22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6046 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því að frv. um háskóla á Akureyri skuli vera komið inn í þessa deild. Ég hef reynt að fylgjast með þeirri gagnrýni sem fram hefur komið í sambandi við þá ákvörðun að stofna háskóla á Akureyri. Mig undrar það að slík rök skuli koma fram, t.d. um það að á meðan ekki sé hægt að láta fjármagn til háskólans hér sé ekki ástæða til þess að byggja háskóla annars staðar. Það gefur auðvitað auga leið að það er minni þörf að byggja hér eftir því sem stærri skóli rís á Akureyri. Spurningin er ekki um það, auðvitað þarf að byggja yfir þessa nemendur, spurningin er um það hvort á að gera það hér eða fyrir norðan.

Ég held að háskóli á Akureyri hljóti að styrkja byggðir Eyjafjarðar og það sé líklegt að á þessu fjölmennasta svæði fyrir utan suðvesturhornið fái nemendur af öllu þessu svæði meiri möguleika til þess að stunda háskólanám en þeir hafa nú.

Það er eitt sem ég harma að vísu, að í frv. felst ekki að að því sé stefnt nú þegar að þetta verði, ja, hvað á að segja, háskóli sem hefur rannsóknaskyldu beinlínis, en ég fagna orðum hæstv. menntmrh. að svo hljóti þó að verða og því ákvæði sem er í frv. um að lögin skuli endurskoða innan ákveðins tíma, þó að ég vilji að vísu benda á það að þótt slík ákvæði hafi verið í lögum hefur þeim ekki ævinlega verið framfylgt. En það getur verið dálítið á valdi þeirra sem munu eiga sæti á hæstv. Alþingi að þremur árum liðnum, t.d. þm. Norðlendinga, að ýta við því að við það verði staðið.

M.ö.o. fagna ég mjög frv. Þetta er margra ára baráttumál ýmissa Norðlendinga og ég vona að séð verði til þess að Háskólinn á Akureyri verði raunverulegur háskóli með fullum réttindum þegar fram líða stundir.