöfnuð í launum milli karla og kvenna. Það er enginn vafi á því að stór hluti af óréttlætinu og launamuninum í þjóðfélaginu er óþolandi launamunur milli kynjanna fyrir sambærileg störf. Í okkar till., bæði grg. og fskj., eru birtar ítarlegar upplýsingar um það hvernig þessi launamunur birtist í ýmsum myndum, bæði hvað varðar beinar launagreiðslur, ýmiss konar aðstöðu, fríðindi o.s.frv. Það þarf því að okkar mati um leið og tekið er á lágmarkslaununum og launajöfnuninni að vera með sérstakar ráðstafanir hvað þetta varðar.

Það þarf einnig, ef slík ný launastefna á að ná tilgangi sínum, að gera stórátak í þeim efnum að ná inn í launataxtana ýmiss konar yfirborgunum og umframgreiðslum sem nú vaða uppi úti um allt launakerfið og gera það að verkum að það er mjög erfitt að greina hvað eru laun og hvað eru aðrir hlutir. Það sem þarf að verða í þessum efnum er að launataxtarnir endurspegli raunveruleg laun í landinu. Það er dálítið merkilegt að þegar þetta sérstaka efni er til umræðu þá hafa menn tilhneigingu til að ræða þetta sem einhliða og sérstakt vandamál launamanna. En það er mín skoðun að hér sé í raun ekki síður viðfangsefni sem atvinnurekendur ættu að hafa áhuga á. Ég held að það sé einfaldlega allra hagur, beggja samningsaðilanna á vinnumarkaðnum, að launataxtarnir endurspegli raunveruleg laun. Því að það eru tvær hliðar á þessum peningi eins og öðrum. Og ég held að það sé auðvelt að sýna fram á að þetta dæmi getur ekki síður snúið að þeim sem eru að kaupa vinnuaflið heldur en hinum sem eru að selja það. Þetta er eitt af því sem hefur farið hvað mest úr böndunum á undanförnum árum með ýmsum og að hluta til eflaust ófyrirséðum afleiðingum.

Í síðasta lagi gerum við ráð fyrir því að hluti af hinni nýju launastefnu yrði að skipa ákveðnum félagslegum verkefnum í forgangsröð svo sem styttingu vinnutímans og úrbótum í dagvistarmálum og húsnæðismálum. Þar eru á ferðinni hlutir sem hafa ekki fylgt eftir þörfum samfélagsins. Svo dagvistarmálin séu tekin sem dæmi þá er það í raun með ólíkindum hversu lítið hefur miðað í þeim efnum samfara ört vaxandi atvinnuþátttöku í landinu - sem er tæknimál yfir það að báðir foreldrar í venjulegum fjölskyldum vinni úti — og kallar að sjálfsögðu á sérstakt átak í þessu efni. Það hefur ekki farið eftir og í fskj. með okkar till. eru upplýsingar um það hvernig atvinnuþátttakan hefur vaxið á undanförnum árum og áratugum. Atvinnuþátttaka hér er að verða, ef ekki nú þegar, a.m.k. að verða einhver sú mesta í heimi. Þrátt fyrir það er ástandið í dagvistarmálunum jafnlélegt og raun ber vitni. Þess vegna á það heima undir þessu hugtaki, ný launastefna, að gera stórátak í þessum efnum. Það er enginn vafi á því að forsvarsmenn launafólks mundu meta það sem jákvæðan þátt af átaki á þessu sviði.

Við gerum svo að lokum ráð fyrir því í okkar till. að kosin yrði þingmannanefnd til að vinna að þessu verkefni í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Það er sambærileg aðferð og þm. Kvennalistans gera ráð fyrir í sinni þáltill. sem ég hef hér lítillega vikið að.

Herra forseti. Ég gæti haft um þetta mörg orð fleiri, en sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu. Þessar þáltill. báðar koma væntanlega á dagskrá innan tíðar í sameinuðu þingi og bíður þá þess tíma að ræða þær sérstaklega.

Ég held ég ljúki þessu með því að ítreka það og undirstrika, sem ég byrjaði á, að þrátt fyrir að ástæðan fyrir því að hv. þm. Kvennalistans flytja frv. til laga um lágmarkslaun sé öllum ljós og skiljanleg, óánægja með lægstu launin í landinu, þá sé veruleikinn því miður ekki svo einfaldur að einföld aðgerð af þessu tagi dugi ein sér til að leysa vandann. Það er mönnum ljóst, a.m.k. ræðumanni og hv. þm. Kvennalistans sem hafa flutt viðbótarþingmál til að fylgja eftir þessu frv. og bæta upp það sem því er áfátt um.