03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

55. mál, fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 13. þm. Reykv. spyr hvað líði undirbúningi að fullgildingu alþjóðasamnings um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þessi samningur var, eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. des. 1984. Hinn 4. febr. 1985 var hann undirritaður, m.a. fyrir Íslands hönd. Þessi samningur hefur enn ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu.

Með bréfi dags. 10. júlí 1987 fór utanrrn. þess á leit við dómsmrn. að það léti í té umsögn um það hvort annmarkar væru á staðfestingu samningsins gagnvart gildandi lögum. Í ágúst óskaði dómsmrn. eftir því við utanrrn. að fá frekari gögn og upplýsingar varðandi þennan samning og munu þau væntanleg innan skamms, en fyrir liggur frumþýðing á samningnum.

Helstu efnisatriði sem athugunar þurfa við eru þessi:

Í fyrsta lagi skal hvert aðildarríki skv. 4. gr. samningsins tryggja að hvers konar pyndingar teljist til afbrota samkvæmt refsilögum þess. Það sama skal gilda um hlutdeild og tilraun til pyndinga. Skilgreiningin í 1. gr. samningsins á því hvað teljist pynding er ekki fullskýr og ekki svo skýr að ljóst sé án ítarlegrar athugunar hvort íslensk hegningarlög veiti refsivernd gagnvart öllum tegundum pyndinga.

Í öðru lagi þarf sérstaklega að athuga hvort refsilögsaga skv. 5. gr. samningsins er í samræmi við íslensk lög.

Í þriðja lagi eru í 14. gr. samningsins ákvæði um bætur til þess sem sætt hefur pyndingum. Ákvæðið er ekki fullskýrt og því óljóst hvort breyta þurfi íslenskum lögum til að uppfylla þau skilyrði sem 14. gr. samningsins setur.

Auk þess sem að framan hefur verið nefnt er ljóst að við fullgildingu þessa samnings taka íslensk stjórnvöld á sig skyldur sem taka þarf afstöðu til hvernig fullnægja skuli. Ég ætla að nefna nokkur atriði.

Skv. 10. gr. samningsins á að tryggja að kennsla og upplýsingar um bann við pyndingum verði gagngert innifalin í þjálfun löggæslumanna, starfsfólks heilsugæslu, yfirheyrslu eða meðferð hvers þess manns sem sætir handtöku, varðhaldi eða fangelsun af nokkru tagi og að aðildarríkin skuli tilgreina þetta bann í þeim reglum eða fyrirmælum sem sett eru með hliðsjón af skyldum og verksviði allra slíkra starfsmanna. Það þarf að taka afstöðu til þess hvaða starfsstéttir koma hér við sögu og hvernig hægt er að taka framangreinda kennslu upp með beinum hætti í nám þeirra.

Skv. 11. gr. samningsins skulu aðildarríkin á kerfisbundinn hátt hafa eftirlit með yfirheyrslureglum og fyrirkomulagi á gæslu og meðferð manna sem sæta handtöku, varðhaldi eða fangelsun af nokkru tagi með það að markmiði að koma í veg fyrir að pyndingum sé beitt. Það þarf að taka afstöðu til þess hvernig þessu eftirliti verði hagað.

Ég fullvissa hv. fyrirspyrjanda um að það vantar ekki vilja af Íslands hálfu til að fullgilda þennan samning, en við viljum vanda vel til verksins.

Ég bendi á, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að 22 ríki hafa nú fullgilt samninginn. Fyrsta ríkið sem fullgilti hann var Svíþjóð í ársbyrjun 1986. Kanada og Danmörk fullgiltu hann um mitt þetta ár. Ég mun beita mér fyrir því að undirbúningi að fullgildingu samningsins verði hraðað eins og kostur er. Góð samvinna er um þetta við utanrrn., en utanrrh. hefur sett fullgildingu þessa samnings fremst í forgangsröð þeirra samninga sem Ísland hefur undirritað og bíða nú fullgildingar. Um þetta er ég honum algerlega sammála og ekki efa ég að hv. fyrirspyrjandi sé sama sinnis. Ég vona að það verði unnt að ganga frá fullgildingunni á þessu þingi.