17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5873 í B-deild Alþingistíðinda. (3992)

346. mál, endurskoðun kosningalaga

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er ákvæði um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að kosningalög skuli endurskoða. Það er ekki tekið fram í yfirlýsingunni með hvaða hætti það skuli gert. Sú venja hefur skapast að á Alþingi hefur verið leitast við að ná sem víðtækustu samkomulagi um endurskoðun á stjórnarskrá og kosningalögum þegar þau mál hafa verið til meðferðar þó að fullt samkomulag hafi ekki í öllum tilvikum tekist. Þó var það svo að þau kosningalög sem nú gilda voru samþykkt með samkomulagi þeirra flokka sem þá sátu á Alþingi.

Mín skoðun er sú að þessi kosningalög séu um margt gölluð. Álitaefni er við þessar aðstæður hvort breyta eigi kosningalögum eða leggja mikla vinnu í að breyta kosningalögunum miðað við núgildandi stjórnarskrárákvæði. Einkanlega er þetta álitaefni í ljósi þess að stjórnarskrárnefnd hefur setið að störfum og fjallar m.a. um breytingar á kjördæmaskipan. Það þótti því rétt að óska eftir því við stjórnarskrárnefnd að hún hraðaði sérstaklega tillögugerð sinni að því er varðar þau ákvæði stjórnarskrárinnar er lúta að kjördæmaskipan og fyrirkomulagi kosninga til Alþingis. Á þeim grundvelli yrði síðan hægt að hefja vinnu að nýjum kosningalögum.

Ég tel að þessi málsmeðferð sé sú skynsamlegasta í þeirri stöðu sem við nú erum í. Og fyrir því skrifaði ég 4. sept. 1987 stjórnarskrárnefnd svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

„Í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir að kosningalög verði endurskoðuð. Nauðsynlegt er að tengja tillögugerð um þau stjórnarskrárákvæði er lúta að kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi saman við væntanlega endurskoðun á kosningalögum. Með hliðsjón af framangreindu er þess hér með óskað að stjórnarskrárnefnd taki þessi stjórnarskráratriði til sérstakrar meðferðar. Mikilvægt er að verkinu verði hraðað svo sem kostur er, þannig að í framhaldi af því yrði unnt að hefja endurskoðun kosningalaga.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá formanni stjórnarskrárnefndar hefur nefndin tekið þetta bréf og stefnir að því að afgreiða málið í samræmi við þessa ósk.

Ég get svo tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það á að vera grundvallaratriði varðandi stjórnarskrárákvæði um kjördæmaskipan og fyrirkomulag kosninga og kosningalög að staða kjósenda sé sem jöfnust og þeir hafi sem jafnasta aðstöðu til þess að hafa áhrif á löggjafarmálefni.