17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5884 í B-deild Alþingistíðinda. (4009)

358. mál, hálendisvegir

Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem þetta mál hefur vakið hérna því að hún var tímabær. Hins vegar finnast mér ummæli sumra þm. festa í sessi þá skoðun ýmissa, sem ég hef ekki viljað taka undir, að hv. þm., a.m.k. þeir sem setið hafa hér um lengri tíma, séu orðnir ófærir um að hugsa í lengri tímabilum en kjörtímabilum og hrökkvi illilega við þegar fram kemur till. sem miðar að því að marka veginn til lengri tíma litið. Þetta leiðir líka hugann að því að skilningur Íslendinga á langtímaskipulagi er afskaplega lítill og við erum sí og æ að súpa seyðið af því að það er alltaf verið að framkvæma án þess að mótuð sé nokkur langtímastefna.

Annað sjónarmið, þá varðandi almenn sjónarmið sem hér hafa komið fram, sem ég tel mjög hættulegt, er að hér hafa þm. tekið til máls og lýst yfir þeirri skoðun sinni að númer eitt, tvö og þrjú í samgöngubótum á Íslandi sé að styrkja höfuðborgina, styrkja Reykjavíkursvæðið í sessi sem skurðpunkt og miðpunkt allra samgangna. Það vita allir sem eitthvað hugsa að þar sem skurðpunktur samgangnanna er sest fólkið að. Þetta getum við séð með því að skoða söguna og fara langt aftur.

Ég ætla að nefna eitt atriði í því. Hvers vegna halda menn að í árdögum Íslandsbyggðar hafi Alþingi verið valinn staður á Þingvöllum? Vegna þess að það var á þeim tíma skurðpunktur samgangna á Íslandi. Frá þeim stað var styst til flestra byggða.

Hugmyndin sem liggur að grunni þessarar till., þ.e. að kanna áhrif hennar á byggðamunstur, er einmitt sú að brjóta upp þetta hefðbundna samgöngumunstur sem miðast allt að því að styrkja einn punkt á landinu. Ég vil þó taka skýrt fram að ég ber fulla virðingu fyrir minni höfuðborg og að þar geti þróast eðlileg byggð og eðlilegt mannlíf.

Ég ætla að koma aðeins að efnislegu atriði til viðbótar því sem hér hefur komið fram. Hv. 2. þm. Austurl. er því miður ekki hér, en hann hóf umræðuna á eftir minni framsögu á fyrri fundi. Það kom ýmislegt fram sem væri hægt að hafa langt mál um, en ég geri það ekki af því að hann er ekki hérna. En ég ætla að nefna þó nokkur atriði.

Eins og honum er lagið veifaði hann þykkum skýrslum máli sínu til stuðnings og m.a. veðurfarsathugunum á hálendinu. Hann vitnaði í skýrslu Veðurstofunnar sem sagði að á tiltekinni veðurathugunarstöð hefði verið ófært veður svo og svo langan tíma eitt tiltekið ár. Þetta er ósköp einfalt. Ég get vitnað í sömu skýrslu frá sömu veðurathugunarstöð, en annað ár. Það voru þrír mánuðir skráðir í skýrsluna og ófært veður einn dag. Þetta eru ekki rök, enda fjallar tillagan ekki um þetta. Till. fjallar um að safna þessum upplýsingum saman og vinna úr þeim. Ég get líka bent hv. þm. á að þá sömu tíma sem hann segir að hafi verið ófært veður þarna uppi eru allar líkur á því að það hafi verið einnig ófært veður allt að því jafnlangan tíma á ýmsum þeim fjallvegum sem liggja á milli byggðarlaga. Þetta eru því engin rök.

Ég átti langt samtal í gærkvöld við Magnús Hallgrímsson verkfræðing sem er einn af okkar mönnum sem best þekkja til uppi á hálendinu. Hann sagði að gagnvart hálendinu væri landlæg hálendishræðsla. Hann benti á að þegar verið var að leggja og mæla fyrir línunni frá Hrauneyjafossvirkjun að Hvalfirði, sem liggur í sveig inn á hálendið, hafi verið miklir fordómar. En reynslan, sagði hann, hefði sýnt að ef eitthvað væri stæði þessi lína sig betur en línan frá aðalvirkjunarsvæðinu frá uppsveitum Suðurlands hingað til suðvesturhornsins, einfaldlega vegna þess, sagði hann, að það eru iðulega miklu betri veður þarna uppi, þau ná oft og tíðum ekki þarna upp þau illviðri sem geisa að landinu.

Aðeins varðandi náttúruverndarsjónarmið. Allir aðilar sem ég hef rætt við eru nánast sammála um að bættar vegasamgöngur um hálendið séu til bóta varðandi náttúruverndarsjónarmið, að beina umferðinni eftir meginvegum.

En aðalatriði málsins er þetta: Við erum að leggja til að þessi mál verði skoðuð til lengri tíma litið. Hv. 3. þm. Vesturl. sagði áðan að þetta væri ekkert að koma strax. Það væri í fyrsta lagi eftir 10–15 ár að við gætum hugsað til þess að góður vegur kæmi yfir hálendið. Það er eiginlega bjartara en mínar björtustu vonir. Vissulega er rétt að það er ekki verið að tala um að hrófla nokkuð við þeim framkvæmdum sem nú eru á vegáætlun. Það sem við erum að leggja til er að þegar að því kemur að við förum að ákveða ný, stór skref í samgöngubótum okkar, samgöngumálum, liggi fyrir tæknilegar upplýsingar um þennan kost. Ég held líka að tíminn vinni þessu máli framgang og ég er næstum því viss um að þegar þar að kæmi fengist hljómgrunnur fyrir því að fjármagna það á sérstakan hátt, t. d. eins og gert var með opnun Skeiðarársands.

Þegar kemur að Skeiðarársandi var ein af röksemdum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að þarna uppi væri stórkostleg hætta af sandroki. Það er rétt. Á vissum svæðum uppi á hálendinu er sú hætta til staðar. En eftir því sem ég hef kannað það frá fyrri umræðu hef ég fengið þær upplýsingar að sú hætta sé þó ekki eins mikil og sandrokshætta á Mýrdalssandi sem liggur þó á hringveginum margumtalaða.

Þetta mál tengist líka alvöruopnun hringvegarins vegna þess að menn mega og eiga að vita það hér að hringvegurinn umhverfis landið er ekki opinn nema hluta úr árinu. Möðrudalsöræfi, sem tengja Norðurland og Austurland, eru lokuð mestallan veturinn. Þessi till. miðar að því og segir beinlínis í textanum að hún eigi að vinna að því að kanna á hvern hátt sé hægt að tengja þessa leið, þ.e. samgöngur á milli Norður- og Austurlands sem eru afskaplega lélegar í dag.

Um þetta er hægt að hafa langt mál og varðandi forgangsröð verkefna, en auðvitað verður það Alþingi sem eftir sem áður mun ákveða forgangsröð verkefna í vegaframkvæmdum.

Hv. þm. Skúli Alexandersson gerði ferðamálin nokkuð að umtalsefni. Ég held að það þurfi ekkert að óttast að vinsælir ferðamannastaðir á Vesturlandi verði út undan. Þeir eru einfaldlega og verða eftir sem áður innan eðlilegs ferðaradíusar frá suðvesturhorninu. Ég er ekki svo bjartsýnn að halda að það verði ekki áfram miðpunktur þjóðlífs á Íslandi á komandi árum. Það sem við leggjum höfuðáherslu á er að þessi framkvæmd gæti styrkt Norðausturland geysilega mikið í ferðamálum. Hún gæti gerbylt aðstæðum okkar til þess.

Hér var á dagskrá í dag fsp. um flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum, ef ég man rétt. Það minnir mig á umræður um varaflugvöll á Norðurlandi eða Austurlandi sem væntanlega kemur einhvern tíma og skapar okkur Norðlendingum þá aðstæður til þess að taka á móti ferðamönnum beint þangað í leiguflugi eða áætlunarflugi og þjónusta þá þaðan á alveg nákvæmlega sama hátt og suðvestlendingar hafa gert fram að þessu. Ég trúi því alls ekki að hv. þm. Skúli Alexandersson geti ekki unnt okkur Austfirðingum þess að sitja við sama borð hvað þetta snertir. Ég hef rætt þetta mál við forustumenn ferðamála á Norðausturlandi og þeir eru mjög áhugasamir og hafa sagt mér að ég geti leitað til þeirra varðandi allan þann stuðning sem ég telji þurfa til þess að þetta mál fái framgang.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi ekki fleiri orð um þetta á þessu stigi, en ég er tilbúinn til að taka þátt í umræðu áfram ef hún býður upp á það.