03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svörin. Ég get ekki lýst ánægju minni með þau. Ég tel að það hafi í reynd komið fram í máli hans hversu lítt ígrundaðar þessar hópuppsagnir voru og hversu óeðlilegt það er með öllu að gripið sé til þeirra á því stigi málsins sem raun ber vitni. Þó að það fréttist frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun eða frá fjmrn. að þar sé í smíðum fjárlagafrv. þar sem gert sé ráð fyrir einhverjum niðurskurði til stofnunarinnar tel ég ekki ástæðu til fyrir stjórnendur og yfirvöld sömu stofnunar að rjúka til og fara að segja upp fólki. Ef menn beittu þeirri vinnureglu í hvert skipti tel ég að þær uppsagnir sem gripið væri til á hverju hausti næmu þúsundum en ekki tugum eins og hér ber raun vitni. Við skulum gera okkur grein fyrir því að áður hafa sést niðurskurðartölur sem síðan hafa gengið til baka og þó að mikið sé rykti fjmrn. eða Hagsýslustofnunar er það þó Alþingi sem afgreiðir fjárlög. Ég tel að eðlilegra hefði verið að á það hefði verið látið reyna hvort þessi niðurskurður á fjárframlögum til Orkustofnunar nyti stuðnings á Alþingi áður en stjórnendur stofnunarinnar gripu til slíkra aðgerða.

Ég tel að það hafi einnig komið fram hjá hæstv. iðnrh., sem auðskiljanlegt er, að í raun og veru var fyrst gripið til uppsagnanna en síðan var farið að kanna hvaða áhrif það hefði hugsanlega á starfsemina, vegna þess að ekkert liggur fyrir um það. Þessar uppsagnir eru ekki í tengslum við neitt skipulag, ekki í tengslum við neina framtíðarkönnun á umfangi eða verkefnum þessarar stofnunar. Hér er því flausturslega að hlutunum unnið og ég verð að segja það, herra forseti, að ég tel hæstv. iðnrh. byrja heldur báglega ef hann ætlar e.t.v. að taka upp aðferðir forvera síns að höggva fyrst og spyrja svo.

Ég tel að þetta mál gefi síðan tilefni til þess og það sé óhjákvæmilegt að ræða það betur við 1. umr. fjárlaga á morgun, herra forseti, og ég treysti því að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur til að taka þátt í þeirri umræðu.